Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 14. sæti: Back to the Future

Áfram með listann um 20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum. Næsta mynd er léttari í tón en maður á að venjast þegar vísindaskáldsögur eru annars vegar, og reyndar er meira lagt upp úr fjölskyldutengslum en vísindunum sjálfum. Vísindin í Back to the Future snúast um tímavél sem Doc Emmett Brown hannar, en Marty McFly notar og lendir í heimi þar sem hann er jafnaldri foreldra sinna. Brátt verður hann að traustasta vini föður síns og móðir hans verður það skotin í honum að honum er vart huguð tilvist.

Það er skemmtilega leikið með þverstæður tímaferðalaga, persónurnar eru eftirminnilegar og sagan spennandi. Það er varla hægt að biðja um meira. Það var reyndar gert og fylgdu tvær lakari framhaldsmyndir í kjölfarið. 

 

Back to the Future (1985) ****

Unglingurinn Marty McFly (Michael J. Fox) á í miklum erfiðleikum með tímastjórnun, eins og algengt er meðal unglinga. Hann sefur oft yfir sig og mætir of seint í skólann. Hann þráir að verða tónlistarmaður en skortir kjark til að senda inn upptökur sínar af hræðslu við höfnun.

Foreldrar Marty eiga við mikil vandamál að etja. Þau ná engan veginn saman. Móðir hans, Lorraine, drekkur mikið og er of þung; og faðir hans, George (Crispin Glover) hefur látið gamlan skólafélaga sinn, Biff (Thomas F. Wilson) komast upp með einelti í áratugi og þannig tapað sjálfsvirðingunni.

Marty ætlar að taka kærustu sína Jennifer (Claudia Wells) í sumarbústað þegar Biff lendir í árekstri á fjölskyldubílnum með bjór við hönd. Það er semsagt töluvert mikið í uppnámi hjá strák.

Besti vinur Martys er léttgeggjaði vísinda- og uppfinningamaðurinn Doc Emmett Brown (Christopher Lloyd). Þeir kynntust nokkrum árum áður en Marty fæddist þegar Doc hjálpaði honum að ferðast inn í framtíðina. Hann hefur nefnilega fundið upp tímavél sem lítur út eins og DeLorean sportbíll.

Þegar líbverskir hryðjuverkamenn komast að því að Doc hefur stolið frá þeim töluverðu magni af plútóníum, sem þeir ætluðu að nota í kjarnorkusprengju, plaffa þeir hann niður með vélbyssum. Marty er næsta skotmark en honum tekst að flýja inn í tímavélina og 30 ár aftur í tímann. Þar sem hann tók ekkert plútóníum með til fortíðarinnar kemst hann ekki til baka.

Hann leitar að Doc Brown og tekst að sannfæra hann um tilvist tímavéliarinnar og ferðalagið, og saman ætla þeir að koma Marty aftur til framtíðarinnar. Það er þarna sem Doc Brown hittir Marty ófæddan í fyrsta sinn. 

Marty hafði áður en hann fann Doc Brown rekist á George föður sinn og komið óvart í veg fyrir að hann hitti Lorraine, móður Marty, í fyrsta sinn. Það sem verra er, Lorraine verður yfir sig hrifin af Marty - sem sér fram á að hans eigin tilvist mun mást út ef honum tekst ekki að ná foreldrum sínum saman.

Það er frekar erfitt mál þar sem mamma hans lítur ekki við hinum óframfærna George. Ekki batnar ástandið þegar Biff hinn nautheimski þrjótur kemur stöðugt í veg fyrir samræmingaráform Marty.

Marty þarf að leysa þessi vandamál fyrir klukkan 22:04, en þá mun eldingu ljósta niður í klukkuturn sem gefur tímavélinni fært að fleyta honum til framtíðarinnar. Framtíð hans veltur á að leysa nokkur vandamál á réttum tíma, sem er nokkuð krefjandi vandamál fyrir ungling sem hefur enga stjórn á eigin tíma. Lykilþáttur í lausn vandans er eitt flottasta kjaftshögg kvikmyndasögunnar.

Tæknilega er Back to the Future afbragðsvel unnin. Persónurnar eru eftirminnilegar og stórskemmtilegar; svo og vandamálin sem Marty þarf að leysa. Sagan gengur fullkomlega upp á endanum, allir lausir endar hnýttir vel saman og síðan opnaðir upp á gátt rétt áður en myndinni lýkur. Ég hef sérstaklega gaman af endi sem gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn. Gerðar voru tvær framhaldsmyndir sem fjallað verður um fljótlega.

 

Sýnishorn 1 úr Back to the Future: 

 

Sýnishorn 2 úr Back to the Future:

 

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

 
14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Feður og mæður: Einkunnir barna ykkar munu hríðfalla. Hvað getum við gert?

Menntamál á Íslandi í dag

Menntamál á Íslandi eru í ólestri, og það er engum einum að kenna nema kannski helst ákveðnu stjórnleysi og öfgafullri efnishyggju. Hógvær hægristefna er ágæt. Stjórnlaus hægristefna eins og sú sem við upplifum í dag leiðir til hörmunga. Við höfum hallað okkur of langt til hægri, það er komin slagsíða á bátinn og ekki langt í að þjóðarskútan fari á hliðina. Vonandi leggur skynsama fólkið í brúnni áherslu á að rétta skútuna við sem allra fyrst. Það gerist varla á meðan allir halda að allt sé í allrabesta lagi.

Þegar hin ágæta Þorgerður Katrín talar um að mæla fyrir frumvarpi sem fjölgar námsárum fyrir kennara og skyldar þá til að ljúka mastersgráðu áður en þeir fara til kennslu, fullyrði ég að þetta frumvarp hefur ekkert að segja í sambandi við námsárangur barna framtíðarinnar. Sjálfur hef ég mastersgráðu og er með kennsluréttindi frá kennaraháskóla í Bandaríkjunum og kennsluréttindi bæði í Mexíkó frá Anahuac háskóla og á Íslandi í grunn- og framhaldsskólum, og get því fullyrt út frá eigin brjósti.

Ég hef gífurlegan áhuga á menntun, fræðslu og kennslumálum, en kemur ekki til hugar að starfa sem kennari á Íslandi við þær aðstæður sem kennarar búa við í dag. Ástæðan er einföld: ég gæti ekki séð fyrir fjölskyldu minni. Sérðu vel menntað fólk ljúka fimm ára námi til að starfa í skólum ef það þarf að lifa á fátæktarmörkum fyrir vikið, í þjóðfélagi þar sem mánaðarlaun kennara duga ekki fyrir mánaðarleigu á þriggja herbergja íbúð?

 

Hvað erum við að gera rangt og hvernig getum við bætt okkur? 

Við einbeitum okkur að því að dæla staðreyndum í börn og stimpla þau sem slök, meðal eða góð. En það sem þau vantar er væntumþykja, alúð og tími til að vera börn. Hefur ríkasta og hamingjusamasta þjóð heims ekki efni á slíkri gjöf í dag?

Kennarar eru úthrópaðir sem letingjar og tækifærissinnar, sérstaklega þegar nær dregur kjarasamningum, og hvað þá í verkfalli. Það er vitað mál að ef talað er illa um kennara sem stétt, bera börnin síður virðingu fyrir þeim. Hvað kostar ríkustu og hamingjusömustu þjóð heims að sýna kennurum meiri umhyggju? Kennarar eru fólk sem fer í kennslu því það hefur köllun í þetta starf. Enginn fer í kennslu vegna launanna. Aftur á móti hrekjast margir í burtu vegna þeirra.

Nemendur kvarta ef gerðar eru til þeirra of miklar kröfur, láta illum látum og komast upp með það. Agavandamál aukast, litlum glæpaklíkum fjölgar og siðferði hrakar. Af hverju eru börnin ekki að sýna námi meiri áhuga? Er það námsefnið og aðferðirnar? Eru það börnin sjálf? Er það þjóðfélagið? Er Ísland lasið?

 

Stefnan um minna brottfall 

Afleiðingar stefnunnar um minna brottfall hefur þegar haft alvarlegar afleiðingar. Heyrst hefur að framhaldsskólar séu í raun þvingaðir til að minnka kröfur til nemenda, þar sem að fyrirskipunin að ofan væri sú að allir ættu að ná. Af þessum sökum fara nemendur auðveldustu hugsanlegu leið í gegnum nám, forðast fög sem gera kröfur til þeirra. Svo er brottfall nemenda úr skólum tengt við fjárveitingar til skólans.

Í stað þess að fá greitt af ríkinu fyrir nemendur sem skrá sig í skóla, er aðeins greitt fyrir þá sem ljúka skólaárinu. Af þessum sökum er erfiðara að þvinga fram kröfur til nemenda og nemendur finna fljótt að það eru þeir sem hafa völdin, leggja undir sig skólann og komast upp með að stytta sér leið í gegnum námið.

Það mætti skoða hlutlægt hvaða áhrif þessi stefna hefur haft á nemendur á framhaldsskólastigi, og hvernig þetta breiðist út til háskólanna. Fólk vill einfaldlega klára sitt nám eins fljótt og auðveldlega og mögulegt er, sem er eðlileg ósk, en alls ekki til þess fallin að færa þeim verðuga menntun.

Áhugaverðar umsagnir:

Ég tók saman punkta af ýmsum bloggsíðum sem mér finnst lýsa ástandin menntamála á Íslandi nokkuð vel og því sem fólki finnst að gera þurfi til að bæta þessi mál. Ég tek ekki undir allar hugmyndirnar, og finnst sumar þeirra beinlínis hættulegar en þær gefa samt málinu ferskan blæ.

 "Liður í því að gera skólakerfið betra gæti hugsanlega verið að að hlusta betur á fólkið í landinu." Gunnlaugur Br. Björnsson

"Hærri laun fyrri kennara !!!! Gera kennara jákvæðari gagnvart starfi sínu (er nú ekki að segja að þeir séu eitthvað mjög neikvæðir samt) og skapa okkur þannig samfélag að kennarar vilji koma og kenna börnum og séu ánægðir með það sem þeir fá í staðinn !!!!" Inga Lára Helgadóttir

"Stjórnun og efling fræðslumála á fyrstu stigum er eitt það mikilvægasta í þessu þjóðfélagi, því það eru þau börnin  sem munu erfa landið." Jón Svavarsson

"Þetta kallar á mikla endurskoðun á málinu og ég hugsa að ég ræði þetta á borgarstjórnarfundi á eftir.  Þetta kallar á meiri upplýsingar um árangur, akkúrat það sem við Sjálfstæðismenn vildu í síðasta meirihluta fara að gera meira af.   Einnig kemur inn í þessa umræðu agamál, skóli án aðgreiningar og opin kennslurými sem ég persónulega tel vera mikið álag fyrir kennara." Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

"Það eru 6 börn á hvern starfsmann í leikskóla, en 20 í grunnskólum. Agi og virðing kemur ekki frá skólunum heldur heimilunum. Almennileg kennsla er það sem við viljum fá frá skólunum fyrir börnin okkar. Finnst þér ekki vera almennileg kennsla í íslenskum skólum almennt? Ég er kennari og finnst að margt megi betur fara, í fyrsta lagi hafa of margir góðir kennarar hrökklast úr starfi sökum lélegra launa, en það eru allir að gera sitt besta. Við þurfum bara að reyna að laða bestu kennarana aftur inn með hærri launum." Helga (athugasemd hjá Nönnu Katrínu Kristjánsdóttur

"Börnin okkar og þeirra framtíð virðast ekki vera metin mikils og mesta virðingin og peningar fara allt annað en í mennta- og uppeldismál." Nanna Katrín Kristjánsdóttir

