Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
Rannsóknarskýrslan er afar merkilegt plagg. Ég er rétt byrjaður að lesa. Strax rekst ég á stóra spurningu sem ég tel mikilvægt að taka fyrir. Það er sjálft umfangið.
Skýrslan fjallaði fyrst og fremst um orsakir Hrunsins 6. október 2008 þegar Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing drógu íslenskt efnahagskerfi í djúpan pytt.
Það sem ég hef séð af þessari skýrslu, er að hún er opinská, hlífir engum og mun gera mikið gagn þegar einstaklingar verða dregnir til ábyrgðar. Mér þætti eðlilegt að það sama væri gert fyrir aðrar fjármálastofnanir sem farið hafa á hausinn og íþyngt þjóðinni óbærilega.
"Þótt allar íslenskar fjármálastofnanir hafi orðið fyrir einhverjum skakkaföllum samhliða þeim áföllum sem gengu yfir fjármálamarkaði heimsins haustið 2008 eru vandamál sparisjóðakerfisins um margt sérstök.Vegna hins mikla umfangs verkefnis nefndarinnar, að skýra meginorsakir falls bankanna 2008, vannst ekki tími til að taka hin sérstöku vandamál sparisjóðakerfisins til umfjöllunar þótt þau hafi verðskuldað það. Það er því undir Alþingi komið hvort þau verða tekin til sérstakrar rannsóknar."
Ég sé ekki betur en að skynsamlegt væri að bjóða rannsóknarnefndinni áframhaldandi störf og taka næst fyrir Sparisjóðina og málin í kringum þá. Held að það geti verið viðkvæmt mál þar sem margir áttu til dæmis hlut í BYR sem ákveðið var að styrkja frekar en að fella af einhverjum ástæðum, þegar tilefni virtist til, frá sjónarhorni leikmanns eins og mín, að taka alvarlega á málum þar.
Mér þætti eðlilegt að rannsóknarnefndin fengi strax grænt ljós um að rannsaka sparisjóðina, ekki seinna en í dag.
Sjálfur er ég afar sáttur við skýrsluna sem kom út en hún staðfestir að tilfinning mín fyrir þessum hörmulegu málum voru á rökum reistar, þó að ekki hafi ég haft aðgang að upplýsingum. Það er merkilegt hvað hægt er að komast langt á brjóstvitinu, en að sjálfsögðu ómetanlegt að fá þann stuðning og sönnunargagn sem þessi skýrsla er.
Sama hvað pólitíkusar munu spinna um að hún innihaldi bara eitthvað sem fram hefur komið áður, þá hefur hún þá sérstöðu að hún er áreiðanlegt sönnunargagn, fyrir þá sem hafa þurft að hugsa afar gagnrýnið um upplýsingar sem frá fjölmiðlum koma.
Búinn að hlaða niður 165 MB skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis!
12.4.2010 | 13:19
Ástæðan fyrir lengd skýrslunnar er ekki að fela hlutina, heldur að koma þeim upp á yfirborðið. Það er afar góð frétt.
Þetta er ansi stór skammtur í einum bita og má reikna með að unnið verði úr þessu á einhverjum árum. Ég velti fyrir mér fyrningu á þeirri vanrækslu og glæpum sem skýrslan lýsir. Vonandi verða sett neyðarlög sem segja til um að þessi mál fyrnist ekki frekar en morð.
Frábært að fá loks aðgang að skýrum upplýsingum um krosseignatengsl og hvernig hrægammar þjóðfélagsins kroppuðu allt til sín, hvernig stjórnendur brugðust, bæði vegna styrkja (eða múta) og vanhæfni í starfi.
Ég skil vel að erfitt hafi verið að rannsaka þetta efni og ég sé hvers vegna rannsóknaraðilar hafi nánast tárast yfir þessum grátlega harmleik sem skapaður var af eigingirni, græðgi og óhófi fjölda fólks. Það lítur út fyrir að lög og reglur hafi verið viðmið frekar en takmarkanir, og farið eins langt og fólk komst upp með.
Siðferði virðist hafa verið dulrænt hugtak í meðförum þeirra sem héldu blint í efnishyggjuna, þar sem hið rétta varð að öllu því sem hægt var að komast upp með og græða á, án þess að vera gómaður. Að vera háll sem áll, sleipur og útsmoginn, virðast hafa verið markmið og kröfur Hrunkynslóðarinnar.
Ég vil hrósa rannsóknarnefnd Alþingis fyrir augljóslega afar vel unna skýrslu. Það er auðskiljanlegt af hverju þurfti að fresta útgáfu hennar nokkrum sinnum. Nú verður bara að halda þessu góða starfi áfram og vona að saksóknarar taki við kyndlunum og beri hann hátt.
Þessi skýrsla er nauðsynlegt skref í endurreisninni, og ég er einn af þeim sem varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Reyndar mætti auka bandvíddina á vefnum, en það tók mig um 5 tíma (reyndar voru þeir ekki nema 3 - ruglaðist vegna tímamismunar) að hlaða allri skýrslunni niður, þrátt fyrir mjög gott netsamband hérna í Noregi.
Ég reikna með að lesa hana til fróðleiks næstu árin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvernig á að refsa skipstjórum þjóðarskútunnar?
12.4.2010 | 12:21
Þar sem að rannsóknarnefndin hefur metið mikinn fjölda þeirra sem stjórnuðu þjóðarfleyinu fyrir Hrun brotlega um vanrækslu í starfi, fór ég að velta fyrir mér hvernig væri við hæfi að refsa slíku fólki. Því fór ég að sjálfsögðu í siglingalögin og fann þar hvað gert er við skipstjóra sem sýna vanrækslu í starfi.
238. gr. Siglingalaga: Ef skipstjóri hefur orðið valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi sínu varðar það sektum, [fangelsi allt að fjórum árum].
Væri kannski eðlilegt að taka þessi viðurlög og margfalda með hundrað þúsund, þar sem þjóðarskútan er að sjálfsögðu mörg þúsund sinnum verðmætari og mikilvægari fyrir lífið í landi en dallur úti á hafi?
"Við skulum ekki leita að sökudólgum," sagði einn þeirra sem sýndi vanrækslu í starfi.
Það er kominn tími til að svara: "Jú, víst! Drögum þau fyrir dómstóla. Komum þeim frá völdum. En gefum þeim tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Þetta fólk á alls ekki að vera við völd í dag."
Mynd: Jean-Michel Cousteau Ocean Adventures
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þekkir þú muninn á ríkidæmi og fátækt?
11.4.2010 | 10:26
Sönn saga:
Einu sinni var ég á ferð í Mexíkó ásamt eiginkonu minni og börnum á leið frá Chiapas til Merida, á tímum þegar Marcos, hinn grímuklæddi uppreisnarmaður, var alræmdur á svæðinu, og vitað að mikið væri um bandíta að nóttu til á þessum vegi.
Svo illa vildi til að það sauð upp úr á vatnskassa bílsins. Tappinn bókstaflega sprakk, og var ónýtur. Við fórum á verkstæði, og þrátt fyrir að það væri laugardags eftirmiðdagur, fengum við bifvélavirkja sem var að horfa á knattspyrnuleik með félaga sínum til að hjálpa okkur. Hann reyndi að festa nýjan tappa á vatnskassann, en sagði okkur að hann myndi ekki duga lengi. Við þyrftum að fara með bílinn í alvöru viðgerð.
Við áttum 12 klukkustunda akstur fyrir okkur til næstu borgar með eðlilegum hraða, en með ónýtan vatnskassa þurftum við að stoppa á 15 mínútna fresti og fylla vatnskassann af vatni. Við keyptum 10 tveggja lítra kókflöskur á bensínstöð, tæmdum þær og fylltum af vatni. Við þurftum að fylla á þessar flöskur á klukkutíma fresti.
Það var um 40 stiga hiti og langt í næstu borg. Við héldum áfram til klukkan níu að kvöldi, og þegar ég var farinn að heyra í einhverjum dýrum á skokki í nágrenninu á meðan ég fyllti á vatnskassann, og mér sýndist ég sjá einhverjar útlínur var mér hætt að standa á sama, auk þess að myrkrið varð kolsvart vegna skorts á lýsingu. Þetta gátu ekki verið hestar því það var ekki hófhljóð sem ég heyrði, og kýr skokkuðu ekki svona hratt. Við ákváðum að leita hælis á sveitabæ. Keyrðum inn heimreiðina og áður en við fórum út úr bílnum kom bóndinn út úr litlu húsi sínu.
Hann bauð okkur velkomin. Við spurðum hann hvort við gætum lagt bílnum þarna í öryggi frá bandítum, og sofið í honum yfir nótt. Bóndinn gerði betur. Hann bauð okkur inn á heimili sitt. Hann sagði okkur að þessi dýr sem ég hefði heyrt í væru dádýr, að það væri gífurlega mikið af þeim á þessum slóðum, að þau væru villt.
Eiginkona hans bauð okkur í mat, og sonur þeirra lék við börn okkar. Við tókum eftir að sonur þeirra átti engin leikföng né bækur, aðeins eitt tímarit sem hann hafði greinilega lesið margoft. Hann náði góðu sambandi við börn okkar og nutum við þess að vera með þessu góða fólki, sem lifði afar fátæklega. Þau sváfu í hengirúmum, og virtust nánast engar eigur hafa hjá sér. Þau störfuðu fyrir eiganda býlisins, sem bjó í borginni, en þau unnu fyrir hann á daginn og fengu í staðinn að búa í þessu húsnæði. Þau voru honum þakklát.
Þau útveguðu okkur dýnur sem við sváfum á yfir nóttina.
Næsta dag buðu þau okkur í morgunverð og kvöddu okkur. Við báðum þau um heimilisfang þeirra og nöfn áður en við fórum aftur af stað, og ákváðum að senda þeim kassa af barnabókum þegar við næðum á leiðarenda. Sem og við gerðum.
Bóndinn heimsótti okkur í borgina nokkrum mánuðum síðar, og þakkaði okkur fyrir bækurnar. Þessi bóndi, sem átti nánast enga eign, er ein ríkasta manneskja sem ég hef kynnst á minni ævi.
Þægileg alhæfing:
Ég held að ríkidæmið felist ekki í því sem þú átt, heldur í viðmóti þínu. Það er sama hversu lítið eða mikið þú átt, ef þú hefur enga gjafmildi, þá ertu ekki ríkur. Og sá sem hefur enga gjafmildi er fátækastur þeirra allra, sama þó að hann eigi milljarða á bankabók.
Vafasöm alhæfing:
Eins furðulega og það kann að hljóma, þá er fátækasta fólkið sem ég kynnst á mínum ferðum, fólk sem hefur átt svo mikið af peningum að það veit ekki hvað skal gera við þá, og telur þessa eign upphefja eigin manngildi yfir annarra. Þessir einstaklingar eru oft hrokafullir, sviksamir, þjófóttir og hinir mestu bragðarefir, og telja slíka hegðun vera góða. Það er nánast vonlaust að ná mannlegu sambandi við slíka einstaklinga.
Þetta á alls ekki við um alla þá sem ég hef kynnst og eiga mikið af peningum, heldur um stóran hluta þeirra sem hafa eignast sitt án þess að gera það á heiðarlegan hátt. Fólk sem hefur erft peninginn eða eignast hann með vafasömum hætti. Svona einstaklingar hafa ekki áhuga á að þroskast og bæta sig, vegna þess að þeim finnst allt vera eins og það eigi að vera og sjá ekki tilgang með því að hugsa lengra eða dýpra. Nám í slíkum huga hefur aðeins eitt markmið: að eignast meira. Annað fólk er bara tilfallandi hluti af tilverunni.
Þetta er fátækt fólk.
Mynd: msnbc.com
E.S. Tók eftir að verið er að fjalla um fátækt á mbl.is eftir að ég skrifaði þessa grein, þannig að ég ákvað að tengja greinina við fréttina.
Fjallað um íslenska fátækt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Samúðarkveðja til Pólverja
10.4.2010 | 14:48
88 hátt settir pólskir embættismenn létu lífið í flugslysinu, en þeir voru á leið til Rússlands að taka þátt í 70 ára minningarathöfn um 20.000 pólska hermenn sem drepnir voru af Sovétmönnum árið 1940.
Sorglegt flugslys. Vinsæll forseti Póllands, eiginkona hans, seðlabankastjóri og fjöldi háttsettra pólskra embættismanna voru í vélinni.
Margir Pólverjar hafa reynst mér og minni fjölskyldu góðir vinir og kunningjar.
Þeim sendi ég samúðarkveðjur.
Lista yfir hina látnu má sjá á bloggsíðu Pawel Bartoszek.
Mynd: President.pl
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég kenni þeim um Hrunið
8.4.2010 | 08:31
Ríkisstjórnin hefur bara völd í fjögur ár, og því eru það mistök að eigna henni bæði of mikil völd eða hella ábyrgðinni yfir hana. Einnig ætti hún ekki að fá lán sem næstu ríkisstjórnir þyrftu að greiða. Þetta er bara tímabundið tannhjól í miklu stærri vél.
Það eru bæði innlendir og erlendir aðilar ábyrgir fyrir því hvernig komið er fyrir þjóðinni.
- Það voru erlendir aðilar og Íslendingar sem tóku stöðu gegn krónunni til að láta ársfjórðungsreikninga líta betur út.
- Tekin voru og gefin milljarðalán án veða, hugsanlega til að auka arðgreiðslur þeirra sem lánin fengu og bónusa þeirra sem lánin veittu.
- Fjölmiðlar hafa verið í eigu þessara hagsmunaaðila, þannig að íslenskur almenningur getur varla vitað sitt rjúkandi ráð, nema það kunni leiðir að upplýsingum í kringum reykský fjölmiðlanna.
- Ójöfn samkeppni, eignarhald viðskiptavina á bönkum, vafasöm einkavæðing banka og annarra ríkisstofnanna.
- Hryðjuverkalög Breta á Íslendinga, sem virðast hafa verið réttlætanleg út frá því viðskiptasiðferði sem ríkti (og ríkir kannski enn) á Íslandi.
Það sem mér finnst ósanngjarnt, er að vegna þessara óreiðumanna og óábyrgra stjórnunarhátta, hefur hófsamt og gott fólk neyðst til að flytja úr landi til að geta hugsanlega greitt upp lán á íbúð. Á sama tíma sér maður milljarða afskriftir á meðan venjulegt fólk berst í bökkum til að borga skuldir sínar, sem margfölduðust vegna þessara glæpa. Það að þetta fólk sé neytt til að borga þó að það geti það ekki, jafnast á við verstu glæpi mannkynssögunnar, og þá má draga ríkisstjórnir og þá innlenda og erlendu aðila til ábyrgðar vegna þess.
En lítið er gert, vegna þess að það er minnihluti sem er að þjást vegna aðgerðarleysis meirihlutans, sem aftur á móti þjáist minna en finnst þeir þjást nóg.
Það er ljóst að sökudólgarnir gefa sig ekki fram og kunna ekki að skammast sín. Þeim finnst allt í lagi að heiðarlegt fólk þjáist vegna þeirra, að líf hafa verið lögð í rúst. Það þarf að draga þetta fólk til ábyrgðar, vegna þess að það tekur ekki frumkvæði í að taka þá ábyrgð sem það bar og fékk greitt fyrir að bera.
Þessi grein varð til sem athugasemd við grein Jóns Baldurs Lorange: Vondum Íslendingum að kenna
Mynd: Creativity Works
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
The Road (2009) ***1/2
6.4.2010 | 11:43
Jörðin er dauð eða í andarslitrunum. Allt líf á plánetunni er að veslast upp og deyja. Flest dýr horfin. Tré geta ekki lengur borið sig. Jörðin sjálf liðast smám saman í sundur. Ekki allar manneskjur deyja um leið og Jörðin. Þær lifa áfram árum saman, en nýtt líf verður ekki lengur til.
Þegar maturinn er búinn, þá eru tveir kostir eftir í stöðunni. Annar þeirra er að lifa áfram. Hinn er að gefast upp. Flestir gefast upp.
Þeir sem lifa áfram skiptast aftur í tvennt. Þá sem bera kyndil í brjósti, og eru hinir góðu, og þá sem lifa til þess eins að komast af, og eru hinir illu. Í það minnsta út frá sjónarhorni sögumanns. Hinir síðarnefndu rupla og ræna, og lifa á mannáti. Hinir eru á stöðugum flótta undan þessum illu öflum í von um að eitthvað betri bíði þeirra einhvers staðar. Það er borin von.
Viggo Mortensen leikur "Mann" sem er á slíkum flótta ásamt syni sínum, "Drengnum" (Kodi Smit-McPhee). Eiginkona hans, "Konan" (Charlize Theron), þoldi ekki lengur við og tók ákvörðun sem maðurinn neitar að samþykkja. "Það verður að láta ljósið skína", segir hann "það verður að halda í von, þó að allt virðist vonlaust." Hann lifir fyrir son sinn, sonur hans er Guð segir hann, meinar það og lifir eftir því.
Ferð feðganna gegnum auðn þar sem áður var líf, og fundi þeirra á þessari löngu leið suður að hafi, er áhugaverð en afar dapurleg. Á leiði þeirra verða mannætur og ræningjar, þjófar og flakkarar, sjúkdómar og hungur, hörmungar og fegurð í smáum hlutum.
"The Road" er ein af þessum myndum sem verður að horfa á í sérstökum stellingum. Maður verður að vera tilbúinn að gefa af sér á meðan maður horfir á. Ég mæli með að horfa á hana fjarri skarkala og látum og á stundu þegar þig langar til að hugsa um gildi lífsins. Áhorfandanum er hent í aðstæður sem taka á og eru ljótar. Þarna eru hryllileg atriði inn á milli sem sýna ömurleika mannsins í sinni verstu mynd, þegar fólki er safnað saman og geymt til slátrunar.
Þessi grimmd sálarlausra mannvera og þessi neisti þess sem vill ekkert annað gera en að verja eigið barn frá öllu illu, er kjarni sögunnar. Hún hitti næstum beint í mark hjá undirrituðum. Hvaða veg þú gengur er kannski ekki aðalatriðið. Aðal atriðið er að þú haldir áfram. Hvert sem ferðinni er heitið. Og þó svo þú vitir ekki hvert þú ert að fara.
Afar góð mynd sem hægt er að mæla með fyrir fólk sem hefur áhuga á pælingum um tilgang lífs og dauða. "The Road" hefði þess vegna verið hægt að kalla "Píslargönguna" og hægt væri að færa fyrir því rök að "Maðurinn" sé táknmynd Jesú og "Drengurinn" mannkynið sem fylgir í kjölfar hans. Sem dæmi um trúarlega táknmynd er þegar feðgarnir finna neðanjarðarbirgi fullt af dósamat, og eftir að hafa fengið sér góðan kvöldverð, tekur sonurinn upp á því að þakka fyrir sig, leggur lófana saman, horfir til himins og þakkar "Fólkinu" fyrir.
Úrvalsleikararnir Charlize Theron, Robert Duvall sem "Gamli maðurinn" og Guy Pierce leika smærri hlutverk, en sá síðastnefndi lék eitt aðalhlutverkið í síðustu mynd leikstjórans, John Hillcoat, "The Proposition".
Hvar kennum við siðferðileg viðmið, ef ekki með trúarbrögðum?
5.4.2010 | 06:54
Ég læt ekki uppi hver mín skoðun er á þessum málum, enda reynslan sýnt mér að þá er maður bara flokkaður í annan hópinn og útilokaður af hinum, og því nennir helmingurinn ekki að hlusta á mann. Því reyni ég að skilja þá báða og setja mig í skó þeirra beggja og jafnvel ganga einhverja vegalengd í þeim báðum.
Ég held að við séum að nálgast málið frá svipuðum forsendum, en ég er líka að hugsa um heiminn út frá reynslu minni í öðrum samfélögum en Íslandi, það er þá helst Mexíkó og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum eru trúarbrögð nokkurs konar söluvara eða viðskipti, þar sem ríkið styrkir ekki trúarbrögð, en samt eru hvergi fleiri kirkjur í hverjum bæ í heiminum heldur en í Bandaríkjunum, enda er þar í flestum ríkjum trúfrelsi, að minnsta kosti á yfirborðinu.
Ég bjó sex ár í Mexíkó. Þar er kaþólsk trú ansi sterk, en einnig mikið af smærri trúarbrögðum meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Þar er mikil samanbræðsla menningarheima, en Evrópumenn réðust inn á svæðið fyrir um 500 árum og lögðu fyrri heimsmynd í rúst, en þá tíðkuðust meðal annars mannfórnir á ungmennum til að blíðka guðina.
Það sem Kristnin gerði, hvort sem það er til góðs eða ills, þá sameinaði hún Evrópumenn undir sama hatti, og var tæki til að snúa hinum innfæddu yfir í heimsmynd hinna evrópsku. Mér dettur ekki í hug að réttlæta þetta sem eitthvað góðverk, en svona var þetta.
Á Íslandi var þetta einfaldara árið 1000 þegar Þorgils lagðist undir feld og ákvað að Íslendingar skyldu formlega taka Kristni en mættu blóta í leyni. Það ætti að vera frekar einfalt fyrir einsleita þjóð eins og okkar, ef hún er ennþá jafn einsleit og hún var, að vera trúlaus.
Ég geri ráð fyrir að trúarbrögðin séu til, fyrst og fremst til að varðveita eina menningu gagnvart ytri áhrifum. Það er þessi eining sem fólk finnur í trúnni sem skiptir þarna miklu máli. Og ég er alls ekki að leggja dóm á hvort það sé gott eða slæmt, eða hafi góðar afleiðingar eða slæmar. Hins vegar felst miklu meira vald í trúarbrögðum en í trúleysi.
Þetta vald sameinar þá sem að nenna eða vilja ekki að hugsa djúpt um hlutina án forsendanna sem trúarbrögðin gefa þeim. Samfélag þar sem trúarbrögð eru virk virðast einnig hafa þau áhrif að skilgreining á umfangi hins rétta miðast ekki bara við sérhagsmuni einstaklings, heldur hagsmuni hópsins.
Ég er ekki að segja að þannig eigi þetta að vera. Þannig er þetta bara. Held ég.
Svo eru til nokkrir einstaklingar sem hugsa djúpt, taka siðferðilega góðar ákvarðanir, hafa skýr og heilbrigð viðmið fyrir ákvarðanir og líta heiminn heilbrigðum augum, og fylgja ekki trúarbrögðum. Þessir einstaklingar eru undantekning frekar en regla, held ég, og vissulega væri gaman að vera til í samfélagi þar sem allir væru þannig.
Ég neita því engan veginn að í nafni trúarbragða hafa verið unnin illvirki. Styrjaldir hafa verið háðar í nafni þeirra, og völdin sem fylgja slíkri sameiningu hafa verið misnotuð oft og illa, og er enn gert í dag. Þarna tel ég misviturt fólk hafa misnotað sér mikil völd, en það dæmi ekki trúarbrögðin sjálf sem eitthvað illt, heldur eru þau ógurlegt vald sem hægt er að beita til að bæta heiminn, eða fyrir eigin hagsmuni; rétt eins og tækni, þekkingu, upplýsingar, peninga, stjórnmál.
Ég held að öfgafólk verði áfram til og leiti valda þar sem þau eru tiltæk, hvort sem trúarbrögð eru til staðar eða ekki.
Hvar varðveitum við og kennum siðferðileg viðmið þjóðarinnar, ef ekki með trúarbrögðum? Á að treysta foreldrum til þess? Hvar finna þeir stuðning fyrir siðferðisdóma sína?
Málið er að það er ekkert mál fyrir einstakling að vera trúlaus og vel upplýstur. Málið flækist hins vegar gífurlega þegar við skoðum það í stærra samhengi, á milli þjóðfélagsbrota, fyrir heilt þjóðfélag, og síðan fyrir sértækar aðstæður.
Mynd: Nature.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Trú eða vantrú... Gleðilega páska!
4.4.2010 | 08:28
Ef við skilgreinum trúleysi sem afstöðu einhvers sem afneitar að minnsta kosti einni trú, þá erum við sjálfsagt öll trúlaus, nema ef engin mótsögn sé í því að fylgja öllum trúarbrögðum og trúa á allt. Það gæti verið erfitt þar sem sum trúarbrögð krefjast þess að aðeins sé trúað á þeirra eigin kenningar, og ekkert annað viðurkennt.
Ef skilgreiningin á trúleysi er hins vegar sú að hinn trúlausi afneiti öllum hugsanlegum skipulegum trúarbrögðum, eða jafnvel öllu því sem ekki er hægt að sanna með vísindalegum aðferðum, skynja og sannreyna, þá erum við ekki öll trúleysingjar, enda töluvert af fólki sem lifir samkvæmt trúarbrögðum, sækir messur og slíkt. Væri betra að trúa aðeins því sem fræði og vísindi láta í ljós, og hunsa alla visku forfeðra og formæðra okkar? Eða er arfleifð okkar kannski einskis virði?
Öfgafólk situr í vegasalti beggja þessara hreyfinga, bæði trúaðra og trúlausra. Hinir trúlausu finna hinum trúuðu allt til foráttu, og hinir trúuðu finna hinum trúlausu allt til foráttu. Slík heift sem fylgir þessum öfgum hentar ekki mínum lífsstíl og skoðunum, þannig að ég á afar erfitt með að taka slíkt alvarlega.
Það væri áhugavert að velta fyrir sér hvernig heimurinn væri algjörlega án trúarbragða. Væri hann betri eða verri fyrir vikið? Ég held að hann væri verri, einfaldlega vegna þess að fjöldi fólks nennir ekki að hugsa sjálfstætt og þarf á skýrum takmörkunum og skilaboðum að halda til að valda ekki öðrum skaða. Trúarbrögðin eru þægilegar stofnanir sem útvega siðferðileg viðmið og reglur sem aðrir fylgja síðan. Það má segja að þetta sé hluti af trú nútímamannsins á kerfisfræðingum, og Kirkjan kerfisbindur andleg gildi og siðferðið.
Slíkar takmarkanir og skilaboð í formi laga, án trúarstofnana, eru ekki hvetjandi til betri hegðunar, heldur letjandi frá verri hegðun; en trúarbrögð hvetja aftur á móti til betri hegðunar, út frá siðferðisreglum þeim sem settar eru í hverju samfélagi. Trúarbrögðin virðast einfaldlega vera hluti af manneskjunni. Sama hvert við förum, í stærri samfélögum finnum við trúarbrögð sem líma fólk saman útfrá sameiginlegum gildum og gæðum.
Trúarbrögð eru mannleg. Við þurfum á þeim að halda þó að vissulega séu til einstaklingar sem hafa ræktað eigin garð og getur lifað lífinu frjálst frá þessari trúarþörf. Sumir af þessum einstaklingum eiga kannski erfitt með að trúa því að ekki allir séu eins og þeir, og eru daprir yfir því að ekki fleiri séu þannig, en er það ekki bara sagan sem sífellt endurtekur sig?
Það eru alltaf einhverjir sem leiða, og alltaf einhverjir sem fylgja eftir, og síðan fámennur hópur sem vill hvorugt, sama hversu heitt þeir sem eiga að leiða óska þess að fylgjendur fylgi frekar eigin visku en einhverjum öðrum. Og þegar leiðtogi afneitar fylgjendum sínum, sprettur fljótt fram gervileiðtogi til að fylla tómarúmið, sem elskar slíka athygli og dettur ekki í hug að breyta hinum hlýðnu lömbum í ljón.
Við getum lamið hausnum við stein og afneitað veruleika trúarbragða og mikilvægi þeirra fyrir mannlegt samfélag. Trúarbrögð verða við líði þar til manneskjunni tekst að kenna siðferðileg og andleg gildir á annan hátt.
Það er hægt að þroska og móta andleg og siðferðileg gildi í skólakerfinu, og menntaði ég mig sérstaklega til þess að gera slíkt. Þessi leið hefur gefist vel víða um heim. Hugsanlega fjalla ég um hana síðar.
Heimur upplýstra trúleysingja sem mótað hafa djúpa siðferðiskennd og virðingu gagnvart samborgara sínum er útópía. Slík útópía myndi snúast í andhverfu sína, einfaldlega vegna þess að manneskjan er breysk.
Væri heimurinn friðsamur og góður án trúarbragða? Mér þætti gaman að sjá það. Sérstaklega þar sem ekki allir vilja friðsemd, og ekki skilgreina allir á sama hátt hið góða, þrátt fyrir að vera upplýstir einstaklingar.
Trúarbrögðin eru lím sem tengja fólk með svipaðan bakgrunn saman. Treysta vindaböndin og fjölskyldur ná betur saman. Fyrir vikið verða sjálfsagt til einhverjar klíkur og upp spretta sérhagsmunasamtök sem vilja moka meiri lífsgæðum til sinna félaga en annarra.
Trúleysið er hins vegar límleysi. Hinir trúlausu eru dæmdir til að ráfa einir og misskyldir um götur samfélagsins, fá ekki aðgang að lokuðum fundum og verða pirraðir og vonsviknir fyrir vikið. Þeir sannfærast um að trúarbrögðin séu uppspretta alls ills, því að hópar í samfélaginu finna þar styrk til að rúlla yfir límlausa einstaklinga.
Hvort er betra?
Svarið felst sjálfsagt í spurningu eins og hvort að sulta sé betri ofan á brauð eða undir því.
Mynd: Atheist Nexus
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Erum við öll trúleysingjar?
3.4.2010 | 08:27
Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig fólk dæmir kaþólsku kirkjuna harkalega fyrir það að einhverjir prestar innan kirkjunnar hafa misnotað börn, og fyrir það að kirkjan hélt þessum upplýsingum leyndum út á við. Svona eins og þetta væri mikilvægt PR mál sem mætti ekki fara út. Skiljanlega. Minnir á bankaleyndina.
Það er eins og stofnanir sem settar eru saman til að vernda ákveðin mannleg gildi eigi til að snúast í andhverfu sína, eitthvað andlaust skrímsli sem gerir allt sem það getur til að vernda eigin tilvist og til að starfsmenn hennar haldi sínum störfum, og upphaflegur tilgangur og markmið verða að aukaatriði í þessu heljarferli.
Á íslenskum stofnunum hafa börn verið misnotuð. Í skólum eru til ekki bara lélegir kennarar, heldur arfaslakir sem jafnvel beita einelti á nemendur þannig að þeir bera varanlegt tjón af; á sjálfu Alþingi, þar sem fólk vinnur við að setja lög, er fólk sem hefur brotið lög og séð ekkert rangt við það; til eru jafnvel hjúkrunarfræðingar sem sjá engan tilgang með hjúkrun þegar sjúklingur er langt leiddur; og lögfræðingar sem snúa réttlætinu upp í andstæðu sína með tæknilegum tilþrifum. Það eru jafnvel til uppljóstrara innan skipulagðra glæpasamtaka.
Allar stofnanir hafa þessa einstaklinga innanborðs. Sumar í miklum mæli. Þýðir það að hver og ein af þessum stofnunum séu illar; eða að virkt eftirlit verði að vera til staðar um að hver einasti meðlimur taki virkan þátt í að stefna á gefin markmið af heilindum?
Ég fordæmi ekki Kirkjuna fyrir þessa einstaklinga, frekar en aðrar stofnanir fyrir að innihalda ömurlega einstaklinga sem vinna gegn tilgangi og markmiðum þeirra. Hins vegar held ég að rannsaka þyrfti ráðningarferli einstaklinga í þessi störf. Að auka eftirlit með þeim öllum myndi einfaldlega skapa reglufargan sem á endanum yrði að enn einu stofnanaskrímslinu sem þyrfti að hafa eftirlit með.
Annað mál: Það er gaman þegar fólk hittir naglann á höfuðið. Jón Steinar Ragnarsson gerði það svo sannarlega í athugasemd við eigin færslu: Föstudagurinn obbosslegalangi...
Það er svo óarfi að kalla mig trúleysingja, þótt ég kyngi ekki hrárri einni goðsögunni af þúsundum. Allir eru trúleysingjar í þeim skilningi. Ég trúi bara á einni færri en flestir hinir. Lesið nú bloggin hjá hinum trúuðu og þá sjáið þið forstokkað trúleysi á önnur trúarbrögð eða jafnvel afbrigði innan sömu trúar. (Jón Steinar Ragnarsson)
Mér líkar illa við þá tilhneigingu að stimpla fólk sem eitthvað skilgreint fyrirbæri út frá trú eða trúleysi. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvað ég er sjálfur þegar kemur að þessum efnum, en reyni að vera opinn fyrir þeim hugmyndum sem mér þykir heilbrigðar, saman hvaðan þær koma. Mér er illa við að fordæma einstakling eða hóp einstaklinga sem safnast saman af sameiginlegri hugsjón eða hagsmunum. Reyndar held ég að íslenskir stjórnmálaflokkar séu í síðarnefnda hópnum, en það er annað mál.
Betra er að velta fyrir sér forsendum viðkomandi hóps og átta sig á af hverju viðkomandi stofnun þykir mikilvæg út frá þeirra eigin viðmiðum. Ég hef upplifað kirkjuna á Íslandi sem frekar leiðinlega og þrjóska stofnun, þar sem oft er predikað af andlausum prestum á grunnhygginn hátt. En síðan eru prestar inni á milli sem geta fært líf í predikun sína og fyllt hana merkingu.
Það sama get ég sagt um upplifun mína af kaþólskum kirkjum. Ég hef farið í nokkrar messur í Mexíkó og þær eru jafn misjafnar og þær eru margar, en mér hefur líkað gífurlega við sumar þeirra, þar sem presturinn er hæfileikaríkur í mannlegum samskiptum og fær söfnuðinn til virkrar þátttöku.
Ég hef líka farið í kirkjur í Bandaríkjunum, og þar er umhverfið allt öðruvísi. Presturinn verður að vera góður þar, enda borgar söfnuðurinn sem mætir í kirkjuna laun hans, ekki ríkið eða massív stofnun einhvers staðar úti í heimi. Þar hef ég eignast góða vini.
Þegar ég fór til Tælands fyrir langalöngu hafði ég sérstakan áhuga á að ræða trúmál við innfædda, fór inn í gullna musterið í Bangkok á skónum - sem mátti náttúrulega alls ekki - og eftir samræður við innfædda sá ég ekki mikinn mun á trú þeirra og annarra.
Trú er svolítið spes fyrirbæri. Hún þýðir að þú treystir að eitthvað sé satt sem þú veist að hvorki er hægt að sanna né afsanna. Þannig hefur hún lítið með rök eða sannleikann að gera. Bæði trúlausar og trúaðar manneskjur falla stöðugt í þá gryfju að þær geti rökstutt að trú sé annað hvort sönn eða ósönn. Það er einfaldlega ekki hægt, þar sem trúin er fyrir utan umfang þess sem rökhugsun ræður við. Öll rökhugsun þarf á forsendum að halda sem hægt er að vera sammála um. Ef þeir sem rökræða eru í upphafi ósammála um tilvist Guðs, þá geta þeir ekki komist nær neinu sönnu, þar sem forsendur þeirra eiga ekki við. Hins vegar geta þeir sem trúa því sama rökrætt og þróað sín mál á eigin forsendum, án nokkurra vandkvæða.
"Jú, víst," gæti nú einhver sagt. "Að víst er hægt að rökræða þetta."
"Vissulega," gæti Don Hrannar svarað, "Og slíkar rökræður gætu verið skemmtilegar og gefandi, en hins vegar geta þær ekki skorið úr um grundvallarforsendur rökræðunnar sjálfrar séu þær ólíkar."
Þannig eru öll rök í raun gölluð. Þegar tveir hugar koma saman og ræða málin, þá þurfa þeir að átta sig á grundvallarhugtökum og sjá hvort þeir skilji þau út frá sambærilegu sjónarhorni, og ef ekki, þá mun sameiginleg niðurstaða rökræðunnar ekki vera gild í fræðilegum skilningi, heldur munu þær upplýsingar sem báðir aðilar veittu hinum reynast verðmætar til að dýpka skilning á viðkomandi málefni. Því fleiri sem taka þátt í slíkri samræðu, því betra.
En sannleikurinn. Hvað verður um hann? Getur einhver nálgast hann?
Ég held það og trúi því, en veit það ekki. Hins vegar get ég rökstutt þennan grun, réttlætt hann með rökum, og af mikilli sannfæringu reynt að sannfæra þig um að ég hafi rétt fyrir mér. Það þýðir ekki að ég hafi rétt fyrir mér.
Heimspeki og guðfræði eru fræðigreinar sem ég ber mikla virðingu fyrir. Báðar leita þær sannleikans. Munurinn á forsendum þeirra virðist í upphafi vera smávægilegur, en er í raun hyldjúp gjá sem enginn kemst yfir, ekki einu sinni fuglinn fljúgandi. Þessi forsenda er sú að í guðfræði er gefið sem forsenda að Guð sé til - sama hvað það þýðir, en heimspeki gefur sér engar slíkar forsendur, - reyndar gefur heimspekin sér nákvæmlega engar forsendur, og hefur þurft að þola harða gagnrýni fyrir það.
Heimspekin snýst um að átta sig á gæðum og gildum, eitthvað sem verður til á meðan manneskjan lifir og hrærist. Á meðan heimspekin veltir fyrir sér hvað hið góða er út frá öllum mögulegum forsendum, og jafnvel engum líka, þá veltir guðfræðin fyrir sér hvað hið góða er í heimi þar sem guðlegur máttur er til. Heimspekingur gæti velt fyrir sér hvort að allt gott sé hollt, og hvort að allt hollt sé gott, og komist að þeirri niðurstöðu að allt guðlegt sé holt og allt holt guðlegt. Hvernig sú niðurstaða fengist er önnur saga.
Heimspekin leitar heimsins, þekkingar, speki, fegurðar, hins góða, hins rétta, hugsunar, gagnrýni, stjórnskipunar, og þar fram eftir götunum, og reynir að átta sig á hvað allt þetta er, bæði út frá því hvernig við upplifum þessi fyrirbæri og hvernig þau hljóta að vera út frá hugsuninni einni saman, án þess að flækja okkur í kóngulóarvef skynjunar sem getur auðveldlega blekkt okkur, í þeirri von að hugsunin sjálf sé ekki aðeins enn eitt skynfærið sem getur blekkt okkur.
Óþjálfuð hugsun er vissulega á við slíkt skynfæri. Spurning hvort að vel þjálfuð og djúp hugsun komist lengra.
En aftur að Jóni Steinari: það að merkja hann sem trúlausan vegna þess að hann viðurkennir enga eina kenningu umfram aðra, og þar sem hann er stöðugt leitandi að svörum, má sjá að hann hefur einfaldlega ýmis einkenni heimspekings sem leitar án þess að fordæma. Fordæming felur nefnilega í sér þá trú að maður hafi málstað sem er betri en sá sem fordæmdur er.
Í framhaldi af þessu velti ég fyrir mér hvort hægt sé að trúa öllu. Að vera algjörlega auðtrúa, án þess að lenda í mótsögn, eða hvort að slík mótsögn skipti ekki máli fyrir auðtrúa mann? Það virðist ómögulegt að ímynda sér slíkan einstakling, sem bæði trúir því að Guð sé hið góða, sjálft réttlætið, forsenda náttúruhamfara, vísindamaður á tilraunastofu, eineygður gaur í leit að hetjum, kennari hengdur á kross, prins sem hefur afsalað sér öllu veraldlegu fargi í leit að alsælu, upplýst manneskja?
Ég sé í raun ekkert verra við að trúa öllu, en að trúa sumu og ekki öðru, og að trúa engu. Reyndar, þegar maður hugsar um hugtökin allt og ekkert, áttar maður sig reyndar á að þau eiga ekki beinlínis við um mannlega reynslu og eiga fyrst og fremst við um huglægan veruleika, en að sumt og ekki sumt er hnoðað inn í mannlega reynslu sem gerir okkur kannski erfiðara fyrir með að sjá hlutina til enda, vegna þess einfaldlega að við erum mannverur með öllum þeim flækjum sem því fylgir.
Mynd: post-gazette.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)