Færsluflokkur: Íþróttir

So?

so02

Hann er nýorðinn 16 ára. Gífurlegt náttúrutalent. Hann var tiltölulega óþekktur fyrir mótið þrátt fyrir að vera stigahærri en allir íslensku stórmeistararnir, en nú beinist athygli heimsins að honum. Hann tekur þátt í heimsmeistaramóti FIDE og hefur þegar rústað tveimur keppendum sem fyrir mótið þóttu meðal þeirra sigurstranglegri. Þessi drengur heitir Wesley So og er frá Filippseyjum.

Það er saga til næsta bæjar þegar 16 ára drengur gerir jafntefli við stórmeistara, hvað þá að sigra tvo ofurstórmeistara í röð, þá Vassily Ivanchuck og Gata Kamsky, sem báðir hafa í áratugi verið á toppi skákheimsins.

Þetta er eitt af því sem gerir skákina skemmtilega. Þegar tveir keppendur setjast við skákborðið skiptir engu máli hefðbundnir hlutir eins og kyn, aldur, þjóðerni, menning eða trúarbrögð, heldur fyrst og fremst þekking viðkomandi skákmanns, sjálftraust, skilningur, úthald, einbeiting og áhugi.

Hinn norski Magnús Carlsen hefur verið stóra barna- og unglingastjarnan í nokkur ár, en nú hefur So birst og gæti auðveldlega orðið að helsta keppinauti Carlsen um heimsmeistaratitil í skák, en eins og þeir sem fylgjast með íþróttinni varð Carlsen heimsmeistari í hraðskák fyrr í þessum mánuði, aðeins 18 ára gamall.

Sigurskák So gegn Kamsky:

Kamsky,G (2695) - So,W (2640) [C11]
Heimsmeistaramót FIDE Khanty-Mansiysk RUS (3.1), 27.11.2009

1.e4 e6 2.d4 d5 3.Rc3 Rf6 4.e5 Rfd7 5.f4 c5 6.Rf3 Rc6 7.Be3 Db6 8.a3 cxd4 9.Rxd4 Bc5 10.Ra4 Da5+ 11.c3 Bxd4 12.Bxd4 Rxd4 13.Dxd4 b6 14.Be2 Ba6 15.Bd1 Db5 16.b4 Hc8 17.Rb2 Dc6 18.Hc1 0-0. 19.a4 Bc4 20.Bg4 Bb3 21.0-0 Bxa4

22...Bb5 23.Hfe1 Hfe8 24.He3 f6 25.fxe6 Rxe5 26.Bf5 g6 27.Bh3 Dd6 28.Hd1 Hcd8 29.Hd2 De7 30.Hf2 Rc6 31.Dd2

31...d4! 32.He4 dxc3 33.Dxc3 Hf8 34.g4 Hd6 35.Bg2 Re5 36.g5 Hxe6 37.gxf6 Hfxf6. 38.Hxf6 Dxf6 39.He3 Bc6 40.Rd1 Dg5 41.Hg3 Df4 42.Rf2 Bxg2 43.Kxg2 Rc4 44.Dd3 Re3+ 45.Kg1 Rf5 46.Dd5 Dc1+ 47.Rd1 Kf7 48.Hc3 Dg5+ 49.Kf2 Df4+ 50.Kg2 Dg4+ 51.Kf2 De2+ 52.Kg1 De1+ 53.Kg2 Kg7 0-1.

Gaman að þessu.

 

Myndir og skák: Chessbase 


Unnið að endurreisn mannorðs Íslendinga erlendis: Vann borðaverðlaun á Noregsmeistaramóti Skákfélaga 2009

spillelokale-300x225

Ég átti unaðslega helgi. Sat að tafli alla helgina. Tefldi sex kappskákir á þremur dögum, sem sumum þykir svolítið of mikið af hinu góða, en mér finnst ágætt.

Fyrir um tveimur mánuðum síðan gekk ég í Taflfélag Osló, OSS, og hef teflt hjá þeim í tveimur atskákmótum þar sem ég var þriðji í bæði skiptin, og einnig hef ég verið að tefla í meistaramóti félagsins, gengið hörmulega, með 1.5 vinning eftir fimm umferðir. Ég kenni flensunni um slaka einbeitingu í öllum jafnteflisskákunum, en síðustu tapaði ég af tómum klaufaskap.

moen-225x300
Formaður taflfélags Osló, Ole Christian Moen

Þrátt fyrir slakan árangur í meistaramótinu fékk ég tækifæri til að tefla með b-liði félagsins, enda virðist alltaf vanta liðsmenn sem eru sífellt áfjáðir í að tefla. Þannig er ég. Þegar John Kristian Johnsen liðstjóri spurði mig hvað ég vildi tefla margar, sagðist ég tilbúinn að tefla allar, enda veit ég að fyrir liðstjóra er ekkert verðmætara en að hafa liðsmann sem er til í að leggja sig allan fram. Hann var frekar hissa, en sagði svo að Íslendingar væru bara svona helvíti harðir, alltaf tilbúnir að leggja sig 110% fram. :)

Ég náði góðri einbeitingu allt mótið og tefldi þrjár skákir sem ég var ánægður með, en þrjár aðrar svolítið gallaðar.

baldursson-300x225
Tek við borðaverðlaunum af skipuleggjanda mótsins Torstein Bae fyrir besta árangur varamanns.

Sem varamaður tefldi ég alltaf á 4. borði og andstæðingar því ekkert endilega alltaf súpersterkir, en þeir voru samt flestir vel með á nótunum. Ég fékk 5.5 vinninga af 6 mögulegum, en var heppinn í jafnteflisskákinni, þó að hún hefði getað snúist mér í vil á endasprettinum. Til samanburðar fékk besti keppandi á fjórða borði 4 vinninga af 6. Andstæðingar mínir voru að styrkleika 1200-2000 norsk stig, en ég lenti í mestum vandræðum með 1600 stiga ungling. Hans mistök voru að berjast fyrir að ná jafntefli gegn þessum hættulega Íslendingi, og reyna ekki að vinna auðunna stöðu. Miðað við stöðuna á borðinu hefði hann unnið skákina hefði hann verið aðeins sterkari, hann sá einfaldlega aldrei leikina sem hefðu veitt mér náðarhöggið, en ég var í þeirri óþægilegu stöðu að sjá þá og vonast til að hann léki þeim ekki. 

asker09-300x225
Sigurvegararnir (frá vinstri): Berge Østenstad, Jonathan Tisdall, Carl Fredrik Ekeberg, Nils Grotnes og Jøran Aulin-Jansson.

Þetta var stórskemmtilegt mót. A-sveit Asker sigraði á mótinu með 18.5 vinninga af 24 mögulegum, en þetta mót er svolítið öðruvísi en heima. Noregur er að miklu leyti eins og Ísland var fyrir um 10 árum síðan, áður en útrásin byrjaði og ekkert lið er með liðum á Íslandsmóti skákfélaga án þess að kaupa sér liðsauka frá útlöndum. Norðmenn gera ekki slíkt, heldur eru allar sveitir fullar af félagsmönnum sem hafa viðkomandi félag sem aðalfélag.

Lið Asker skipuðu stórmeistararnir Berge Østenstad og Jonathan Tisdall, alþjóðlegi meistarinn Bjarke Sahl, sem og FIDE meistararnir Carl Fredrik Ekeberg, Nils Grotnes og Jøran Aulin-Jansson.

Lið Taflfélags Osló lenti í 2. sæti með 17.5 vinninga. Það vantaði herslumuninn upp á til að sigra á mótinu, en liðmenn voru að mínu mati ekki nógu samstilltir. Sumir af sterkustu mönnum félagsins voru ekki tilbúnir að bjóða fram krafta sína í allar umferðir, sem ég held að sé veikleikamerki. Þar að auki eru tveir sterkustu keppendur félagsins að tefla á Evrópumeistaramóti landsliða, stórmeistararnir Jon Ludvig Hammer og Leif Erlend Johannessen, en fjarvera þeirra gaf mér hins vegar tækifæri til að komast inn á sem varamaður b-sveitar. Eftir mótið sagði formaður félagsins, Ole Christian Moen, að ég væri kominn á lista yfir kandídata í a-sveitina eftir þennan árangur, og get því státað af að vera á topp 20 lista sterkasta taflfélags Noregs í augnablikinu. Ég er svolítið stoltur af sjálfum mér í augnablikinu. :)

sc3b8lv-300x225
A-sveit OSS (frá vinstri): Emanuel Berg, Daniel Kovachev, Andreas Moen og Ørnulf Stubberud. Einnig tefldu Atle Grønn, Kristian Trygstad og Nicolai Getz fyrir liðið en þeir mættu ekki á verðlaunaafhendinguna.

Við verðlaunaafhendinguna var skemmtileg stemmning, en það voru veitt mörg aukaverðlaun: borðaverðlaun, besti árangur sveitar undir 1200, 1600 og 2000. Besta barna- og unglingasveitin.

Hægt er að lesa góða yfirlitsgrein um mótið hér á norsku, en þarna fann ég myndir og nöfn keppenda. 

Ég stefni á að skrifa um mótin sem ég tefli á, hvort sem um hraðskákmót, atskákmót eða kappskákmót er að ræða, og sama hversu vel eða illa mér gengur, aðallega til að skrásetja minninguna. 


Íslandsmót skákfélaga frá sjónarhorni liðsmanns í KR

 

 

Félagar mínir hjá KR fengu mig til Íslands að keppa með þeim á Íslandsmóti skákfélaga 2009-2010. KR sendir 5 sveitir í keppnina, en ég tefldi á 3. borði í a-sveit félagsins. Liðstjóri sveitarinnar er Einar S. Einarsson. Þessi grein verður svolítið sjálfhverf, enda hverf ég algjörlega inn í heim skákanna sem ég tefli, og utanaðkomandi umhverfi og öfl gleymast nánast algjörlega á meðan klukkan tifar.

Ég var ekki eini liðsmaðurinn sem fenginn var erlendis frá, en Nikolai og Sören Bech sem tefldu á 1. og 2. borði eru báðir danskir skákmenn. Ég tefldi á 3. borði. Aðrir liðsmenn sveitarinnar eru þekkt nöfn úr íslenskri skáksögu og hafa gert skákgarðinn frægan bæði og Íslandi og víða um heim í marga áratugi. Þeir sem þekkja íslenska skáksögu sæmilega ættu að skilja af hverju ég er stoltur af því að keppa með slíkum köppum. Þeir sem tefldu með a-sveit KR eru:

  1. Nikolai Skousen
  2. Sören Bech Hansen
  3. Hrannar Baldursson
  4. Jón Torfason
  5. Jóhann Örn Sigurjónsson
  6. Jón G. Briem
  7. Gunnar Gunnarsson
  8. Jón G. Friðjónsson
  9. Ingimar Jónsson
  10. Harvey Georgsson

Árangur okkar var ágætur. Við töpuðum engri viðureign þrátt fyrir að hafa keppt við afar sterkar sveitir. Okkur tókst meðal annars að sigra a-sveit Akureyringa, sem höfðu unnið stórsigra í 1. og 2. umferð, sveit sem hefur alla tíð verið í 1. deild. Gylfi Þórhallsson bjargaði Akureyringum frá stórtapi í klassískri skák með því að reynast ótrúlega úrræðagóður í erfiðri stöðu gegn Jóhanni Erni Sigurjónssyni. Akureyringar ættu að reisa Gylfa styttu fyrir þessa skák.

Við gerðum jafntefli við b-sveit Taflfélags Reykjavíkur í fyrstu umferð, en þá tapaði undirritaður fyrir Daða Ómarssyni í baráttuskák þar sem ég slysaðist inn á slóðir sem voru Daða mun kunnugri en mér, fór hundsvekktur heim það kvöldið, kom hungraður til baka næsta dag og vann rest, þá Helga Jónatansson úr a-sveit Reykjanesbæjar með fallegri fórn, Halldór B. Halldórsson eftir langa baráttu þar sem biskup hans var veikari en riddari minn, og Magnús Gíslason frá Skákfélagi Akranes, þar sem hann byggði upp ágæta stöðu en féll á tíma rétt þegar slagurinn var að hefjast. Við töluðum einmitt um það fyrir umferð að keppni á milli ÍA og KR hefðu ávallt verið klassískar og vonuðumst við eftir skemmtilegum skákum. Sú skemmtilegasta var á milli Gunnars Gunnarssonar og Árna Böðvarssonar á 6. borði, en sú skák endaði með jafntefli eftir sviptingar sem jafnast á við Gamlárskvöld 2006.

 

 

Að loknum fyrstu 4 umferðunum stöndum við ágætlega, erum í 3. sæti og búnir að fá afar sterka andstæðinga. Mig hlakkar til að koma aftur til Íslands í vor og tefla þær umferðir sem eftir eru.

Á Íslandsmóti skákfélaga er margt um manninn. Fullt af gömlum félögum og vinum, sem og skákmönnum sem maður hefur oft mætt yfir borðinu en ekki tengst neinum vinarböndum, enda skák í sjálfu sér íþrótt þar mestu skiptir baráttuþrek, áhugi, þrautseigja, einbeiting, sköpunargleði, útsjónarsemi, góð undirstöðuþekking á fræðunum og djúp þekking á nýjustu kenningum um byrjanir, og stundum finnst mér eins og ég sé að mæta fornum fjanda sem vill komast inn í sál mína og rústa öllum stöðugleika hennar og trú, að minnsta kosti þar til tekist er í hendur að skák lokinni.

 

Einar S. Einarsson, liðsstjóri KR sveitanna, tók myndirnar, en fleiri myndir má finna hér.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands og Don Hellismafíunnar gerði upp keppnina hér á afar skýran og góðan hátt, eins og við má búast af Gunnari, en Magnús Pálmi Örnólfsson skrifar einnig pistil og hér má lesa hans hlið málsins.

Sama hvað hver segir um skák á Íslandi og íslenska skákmenn, þá er Íslandsmót skákfélaga jól okkar skákmanna sem finnst gaman að hittast og taka nokkrar bröndóttar í góðum félagsskap.


Salaskóli að brillera á Norðurlandamóti í skólaskák!

 


 

Eftir þrjár umferðir er sveit Salaskóla komin með 10.5 vinninga af 12 mögulegum, en Svíar I og II, auk Dana eru í 2.-4. sæti með 6 vinninga. Ég man ekki eftir jafn glæsilegri byrjun á Norðurlandamóti.

Tómas Rasmus fer með liðinu sem liðstjóri og heldur vel utan um heilbrigt líferni og góðan húmor í hópnum. Mér er þetta sérstök ánægja því að ég þjálfaði börnin í liðinu frá 2004 til 2007 ásamt Tómasi, en þegar ég hætti nokkrum mánuðum eftir að skólinn vann heimsmeistaratitil, tóku við þjálfuninni stórmeistararnir Henrik Danielsen og Þröstur Þórhallsson, en þeir hafa greinilega styrkt liðið enn frekar.

Ég vil óska mínum gömlu, en jafnframt ungu félögum innilega til hamingju með frábæra byrjun. Nú er bara að klára þetta á morgun!

Liðið skipa:

  • Patrekur Maron Magnússon
  • Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  • Páll Snædal Andrason
  • Eiríkur Örn Brynjarsson
  • Guðmundur Kristinn Lee
  • Tómas Rasmus, liðsstjóri

Hvað er heimurinn? Kúla, heild, hugmynd, tákn eða sundruð veröld í tíma sem líður misjafnlega hægt eða hratt?

 

Í gær sótti ég alþjóðlega ráðstefnu í Osló þar sem fræðimenn úr ýmsum fögum veltu fyrir sér eðli heimsins.

Það virðist ekki skipta máli úr hvaða fræðigrein viðkomandi kemur, alltaf er leitað til tveggja grundvallarhugtaka: tíma og rúms. Talað var um heimstíma annars vegar, og síðan hvernig fólk upplifir tímann á ólíkan hátt eftir ólíkum menningarsvæðum og störfum.

Til dæmis var rætt um það hvað tíminn virðist sífellt líða hraðar, og sérstaklega í samkeppnissamfélagi þar sem allir keppast um að vera fljótari en hinir til að ná tímans gæðum. En þegar spurt er hvað það er sem við stefnum á með öllum þessum hraða verður oft fátt um svör. Við trúum kannski að það sé einhver betri heimur, en er það virkilega raunin?

Hugsanlega kemur sú stund að þessi hraði leiðir okkur ekki í sjálfvirka þróun, heldur bara út í einhverja óreiðu og vitleysu, svona rétt eins og ávanabundin fíkn - og eina leiðin út úr slíkri óreiðu verður algjör endurhæfing og með því mun spretta sterk þörf fyrir trúarbrögð og æðri máttarvöld - því að þegar í óefni er komið og fólk getur ekki bjargað sér, þarf það að finna einhvern æðri tilgang.

Einnig veltu fræðimenn fyrir sér hvort að nútíminn væri liðinn og hvað gerðist þegar nútíminn væri á enda. Getur verið að við séum kannski á síðustu augnablikum nútímans, en 'nútíminn' þrátt fyrir orðið, er trú um að heimurinn sé á einhvern ákveðinn hátt akkúrat NÚNA.

Hvernig er þá þessi trú okkar um nútímann? Höfum við öll sömu trú? Hvernig er veruleikinn um heiminn óháð trú okkar og skoðunum? 

Sum okkar þegar við reynum að teikna upp heiminn sjáum fyrir okkur jörðina sem hnött, aðrir sjá ennþá lengra út í geym og undir yfirborð jarðar, en hugtakið sem virðist vera ofaná er að jarðkúlan sé heimili okkar. Hvernig þessi jarðkúla er í raun og veru getur síðan verið erfitt vandamál að glíma við.

Það er nefnilega ekki nóg að fá gervihnattamynd af jörðinni, benda á hana og segja þessa bláu kúlu vera heiminn. Þegar aðrir menningarheimar eru skoðaðir, kemur í ljós að til dæmis ættbálkar í Pólinesíu trúa að hver einstaklingur fæðist innan í svona kúlu sem sköpuð er af móður viðkomandi, og að á leiðinni gegnum lífið bætist við nýjar og stærri kúlur sem hafa í för með sér réttindi og stöður í samfélaginu.

Enn önnur pæling barst að því að hugmynd okkar um heiminn væri að finna í þeim textum sem skrifaðir hafa verið um aldirnar og haft hvað mest áhrif á mannkynið. Með þessum hætti fer þá skilningur okkar á heiminum fram með táknrænum hætti, og í raun og veru væri heimurinn þá ekkert annað en táknmyndir sem spretta fram úr textum. Spurning hvort að kalla mætti það goðsagnir.

Enn ein pælingin fólst í spurningunni um mögulega heima, og aðgreiningunni á skáldheimum og mögulegum heimum, en skáldheimar eru búnir til með ákveðnum merkjum sem við skiljum, en hafa alltaf þann galla að vera endanlegir. Mögulegur heimur er hins vegar nær veruleikanum, því að við gerum okkur mynd af raunverulegum heimi, og með sífellt betri upplýsingum og sönnunargögnum komumst við nær því að gera okkur mynd af því sem heimurinn er í raun og verum.


Þær vangaveltur sem höfðu þó dýpstu áhrifin á mig var þegar rætt var um hvernig við sjáum heiminn gegnum hnattvæðinguna, þar sem léttvægar hugmyndir og hlutir flæða yfir veröldina nánast óhindrað, en strax og kemur að dýpri speki, guðfræði og raunverulegri menningu þjóða, þá verði strax til tregða. Mesta hindrunin felst hins vegar í landamærum heimsins, þar sem lokið er fyrir flæði fólks, þrátt fyrir að hugmyndir þeirra megi fljóta yfir landamærin nokkuð frjálst, hugsanlega á Internetinu.

Internetið virðist vera að búa til ákveðna trú um heiminn, vera hálfgert dogma, kenning um heiminn, nánast trúarbrögð (eða töfrabrögð) þar sem við sjáum ekki lengur landamæri heimsins heldur sjáum við stöðugt heildarmyndina og förum að trúa því að allir jarðarbúar séu jafnir.

Mætirðu hins vegar á staðinn þar sem fólk er að klifra rafmagns og gaddavírsgirðingar til að flýja eigið land og inn á "frjáls" landsvæði eins og Evrópu eða Bandaríkin, þá renna á þig tvær grímur. Það sem virðist nefnilega einkenna heiminn er ekki heild, eins og við höfum sterka tilhneigingu til að halda, heldur eru það sundranir sem sýna okkur hvernig heimurinn er.

Dæmi um slíka sundrun er að nú hafa verið háð stríð á þeirri forsendu að mannréttindi hafa verið brotin. 

Í lok ráðstefnunnar var ég afar pirraður, enda hafði heimsmynd mín orðið fyrir miklum áhrifum. Ætlunin var að fara í mat eftir ráðstefnuna, en ég hafði enga lyst - ég hafði alltof mikið af hugans mat til að melta, og er enn að því. Fyrstu viðbrögð mín eftir ráðstefnuna voru að þetta hafði verið tómt rugl, en nú þegar þetta er allt að síast inn og ég að átta mig á alla þá undrun sem ég upplifði á þessum fáeinu klukkustundum, hefur gefið mér tilefni til að hugsa um heiminn út frá nýjum forsendum - og með því fararnesti ekki aðeins bætt sjálfan mig, heldur hugsanlega heiminn eitthvað með.

Því ef við reynum að bæta heiminn án þess að vita hvað heimurinn er, getum við þá virkilega vitað með vissu að við séum að bæta heiminn?

Eftir á að hyggja er ég afar sáttur við að hafa mætt á þessa ráðstefnu, enda finn að búið er að kveikja í mínum gömlu hugmyndum og nýjar að glæðast. Ég vil þakka þeim Helge Jordheim, Hartmut Rosa, Dorthe Gert Simonsen, Helen Kelly Holmes, Pia Lane, Ingjerd Hoem, Karen Gammelgaard, Kristin Asdal, Anne Eriksen og Katja Franko Aas fyrir að kveikja hjá mér þessar vangaveltur um heiminn.

Ég er sérstaklega þakklátur fyrir að sjá hversu grunna hugmynd ég hafði um heiminn og hversu langa ferð ég á enn fyrir höndum. 

 

Svona sér McDonalds heiminn:



Myndir:

Jörðin frá tunglinu: Cosmos4Kids

Nútími Charlie Chaplin: The Jog

Landamæri: InfoWars

Eldspýtur: PhotoBucket


Stórmeistara rúllað upp af 9 ára gutta

Ég skoðaði skákina, sem er hægt að skoða með því að smella á myndina, og get staðfest að þessi sigur var enginn grís. Strákurinn tefldi alveg feikivel, með svart í spænska leiknum og lék hárrétt fram í 16. leik og tefldi síðan eins og stórmeistari eftir það. 

 
hetual_shah
Smelltu á myndina til að skoða skákina.

Þetta gerðist í gær á skákmóti í Nýju Delí. Hinn 9 ára gamli Hetul Shah frá Indlandi sigraði hinn 34 ára gamla stórmeistara Nurlan Ibrayev frá Kazakstan, og sló þannig heimsmet, því að hann er yngsti skákmaður frá upphafi sem sigrar stórmeistara í kappskák.

Það er ljóst að Indverjar eru að blómstra sem skákþjóð. Heimsmeistarinn Anand er Indverji, heimsmeistari unglinga, Abhijeet Gupta, er Indverja og heimsmeistari unglingsstúlkna, Dronavalli Harika, er einnig Indverji.

Ég hefði ekki viljað vera í sporum Ibrayev, en hann er atvinnumaður í skák og hefur mikinn heiður að verja. Reyndar er hann "aðeins" með 2403 stig, sem er frekar lítið fyrir stórmeistara. En til samanburðar, þá er þetta eins og ef Eiði Smára hefði verið skipt út af hjá Barcelona fyrir strák úr 5. flokki.

Þetta sýnir bara og sannar að börn eru ekki framtíðin, þau eru nútíðin.

Málið er að börn geta svo miklu meira en við teljum. Með umönnun, alúð og góðri menntun geta börn öðlist mikinn styrk, því þau læra svo hratt. Ef níu ára barn getur talað jafn vel og fullorðin manneskja, af hverju ætti hún ekki að geta teflt jafnvel og slík manneskja.

Er óhugsanlegt að níu ára barn geti hugsað skýrar og af meiri tilfinningu en sextug manneskja sem hugsar með afbrigðum vel?

 

Lokastaðan:

 lokastadan_ibrayev_shah.jpg
Ibrayev - Shah
0-1

 

Ungmenni skal umgangast af virðingu. Konfúsíus (551-479 BC)

 

Manneskja sem er ung að árum getur verið gömul í klukkustundum, ef hún hefur ekki glatað neinum tíma. Francis Bacon (1561-1626) 


Flottasta mark allra tíma?

Skoðaðu myndbandið og dæmdu:

Sancho klikkar ekki frekar en fyrri daginn, og ég viðurkenni að öll þessi mörk eru svolítið flottara en mark Stefáns, þó að gott sé. Whistling

 

 

CARLOS


 

Ibrahimovic





Henry





Maradona





RONALDINHO!!


mbl.is Stefán Gíslason átti mark ársins í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland!

Mér fannst vanta eitthvað af leikgleðinni sem hefur einkennt liðið alla keppnina, enda lentu þeir á vegg þar sem franska vörnin stóð föst fyrir með markvörð á bakvið sem hirti alla vafasama bolta. Mig grunar að strákarnir hafi breytt svolítið hugarfarinu, ætlað að taka þetta, ætlað að vinna; en það hugarfar virkar einfaldlega ekki jafn vel og að taka hvern leik sem æfingaleik fyrir þann næsta á eftir.

Eitt það erfiðasta við að ná svona langt er að halda fullri einbeitingu og því hugarfari sem skilað hefur liðinu jafnlangt og það gerði. Ég hef nefnilega trú á að Íslendingar hefðu getað tekið franska liðið og geta það á góðum degi.

Frábær frammistaða engu að síður og er ég hæstánægður og gífurlega stoltur af strákunum, þar sem handbolti hefur verið sú íþróttagrein sem ég hef fylgst best með gegnum tíðina (fyrir utan skák). 

Framtíð handbolta á Íslandi er svo sannarlega björt.


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndband af hlaupinu sjálfu (ekki enn verið fjarlægt af vefnum): Heimsmeistari í 100m og 200m spretthlaupi hneykslar heimsbyggðina þegar hann fagnar sigri með fokkmerki í beinni útsendingu


OB-CC612_bolt_8_20080820142406

Ég vil taka það skýrt fram að í þeim myndböndum sem eru sýnd á þessari síðu sést ekki þegar Bolt gefur hið umdeilda fokkmerki, en einu merkin um það birtast í texta fréttarinnar, og umtali frá ólíkum fréttastofum um meinta finguruppréttingu.

Hegðun hins kaldhæðna Usain Bolt sem er þekktur fyrir að grínast með fréttamenn á svipuðum nótum og Silvía Nótt, hefur verið mikið í umfjöllun, en áður en hann kom í mark byrjaði hann að fagna og hægði á sér og eftir að hafa brunað á heimsmetshraða yfir 100 m línu hljóp hann í hring með fána Jamaíka án þess að klappa andstæðingum sínum á bakið og gaf svo sjónvarpsmyndavél fokkmerki með löngutöng (nokkuð sem ég hef ekki séð sjálfur þar sem ég finn hvergi myndbönd um hlaupið). Bolt á líka 22 ára afmæli í dag.

 

ub446

 

Þetta blessaða fokkmerki getur nú þýtt ýmislegt. 

Var Bolt að sýna heiminum vanvirðingu eða var hann einfaldlega að segja:

"Djöfull hleyp ég andskoti hratt, þið getið aldrei náð mér helvítin ykkar?"

eða 

"Farið öll til helvítis. Ég get þetta einn án hjálpar. Þið eruð ekkert. Ég er allt."

eða

"Djöfull er þetta gaman! Ég ætla sko að detta í það á eftir."

 eða 

"Úff! Erfitt hlaup maður."

eða 

"Þið náið mér aldrei, ligga ligga lá."

eða

"Nú kemst ég loksins á séns."

eða 

"Látið mig vera."

eða 

"Ég má haga mér eins og mér sýnist. Ég hef hlaupið hraðar en nokkur manneskja á jarðríki hefur áður gert og mun hugsanlega nokkurn tíma gera. Ég er konungur heimsins. Jú-hú!"

eða einfaldlega það sem hann sagði:

"Ég er númer eitt!"

r284170_1209537

Hvernig er hægt að tala um að einhver ákveðin hegðun sé viðeigandi fyrir mann sem hefur alla sína ævi barist fyrir því að vera svolítið öðruvísi.

Megi hann njóta sigursins sama hvernig hann hagar sér eftir á.

Eitt merki getur þýtt svo margt.

Hegðun getur verið misskilin sem hroki vegna hleypidóma.

 

Til hamingju með sigurinn ThunderBolt! Og til hamingju með 22 ára afmælið!

 

  • Er hegðun Bolt hneykslanleg eða óíþróttamannsleg?
  • Ætti að ávíta hann fyrir þetta?
  • Eða er þetta allt í lagi?

 

Hvað finnst þér? 

 

 

Sjálfum er mér slétt sama, þar sem að Bolt virðist bara vera svolítið kjánalegur, en finnst líka að allir eigi rétt á að vera svolitlir kjánar og skrýtnir, ef það er það sem þeir vilja. Það gefur lífinu meiri lit og fólkinu tjáningarfrelsi.

Yfirleitt finnur maður svona merkisatburði strax á Youtube, en það virðist vera búið að þurrka út öll myndbönd sem sýna þetta hlaup.

 

Samt tókst mér að finna myndbandið með 200 m sigri hans, á frönsku:



og myndbandið sem sýnir 100 m hlaupið.


mbl.is Óánægðir með hegðun Bolt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Stefánsson: Við hleypum engum neikvæðum hugsunum að. Það er annaðhvort sigur eða BLEEP!

Það var gaman að fylgjast með lokamínútum leiksins, en spennan var óbærileg og ómetanlegt þegar Björgvin Páll Gústavsson varði hvert skotið á fætur öðru og Alexander Petterson, Guðjón Valur Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson skáru sig í gegnum pólsku vörnina eins og hnífur gegnum volga smjörklípu.

Það allra besta við íslenska liðið finnst mér hið góða hugarfar sem birtist í fyrsta leik þeirra gegn Þjóðverja. Þeim hefur tekist að halda í það, og gera sitt allra besta til að hugsa um hvern leik sem æfingaleik fyrir þann næsta. Þannig halda þeir ró sinni, en maður veit að sigurviljinn er þeim í brjósti borinn þannig að það er engin þörf til að hamra alltaf á mikilvægi þess að sigra. Við vitum það öll.

 


 

 

Næsti æfingaleikur verður annað hvort við Suður Kóreu eða Spán. Það verður spennandi að fylgjast með þeim leik, og óskandi að íslenska landsliðið taki honum einfaldlega sem æfingaleik fyrir næsta leik á eftir, sama hvort að það verður um 1. sætið eða 3. sætið.

Mér fannst einstaklega gaman að hlusta á Ólaf Stefánsson segja frá hugarfarinu eftir leikinn, þar sem hann tók skýrt fram að þeir hleyptu engum neikvæðum hugsunum að. Og notaði orðið BLEEP í stað þess að minnast á þann möguleika að hægt væri að tapa. 

Það er ljóst að íslenska þjóðin getur lært heilmikið af strákunum okkar, og þeim til heiðurs ætla ég ekki að hleypa neinum neikvæðum hugsunum að í dag, - ekkert frekar en aðra daga. 


mbl.is Ísland í undanúrslit á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband