Þorláksmessa í Köben og jól í Madrid

Kaupmannahöfn á Þorláksmessu

Þorláksmessa í Köben 

Á sunnudaginn lagði kjarnafjölskyldan af stað til Madrid, með stoppi í Kaupmannahöfn og öðru í Frankfurt. Við tókum Metro inn í miðbæ Köben og höfðum gaman af að upplifa danska jólastemmingu. Það sem kom mér mest á óvart var hversu rólegir Danirnir voru í Þorláksmessustressinu, eins og kalla mætti það heima, þar sem fólk virðist snúast nokkuð marga hringi um sjálft sig í leit að gjöfinni sem gleður meira en nokkuð annað. Asann og lætin að heiman var hvergi að finna á andlitum fólks sem gekk glaðbeitt um höfuðborg Danmerkur.

Ég hef aldrei áður stoppað í Kaupmannahöfn. Mest kom mér á óvart hversu mikið er af hjólum í borginni. Það voru bókstaflega allir á hjólum. Einnig fannst mér skemmtilegt að sjá langa röð af fólki fyrir utan kjötverslun, en fyrir utan var verið að steikja svín á teini. Fólkið ætlaði greinilega að kaupa jólamatinn á réttum stað. Þetta hlýtur að vera hefð hjá Dönum, sem ég hafði aldrei heyrt um. 

Við keyptum gjafir handa börnunum, fórum upp kirkjuturn með útsýni yfir Kaupmannahöfn og fengum okkur svo ís. Síðan lá leiðin aftur á flugvöllinn. Millilending í Frankfurt og svo haldið til Madrid með Lufthansa. Ég verð að minnast aðeins á matinn og þjónustuna hjá Lufthansa. Þetta var eins og á fínasta veitingastað, og þar að auki var maturinn sem við fengum í vélinni feiknagóður.

Í almenningsgarði Madrid á jóladag

Aðfangadagur í Madrid

Aftur undraði ég mig á viðmóti fólks. Ég fann að fólk var rólegt og óstressað, en samt ennþá að kaupa jólagjafir. Það var engin jólaös eða stress eins og maður finnur heima í Smáralind og Kringlunni fyrir jólin. Tilfinningin er meiri eins og þegar ég á unglingsaldri gekk niður Laugarveginn á Þorláksmessu með vini mínum í leit að skemmtilegum gjöfum. Við fórum nokkuð oft í neðanjarðarlestir, sem koma manni hratt á milli borgarhluta, en börnunum leist lítið á, enda hafa gangar verið illa þrifnir vegna verkfalls hreingerningarfólks. Við hittum ættingja frá Mexíkó sem búa í Madrid og nutum aðfangadagskvölds á ítölskum veitingastað. Þar urðum við vitni að smá stressi, þar sem að þjónarnir á veitingastaðnum virtust vera við það að fara á taugum og maður fann að þegar kallað var á þá pirruðust þeir upp og litu flóttalega á næsta starfsmann í von um að hann tæki kallið. Jólamaturinn var samt fínn og áttum við góða stund.

Eftir matinn áttuðum við okkur á að klukkan var allt í einu orðin hálf tíu, en lestirnar myndu hætta að ganga kl. 10. Við borguðum matinn og kvöddum ættingja okkar eftir að hafa skipst á jólagjöfum. Við börnin fengum ekta íþróttabol frá Real Madrid, en konan fékk bók. Leigubíla er vonlaust að fá á aðfangadagskvöldi, þannig að við drifum okkur í lestina og náðum heim á hótel. 

Vitringurinn Baltasar ásamt syni sínum áður en lagt er í leitina að konungi mennskunnar (el rey de la humanidad)

Jóladagur

Við sváfum út, en fórum svo í almenningsgarð þar sem fór fram leikbrúðusýning um fæðingu Krists. Börnin höfðu mjög gaman af þessu, þar sem litið var á spaugilegu hliðarnar á bakvið söguna. Þeir sem stjórnuðu brúðunum hlustuðu á börnin í áhorfendahópnum og fengu þau til að taka virkan þátt í ævintýrinu. Þetta var vel heppnuð sýning. Í raun má segja að þetta hafi verið hálfgerð Monty Python nálgun, þar sem húmorinn minnti mikið á þá félaga. Sem dæmi má nefna að einn af vitringunum þremur var duglegur að skoða stjörnur himinhvolfsins, en tók ekki eftir þessari stóru og merkilegu stjörnu fyrr en hún sló hann í hausinn. Börnin skemmtu sér stórvel.

Síðan var bara gengið um skemmtigarðinn í nokkrar klukkustundir. Það allra merkilegasta fannst mér staður þar sem verið var að safna saman blöðrum undir gegnsæju tjaldi. Með blöðrunum fylgir bréf frá börnum, til vitringanna þriggja, en á þrettándanum fá börn gjafir sem þau óska sér að fá. Þetta finnst börnum mjög sniðugt, enda getur verið að þau hafi ekki fengið þá gjöf sem þau dreymdi um að fá á aðfangadagskvöld, og því fá þau tækifæri til að biðja um það á þrettándanum. Reyndar er þetta sjálfsagt heljarinnar brella af hendi kaupmanna, til að græða tvöfalt á jólunum, en fólk er sátt við þessa hefð og fylgir henni. 

Blöðrur barna sem sendar verða til vitringanna þriggja á þrettándanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Frábær lýsing á jólunum ykkar, kannski sé kominn tími til að fra út í heim um næstu jól, líst vel á þetta hjá ykkur. Gangi ykkur vel í ferðinni og komið heil heim.  Kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 26.12.2007 kl. 18:02

2 identicon

Gott að ferðin gekk vel. Hafið það svakalega gott og sjáumst heima.

Kveðja

Anna Brynja (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 22:08

3 identicon

Gleðileg jól Hrannar og fjölskylda,

Vona að þið hafið það sem allra best um jólin.

Hugrún Sif

Hugrún Sif (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband