20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 9. sæti: Gattaca
2.7.2008 | 19:36
Loksins er komið að stundinni sem allir hafa beðið eftir. Aðeins 9 kvikmyndir eftir á listanum.
9. besta vísindaskáldsaga allra tíma í kvikmyndum er kvikmynd sem tókst að hrífa mig með í ferðalag víðáttumikið ferðalag manns með hjartagalla, Gattaca (1997).
Gattaca snýst um frelsi einstaklingsins, þrælkun og fullkomnun. Hún reynir að svara því hvað fullkominn einstaklingur er, og auðvitað eins og góðum vísindaskáldsögum er lagið, svarar hún ekki öllum spurningum heldur fær mann til að spyrja enn meira.
Gattaca gerist í nálægri framtíð þar sem fóstrum er erfðabreytt í móðurkviði til að koma í veg fyrir sjúkdóma, erfitt skap, ljótt útlit og annað þar eftir götunum. Allir þeir sem fæðast með einhvers konar fæðingargalla eru annars flokks borgarar og fá engin tækifæri í lífinu.
Vincent Freeman (Ethan Hawke) fæðist með hjartagalla, slaka sjón og ófullkomna skapgerð. Foreldrarnir fylgjast með honum alla daga í ótta við að hann slasist vegna eigin ófullkomleika, en þau höfðu slysast til að eignast hann með náttúrulegum hætti, níu mánuðum eftir æsilega stund í aftursæti.
Foreldrar Vincents, Antonio (Elias Koteas) og Marie (Jayne Brook) ákveða að eignast annað barn, en ætla í þetta skiptið að gera það rétt. Þau fá erfðalækni til að útvega þeim son með góða heilsu og aðlögunarhæfni. Þeim fæðist drengur, sem fær nafnið Anton (Loren Dean). Þau leyna því ekki hversu stolt þau eru af Anton, og hversu mikil vonbrigði felast í tilvist Vincents.
Vincent hinn hjartveiki hefur þrátt fyrir veikburða líkama stóra drauma. Hann dreymir um að komast út í geim, en er sagt að gleyma þessum draumórum sínum, þar sem að hann er fyrirfram annars flokks borgari.
Eftir mikilvæga sundkeppni við bróður sinn ákveður Vincent að yfirgefa foreldra sína og bróður, taka sér nýtt nafn og gera allt sem í hans valdi stendur til að láta drauminn rætast.
Vincent þykist vera annar einstaklingur til að fá fyrsta flokks starf og möguleika til að komast út í geim. Til þess að það takist þarf hann aðstoð hins fatlaða en fullkomna í alla aðra staði Jerome Eugene Morrow (Jude Law), og síðan verður hann hrifinn af samstarfskonu sinni Irene Cassini (Uma Thurman).
Það stefnir í að dæmið ætli að ganga upp þegar starfsmaður á skrifstofunni er myrtur, og Vincent liggur undir grun af lögregluforingjanum Hugo (Alan Arkin). Ljóst er að vandamálin hrannast upp og draumurinn sem er svo nálægt því að verða veruleiki fjarlægist hratt. Eina von Vincent er að þrauka í gegnum vandamálin á agaðan hátt.
Það eru mörg áhrifarík atriði í Gattaca, sérstaklega sundkeppni bræðranna og ferð Jerome Morrow upp DNA stigann til að bjarga vini sínum frá vörðum laganna.
Leikstjóri: Andrew Niccol
Einkunn: 10
Myndir: Sci-Flicks.com
9. sæti: Gattaca
10. sæti: Abre los Ojos
11. sæti: The Thing
12. sæti: Brazil
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 6.7.2008 kl. 14:59 | Facebook
Athugasemdir
gaman að sjá að þú ert kominn í gírinn.... total recall á alltaf stað í hjarta mínu og er ein af mínum uppáhalds og gattaca er alvörumynd.
held ég hafi sagt það hér fyrir löngu, en segi bara aftur: þegar mummi félagi minn skrifaði um bíó og vídeo fyrir moggann og otto geir borg fyrir dv, hér fyrir löngu síðan, gaf mummi starship troopers þrjár og hálfa við gríðarleg mótmæli margra. en otto var yfir sig hrifinn af þessum kulda og bætti úr betur. gaf gattaca fjórar...
honum fannst hún bara frábær og lét vaða. enda er hún frábær.
sem gerir það að verkum að hann hrannar þarf sko að rökstyðja númer átta og uppí eitt hehe.
en hva, það eru ekki allir sammála um myndir hvortsemer.
arnar valgeirsson, 2.7.2008 kl. 20:12
takk
Kári (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 21:20
Já, Arnar, ég skrifaði einmitt gagnrýni um Gattaca þegar ég var fyrst að byrja á Moggablogginu og þar gerðir þú einmitt athugasemd líka. :)
Kári: þakka þér
Hrannar Baldursson, 2.7.2008 kl. 23:23
Þessi mynd er ein sú besta sem ég hef séð. Ég tók hana, bjóst við engu en þvílík snild sem hún er. Algjörlega mögnuð.
Hafrún (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 00:06
Nemandinn: ágiskun þín er alls ekki fjarri lagi, en samt vantar örlítið upp á hún smellpassi. Ég mæli með að þú gefir Brazil annað tækifæri, og kíkir þá á útgáfu leikstjórans en ekki hökkuðu stúdíóútgáfuna.
Hrannar Baldursson, 3.7.2008 kl. 14:45
Blade Runner Hrannar Blade Runner
alger skandall hef ekki getað jafnað mig á þessu hjá þér
Ómar Ingi, 3.7.2008 kl. 15:49
Ég er búinn að sjá Director's Cut af Blade Runner Ómar, og hún er ekki að hækka á listanum. Ef eitthvað er gæti hún lækkað.
Hrannar Baldursson, 3.7.2008 kl. 18:03
Þá þarftu alvarlega að pæla í að fara í heilaskoðun hjá færasta lækni sögunnar á því sviði.
Ómar Ingi, 3.7.2008 kl. 20:18
Tíhí...
Hrannar Baldursson, 3.7.2008 kl. 20:25
Þetta er virkilega góð mynd! Ég mæli með þessari alveg í botn!
Blade Runner verður jú að eiga sæti..
Viðar Freyr Guðmundsson, 3.7.2008 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.