Færsluflokkur: Kvikmyndir
Titanic (1997) er tekjuhæsta mynd allra tíma, en hún náði að hala inn rétt rúmum 145 milljörðum króna í miðasölu um allan heim þó að hún hafi verið 194 mínútna löng. Mikið hefur verið spáð í hvort að The Dark Knight muni ná henni, en mér finnst það afar hæpið, þó að hún hafi náð inn tæpum 48 milljörðum króna á þremur vikum, enda er hún 42 mínútum styttri en Titanic, aðeins 152 mínútur að lengd.
Reyndar segir tölfræðin að því styttri sem myndin er, því líklegri er hún til að græða, þar sem að hún getur verið á fleiri sýningum yfir daginn. En svo reynist það öfuga satt. Allar myndanna á topp tíu listanum eru nefnilega vel yfir tveir tímar að lengd, nema JurassicPark sem er rétt rúmir tveir - ætli hún hefði ekki orðið klassísk ef Spielberg hefði nennt að hafa hana þriggja tíma langa. Langar myndir virðast verða að meiri viðburðum í huga fólks.
Röð | Kvikmynd | Miðasala um allan heim | Á íslensku |
1. | Titanic (1997) | kr. 145.906.350.000,- | 145 milljarðar, 906 milljónir og 350 þúsund |
2. | The Lord of the Rings: The Return of the King (2003) | kr. 89.772.930.534,- | 89 milljarðar, 772 milljónir, 930 þúsund og 534 krónur |
3. | Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest (2006) | kr. 84.296.443.926,- | 84 milljarðar, 296 milljónir, 443 þúsund og 926 krónur |
4. | Harry Potter and the Sorcerer's Stone (2001) | kr. 77.008.302.335,- | 77 milljarðar, 8 milljónir, 302 þúsund og 335 krónur |
5. | Pirates of the Caribbean: At World's End (2007) | kr. 76.193.130.084,- | 76 milljarðar, 193 milljónir, 130 þúsund og 84 krónur |
6. | Harry Potter and the Order of the Phoenix (2007) | kr. 74.491.568.847,- | 74 milljarðar, 491 milljónir, 568 þúsund og 847 krónur |
7. | Star Wars: Episode I - The Phantom Menace (1999) | kr. 73.329.130.500,- | 73 milljarðar, 329 milljónir, 130 þúsund og 500 krónur |
8. | The Lord of the Rings: The Two Towers (2002) | kr. 73.267.200.000,- | 73 milljarðar, 267 milljónir og 200 þúsund krónur |
9. | Jurassic Park (1993) | kr. 73.116.150.000,- | 73 milljarðar, 116 milljónir og 150 þúsund krónur |
10. | Harry Potter and the Goblet of Fire (2005) | kr. 70.929.454.562,- | 70 milljarðar, 929 milljónir, 454 þúsund og 562 krónur |
39. | The Dark Knight (2008) | kr. 47.901.810.273,- | 47 milljarðar, 901 milljónir, 810 þúsund og 273 krónu |
Titanic er epísk og afar rómantísk stórslysamynd.
Sjö af efstu tíu eru fantasíur:
Lord of the Rings II (179 mínútur) og III (201 mínútur)
Pirates of the Caribbean II (150 mínútur) og III (168 mínútur)
Harry Potter I (152 mínútur), IV (157 mínútur), og V (138 mínútur)
Tvær af efstu tíu eru vísindaskáldsögur:
Star Wars: Episode I - The Phantom Menace (133 mínútur)
Jurassic Park (127 mínútur)
Og svo er það The Dark Knight, sem má strangt til tekið flokka sem vísindaskáldsögu en ætti samt frekar að flokka sem ofurhetjumynd.
Heldur þú að The Dark Knight nái Titanic í miðasölu?
The Dark Knight sýnishorn:
Titanic sýnishorn:
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10 vinsælustu myndirnar á leigunum í síðustu viku (4.8.2008)
4.8.2008 | 14:41
Vinsælustu bíómyndirnar síðustu viku á vídeóleigum landsins eru ekkert endilega frábærar kvikmyndir. Hverri mynd fylgir örstutt umsögn um söguþráðinn og sú einkunn sem ég hef gefið viðkomandi kvikmynd. Viljirðu lesa það sem ég hef skrifað um viðkomandi kvikmynd, smellirðu einfaldlega á fyrirsögnina.
Í stuttu máli: Nýskilið par leitar að gömlu spænskum fjársjóði með aðstoð milljarðamærings og í kapphlaupi við miskunnarlausa glæpamenn.
Einkunn: 5 af 10
2. Untraceable
Í stuttu máli: FBI netlögga tekst á við fjöldamorðingja sem notar Netið og netverja sem þátttakendur í morðum sínum.
Einkunn: 4 af 10
Í stuttu máli: Milljarðamæringur sem á engan að og bifvélavirki sem lifir góðu fjölskyldulífi eiga báðir 6-12 mánaða ólifaða, og ákveða að gera saman allt það sem þá hafði alltaf langað að gera en aldrei gert.
Einkunn: 7 af 10
Í stuttu máli: Hinn fullkomni leigumorðingi hefur þá sérkennilegu áráttu að vilja vera ósýnilegur og skilur því eftir sig blóðuga slóð í eltingarleik við kúreka sem reynir að hafa af honum háa fjárhæð.
Einkunn: 9 af 10
5. Semi-Pro
Í stuttu máli: Sjálfselskur eigandi körfuboltaliðs reynir að koma ömurlegu liði sínu í NBA með því að skipta á þvottavél og gömlum atvinnumanni úr NBA.
Einkunn: 6 af 10
Í stuttu máli: Ungur bankaræningi getur stokkið yfir tíma og rúm með hugaraflinu einu saman en margra alda gömul lögreglusveit er á eftir honum.
Einkunn: 6 af 10
7. National Treasure: Book of Secrets
Í stuttu máli: Fjársjóðsveiðari þarf að hreinsa æru fjölskyldu sinnar þegar langafi hans er sakaður um að hafa tekið þátt í samsæri um að drepa fyrrum Bandaríkjaforseta Abraham Lincoln.
Einkunn: 6 af 10
Í stuttu máli: Tveir félagar ákveða að endurskapa helstu kvikmyndaperlur sögunnar eftir að allt efni þurrkast út af myndbandsspólunum sem þeir leigja út.
Einkunn: 6 af 10
9. Juno
Í stuttu máli: Unglingsstúlka verður ólétt eftir tilraunasamfarir með vini sínum og þarf að velja á milli fóstureyðingar eða gefa barnið til ættleiðingar. Málið flækist eftir að hún ákveður hið síðarnefnda og kynnist tilvonandi foreldrum, og það flækist enn frekar þegar tilvonandi ættleiðingarfaðir verður hrifinn af henni.
Einkunn: 9 af 10
10. P.S. I Love You
Í stuttu máli: Eiginmaður deyr en hefur skilið eftir sig fjölda bréfa til að hjálpa eiginkonunni að komast út úr sorgarferlinu.
Einkunn: 4 af 10
Ég notast við vinsældalistann af Myndir Mánaðarins.
Hverjar eru bestu James Bond myndirnar? (Listi með stjörnugjöf yfir allar Bond kvikmyndir sem komið hafa út frá 1962)
2.8.2008 | 15:21
Um daginn bað bloggvinur minn og fyrrum erkifjandi úr skákheiminum Snorri G. Bergsson mig um að búa til lista yfir allar Bond myndirnar og gefa þeim einkunn.
Einkunnirnar eru allar eftir minni. Þær gætu breyst ef ég horfi á hverja og eina þeirra aftur og rýni þær vandlega, þannig að allar þessar einkunnir eru með fyrirvara.
Bestu Bond myndirnar að mínu mati eru Goldfinger (1964 - Sean Connery) og Casino Royale (2006 - Daniel Craig). Í humátt á eftir þeim koma From Russia with Love (1963 - Sean Connery), On Her Majesty's Secret Service (1969 - George Lazenby) og Goldeney (1995 - Pierce Brosnan).
Sú allra lélegasta er án vafa Casino Royale (1967) þar sem 6 ólíkir leikarar léku James Bond, og meðal þeirra Ursula Andres (fyrsta Bondstúlkan), Peter Sellers, David Niven og Woody Allen.
Lélegasta alvöru James Bond myndin finnst mér vera You Only Live Twice (1967), en það skín í gegn hvað Sean Connery leiðist í aðalhlutverkinu. Annars lék hann í hinni ágætu Never Say Never Again (1983) sem var reyndar ekki gerð með samþykki framleiðenda seríunnar.
Allar Roger Moore myndirnar eru vel gerðar. Það er létt yfir þeim og húmorinn ágætur, hasaratriðin skemmtileg, en þær vantar alla dýpt. Samt eru þær ómissandi.
Daniel Craig hefur blásið glænýju og fersku lífi í þennan klassíska kvikmyndakarakter, og ég bíð spenntur eftir næstu mynd, sem er væntanleg í nóvember á þessu ári: Quantum of Solace, með Daniel Craig í aðalhlutverki.
Bondmynd | Ár | Einkunn Don Hrannars | Aðalleikari | |
1 | Dr. No | 1962 | *** | Sean Connery |
2 | From Russia with Love | 1963 | ***1/2 | Sean Connery |
3 | Goldfinger | 1964 | **** | Sean Connery |
4 | Thunderball | 1965 | *** | Sean Connery |
5 | You Only Live Twice | 1967 | *1/2 | Sean Connery |
6 | On Her Majesty's Secret Service | 1969 | ***1/2 | George Lazenby |
7 | Diamonds Are Forever | 1971 | **1/2 | Sean Connery |
8 | Live and Let Die | 1973 | *** | Roger Moore |
9 | The Man with the Golden Gun | 1974 | *** | Roger Moore |
10 | The Spy Who Loved Me | 1977 | *** | Roger Moore |
11 | Moonraker | 1979 | *** | Roger Moore |
12 | For Your Eyes Only | 1981 | *** | Roger Moore |
13 | Octopussy | 1983 | *** | Roger Moore |
14 | A View to a Kill | 1985 | *** | Roger Moore |
15 | The Living Daylights | 1987 | *** | Timothy Dalton |
16 | Licence to Kill | 1989 | *** | Timothy Dalton |
17 | GoldenEye | 1995 | ***1/2 | Pierce Brosnan |
18 | Tomorrow Never Dies | 1997 | *** | Pierce Brosnan |
19 | The World Is Not Enough | 1999 | **1/2 | Pierce Brosnan |
20 | Die Another Day | 2002 | *** | Pierce Brosnan |
21 | Casino Royale | 2006 | **** | Daniel Craig |
! | Never Say Never Again | 1983 | *** | Sean Connery |
! | Casino Royale | 1967 | * | Peter Sellers/Woody Allen/Ursula Andress/David Niven/Terence Cooper/Daliah Lavi |
5. vinsælasta á leigunum í síðustu viku: Semi-Pro (2008) **1/2
31.7.2008 | 16:38
Semi-Pro er furðulega skemmtileg íþróttagamanmynd, þrátt fyrir sífellt leiðinlegri Will Ferrell í aðalhlutverki.
Jackie Moon (Will Ferrell) varð auðugur fyrir að koma laginu "Love Me Sexy" efst á vinsældarlista. Fyrir peninginn keypti hann sér körfuboltalið, þar sem hver einasti meðlimur tekur Jackie sér til fyrirmyndar að því leyti að þeir eru að tapa sér í sjálfsdýrkun og eigingirni.
Þegar ákveðið er að sameina áhugamannadeild körfuboltans og NBA, sem þýðir að efstu fjögur lið áhugamannadeildarinnar kemst í NBA, ákveður Ferrell að ráða atvinnumanninn Monix (Woody Harrelson) til að koma lífi í liðið. Reyndar skipti hann á Monix og þvottavél, þannig að trú manna á Monix er ekki mikil. En Monix er ekki allur þar sem hann er séður, þó að hann sé frekar blautur og gamall fyrir íþróttina. Hann tekur þetta sem alvöru áskorun og ætlar að koma liðinu í NBA, þrátt fyrir lítinn skilning Jackie Moon á körfubolta, (en góðan á skemmtiatriðum).
Þegar Monix tekur að sér þjálfun liðsins stórbatnar árangur þeirra strax. Þeir hvíla ekki lengur í botnsætinu, og eygja fjórða sætið. Hvort þeim takist að ná fjórða sætinu er svo alls ekki aðalatriðið. Það má hafa gaman af þessu, en ekki búast við miklu.
Kíktu á fulla gagnrýni mína á Semi-Pro hérna.
Kvikmyndir | Breytt 30.7.2008 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
The Beatles: Across the Universe (2007) ***1/2
26.7.2008 | 21:32
Across the Universe er stórskemmtilegur söngleikur, sem minnir annars vegar á Dancer in the Dark (2000) hennar Bjarkar Guðmundsdóttur, og hins vegar á hippasöngleikinn Hair (1979). Öll lögin eru eftir Bítlana og eru skemmtilega flutt af aðalleikurunum, auk ágætra gesta eins og til dæmis Bono sem tekur "I am the Walrus".
Atburðirnir sem sögupersónur lenda í eru byggðar á atburðum og ástandi í Liverpool og New York frá um það bil 1966-1970.
Jude (Jim Sturgess) er ungur maður frá Liverpool sem þráir það eitt að hitta föður sinn, en hann var bandarískur hermóður sem barnaði móður hans og fór svo til Bandaríkjanna og stofnaði sitt eigið heimili. Á ferð sinni til Bandaríkjanna eignast Jude traustan vin í Max (Joe Anderson) og kynnist systur hans Lucy (Evan Rachel Wood), en þar felst ástin á bakvið söngvana.
Ég mæli eindregið með þessari mynd, sérstaklega ef þú hefur gaman af Bítlatónlist. Það eru svolítið skrítin atriði inn á milli sem virðast ekki vera í samhengi við annað sem er að gerast, en þegar maður hugsar út í það, þá hefði ekki mátt sleppa þessum atriðum.
Ég elska þessa mynd!
Dýpri gagnrýni birtist á Seen This Movie innan sólarhrings.
Leikstjóri: Julie Taymor
Einkunn: 9
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
The Dark Knight (2008) ***1/2
23.7.2008 | 18:01
The Dark Knight er vel gerð ofurhetjumynd, með flóknu samspili ólíkra persóna, afar góðri frammistöðu nokkurra leikara, með sögu í anda teiknimyndasagnanna og vel leikstýrð. Hún er hins vegar ekki besta kvikmynd sem gerð hefur verið, né get ég fullyrt að hún sé besta ofurhetjumyndin. Hún er bara öðruvísi en allar aðrar ofurhetjumyndir að því leyti að veruleiki hennar passar við okkar veruleika.
The Dark Knight er heldur köld kvikmynd fyrir minn smekk. Hún er svona hálfpartinn Blade Runner (1982) og hálfpartinn Heat (1995), Það hefur bæði kosti og galla. Það eru það margar persónur drepnar að þegar loksins ein af aðalpersónunum fellur í valinn, þá hefur maður upplifað svo mikið ofbeldi og svo margar aukapersónur verið drepnar að mér fannst persónulegt drama frekar lítilvægt þegar þar var komið sögu.
Heath Ledger hefur verið mikið rómaður fyrir leik sinn sem The Joker. Hann á þetta lof að mestu skilið, leikur hans ógleymanlegur og honum tekst að færa persónu dýpt sem virðist ekki eiga sér neina forsögu. Hann er lunkinn við að koma hetjunum í mikil vandræði og dáist að Batman eins og fanatískur aðdáandi og þráir ekkert meira en að Batman drepi hann, sem stríðir reyndar gegn siðareglum Batman, og það sem gerir þetta að svona spennandi leik fyrir The Joker.
Tvær fylkingar takast á í The Dark Knight: annars er það mafían eins og hún leggur sig og lögreglan og saksóknarar gegn henni. Einhvers staðar á milli þessara tveggja fylkinga eru svo hetjurnar Batman, Jim Gordon og Harvey Dent, en hinu megin við línuna eru svo illmennin The Joker og Two Face.
Munurinn á Batman og The Joker er áhugaverður, en Batman trúir því að hann sé að verja saklaust fólk gegn illmennum. The Joker aftur á móti trúir því að enginn sé saklaus, að allir séu illir, og hann hefur djúpa þrá fyrir að sanna þessa kenningu sína með því að spilla öllu því sem gott er.
Á Heath Ledger skilinn Óskar fyrir túlkun sína sem The Joker? Miðað við Óskarinn síðustu ár þá held ég að það sé nokkuð gefið að hann verði tilnefndur, hann er það sannfærandi í sínu hlutverki, en Aaron Eckhart þótti mér hins vegar enn betri sem Harvey Dent, þó að ég ætti erfitt með að trúa á dramatískan viðsnúning hans.
Christian Bale fannst mér hins vegar slakur í titilhlutverkinu. Sem Bruce Wayne sýndi hann litla mannúð, og sem Batman var hann með rödd sem var alltof rám og alvarleg miðað við aðstæður, sérstaklega þegar hann var að ræða við vini sína. Michael Caine er afbragð sem þjónninn Alfred, og Morgan Freeman er bara Morgan Freeman í hlutverki Lucius Fox, og Maggie Gyllenhaal er framför frá Katie Holmes sem saksóknarinn og æskuvinur Bruce Wayen og auk þess forsenda ástarþríhyrnings: Rachel Dawes. Gary Oldman er mjög góður sem þungamiðja réttlætisins, Jim Gordon.
Öll bardagaatriði og kappakstur eru hreint afbragð, og finnst mér einfaldlega súrt að ekki skuli vera til IMAX bíó á Íslandi þar sem mikill hluti myndarinnar var hannaður fyrir þá tækni. Sjálfsagt er það hluti af ástæðu þess að hún er að fá svona magnaða dóma í Bandaríkjunum.
Reyndar hafði ég á tilfinningunni í upphafi sýningarinnar að upplausnin á myndinni væri vitlaust stillt í Kringlubíói. Það er samt erfitt fyrir mig að meta það, þar sem ég hef ekki séð myndina við bestu mögulegu aðstæður.
The Dark Knight er tveir og hálfur tími að lengd, en sá tími er fljótur að líða því maður er alltaf spenntur eftir því sem gerist næst, og reyndar þegar myndinni lauk langaði mig enn til að sjá meira.
Ég get ekki gefið The Dark Knight fulla einkunn þar sem að mér þótti persónurnar of fjarlægar, og held að þær hefðu getað verið enn betur mótaðar. Það getur reyndar verið að einhverjar mikilvægar senur hafi verið klipptar úr myndinni af framleiðendum vegna lengdar og að endanlega útgáfa leikstjóra muni einhvern tíma koma út með þessum atriðum sem mér fannst vanta.
Ég get mælt með The Dark Knight en með þeim fyrirvara að þú skalt ekki búast við alltof miklu. Hún er engan veginn besta mynd allra tíma eins og hægt er að sjá á IMDB þessa dagana, en ætti hugsanlega skilið að vera á topp 20-50 yfir bestu Hollywoodkvikmyndir sem gerðar hafa verið.
Ef þig langar til að sjá The Dark Knight bara til að sjá frammistöðu Heath Ledger, þá verðurðu ekki fyrir vonbrigðum, því að hann er óþekkjanlegur, djúpur og snarklikkaður í sínu hlutverki - það bilaður að maður veltir fyrir sér hvort að hlutverki hafi tekið það á, að það hafi átt einhvern þátt í dauða hans.
Leikstjóri: Christopher Nolan
Einkunn: 8
Myndir: Rottentomatoes.com
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fer á The Dark Knight í kvöld
22.7.2008 | 17:37
Í kvöld kemst ég að því hvort að The Dark Knight sé jafn mögnuð og gagnrýnendur að utan segja, en hún hefur slegið öll aðsóknarmet í Bandaríkjunum og er langhæst á topp 250 lista Internet Movie Database, með 9.6 í einkunn frá 69.135 notendum sem gefa kvikmyndum reglulega einkunn.
Ég skrifa síðan gagnrýni á morgun og birti hér á blogginu, sérstaklega fyrir einn lesanda sem óskaði eftir að ég færi á frumsýningu til að flytja mínum traustu lesendum dóminn.
Vissulega fer maður svolítið litaður á þessa mynd í kvöld, þar sem að hún hefur verið alltof mikið lofuð, og ég veit að það getur haft áhrif á skoðanir mínar, en ég geri mitt besta til að sjá myndina án þess að dæma hana fyrirfram af of mikilli hörku.
20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 6. sæti: Aliens
21.7.2008 | 13:49
Aliens er ein af þessum fáu framhaldsmyndum sem deila má um hvort að séu jafnvel betri en upprunalega myndin. James Cameron leikstýrir af hreinni snilld. Klippingin og tæknibrellurnar eru hreint óaðfinnanlegar. Rétt eins og í The Terminator (1984) tekst Cameron að finna dúndurspennandi takt þar sem maður er límdur við atburðarrásina.
Ellen Ripley (Sigourney Weaver) hefur legið í djúpsvefni í 57 ár þegar rannsóknarskip rekst á geimskip hennar stefnulaust á reiki. Henni er komið til Jarðar og hjúkrað. Hún uppgötvar að dóttir hennar lést, sextug að aldri, og hefur misst starfsréttindin sín sem flugmaður þar sem að hún grandaði Nostromo, skipinu sem geimveran hertók 57 árum áður. Ripley fær vinnu á lager og hefur algjörlega tapað tilganginum í eigin lífi.
Hún segir frá hvernig geimskrímslið drap alla í skipinu. Enginn virðist trúa henni þegar hún segir að þau hafi fundið verurnar á plánetunni LV-426, því að nú er hún byggð og enginn orðið var við nein skrímsli. Samt sendir Carter Burke (Paul Reiser) út könnunarleiðangur að hnitunum sem Ripley gefur upp. Nokkrum dögum síðar slitnar allt samband við plánetuna.
Burke leitar til Ripley og biður hana að fara með herflokki í björgunarleiðangur á plánetuna, til að bjarga þeim sem hugsanlega eru enn á lífi, og til að drepa skrímslin sem eftir eru. Hún samþykkir að fara með, en fær ekki að vita raunverulega ástæðu ferðarinnar.
Sérsveit úrvals hermanna, með kaftein Dwayne Hicks (Michael Biehn) og óbreyttan Hudson (Bill Paxton), ásamt vélmenninu Bishop (Lance Henrikson) og þeim Ripley og Burke, lenda á plánetunni og fljótt kemur í ljós að landnemabyggðin hefur verið lögð í rúst og að geimskrímslin hafa tekið yfir búðirnar.
Í stað þess að gera eins og Ripley vill, flýja eins fljótt og mögulegt er og sprengja plánetuna í tætlur, hefur Burke ákveðið að setja upp rannsóknarstofu þar sem skal rannsaka geimverurnar og flytja heim til Jarðar, þar sem að uppgötvanir tengdar þessum verur geta verið dýrmætar og söluvænlegar, sérstaklega þegar hernaður er hafður í huga.
Ripley finnur Newt (Carrie Henn), stúlku sem virðist vera eina eftirlifandi mannvera plánetunnar, en henni hafði tekist að fela sig í loftræstikerfinu. Þegar mörg hundruð geimskrímsli gera árás á herflokkinn tekur Ripley til sinna ráða. Hún byrjar á að bjarga þeim hermönnum sem hægt er að bjarga og ákveður að sprengja plánetuna í loft upp og öll skrímslin með.
Hefst nú kapphlaup við geimverurnar sem verður óþægilega flókið þegar geimverurnar klófesta Newt. En Ripley heldur í humátt á eftir, djúpt í iður jarðar, til að heimta stúlkuna úr helju. Hún hafði þegar tapað eigin dóttur, hún ætlar ekki að tapa þessari líka.
Aliens var tilnefnd til 7 óskarsverðlauna, meðal annars var Sigourney Weaver tilnefnd sem besta leikkonan í aðalhlutverki. Aliens var tilnefnd fyrir sviðsetningu, klippingu, frumsamda tónlist og hljóðsetningu, en fékk Óskarinn fyrir bestu tæknibrellur og hljóðbrellur.
Hún hefði líka mátt fá tilnefningu sem besta myndin.
6. sæti: Aliens
7. sæti: Star Wars
8. sæti: The Matrix
9. sæti: Gattaca
10. sæti: Abre los Ojos
11. sæti: The Thing
12. sæti: Brazil
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Eru ofurhetjusögur, eins og sagan um The Dark Knight, goð- og hetjusögur nútímans?
21.7.2008 | 10:55
Sögur um forna guði, hetjur og skrímsli hafa síðan mannkynið man eftir sér skemmt okkur. Fyrr á öldum sat kannski sögumaðurinn við eld og sagði sögur sem hann hafði erft frá öðrum sögumönnum, og breytti aðeins til að höfða til nýrrar kynslóðar. Þessar sögur vekja áhuga fólks, sérstaklega þegar vel er sagt frá, við þurfum af einhverjum ástæðum að hlusta á sögur, við nærumst á þeim.
Sögurnar eru eitthvað órjúfanlegt frá hinu mannlega. Þó að formið breytist, þá finna sögumennirnir alltaf nýjar leiðir til að birta þær, sama þó að þær séu nánast alltaf um sama hlutinn - átök manneskju gegn umhverfi sínu eða öðrum manneskjum.
Þannig urðu goðasögurnar til, þar sem að eina leið manneskja var að vinna sér inn punkta hjá guðunum til að hafa einhverja stjórn á náttúruöflunum, eða að minnsta kosti einhverja von.
Hómerskviðurnar voru einmitt um ofurmenni eins og Akkíles, sem er fyrirmynd Superman, og Ódysseif, sem er fyrirmynd Batman.
Við höfum færst frá því að segja sögur á köldum kvöldum við heitan varðeld, yfir í að horfa á tjald þar sem sögunni er varpað myndrænt og lifandi á skjá, þar sem sögumaðurinn er það myndrænn að hann hverfur nánast algjörlega, fyrir utan kannski einstaka manneskju sem svarar í gemsann og fólk sem kann sig ekki á aðra vegu. Auk auglýsingahlés og texta, sem taka þátt í að færa upplifunina aftur til fortíðar. Einmitt þess vegna er svo gaman að fara í bíó í Bandaríkjunum: enginn texti, ekkert hlé - og kvikmyndasalirnir hreinir og með þægileg sæti.
Af hverju höfum við svona gífurlegan áhuga á ofurhetjum?
Allir, og nú alhæfi ég, virðast hafa einlægan áhuga á að heyra góða sögu vel sagða.
Af hverju ætli það sé?
Myndir:
Batman: DC Comics
Ódysseifur: The Odyssey Hotlist
Leðurblökumaðurinn geysivinsæll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er The Dark Knight besta kvikmynd allra tíma?
20.7.2008 | 13:13
Internet Movie Database (IMDB) sem er langmest notaða kvikmyndasíðan á netinu er með lista yfir 250 bestu kvikmyndir allra tíma. The Godfather hefur setið á toppnum í mörg ár, en var tímabundið vikið þaðan á meðan The Lord of the Rings kvikmyndirnar slóu öll met. Þær myndir komust upp í 9.2 í einkunn, en komust aldrei jafn hátt og The Dark Knight stendur núna, með 9.5 í einkunn og af netheimum í dag talin vera besta kvikmynd allra tíma miðað við 23.611 atkvæði.
Einkunnin á sjálfsagt eftir að breytast eitthvað með tíð og tíma og spurning hversu lengi hún telst best þeirra alla. Það er nokkuð ljóst að þetta er ein af þessum myndum sem maður verður einfaldlega að sjá í bíó til þess að teljast maður með mönnum.
Heimildir: Internet Movie Database
Kvikmynd um Leðurblökumanninn setur aðsóknarmet | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |