Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Þorláksmessa í Köben og jól í Madrid
26.12.2007 | 09:14
Þorláksmessa í Köben
Á sunnudaginn lagði kjarnafjölskyldan af stað til Madrid, með stoppi í Kaupmannahöfn og öðru í Frankfurt. Við tókum Metro inn í miðbæ Köben og höfðum gaman af að upplifa danska jólastemmingu. Það sem kom mér mest á óvart var hversu rólegir Danirnir voru í Þorláksmessustressinu, eins og kalla mætti það heima, þar sem fólk virðist snúast nokkuð marga hringi um sjálft sig í leit að gjöfinni sem gleður meira en nokkuð annað. Asann og lætin að heiman var hvergi að finna á andlitum fólks sem gekk glaðbeitt um höfuðborg Danmerkur.
Ég hef aldrei áður stoppað í Kaupmannahöfn. Mest kom mér á óvart hversu mikið er af hjólum í borginni. Það voru bókstaflega allir á hjólum. Einnig fannst mér skemmtilegt að sjá langa röð af fólki fyrir utan kjötverslun, en fyrir utan var verið að steikja svín á teini. Fólkið ætlaði greinilega að kaupa jólamatinn á réttum stað. Þetta hlýtur að vera hefð hjá Dönum, sem ég hafði aldrei heyrt um.
Við keyptum gjafir handa börnunum, fórum upp kirkjuturn með útsýni yfir Kaupmannahöfn og fengum okkur svo ís. Síðan lá leiðin aftur á flugvöllinn. Millilending í Frankfurt og svo haldið til Madrid með Lufthansa. Ég verð að minnast aðeins á matinn og þjónustuna hjá Lufthansa. Þetta var eins og á fínasta veitingastað, og þar að auki var maturinn sem við fengum í vélinni feiknagóður.
Aðfangadagur í Madrid
Aftur undraði ég mig á viðmóti fólks. Ég fann að fólk var rólegt og óstressað, en samt ennþá að kaupa jólagjafir. Það var engin jólaös eða stress eins og maður finnur heima í Smáralind og Kringlunni fyrir jólin. Tilfinningin er meiri eins og þegar ég á unglingsaldri gekk niður Laugarveginn á Þorláksmessu með vini mínum í leit að skemmtilegum gjöfum. Við fórum nokkuð oft í neðanjarðarlestir, sem koma manni hratt á milli borgarhluta, en börnunum leist lítið á, enda hafa gangar verið illa þrifnir vegna verkfalls hreingerningarfólks. Við hittum ættingja frá Mexíkó sem búa í Madrid og nutum aðfangadagskvölds á ítölskum veitingastað. Þar urðum við vitni að smá stressi, þar sem að þjónarnir á veitingastaðnum virtust vera við það að fara á taugum og maður fann að þegar kallað var á þá pirruðust þeir upp og litu flóttalega á næsta starfsmann í von um að hann tæki kallið. Jólamaturinn var samt fínn og áttum við góða stund.
Eftir matinn áttuðum við okkur á að klukkan var allt í einu orðin hálf tíu, en lestirnar myndu hætta að ganga kl. 10. Við borguðum matinn og kvöddum ættingja okkar eftir að hafa skipst á jólagjöfum. Við börnin fengum ekta íþróttabol frá Real Madrid, en konan fékk bók. Leigubíla er vonlaust að fá á aðfangadagskvöldi, þannig að við drifum okkur í lestina og náðum heim á hótel.
Jóladagur
Við sváfum út, en fórum svo í almenningsgarð þar sem fór fram leikbrúðusýning um fæðingu Krists. Börnin höfðu mjög gaman af þessu, þar sem litið var á spaugilegu hliðarnar á bakvið söguna. Þeir sem stjórnuðu brúðunum hlustuðu á börnin í áhorfendahópnum og fengu þau til að taka virkan þátt í ævintýrinu. Þetta var vel heppnuð sýning. Í raun má segja að þetta hafi verið hálfgerð Monty Python nálgun, þar sem húmorinn minnti mikið á þá félaga. Sem dæmi má nefna að einn af vitringunum þremur var duglegur að skoða stjörnur himinhvolfsins, en tók ekki eftir þessari stóru og merkilegu stjörnu fyrr en hún sló hann í hausinn. Börnin skemmtu sér stórvel.
Síðan var bara gengið um skemmtigarðinn í nokkrar klukkustundir. Það allra merkilegasta fannst mér staður þar sem verið var að safna saman blöðrum undir gegnsæju tjaldi. Með blöðrunum fylgir bréf frá börnum, til vitringanna þriggja, en á þrettándanum fá börn gjafir sem þau óska sér að fá. Þetta finnst börnum mjög sniðugt, enda getur verið að þau hafi ekki fengið þá gjöf sem þau dreymdi um að fá á aðfangadagskvöld, og því fá þau tækifæri til að biðja um það á þrettándanum. Reyndar er þetta sjálfsagt heljarinnar brella af hendi kaupmanna, til að græða tvöfalt á jólunum, en fólk er sátt við þessa hefð og fylgir henni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gledileg jól
24.12.2007 | 15:50
Gledileg jól fra Madrid!
Jólakvedjur til bloggvina sem og annara vina, fjolskyldu og annarra félaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Næsta vísindaskáldsaga í kvikmyndum var í uppáhaldi hjá mér til margra ára. Ég sá hana fyrst þegar hún var frumsýnd í Laugarásbíói árið 1982, þá tólf ára gamall. Mér fannst hún það góð að ég fór aftur næsta dag og safnaði spjöldum sem seld voru í sjoppum. Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef elst við mynjagripi úr kvikmynd. E.T.: The Extra Terrestrial er ennþá jafn góð í dag og hún var þá. Ég hef bara séð miklu fleiri myndir og smekkurinn hefur breyst.
E.T. vakti mig til umhugsunar um mikilvægi þess að taka mark á vitsmunaverum, hvort sem að þær eru börn, fullorðnir, dýr eða geimverur. Aðal vandinn sem söguhetjur E.T. þurfa að takast á við er einhvers konar sambandsleysi í víðtækum skilningi. Frábær mynd í alla staði.
Það er vel við hæfi að kíkja á E.T. yfir jólin, þar sem boðskapur hennar gæti varla átt betur við en hjá okkur í dag. Við erum svo upptekin af smáatriðum að okkur er hætt við að gleyma því sem skiptir mestu máli.
E.T.: The Extra Terrestrial (1982) ****
Litlar geimverur eru í rannsóknarleiðangri á jörðinni að skoða plöntur. Þær þurfa að hverfa frá í flýti þegar hópur rannsóknarmanna frá NASA birtast á svæðinu. Fremstur þeirra fer maðurinn með lyklana (Peter Coyote). Ein geimveran verður eftir og flýr í úthverfi smábæjar fyrir neðan skóginn þar sem geimskipið lenti.
Kvöld eitt kemst Elliott í kynni við geimveru og fær hana með sér inn í herbergi. Hann vill halda henni sem gæludýri. Fljótt kemur í ljós að það býr meira í henni en krúttlegt útlit. Hún getur hreyft hluti með hugarorku og lærir fljótt að tala frumstæða ensku. En Elliott og geimveran smella algjörlega saman og djúp vinátta verður til. Elliott finnur allar þær tilfinningar sem geimveran hefur, og öfugt. Þegar geimveran veikist eftir að hafa verið úti heila nótt, þá veikist Elliott líka.
Elliott (Henry Thomas) er ósköp venjulegur strákur. Hann á frekar erfitt með að tengjast öðru fólki, enda foreldrar hans nýlega fráskildir. Mary (Dee Wallace) heldur heimilinu gangandi með þremur börnum, sá elsti er unglingurinn Michael (Robert Macnaughton) og sú yngsta er Gertie (Drew Barrymore. Þau vilja allt gera til að hjálpa Elliott og geimverunni, en gæta sig á að láta fullorðna ekki vita, því þau finna að fullorðnum er alls ekki treystandi. Þau vita að geimveran yrði gerð að rannsóknardýri ef vísindamenn kæmust með puttana í hana, og þar sem með þeim tekst vinátta, hjálpast þau að við að finna geimverunni leið heim.
Það lítur út fyrir að bæði Elliott og geimveran séu við dauðans dyr þegar NASA rannsóknarmenn hafa uppi á þeim félögum. Þeir eru umsvifalaust einangraðir, og heimili Elliott umbreytist í rannsóknarstofu þar sem allir tala eitthvað tæknimál og er greinilega nákvæmlega sama um tilfinningar þeirra vina. Stóra spurningin er, sleppur geimveran undan NASA vísindaskrýmslinu og finnur leið heim?
E.T: The Extra Terrestrial er afar vel gerð og falleg. Handbragðið minnir að miklu leyti á Raiders of the Lost Ark, sérstaklega þegar NASA vísindamennirnir leita geimverunnar í skóginum, og þegar geimveran og félagar Elliott flýja undan á hjólum. Reyndar varð einn drengjanna síðar frægur fyrir að leika Indiana Jones (Sean Patrick Flanery) á unglingsaldri í sjónvarpsþáttunum Young Indiana Jones.
Það er allt svo undravert í þessari veröld sem Steven Spielberg tekst að skapa, þar sem aðal óvinurinn er skeytingarleysi; nokkuð sem aðalhetjan Elliott þarf að sigrast á hjá sjálfum sér en allir fullorðnir í myndinni eru þjakaðir af, fyrir utan manninn með lyklana.
Það er eins og tveimur siðfræðikenningum sé steypt hvorri gegn annarri í E.T. Í fyrsta lagi er heimur barnanna heimur þar sem hver einasti einstaklingur er ómetanlegur, en heimur fullorðinna virðist vera heimur nytjahyggjunnar, þar sem allt í lagi er að fórna einum til að bæta við þekkingu mannkyns. Eina ástæðan sem hinir fullorðnu hafa til að halda geimverunni á lífi er að hún gæti hjálpað þeim að auka við þekkingu mannkyns á heiminum; en börnin átta sig á að með dauða hennar væru þau að missa dýrmætan vin.
Spurning: hvort mikilvægara sé að mannkynið öðlist dýpri þekkingu eða að góður vinur komist heim til sín?
Tónlistin í E.T. eftir John Williams er einstaklega góð, og reyndar er þetta ein af þeim myndum þegar tónlistin verður stundum yfirsterkari myndinni á skjánum, en það er samt allt í lagi. Sumum finnst endirinn frekar væminn, en mér finnst hann hitta á hárréttar nótur sem eru viðeigandi efninu.
E.T.: The Extra Terrestrial er upplifun sem enginn áhugamaður um vísindaskáldsögur á hvíta tjaldinu ætti að láta fram hjá sér fara.
Sýnishorn úr E.T.
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Bless. Við gengum saman farsæla braut, sigruðum heiminn saman, en nú skilja leiðir.
20.12.2007 | 17:04
Úr Einn kemur, þá annar fer (Davíð Stefánsson)Og fæsta þeirra grunar, sem fellur þyngst að hverfa,
hve fáir leggja á minnið að þeir hafi verið til.
Þeir gleyma, hverjir sáðu, sem uppskeruna erfa,
og æskan hirðir lítið um gömul reikningsskil.
Eftir að hafa þjálfað börn og unglinga til taflmennsku við Salaskóla síðustu þrjú ár hef ég sagt starfi mínu lausu. Árin með Salaskóla hafa verið ánægjuleg og gefandi.
Frá Íslandsmóti grunnskólasveita, stúlknaflokkur 2007: 2. sæti.
Á þessum þremur árum hafa krakkarnir náð nokkrum Íslandsmeistaratitlum og fjölda annarra verðlauna á skólamótum, auk þess sem að þau hafa slegið þátttökumet á grunnskólamótum, bæði í aðalmótum og stúlknamótum. Þau náðu 3. sæti á Norðurlandamóti í Danmörku 2006, 5. sæti á Evrópumóti í Búlgaríu 2006 og fyrsta sæti á Heimsmeistaramóti 2007, sem var formlegt heimsmeistaramót grunnskólasveita í skák 14 ára og yngri, sem skipulagt var af alþjóðlega skáksambandinu (FIDE).
Frá Íslandsmóti grunnskólasveita 2007, besta D-sveitin.
Eftir að heimsmeistaratitli var náð hefur hópnum verið boðið í nokkrar keppnir á erlendri grundu, og hafa nemendur meðal annars skroppið til Grænlands í boði Hróksins og Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Einnig var hópnum boðið í samsæti hjá bæjarstjóra Kópavogs, Gunnari Birgissyni, sem studdi okkur vel allan tímann, og Þorgerður Katrín bauð okkur einnig í heimsókn þar sem hún hélt býsna góða og eftirminnilega ræðu og bauð svo upp á spjall, kökur og fínt.
Frá móttöku Menntamálaráðherra eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil alþjóðaskáksambandsins FIDE í grunnskólaskák 14 ára og yngri, 2007.
Ég hef farið óhefðbundnar leiðir í skákkennslu; en á æfingum legg ég mikið upp úr því að nemendur ræði saman á meðan þeir eru að tefla til að skapa létt og skemmtilegt andrúmsloft (sem verður reyndar stundum þögult og þrungið þegar spennandi stöður eru á borðum) og að ræða saman um hvernig betur mætti fara í skákum sem voru nýkláraðar, og hvernig hægt væri að gera betur, og hvað var sérstaklega flott eða gott. Auk þess að lögð var áhersla á góða hegðun og séð til að nemendur skildu af hverju slík hegðun er mikilvæg fyrir góðan árangur, í stað innantómrar mötunar.
Íslandsmót grunnskólasveita 2007, besta C-sveitin.
Til að halda takti á æfingum með börnum þýðir lítið að vera með langar og fræðilegar útskýringar á hugtökum skáklistarinnar, heldur reyndist best að nota hraðskákir til að halda stöðugt athygli, skipulagi og spennu, en það gefur tækifæri til að smygla inn hugmyndum á réttu augnabliki og við aðstæður sem nemendurnir skilja. Mikilvægt er að fá nemendur til að uppgötva hugmyndirnar á eigin forsendum.
Frá móttöku Menntamálaráðherra eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil alþjóðaskáksambandsins FIDE í grunnskólaskák 14 ára og yngri, 2007.
Fjöldi móta býður hópsins á komandi ári og óska ég börnunum velfarnaðar í þeim. Þarna er mikill og góður hópur, og reyndar er hægt að gera það sama í hvaða skóla sem er, það þarf einfaldlega teymi fólks til að tryggja að aðstæður þjálfunar séu fyrir hendi.
Tómas Rasmus vinnur enn með yngri börnunum og er duglegur sem endranær að blása í þau áhuga. Hann hefur verið góður félagi í þessu gæfuríka samstarfi. En einhvern tíma verða allir góðir hlutir að enda. Núna er að mínu mati rétti tíminn fyrir mig að kveðja. Það getur verið ágætt að hætta á toppnum.
Á verðlaunapalli í Tékklandi með fulltrúum frá FIDE á báða bóga. Í sveitina vantaði Eirík Örn Brynjarsson, Ragnar Eyþórsson og Ómar Yamak, sem allir höfðu teflt fyrir a-sveit Salaskóla, annars vegar á Íslandsmóti barnaskólasveita (2. sæti) og Íslandsmóti grunnskólasveita (3. sæti) en þeir komust ekki með á mótið.
Ég vona innilega að skólinn finni hæfan þjálfara til að taka við þeim hæfileikaríku börnum sem mætt hafa á æfingar hjá mér síðustu árin, og láti þennan fyrirtaks efnivið ekki fara til spillis.
Íslandsmót grunnskólasveita 2007 (16 ára og yngri), 3. sæti. Í sveitina vantaði Guðmund Kristinn Lee sem var erlendis á meðan mótið fór fram.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fræðilegar vísbendingar um hætturnar á bakvið RÍTALÍN þegar um ofneyslu er að ræða
18.12.2007 | 21:45
Vegna mikils álags á öðrum vígstöðum hefur það tekið mig töluverðan tíma að næla mér í mínútur hér og mínútur þar til að leita eftir heimildum um skaðsemi rítalíns og annarra ofvirkniklyfja. Ég er á þeirri skoðun að þessi lyf séu skyndilausn á vanda sem ekki er hægt að leysa í skyndi, þar sem heilbrigðum börnum á Íslandi virðist gefið rítalín til að róa þau niður. Það kemur hins vegar í ljós að rítalín hefur öfug áhrif á heilbrigða einstaklinga.
Ég lofa í fyrirsögn að benda á fræðilegar vísbendingar, og nota ekki hugtakið 'sannanir' þar sem samkvæmt mínum skilningi á vísindum sanna þau aldrei neitt endanlega, heldur eru sífellt tilbúin til að rannsaka hlutina nánar. Þegar sagt er að eitthvað sé 'vísindalega sannað', þá fyrst þarf maður að fara að gát og athuga hvað 'sönnuðinum' hefur yfirsést.
Af hverju tel ég miklar líkur á að um ofneyslu sé að ræða á Íslandi? Tölurnar segja að rúm 20% íslenskra barna séu á rítalíni, á meðan eðlileg tíðni ofvirkni sé 5-10%. Þetta er marktæk skekkja.
Ástæðan fyrir þessari grein má finna í athugasemdum greinanna
14 atriði sem þú vissir ekki um RÍTALÍN og OFVIRKNI af því þú nenntir aldrei að pæla í þessum málum
Leyndardómurinn að baki velgengni ofvirknislyfja (methylphenidate) eða réttlæting nytjahyggjunnar
þar sem ég var beðinn um heimildir fyrir skoðunum mínum. Ég tel þetta mikilvægt mál og þetta réttláta kröfu, og ákvað því að verða við henni. Þar sem að ég er áhugamaður um þessi mál í mínum frístundum, hef ég í lestri mínum ekki skráð á nákvæman hátt allar þær ritgerðir sem ég hef lesið um, né eigin reynslu. Nú skal bæta það.
Ég biðst forláts á að hafa ekki þýtt greinarbrotin yfir á íslensku, en það hefði einfaldlega kostað mig enn meiri tíma og vinnu sem þýtt hefði með annríki mínu að greinin hefði ekki birst fyrr en eftir áramót. Það finnst mér of langur tími.
Reyndar er ég ekki alveg menntunarlaus um þessi mál, þar sem að ég hef meistaragráðu í menntunar- og kennslufræðum, þar sem meðal annars er farið í rannsóknir á slíkum málum, auk víðtækrar reynslu af kennslu á barna-, unglinga og fullorðinsstigi.
En nú að ósk Kristínar:
Mætti ég biðja þig um að bæta inn í pistil þinn hvaðan heimildir þínar koma, þar sem kemur fram að þú ert hvorki læknis- né sálfræðimenntaður, fyrir þessu:
"... því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt.
Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða." (Kristín Kristjánsdóttir)
Það flokkast sem nákvæm vinnubrögð að geta áreiðanlegra heimilda, en þar sem ég leit á grein mína fyrst og fremst sem bloggfærslu um eigin skoðanir hafði ég engar áhyggjur af því.
Ég þekki raunveruleg tilfelli þar sem fólk er með athyglisbrest, sjúkdóminn athyglisbrest (sem má líka kalla röskunina athyglisbrest - sem er algjört aukaatriði) - og um það fólk er allt önnur saga. Ég get samþykkt að þeir einstaklingar sem eru sannarlega með athyglisbrest fari í lyfjameðferð, og jafnvel þó að sönnunin sé ekki 100% örugg, en þá verður meðferðin sem fylgir að vera vönduð og vel fylgst með af fagmanni.
Greinarkornin sem hér fyrir neðan gefa sterklega til kynna að ofvirkniklyf byggð á metýlfen séu ávanabindandi og hættuleg sé ekki farið varlega með þau. Einnig er gerð skýr grein fyrir því að fræðingar og vísindamenn eru þessa dagana sífellt að átta sig á fleiri hættum tengdu þessum efnum.
Kristín gagnrýndi að ég skyldi ekki svara öllum athugasemdum fyrri færslu minnar. Ég hef lesið þær allar með góðri athygli, og meðtekið þær þó að ég hafi ekki náð að svara þeim öllum. Mér finnst þetta einfaldlega mjög áhugavert efni.
Ég þarf að sjá sterkari gögn sem sýna fram á greiningu viðkomandi með geðröskun eins og ofvirkni til að geta samþykkt geðlyfjagjöf. Geðlyfjagjöf er þægileg lausn og hagkvæm, en ég tel hana vera byggða á siðferðilegum forsendum sem ég er ekki sáttur við.
Hvort er réttlætanlegt að segja: "Ég gef barninu þínu rítalín því það eru ekki til næg gögn sem mæla gegn því og um skaðsemi þess," eða "Ég gef barni þínu ekki rítalín því gögn um afleiðingar þess eru ekki nægjanlegar." Athugið að þessi gögn eiga eftir að verða til, rétt eins og gögn um drykkju og reykingar. Við erum bara komin í næsta samþykkta dóp fyrst sígaretturnar eru hættar að virka.
Sú skoðun, að það sé í lagi að sumir skaðist varanlega til að heildin stórgræði, finnst mér ekki réttlætanleg. Skaðinn gæti verið eitthvað sakleysislegt eins og hæfni til skapandi hugsunar eða grafalvarlegur eins og fíkn á geðlyfjum, síaukinn pirringur og jafnvel ofskynjanir.
Ég undirstrika lykilsetningar.
Heimildir fyrir ofgreiningu á ofvirkni og ofneyslu rítalíns á Íslandi:
"Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða." (HB)
Úr Læknablaðinu, 12. tbl. 93. árg. 2007:
"Niðurstöður: Algengi metýlfenídatnotkunar meðal barna (0-18 ára) á Íslandi hækkaði úr 0,2%0 árið 1989 í 25,1 %0 árið 2006. Notkun var að jafnaði þrisvar sinnum algengari meðal drengja en stúlkna. Algengið var árið 2006 hæst við 10 ára aldur (drengir 77,4 %0, stúlkur 24,3%0). Meðalársalgengi metýlfenídatnotkunar 2004 til 2006 var hæst meðal drengja á Suðurnesjum (44,80%0) og stúlkna á Norðurlandi vestra (17,06%0) en lægst á Vestfjörðum (drengir 23,44%0, stúlkur 8,06%0). Notkun stuttverkandi metýlfenídats minnkaði frá árinu 2003 (18,7%0) til ársins 2006 (6,8%0) en notkun langverkandi metýlfenídats jókst úr 14,4%0 í 24,6%0. Barnalæknar ávísuðu oftast lækna metýlfenídatlyfjum, 41% af heildarfjölda ávísana árið 2006." (Helga Zoëga aðferðafræðingur, Gísli Baldursson barna- og unglingageðlæknir, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir.)
Og heimildir fyrir "... því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt." (HB)
Um það að rítalín geti haft varanlegar breytingar á heilann, úr Reuters frétt frá 12. nóvember, 2001.
"When the active dose (of Ritalin) has worked its way through the system, they consider it 'all gone.' Our research with gene expression in an animal model suggests that it has the potential for causing long-lasting changes in brain cell structure and function." (Fred A Baughman Jr. læknir)
Þetta þýðir að þó breytingar á heila séu ekki strax mælanlegar, þá geta breytingar átt sér stað á genastigi yfir lengri tíma. Þessar breytingar gætu komið í ljós á fullorðinsárum, elliárum eða jafnvel í afkvæmum.
Um hættuna sem getur fylgt ofvirknilyfjum, sérstaklega þegar þau eru tekin í of stórum skömmtum:
Úr Australian and New Zealand Journal of Psychiatry, Volume 34, Issue 4, Page 645-650, August 2000.
"The clinical and experimental data justify the use of chronic low-dose stimulant treatment of ADHD in adults, with the recommended upper limit of dose being 1 mg/kg for methylphenidate and 0.5 mg/kg for dexamphetamine. There is no empirical evidence of greater improvement with higher doses and any beneficial effect is likely to be compromised by the adverse effects, some of which can be very serious. The recommended doses should be exceeded only after careful consideration and objective documentation of beneficial and adverse consequences. Monitoring of drug levels in blood may be of some value for compliance or pharmacokinetic considerations, as there is a direct relationship between blood and brain levels as well as dopamine transporter occupancy. These recommendations are tentative and further clinical research is warranted." (Perminder S. Sachdev, Julian N. Trollor (2000))
Glæný rannsóknarskýrsla um ávanabindandi áhrif ofvirknilyfja
Úr Biochemical Pharmacology, Volume 75, issue 1, January 2008, Pages 196-217
"Psychostimulants are a broadly defined class of drugs that stimulate the central and peripheral nervous systems as their primary pharmacological effect. The abuse liability of psychostimulants is well established and represents a significant public health concern. An extensive literature documents the critical importance of monoamines (dopamine, serotonin and norepinephrine) in the behavioral pharmacology and addictive properties of psychostimulants. In particular, the dopamine transporter plays a primary role in the reinforcing and behavioral-stimulant effects of psychostimulants in animals and humans... " (Leonard L. Howell og Heather L. Kimmel)
Þeir Howell og Kimmel vísa í rannsókn sem birtist í American Journal of Addictions, þar sem sannað er að rítalín sé misnotað af unglingum, þó ekki í sama mæli og þegar um önnur sterkari eiturlyf er að ræða.
Innskot: Methamphetamine er ekki það sama og Methylphenidate (sem er notað í rítalín). Aftur á móti er methamphetamine hægt að nota við óvirkni þegar methylphenidate verldur sjúklingi of miklum aukaverkunum. Það væri áhugavert að rannsaka af frekari dýpt sambandið á milli þessara tveggja lyfja.
Úr American Journal on Addictions, Volume 13, issue 4, January 2004, Pages 381-389
"The prevalence of methylphenidate and dextroamphetamine misuse and abuse was examined in 450 adolescents referred for substance abuse treatment. Twenty three percent reported nonmedical use of these substances and six percent were diagnosed as methylphenidate or dextroamphetamine abusers. Abuse was more common in individuals who were out of school and had an eating disorder. Methylphenidate and dextroamphetamine abuse appears to be much less common than abuse of most other substances. It does occur, however, and parents and schools need to exert greater control over the dispensing of these medications.
Um hugsanleg varanleg áhrif sterkari ofvirkniklyfja en rítalíns (Methamphetamine) á heilastarfsemi. Miðað við að notkun á ofvirkniklyfjum breyti heilastarfsemi, segir það sig sjálft að ekki sömu niðurstöður fást út úr heilaskönnun sem er gerð fyrir og eftir lyfjaneyslu.
Úr Neurocognitive Effects of Methamphetamine: A Critical Review and Meta-analysis, Neuropsychology Review, Október, 2007.
"It is unknown whether the changes in brain structure and function evident in persons with methamphetamine (MA) dependence are reversible. Large-scale outcome studies that have followed MA users over longer periods of time (i.e., years) do not exist, and therefore we do not know if any or all of the brain changes will remit with prolonged abstinence." (Scott, Woods, Matt, Meyer, Heaton, Atkinson, Grant).
Ég hef leyft mér að efast um eigin skoðanir, en í stað þess að þær verði staðreyndum að bráð sem hrekja þær, rekst ég stöðugt á það að grunur minn um hættur rítalíns er studdur nokkuð vel af vísindamönnum, þó að dæmin séu vissulega fá í dag. En er ekki eitt dæmi í sjálfu sér nóg til að sýna fram á að ofvirkniklyf geti verið hættuleg og sérstaklega þegar neysla þeirra er komin fram úr öllu hófi á landsvísu?
Tekið skal fram að ég hef rætt við einn íslenskan og einn erlendan sálfræðing sem hafa verið að vinna við og eru að vinna í málefnum tengdum ofvirkni. Það hefur komið mér á óvart og verið mér hvatning hversu innilega þeir hafa tekið undir það sem ég hef að segja um þessi mál. Ég kann þeim bestu þakkir fyrir, og sérstaklega HK fyrir allt lesefnið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Leyndardómurinn að baki velgengni ofvirknislyfja (methylphenidate) eða réttlæting nytjahyggjunnar
13.12.2007 | 23:01
Ég rakst á þessa grein sem skrifuð var árið 1991 af Lawrie Reznek. Hún er úr ritinu The Philosophical Defence of Psychiatry (Heimspekileg málsvörn geðlæknisfræðinnar) og titluð The Virtues of the Medical Paradigm eða Dygðir hinna læknisfræðilegu viðmiða.
Þessar hugmyndir voru notaður til að réttlæta notkun á ofvirkniklyfjum, eins og Rítalíni og Concerta, ekki aðeins fyrir ofvirk börn, heldur fyrir öll börn sem haga sér illa eða eiga erfitt með að stjórna sér. Réttlætingin felur í sér að allir græða, nema einstök börn sem fara illa út úr þessu. Er það í góðu lagi svo framarlega sem að það kemur heildinni vel? Er í lagi að fórna fáeinum óþekktaröngum fyrir skilvirkara samfélag?
Í samfélagi lendum við sífellt í fyrirbæri sem ég vil kalla Vandamál um afbrigðileika. Til dæmis, frá því að skólar voru fundnir upp hafa verið börn í þeim sem hafa ekki einbeitt sér að vinnunni, hafa truflað kennslustundir og hafa alltof mikla orku til að kennararnir geti stillt þá af.
Árið 1957 uppgötvaði Maurice Laufer sjúkdóminn hyperkinetic impulse disorder eða mikil röskun líkamlegra hvata. Einkenni þessa sjúkdóms voru ofvirkni, léleg einbeiting og hvatvísi. Slíkur geðsjúkdómur hefur marga kosti.
Í fyrsta lagi gerir hann okkur fært að annast slíka afbrigðilega hegðun með lyfjum - milljónir barna hafa verið deyfð með methylphenidate (sem Rítalín og Concerta eru búin til úr - DHB). Í öðru lagi er truflun í skólastofu læknuð - kennarar geta nú notað tíma sinn fyrir áhugasamari nemendur. Í þriðja lagi geta foreldrar forðast þá sektarkennd sem tengist því að gefa af sér slakara afkvæmi eða mistakast að ala það rétt upp. Þeir geta útskýrt slakan árangur hans eða hennar í skóla með því að vísa í sjúkdóm sem kallar á meðhöndlun. Í fjórða lagi græða hin börnin á minni látum í skólastofunni. Í síðasta og ekki sísta lagi fylgja þessu margar hagstæðar leiðir.
Lyfjafyrirtæki græða þar sem þau framleiða og selja uppgefnum foreldrum lyf sín. Og ef lyfjafyrirtækin græða, þá græðir samfélagið - störf verða til hjá lyfjafyrirtækjunum, og þetta þýðir að fleiri meðlimir samfélagsins hafa laun til að eyða, og þannig blómstrar allt samfélagið.
Það sem byrjaði sem vandamál fyrir foreldra, kennara, og önnur börn endar með því að hagnast öllum nema þeim sem eru á endanum róuð og þvinguð niður af lyfjunum. Með því að uppgötva sjúkdóminn ofvirkni er hægt að leysa mörg vandamál sem afbrigðileg börn stofna til. (Reznek, 1991, p. 17)
Þessi röksemdafærsla er sambærileg við þau rök nasista að gyðinga þurfti að taka úr umferð því að þeir voru til of mikilla óþæginda í Evrópu. Einnig eru þessi rök sambærileg réttlætingu á dauðarefsingu í Bandaríkjunum, þar sem dauðarefsing er talin nauðsynleg til að fæla aðra mögulega glæpamenn frá glæpum, og einnig til að tryggja að mögulegum fórnarlömbum þeirra í framtíðinni verði bjargað með þessum hætti.
Það sem gerir rökin sambærileg er að verið er að hugsa um að losa alla aðra en viðkomandi ofvirkum einstaklingi, gyðingi eða glæpamanni við þjáninguna sem fylgir því að hafa svona afbrigðilega einstaklinga í samfélaginu. Ég er samt alls ekki að líkja ofvirkum saman við glæpamenn eða gyðinga, eða gyðingum við glæpamenn eða ofvirka, eða glæpamenn við ofvirka eða gyðinga. Þvert á móti, samkvæmt ofangreindum rökum verður hinn ofvirki, glæpamaðurinn eða gyðingurinn í Þýskalandi nasismans að fórnarlömbum nytjahyggjunnar. Reyndar má einnig líkja þessu við nornaveiðar á hinum myrku miðöldum, veiðar á kristnu fólki í fornu Róm og kommúnistaveiðum á McCarthy tímabilinu.
Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tel ofvirkniklyf gagnleg þeim sem eru sannarlega greindir með ofvirkni, og þá ekki aðeins útfrá félagslegum þáttum, heldur einnig út frá heilaskönnun á heilum sem ekki hafa þegar fengið ofvirkniklyf - því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt.
Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða.
Textinn á frummálinu:
In society, we are frequently faced with what I will call the Problem of Deviants. For example, ever since schools were invented there have been children that have not concentrated on their work, have disrupted their lessons, and have had too much energy for their teachers to contain. In 1957, Maurice Laufer discovered the disease of hyperkinetic impulse disorder which was characterized by over-activity, poor concentration and impulsivity. Such a mental illness has many advantages. First, it enables us to treat such deviant behaviour with drugs millions of children have been sedated with methylphenidate. Second, the classroom disruption is cured teachers can now devote their time to more rewarding pupils. Third, the parents can avoid the guilt associated with producing an inferior child or with failing to raise their child correctly. They can explain away his or her poor school performance by reference to a disease that needs treatment. Fourth, the other children are able to benefit from the decrease in classroom disruption. Last and not least, there are many valuable spin-offs. Drug companies benefit, making and selling their drugs to exhausted parents. And as drug companies benefit, so society benefits jobs are created by the drug companies, and this means more members of society have salaries to spend, and so society as a whole prospers. What started off as being a problem for parents, teachers, and other children, ends up benefiting everyone except those who end up being sedated and depressed on the drugs. By discovering the disease of hyperactivity, the many problems generated by deviant children are solved. (Reznek, 1991, p. 17)
Ekki gleyma því hversu viðkvæmt líffæri heilinn sjálfur er, því það er með honum sem við lærum stöðugt meira um leyndardóma hans og heimsins, eins og vel er kynnt í myndbandinu hér á eftir.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14 atriði sem þú vissir ekki um RÍTALÍN og OFVIRKNI af því þú nenntir aldrei að pæla í þessum málum
11.12.2007 | 23:01
Heilinn er lítt kannaður heimur sem við verðum að ferðast um með gát.
Eftir að hafa kíkt á bloggfærslu Sporðdrekans, sem benti á heimildarmyndina The Drugging of Our Children, sem hægt er að horfa á í fullri lengd með því að smella hér, og horft á hana, og eftir að hafa í nokkur ár furðað mig á alltof mikilli rítalínsneyslu íslenskra barna og alltof óábyrgs tals um eðli ofvirkni, þar sem venjuleg börn sem kunna ekki alveg að haga sér (óþekk börn) eru skilgreind sem ofvirk, sé ég mér ekki annað fært en að skrifa stutta grein um þessi mál.
- Rítalín er mild útgáfa af amfetamíni. Gárungar hafa kallað það kókaín fyrir börn.
- Rítalín inniheldur Methylphenidate. Sterkara en koffín. Veikara en amfetamín. Erfitt að venja sig af því vegna fráhvarfseinkenna.
- Samkvæmt alfræðiritinu Britannica er ekki vitað nákvæmlega hvað rítalín gerir við heilann, þó að vitað sé að það hefur þau skammtímaáhrif að fólk róast og verður einbeittara.
- Þó að rítalín hafi góð skammtímaáhrif getur það haft slæm langtímaáhrif, rétt eins og okkur getur fundist gott að borða mikið af nammi, en vitum samt að það er ekki gott í raun.
- Rítalín hefur varanleg, og hugsanlega skaðleg áhrif á heilastarfsemina, nokkuð sem hægt er að greina með heilaskanna.
- Rítalín gagnast í sumum tilfellum en getur verið skaðlegt í öðrum. Enginn getur vitað fyrirfram, hvort sem að viðkomandi er sérfræðingur í ofvirkni eða ekki, hver áhrifin verða; og því verður að fylgja notkun geðlyfja eftir með reglulegum vitjunum, ekki sjaldnar en vikulega.
- Rítalín er vinsælt í dag vegna vel heppnaðrar auglýsingaherferðar bandarískra lyfjafyrirtækja, og einkennum neyslusamfélags sem finnur hamingjuna í að kaupa lausnir í stað þess að finna þær sjálf.
- Ofvirkni hefur ekki verið skilgreind sem lífrænn sjúkdómur og þar af leiðandi ekki réttlætanlegt að bregðast við ofvirkni með lyfjum.
- Sykur- og sælgætisneysla eða vannæring valda því beinlínis að börn sýna einkenni ofvirkni, án þess að þau séu í raun ofvirk. Að gefa börnum rítalín sem mótefni við vannæringu eða sykurneyslu er mjög varasamt.
- Of mikið sjónvarpsgláp getur gert börn sljó (sama hvað sjónvarpsefnið er), og út frá því geta þau verið greind með ofvirkni, án þess að vera í raun ofvirk. Þau hafa bara vanist á aðgerðarleysið sem fylgir því að glápa á sjónvarp.
- Of mikil tölvuleikjaspilun eða Internetflakk geta gert börn óróleg í hegðun (sama hverjir leikirnir eru eða hvaða vefsíður eru heimsóttar) þar sem þau upplifa mikið frelsi til að stjórna í tölvuleikjum, venjast því, og finnst óþægilegt þegar komið er í aðstæður þar sem þau fá ekki að stjórna neinu. Þessi hegðun getur verið ranglega greind sem ofvirkni.
- Michael Moore telur vera samband á milli geðlyfjaneyslu og fjöldamorða í skólum, niðurstaða sem hann komst að nokkru eftir að hann gaf út Bowling for Columbine. Þó að Michael Moore liggi ekki á sínum skoðunum og ljóst er hverjum hann er á móti, þá hafa fáir kafað jafn djúpt í fjöldamorðin í Columbine og hann hefur gert. Að hann skuli sjá líklegt samband á milli geðlyfja og hegðun morðingjanna gefur sannarlega tilefni til frekari rannsókna.
- Notkun á rítalíni getur leitt til notkunar á enn sterkari og hættulegri efnum.
- Ofneysla á rítalíni getur leitt til ógleði, pirrings, skjálfta, ofurhröðum viðbrögðum, vöðvatitrings, yfirliði (sem getur leitt til langvarandi meðvitundarleysis), alsælu, óskýrrar hugsunar, ofskynjunar, óráðs, svita, niðurgangs, hausverkja og jafnvel dauða.
NOKKRAR ÁBYRGÐARLAUSAR SPURNINGAR:
Hverjir hagnast á því að gefa börnum rítalín?
- Lyfjafyrirtækin, því þau geta selt meira?
- Skólarnir, því þeir fá meiri fjárframlög frá bæjarfélögum fyrir ofvirk börn?
- Bæjarfélögin, því þau fá meiri fjárframlög frá ríkinu fyrir ofvirk börn?
- Ríkið, því það fær fleiri skattborgara til að starfa þegar allt er (eða virðist vera) í lagi heima hjá þeim?
- Geðlæknar, því þeir sjá ljósið, lausnina á vandamálinu?
- Kennarar, því það gerir skólastarf auðveldara?
- Foreldrar, því þá er auðveldara að stjórna börnunum og þau geta verið sáttari við sjálf sig fyrir að vita að þetta er sjúkdómur sem þau hafa enga stjórn á?
- Börnin sjálf, sem geta loksins hlýtt skilyrðislaust?
- Sálfræðingar, því þeir þurfa ekki að greina dýpri vandamál og leysa þau, þar sem hægt er að leysa öll hegðunarvandamál með pillum?
Sýnishorn úr The Drugging of Our Children:
Rítalín algengara hér en í nágrannalöndunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Back to the Future, Part III (1990) ***
10.12.2007 | 19:09
Doc Emmett Brown (Christopher Lloyd) hefur tekist að senda Marty McFly (Michael J. Fox) frá árinu 1955 til 1985, en honum að óvörum birtist Marty sekúndum síðar í allt öðrum fötum og segist vera önnur útgáfa af sjálfum sér sem búin er að fara til 1985, síðan 2015 og aftur til 1985. Svo fóru þeir félagar til 1955 til að koma í veg fyrir framtíð þar sem Biff ræður ríkjum.
Þetta er of mikið af upplýsingum fyrir kallinn. Þegar hann hefur jafnað sig og þeir félagar komast að því að Doc Brown verður myrtur í villta vestrinu, ákveður Marty að fara til villta vestursins vini sínum til bjargar. Yngri Doc Brown mótmælir ekki og sendir Marty til ársins 1885. Við það að bjarga vini sínum leggur Marty eigið líf í hættu, þar sem Mad-Dog Tannen (Thomas F. Wilson), sem hafði hug á að myrða Brown, hefur nú fengið áhuga á að myrða Marty.
Félagarnir ákveða að forða sér inn í framtíðina, en vandinn er sá að tímavélin er bensínlaus og engin bensínstöð nálægt næstu áratugina. Því verður þeim þrautin þyngri að koma tímavélinni upp í 88 mílur á klukkustund til að ferðast um tímann.
Þeir ákveða að ýta á eftir bílnum með lest. Enn einu sinni keppa þeir við klukkuna. Lestin á að koma klukkan átta að morgni, en Mad Dog ætlar í byssueinvígi við Marty á nákvæmlega sama tíma.
Til að flækja fléttuna kynnist Doc kennaranum Klöru Clayton (Mary Steenburgen) sem hann bjargar frá því að hrapa til bana ofan í Clayton gil (sem heitir þá ekki lengur Clayton gil í framtíðinni). Þau verða ástfangin við fyrstu sýn og allt í einu langar Doc Brown alls ekki að ferðast til framtíðar með Marty félaga sínum.
Þessi framhaldsmynd gerir sömu mistök og númer tvö, nefnilega gefur sömu leikurum mörg hlutverk, sem virkar einfaldlega klúðurslega og ódýrt. Michael J. Fox leikur langa-langafa Marty, og Lea Thompson leikur langömmu Lorraine, auk þess sem að Thomas F. Wilson leikur langa-langafa Biff. Þarna hefði frekar mátt bæta við fleiri góðum leikurum sem hefðu getað gefið þessum aukapersónum einhverja dýpt.
Tæknibrellurnar eru flottar sem fyrr, og sagan nokkuð skemmtileg. Hún er langt frá frummyndinni, en ef þú hafðir gaman af fyrri framhaldsmyndinni, þá er þessi töluvert betri.
Sýnishorn úr Back to the Future, part III:
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Back to the Future, Part II (1989) **1/2
9.12.2007 | 10:42
Með ferð sinni til 1955 tókst Marty (Michael J. Fox) að forða móður sinni, Lorraine (Lea Thompson) frá drykkjusýki, föður sínum (Jeffrey Weissman), sem ekki er lengur leikinn af snillingnum Crispin Glover, frá því að vera algjör lúser og systkinum sínum frá því að vera ekki lengur til eftir að móðir hans í fortíðinni varð ástfangin af honum í stað föður hans.
Doc Emmet Brown (Christopher Lloyd) birtist í tímavélinni, sem nú getur flogið, fyrir utan heimili Marty, þar sem Marty er í faðmlögum með kærustu sinni Jennifer (Elisabeth Shue tók við hlutverkinu af Claudia Wells). Það er eitthvað að í framtíð þeirra.
Doc Brown hefur sett saman áætlun til að kippa öllu í liðinn. Hún fer út um þúfur þegar hinn gamli Biff frá 2015 (Thomas F. Wilson) stelur tímavélinni og gefur Biff ársins 1955 tímarit sem inniheldur úrslit flestra íþróttaveðmála frá 1950 til 2000. Svo skilar hann tímavélinni, en þegar Marty, Doc Brown og Jennifer koma til baka er bærinn þeirra gjörónýtur vegna þess að hinn gjörspillti Biff er orðinn milljarðamæringur sem ræður öllu í bænum. Hann hefur meðal annars myrt George, föður Marty og tekið Lorraine sem eiginkonu.
Nú þurfa Marty og Doc Brown að fara aftur til fortíðar, og stela tímaritinu af Biff árið 1955, áður en hann fær tækifæri til að vinna sinn fyrsta sigur í veðmálum og gjörbreyta þannig lífi allra í bænum.
Tæknibrellur eru aftur stórgóðar og sögufléttan nokkuð skemmtileg. Hins vegar varð ég fyrir miklum vonbrigðum með leik og leikstjórn í þessari mynd. Robert Zemeckis ákveður að láta Michael J. Fox leika son sinn og dóttur, sem þýðir að brellurnar verða mikilvægari en sagan sjálf. Með réttu hefði átt að fá góða leikara í þessi hlutverk og aðeins breyta handritinu til að gera söguna meira sannfærandi. Þessi brella hefur truflandi áhrif á heildarmyndina og skaðar út frá sér. Þegar ekki er lengur hægt að taka persónurnar í myndinni alvarlega fer maður að velta fyrir sér hvort að þetta sé satíra eða hvað; en svo er ekki. Þetta er einfaldlega skortur á góðri dómgreind, sem er reyndar ekki algengt þegar Zemeckis á í hlut.
Það má segja að Zemeckis hafi ekki haft nógu mikla trú á efniviðnum til að taka hann alvarlega í framhaldi af fyrstu myndinni, sem var einfaldlega hrein snilld. Af þessum sökum er frekar erfitt að mæla með Back to the Future, Part II, en samt geri ég það. Hún er ekki alslæm, en verður að taka sem grínmynd fyrst og fremst. Það voru alvarlegri undirtónar í frummyndinni.
Sýnishorn úr Back to the Future, Part 2:
Dauði Superman - Superman: Doomsday (2007) ***
8.12.2007 | 13:36
Superman: Doomsday (2007) ***
Árið 1992 kom út teiknimyndasaga frá DC Comics um Dauða Superman, sem fylgt var eftir með Heimi án Superman og síðan Endurkomu Superman. Þetta voru hreint frábærar teiknimyndasögur, sem leyfðu sér að drepa aðalhetju allra ofurhetja, Superman sjálfan. Hann var drepinn af dularfullu skrímsli sem kallaður var Doomsday, sem eirði engu lifandi og hafði hraða og kraft á við Superman sjálfan.
Næstu hefti í Superman heiminum fjölluðu um Metropolis þar sem aðrir einstaklingar reyndu að fylla í eyðuna sem Superman skildi eftir. Þar að auki voru stofnuð trúarsamtök um ofurhetjuna góðu. Loks tókst Superman að snúa á dauðann sjálfan með aðstoð föður síns heitins, Jonathan Kent. Þetta er ekki sú saga.
Í teiknimyndinni Superman: Doomsday hafa Superman og Lois Lane átt í ástarsambandi í sex mánuði, án þess að hann þori að gefa upp að hann sé í raun Clark Kent. Lois Lane gerir sér auðvitað fulla grein fyrir því hver hann er, en sárnar að hann vill ekki treysta henni fyrir leyndarmálinu. Þau sofa saman í Virki einsemdarinnar, þar sem Superman býr, en þar er einnig vélmenni ég hafði aldrei séð áður í Superman heiminum, og minnir það helst á Alfreð, þjón Batman.
Þegar Luthercorp, alþjóðlegt fyrirtæki Lex Luthor, finnur geimskip grafið djúpt í iðrum jarðar, og hleypir óvart út skrímslinu Doomsday, þarf hetjan að gefa sig allan til að stoppa hann Það endar með að hann fórnar eigin lífi til að jarða stöðva skrímslið. Þar með er Superman allur.
Nokkrum mánuðum síðar virðist Superman vera risinn aftur, en raunin er sú að Lex Luther hefur tekist að klóna blóð úr Superman og rækta úr því ofurmenni sem hlýðir honum skilyrðislaust. Hann ætlar að framleiða her ofurmenna til þess að leggja undir sig heiminn. Aðeins Luis Lane og Jimmy Olsen standa í vegi fyrir honum.
En vélþjónninn í virki einsemdarinnar heyrir hjarta Superman slá á nokkurra vikna fresti, og heldur í þá von að það geti vakið ofurhetjuna aftur til lífsins. Tekst að vekja gamla góða Superman aftur til lífsins?
Þetta er ljómandi vel gerð teiknimynd fyrir utan eitt smáatriði sem mér fannst gífurlega pirrandi. Það er hvernig andlit Superman/Clark Kent var teiknað, með grófu pennastriki nánast frá munnviki upp í gagnauga. Án þessa eina pennastriks hefði mér líkað betur við teikningarnar, en þetta er óskiljanlegt og stílbrot sem kemur mjög illa út. Í stað gamla góða Superman stílsins í anda Max Flescher, er Superman orðinn að Anime veru. Fyrir utan það er myndin tæknilega mjög góð.
Verst þótti mér þó að ekki var fylgt upphaflegu sögunni, þar sem fylgst var með afhjúpun Doomsday sem skrímsli og síðan hvernig Superman var syrgður af öllum hinum ofurhetjunum, og síðan hvernig fjórir ólíkir einstaklingar reyndu að komast með tærnar þar sem hann hafði hælana.
Annars er þetta ágæt teiknimynd. Engin klassík þar sem að gullnum tækifærum var augljóslega hafnað til að gera einfaldara og aðgengilegra skemmtiefni.
Sýnishorn úr Superman: Doomsday: