Nagandi samviska eða einelti? (og LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 331)

Jóhannes í Bónus hefur kvartað yfir að vera lagður í einelti. Lára Hanna skrifar magnaða og skarpa grein um þetta mál hérna: Vesalingarnir. Mig grunar að menn sem lagt hafa land sitt í rúst hafi einfaldlega ekki geð til að líta í eigin barm, og skil ég vel ef samviska þeirra nagar þá óbærilega og muni gera það alla tíð. Þeir hafa skapað sér sitt eigið sjálfskaparvíti, en svo framarlega sem þeir lifa, þá geta þeir aðeins komist út úr því með uppgjöri og endurgreiðslu allra sinna raunverulegu skulda.

Og þá meina ég ekki bara peningaskuldir, heldur verða þeir að viðurkenna með opnum hug allan þann skaða sem þeir hafa gert saklausu fólki, án þess að fela sig á bakvið lagakróka og slíkar fléttur, því samviskunni er nákvæmlega sama um lög og reglur, hún snýst um réttlætið og það að geta litið í spegil og verið sáttur við manneskjuna sem horfir á þig úr endurvarpinu.

Hér gef ég ekki í skyn að Jóhannes sé sá eini sem hafi stundað þau gervivísindi sem felast í að hunsa siðferði og samvisku, en efast ekki um að hann hafi tekið virkan þátt í slíku ásamt töluverðum fjölda, bæði nútímamanna og fólks úr fortíðinni sem um skamman tíma hefur vermt þessa jörð með 37°C í einhver ár, og síðan sameinast jörðinni í 0°C þegar þeirra tími hefur liðið, og að á meðan slíkar manneskjur lifa finni þær fyrir óþægilegum sting samviskunnar. Það að hann skjóti undan eignum undan korteri fyrir gjaldþrot á meðan hann getur ekki (eða vill ekki) borgað skuldir sínar, segir allt sem segja þarf.

Það er ansi súrrealískt að horfa á suma vel menntaða vini mína sem hafa alla tíð sinnt störfum af dugnaði og heiðarleika, örvænta nú um eigin framtíð og Íslands. Sífellt fleiri flytja úr landi og enn fleiri hugleiða það, en eiga erfitt með að stíga skrefið. Sjálfur átti ég frekar auðvelt með að flytja úr landi, því ég hef gert það tvisvar áður. En allt fólkið sem ætlaði að vera alla tíð heima, ég finn mikið til með þeim. Á sama tíma og þessum einstaklingum finnst þeir vera undir hælnum á fjármálafyrirtækjum sem gefa ekkert eftir, eru sumir auðmenn að fá niðurfelldar skuldir og kveinka sér í kjölfarið yfir að vera lagðir í einelti, og þá meðal annars frá þessu fólki sem hefur tapað öllu sínu, vegna þessara manna.

Þetta er ekki einelti, heldur nagandi samviska. Sumir virðast einfaldlega ekki þekkja sjálfa sig nógu vel til að gera greinarmun á eigin samvisku og einelti. Samviska sem ekki er hrein mun aldrei láta óréttláta í friði, og þeir óréttlátu munu aldrei átta sig á að þessi óþægindi er frá þeim sjálfum komin, ekki öðru fólki sem áreitir þá, enda virðist vanta upp á þá mannlegu dýpt sem gerir viðkomandi að manneskju lifandi lífi sem er þess virði að lifa því.

Samviskan er nefnilega öflug. Sé samviskan hrein getur manneskja verið í sátt við sjálfa sig, en sé hún ekki hrein, mun viðkomandi aldrei finna sátt, hvergi á æviskeiði sínu. Viðkomandi gæti reynt hreinsa samviskuna er með iðrun og fyrirgefningu, sem er margfalt meira en bara orðin tóm og ekki hægt að kaupa slíka friðþægingu á e-bay. Eða gera eins og höfðingja á víkingatímum, ráðast að heiðarlegu fólk með sitt eigið særða stolt að vopni, og eyðileggja líf fjölda fjölskyldna án samúðar, án umhyggju, að geðþótta og með þeirri trú að þetta sé allt í lagi, einfaldlega vegna þess að viðkomandi hefur peninga og völd. 

Um þessa einstaklinga hefur á Íslandi verið byggð skjaldborg úr heimilum.

 

 


 

LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 331

331a

"Í mínum huga, Sókrates, tjáir Pindar það snilldarlega þegar hann segir að maður sem hefur hagað lífi sínu í samræmi við gott siðferði og verið réttlátur hafi "ljúfa von sem fylginaut, fóstrar gleði í hjartanu, til huggunnar í ellinni - von sem stýrir, meira en nokkuð annað, hverflyndum hug manna." Þetta er ótrúlega vel sagt. Og það er í þessu samhengi sem ég met peninga mikils - og þá aðeins fyrir heiðvirða, reglusama manneskju. 

331b

Ég meina, peningaeign hefur stóru hlutverki að gegna þegar kemur að því að forðast svindl og lygar gegn betri dómgreind, og einnig til að forðast að lifa þessu lífi án ótta við að skulda guðunum einhverjar fórnir eða einhverjum einhvern pening. Auður þjónar mörgum öðrum tilgangi, Sókrates, en þegar allt er íhugað myndi ég segja að fyrir vel gefna manneskju, Sókrates, er auður sérstaklega gagnlegur í þessu mikilvæga samhengi."

331c

"Verulega áhugavert, Cefalus," sagði ég. "En hvað um þennan hlut sem þú orðaðir, að gera hið rétta? Er að gera hið rétta það sama og að segja ætíð satt og skila til baka hverju því sem maður hefur fengið að láni? Eða gæti það, eftir aðstæðum, stundum verið rétt og stundum rangt? Það eru svona hlutir sem ég er að velta fyrir mér. Allir væru sammála um að ef þú fengir vopn að láni frá heilbrigðum vini þínum sem síðan missir vitið og óskaði þá eftir að fá vopnin til baka, þá ættirðu ekki að láta hann fá þau, og ef þú létir hann fá þau værirðu ekki að gera hið rétta, né heldur sá sem væri tilbúinn að segja slíkri manneskju allan sannleikann."

331d

"Þú hefur rétt fyrir þér," samþykkti hann.

"Af þessu leiðir að þetta er ekki skilgreiningin á siðferði, að segja sannleikann og skila til baka því sem maður hefur fengið að láni."

"Jú, víst, Sókrates," sagði Pólemmarkús og greip fram í. "Að minnsta kosti ef við eigum að trúa Símonides."

"Nú," sagði Cefalus, "megið þið tveir halda samræðunni áfram, þar sem ég þarf að taka þátt í athöfninni."

"Og erfi ég þá mál þitt?" spurði Pólemarkús.

"Að sjálfsögðu," sagði hann og hló góðlátlega, og var fljótur að láta sig hverfa.

331e

"Jæja þá," sagði ég, "nú þegar þú hefur erft samræðuna, segðu okkur hvað er það sem Símonídes segir nákvæmlega um siðferðið."

"Að rétt sé að borga til baka það sem þú skuldar," sagði hann. "Að mínu áliti er þetta fáguð athugasemd."

"Nú," sagði ég, "það er ekki auðvelt að vera ósammála Símónídes: hann er snall maður - jafnvel afburðarsnjall. En á meðan þú skilur hvað hann meinar með þessu, Pólemarkús, þá geri ég það ekki. Ég meina, hann meinar greinilega ekki það sem við vorum að tala um fyrir augnabliki síðan, að skila einhverju til einhvers sem misst hefur vitið og óskar eftir að fá hlutinn til baka. Og samt ef eitthvað hefur verið lánað, þá er til staðar skuld, myndirðu ekki segja það?"

"Jú."

 

---

Niðurlag: Ég ætlaði mér að skrifa stuttan inngang að þýðingu minni úr þessu stórverki Platóns, en vangaveltur tóku yfirhöndina, og þakka ég því bæði ríku innihaldi textans og hvernig hann tengist íslenskum samtíma.

Mynd:  Clare Twomey Exhibitions

Tenglar:

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband