Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 328 - Meiri ánægja af kynlífi eða samræðum í ellinni?

 

BÓK I

1. kafli - Árás á hefðir

 

328a

"Hva," bætti Adeimantus við, "veistu ekki að í kvöld verða kyndla-kappreiðar fyrir gyðjuna?"

"Kappreiðar?" sagði ég. "Það er óvenjulegt. Meinarðu að það verði kappreiðar þar sem keppendur skila af sér kyndlum til félaga sinna?"

"Nákvæmlega," sagði Pólemarkús. "Þeir eru einnig að undirbúa næturskemmtun sem þú mátt ekki missa af. Við ætlum að fara og sjá hana eftir kvöldmat, og þar verður líka fullt af ungmennum sem við getum talað við. Þannig að þú verður að gera eins og við segjum og vera hérna áfram."

328b

"Það lítur út fyrir að við ættum að vera áfram," sagði Glákon.

"Nú, ef þér finnst það," sagði ég, "þá ættum við að gera það."

Þannig að við fórum heim til Pólemarkúsar þar sem við fundum bræður hans Lysias og Euþýdemus, og líka Þrasímakkos frá Chalcedon, Charmantides frá Paeania, og Cleitophon son Aristonymusar. Faðir Pólemarkúsar Cefalus var líka í húsinu;

328c

mér fannst hann mjög ellilegur í útliti, en ég hafði ekki séð hann í langan tíma. Hann sat á stól með púða og með blómsveig á höfðinu, enda hafði hann verið að færa trúarfórnir í garðinum. Öðrum stólum hafði verið komið fyrir í hring, þannig að við settumst niður við hlið hans.

Þegar Cefalus sá mig, sagði hann halló og hélt áfram, "Sókrates, því miður fyrir okkur, venur þú ekki komur þínar til Piraeus. Þú ættir, þú veist. Ég meina, ef ég hefði nógu mikinn styrk til að fara bæjarferð án erfiðleika, þyrftir þú ekki að koma hingað, því að þá myndi ég heimsækja þig. En eins og staðan er, ættir þú að koma hingað oftar.

328d

"Í mínu tilfelli, sjáðu til, hefur sífellt minnkandi áhugi minn á líkamlegum nautnum jafnast nákvæmlega á við aukna ánægju mína á samræðum. Vinsamlegast farðu því að óskum mínum: verðu endilega tíma þínum með þessum ungu mönnum sem eru félagar þínir, en komdu einnig fram við okkur eins og vini - sem mjög nána vini - og heimsæktu okkur."

"Það mun ég örugglega gera, Cefalus," svaraði ég. "Ég hef í raun mjög mikla ánægju af að ræða við mjög gamalt fólk, því við ættum að læra af þeim. Það er komið lengra en við, má segja, á vegi sem við munum líklega einnig þurfa að ferðast, og við ættum að komast að því hvernig vegurinn liggur - hvort hann sé grófur og harður, eða auðveldur og sléttur. Og ég hefði sérstaklega gaman af því að spyrja um skoðanir þínar á honum, þar sem að þú hefur náð þeim tímamótum sem skáldin kalla "þröskuld hárrar elli". Myndir þú segja að það sé erfitt tímabil í lífinu, eða hvað?

  1. Frelsar ellin okkur frá líkamlegum nautnum?
  2. Eykst áhugi okkar á samræðum með aldrinum?
  3. Er ljóst að við þroskumst á æviskeiðinu eða fer okkur aftur?
  4. Er ellin eitthvað sem ber að kvíða eða hlakka til?
  5. Af hverju kvíða sumir ellinni?
  6. Af hverju hlakka sumir til ellinnar?
  7. Tengjum við saman dauða og elli?
  8. Tengjum við veikindi og elli?
  9. Höfum við góða ástæðu til að kvíða dauðanum?
  10. Er eðlilegt að óttast sjálfan óttann fyrir dauðanum?

 

Mynd: National Gallery of Art, Jan Lievens (Dutch, 1607–1674), Head of an Old Man, 1640


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 327 - Hvernig get ég fengið þig til að hlusta á mig ef þú hefur engan áhuga á því?

 

BÓK I

1. kafli - Árás á hefðir

 

327a

Í gær fór ég til Piraeus með Glákoni, syni Aristons, til að tilbiðja gyðjuna og líka vegna áhuga mínum á að sjá hvernig þeir stjórna hátíðarhöldunum, fyrstu sýningunni. Ég var vissulega hrifinn af glæsileika skrúðgöngu bæjarbúa, en ég verð að segja að Þrasíumenn stóðu sig jafnvel og bæjarbúar í þeirri göngu.

327b

Þegar tilbeiðslu okkar og áhorfi lauk lögðum við aftur af stað til bæjar, þegar Pólemarkús sonur Sefalusar, tók eftir okkur úr fjarlægð og sendi þræl á eftir okkur. Drengurinn kom aftan að mér, greip í jakka minn, og sagði, "Pólemarkús vill að þú bíðir eftir honum."

"Allt í lagi, við skulum gera það," sagði Glákon.

327c

Pólemarkús var fljótur að ná okkur. Í för með honum voru bróðir hans Adeimantus, Níkeratus sonur Níkíasar, og nokkrir fleiri; þeir höfðu greinilega allir verið í skrúðgöngunni. 

"Sókrates," sagði Pólemarkús, "mér sýnist þið tveir vera að leggja af stað í bæinn."

"Það er rétt," svaraði ég.

"Nú," sagði hann, "sérðu hvað við erum margir?"

"Auðvitað."

"Þú ættir því að velja," sagði hann, "á milli þess að yfirbuga okkur og vera hérna áfram."

"Nú, það er enn einn möguleiki til staðar," benti ég á. "Við gætum sannfært ykkur um að leyfa okkur að fara."

"Geturðu sannfært fólk sem hlustar ekki?" spurði hann.

"Ómögulegt," svaraði Glákon.

"Þú ættir að gera þér grein fyrir að við munum ekki hlusta á þig."

 

Spurningar:

  1. Þegar einhver vill ekki hlusta, er vit í að þvinga viðkomandi til hlustunar?
  2. Hvaða afleiðingar ætli það hafi að þvinga eigin skoðunum upp á annað fólk?
  3. Hefur stjórnarþingmaður rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á þjóð sína?
  4. Hefur trúfélag rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á meðlimi sína?
  5. Hefur kennari rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á nemendur sína?
  6. Hefur foreldri rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á börn sín?
  7. Hafa börn rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á jafnaldra sína?
  8. Hefur skólakerfi rétt á að þvinga námsskrá yfir á nemendur?
  9. Hefur ríkisstjórn rétt á að þvinga eigin úrlausnum yfir á þegna sína?
  10. Hafa fréttastofur rétt til að takmarka sjónarhorn á sannleikann?


Mynd: Jim Guittard's Place

Hverjir eiga banka og skilanefndir?

Ég velti þessu fyrir mér vegna afskrifta auðmanna og það að þeir hafa sumir fengið tapaðar eignir sínar til baka á silfurfati.

Getur verið að þessir auðmenn eigi bankana í dag? Hefur það verið rannsakað?

Ég get ekki ímyndað mér að nokkrir aðrir hefðu áhuga eða hag af því að kaupa íslenska banka sem hafa hrunið.

Annað eins hefur gerst.


Haiku um ICESAVE

Æ say f... og Æ say f...
Æ say f... og Æ say f..., Æ say f...
og Æ say f... ICESAVE

Kjarni málsins: ICESAVE

Umræddir peningar eru sú upphæð sem breska ríkisstjórnin borgaði breskum innistæðueigendum ICESAVE og hollenska ríkisstjórnin borgaði hollenskum innistæðueigendum ICESAVE. Í stað þess að taka skellinn sjálfar, ákveða þessar ríkisstjórnar að kalla þessa björgun 'lán til Íslendinga'.

Hljómar vel fyrir þá.

Vandinn er að íslenskur almenningur er ekki ábyrgur fyrir þessu. Einkafyrirtækið Landsbankinn ehf. er ábyrgt. Og þá stjórnendur og eigendur Landsbankans.

Þeir sem hrópa hæst að Íslendingar ætli að borga og eigi að borga eru að misskilja málið.

Landsbankinn er ekki þjóðin.

Fjármálaeftirlit þjóðanna þriggja hafði ekki getu til að annast eftirlit. Gerir það íslensku þjóðina ábyrga fyrir að borga þann pening sem bankinn glataði? 

Engan veginn.

Sé banki rændur, er öryggisvörður sem var yfirbugaður, rukkaður um peninginn? Eða aðrir viðskiptavinir?

Glætan!

Ef ICESAVE 2 verður samþykkt, þá mun gríðarlega hátt lán verða samþykkt til Íslands sem nota skal til að koma atvinnulífinu í gang, og þá sjálfsagt með því að dæla peningum í valda einstaklinga og valin fyrirtæki, og sjálfsagt munu einhverjir stjórnmálamenn óvart hagnast í leiðinni.

En síðan kemur að skuldadögum.

 

Markmið ríkisstjórnarinnar með því að samþykkja ICESAVE 2 eða fá aðeins hagstæðari samning er efnahagslegt. Ríkisstjórninni virðist vera nákvæmlega sama um markmið tengd siðferði, lýðræði og réttlæti. Það á að þvinga málinu í gegn með öllum hugsanlegum bolabrögðum, sama þó það þýði svik við forseta lýðveldisins og eigin þjóð. Slíkar vangaveltur virðast ekki komast að í hugum þeirra sem vilja bara sjá peninga, sama hvað það mun kosta þá og þjóð sína til frambúðar.

Það var aldrei neitt lán tekið til að bjarga innistæðum Breta og Hollendinga. Ríkisstjórnir þeirra ákváðu að kalla vafasamar björgunaraðgerðir sínar "lán til Íslendinga" á meðan sama aðgerð á Íslandi var kölluð "neyðarlög". Íslendingar bera ekki ábyrgð á þessari ákvörðun ríkisstjórna Breta og Hollendinga. Þetta var ekki lán. Þetta var sjálftaka.

Íslendingar eru þekktir fyrir að láta sjálftöku viðgangast. 

Lausn ríkisstjórnarinnar er að fá kúlulán utan úr heimi til að borga skuldir, nákvæmlega í anda nýfrjálshyggjunnar sem gerði íslenskt efnahagskerfi að rjúkandi rúst.

Ríkisstjórnin virðist lítið hafa lært af afleiðingum þess að taka lán. Íslensk heimili þekkja það í dag. Áætlun um endurgreiðslu á bíl reynist allt í einu 150% meiri vegna þess að lánið var tekið í erlendri mynt, og húsnæðislán hækka vegna verðtryggingar á meðan verðmat húsnæðis hrynur.

Hvað ef krónan hrynur aftur eftir til dæmis fimm ár, ári áður en borga skal þessa þjóðarskuld til baka? Hvað ef Íslendingar geta ekki borgað þá?

Sýnum fyrirhyggju.

 

Þessi grein varð annars til eftir að ég las þetta leynibréf frá Bandaríkjamönnum:

LOOKING FOR ALTERNATIVES TO AN ICESAVE REFERENDUM

Ég fylltist reiði þegar kemur að umsögninni um "óstöðugleika" forseta Íslands. Reiðilestur um þá tilfinningu mína að þarna sé verið að fremja landráð að yfirveguðu ráði má bíða þar til ég hef róað mig almennilega niður.


Enginn vafi?

Ég leyfi mér að efast um að enginn vafi sé til staðar um þetta mál. Hefur staðhæfingunni um vafaleysi þá verið hafnað?

Sigbjörn Johnsen, fjármálaráðherra Noregs, sagði í dag í svari til stjórnarandstæðinga á norska þinginu að enginn vafi væri á ábyrgð Íslendinga á innlánstryggingum vegna Icesave-reikninganna.

Þarna gætir misskilnings.

Þó að einhverjir eigendur Landsbanka ehf. hafi verið íslenskir og hann hafi áður verið íslenskur ríkisbanki og síðan einkavæddur, þá gerir það íslenskan almenning ekki ábyrgan fyrir honum né starfsemi hans, enda bera eigendur og stjórnendur fyrst og fremst ábyrgð á rekstri og velferð fyrirtækis, en ekki þeir sem hafa lögbundið eftirlit með viðkomandi fyrirtæki, ekki frekar en að Securitas ber fulla ábyrgð ef þjófar stela frá fyrirtæki sem Securitas á að gæta.

Ber íslenska ríkið ábyrgð á því ef Íslendingur fremur glæpi erlendis, eða er það glæpamaðurinn sem ber ábyrgð á sjálfum sér? Á íslenska þjóðin kannski að sitja inni fyrir glæpamanninn og hleypa honum heim til að fremja glæpina heima hjá sér frekar en erlendis?

Þetta mál er ekki flókið. Og ljóst er að það er vafi á ábyrgð Íslendinga á innlánstryggingum vegna Icesave-reikninganna.

Ekki nóg með það. Það er enginn vafi í mínum huga. Hvorki börnin mín né ég sjálfur berum ábyrgð á ákvörðunum stjórnenda Landsbanka ehf. sem opnaði einhver útibú í Hollandi og Bretlandi. Það gerðu þeir á eigin ábyrgð. Fáránlegt að kenna Íslendingum, Bretum eða Hollendingum um. Þessir gaurar og gærur geta sjálfum sér um kennt.

Það mætti halda að áróðursstríð sé hafið um þjóðaratkvæðagreiðsluna í samvinnu við systurflokka erlendis og að hún verði ekki háð með rökum og sannleika að leiðarljósi, heldur tilraunum til að þyrla upp ryki og flækja þetta sáraeinfalda mál, og láta það líta út eins og einhvern flækjuhnút, svo einhverjir geti kennt öðrum um hversu illa fór og notað sem afsökun fyrir því að ekkert sé gert af viti.

Með þessu tekst sjálfsagt að veikja málstað Íslendinga.

Eins og hann skipti máli þegar pólitísk völd og milljarðalán eru í spilinu?


mbl.is Íslendingar báru einir ábyrgð á eftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Lovely Bones (2009) **

 

photo_13_hires

Peter Jackson, leikstjóri "The Lord of the Rings" og "King Kong" snýr aftur og bregst loks bogalistin.

"The Lovely Bones" er ein af þessum myndum sem hefði getað verið frábær. Auðvitað reiknar maður með að þetta sé saga með þéttri atburðarrás þar sem málið snýst um að myrt unglingsstúlka reyni að stoppa morðingjann frá því að myrða systur hennar og hjálpa föður sínum að koma upp um gauurinn, en hann hefur þegar gengið frá dágóðum hópi kvenna..., en nei. Myndin fjallar um söknuð og kossinn sem aldrei var kysstur.

Mér finnst þetta ekki alveg nógu sniðug umgjörð. Það hefði verið heppilegra að láta stúlkuna deyja í bílslysi eða rafmagnslosti eða einhverju slíku, því að fjöldamorðingjafléttan hefur í raun ekkert með kjarna myndarinnar að gera.

Hamingjusamri fjölskyldu er sundrað þegar hin 14 ára Susie Salmon (Saoirse Ronan) er myrt af frekar klikkuðum nágranna sem heitir hinu skuggalega nafni George Harvey (Stanley Tucci) og satt best að segja er hann það langbesta við þessa mynd, þó að hlutverk hans sé ekki jafn merkilegt og það hefði getað verið.

Mark Wahlberg leikur pabbann sem getur ekki sætt sig við dauða dóttur sinnar og í einhvers konar sturlun ásakar hann nánast alla í hverfinu um morðið, og virðist fyrirmunað frá upphafi til enda myndarinnar að hugsa eina rökrétta hugsun. Spennandi karakter eða hitt þó heldur. Kona hans, leikin af Rachel Weisz, sem er nánast óþekkjanleg frá fyrri hlutverkum, sjálfsagt eftir fegrunaraðgerðir, virkar eitthvað svo venjuleg núna, fer á taugum og hypjar sig í kartöflutínslu eða eitthvað slíkt til Mexíkó, á meðan fjöldamorðinginn hefur augastað á næstu dóttur í röðinni, Lindsey, sem er vel leikin af Rose McIver. 

Málið er að það er ekkert samband á milli hins skrautlega og tölvugerða limbóheims Susie og veruleikans, annað en að kannski hefur hún áhrif á ímyndunarafl eða hugsanir þeirra sem enn halda í minningu hennar. Og kannski ekki. Ekki nógu góð tenging finnst mér. Hér saknaði ég draugsins sem Patrick Swayze gerði svo eftirminnilegan í "Ghost" þegar hann lagði sig allan fram við að sparka í Pepsídollu og hreyfa til smápening, og náttúrulega hafa virk samskipti við miðil sem gat bjargað eiginkonu hans frá skúrkinum skapvonda.

Ekkert svoleiðis hérna. Peter Jackson reynist væminn. Ótrúlegt en satt. Karlinn varð frægur á splattermyndum þar sem persónurnar þurftu að hafa áhyggjur af smáatriðum eins og líma höfuðkúpuna fasta til að heilinn rúllaði ekki út. Síðan gerði hann "Heavenly Creatures" sem fékk mikið lof margra gagnrýnenda, þó að ég hafi ekkert verið sérstaklega hrifinn, en eftir það gerði hann snilldina "The Frighteners" með Michael J. Fox og fylgdi eftir með Hringadróttinssögu, sem stimplaði nafn hans endanlega sem alvöru leikstjóra. Síðan klikkar hann núna.

Vonandi heldur hann ekki uppteknum hætti með "Tinna" og "The Hobbit", en hann mun reyndar ekki leikstýra þeirri síðarnefndu, heldur verður það Guillermo del Toro sem á það til að gera bráðskemmtilegar myndir, en á það líka til að floppa svolítið. Steven Spielberg mun síðan leikstýra annarri Tinnamynd á móti Jackson. Ég held að Tinni geti ekki klikkað í þeirra höndum.

Ég varð fyrir vonbrigðum með "The Lovely Bones," og það í fyrsta sinn frá því ég byrjaði að fylgjast með Peter Jackson eftir "Bad Taste". Mér datt einfaldlega ekki í hug að hann ætti þessa væmni til.

Enginn virðist fullkominn þessa dagana, fyrir utan James Cameron.


Invictus (2009) ***1/2

 


 

"Invictus" er vel heppnað drama frá Clint Eastwood um fyrstu ár Nelson Mandela sem forseti Suður Afríku og hvernig hann notar íþróttir til að sameina þjóðarsálina. Sem íþróttamynd er "Invictus" ekki jafn vel heppnuð, þar sem afar erfitt er að fylgjast með framgangi íþróttamanna á vellinum. 

Morgan Freeman leikur Nelson Mandela og túlkar hann sem hálfgerðan dýrling sem hefur nýtt 25 ár í fangelsi til að dýpka eigin skilning á heiminum, manneskjunni og lífinu, og kemst til valda sem vitur maður, sem er umhugað um samfélag sitt umfram allt annað. Hann áttar sig á að hatrið milli hvítra og svartra er afar beitt, og finnur ólíklegan samnefnara fyrir báða hópana í ruðningsliði Suður Afríku, sem lengi hefur verið þjóðaríþrótt hinna hvítu, á meðan hinir svörtu hafa verið meira fyrir knattspyrnu.

Nýtt íþróttasamband Suður Afríku vill leggja ruðningsliðið niður, en Mandela telur að slíkar aðgerðir muni dýpka á óvildinni milli hópanna tveggja, og fær til liðs við sig fyrirliða ruðningsliðsins, Francois Pienaar (Matt Damon).

Samskiptin á milli lífvarða Mandela eru sérstaklega vel leikin, en það er blandaður hópur hvítra og svarta sem þurfa að slíðra sverðin til að gæta forsetans í sameiningu. Smám saman bræðast þessir hópar saman og verða að einni heild þegar ruðningsliðið kemst í úrslitakeppni heimsmeistarakeppni árið 1995.

Framtíðarsýn, stóuspeki og fortíð Nelson Mandela er afar vel lýst. Allra besta atriðið er þegar ruðningsliðið heimsækir fangaeyjuna þar sem Mandela sat inni í 25 ár, og Matt Damon skoðar klefa hans, og ímyndar sér líf hans í fangavistinni. Ljóðið "Invictus" var Mandela leiðarljós í fangavistinni, og verður að innblæstri fyrir fyrirliða ruðningsliðsins sem áttar sig á að framtíðin er í höndum þeirra sem vita að þeir geta haft áhrif á hana með því að hafa áhrif á sjálfa sig og nærstadda.

"Invictus" minnti mig á ferðalag mín með Salaskólabörnum og vini mínum Tómasi til Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þar heimsóttum við fjölda skóla til að kynna skák. Þar sáum við sams konar fátækrahverfi og sjást í myndinni, sem og lífsgleðina sem sjá má í augum barnanna.

 

Invictus, eftir William Ernest Henley (1849–1903)


Out of the night that covers me,
Black as the pit from pole to pole,
I thank whatever gods may be
For my unconquerable soul.

In the fell clutch of circumstance
I have not winced nor cried aloud.
Under the bludgeonings of chance
My head is bloody, but unbowed.

Beyond this place of wrath and tears
Looms but the Horror of the shade,
And yet the menace of the years
Finds and shall find me unafraid.

It matters not how strait the gate,
How charged with punishments the scroll,
I am the master of my fate:
I am the captain of my soul.

Lögmenn hjá Pacta eiga heiður skilinn fyrir að kveikja vonarneista í baráttunni gegn óréttlæti á Íslandi

 

scales%20of%20justice%20money
 

Loksins, loksins, loksins. Fyrsti sigurinn frá upphafi Hruns, en stríðið er ekki búið. Lögmenn Pacta sýna í verki að þeir eru meira en lagatæknar.

Þetta mál þarf að enda á sama hátt fyrir hæstarétti áður en Lýsing fellst á eigin ábyrgð. Fjöldi þeirra sem tekið hafa bílalán hafa tapað miklum eignum og fjármunum vegna gengistengingarinnar og óstöðvandi kröfu lánenda um að þeir sem skulda beri allan skaða eftir Hrun, án þess að komið hafi verið til móts við þá með öðrum hætti en greiðslufrestun og greiðslujöfnun sem þýðir að skuldarar eru að borga mun hærri upphæðir en upphaflega var samið um. Nú ætti Lýsing að grípa tækifærið og semja við þá sem skulda af myntkörfulánum áður en neytendur fara í skaðabótamál eftir að kröfur Lýsingar tapast fyrir hæstarétti. Þeir hafa einfaldlega réttlætið sjálft á móti sér.

Aðeins þannig geta slík fyrirtæki komið í veg fyrir eigið gjaldþrot þegar dómur fellur í hæstarétti. Einfalt áhættumat sýnir að þetta er rétt. Staðan hefur breyst.

Ég get ekki betur séð en að þarna fari lögmannsstofa sem berst fyrir réttlæti og hagsmunum almennings. Kominn er fram á sjónarsviðið öflugur leiðtogi í baráttu almennings gegn óréttlæti og spillingu, Pacta.

Lögmenn hafa setið undir stöðugri gagnrýni fyrir að hugsa fyrst og fremst um eigin vasa og látið peninga vega óeðlilega mikið í vogarskál réttlætisins. Hjá Pacta fara greinilega lögmenn sem hugsa um meira en peninga. 

Því ber að fagna!

 

 

Mynd: The Law Office of Gregory Tendrich, P.A.


mbl.is Gengislánin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju mega þeir vaða yfir okkur?

 

megaphone

Það þarf að ræsa fólk út.

Einhverjum hefur tekist að spilla stjórnvöldum, þannig að þau geta sig hvergi hreyft til að lyfta hendi og hjálpa fólkinu í landinu, eins og óspillt stjórnvöld ættu að vilja. Ég er fullviss um að Jóhanna Sigurðardóttir vill vel, en ég held að hún átti sig ekki á að forgangsvandamálið er að uppræta þá spillingu sem gerjast í kringum hana. Hún þarf að heyra þau skilaboð að það hefur verið gerð uppreisn í skipi hennar, hún situr í káetu sinni og telur sig stefna til Kýpur, en skipverjar stefna fleyinu hins vegar í einhverja allt aðra átt, og sýna henni falsaða kompása og kort til að halda henni rólegri. 

Stjórnvöldum og auðmönnum hefur þegar tekist að vinna stríðið gegn almenningi sem sagan segir okkur að lætur kúga sig endalaust. Veruleikinn er sá að brauðmolarnir virðast duga til að halda múgnum rólegum. Þeim hefur tekist á láta líta út fyrir að almenningur sé auðmönnum samsekur með því að hafa keypt sér flatskjái, tekið sér húsnæðislán eða bílalán. Einnig telur að sparifé þeirra sem áttu pening á bönkum eftir hrun var bjargað af ríkisstjórninni, þannig að þessu fólki finnst að þeim hafi verið hjálpað, en skuldurum finnst þeir skyldir eftir úti í kuldanum. 

Samstaðan milli þeirra sem eiga og eiga ekki er nánast engin. Þetta er bil sem þarf að brúa. 

Almenningur virðist hafa álíka mikla sjálfsvirðingu og svín í svínastíu. Étur bara það sem að kjafti kemur. Er sama um náungann. Hugsar fyrst og fremst um eigin heim, sem hefur smækkað niður í eigin heimili. Alið er á heimsku með sjónvarpsfréttum sem flytja valinn áróður þeirra sömu og hafa komið landanum í þessa klípu. Fólk er ringlað á meðan fjölmiðlar segja eitt og veruleikinn er annar.

Hvað þarf að gera til að ná samstöðu gegn þessari spillingu og óréttlæti? 

Ég mæli með að fyrir fundinn á Austurvelli á morgun, fari hópur um valin hverfi borga og bæja, kalli saman samsveitunga sína, með gjallarhorni og smali þeim saman sem sætta sig ekki við ástandið. Þó ekki væri nema einn karl eða ein kona með gjallarhorn, þá væri það þó byrjun. Því fleiri því betra. Gangi þetta ekki upp fyrir morgundaginn, eru átta dagar til að skipuleggja fyrir næsta fund á eftir, og 15 dagar fyrir þann þarnæsta, nema að fólk taki sig saman og ræsi sjálft sig út strax í dag og hætti einfaldlega ekki fyrr en kominn er á friður.

Það er reyndar vandamál fyrir sig ef mótmæli eru orðin að kerfisbundnu fyrirbæri.

 

 

Marinó G. Njálsson skrifar eina bestu grein sem skrifuð hefur verið í nokkrum miðli, hérlendis sem erlendis, eftir Hrun. Hann skrifar um óréttlætið sem felst í að gefa auðmönnum sem aldrei lögðu sig í hættu, drjúgan sjóð úr vösum almennings með því að fella niður skuldir þeirra, á meðan þeir sem eiga varla fyrir mat fá enga miskunn frá bönkum eða kröfuhöfum, og án raunverulegrar nærveru og stuðnings stjórnvalda.

Þessi færsla byrjaði sem athugasemd við hörkugóða grein Marinós G. Njálssonar, sem þú getur lesið hér: Tikk-tikk-tikk, tímasprengjan tifar, almenningur er að springa.

Mynd: Law Offices of William Ulrich


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband