Næsta vísindaskáldsaga í kvikmyndum var í uppáhaldi hjá mér til margra ára. Ég sá hana fyrst þegar hún var frumsýnd í Laugarásbíói árið 1982, þá tólf ára gamall. Mér fannst hún það góð að ég fór aftur næsta dag og safnaði spjöldum sem seld voru í sjoppum. Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef elst við mynjagripi úr kvikmynd. E.T.: The Extra Terrestrial er ennþá jafn góð í dag og hún var þá. Ég hef bara séð miklu fleiri myndir og smekkurinn hefur breyst.
E.T. vakti mig til umhugsunar um mikilvægi þess að taka mark á vitsmunaverum, hvort sem að þær eru börn, fullorðnir, dýr eða geimverur. Aðal vandinn sem söguhetjur E.T. þurfa að takast á við er einhvers konar sambandsleysi í víðtækum skilningi. Frábær mynd í alla staði.
Það er vel við hæfi að kíkja á E.T. yfir jólin, þar sem boðskapur hennar gæti varla átt betur við en hjá okkur í dag. Við erum svo upptekin af smáatriðum að okkur er hætt við að gleyma því sem skiptir mestu máli.
E.T.: The Extra Terrestrial (1982) ****
Litlar geimverur eru í rannsóknarleiðangri á jörðinni að skoða plöntur. Þær þurfa að hverfa frá í flýti þegar hópur rannsóknarmanna frá NASA birtast á svæðinu. Fremstur þeirra fer maðurinn með lyklana (Peter Coyote). Ein geimveran verður eftir og flýr í úthverfi smábæjar fyrir neðan skóginn þar sem geimskipið lenti.
Kvöld eitt kemst Elliott í kynni við geimveru og fær hana með sér inn í herbergi. Hann vill halda henni sem gæludýri. Fljótt kemur í ljós að það býr meira í henni en krúttlegt útlit. Hún getur hreyft hluti með hugarorku og lærir fljótt að tala frumstæða ensku. En Elliott og geimveran smella algjörlega saman og djúp vinátta verður til. Elliott finnur allar þær tilfinningar sem geimveran hefur, og öfugt. Þegar geimveran veikist eftir að hafa verið úti heila nótt, þá veikist Elliott líka.
Elliott (Henry Thomas) er ósköp venjulegur strákur. Hann á frekar erfitt með að tengjast öðru fólki, enda foreldrar hans nýlega fráskildir. Mary (Dee Wallace) heldur heimilinu gangandi með þremur börnum, sá elsti er unglingurinn Michael (Robert Macnaughton) og sú yngsta er Gertie (Drew Barrymore. Þau vilja allt gera til að hjálpa Elliott og geimverunni, en gæta sig á að láta fullorðna ekki vita, því þau finna að fullorðnum er alls ekki treystandi. Þau vita að geimveran yrði gerð að rannsóknardýri ef vísindamenn kæmust með puttana í hana, og þar sem með þeim tekst vinátta, hjálpast þau að við að finna geimverunni leið heim.
Það lítur út fyrir að bæði Elliott og geimveran séu við dauðans dyr þegar NASA rannsóknarmenn hafa uppi á þeim félögum. Þeir eru umsvifalaust einangraðir, og heimili Elliott umbreytist í rannsóknarstofu þar sem allir tala eitthvað tæknimál og er greinilega nákvæmlega sama um tilfinningar þeirra vina. Stóra spurningin er, sleppur geimveran undan NASA vísindaskrýmslinu og finnur leið heim?
E.T: The Extra Terrestrial er afar vel gerð og falleg. Handbragðið minnir að miklu leyti á Raiders of the Lost Ark, sérstaklega þegar NASA vísindamennirnir leita geimverunnar í skóginum, og þegar geimveran og félagar Elliott flýja undan á hjólum. Reyndar varð einn drengjanna síðar frægur fyrir að leika Indiana Jones (Sean Patrick Flanery) á unglingsaldri í sjónvarpsþáttunum Young Indiana Jones.
Það er allt svo undravert í þessari veröld sem Steven Spielberg tekst að skapa, þar sem aðal óvinurinn er skeytingarleysi; nokkuð sem aðalhetjan Elliott þarf að sigrast á hjá sjálfum sér en allir fullorðnir í myndinni eru þjakaðir af, fyrir utan manninn með lyklana.
Það er eins og tveimur siðfræðikenningum sé steypt hvorri gegn annarri í E.T. Í fyrsta lagi er heimur barnanna heimur þar sem hver einasti einstaklingur er ómetanlegur, en heimur fullorðinna virðist vera heimur nytjahyggjunnar, þar sem allt í lagi er að fórna einum til að bæta við þekkingu mannkyns. Eina ástæðan sem hinir fullorðnu hafa til að halda geimverunni á lífi er að hún gæti hjálpað þeim að auka við þekkingu mannkyns á heiminum; en börnin átta sig á að með dauða hennar væru þau að missa dýrmætan vin.
Spurning: hvort mikilvægara sé að mannkynið öðlist dýpri þekkingu eða að góður vinur komist heim til sín?
Tónlistin í E.T. eftir John Williams er einstaklega góð, og reyndar er þetta ein af þeim myndum þegar tónlistin verður stundum yfirsterkari myndinni á skjánum, en það er samt allt í lagi. Sumum finnst endirinn frekar væminn, en mér finnst hann hitta á hárréttar nótur sem eru viðeigandi efninu.
E.T.: The Extra Terrestrial er upplifun sem enginn áhugamaður um vísindaskáldsögur á hvíta tjaldinu ætti að láta fram hjá sér fara.
Sýnishorn úr E.T.
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Þetta ár var nú ekkert sérlega gott ár í mínu lífi, ég missti manninn minn í apríl og eignaðist okkar annað barn í september, en myndin er góð ekki spurning, hef enn gaman af að sjá hana. Gleðileg jól kæri vinur og takk fyrir þitt skemmtilega blogg, hefur oft glatt mig og kætt og frætt líka. Kær kveðja.
Ásdís Sigurðardóttir, 22.12.2007 kl. 20:55
Þetta val kemur ekki á óvart, marga vini þína hefur legni grunað að þú ættir rætur að rekja utan sókerfis okkar ...
Hvernig væri bíóferð yfir hátíðarnar? Máske http://imdb.com/title/tt0425413/ ???
Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 23:00
E.T. er ekta jólamynd. Ég hágrét yfir henni á sínum tíma. Var enn tárvotari en sonur minn. Gleðlileg jól!
Steingerður Steinarsdóttir, 23.12.2007 kl. 09:36
Ég er bara að kasta jólakveðju á þig kæri bloggvinur.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár!
Kv Sigríður
Sigríður Jónsdóttir, 23.12.2007 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.