Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
Clash of the Titans (2010) **1/2
19.4.2010 | 06:33
"Clash of the Titans" er endurgerð samnefndrar myndar frá 1981, en hefur flesta sömu gallana og fyrri myndin, þrátt fyrir uppfærðar tæknibrellur og að asnalega véluglan er ekki að þvælast fyrir, nema í stuttu atriði snemma í myndinni, sem virðist fyrst og fremst hafa verið hugsað til að láta áhorfendur vita að svo pirrandi persóna yrði ekki í þessari mynd. Það mistekst, því einn af félögum Perseusar er svona einhvers konar hávaxið galdratré sem áður var manneskja og kann ekki að segja nema eitt orð.
Vandamálið við upphaflegu myndina var að lítið var lagt í persónusköpun og því meira í tæknibrellur og hasar. Það sama á við hér. Það er synd, því styrkur grískra goðasagna felst einmitt í sterkri persónusköpun, og gaman væri að sjá hana vel útfærða.
Hades (Ralph Fiennes) er orðinn þreyttur á heljarvist sinni undir yfirborði jarðar og hefur sett af stað áætlun sem á að gefa honum meiri völd en Seifur (Liam Neeson). Hugmyndin er að gera mannfólkið afhuga Seifi, fá það til að berjast innbyrðis og síðan refsa þeim svo ógurlega að þeir verði hræddir við guðina í stað þess að lofa þá, en Hades nærist á ótta. Seifur á lofi.
Seifur barnaði drottningu fyrir einhverjum árum. Kóngurinn ætlaði að drepa bæði konu sína og barn, en tókst það ekki. Sonurinn, Perseus (Sam Worthington) lifði af, bjargað af sjómanni og einfaldri fjölskyldu.
Þegar Hades myrðir fjölskyldu Perseusar fyllist sá síðarnefndi heilagri reiði og ákveður að hefna sín á öllum guðunum, þar á meðal Seifi, sem hann fyrirlítur eins og alla aðra guði, þrátt fyrir að vera sonur hans.
Hades hefur fyrirskipað aftöku prinsessunnar Andrómedu (Alexa Davalos) til að stöðva skrímslið sem kallað er Krakki af einhverjum ástæðum, annars mun Krakkinn leggja borgina Argos í rúst. Eina von Andrómedu er Perseus, sem ákveður að fara á fund örlaganornanna eða véfréttarinnar (þessu er ruglað saman) og fá að vita hvernig hann geti drepið Krakkann.
Góður hópur fer með Perseus og lendir í ýmsum tölvuteiknuðum ævintýrum ásamt félögum sínum sem missa töluna ansi hratt fyrir minn smekk, og vængjaða hestinum Pegasus, sem eru, viðurkenni ég, afar vel gerð. Sérstaklega bardagar við sporðdreka og medúsu. Krakkinn sjálfur er aftur á móti frekar hlægilegur og engan veginn hægt að taka það skrímsli alvarlega.
Veikleikarnir felast í flatleika persónanna. Það er eins og ekkert skipti þær máli, þær séu bara til fyrir plottið og skipti í raun engu máli hvað um þær verður. Einnig eru sum bardagaatriðin svolítið ruglingsleg, því á tímabili hélt ég að hópurinn væri að berjast við einn risasporðdreka, á meðan þeir voru að berjast við tvo. Samböndin á milli persónanna eru algjörlega líflaus, og virðast leikararnir frekar hafa hugann við launaumslagið heldur en að skapa eftirminnilegar persónur, sambönd, og aðstæður sem gerir þær enn eftirminnilegri en áður.
Eftirminnilegasta persónan er Draco, hetja sem hefur heitið því að brosa ekki fyrr en honum hefur tekist að ná fram hefndum gagnvart guðunum. Hann er leikinn af Dananum Mads Mikkelsen, en hann fær ekki nógu mikinn tíma á skjánum til að gera eitthvað af viti við hlutverkið.
Það er svolítið skondið, að fantasía sem byggir á frjóum jarðvegi grísku goðsagnanna, skuli vera laus við innblástur og ímyndunarafl, og sína í stað heim sem mistekst að gera góð skil í þetta skiptið. Ég velti fyrir mér hvernig sama efni hefði spunnist í höndum einhverra eins og James Cameron, Steven Spielberg, Sam Raimi eða Peter Jackson, og er viss um að þeim hefði farnast margfalt betur.
Leikstjórinn, Louis Leterrier, hefur gert fjórar aðrar myndir: hasarmyndirnar "The Transporter" með Jason Statham og framhaldið "The Transporter 2", auk hinnar áhugaverðu "Danny the Dog" með Jet Li, Bob Hoskins og Morgan Freeman, og hina ágætu "The Incredible Hulk" sem Edward Norton gerði áhugaverða. Leterrier er einfaldlega ekki í þessum hágæðaklassa sem leikstjóri, þó að sjálfsagt eigi hann eftir að bæta sig í náinni framtíð.
Crazy Heart (2009) ****
18.4.2010 | 06:48
Stórgott drama um kántrýsöngvarann Bad Blake (Jeff Bridges) og baráttu hans við alkóhólisma. Þetta er hálfgerð endurgerð "Tender Mercies" þar sem Robert Duvall (framleiðandi Crazy Heart) leikur kántrýsöngvara sem berst við alkóhólisma, þarf að gera upp við fortíð sína og finnur von um betri framtíð í konu og barni. Það er samt allt önnur saga.
Ferill hins sívinsæla Bad Blake er ekki bara á niðurleið. Dag nokkurn nær hann loks botninum. Hann horfir löngunaraugum á uppáhalds viskýið sitt þar sem það situr uppi á hillu í kjörbúð. Vandinn er að hann á ekki fyrir flöskunni og íhugar að kaupa ódýrari drykk. Eigandi verslunarinnar er gamall aðdáandi hans og gefur honum flöskuna sem Bad Blake þráði. Blake er honum afar þakklátur.
Sama kvöld heldur Bad Blake tónleika í keiluhöll, þar sem verslunareigandinn og eiginkona hans eru meðal gesta. Hann tileinkar þeim eitt lag, en nær ekki einu sinni að byrja sönginn, og þess í stað hleypur út úr húsi og að næstu ruslatunnu þar sem hann ælir hinu ágæta viskýi. Þetta er samt ekki nóg til að hann átti sig á vandanum.
Til þess þarf hann að kynnast ungri móður, Jean Craddock (Maggie Gyllenhaal) og syni hennar Buddy (Jack Nation). Hann verður hrifinn upp fyrir haus og honum að óvörum hrífst hún af honum, þrátt fyrir gífurlegan aldursmun, en hann er 57 ára gamall og hún tæplega þrítug. Hann á fjögur hjónabönd að baki, sem áfengisneyslan og frægðarferillinn hafa lagt í rúst, en nú er eins og eitthvað sé að brjótast um í hausnum á honum, að kannski sé hann ekki endilega númer eitt, og allt í lagi þó að einhverjir aðrir séu það.
Bad Blake á góðan vin í kántrýsöngvaranum Tommy Sweet (Colin Farrell), en Bad þolir hann ekki vegna velgengni og vinsælda hans, á meðan ferill Blake hefur verið stöðugt á niðurleið. Hann kennir alltaf öðrum um eigin vanlíðan og óhamingju, en áttar sig ekki á hver hinn raunverulegi óvinur er.
Samt sér hann ekki af hverju hann þarf að hætta að drekka. Það þarf meira til. Og það augnablik kemur. Blake á fleiri vini sem vilja hjálpa honum upp úr hjólförunum, helstur þeirra er Wayne (Robert Duvall), kráareigandi sem þekkir vel og trúir á hinn sterka innri mann Bad Blake.
Jeff Bridges er mjög góður í aðalhlutverkinu. Reyndar hefur hann alltaf verið góður að mínu mati, síðan ég sá "Against All Odds" í Stjörnubíói forðum daga, og hann negldi sig eftirminnilega sem kvikmyndastjörnu í mínum huga þegar hann fylgdi henni snilldarlega eftir með "Starman", rómantískri vísindaskáldsögu sem John Carpenter leikstýrir. Hann var meira að segja frábær sem illmennið Obadiah Stane í "Iron Man", en það er svolítið óvenjulegt illmenni fyrir ofurhetjumynd, því hann var sérstaklega skapaður fyrir þá kvikmynd, í stað þess að nota illmenni úr teiknimyndasögunum.
Það sem Jeff Bridges gerir sérstaklega vel er að gera persónuna trúverðuga og áhugaverða samtímis. Þetta er það góð persóna að maður vill helst að ekkert slæmt komi fyrir hana, en maður veit að ekkert gott getur biðið manneskju sem er að eyðileggja sig með ofdrykkju. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa baráttu í afburðarleik Jeff Bridges.
Maggie Gyllenhaal er líka mjög góð sem móðirin unga, sem fellur fyrir honum og veit að það er ekki rétta skrefið í lífinu, bæði vegna aldursmunar, öryggi sonar hennar og því að náunginn er fyllibytta. Sá sem kom mér mest á óvart var Colin Farrell, í hlutverki Tommy Sweet, frammistaða hans hefur ekki verið umtöluð, en hann skín af manngæsku og velvilja sem gefur Bad Blake nákvæmlega þá dýpt sem hann þarf. Tommy Sweet er hálfgert afrit af Bad Blake og deilir sömu mannkostum, en ekki sömu göllum, að minnsta kosti ekki ennþá.
Það er ekki annað en hægt að vera ánægður með "Crazy Heart" hafirðu áhuga á drama sem virkar raunverulegt og skemmtilegt í senn. Líklega hefðu yngstu áhorfendur ekkert sérlega gaman að "Crazy Heart" því í raun springur ekkert í loft upp né eru þarna æsispennandi eltingaleikir á ofsahraða, heldur fylgjumst við með manni sem áttar sig smám saman á að lífið er ekki þess virði að lifa því sértu of fullur til að rannsaka það.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á að stofna sérstakan dómstól vegna Hrunsins?
17.4.2010 | 15:16
Hrunið er að einhverju leyti sambærilegt við nasisma í Þýskalandi. Á Íslandi kúventist siðferðið og allt virtist réttlætanlegt í nafni gróða og arðs, þessi hegðun átti jafnvel að koma þjóðinni vel, skapa góðæri, leysa öll okkar vandamál. Í Þýskalandi nasismans var svipað upp á teningnum, þar sem rutt var miskunnarlaust úr vegi öllum hindrunum sem gætu orðið á vegi þýsku þjóðarinnar. Það er þó eitt að drepa milljónir, og annað að valda hundruðum þúsunda varanlegum fjárhagslegum skaða.
Það er stigsmunur þarna, ekki eðlismunur, því að sama höfuðviðmið var leiðarljósið: tilgangurinn helgar meðalið. Og: það er í lagi að gera hið ranga því við komumst upp með það, og stjórnvöld leggja blessun sína yfir slíka hegðun. Það er ekkert siðferðiviðmið jafn mikilvægt og þroskuð samviska. Þegar fólk hefur ekki slíka samvisku og stendur á sama um siðferðileg viðmið og lögmál, þá erum við í vanda stödd.
Í kjölfar síðari heimstyrjaldar var settur á sérstakur dómstóll þar sem skýrt var að fyrning væri ekki inn í myndinni og allir þeir sem áttu hlut í máli skyldi draga til ábyrgðar. Þarna á ég við Nuremberg réttarhöldin.
Hrunið jafnast samt ekki á við nasismann í alvarleika, þó að alvarleiki Hrunsins sé mikill. Ég tel rétt að setja á sérstakan dómstól þar sem ákærðir verða þeir sem brutu af sér allt frá tímum einkavæðingar, það er að fyrningarákvæði muni ekki eiga við um Hrunið, þar sem um landráð, hryðjuverk eða síendurtekin rán er að ræða, nokkuð sem fyrnist ekki samkvæmt almennum hegningarlögum í íslenskri stjórnarskrá.
Annars gott að heyra Jóhönnu loks finna tóninn sem kom henni í stöðu forsætisráðherra.
Við hljótum að gera afdráttarlausa kröfu um uppgjör við refsivert athæfi. Þeir sem tæmdu bankanna verða dregnir fyrir dóm og allt gert til þess að þeir geri upp við samfélagið sem þeir fórnuðu á altari græðgi og skefjalausrar áhættusækni.
Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hverjir eiga að víkja?
17.4.2010 | 07:08
Íslenska stjórnkerfið er ónýtt. Hefur verið mótað til að atvinnupólitíkusar geti setið á þingi alla ævi og fengið síðan ljómandi eftirlaun. Þessu kerfi hefur tekist að gleypa lýðræðishugsjónina, sem gengur út á það að fólk spillist við völd, og því verði að skipta fólki reglulega inn og út. Miklu oftar en gert er á Íslandi. Til dæmis mætti takmarka hámarkssetu á þingi við 8 ár. Bara sú regla gæti stórbætt kerfið.
Það þýðir aftur á móti að reynsluboltar í pólitík yrðu ekki lengur til og sífellt viðvaningar við völd. Það er varla eðlilegt að tvíhöfði ríkisstjórnarinnar hafi setið samtals um 60 ár á þingi? Erfitt að segja hvort sé betra: spilling eða reynsluleysi. Ég kýs reynsluleysið og minni völd ríkisins.
Lýðræðið varð til sem svar við einræði og spillingu sem slíku tengist. Eftir því sem stjórnmálamenn sitja lengur, færist lýðræðið nær einræði. Kerfið seilist sífellt til einræðis, því það virkar svo miklu betur, er hraðvirkara og þarf ekki mikla skriffinnsku. Lýðræðið er hins vegar afar þungt í vöfum, en það er einmitt til þess að koma spillingunni fyrir kattarnef, gera henni eins erfitt fyrir og mögulegt er. Gagnsæi og allt upp á borði. Það er hin lýðræðislega hugsjón. Lýðræði er ekki skemmtilegt. Það er hundleiðinlegt, og fólk sækist ekkert sérstaklega í það. En það virkar þegar grundvallarreglum er fylgt eftir: að stokka reglulega upp (fyrir alvöru) og skrásetja öll embættisverk.
Íslenskir stjórnmálamenn eru eins og strætóbílstjórar sem keyra vélarlausan vagn á tréhjólum sem dreginn er áfram af embættismönnum, skattborgurum og farþegum.
Mynd: I Want A Volkswagen Bus
E.S. Þannig hófst færslan upphaflega en ég ákvað að klippa hana svolítið til:
Loksins þegar sannleikurinn er kominn í ljós á þá Þorgerður að víkja?
Er Þorgerður ekki manneskja sem sjálfstæðismenn kusu á þing? Eiga þeir ekki að standa við bak hennar gegnum þykkt og þunnt? Væri ekki einnig betra að Björgvin og Illugi yrðu áfram á þingi til að viðhalda þeim pirringi sem nærvera þeirra veldur?
Einmitt að leyfa Þorgerði að sitja áfram og sjá hvernig málið leggst í kjósendur. Það væri verra að fá manneskju í staðinn sem enginn veit neitt um. Svona rannsóknarskýrslur verða líklega ekki gefnar út á hverju ári, en nóg er af efnivið í tug sambærilegra skýrsla á næstu tiu árum, reikna ég með.
Vilja að varaformaðurinn víki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsfrægar myndir af gosskýinu og ein úr gervihnetti
16.4.2010 | 05:49
Þessi glæsilega mynd, þegar orðin heimsfræg, eftir Ólaf Eggertsson á Þorvaldseyri prýðir forsíður flestra helstu netmiðla heims:
Smelltu á myndirnar til að sjá stærri útgáfu.
Mynd: Aftenposten
Önnur flott mynd, tekin af Brynjari Gauta:
Mynd: The Seattle Times
Á myndinni fyrir neðan sést öskuskýið úr Eyjafjallajökli sem er að lama flugsamgöngur til og frá Evrópu læðast yfir Bretland.
Mynd: BBC News, fengin frá NEODAAS/University of Dundee/AP
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Allar flugsamgöngur stopp í Noregi vegna eldgoss í Eyjafjallajökli (myndir úr norskum dagblöðum)
15.4.2010 | 09:30
Flug í Noregi og á Englandi liggur niðri vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, og því spáð að askan muni dreifa sér yfir alla Evrópu á næstu klukkustundum. Líklegt er að allt flug muni leggjast af í Evrópu síðar í dag.
Vonandi tekst stjórnmálamönnum ekki að nota þetta til að sundra athyglinni frá rannsóknarskýrslunni góðu, þó að sjálfsagt sundrist athyglin sjálfkrafa þegar slíkar hamfarir ganga yfir.
Myndir: NRK.no, AftenPosten og VG.no
Hvað eru hryðjuverk, landráð og ítrekuð rán?
14.4.2010 | 06:00
Samkvæmt rannsóknarskýrslunni virðast hafa verið framin landráð og hryðjuverk gagnvart íslensku þjóðinni með skipulögðum og leyndum hætti, þar sem mikill fjöldi manna er samsekur.
Ég velti jafnvel fyrir mér hvort að einkavinavæðing bankanna flokkist undir landráð.
Í þessu frumvarpi til laga frá 2005 kemur fram að landráð fyrnist aldrei samkvæmt íslenskum lögum. Ætli það gæti flokkast sem landráð að breyta þessu?
Í núverandi refsilöggjöf fer lengd fyrningarfrests eftir lengd hámarksrefsingar sem lögð er við viðkomandi broti. Aðeins þeir glæpir þar sem hámarksrefsing er ævilangt fangelsi fyrnast aldrei skv. IX. kafla almennra hegningarlaga. Þetta eru landráð skv. 86. gr. og 87. gr. laganna, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess skv. 98. gr. og 100. gr., hryðjuverk skv. 100. gr. a, manndráp skv. 211. gr., mannrán skv. 226. gr. og ítrekuð rán skv. 255. gr.
Mér þótti þetta afar áhugavert, þar sem í umræðunni er talað um ráðherrafyrningu sem telst til 3ja ára eða glæpi þar sem viðurlög eru meira en 2 ár, á þetta ekki við. Gerist ráðherra sekur eða samsekur um hryðjuverk, landráð eða ítrekuð rán, ætti fyrning ekki að vera til staðar.
Það væri fínt að fá þessi fyrningarmál á hreint, sem og eðli þeirra glæpa sem framdir hafa verið.
Mér sýnist að flestir muni sleppa vegna fyrningarákvæða, nema þeir verði sóttir til saka fyrir hryðjuverk, landráð, eða ítrekuð rán.
Ég þykist ekki vita hver hin eina rétta lögfræðilega túlkun á þessum málum er, en umræða um þetta er nauðsynleg.
Heimildir:
131. löggjafarþing 20042005. Þskj. 72 72. mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað eru íslensk stjórnmál?
13.4.2010 | 20:29
Stjórnmálaaflið er ofmetið tæki. Það er risastórt tannhjól sem bifast löturhægt og verður aldrei neitt annað, sama hvað við ímyndum okkur að það eigi að vera gagnlegt og flott, endurnýjað og gáfað.
Íslenska tannhjólið er tannlaust og spólar eins og jeppi í drullusvaði.
Mynd: How Stuff Works
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Riftum samningum vegna forsendubrests?
13.4.2010 | 15:26
Húsnæðislán hafa hækkað mikið síðustu árin, sérstaklega rétt fyrir og eftir Hrun. Húsnæðisverð hefur fallið. Skýrar ástæður er hægt að finna í rannsóknarskýrslunni.
Bankamenn undir slöku eftirliti tóku stöðu gegn krónunni og ollu margvíslegum efnahagslegum hermdarverkunum í samfélaginu, sem hafa skilað sér í gengisfellingu, hækkun vöruverðs, hækkun verðtryggðra lána, og þar fram eftir götunum.
Væri óeðlilegt að rifta lánasamningum við banka, á þeim forsendum að bankinn hefur ekki staðið við sína hlið skuldbindingarinnar og hefur markvisst grafið undan þeim grunni sem upphaflegur samningur var byggður á?
Hver er réttur einstaklinga gegn þessum ferlíkjum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðasta málsgrein 1. kafla rannsóknarskýrslu um efnahagshrunið endar á sérkennilegum, en skiljanlegum nótum. Þar er fólki bent á að auðvelt sé að vera vitur eftirá, og það þurfi að hafa í huga þegar skýrslan er lesin.
"Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar hafa verið við erfiðar aðstæður í kapphlaupi við tímann. Víst er að engin mannanna verk eru fullkomin." (Úr fyrsta kafla rannsóknarskýrslunnar)
Er hins vegar ekki þeim sem taka ábyrgð borgað sérstaklega vel fyrir þessa visku, og þeim treyst til að vera vitrir fyrirfram, þannig að þeir skapi ekki ástand þar sem nauðsynlegt verður að vera vitur eftirá?
Það er ljóst að upplýsingar voru til og stjórnendur höfðu aðgang að þeim, sem sýndu skýrt og greinilega í hvað stefndi; og má segja að það þyrfti ansi þrjóska þverhausa til að loka eyrunum þegar viðvörunarbjöllur klingja yfir hausamótum þeirra. Kannski þeir hafi verið að hlusta á eitthvað allt annað en viðvaranirnar? Eitthvað sem hentaði betur?
Þegar ljóst er að fjöldi viðkomandi aðila hafði beinan fjárhagslegan gróða af þeim ákvörðunum sem "mistök eða vanræksla í starfi" höfðu áhrif á, þá er ekki við hæfi að benda á visku eða heimsku viðkomandi, heldur spyrja hvort að brotavilji hafi verið til staðar.
Smáþjófar fá varla sömu tækifæri til að vera vitrir eftirá og þeir sem eru gómaðir í meiri virðingarstöðum? Þessi viska rannsóknarnefndarinnar er sönn, en ég spyr hvort að hún sé viðeigandi. Eigum við að vera varkár eða vantreysta þeim sönnunargögnum sem felast í skýrslunni, eða nota þau til að mynda okkur traustar skoðanir á stöðu mála?
Eigum við að krefjast réttlætis þegar við sjáum að lög hafa verið brotin, sem beint og óbeint hafa komið öllum Íslendingum illa, og jafnvel orðið til þess að sumir örvænta og framkvæma í kjölfarið hluti sem aldrei er hægt að draga til baka. Eigum við að fyrirgefa fyrr en þeir sem eru að missa heimili sín vegna þessara voðaverka, hafa misst störf, hafa misst eigur; eigum við að fyrirgefa þrjótunum fyrr en búið er að laga hag þessa fólks?
Eiga þrjótarnir ekki að vinna samfélagsvinnu og beinlínis hjálpa með eigin vinnu öllu því fólki sem þjáist vegna þeirra? Fólki á Íslandi, í Hollandi, á Bretlandi, og víðar?
Sumar ákvarðanir er hægt að fyrirgefa, aðrar ekki, fyrr en búið er að bæta fyrir þær, leita fyrirgefningar og sýna raunverulega iðrun í verki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)