"Í Finnlandi er heildarhugsun/umhyggja í kringum börnin í skólakerfinu,- þar fá öll börn heitan mat í hádeginu sér að kostnaðarlausu ( og svo hefur verið síðan í heimstyrjöldinni síðari), ef barn þarf iðjuþjálfun/sjúkraþjálfun/talþjálfun o.s.frv. þá skilst mér að það sé tekið á því innan skólanna.  Eftir því sem mér er sagt þá er í raun hlúð að öllu í kringum hvert barn á heildrænan hátt innan skólans,- í það fer fjármagn.  Grunnhugmyndin er greinilega umhyggja og heildstæði.  Við hér erum líklega of mikið að búta börnin í sundur,- taka á þessum þætti hér og hinum þættinum þarna." Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

"Nú kemur svo í ljós að nemendur eru í afturför í stærðfræði miðað við fyrri kannanir. Enginn þarf að undrast þetta. Gaman væri að menntamálaráðherra settist niður með þær kennslubækur, sem nú er boðið upp á í grunnskólum landsins t.d. þá sem kallast Geisli. Ég er satt að segja undrandi á því hversu lítið hefur heyrst um þá bók, en fjölmargir kennarar svitna við það eitt að heyra á hana minnst... Lausn: Hættið við að lengja kennaranám, en setjið þess í stað upp skyldunámskeið fyrir kennara í eðlisfræði og stærðfræði. Yfirvöld menntamála endurskoði allar námsbækur og vinni að endurbótum þar sem þeirra er þörf." Þjóðarsálin

"Við þurfum ekki að miða menntunina að því að framleiða kjarneðlisfræðinga í breiðum bunum, en það er nauðsynlegt að klárir krakkar fái hvatningu og örvandi kennslu." Pétur Henry Petersen

"Hvað sem veldur er ekki gott og slæmt til þess að hugsa að með jafn miklu námsframboði og góðum kennurum (áður en flóttinn brast í stéttina í betur launuð störf) að niðurstaðan sé svona slæm... Tökum sem dæmi að í NAT 113 var  hlutapróf á haustönn sem nú er senn liðin. Kennarinn fékk ákúrur hjá nemendunum um að nota óskiljanleg orð á borð við "Uppistöðulón" og "Fallvatnsvirkjun". Kennaranum fannst nóg um og sagði að þetta stæði með útskýringum í bókinni." Þrymur Sveinsson

"Árið 2006 voru undir 10% af fjárlögum notuð í menntamál. Það hlutfall hækkaði í 2007 í 13,5%. En þetta hefur ekkert með grunnskóla að gera. Því þeir eru komnir á sveitafélögin og þau hafa ekki bolmagn til að gera vel við Grunnskólana, vegna þess að þeir fengu ekki skattstofna með t.d. hærra hlutfall af tekjuskatti." Johnny Bravo  

"Er ekki alveg fáráðlegt að sleppa þessari mikilvægu breytu í umræðunni.  Hvers vegna ættu illa launaðir kennarar að skila af sér hágæðaverkum? - sem þeir þó reyndar gera allflestir." Þórdís Þórðardóttir

"Bara svona að pæla, kannski hefur það eitthvað að segja að kennarar eru orðnir lægst launaða háskólamenntaða stéttin. Kennarar flýja til bankanna þar sem þeir fá hærri laun við að afgreiða kúnna. Á meðan skólarnir eru að hluta til mannaðir ómenntuðum leiðbeinendum og "lélegri" kennurum og bestu kennararnir eru í öðrum störfum er ekki við öðru að búast!" Helga, Drottningar og drekaflugur

"Alveg er það magnað - að þegar kennarar flýja umvörpum kennarastarfið þá kemur menntamálaráðherra fram með hugmyndir um lengingu kennaranáms.  Þá held ég að stefnan ætti heldur að vera að skapa efnahagslegan grundvöll fyrir kennara að geta kennt... Með því að krefjast lengra náms munu án efa útskrifast hæfir kennarar - en um leið munu þeir verða enn eftirsóttari í önnur betri launuð og betur metin störf... Það er sorglegt að verða vitni að brotthvarfi góðra kennara ár eftir ár - í ár er ég að upplifa lélegustu kennara sem mín börn hafa nokkru sinni haft.  Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við stein og halda því fram að allir skólar séu fullmannaðir - það er auðvitað hægt að fylla allar stöður með því að slaka á kröfunum." Arró, Tæknibloggið

"Það þarf að auka áherslu á skapandi skólastarf og ekki síður á fjölbreytni í skólunum og lesskilning, ekki bara hraðlestur." Hlynur Hallsson

"Í af listum pistli sem ég skrifaði fyrr í vetur fjallaði ég um þetta lamaða skólakerfi sem byggir á einni spurningu, "Veistu svarið". Minntist þá einnig á uppruna orðsins "education" sem er úr latnesku "educare" og merkir "að draga fram" eða "að ná út". -Ekki "að troða inn", sem virðist sá skilningur sem stjórnvöld leggja á menntamál." Ransu, athugasemd hjá Hlyni Hallssyni

"Að mínu mati er lausnin sú að losa skólakerfið úr viðjum miðstýringar stjórnmálamanna sem þykjast vita allt alltaf og koma þessum rekstri til einstaklinga og félagasamtaka sem reka skóla á non-profit grunni í bland við hið opinbera kerfi.  Þá mun okkur farnast betur.  Norðurlönd og aðrar þjóðir eru mun duglegri við þetta og um leið opnari fyrri lausnum en hin íslenska þjóðarsál sem er að tortíma öllu frumkvæði innan hins ríkis- og sveitarsjórnarvædda kerfis." Sveinn, athugasemd hjá Hlyni Hallssyni

"Ég held að þess mikla atvinnuþátttaka skólabarna sé aðal ástæðan fyrir þessari niðurstöðu. Unglingar sem eru í krefjandi námi og hafa einnig einhver áhugamál og þurfa góðan svefn geta ekki stundað aðra vinnu án þess að það komi niður á náminu. Reynum að halda skólabörnum frá vinnu með námi. Og alls ekki stytta framhaldsskólann. Leyfum framhaldskólanemum að þroskast félagslega meðfram námi. Með því að taka þátt félagsmálum og í lífinu almennt meðan það er fallegast og skemmtilegast." G Kr

"Við þurfum að hugsa okkar ráð í kjölfar þessarar niðurstöðu. Það getur varla talist annað en lykilmál til að taka á að ungmenni landsins séu með lélegan námsárangur og lestrarkunnáttu þeirra hraki. Það verður áhugavert að sjá hvernig að yfirmenn menntamála taki á þessari niðurstöðu." Stefán Friðrik Stefánsson

"Þetta próf skipti engum í mínum skóla máli. Fáir lögðu sig því fram og má líkja þessu við kannanir sem eru gerðar í grunn og framhaldsskólum þar sem maaaaaaargir sem ég þekki bulla þegar spurt er um fíkniefnaneyslu, reykingar, árangur í skóla, sennilega til að mótmæla þessum könnunum. Annars veit ég ekkert hvar ég lenti á þessari PISA könnun og því ómögulegt að segja til um eitt og annað. Ég gæti verið langt yfir meðaltali." Hlynur Stefánsson

"Það er nefnilega þannig að maður hefur ekki forsendur til að læra ef manni líður ekki vel og treystir ekki kennaranum sínum." Kolbrún Ósk Albertsdóttir

"Ég hef lengi vitað að yngri kynslóð þessa lands reiði ekki vitið í þverpokunum.  Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá og man því betri tíð með blóm í haga.  Þegar ég var á mínum barnaskólaaldri þá lærðum við eitthvað gagnlegt!  Ég man að ég þurfti að læra kverið mitt og lexíurnar á hverjum dagi, annars var ég hýddur.  Nú til dags virðist mér barnabörnin mín ekki læra ýkja mikið.  Og þá sjaldan sem þau ná að rífa sig frá sjónvarpinu og tölvunni þá er það til að læra einhverja þvælu, eins og kristnifræði eða lífsleikni!  Það væri nær að kenna þeim að kveðast á... Menntamálaráðherra ætti að sjá sóma sinn í að stokka eitthvað upp í kennarastéttinni.  Mér virðast vera allt of margir vanhæfir grunnskólakennarar á Íslandi.  Og hvernig stendur á því að börn kunna ekki ljóð helstu þjóðskálda utan að lengur??!  Með þessu áframhaldi þarf Ísland á þróunaraðstoð að halda áður en mínir dagar eru taldir." Jón Guðmundsson

"Fókusinn hjá okkur íslendingum í menntamálum er að fjölga háskólum og slá öll heimsmet í fjölda nemanda í framhaldskólanámi.  Grunnurinn hefur alveg farið í öskustónna í þessu þindarlausa kapphlaupi að reisa háskóla í hverri sveit og byggðarlagi." K Zeta


mbl.is Staða Íslands versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Systir mín í aðalhlutverki stuttmyndarinnar Svartur sandur - ókeypis niðurhal

AnnaBrynjaHægt er að sækja myndina án endurgjalds hérna. Þeir sem vilja geta greitt fyrir hana á síðunni.

Svartur sandur fjallar um eilífa ást, endurholdgun, drauga, dauðann og sálir í tímaflakki.

Anna Brynja Baldursdóttir leikur konu sem elskar sama manninn (Jóel Sæmundsson) frá landnámsöld til nútímans, en dauðinn er þeirra versti óvinur - skilur þau að þegar verst skyldi, og sífellt verður erfiðara að finna hinn helminginn í næstu lífum. Leikstjóri er Vilhjálmur Ásgeirsson.

Hugmyndin er stórskemmtileg og gaman að velta henni fyrir sér.  

Ég ætla ekki að gagnrýna kvikmyndina þar sem ég að ég get ekki gætt hlutleysi, enda finnst mér systir mín einfaldlega alltaf frábær, hvort sem er á sviði, í sjónvarpsþáttum og í kvikmyndum.  

Ég mæli samt eindregið með að þú halir myndinni niður (um 278 MB)  og ef þér líkar við hana, sendir framleiðandanum greiðslu í þakkarskyni.


mbl.is Ókeypis stuttmynd á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er mikilvægt að standa vörð um kristið siðferði, en án áróðurs, predikana og trúboðs

Siðmennt og skynsamlegar forsendur borgaralegrar fermingar

Fyrir rúmum áratug kom ég að skipulagi Siðmenntar um borgaralega fermingu og hélt námskeið fyrir unglingana í siðfræði. Síðan flutti ég til Mexíkó og var þar í fjölda ára. Í fyrra heimsótti ég nokkra hópa sem voru í undirbúningsnámskeiði hjá mínum ágæta félaga, Jóhanni Björnssyni.

Þegar ég ræddi fyrst við Hope Knútsson, eina af frumkvöðlum siðmenntar og núverandi formann félagsins, um þessi mál, þá skildi ég hana þannig að hún hafði áhyggjur af því að börnum sem koma erlendis frá, og fylgi öðrum trúarbrögðum en lúterskri kristni skuli vera mismunað á trúarlegum grundvelli í íslensku þjóðfélagi. Til að mynda var mikið um það að börn fermdust meira vegna félagslegs þrýstings og löngun í gjafir og stóra veislu, heldur en til þess að meðtaka kristnina. Hvað um öll börnin sem ekki voru kristin að upplagi, eða jafnvel trúlaus, af hverju mættu þau ekki fá veislu líka eins og öll hin börnin?

Ákveðið var að stofna til borgaralegrar fermingar, þar sem börn með aðrar forsendur fengju tækifæri til að sækja námskeið í siðfræði og við útskrift færi fram borgaraleg fermingarathöfn, sem ætti meira skylt við manndómsvígslu en trúarlega athöfn. Það hefur nefnilega oft verið sagt við fermingar að nú sér börnin komin í fullorðinna manna tölu. Önnur börn en þau sem meðtaka kristna trú mega líka fá tækifæri til að teljast í fullorðinna manna tölu. Sjálfsagt mál. Því hef ég stutt borgaralega fermingu.

Það skiptir ekki máli hvort þú sért kristinn, trúlaus eða fylgir öðrum trúarbrögðum. Allir geta tekið þátt í námskeiði til borgaralegrar fermingar. Enginn er útilokaður.

Trúboð eða trúfræðsla bönnuð í skólum? 

Nú er ég að heyra fréttir sem ég á bágt með að trúa, að Siðmennt standi fyrir því að koma í veg fyrir að prestar mæti í skóla og boði eða fræði um kristna trú. Ég sé ekki hvað er að því, svo framarlega sem að múslimum, buddatrúar, trúleysingjum, gyðingum og vísindatrúarmönnum sé einnig leyft að halda slík erindi. Aukin þekking er bara til góðs fyrir börnin, og að fá presta til að fræða um kristnina er að mínu mati hið besta mál, en þá verður líka að gefa hinum sem vilja deila öðrum fagnaðarerindum aðgang.

Umfram allt verður þó að hlusta á börnin sjálf og gefa þeim ráðrúm til að velta þessum hlutum fyrir sér. Ef þau fá aldrei tækifæri til að velta siðfræðilegum spurningum fyrir sér, er ekki hægt að búast við að fá manneskjur út úr skólum sem bera nokkra virðingu fyrir siðferðilegum viðmiðum, hvorki þeirra eigin né annarra. Að fá ekki tækifæri til að móta eigin hugmyndir um rétt og rangt, sanngirni og réttlæti, frelsi og haftir, hamingju og böl; er í sjálfu sér eitt það skaðlegasta sem hægt er að gera börnum. Munum hvernig hægt var að sneiða á skipulegan hátt alla siðferðisvitund úr börnum Hitleræskunnar, ekki viljum við endurtaka þann leik á Íslandi 21. aldarinnar, eða hvað?

Walt Disney teiknimynd um Hitleræskuna, Education for Death, nokkuð sem við viljum forðast vona ég:

 

Það er pláss fyrir þessi mál í lífsleiknitimum einu sinni í viku, sem mér finnst reyndar að ættu frekar að vera heimspekitímar fyrir börn, þar sem margsannað er hversu góð áhrif heimspekinám hefur á hugfimi þeirra sem stunda slíkt nám. Þar fengju börnin tækifæri til að ræða málin og hugsa um þau út frá eigin forsendum, hlutsta á ólíkar hugmyndir, en fyrst og fremst mynda eigin skoðanir um þau. Það þarf töluverða hæfni til af kennarans hálfu til að stjórna slíkri fræðslu, en hún er því miður af skornum skammti á Íslandi í dag. Vil ég benda á þá íslensku fræðimenn sem lagt hafa stund á heimspekifræðslu fyrir börn sem einstaklinga sem geta gert góða hluti í þessum málum fáu þau tækifæri til.

Af hverju að banna prestum að mæta í skóla til að fræða börnin um kristnina? Getur það verið vegna þess að öðrum trúfélögum er ekki hleypt inn í skólana og að Lútherska kirkjan fengi þannig einokunarvald að trúgjörnum börnum? Er þetta spurning um jafnrétti trúfélaga?

Ég vil ekki banna aðgang að neinu formi þekkingar fyrir börnin, en finnst varhugavert ef þau fá einungis að heyra eitt sjónvarmið, og alls ekki vil ég að þetta sjónarmið sé útilokað nema sannað sé að um misnotkun og predikun sé að ræða, þar sem börnin fái ekki tækifæri til að hugsa málin á eigin forsendum. Þau eiga að fá tækifæri til að ræða saman og velta þessum hlutum fyrir sér, á stað þar sem enginn segir þeim hvað er rétt eða rangt að halda eða trúa í þessum efnum. 

 

Kristilegt siðferði er ekki það sama og kristilegt trúboð 

Gagnrýni á kristilegt siðferði í skólum missir að mínu mati algjörlega marks, þar sem ég sé skýran greinarmun á kristnu siðferði annars vegar og kristnu trúboði. Frá árinu 1000 þegar Íslendingar voru neyddir til að taka kristna trú hafa Íslendingar lifað sáttir við að borga 10% af eignum sínum árlega til kirkjunnar, og með þessum fjármunum byggt kirkjur og prestastétt sem jafnvel hefur tryggt áframhaldandi viðveru sína í íslensku stjórnarskránni. 

Áður en kristilegt siðferði tók gildi á Íslandi var hefðarsiðferði í gildi þar sem reglan auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, og líf fyrir líf gilti og allt logaði í óeirðum og eymd vegna þess að fólk var sífellt að finna ástæður til að vera ósátt hvert við annað. Eina mögulega fyrirgefningin fólst í að greiða sekt, jafnvel fyrir manndráp. Með kristninni var fyrirgefningin boðuð, að í staðinn fyrir að ráðast strax á þann sem pirrar þig, gætirðu gefið af þér smá umburðarlyndi og jafnvel ekki bara fyrirgefið náunganum, heldur sýnt væntumþykju í hans garð. Þetta er undirstaða kristins siðferðis; þetta umburðarlyndi, væntumþykja í garð náungans og það að geta fyrirgefið þínum skuldunautum.

Á þessu siðferði hefur íslenskt samfélag byggst í þúsund ár. 

Breyttir tímar 

Tímarnir breytast og mennirnir með. Nú heyrir maður frá unglingum að ef einhver meiðir vin manns á einhvern hátt, þá skuli safna liði og berja í klessu þann sem gerði óskundann. Ef ekki tekst að ná í þann sem verknaðinn  framdi, þá sé réttlætanlegt að buffa vini þess einstaklings eða systkini. Er þetta viðhorf sem við viljum að sé ríkjandi af náttúrunnar hendi meðal framtíðarþegna Íslands?

Þetta viðhorf er nokkuð ríkt meðal þeirra unglinga sem ég hef rætt við um siðferðileg málefni, og ég hef haft áhyggjur af þessu en ekki predikað um það, þar sem að predikun er ekki mitt fag, heldur að uppgötva svona hluti , íhuga og ræða um þá.

Í kjölfar þess að hrun hefur verið í kennarastéttinni, bæði að margir hæfir kennarar hafa horfið frá kennslu og almennir borgarar hafa frekar agnúast út í kennara frekar en stutt þá, og gangavarsla í skólum og almenn gæsla er í uppnámi, hafa agavandamál stöðugt aukist í skólakerfinu. Börnin og unglingarnir leysa sín vandamál sjálf. Þau fá enga siðfræðikennslu, og taka lítið mark á trúarbrögðum, og vandamálin eru ekki leyst, heldur einfaldlega aukið við þau með auknu ofbeldi og einelti. Mín tilfinning er að mörg börn séu mjög einmana í íslensku skólakerfi í dag, þau fá ekki nóga athygli og er einfaldlega hent út í djúpu laugina. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Aftur að kristnu siðferði. Ég tel vera mun á kristilegu siðferði og boðskap kirkjunnar. Kristilegt siðferði byggir á viðmiðum sem ganga yfir alla, eins og: þú skalt ekki ljúga, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki drepa, þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Þetta hittir í mark hjá mér. Hins vegar ef ég fer í messu og heyri predikanir um hversu syndugt fólk er og að það þurfi að leita fyrirgefningar þeirra, slíkt missir algjörlega marks hjá mér, enda finnst mér slíkar predikanir fjarstæðukenndar og fullar af alhæfingum sem eiga einfaldlega ekki við fyrir skynsamar manneskjur. 

Kristilegt siðferði að mínum dómi byggir einmitt á þeirri meginreglu að maður skuli gera fyrir náungann það sem maður vill að náunginn geri fyrir sig, og ekki gera náunganum það sem maður vill ekki að náunginn geri sér. Þetta finnst mér skynsamleg viðmið.

Mér finnst mikilvægt að fólk sýni hverju öðru umhyggju og hlusti hvert á annað, beri virðingu fyrir skoðunum hvert annars og dæmi ekki aðra fyrir skoðanir sínar.

Viðmið eru eitt, reglur annað 

Allt þetta skil ég sem kristilegt siðferði. Þegar þessi viðmið eru gerð að reglum sem þarf að predika fyrir fólki eins og það séu einhverjir heimskingjar fer hins vegar allt í hundana.

 

Úr stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands: 

"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda."

"Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."

"Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu."

"Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að."

"Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum."

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."

 

Áhugaverðar bloggfærslur um þessi mál:


mbl.is Áfram deilt um Krist í kennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband