Færsluflokkur: Kvikmyndir
Hellboy II: The Golden Army (2008) ***1/2
15.7.2008 | 00:09
Hellboy II: The Golden Army er næstbesta ofurhetjumyndin sem af er sumrinu og mun betri en Hellboy (2004). Persónurnar eru orðnar dýpri en áður, samtölin eru góð og handritið afar vel uppbyggt. Tæknibrellurnar eru með því besta sem sést og jafnvast auðveldlega á við The Lord of the Rings og Star Wars, tæknilega og hugmyndafræðilega séð.
Ef einhver galli er á myndinn er það tempóið, en hún hikstar svolítið þegar hún ætti að renna, en á móti kemur að frumlegri kvikmyndir er erfitt að finna. Ljóst er að Guillermo del Toro á stutt í það að vera stærsta nafnið í heimi kvikmyndaleikstjóra, og kæmi mér ekki á óvart ef The Hobbit sem kemur út 2011 og 2012 verði jafngóðar Hringadróttinssögunni hans Peter Jackson.
Kíktu á dýpri gagnrýni sem ég birti á Seen This Movie.
20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 7. sæti: Star Wars
13.7.2008 | 03:59
Fyrir löngu síðan, í stjörnukerfi langt langt í burtu...
Þannig hefst sagan, rétt eins og Grimms ævintýri. En við fáum miklu meira út úr þessari kvikmynd heldur en einfalt ævintýri. Þó að sögufléttan sé einföld, þá er söguheimurinn margbrotinn og flókinn, með litríkum og skemmtilegum persónum.
Til umfjöllunar er Star Wars, sem kom fyrst út árið 1977, en ég sá í Nýja bíói árið 1978, þá átta ára gamall og varð uppfrá því augnabliki kræktur í heim kvikmyndanna. Þá hét hún bara Star Wars og ekkert annað. Ekki eins og í dag, en nú heitir hún víst formlega: Star Wars - Episode IV: A New Hope.
Á tjaldinu birtust meiri víðáttur en ég hafði áður ímyndað mér að væru mögulegar, geimflaugar á ferð og flugi skjótandi litríkum geislaskotum, og svo var það svalasta af öllu: geislasverðið. Svo má ekki gleyma tónlistinni sem er eitt af meistaraverkum eins mesta nútímameistara tónlistarheimsins: John Williams, sem hefur einbeitt sér að kvikmyndatónlist með frábærum árangri.
Heiti allra helstu persóna lagði ég strax á minnið og allir þekktu Svarthöfða (Darth Vader). Luke Skywalker var hetjan sem maður hélt með frá upphafi, og eignaðist hann ansi skrautlega vini á leiðinni frá því að vera bóndastrákur til að vera stríðshetja með uppreisnarmönnum gegn hinu illa keisaraveldi, sem hafði látað smíða geimstöð á stærð við tungl jarðar sem gat sprengt plánetur í tætlur með lítilli fyrirhöfn.
Það var vel þess virði að kynnast þeim Han-Solo, Obi-Wan Kenobi, R2-D2, C-3PO, Chewbacca og Leiu prinsessu.
7. sæti: Star Wars
8. sæti: The Matrix
9. sæti: Gattaca
10. sæti: Abre los Ojos
11. sæti: The Thing
12. sæti: Brazil
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt 14.7.2008 kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Ef þú gætir valið að lifa við fullkomna hamingju í heilt ár, en eftir árið ekki munað neitt, mundir þú velja það?
8.7.2008 | 19:08
20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 8. sæti: The Matrix
6.7.2008 | 01:45
Í áttunda sætinu yfir bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum er mynd sem gengur upp í alla staða: sagan er frjó og skemmtileg, tæknibrellurnar voru byltingarkenndar, slagsmálaatriðin með því flottasta sem maður hefur séð og pælingar þannig útfærðar að maður fær tækifæri til að pæla í eðli eigin þekkingar á heiminum og manni sjálfum.
The Matrix gerist eftir um það bil 100 ár, hugsanlega fleiri eða færri. Vélar með gervigreind ráða yfir jörðinni og aðeins ein mennsk borg stendur eftir: Zion. Allt mannkyn fyrir utan þá sem hafa verið frelsaðir og búa í Zion, sem er staðsett djúpt í iðrum jarðar, þjóna aðeins einum tilgangi fyrir vélarnar: að vera rafhlöður til að knýja heim vélanna.
Manneskjum er haldið sofandi allt sitt líf og þær eru tengdar inn í sýndarveruleika sem er það trúverðugur að flestir trúa að þeir lifi í honum. Ef ekki væri fyrir hóp uppreisnarmanna sem leita að frjálsum sálum í sýndarveruleikanum væri mannkynið glatað.
Morpheus (Laurence Fishburne) leiðir rannsóknarhóp á könnunarskipinu Nebuchadnezzar í leit að hinum eina sem spáð er að muni geta brotið lögmál sýndarveruleikann. Morpheus hefur augastað á unga tölvuhakkaranum Neo (Keanu Reeves), sem telur sig vera forritara í hugbúnaðarfyrirtæki, en er í raun og veru sofandi djúpum svefni sem batterí á víðum velli sem vélarnar stjórna.
Tölvuforrit að nafni Agent Smith (Hugo Weaving) er helsti óvinur þessara síðustu frelsistilburða mannkyns, og reynir hann að einangra alla þá sem tengjast sýndarveruleikanum að utan og drepa þá, því ef sál þín deyr í sýndarveruleikanum, deyrðu í veruleikanum. Smith hefur ás í erminni þar sem svikari felst í áhöfninni.
The Matrix er spennandi mynd með krefjandi hugmyndir. Sem heimspekikennari kannast ég við ansi margar hugmyndir úr heimspekisögunni, eins og til dæmis hellislíkingu Platóns, hugleiðingar Descartes, eindarhyggju Spinoza, efahyggju, tilvistarhyggju og fleira.
Ég hef greint The Matrix enn dýpra á Seen This Movie! Smelltu hérna til að kíkja á greinina.
8. sæti: The Matrix
9. sæti: Gattaca
10. sæti: Abre los Ojos
11. sæti: The Thing
12. sæti: Brazil
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hancock (2008) *1/2
3.7.2008 | 19:42
Ég reyni að hafa það sem reglu að ef ég ætla að gagnrýna eitthvað eða einhvern, þá verð ég að byrja á að því að segja eitthvað jákvætt og gott.
Sýnishornin fyrir Hancock eru flott.
Já. Ansi flott. Reyndar meðal flottustu sýnishorna sem ég hef séð fyrir bíómynd.
Kvikmyndin Hancock er ekki góð. Það er ekki nóg með að leikstjórinn hafi tekið þá ákvörðun að hrista myndavélina til í öllum tökum, þannig að það truflar áhorfandann, heldur er handritið samansuða af grínmynd, drama, rómantískri ástarögu, ofurhetjumynd, og dogma mynd - sem reyndar býr yfir skemmtilegum möguleikum. Úrvinnslan er bara slök.
Will Smith er reyndar góður í sínu hlutverki framan af og mér var farið að lítast ágætlega á myndina eftir fyrstu fimmtán mínúturnar, en eftir það lá leiðin niður á við.
Komið hafa út tvær góðar ofurhetjumyndir í sumar: Iron Man og The Incredible Hulk.
Hancock kemst ekki nálægt þeim. Ef hægt er að líkja henni við einhverja ofurhetjumynd væri það helst Spider-Man 3, nema hvað Hancock er ekki jafnvel gerð tæknilega, og er jafnvel enn væmnari og leiðinlegri.
Einhverjir sætta sig kannski við að horfa á þetta í bíó, og sumum finnst þetta kannski skemmtun, en ekki mér. Ég var hálf vandræðalegur eftir sýninguna og sagði við vin minn á leiðinni út:
"Ég verð að viðurkenna, ég fékk meira út úr Pathfinder í fyrra, þó að sú mynd hafi verið hörmung."
Hann kinkaði brosandi kolli.
En fulla gagnrýni mína á Hancock má finna með því að smella hérna, á ensku.
20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 9. sæti: Gattaca
2.7.2008 | 19:36
Loksins er komið að stundinni sem allir hafa beðið eftir. Aðeins 9 kvikmyndir eftir á listanum.
9. besta vísindaskáldsaga allra tíma í kvikmyndum er kvikmynd sem tókst að hrífa mig með í ferðalag víðáttumikið ferðalag manns með hjartagalla, Gattaca (1997).
Gattaca snýst um frelsi einstaklingsins, þrælkun og fullkomnun. Hún reynir að svara því hvað fullkominn einstaklingur er, og auðvitað eins og góðum vísindaskáldsögum er lagið, svarar hún ekki öllum spurningum heldur fær mann til að spyrja enn meira.
Gattaca gerist í nálægri framtíð þar sem fóstrum er erfðabreytt í móðurkviði til að koma í veg fyrir sjúkdóma, erfitt skap, ljótt útlit og annað þar eftir götunum. Allir þeir sem fæðast með einhvers konar fæðingargalla eru annars flokks borgarar og fá engin tækifæri í lífinu.
Vincent Freeman (Ethan Hawke) fæðist með hjartagalla, slaka sjón og ófullkomna skapgerð. Foreldrarnir fylgjast með honum alla daga í ótta við að hann slasist vegna eigin ófullkomleika, en þau höfðu slysast til að eignast hann með náttúrulegum hætti, níu mánuðum eftir æsilega stund í aftursæti.
Foreldrar Vincents, Antonio (Elias Koteas) og Marie (Jayne Brook) ákveða að eignast annað barn, en ætla í þetta skiptið að gera það rétt. Þau fá erfðalækni til að útvega þeim son með góða heilsu og aðlögunarhæfni. Þeim fæðist drengur, sem fær nafnið Anton (Loren Dean). Þau leyna því ekki hversu stolt þau eru af Anton, og hversu mikil vonbrigði felast í tilvist Vincents.
Vincent hinn hjartveiki hefur þrátt fyrir veikburða líkama stóra drauma. Hann dreymir um að komast út í geim, en er sagt að gleyma þessum draumórum sínum, þar sem að hann er fyrirfram annars flokks borgari.
Eftir mikilvæga sundkeppni við bróður sinn ákveður Vincent að yfirgefa foreldra sína og bróður, taka sér nýtt nafn og gera allt sem í hans valdi stendur til að láta drauminn rætast.
Vincent þykist vera annar einstaklingur til að fá fyrsta flokks starf og möguleika til að komast út í geim. Til þess að það takist þarf hann aðstoð hins fatlaða en fullkomna í alla aðra staði Jerome Eugene Morrow (Jude Law), og síðan verður hann hrifinn af samstarfskonu sinni Irene Cassini (Uma Thurman).
Það stefnir í að dæmið ætli að ganga upp þegar starfsmaður á skrifstofunni er myrtur, og Vincent liggur undir grun af lögregluforingjanum Hugo (Alan Arkin). Ljóst er að vandamálin hrannast upp og draumurinn sem er svo nálægt því að verða veruleiki fjarlægist hratt. Eina von Vincent er að þrauka í gegnum vandamálin á agaðan hátt.
Það eru mörg áhrifarík atriði í Gattaca, sérstaklega sundkeppni bræðranna og ferð Jerome Morrow upp DNA stigann til að bjarga vini sínum frá vörðum laganna.
Leikstjóri: Andrew Niccol
Einkunn: 10
Myndir: Sci-Flicks.com
9. sæti: Gattaca
10. sæti: Abre los Ojos
11. sæti: The Thing
12. sæti: Brazil
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt 6.7.2008 kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Get Smart (2008) ***1/2
23.6.2008 | 02:20
Maxwell Smart (Steve Carell) þráir að vera njósnari. Reyndar starfar hann fyrir leyniþjónustu sem aðal samtalsgreinir stofnunarinnar, en skýrslurnar sem hann skrifar eru það nákvæmar að enginn nennir að lesa þær. Hann fær toppeinkunn í njósnaraskólanum en Stjórinn (Alan Arkin) leyfir honum ekki að komast út í heim ævintýra vegna mikilvægi hans sem greinir.
Þegar ráðist er á Stofnunina og í ljós kemur að njósnarar um allan heim hafa verið myrtir, fær Smart loksins tækifæri til að sanna sig. Hann er þegar búinn að greina vandann og veit miklu meira um fjandmennina en nokkur annar innan stofnunarinnar, þannig að hann er ágætlega undirbúinn fyrir verkefnið. Eina vandamálið er að hann er algjörlega reynslulaus, hefur ofsatrú á sjálfum sér og er svolítið klaufskur. Smart fær Númer 99 (Anne Hathaway) sem samstarfsfélaga, en hún þarf að hafa sig alla fram við að bjarga honum úr þeim fjölda vandamála sem hann lendir í vegna eigin klaufaskaps.
Aðeins tveir njósnarar fyrir utan númer 99 er á lífi. Það eru númer 23 (Dwayne "The Rock" Johnson) sem þarf að sitja heima og sjá um greiningarvinnuna í stað Smart og númer 13 (Bill Murray) sem er svo óheppinn að hafa verið plantað niður í tré, en þeir þurfa að sigrast á illmennunum Siegfried (Terence Stamp), Shtarker (Ken Davitian) og Dalip (Dalip Singh Rhana).
Það er óvenju mikið af skemmtilegum persónum í ólíklegustu hlutverkum, en hæst ber að nefna forsetann (James Caan), Bruce (Masi Oka) og Hymie (Patrick Warbutton).
Ég brosti nánast alla myndina og hló stundum, sem er náttúrulega afrek þegar kemur að húmorslausum mönnum eins og mér, þannig að ég get auðveldlega mælt með þessu góðlátlega gríni.
Reyndar skilur hún nánast ekkert eftir sig, en á meðan hún varir er gaman. Það versta við Get Smart er að henni lýkur. Mig langaði til að horfa á þessa mynd enn lengur. Steve Carrell er snillingur, og ljóst að hann hefur nú formlega tekið við stöðu Jim Carrey sem aðal trúðurinn í Hollywood.
Tæknilega er Get Smart jafn vel kvikmynduð og nýjustu James Bond myndirnar, og er óvenju spennandi, rómantísk og fyndin. Hún kemur manni í gott skap með ABBA lagi á óvæntu augnabliki og gefur aldrei eftir.
Leikstjóri:Peter Segal
Einkunn: 8
E.S.
Eitt sem mig langar að minnast á í lokin, það hversu gaman er að fara í bíó hérna í Bandaríkjunum. Aðgangsmiðinn er ekki nema kr. 400 íslenskar, popp+kók+súkkulaði á kr. 500, ekkert hlé, enginn texti og bíóið hreint.
Ég skil ekki alveg hvernig stendur á að miðinn heima kostar kr. 1000 á meðan miðinn hér, í miklu flottara bíói en nokkurn tíma heima kostar ekki nema kr. 400.
Ég myndi glaður fara a.m.k. einu sinni í bíó hverja viku ef það væri mögulegt. Spurning hvort að einhverju íslensku tímariti eða dagblaði vanti kvikmyndarýni?Smart spæjari slær í gegn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 02:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
The Incredible Hulk (2008) ***
18.6.2008 | 12:58
Bruce Banner (Edward Norton) starfar við gosdrykkjaframleiðslu í Brasilíu þegar hann sker sig og dropi af blóðinu hans ógurlega lendir ofan í gosflösku sem síðar er flutt til Bandaríkjanna. Þegar Ross hershöfðingi (William Hurt) berast fréttir um undarleg áhrif gosflöskunnar lætur hann rekja hana til verksmiðjunnar og sendir hóp þrautþjálfaðra hermanna á staðinn. Meðal þeirra er harðjaxlinn Blonsky (Tim Roth) sem hefur hreina unun af bardagalistum og getur varla beðið eftir að fá verðugt verkefni. Þetta verður til þess að Banner þarf að leggja á flótta, breytist í Hulk til að ganga frá árásarmönnunum og vaknar svo nakinn í frumskógum Guatemala.
Banner hefur verið að leita leiða til að útrýma risanum ógurlega með því að gera alls konar tilraunir með eigin blóð. Vísindamaður frá New York sem hefur verið að aðstoða hann óskar eftir nánari upplýsingum um það hvernig Banner breyttist í Hulk. Banner heldur til Virginia háskóla þar sem hann starfaði áður, í leit að upplýsingum úr tölvukerfinu þar. Við leitina rekst hann á gömlu unnustu sína, Betty Ross (Liv Tyler) sem er dóttir hershöfðingjans sem hundeltir hann, og ástin blómstrar á ný.
En Ross hershöfðingi kemst að því hvar Banner heldur sig, og ræðst til atlögu, en nú með erfðabættan Blonsky í broddi fylkingar.
The Incredible Hulk er afar vel gerð mynd á sjónræna sviðinu, og slagsmálaatriðin eru gífurlega flott og skemmtileg. Edward Norton er frábær í sínu hlutverki og einnig er mjög gaman að þeim William Hurt og Tim Roth. Hins vegar er ljóst að myndin hefur verið klippt illa af framleiðendum, sjálfsagt til að stytta hana, en það vantar brot hér og þar í söguþráðinn, nokkuð sem veikir myndina töluvert.
The Incredible Hulk er önnur Marvel mynd sumarsins og hún er góð, en ekki jafn nálægt fullkomnun og hin snilldarlega vel gerða Iron Man. Reyndar birtist Robert Downey Jr. sem Tony Stark í stuttu atriði og tengir myndirnar þannig skemmtilega saman.
Þessi útgáfa af risanum græna er mun betri en draslið sem kom frá Ang Lee árið 2003, þar sem blandað var inn hugtökum sem höfðu ekkert að gera við söguheim Hulk. Reyndar er eitt smá hneykslismál tengt þessari mynd. Edward Norton endurskrifaði handrit myndarinnar, en er ekki getið sem einn af höfundum sögunnar vegna þess að hann er ekki skráður í rithöfundasamband Bandaríkjanna.
Þá veistu það.
Leikstjóri: Louis Leterrier
Einkunn: 7
Myndir: Rottentomatoes.com
Kung Fu Panda (2008) ***1/2
14.6.2008 | 20:53
Pönduna Po (Jack Black) dreymir um að verða Kung Fu meistari, en trúir ekki að hann geti orðið það, enda feitur, latur og þungur. En þegar hann er valinn af skjaldbökunni Oogway (Randall Duk Kim) til að verja þorpsbúa gegn hinum illa tígrisketti Tai Lung (Ian McShane) er ljóst að þjálfari Kung Fu musterisins, Shifu (Dustin Hoffman) á mikið og erfitt verk fyrir höndum.
Po er umkringdur hetjum sem finnst hann engan veginn passa inn í hópinn. Þau eru Tigress (Angelina Jolie), Monkey (Jackie Chan), Mantis (Seth Rogen), Viper (Lucy Liu) og Crane (David Cross). Raddsetningin er hreint afbragð og passar 100% við persónurnar. Maður sér ekki leikarana fyrir sér, eins og þegar Robin Williams var andinn í Aladdin, eða Jim Carrey fíllinn í Norton Hears a Who.
Kung Fu Panda er stórvel teiknuð og falleg á að horfa. Sagan er kannski frekar klisjukennd, en hún er einfaldlega samansuða af flestum þeim Kung Fu myndum sem gerðar hafa verið um tíðina. Það má því segja að þetta sé týpísk Jackie Chan mynd, fyrir utan að hún er jafn flott og Shrek myndirnar.
Allar persónurnar eru eftirminnilegar og vel hannaðar, og ljóst að einhver á eftir að moka inn peningum þegar leikföngin birtast í verslunum.
Dágóð skemmtun fyrir alla fjölskylduna nema þau allra yngstu.
Leikstjórar: Mark Osborne og John Stevenson
Einkunn: 8
Myndir: Rottentomatoes.com
10 flottustu DVD pakkar sem komið hafa út frá upphafi
1.6.2008 | 17:54
Nú er DVD formatið búið að vera í gangi síðustu 10 árin eða svo, og margir farnir að tala um næstu kynslóð: BlueRay sem arftaka DVD.
Reyndar er ég sjálfur ekki að fatta hvað fólki finnst svona miklu merkilegra við BlueRay en DVD. Vissulega er upplausnin og hljóðið töluvert betra, en maður sér samt sömu kvikmyndirnar og upplifunin er ósköp svipuð. Að minnsta kosti á enn eftir að sannfæra mig um annað.
En á þessum tíu árum hafa verið búnir til DVD pakkar sem maður einfaldlega getur ekki annað en slefað yfir. Smelltu á örvarnar fyrir neðan hringekjuna til að skoða titlana. Svo smellirðu bara á myndirnar ef þig langar að kaupa þær frá Amazon.co.uk, en þrátt fyrir skatta og tolla er enn ódýrast að kaupa svona stóra pakka í gegnum netið. Því meira sem er í einni sendingu, því minna er maður líka að borga.
Þetta eru allt flottir pakkar og erfitt að bera þetta saman.
Klassískar kvikmyndir um valdabrölt ítalskra mafíósa í New York. Einn mesti harmleikur kvikmyndasögunnar. Fyrstu tvær myndirnar fengu óskarinn sem besta kvikmynd ársins, The Godfather, árið 1972 og The Godfather Part II fékk óskarinn sem besta kvikmynd ársins 1974.. The Godfather Part III var tilnefnd sem besta kvikmynd ársins 1990 en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Dances with Wolves.
Star Wars gjörbreytti heimi kvikmynda með því að grípa ímyndunarafl áhorfenda á nýjan hátt. Árið 1977 var hún tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin. Kvikmynd Woody Allen, Annie Hall vann það árið.
Þó að margir telji fyrstu framhaldsmyndina, The Empire Strikes Back, betri en þá upprunalegu, var sú mynd aldrei tilnefnd. The Return of the Jedi var svo komin út í hálfgerða vitleysu, en skemmtileg kvikmynd engu að síður. Forsagan sem kom út mun síðar er ansi langt frá því að ná þeim hæðum sem upprunalegu myndirnar náðu.
Engar af Alien myndunum fengu óskartilnefningar sem besta myndin, en flestar fengu þær einhverjar tilnefningar fyrir tæknibrellur og sviðsetningu. Alien er framúrskarandi hrollvekja sem byggir fyrst og fremst á persónusköpun og hvernig venjulegt fólk úti í geim bregst við þegar geimskrímsli ræðst á skip þeirra og ógnar lífi þeirra allra.
Það áhugaverða við framhaldsmyndirnar er að þær fylgja engri ákveðinni formúlu. Þannig er Aliens hörku stríðs- og hasarmynd, og Alien 3 er meira pæling um tilvistarkreppu einangraðra karlmanna á fangaplánetu, og síðan fáum við skemmtilegan viðsnúning þegar franskur gamanmyndaleikstjóri gerði eina vanmetnustu svörtu kómedíu síðari tíma: Alien Ressurection, sem er reyndar meira framhald af Delicatessen og City of Lost Children heldur en Alien myndunum.
Raiders of the Lost Ark er fyrsta ævintýri Indiana Jones á hvíta tjaldinu, þar sem fornleifafræðingurinn snjalli er í kapphlaupi við þriðja ríkið til að ná valdi á guðlegu afli sáttmálaarkar Móses. Raiders var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin árið 1981, en það ár vann mynd sem allir væru búnir að gleyma hefði hún ekki fengið óskarinn: Chariots of Fire.
Framhaldsmyndin, The Temple of Doom er álíka slök og hin glænýja Kingdom of the Crystal Skull, en The Last Crusade er stórgóð skemmtun þar sem Indy fær engan annan en James Bond sjálfan sér til aðstoðar, það er að segja Sean Connery í hlutverk föður síns.
The Ultimate Matrix Collection
The Matrix er ein frumlegasta og skemmtilegast kvikmynd síðari ára, sem gaf tilefni til mikilla vona um framhaldið, The Matrix Reloaded og The Matrix Revolutions. Því miður voru framhaldsmyndirnar langt frá því að vera jafn góðar frummyndinni, en þær eru engu að síður nokkuð skemmtilegar, með gífurlega flottum tæknibrellum.
Það sem gerir þennan pakka sérstaklega skemmtilegan eru nákvæmar útskýringar á hvernig tæknibrellurnar voru unnar, og þar að auki fylgja með hinar ágætu teiknimyndir sem safnað er saman undir heitinu The Animatrix.
The Lord of the Rings Trilogy (Extended Edition)
Þegar The Fellowship of the Rings kom út varð allt vitlaust. Peter Jackson hafði tekist að koma sýn fjölmargra aðdáanda J.R.R. Tolkien yfir á hvíta tjaldið með slíkri nákvæmni og natni, að flestum var sama þó að nokkrum atriðum úr bókunum var sleppt úr myndinni, og nokkrum persónum breytt.
Árið 2001 var Fellowship tilnefnd til óskarsins sem besta kvikmynd ársins, en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir hinni mistæku A Beautiful Mind, sem að mínu mati er engan veginn sambærileg við afrekið sem Fellowship er. Næsta ár fylgdi í kjölfarið hið engu síðra framhald: The Two Towers, en hún var einnig tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin, en árið 2002 vann önnur kvikmynd sem er engan veginn á sama stalli, Chigago - söngvamynd sem auðvelt er að gleyma.
Árið 2003 var hins vegar árið þegar The Return of the King kláraði dæmið og fékk óskarinn sem besta kvikmyndin. Reyndar þótti mér Peter Jackson takast heldur illa með að enda síðustu myndina, og fjarlægðist hann kjarnann í sögunni alltof mikið fyrir minn smekk. Á meðan hobbitarnir í bókinni þurftu að berjast til að koma mennskum skúrkum úr Hobbiton með þeirri reynslu sem þeir höfðu aflað sér í fyrri ævintýrum, þá var endirinn gerður auðveldur og alltof væminn. Ég hefði frekar viljað sjá Mystic River taka óskarinn það árið.
Mínir uppáhalds sjónvarpsþættir fyrr og síðar, betri en The X-Files og Star Trek, einfaldlega vegna þess hversu leiftrandi vel þeir eru skrifaðir. Vissulega er viðfangsefnið út í hött, unglingsstúlka sem er hin eina valda til að forða vampírum frá því að taka yfir jarðríki með því að opna púkum og árum leið úr helvíti til jarðar. Persónusköpunin er afar góð og þá skarar sérstaklega fram úr hin illa vampíra Spike sem verður ástfangin af Buffy. Tölum um tilvistarkreppu.
Reyndar eru seríur fimm og sex ekki jafn góðar og þær sem á undan komu, en þeim líkur með fersku yfirbragði sjöundu seríunnar þar sem persónurnar þurfa að safna saman her til að berjast við vampírur sem komast í gegnum hlið helvítis ef ekkert verður að gert.
Monty Python: The Definitive, Outrageously Luxurious Special Edition Monster Box Set
Þetta safn er nákvæmlega það sem það þykist vera. Öllum verkum grínhópsins Monty Python hefur verið safnað saman í einn pakka. Reyndar kom Monty Python aldrei til greina þegar um óskarsverðlaun er að ræða, en það er meira vegna meinloku í hugsunarhættu en að þeir hafi átt þetta skilið.
Frá þeim koma nokkrar snilldarkvikmyndir en tvær þeirra eru hrein klassík: Life of Brian sem fjallar um ævi Brian, sem fæddist undir Betlehemstjörninni, bara í næsta hverfi við Jesús, og The Holy Grail, sem fjallar um leit Arthúr konungs að hinum heilaga kaleik, með ansi skemmtilegum útúrdúrum og atriðum.
Einnig er í pakkanum The Meaning of Life, vel heppnuð kolsvört gamanmynd um öngstræti lífsins. Einnig er í pakkanum kvikmyndin And Now for Something Completely Different, sem ég hef reyndar aldrei séð. Einnig, og síðast en ekki síst, er í pakkanum öll sjónvarpssería Monty Python's Flying Circus ens og hún leggur sig. Þetta er enginn smápakki.
James Bond þarf varla að kynna, en þessi pakki inniheldur allar James Bond kvikmyndirnar sem gerðar hafa verið fyrir utan sjónvarpsmynd sem var gerð áður en Dr. No kom út, og hann inniheldur ekki heldur hina hörmulegu Peter Sellers, David Niven og Woody Allen útgáfu af James Bond: Casino Royale: frábært dæmi um lélegt grín. Einnig vantar í kassann Never Say Never Again, sem gerð var af öðru stúdíói, en með Sean Connery í hlutverki Bondsins.
Í þessum pakka er hægt að rifja upp ævintýri James Bond í túlkun þeirra Sean Connery, George Lazenby (í best skrifuðu Bond sögunni), Roger Moore, Timothy Dalton, Pierce Brosnan og loks Daniel Craig. Það góða við alla þessa leikara er að þeir leifa eigin persónuleika að njóta sín í hlutverkinu, reyndar allir nema Lazenby sem mér fannst reyna alltof mikið að feta í sömu fótspor og Sean Connery. Bara ef Connery hefði leikið í þeirri mynd.
The BBC TV Shakespeare Collection
William Shakespeare þarf ekki að kynna, en BBC hefur í gegnum árin tekið upp öll hans leikrit, og nú er hægt að fá þau öll í einum pakka. Þetta er mun aðgengilegri nálgun á Shakespeare heldur en að lesa handritin að leikritunum eða kíkja í tilvitnanir. Þessu mæli ég með fyrir alla sem hafa áhuga á að skemmta sér vel og hlusta á svo myndríkar samræður að heilu bardagaatriðin geta birst í manns eigin ímyndunarafli hlusti maður bara nógu vel.