Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 14. sæti: Back to the Future

Áfram með listann um 20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum. Næsta mynd er léttari í tón en maður á að venjast þegar vísindaskáldsögur eru annars vegar, og reyndar er meira lagt upp úr fjölskyldutengslum en vísindunum sjálfum. Vísindin í Back to the Future snúast um tímavél sem Doc Emmett Brown hannar, en Marty McFly notar og lendir í heimi þar sem hann er jafnaldri foreldra sinna. Brátt verður hann að traustasta vini föður síns og móðir hans verður það skotin í honum að honum er vart huguð tilvist.

Það er skemmtilega leikið með þverstæður tímaferðalaga, persónurnar eru eftirminnilegar og sagan spennandi. Það er varla hægt að biðja um meira. Það var reyndar gert og fylgdu tvær lakari framhaldsmyndir í kjölfarið. 

 

Back to the Future (1985) ****

Unglingurinn Marty McFly (Michael J. Fox) á í miklum erfiðleikum með tímastjórnun, eins og algengt er meðal unglinga. Hann sefur oft yfir sig og mætir of seint í skólann. Hann þráir að verða tónlistarmaður en skortir kjark til að senda inn upptökur sínar af hræðslu við höfnun.

Foreldrar Marty eiga við mikil vandamál að etja. Þau ná engan veginn saman. Móðir hans, Lorraine, drekkur mikið og er of þung; og faðir hans, George (Crispin Glover) hefur látið gamlan skólafélaga sinn, Biff (Thomas F. Wilson) komast upp með einelti í áratugi og þannig tapað sjálfsvirðingunni.

Marty ætlar að taka kærustu sína Jennifer (Claudia Wells) í sumarbústað þegar Biff lendir í árekstri á fjölskyldubílnum með bjór við hönd. Það er semsagt töluvert mikið í uppnámi hjá strák.

Besti vinur Martys er léttgeggjaði vísinda- og uppfinningamaðurinn Doc Emmett Brown (Christopher Lloyd). Þeir kynntust nokkrum árum áður en Marty fæddist þegar Doc hjálpaði honum að ferðast inn í framtíðina. Hann hefur nefnilega fundið upp tímavél sem lítur út eins og DeLorean sportbíll.

Þegar líbverskir hryðjuverkamenn komast að því að Doc hefur stolið frá þeim töluverðu magni af plútóníum, sem þeir ætluðu að nota í kjarnorkusprengju, plaffa þeir hann niður með vélbyssum. Marty er næsta skotmark en honum tekst að flýja inn í tímavélina og 30 ár aftur í tímann. Þar sem hann tók ekkert plútóníum með til fortíðarinnar kemst hann ekki til baka.

Hann leitar að Doc Brown og tekst að sannfæra hann um tilvist tímavéliarinnar og ferðalagið, og saman ætla þeir að koma Marty aftur til framtíðarinnar. Það er þarna sem Doc Brown hittir Marty ófæddan í fyrsta sinn. 

Marty hafði áður en hann fann Doc Brown rekist á George föður sinn og komið óvart í veg fyrir að hann hitti Lorraine, móður Marty, í fyrsta sinn. Það sem verra er, Lorraine verður yfir sig hrifin af Marty - sem sér fram á að hans eigin tilvist mun mást út ef honum tekst ekki að ná foreldrum sínum saman.

Það er frekar erfitt mál þar sem mamma hans lítur ekki við hinum óframfærna George. Ekki batnar ástandið þegar Biff hinn nautheimski þrjótur kemur stöðugt í veg fyrir samræmingaráform Marty.

Marty þarf að leysa þessi vandamál fyrir klukkan 22:04, en þá mun eldingu ljósta niður í klukkuturn sem gefur tímavélinni fært að fleyta honum til framtíðarinnar. Framtíð hans veltur á að leysa nokkur vandamál á réttum tíma, sem er nokkuð krefjandi vandamál fyrir ungling sem hefur enga stjórn á eigin tíma. Lykilþáttur í lausn vandans er eitt flottasta kjaftshögg kvikmyndasögunnar.

Tæknilega er Back to the Future afbragðsvel unnin. Persónurnar eru eftirminnilegar og stórskemmtilegar; svo og vandamálin sem Marty þarf að leysa. Sagan gengur fullkomlega upp á endanum, allir lausir endar hnýttir vel saman og síðan opnaðir upp á gátt rétt áður en myndinni lýkur. Ég hef sérstaklega gaman af endi sem gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn. Gerðar voru tvær framhaldsmyndir sem fjallað verður um fljótlega.

 

Sýnishorn 1 úr Back to the Future: 

 

Sýnishorn 2 úr Back to the Future:

 

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

 
14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þessa seríu. Back to the... eru og verða flottar finnst mér.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.12.2007 kl. 20:53

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Skrýtið að hafa Back To the Future fyrir ofan Blade Runner. Seinni myndin hefur líklega haft einna mest áhrif á framtíðarmyndir yfir heildina hvað varðar efnistök, uppsetningu og fleira. Það má samt hafa gaman af Back To the Future og einmitt fyrir að halda vel dampi með skemmtilegum persónum og líflegu umhverfi.

Rúnar Már Bragason, 6.12.2007 kl. 23:48

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk Ásdís.

Rúnar: ég er sammála þér að vissu marki, enda kemst Blade Runner á Top 20 hjá mér.  Mér finnst hún hins vegar gölluð og ekki jafn spennandi og áhugaverðar og 17 aðrar vísindaskáldsögur. Reyndar er ný útgáfa af Blade Runner að koma út, kölluð Blade Runner - The Final Cut og ætla ég að kíkja á hana með opnum hug. Ég þekki nokkuð vel vinsælustu vísindaskáldsögur síðustu 40 ára og veit að nokkrar myndir eru nánast dýrkaðar. Hins vegar treysti ég fyrst og fremst á mínar eigin tilfinningar gagnvart myndunum og met þær eftir því hversu vel ég skemmti mér við áhorfið. Blade Runner er djúp og gjörbylti vísindaskáldsögum tæknilega, en mér finnst vanta ákveðinn neista til að ég fílaði hana í botn, eins og allar þær myndir sem ég gef fjórar stjörnur. Ridley Scott, leikstjóri Blade Runner, hlýtur að vera sammála mér fyrst hann er að gera nýja útgáfu, núna 25 árum eftir að hún kom fyrst út - nema þetta sé bara einhver brella til að selja fleiri eintök. Það kemur í ljós á næstu dögum. Takk fyrir að fylgjast með.

Hrannar Baldursson, 7.12.2007 kl. 01:34

4 Smámynd: Ómar Ingi

Þetta ergir mig alveg svakalega Serenity og Back to The Future fyrir ofan Blade Runner þetta er náttulega bara grín til að ergja fólk sem kemur hérna inn ekki satt PLEASE segðu mér að þetta sé grín

Enda er Back To The Future fyrst og fremst ..........

Action / Adventure / Comedy / og að lokum  Sci-Fi kvikmynd

En þetta er þinn listi og þinn smekkur og þetta eru ágætis pistlar hjá þér svo ég segi nú eitthvað jákvætt hérna hjá þér

Ómar Ingi, 7.12.2007 kl. 23:31

5 Smámynd: Ómar Ingi

Það er að koma 5 diska sett út með öllum útgáfunum sem er búið aðalega að fikta í og bæta soundið og tæknibrellur og músik osfv

The Final Cut er búið breyta ýmsu , það gékk á ýmsu við gerð þessarar myndar og til dæmis eru Harrison Ford og Ridley Scott engir vinir eftir að hafa tekið vel á því við gerð þessarar einu bestu vísindaskáldsögumyndar sem gerð hefur verið að mínu mati.

Best kveðjur

Ómar,

Ómar Ingi, 7.12.2007 kl. 23:34

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk Polly.

Ómar, ég fékk 5 diska útgáfuna með pósti í gær, þannig að ég hef tækifæri til að kíkja á þetta fljótlega. Serenity og Back to the Future eru að mínu mati báðar betri en sú útgáfa sem ég hef séð af Blade Runner, en það var Director's Cut.  Og þetta er fyllsta alvara, Ómar, ekkert grín.

Hrannar Baldursson, 8.12.2007 kl. 12:06

7 Smámynd: Ómar Ingi

Ég er allavega ánægður að þú sért komin með safnið og trúi því að nú munir þú endurskoða listann þinn mjög fljótleg

Ómar Ingi, 8.12.2007 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband