Færsluflokkur: Kvikmyndir

Charlie Wilson's War (2007) ***

Öldungardeildarþingmaður fyrir Texas, Charlie Wilson (Tom Hanks) sem starfað hefur í sex kjörtímabil án þess að gera nokkurn skapaðan hlut af viti annað en að drekka viskí, sniffa kókaín og vera með fjölmörgum kvenmönnum, fær allt í einu samvisku eftir að Joanne Herring (Julia Roberts) biður hann að skreppa til Afganistan og kíkja á ástandið þar. Hann fer þangað ásamt aðstoðarkonu sinni Bonnie Bach (Amy Adams) og eru þau bæði djúpt snortin.

Árið er 1980 og rússneski herinn stráfellir Afgana með öflugum þyrlum, en Afganir hafa rétt gamaldags riffla til að verja sig. Þegar Wilson sér börn illa farin eftir jarðsprengjur, og hungursneyð og hörmungar á svæðinu, ákveður hann að gera eitthvað í málinu, einfaldlega vegna þess að hann þolir ekki að sjá einhvern beittan óréttlæti.

Hann fær til liðs við sig CIA njósnarann og snillinginn Gust Avrakotos (Philip Seymor Hoffmann), sem er með allt á hreinu um alla og segir nákvæmlega það sem honum sýnist við hvern sem er, og er alltaf með á hreinu hver er að hlusta.

Charlie Wilson veit hvað þarf að gera. Afgana vantar vopn og þjálfun til að geta varið sig gegn skrímslum eins og herþyrlum, herþotum og skriðdrekum. Á nokkrum árum tekst honum að breyta fjáröflun til Afganistan úr 5 milljónum í 1 milljarð, og með þessu flæma sovéska herinn frá Afganistan.

Á endanum vantar hann ekki nema eina milljón til að stofna skóla sem fræða á Afgana um hvernig Bandaríkjamenn tóku þátt í að bjarga þjóðinni frá Rússum, en sú fjárútnefning er felld, og þar sem Afganir vissu ekki um aðild Bandaríkjamanna í frelsisbaráttu þeirra og fengu enga fræðslu um hana, var grundvöllur gerður fyrir því að vel þjálfaðir hermenn gerðust hryðjuverkamenn sem árið 2001 réðust á tvíburaturnana í New York.

Það er magnað að skoða þessa hluti í þessu samhengi, og áhugavert að spyrja hvort að þessi eina milljón í skólabyggingu hefði breytt einhverju um framtíð þessara tveggja þjóða. Hefðu talibanar þá ekki komist til valda? Hefði ekki verið gerð árás á Bandaríkin? Væri ekki stríð í Írak enn í fullum gangi?

Handritið er vel skrifað og Philip Seymor Hoffmann er sérstaklega skemmtilegur sem hinn ófyrirleitni njósnari. Helsti gallinn felst helst í leik Julia Roberts, sem er óvenju stíf og ótrúverðug í sínu hlutverki. Þar að auki vantar algjörlega dramatík í söguna, en það er eins og enginn sé nokkurn tíma að berjast fyrir einhverju sem skiptir þá sjálfa persónulega máli, nokkuð sem mér finnst frekar ótrúverðugt miðað við manngerðirnar sem eiga í hlut. Einnig eru Bandaríkin máluð sem bjargvættur í alþjóðasamfélaginu, þrátt fyrir að hafa töluvert af skapgerðargöllum og nautnahyggju í farteskinu.

Áhugaverð kvikmynd en engin snilld.

 

Leikstjóri: Mike Nichols

Einkunn: 7



---

Myndir: Rottentomatoes.com

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull (2008) **1/2

 

Töffarinn Mutt Williams (Shia LaBeouf) leitar til Indiana Jones með bréf sem hann botnar ekkert í, en móðir hans, Marion Ravenwood (Karen Allen) hefur verið handsömuð af kommúnistum og er haldið einhvers staðar í Perú, ásamt fornleifafræðingnum vitskerta Harold Oxley (John Hurt). Gamall félagi Indy, Mac (Ray Winstone) slæst í hópinn en virðist hafa meiri áhuga á gróða en fornum munum.

Indiana Jones (Harrison Ford) er farinn að kenna til aldur síns en heldur samt ævintýrum sínum ótrauður áfram. Í þetta sinn er hann í kapphlaupi við kommúnista í leit að hinni gullnu borg sem leynist einhvers staðar í frumskógum Amazon, þar sem að hauskúpa úr kristal gegnir lykilhlutverki. Reyndar á Indy frekar erfitt með að finna sér samastað, þar sem að bandaríska ríkið er ekkert skárra en hið rússneska undir ofsóknum McCarthy og félaga.

Helsti óvinur Indy og félaga er Irina Spalko (Cate Blanchett), KGB njósnari sem þráir ekkert heitar en að geta stjórnað hugsunum annarra og gera alla í heiminum að kommúnistum. Helsti aðstoðarmaður hennar er Dovchenko (Igor Jijikine) og hið besta fóður fyrir hnefahögg Dr. Jones.

Ólíkt Raiders of the Lost Ark (1981) og Indiana Jones and the Last Crusade (1989) átti ég bágt með að trúa á innistæðu hnefahöggva og hetjudáða Indy, og þar að auki eru hætturnar og ævintýrin sem hetjurnar lenda í svo ýktar að maður hefur alltaf á tilfinningunni að maður sé að horfa á teiknimynd. Það sem sárvantar er góður leikur. Harrison Ford og Karen Allen hafa því miður ekki upp á mikinn ferskleika að bjóða, og hinn fíni Ray Winstone leikur frekar klisjukennt hlutverk. Það eru helst Cate Blanchett, John Hurt og Shia LaBeouf sem standa upp úr fyrir leik, enda tekst þeim að gefa persónum sínum frumlega vídd þrátt fyrir frekar þunnt handrit.

Það sem gerði Raiders of the Lost Ark að klassík var hvernig frumlegum persónum var fléttað skemmtilega inn í æsispennandi atburðarrás, þar sem maður gat engan vegin séð fyrir hvað myndi gerast næst. Maður hafði hugann við síðasta atriði á meðan maður horfði á það næsta. Þannig eiga myndir að vera. Indiana Jones and the Temple of Doom (1984) gerði ósköp lítið annað en að pirra vegna frekar leiðinlegrar aðalleikkonu og slakri sögu, en ágætis hasaratriðum. Það sem gerði Indiana Jones and the Last Crusade góða var skemmtilegur samleikur þeirra Harrison Ford og Sean Connery, á meðan þemað var hæfilega djúpt.

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull er eins og smurð vél. Maður veit því miður nokkurn veginn gerist næst, enda söguþráðurinn afar klisjukenndur og ofhlaðinn, og ljóst er að atriðin og tæknibrellurnar eru komnar í aðalhlutverk, en persónurnar sitja eftir í aukahlutverkum, aðallega vegna þess að leikararnir og leikstjórinn eru komnir yfir sitt besta. Það sem mér finnst allra verst er að ekki hefur tekist að viðhalda persónueinkennum grafarræningjans Indiana Jones, sem allt í einu er orðinn miklu göfugri en hann hafði áður verið og ekki lengur jafn slægur.


Ég verð að viðurkenna að af stórsumarmyndunum tveimur sem komið hafa út, að Iron Man (2008) er mun betri skemmtun, enda byggist hún meira á góðum leik og áhugaverðum persónum, þar sem tæknibrellur leika aukahlutverk og gera það óaðfinnanlega. En bara vegna þess að þetta er Indiana Jones og Steven Spielberg, er myndin skylduáhorf fyrir alla sem hafa áhuga á kvikmyndum. Afurðin er því miður líkari hamborgara frá MacDonalds en ferskri villubráð frá Afríku.

Leikstjóri: Steven Spielberg

Einkunn: 6

 


Indiana Jones and the Last Crusade (1989) ***

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull er frumsýnd á Íslandi í dag, og því við hæfi að skrifa nokkur orð um framhaldsmynd númer tvö. Fyrri framhaldsmyndin var ekki nógu skemmtileg til að ég nenni að horfa á hana aftur. 

Indiana Jones and the Last Crusade hefst á stuttmynd um ævintýri hetjunnar á unglingsárum, en þar fer River Phoenix heitinn með hlutverk hetjunnar. Tónninn er léttur og hraðinn mikill.

Indy er í reiðtúr með skátafélögum sínum um Miklagljúfur en þar rekst hann óprúttna náungi sem hafa fundið Coronada krossinn, 500 ára forngrip sem Indy ákveður að eigi heima á safni. Hann stelur forngripnum af gaurunum og leggur á æsilegan flótta, þar sem í ljós kemur af hverju hann er hræddur við snáka, hvernig hann fann svipuna sína og örið á hökunni, og síðast en ekki síst hvernig hann fékk hattinn góða. Gaurarnir ná hins vegar krossinum af honum.

Nokkrum árum síðar nær Indy krossinum aftur einhvers staðar úti á reginhafi, sprengir skip í tætlur og sleppur einn lifandi úr sjónum.

Þegar heim er komið og hann aftur farinn að fræða háskólanemendur um fornleifafræði berast honum þær fregnir frá auðkýfingnum Walter Donovan (Julian Glover) að faðir hans, Prófessor Henry Jones (Sean Connery) hefur horfið við leit að hinum heilaga kaleik. Áður en Henry hvarf sendi hann Indy dagbók sína í pósti. Indy notar hana til að finna gröf riddara í Feneyjum, sem hefur að geyma nánari upplýsingar um staðsetningu hins heilaga kaleiks.

Riddarasögur segja að sá sem drekkur úr hinum heilaga kaleik öðlist eilíft líf. Það vekur áhuga nasista, sem sjá fyrir sér her sem getur lifað að eilífu og fengið sár sín læknað með vatni úr hinum heilaga kaleik. Indy hefur tvo trygga aðstoðarmenn og vini með í för, þá Marcus Brody (Denholm Eliot) og Sallah (John Rhys-Davies), og eina svikula vinkonu, Dr. Elsa Schneider (Alison Doody). Indy þarf að frelsa föður sinn úr höndum nasista og vera á undan þeim í að hirða hinn heilaga kaleik úr höndum miðaldariddara.

Þó að Last Crusade sé fín kvikmynd, þá kemst hún ekki í hálfkvist á við Raiders of the Lost Ark, sem var mun betur uppbyggð með knöppum og frumlegum frásagnastíl Það eru vissulega flott atriði í Last Crusade, en þau virka samt bara sem atriði, og það er vissulega húmor, en hann virkar oft frekar tilgerðarlega. Frumkraftur upprunalegu myndarinnar er einfaldlega ekki lengur til staðar, þar sem húmorinn var notaður til að létta aðeins á spennunni. Í Last Crusade er spennan ekki mikil, enda tónninn það léttur að maður veit að ekkert hræðilegt getur komið fyrir. Í Raiders of the Lost Ark hafði maður hins vegar á tilfinningunni að hvað sem er gæti gerst, og hvað sem er komið fyrir hvern sem er.

Ég ætla ekki að skrifa sérstaklega um mynd númer tvö í bálknum, Indiana Jones and the Temple of Doom, enda get ég ekki mælt með henni, þrátt fyrir að í henni séu nokkur flott atriði. Sem heild heldur sú mynd ekki vatni, og kenni ég þar mest um pirrandi leik Kate Capshaw og frekar stefnulausri leikstjórn Spielberg og slöku handriti. Samt er Harrison Ford mjög góður í þeirri mynd, sem og hinum tveimur.

 

Leikstjóri: Steven Spielberg

Einkunn: 8

 


Indiana Jones and the Raiders of the Lost Ark (1981) ****

 

Í tilefni þess að Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull verður frumsýnd í dag, gagnrýni ég Raiders of the Lost Ark, fyrsta ævintýri Indiana Jones á hvíta tjaldinu.

Fornleifafræðingurinn Indiana Jones (Harrison Ford) er stundakennari við fornleifafræði í háskóla. Hann hefur samt frekar lítinn tíma og áhuga til kennslu. Mestur hans tími fer þó í að stela menningararfleifðum annarra þjóða og koma þeim á bandarísk söfn, en hann telur það vera göfugt starf. Þegar hann er í fornleifagripaleit er hann alltaf með hatt, svipu og skammbyssu innan handar.

Hann stundar að stela vel vörðum forngripum, sem helst er lífshættulegt að nálgast. Þrátt fyrir að vera þjófur menningararfleifða hefur Indy hjartað á réttum stað, sérstaklega þegar kemur að því að velja sér stöðu á milli góðs og ills.

Helstu keppinautar hans er hinn franski Dr. Rene Belloq (Paul Freeman), en hann á það til að láta Jones um skítverkið og hirða svo af honum gripina þegar honum hefur tekist að komast í gegnum lífshættulegar þrautir og erfiðleika. Belloq er sniðugur samningamaður og fær ætíð stóra hópa í lið með sér, á meðan Jones er eins og smákrimmi sem fær sér smákrimma sér til aðstoðar, sem er síðan alls ekki treystandi.

Indiana Jones er afar fundvís og fer létt með að leysa hvaða þrautir sem er, og hann er snillingur að komast lífs af, sama hversu mikilfenglegt vandamál hann fæst við.

Eftir að hafa tapað fyrir Belloq enn einu sinni í æsilegu byrjunaratriði þar sem að Indiana Jones er svikinn af aðstoðarmanni sínum Satipo (Alfred Molina), reynir að stela fornum grip og er eltur af risastórri kúlu og síðan indíanaættbálk, og hann kominn í skólastofuna þar sem hann fræðir nemendur um muninn á staðreyndum og sannleika, fær hann og hans traustasti vinur Dr. Marcus Brody (Denholm Elliot)  heimsókn frá bandarísku leyniþjónustunni.

Lærifaðir Indiana Jones, Dr. Abner Ravenwood, hefur fundið hina fornu borg Tanis, þar sem sáttmálaörk Móses er geymd. Fara sögur af því að örkin geymi mátt Guðs og enginn geti sigrast á þeim sem stjórnar henni. Þar sem að árið er 1936 og stutt í síðari heimstyrjöldina, eru nasistar á höttunum eftir örkinni þar sem að þeir vilja að sjálfsögðu sigra heiminn fljótt og örugglega. Þeir eru þegar byrjaðir að grafa upp Tanis og hafa fundið kortaherbergi sem á að geta vísað á sáttmálsörkina, en til þess að finna hana þarf að hafa ákveðinn hlut í höndunum sem notar sólarljós til að vísa á réttan stað.

Þennan hlut á Marion Ravenwood (Keren Allen), gömul kærasta Indiana Jones og dóttir Abner Ravenwood. Hún á heima í Nepal þar sem hún rekur krá. Indy heimsækir hana og í humátt á eftir honum koma nasistar, sem brenna niður krána. Þannig að Indiana Jones fer ásamt Marion til Egyptalands, þar sem þau ælta að stela örkinni saman, ásamt góðum vini þeirra Sallah (John Rhys-Davies).

Indiana Jones, Marion og Sallah hefja nú afar spennandi kapphlaup við nasista um að finna örkina og koma henni undan. Nasistarnir hafa fengið Belloq til liðs við sig, en leiðtogar nasista eru hinn kvalarlostafulli SS maður Arnold Toht (Ronald Lacey) og Dietrich hershöfðingi (Wolf Kahler).

Nokkur af best útfærðu atriðum kvikmyndasögunnar er að finna í Raiders of the Lost Ark. Byrjunaratriðið er snilldarverk, sem og eltingarleikur þar sem Indiana Jones fer ríðanda á hesti og ræðst einsamall á bílalest nasista. Einnig er þarna að finna eitt besta slagsmálaatriði kvikmyndasögunnar, þar sem Indy slæst við risastóran nasista á meðan Marion er læst inni í flugvél, en umhverfið er fullt af bensíni, eld og nasistum. Einnig er að finna í þessu eitt fyndnasta ekki-bardagaatriði sögunnar, þar sem að Indy þarf að takast á við mjög svo vígalegan mann með stórt sverð.

Raiders of the Lost Ark er ein skemmtilegast ævintýramynd sem gerð hefur verið. Hver einasti rammi er skemmtilega leystur, og framvindan er snörp og spennandi. Spielberg tekst alltaf að finna áhugavert sjónarhorn, og svo er ekki verra að hinn fámáli Indiana Jones segir setningar sem auðvelt er að muna loks þegar hann hefur eitthvað að segja. Tónlistin eftir John Williams er einnig mögnuð og grípandi.

 

Leikstjóri: Steven Spielberg

Einkunn: 10


Hin mörgu andlit Robert Downey Jr.

Myndir segja meira en þúsund orð.

 

Back to School (1986)

 

Chaplin (1992)

 

Handtekinn (1999)

 

A Scanner Darkly (2005)

 

Iron Man (2008)

 

Tropic Thunder (2008)

 

Forsmekkur fyrir Tropic Thunder:


Iron Man (2008) ****

Glaumgosinn, milljarðamæringurinn og vopnasölumaðurinn Tony Stark (Robert Downey Jr.) fer til Afganistan að sýna nýjustu uppfinningu sína, sprengju sem kallast Jerico og getur valdið gífarlegum skaða á miklu svæði. Ráðist er á bílalest hans og allir samfylgdarmenn drepnir, en hann handsamaður af hryðjuverkamönnum. Hann fær í sig fjölda sprengjubrota, og sum þeirra festast það djúpt í líkama hans að ekki er hægt að ná þeim út.

Með Tony í haldi er vísindamaðurinn Yinsen (Shaun Toub) sem hannar rafsegulapparat sem hindrar sprengjubrotin frá því að renna í hjarta Tony og kemur þannig tímabundið í veg fyrir dauða hans. Hryðjuverkamennirnir heimta að Tony smíði handa þeim öfluga sprengju, sem hann samþykkir að gera, en í stað þess að smíða sprengjuna smíðar hann utan á sig tölvustýrða brynju sem hann notar til flótta. Það var lítið mál fyrir hann að fá alla aukahluti sem hann þarfnast, því að hryðjuverkamennirnir eru með miklar vopnabirgðir frá fyrirtæki hans.

Þegar heim er komið er fyrsta verk Tony Stark að tilkynna á blaðamannafundi að Stark Industries sé hætt vopnaframleiðslu. Hann hefur ákveðið að snúa við blaðinu og vill í stað þess að taka þátt í biluðum stríðsleikjum, reyna að koma einhverju góðu til leiðar. Þessi tilkynning fellur í grýttan jarðveg hjá hans bestu félögum. Besti vinur hans, Jim Rhodes (Terrence Howard) sem er yfirmaður í vopnaþróun bandaríska hersins hættir að tala við hann. Aðstoðarmaður hans, Pepper Potts (Gwyneth Paltrow) hefur hug á að segja starfi sínu lausu. Og félagi hans til 30 ára, sem stofnaði Stark Industries ásamt föður hans, Obadiah Stane (Jeff Bridges) tekur fréttunum það illa að hann fær stjórn fyrirtækisins til að hunsa Tony.

Tony tekur til við að uppfæra brynjuna, þróar búnað til að geta flogið og skotið höggbylgjum, auk ýmissa aukatækja. Hann gerir margar spaugilegar tilraunir þar til hann er sáttur við tækið, og setur sér síðan að nýta þetta nýja vopn til góðs. En það er svikari í innsta hring, sem hefur meiri áhuga á að sjá Tony dauðan en lifandi. Þar að auki hefur dularfull leyniþjónusta aukinn áhuga á starfsemi hans.

Það er semsagt nóg að gerast í Iron Man, mikið drama, mikið grín og mikið fjör. Tæknibrellurnar eru hreint afbragð og þjóna sögunni afar vel. Robert Downey Jr. sýnir og sannar enn einu sinni hversu magnaður snillingur hann er, en hann gerir Iron Man að trúverðugri persónu sem maður fær djúpa samúð með. Gwyneth Paltrow er einnig góð í sínu hlutverki, Jeff Bridges hreint afbragð sem hinn gamli samstarfsfélagi, en Terrence Howard fannst mér óvenju stirður, sem fylgir reyndar kannski hermannahlutverkinu.

Ég get ekki séð hvernig Iron Man hefði getað verið betri mynd, miðað við efni og aðstæður, og því gef ég henni hæstu einkunn. Reyndar er töluvert ofbeldi í myndinni og hefur það raunveruleikablæ, þrátt fyrir að sagan sé byggð á teiknimyndasögupersónu. Ég held að Iron Man muni koma flestum sem gefa henni tækifæri skemmtilega á óvart. Þó að hún sé frá sömu framleiðendum og Spider-Man og Hulk, er hún allt annars eðlis. Það eru engir ofurkraftar til staðar, heldur bara snilldar uppfinningamenn sem nota nútímatækni á nýjan hátt.

Vísindaskáldskapurinn sem felst í sögunni er í raun orkulind brynjunnar, en það á að vera ný uppfinning frá Stark Industries sem getur geymt gífurlegt magn orku í litlu plássi.

Ekki fara heim þó að þú haldir að myndin sé búin. Á sýningunni sem ég var á voru aðeins þrjár manneskjur eftir í salnum þegar umrætt atriði birtist, með engum smáleikara. Það er ekki nóg með að við fáum allt þetta, því að í lok myndarinnar er áhorfandanum komið skemmtilega á óvart, og sérstaklega ef þú bíður þangað til allur texti um kvikmyndagerðarmenn hefur skriðið upp skjáinn í rúmar fimm mínútur, þá fáum við ansi góðan bita sem gerir ekkert annað en fá mig til að hlakka til næstu fimm ára í kvikmyndasögunni. 

Iron Man er ein af bestu ofurhetjumyndum sem gerðar hafa verið, og er í sama klassa og Batman Begins (2005), Spider-Man (2002) og X-Men (2000). 

Leikstjóri: Jon Favreau

Einkunn: 9

 


Ný og bráðskemmtileg bíóforskot um hetjur sumarsins: The Dark Knight, Indiana Jones, Hancock og The Incredible Hulk

Í dag sá ég nýjar bíóauglýsingar fyrir þrjár af stórmyndum sumarsins. Mér leist allra best á Indiana Jones, en einnig held ég að The Dark Knight verði mjög góð, auk þess að Will Smith virðist vera í essinu sínu sem Hancock.

 

The Dark Knight - Trailer 2

**** 

 

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull - Trailer 2

**** 

 

Hancock - Trailer 2

*** 

 

The Incredible Hulk - Trailer 2 

*** 


Verða þetta 10 bestu kvikmyndir sumarsins?

Í sumar verða frumsýndar 10 kvikmyndir sem mig langar til að sjá á breiðtjaldi. Ég ætla að segja frá í örstuttu máli af hverju mig langar að sjá viðkomandi mynd.

Mér finnst orðið skemmtilegra að horfa á bíómyndir í skjávarpa heima heldur en að skella mér í bíó, enda kosta myndir á DVD mun minna en bíómiði í dag, og maður losnar við hlé, texta og ónæði sem fylgir alltof oft hegðun annarra bíógesta.

 

Iron Man

photo_35

Robert Downey Jr. leikur Tony Stark, snilldar uppfinningamann og glaumgosa sem hefur týnt sér í lífinu, en finnur aftur tilgang eftir að hann hefur fengið sprengubrot í hjartað, lifað það af og verið handsamaður af hryðjuverkamönnum. Ég reyni að sjá allar ofurhetjumyndir. Þetta er einfaldlega tegund kvikmynda sem ég er mjög hrifinn af, ásamt vísindaskáldsögum. Svo líst mér afar vel á leikaravalið, sérstaklega aðalhlutverkið.

 

Speed Racer

photo_06

Ég veit ekki alveg hverju maður getur átt von á hérna. Hún er leikstýrð af bræðrunum sem gerðu The Matrix. Það er nógu góð ástæða til að kíkja.

 

The Chronicles of Narnia: Prince Caspian

photo_09

Ég hef lesið allar bækurnar og hafði gaman af þeim. Mér fannst fyrsta myndin bara la-la, en vona að framhaldið verði betra. Fantasíur eru reyndar í uppáhaldi hjá mér, rétt eins og sci-fi og ofurhetjumyndir.  Ég er samt alls ekki bjartsýnn að eitthvað verði varið í þessa mynd.

 

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull

photo_06

Yesss! Steven Spielberg, George Lucas og Harrison Ford snúa aftur í ævintýraheim Indiana Jones. Þrátt fyrir að Harrison Ford sé orðinn heldur gamall í hlutverkið, treysti ég á Steven Spielberg. Hann klikkar sjaldan. Sagan er algjört aukaatriði, bara að þeir nái þeim skemmtilega anda sem Raiders of the Lost Ark náði, þá eru þeir í góðum málum.

 

The Incredible Hulk

photo_34

Ég var enginn aðdáandi Hulk í leikstjórn Ang Lee. En framhaldið getur verið áhugavert, fyrst og fremst vegna þess að Edward Norton fer í græna búninginn og skrifar hluta af handritinu. Ég veit ekki alveg við hverju ég á að búast, býst ekki við miklu en vonast eftir einhverju í anda teiknimyndasagnanna um Hulk, því þær eru margar ansi lúnknar.

 

Wall-E

photo_01

Nýjasta mynd Pixar, um síðustu vitsmunaveru jarðar, vélmennið Wall-E. Pixar hefur einfaldlega aldrei klikkað og ég efast um að þeir taki upp á því núna. 

 

Hancock 

photo_10

Will Smith leikur þunglynda ofurhetju sem er sama um allt og alla. Hann fær sér almenningstengslafulltrúa til að snúa við blaðinu. Áhugavert hugtak og auðvelt að láta það klikka. En Peter Berg leikstýrir, sem er góðs viti. 

 

Hellboy II: The Golden Army 

photo_34

Guillermo del Toro sendir Heljarguttann aftur inn í kvikmyndahús, og af sýnishorninu að dæma er mikið um furðuverur og áhugaverðar fantasíudýrðir. Ég get varla beðið eftir að fá DVD diskinn í hendurnar.

 

The Dark Knight

photo_12

Batman snýr aftur enn einu sinni, og nú aftur í meðförum Christian Bale og leikstjórn Christopher Nolan. Ég var hundfúll með The Prestige, sem þeir gerðu saman í fyrra, og vona að þeir missi ekki tökin á Batman með því að gera alltof mikið. Málið er að leikstjórar virðast oft halda að myndir þurfi að vera stærri og flottari til að fá meiri aðgang, á meðan sagan þarf einfaldlega að vera góð og gera söguhetjuna mannlega og áhugaverða. Næstsíðasta mynd Heath Ledger fyrir óvænt andlát hans fyrr á þessu ári.

 

Mamma mia! 

photo_02

Söngleikurinn vinsæli byggður á ABBA tónlist verður að kvikmynd með Meryl Streep og Pierce Brosnan í aðalhlutverkum. Held það verði gaman að þessari.

 

Ef ég gæti aðeins farið á þrjár myndir í sumar, þá veldi ég þessar:

 

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull

 

The Dark Knight

 

Iron Man 

Aðrar myndir sem ég vil ekki missa af:

Hellboy II: The Golden Army

 

Wall-E 


Er hrollvekjumeistarinn Guillermo del Toro rétti leikstjórinn fyrir Hobbitann?

deltorohobbit

Hobbitinn er eitt af mínum eftirlætis ævintýrum, en J.R.R. Tolkien skrifaði hana til að skemmta þremur ungum sonum sínum. Hún gerist um 50 árum áður en The Lord of the Rings hefst, en Tolkien skrifaði þá bók fyrir syni sína á meðan þeir börðust í seinni heimstyrjöldinni gegn nasistum.

Morgun einn fær Bilbo Baggins óvænta heimsókn frá 12 ókunnugum dvergum og töframanninum Gandálfi. Þar sem að Bilbo er með kurteisari hobbitum og lifir eins rólegu og venjubundnu lífi og hugsast getur, býður hann þeim öllum inn á heimili sitt í te.

Í ljós kemur að hópurinn ætlar í fjársjóðsleit og þá vantar þann fjórtánda í hópinn, því að þrettán er óhappatala. Þeir vilja ráða Bilbo sem þjóf í langt ferðalag, þar sem þeir þurfa að fara í gegnum myrkan skóg með tröllum, risakóngulóm og yfir fjöll sem stjórnað er af orkum og vörgum. Bilbo ákveður að slá til, þrátt fyrir að heilbrigð skynsemi segi honum að halda sig heima. Hann átti nefnilega frænda sem hafði verið ævintýragjarn, og alltaf hafði blundað í honum þrá eftir ævintýrum svo að hann hefði sögur að segja frá í ellinni.

Bilbo og félagar lenda í hverri lífshættunni á eftir annarri, og Bilbo finnur meðal annars forláta hring í dimmum helli þar sem Gollum sjálfur ræður ríkjum. En ferðin heldur áfram að þorpi nokkru þar sem þorpsbúar lifa í stöðugum ótta við drekann Smaug, sem liggur á miklum fjársjóði inni í nærliggjandi fjalli. Smaug er hins vegar með ólíkindum lævís og klókur, sem kemur í ljós þegar Bilbo á við hann samtal upp á líf og dauða.

Fyrir nokkrum árum, þegar tilkynnt var að Peter Jackson kæmi til með að leikstýra The Lord of the Rings var ég sannfærður um að hann væri rétti maðurinn í starfið. Ég hafði haft áhuga á verkum hans í mörg ár, alveg frá því ég sá viðbjóðslegu splatter myndirnar Bad Taste (1987) og Braindead (1992) sem hann gerði við upphaf ferilsins. Það sérstaka við þær myndir var hversu vel honum tókst að blanda saman hryllingi og húmor, auk þess hvað tæknibrellurnar voru trúverðugar þrátt fyrir takmarkaða tækni.

Síðan sló Jackson í gegn með Heavenly Creatues (1994), mynd um vinkonur sem myrða móður annarar þeirra. Mér líkaði ekkert sérstaklega vel við þá mynd, en hún stendur samt eftir í minningunni. Næst gerði hann svo Forgotten Silver (1995), snilldar heimildarmynd í laufléttum dúr. Síðan kom hann með draugamyndina The Frighteners (1996) sem mér fannst hreint frábær, en hún blandaði saman hryllingi og spaugi, rétt eins og í Bad Taste, nema að tæknibrellurnar voru margfalt betri og myndin mun smekklegri en það sem hann geði í sínum fyrstu skrefum.

Ég hafði séð allar þessar myndir fyrir utan Forgotten Silver og hafði lesið The Lord of the Rings þrisvar sinnum og var sannfærður um að þetta myndi smella saman, og skrifaði um það grein á writtenbyme.com, þar sem sumir voru mér sammála en aðrir ekki. Við vitum núna hver hafði rétt fyrir sér þar. 

Þegar mér verður hugsað til þess að Guillermo del Toro ætli að leikstýra hobbitanum vakna svipaðar kenndir. Reyndar hef ég ekki séð allar hans myndir, en sú fyrsta sem ég sá var Mimic (1997), sem mér þótti frekar slök hrollvekja um kakkalakkafaraldur í stórborg. Hann fylgdi henni eftir með afbragðs myndinni El Espinazo del Diablo, draugasaga sem gerist á munaðarleysingjahæli undir lok síðari heimstyrjaldarinnar á Spáni. Tímabil og staðsetning sem hann átti eftir að nota aftur í El Laberinto del fauno (2006), jafn góðri mynd en miklu vinsælli.

Á milli þessara tveggja snilldarverka leikstýrði hann Blade II (2002), ágætri hasarkvikmynd um vampíru sem segir öðrum vampírum stríð á hendur og Hellboy (2004) um kaþólska ofurhetju sem kemur úr iðrum helvítis til að berjast gegn yfirnáttúrulegum og illum öflum til verndar mannkyninu. Sú mynd var ágæt, og tæknibrellurnar voru sérstaklega góðar. Það er stutt í að framhaldsmyndin Hellboy II: The Golden Army (2008) verði frumsýnd, en mér líst mjög vel á sýnishorn hennar.

Reyndar er del Toro með mörg járn í eldinum sem leikstjóri og nokkuð ljóst að hann verður að velja og hafna, því að hann hefur tilkynnt að hann sé með fimm kvikmyndir í bígerð: The Hobbit (2010) og The Hobbit 2 (2011), auk 3993 (2009) þar sem hann heimsækir aftur kunnuglegar slóðir, en um draugasögu í spænsku borgarastyrjöldinni árið 1939 er að ræða, sem endurspeglast í atburðum sem gerast árið 1993, sem útskýrir heiti myndarinnar. 

Hann er með fleiri spennandi verkefni í gangi, en hann ætlar að leikstýra At the Mountains of Madness (2010) sem gerð er upp úr sögu hryllingsmeistarans H.P. Lovecraft, og loks ætlar hann að leikstýra ofurhetjumyndinni Doctor Strange (2010) sem fjallar um sjálfselskan skurðlækni sem missir hendurnar í bílslysi, en uppgötvar að hann hefur tengingu við heim handan þessa heims sem gerir honum fært að galdra í baráttu sinni við ill öfl. Ljóst er að del Toro þarf að forgangsraða vel öllum þessum gífurlega spennandi verkefnum sem bíða hans. Ljóst er að maður kemst ekki hjá því að fylgjast náið með þessum manni næstu árin.

Svar mitt við spurningunni í titli greinarinnar er að mínu mati ótvírætt já, enda er The Hobbit afar myndræn saga með miklum hasar og skrímslum, launráðum og dáðum, og þar að auki magnaðan lokabardaga milli fimm ólíkra herja, þar sem sumar hetjur falla, en þær sem eftir lifa verða goðsögur í þeirra heimi.

Sýnishorn úr nokkrum myndum eftir Guillermo del Toro.  Athugið að megnið af hans myndum eru hrollvekjur og fantasíur, þannig að sumum gæti misboðið sýnishornin.

 

Cronos (1993)

 

Mimic (1997) (Fann þetta bara döbbað á spænsku)

 

El Espinazo del Diablo (2001)

 

Blade II (2002)

 

Hellboy (2004)

 

El Laberinto del Fauno (2006)

 

 

Hellboy 2: The Golden Army (2008)

 

Ég skrifaði aðra grein um sama mál 28.1.2008 undir heitinu:  Guillermo Del Toro leikstýrir The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien

 

Mynd af Smaug eftir Alberto Gordillo: GFX Artist


mbl.is Toro leikstýrir Hobbitanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

22 bestu kvikmyndir Charlton Heston (þarf góða nettengingu vegna fjölda myndbanda)

In Memoriam

Charlton Heston (4. október 1924 - 5. apríl 2008)

Charlton Heston er þekktastur fyrir hlutverk sín í stórum kvikmyndum, sem hafði rándýrar tæknibrellur, góða listræna leikstjórn, flotta búninga og magnaða tónlist. Hann lék Móses, Michaelangelo og Ben-Hur, en Michael Moore gagnrýndi hann harkalega í kvikmynd sinni Bowling for Columbine, þegar Heston var reyndar byrjaður að fá einkenni Alzheimer sjúkdómsins.

Charlton Heston hafði á sínum yngri árum verið þekktur fyrir baráttu sinni gegn vanhugsuðum styrjöldum og var demókrati af Guðs náð. Síðan skipti hann um stefnu og varð harður repúblikani sem studdi Ronald Reagan til forsetakosninga.

Síðar varð hann formaður bandaríska byssusambandsins og hans frægustu orð í því starfi var þegar hann sló því fram að hann myndi aldrei gefa eftir í réttinum til að eiga og vera með byssu á sér:



Ég hef ekki séð allar kvikmyndir Charlton Heston, og nota því einkunnir frá IMDB til að raða þeim eftir einkunnum sem notendur Internet Movie Database hafa gefið þeim yfir árin.

 

22. Major Dundee (1965) 6.7

Leikstjóri: Sam Peckinpah 

Þarna leikur Heston ásamt stórstjörnunum Richard Harris og James Coburn í mynd sem gerist á síðustu dögum bandarísku borgarastyrjaldarinnar.  

 

21. The Greatest Show on Earth (1952) 6.7

Leikstjóri: Cecil B. DeMille

Vann óskarinn sem besta mynd ársins og fyrir besta handritið. Var tilnefnd fyrir bestu búninga, leikstjórn og klippingu.

Ótrúlegt að hún skuli hafa fengið öll þessi verðlaun, þar sem persónurnar eru ekkert sérstaklega spennandi og myndin er ofhlaðin tilgangslausum fjölleikahúsatriðum sem gera hana óendanlega langa og leiðinlega. 

 

20. The Naked Jungle (1954) 6.8

Leikstjóri: Byron Haskin

Milljónir hermaura ráðast á plantekru í Suður Ameríku. Charlton Heston er bóndinn sem þarf að berjast við pláguna.

them.h14

 

19. The Agony and the Ecstasy  (1952) 6.8

Leikstjóri: Carol Reed

Charlton Heston leikur engan annan en listamanninn Michelangelo. Rex Harrison leikur páfann.

Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu listrænu leikstjórnina, bestu kvikmyndatöku, bestu búninga, bestu tónlist og besta hljóð.




18. A Man for All Seasons (1988) 6.8

Leikstjóri: Charlton Heston

Heston leikstýrir sjálfum sér í endurgerð óskarsverðlaunamyndar. Hann leikur Thomas More, mann sem þarf að standa uppi í hárinu á hinum gjörspillta Englandskonungi Henry VIII, sem tekur fólk af lífi fyrir litlar sakir hægri og vinstri.

516PAFSFSTL._AA280_

 

17. The Omega Man (1971) 6.8

Leikstjóri: Boris Sagal

Heston leikur síðasta manninn í jörðinni eftir sýklastyrjöld. I Am Legend (2007) með Will Smith er gerð eftir sömu skáldsögu. Hann þarf að berjast við manneskjur sem hafa breyst í skrímsli.

 




16. In the Mouth of Madness (1995) 6.9

Leikstjóri: John Carpenter

Stórskemmtileg hrollvekju-fantasía um rithöfund (Sam Neil) sem uppgötvar að hann hefur með bókum sínum opnað aðgang fornra vera inn í heiminn. Charlton Heston leikur útgefandann. 




15. The Four Musketeers (1974) 6.9

Leikstjóri: Richard Lester

Charlton Heston endurtekur hlutverk sitt sem hinn illi Richelieu kardináli. Úrvals leikaralið í þessari mynd, meðal annarra Oliver Reed, Raquel Welch, Richard Chamberlain, Christopher Lee, Faye Dunaway og Geraldine Chaplin.

Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu búninga.




14. Soylent Green (1973) 7.0

Leikstjóri: Richard Fleischer 

Framtíðarmynd sem gerist árið 2022 þegar matarskortur er að ganga af mannkyninu dauðu. Vísindamenn hafa fundið upp fæðuefnið Soylent Green, en lögga, leikin af Charlton Heston kemst að óvæntum hlutum um fæðuefnið og miklu samsæri þegar hann vinnur að lausn á morðmáli í Soylent fyrirtækinu. 




13. Will Penny (1968) 7.0

Leikstjóri: Tom Gries

Ástarsaga um kúrekann Will Penny (Charlton Heston) og konu í fjallakofa við erfiðar aðstæður.

 

12. Treasure Island (1990) 7.14

Leikstjóri: Fraser C. Heston (sonur Charlton Heston) 

Charlton Heston leikur hér sjóræningjann lævísa Long John Silver. Enginn annar en Christian Bale leikur hinn unga Jim Hawkins. Oliver Reed og Christopher Lee leika einnig stór hlutverk.

003472_13

 

11. El Cid (1961) 7.2

Leikstjóri: Anthony Mann

Charlton Heston leikur eina mestu hetju spænskra bókmennta, El Cid. Uppáhalds mynd pabba míns. Sophia Loren leikur eftirminnilegt aðalhlutverk á móti Heston. Ein af bestu epísku myndunum sem fjallar um hvað það þýðir að vera hetja.

Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir besta listræna leikstjórn, bestu tónlistina og besta lagið.




10. True Lies (1994) 7.2

Leikstjóri: James Cameron

Ég sé hlutverk Charlton Heston í True Lies sem táknrænt. Hann var mesta hasarhetja sinnar kynslóðar, en Arnold Schwarzenegger tók við þeim kyndli, enda er margt líkt með þessum stórvöxnu hetjutröllum. Heston leikur yfirmann Schwarzenegger í bandarísku leyniþjónustunni. Stórskemmtileg spennu/grín um ofurnjósnara sem hittir alltaf, enginn ætti að láta þessa framhjá sér fara.

Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu tæknibrellur.




9. The Three Musketeers (1973) 7.5

Leikstjór: Richard Lester

Heston leikur lítið hlutverk sem hann endurtók svo tveimur árum síðar. Reyndar er hasarinn mikilvægari í þessum myndum en leikurinn, sem er synd, því það var frábært leikaralið í þessum tveimur myndum. 

513646464JL._AA280_

 

8. Hamlet (1996) 7.6

Leikstjóri: Kenneth Branagh

Charlton Heston leikur hér lítið en mikilvægt hlutverk, sem leikari í uppsetningu Hamlets á morði föður síns. 

Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir besta listrænu leikstjórn, bestu búninga, bestu tónlist og besta handrit byggt á áður útgefnu verki. 




7. Tombstone (1993 7.6

Leikstjóri: George P. Cosmatos

Ein af bestu myndunum sem gerðar hafa verið um Wyatt Earp, og þær hafa verið nokkuð margar. Myndin er skreidd frábæru leikaraliði, en Charlton Heston leikur Henry Hooker, bónda sem veitir aðalhetjunum Wyatt Earp (Kurt Russell) og Doc Holiday (Val Kilmer) húsaskjól á flótta þeirra undan illmennum.




6. The Big Country (1958) 7.7

Leikstjóri: William Wyler 

Charlton Heston í aukahlutverki sem harður bóndi í villta vestrinu, en Gregory Peck leikur hetju sem þorir að láta kalla sig heigul án þess að vera það.

Burl Ives vann óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki og tilnefnd fyrir bestu tónlistina.




5. The Ten Commandments (1956) 7.9

Lekstjóri: Cecil B. DeMille 

Charlton Heston leikur sjálfan Móses. Það að hann skuli hafa verið trúverðugur í hlutverkinu er stórsigur út af fyrir sig.

Vann óskarsverðlaun fyrir bestu tæknibrellur. Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu listrænu leikstjórn, bestu kvikmyndatöku, bestu búningahönnun, bestu klippingu, bestu kvikmynd og bestu hljóðupptöku.

 

4. Chiefs (1983) 8.1

Leikstjóri: Jerry London

Ekki stórmynd, heldur sjónvarpsþættir. Ég man eftir að hafa séð þá og fannst þeir frábærir. Ég er ekki dómbær á þá í dag, alltof langt liðið. Charlton Heston leikur Hugh Holmes, fyrstan af þremur kynslóðum lögreglustjóra í smábæ sem þarf að takast á við erfið mál.

 

3. Planet of the Apes (1968) 8.0

Leikstjóri: Franklin J. Schaffner

Charlton Heston leikur geimfara og tímaflakkara sem lendir á Apaplánetunni, er handsamaður af öpunum og þarf að berjast fyrir frelsi sínu og annarra manneskja sem eru í svipaðri aðstöðu. Minnir mig töluvert á ferðasögur Gullivers þar sem hetjan lendir í Hestalandi. 

Tilnefnd til óskarsverðlaun fyrir bestu búninga og bestu tónlist. Heiðursóskar fyrir bestu föðrun. 




2. Ben-Hur (1959) 8.2

Leikstjóri: William Wyler 

Ein af mínum uppáhalds myndum. Charlton Heston leikur  Judah Ben-Hur, ríkan gyðing sem svikinn er af rómverskum vini sínum og gerður útlægur. Sagan fjallar ekki bara um hvernig Ben-Hur vinnur sig út úr þrælkun og verður meðal mestu hestvagnaknapa Rómar, sem verður einnig vitni að krossfestingu Krists.

Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni, en vann óskarinn fyrir besta hljóð, bestu kvikmynd, bestu tónlist, bestu klippingu, bestu tæknibrellur, bestu leikstjórn, bestu búningahönnun, bestu kvikmyndatöku, bestu listrænu leikstjórn, og Hugh Griffith vann óskarinn sem besti leikarinn í aukahlutverki, og Charlton Heston tók óskarinn sem besti leikarinn í aðalhlutverki. 

 

1. A Touch of Evil (1958) 8.4

Leikstjóri: Orson Welles

Charlton Heston leikur mexíkóskan lögreglustjóra sem er nýgiftur bandarískri konu. Hann blandast inn rannsókn á eiturlyfjamáli og morði, og kemst að því að hans mesti andstæðingur er bandarískur lögreglumaður sem hefur slíka ofsatrú á réttlætið að hann gerir allt til að framfylgja því, sama hvað það kostar. Mér finnst þessi mynd ekki jafn mögnuð og Ben-Hur, fyrir utan að hún er heilsteypt, vel leikin og nánast gallalaus mynd.

Myndin kom ekki út í endanlegri útgáfu fyrr en 1998, 40 árum eftir að hún var gerð, vegna valdafólks sem líkaði illa við Orson Welles.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband