Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Hasar í réttarsölum Reykjavíkur

Í dag berast tvær merkilegar fréttir úr réttarsölum í Reykjavík.

Annars vegar streymir hópur lögreglumanna inn í réttarsal til að fjarlægja menn sem vildu ekki setjast, og afleiðingarnar handtökur og ofbeldi; og það í máli sem sjálft Alþingi höfðar gegn níu þegnum sem voru að mótmæla á þingpöllum. Ef eitthvað mál ætti að vera opinbert, er það mál ríkis gegn þessum einstaklingum. Þetta mál er farsi. Það átti að fella það niður strax. Það er ekki lengur hægt. Þetta mál gæti jafnvel orðið upphafið að nýjum mótmælum og endað með falli núverandi ríkisstjórnar.

Einnig er stórmerkileg fréttin um að gengistryggð lán séu ekki bara ólögleg, heldur hafi fyrirtækin sem lánuðu peninginn ekki rétt til að umbreyta lánunum yfir í aðrar gerðir verðtryggingar og halda þannig höfuðstólnum uppi á sama ósanngjarna hátt og hefur verið við lýði um nokkurt skeið. Verði þessi dómur staðfestur í hæstarétti þýðir það að blaðið snýst algjörlega við. Þar sem að lánafyrirtækin hafa rukkað inn langt umfram upphaflegan höfuðstól og vexti síðustu árin, er ekki ólíklegt að nú skuldi þau mörgum þeirra sem hafa borgað of mikið til baka af lánum sínum.

Á sama tíma er ríkisstjórnin að leggja fram til samþykkis lög sem gera lánafyrirtækjum mögulegt að umbreyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán, sem þýddi þá að verið væri að færa lánafyrirtækjunum vopn í hendurnar sem þeir hafa ekki í dag samkvæmt gildandi lögum.

Frekar seinheppin ríkisstjórn.


mbl.is Ekki heimilt að gengistryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu heyra sannleikann?

1984

Ég var aldrei góður í Morfís, hvorki sem keppandi né þjálfari. Af sömu ástæðu yrði ég aldrei góður stjórnmálamaður innan íslenskrar umræðuhefðar. Ég ber of mikla virðingu fyrir sannleikanum og hversu erfitt er að nálgast hann, til þess að ég geti gert lítið úr öllu því ferli með þeim hætti sem gerður er í þing- og hátíðarsölum.

Reyndar þjálfaði ég sæmilega sigursælt lið til ræðukeppni þegar ég kenndi við mexíkóskan framhaldsskóla, en í þeirri keppni voru reglurnar svolítið öðruvísi en í Morfís og dómararnir afar harðir og þekktu vel flestar rökvillubrellurnar í bókinni. Keppendur voru dregnir niður fyrir að nota sannfærandi áherslur frekar en staðreyndir eða góð rök.

Það var lögð mest áhersla á að koma raunverulegri þekkingu til skila og undantekningarlaust voru málefnin sem rætt var um byggð á raunverulegum málefnum í nútímasamfélagi, og þurfti að ræða málin af dýpt. Ég man að eitt umræðuefnið var "Morðin í Juarez" þar sem keppendur þurftu að grafast fyrir um hverjar orsakirnar voru fyrir því að mikill fjöldi kvenna hafði verið myrtur í Juarez. Þetta var ekki með eða á móti, heldur þurftu liðin að rannsaka málið, koma með kenningu og standa við hana sem hópur. Reyndar var passað upp á að ólík lið væru ekki með sömu kenningu.

Einnig var lögð áhersla á að keppni og alvara væru tvennt ólíkt, að þessi ræðuhöld voru fyrst og fremst gerð til leiks og þjálfunar á rökhugsun, og góður undirbúningur fyrir leiðtogastörf.

Morfís er keppni í ræðuhöldum. Stjórnmálaumræðan á Íslandi er í kappræðustíl. Alls ekki ósanngjarn samanburður. Kappræður snúast um að taka afstöðu og nota öll tiltæk rök til að standa við þá afstöðu, óháð því hvort afstaðan sé í raun heilbrigð, góð eða rétt. Sá vinnur sem rökstyður betur, ekki endilega sá sem hefur rétt fyrir sér.

Vandamálið vex þegar fólk hættir að greina muninn á kappræðu og samræðum, en í samræðum er niðurstaðan ekki gefin fyrirfram, frekar en hún ætti að vera þegar leitað er góðra markmiða út frá sanngjörnum kröfum, og unnar lausnir út frá markmiðunum með því að átta sig á veruleikanum, en ekki þeim sýndarveruleika sem kappræðustíllinn skapar.

Þegar þú ræðir málin út frá fyrirfram gefinni skoðun ertu dæmd(ur) til að standa við þá skoðun og berjast við að fylla upp í rökholur með öllu tiltæku. Þar sem ekkert rökvillueftirlit er til á Íslandi, þá er ofgnótt af slíkri notkun í umræðunni. Algengastar virðast vera þær villur þegar málefni er dæmt fyrirfram útfrá skoðunum á einstaklingi eða hópi. Tilfinningarnar í slíkri umræðu yfirgnæfa alltaf hina hógværu og hljóðlátu skynsemi, sem fæstir virðast sjá, enda á umræðan til að gruggast eftir stöðugt skítkast.

Mælskulist er að sjálfsögðu ekki illt fyrirbæri þegar henni er tekið sem leik. Hún verður hins vegar að afar öflugu tæki í höndum þeirra sem eru færir að nota það, og sérstaklega þegar áheyrendur kunna ekki að greina rök frá rökvillu, gilda röksemdafærslu frá ógildri, áreiðanlegar heimildir frá óáreiðanlegum, sannsögli frá lygum, heilindi frá klækjum, kjarna frá hismi.

Þetta fyrirbæri er þekkt meðal vísindamanna sem kannast vel við að vísindalegar kenningar eru opnar fyrir stöðugri gagnrýni, og reyndar er þörf á slíkri harðri gagnrýni til að sannreyna vísindalega þekkingu, sem þó telst aldrei fullkomlega örugg. Þegar fræðimenn koma hins vegar fram með kenningar sem þeir eru sannfærðir um að séu 100% öruggar, sannar og réttar, það er einmitt þá sem rétt er að hafa varann á og kanna vel rökin sem liggja á bakvið, hverjar forsendurnar eru og af hverju þeim er haldið fram. 

Ef þú heyrir einhvern fullyrða að eitthvað sé staðreynd sem vísindin hafa endanlega sannað, þá þarftu að hlusta vandlega og velta fyrir þér hvort það geti verið rétt. Ég hef ekki enn rekist á þá vísindalegu kenningu sem allir fræðimenn viðkomandi sviðs eru sammála um. Og þó þeir væru það, hvernig gætu þeir vitað með fullvissu að kenningin sé sönn?

Það virðist lítið ekkert pláss fyrir efasemdir í íslenskri stjórnmálaumræðu. Það virðist vera lítið umburðarlyndi gagnvart óvissu og sannleiksleit. Ef viðkomandi hefur ekki öll svör tilbúin, helst í gær, þá fellur viðkomandi hratt í áliti og verður ekki hlustað á hann. Því verður hinn athyglisþurfandi stjórnmálamaður að vera fljótur að sjóða saman svör, hvort sem þau innihalda þekkingu eða bara sannfæringu, því eitthvað er betra en ekkert í þeim heimi.

Það þarf ekki bara að breyta stjórnmálamönnum og ræðutækni þeirra, heldur þurfum við að læra virka hlustun og taka þátt í umræðunni. Eigin skoðanir þroskast betur með þátttöku í heldur en með hljóðlátri hlustun.

Kannski fjölmiðlar hafi ýtt undir menningu þar sem fáir útvaldir eru þjálfaðir til ræðumennsku og tjáningar, en gífurlegur meirihluti situr þögull heima í stofu og tekur við skilaboðum frá þessum þjálfuðu einstaklingum í formi frétta eða skoðanaskipta, án þess að taka sjálfir virkan þátt í umræðunni. Ætli múgurinn og margmennið sem situr heima í stofu átti sig á hversu mikið vald getur falist í því að láta eigin rödd heyrast, þó ekki sé nema með athugasemd á bloggsíðu, eða kjósa með veskinu?

Fyrir hvert andlit sem birtist á sjónvarpsskjá og tjáir eigin skoðun eða flokksins sitja þúsund manns þögulir heima í stofu og koma eigin rödd aldrei út til þjóðfélagsins, nema kannski á óbeinan hátt með kaffistofurabbi og öðru spjalli. Þannig er íslenskur veruleiki í dag. Þannig er þetta um allan heim. Kerfið er til staðar og við látum stjórnast af því án þess að hafa val um hvaða áhrif það hefur á líf okkar og ákvarðanir, framtíð þjóðar okkar og sjálfsmynd. 

Mér hefur oft blöskrað, sérstaklega þegar flokksfélagar flykkjast fyrir framan sjónvarpsmyndavélar til að réttlæta glötuð málefni með orðskrúði og bulli, og komast upp með það.


mbl.is Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edge of Darkness (2010) **1/2

photo_01_hires

Hvern langar til að sjá Mel Gibson í hefndarhug og sálarangist? Hvern langar ekki til þess?

Mel Gibson snýr loks aftur á hvíta tjaldið. Í þetta skiptið fyrir framan myndavélina, en undanfarin ár hefur hann sýnt afar góða takta sem leikstjóri. Hann gerir sitt besta til að túlka Thomas Craven, sem Bob Peck hafði gert á snilldarlegan hátt árið 1985 í samnefndum sjónvarpsþáttum á BBC. Gibson nær því miður ekki að bæta neinu við þann karakter sem Peck náði að skapa.

Vísindamaðurinn Emma Craven (Bojana Novakovic) er myrt með haglabyssuskoti í magann í dyragætt föður hennar, lögreglumannsins Thomas Craven (Mel Gibson). Ákveður Craven að rannsaka málið upp á eigin spýtur, en á í mestu erfiðleikum með að takast á við sorgina, og kemst hann lítt áleiðis, fyrr en hann finnur skammbyssu í náttborðsskúffu dóttur sinnar og fer að gruna að eitthvað plott hafi verið í gangi.

Þegar Craven kemst á fund með forstjóranum Jack Bennett (Danny Huston) finnur hann strax að eitthvað gruggugt felst í fyrirtæki hans, en starfsemi þess felst í framleiðslu kjarnavopna fyrir Bandaríkjaher, og kannski eitthvað meira. Það er þetta "kannski-eitthvað-meira" sem kostaði Emmu lífið.

Inn í söguna fléttast CIA hreingerningamaðurinn Jedburgh (Ray Winstone) sem fær allt í einu samvisku þegar hann áttar sig á að hann mun sjálfsagt ekki lifa til eilífðar. Hann fær nóg af spillingu og ákveður að gera eitthvað í sínum málum.

Því miður tekst ekki að flétta sögum þeirra Craven og Jedburgh jafn vel saman og í BBC þáttaröðinnni, þar sem þeir lentu saman í spennandi ævintýrum, fóru saman inn í námu sem stjórnað var af fyrirtækinu ógurlega og lentu í æsilegum skotbardaga. Í þessari útgáfu verður þessi kjarnaþáttur nánast að engu. Og það eru mikil vonbrigði, enda hefði maður haldið að reynt yrði að bæta á einhvern hátt þessa snilldarþætti. 

Það er sjálfsagt ekki hægt, enda BBC serían í flokki með langbesta sjónvarpsefni sem ég hef séð.

"Edge of Darkness" er einfaldlega farartæki fyrir Mel Gibson. Hann hefur alla tíð sérhæft sig í að leika menn með djúp sár á sálinni sem leita hefnda sér til lækninga. Þannig var hann í sínum frægustu hlutverkum sem "Mad Max" í samnefndri seríu, Martin Riggs í "Lethal Weapon" myndunum og sem William Wallace í "Braveheart". Gibson er bestur þegar hann er bandbrjálaður í skapinu og þjakaður af þjáningum, svona yfirleitt. Í þetta skiptið er hann samt óvenju stóískur og ósennilegt að þetta hlutverk fari hátt á frægðarferli vandræðagemlingsins og snillingsins Gibson.

"Edge of Darkness" er engin snilld, en ég gat reyndar ekki annað en glottað þegar Gibson segir í einu atriðinu: 

Well you had better decide whether you're hanging on the cross or banging in the nails.


Af hverju þykir í lagi að múta ríkisstarfsmönnum á Íslandi?

 

imgname--britain_moves_on_bribery---50226711--bribery3

 

Í Noregi mega starfsmenn á vegum ríkisins ekki þiggja gjafir í neinu formi. Ekki veiðiferðir, vínflösku, konfektkassa eða flugferð. Hvað þá styrki í formi peninga!

Þar er ríkisstarfsmönnum stranglega bannað að taka á móti styrkjum eða gjöfum í hvaða formi sem er. Þetta þykir eðlilegur hugsunarháttur, til þess gerður að koma í veg fyrir spillingu. Það sama á við um stjórnmálamenn, enda eru þeir annað hvort að sækjast eftir stöðu hjá ríkinu eða þegar komnir í hana.

Komist það upp að norskur stjórnmálamaður eða embættismaður hafi þegið gjöf frá viðskiptavini eða fyrirtæki, er viðkomandi neyddur til uppsagnar strax, en viðtaka á slíkum styrkjum og gjöfum er grunnforsenda spillingar.

Þó ég sé ekkert sérlega hrifinn af öllu banntalinu sem hefur verið í gangi, finnst mér að banna ætti styrki og gjafir til opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna algjörlega.

Það þætti mér gott fyrsta skref í endurreisn íslensks siðferðis, frekar en að bölsóttast út í forseta Íslands sem hefur sér eitt til saka unnið að segja satt og vekja þannig aukinn áhuga ferðamanna á Íslandi, en það hef ég heyrt af fólki erlendis að þeim þyki Ísland einmitt spennandi fyrir hversu óútreiknanlegt það er, og þeir sem ég hef rætt við um orð forsetans, finnst það hinn eðlilegasti hlutur að forsetinn segi frá slíkum hlutum.

Þegar ég segi þeim að fulltrúar ferðaþjónustu og ríkisstjórnar hafi gagnrýnt forsetann harðlega fyrir orð sín, þá fyrst birtist hneykslunarsvipurinn. Fólk leitar ekkert endilega í þægindi og öryggi á Íslandi. Ævintýramennskan heillar meira.

Siðferðisvitund okkar virðist því miður vera í duftinu.

  • ICESAVE 3 samþykkt af leiðtogum ríkisstjórnar þrátt fyrir skýr skilaboð frá þjóðinni 
  • Sparifjáreigendum bætt tap, en heimili settur úrslitakostur
  • Mútur eru í lagi, bara óþægileg staðreynd

Hvað er að?

 

Mynd: Mirror.co.uk


mbl.is Óþægilegt fyrir Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær skal gagnrýna manninn og hvenær málefnið?

 

BartSimpson_GagnryninHugsun

 

Undanfarna mánuði hefur nafn Davíðs Oddssonar varla mátt birtast í fjölmiðlum án þess að maðurinn á bakvið nafnið sé gagnrýndur eða honum hælt, fyrir það eitt að vera sá maður sem hann er og að eiga sér þá sögu sem hann á. Sams konar hróp eru gerð að Ólafi Ragnari, Steingrími Joð, Jóni Ásgeiri, Björgólfsfeðgum, Pálma í Fons, Árna Páli, Þorgerði Katrínu, Steinunni Valdísi, Bjarna Ármanns og þannig má lengi telja. Þetta virðist eiga helst við um stjórnmálamenn og auðglæframenn.

Sama hvað fólk hefur miklar tilfinningar gagnvart manneskju, hvort sem þessar tilfinningar eru jákvæðar eða neikvæðar, er afar varasamt að láta þær hafa afgerandi áhrif á samræður sem eru í gangi. Ég hef heyrt fólk nota orðalag eins og "nú óx hann í áliti hjá mér" eða "nú féll hún í álit hjá mér", eins og það komi málefnum eitthvað við.

Þegar gagnrýni er beint að manneskju frekar en málefni er verið að útskúfa viðkomandi úr samræðunni. Þó að viðkomandi hafi tækifæri til að svara fyrir sig, hefur þegar verið vegið að orðspor hans. Það getur dugað til að gera málið marklaust. Sé manneskjum fyrirfram útskúfað, glatar samræðan mikilvægum eiginleika gagnrýninnar: að taka öll sjónarhorn og allar skoðanir til athugunar, sama hvaðan þau eða þær koma, og svo framarlega sem þau koma málinu við og séu vel rökstudd.

Hróp að manneskju er merki um skort á hæfni til gagnrýnnar hugsunar. Stundum er þessi hæfileikaskortur tímabundinn og þá oft tengdur sterkum tilfinningum, eða langvarandi og hefur meira með slaka menntun, þroska eða uppeldi að gera heldur en skap. Gagnrýnir hugsuðir þurfa nefnilega ekki alltaf að vera yfirvegaðir og rólegir, þó að það sé oft æskilegt þegar verið er að ræða málin. Reiði er hægt að beita bæði á réttan hátt og rangan. 

Rangur farvegur er að gagnrýna manneskjuna frekar en málefnið.

Gagnrýni á manneskju er alvarlegt mál. Slíkt á aðeins við ef manneskjan hefur sannarlega brotið af sér, og þá verður gagnrýnin að ásökun og jafnvel ákæru fyrir dómi. Slíkt þarf að vera afar vel rökstutt, og helst þyrfti áreiðanlegur dómstóll að vera búinn að dæma í viðkomandi máli. Þegar reiði finnur sér hins vegar engan farveg, þegar ekki er hægt að gera upp mál, þegar dómstólar og lögin virka ekki, þá er eðlilegt að reiði brjótist fram gegn þeim manneskjum þar sem ekki tekst að ljúka málum. Sú umræða hefur fullan rétt á sér í samfélagi manna, en sú umræða verður aldrei gagnrýnin.

Svar mitt við spurningunni hér að ofan er: aldrei. Það skal aldrei gagnrýna manneskju á kostnað málefnis, sé þér annt um að málefni leiði til skynsamlegra ákvarðana eða skoðana, og sé þér annt um að málin endi í góðum farvegi. Hins vegar er skiljanlegt þegar engar úrlausnir eru til að reiði brýst út sem gagnrýni á manneskjur.

Á sama hátt er öll umræða þar sem stjórnmálaflokkur er gagnrýndur á kostnað málefnis, tilgangslaus fyrir gagnrýna hugsun. Gagnrýnin hugsun snýst um málefni. Ekki ætti að gagnrýna manneskjur á meðan málefnin eru rædd, jafnvel þó svo að málefnið sé manneskjan sem rætt er um.  

Það þarf að finna jafnvægi á milli tilfinninga og hugsunar. Til að koma á þessu jafnvægi þurfum við að finna leiðir til að réttlætið nái fram að ganga. Réttlætið er nefnilega ekki bara eitthvað óraunverulegt hugtak sem skiptir engu máli þegar lög eru annars vegar, heldur undirstaða bæði laga og siðferðis. Án réttlætis eru engin lög, án sanngirnis ekkert siðferði.

Mig grunar að réttlæti sé einhvers konar hugtak um jafnvægi í mannlegum samskiptum, en að sanngirni sé tilfinning um jafnvægi í mannlegum samskiptum. Grundvöllur samfélagssáttar felst í að jafnvægi verði á milli hugmynda fólks um sanngirni og réttlæti. Og til að samfélagssátt verði til þarf að finna útrás fyrir reiði fólks gagnvart einstaklingum sem talið er að hafi brotið alvarlega af sér gagnvart eigin þjóð.

Best er að þessar leiðir séu löglegar og framkvæmdar af opinberu valdi. Verði það ekki gert, mun þessi reiði auka ójafnvægi og vantraust þegna gagnvart bæði hinu opinbera valdi og þeim einstaklingum sem ekki þurfa að svara til saka fyrir gerðir sínar.


Les Vacances de Monsieur Hulot (1953) ****

 

FV015~Les-Vacances-de-M-Hulot-Posters

 

"Les Vacances de Monsieur Hulot" er klassísk gamanmynd. Ég naut hvers einasta ramma.

Herra Hulot (Jacques Tati) keyrir um á litlum bíl sem gefur stöðugt frá sér skothvelli með pústinu, partar hrynja úr honum við hverja ójöfnu, og hann þarf stöðugt að víkja fyrir stærri bifreiðum og fer hægt yfir, en kemst þó alltaf einhvern veginn á leiðarenda. 

Hulot sjálfur er sérstakur karakter. Oftast er hann með pípu milli tannanna og hatt á höfðinu. Hatturinn og pípan eiga það til að fara í ferðalög án eigandans.

Hulot er snillingur í að skapa vandamál hvert sem hann fer. Á meðan hann reynir að laga eitt, geturðu verið viss um að fleiri hlutir fara úrskeiðis á sama tíma sem afleiðing af lagfæringum hans. Hann er algjörlega huglaus og verulega tilfinningasamur, og á í verulegum erfiðleikum með mannleg samskipti.

Flestum er illa við Hulot vegna undarlegrar hegðunar hans, ótillitssemi og vandamálanna sem hann býr til, en sumir eru fullkomlega sáttir við hann og kunna vel að meta þennan undarlega karakter sem hvergi virðist passa inn. Í því felst hjarta myndarinnar.

Uppáhalds atriðið mitt í myndinni virðist svo látlaust og einfalt, en er virkilega vel útfært. Smástrákur heldur á ís í brauðformi í sitt hvorri hendi. Hann þarf að klífa virkilega háar tröppur og opna hurð með hurðarhúni, og þú veist að eitthvað skondið á eftir að gerast með þennan ís. Ímyndunaraflið fer í gang og maður reynir að spá fyrir hvað mun gerast. Atriðið endar á fullkominn hátt, langt frá öllu því sem maður hafði ímyndað sér. Og það hafði merkingu. Það líkaði mér.

Í heimi Hulot hafa allar persónur dýpt og margt fyndið er að finna í ólíkum karakterum. Hulot er ekki eini fókus myndarinnar eins og vill oft verða þegar einhver ógeðslega fyndinn einstaklingur leikur aðalhlutverkið, eins og þegar Chaplin leikur flækinginn, Rowan Atkinson leikur Hr. Bean og Cantinflas leikur ólíkar útgáfur af sjálfum sér.

Ólíkir persónuleikar er það sem gerir "Les Vacances de Monsieur Hulot" bæði fyndna og mannlega. Það er til dæmis svolítið sérstakt par í myndinni. Eldri hjón. Konan gengur alltaf þremur skrefum á undan manni hennar sem eltir hana algjörlega áhugalaus um nokkuð sem vekur áhuga hennar, nema þegar hann verður vitni að prakkarastrikum Hr. Hulot. Gullfalleg stúlka fær mikla athygli frá myndarlegum strákum, en hún hrífst aðeins af hinum undarlega Hr. Hulot, sem hefur ekki hugmynd um hrifningu hennar, né um nokkuð eða nokkurn.

"Les Vacances de Monsieur Hulot" er einföld og hugljúf. Án ofbeldis en full af asnastrikum. Síendurtekið lag keyrir í gegnum myndina, sem maður fær leið á meðan myndin rennur í gegn, en hálfsaknar þegar henni er lokið. Tónlistin passar einhvern veginn.

Öll fjölskyldan getur skemmt sér yfir þessari frekar gamaldags en jafnframt klassísku gamanmynd, og manni líður á meðan myndin rúllar áfram eins og maður sé staddur einhvers staðar fjarri öllum áhyggjum og stressi á fjarlægri sólarströnd þar sem maður getur notið þess að fylgjast með hinu sérstaka í fari annars fólks.


Reservation Road (2007) **1/2

 photo_01_hires

"Reservation Road" er bílslysadrama um hvernig tilfinningar getið tekið völdin þegar réttlætinu er ekki fullnægt.

Ethan (Joaquin Phoenix) og Grace (Jennifer Connelly) missa son sinn Josh (Sean Curley) í bílslysi. Ökumaðurinn, lögmaðurinn Dwight Arno (Mark Ruffalo) keyrir í burt án þess að gefa upp hver hann er, og með því breytir hann slysinu í glæp. Ethan sá bílstjórann eitt augnablik, en tekst ekki að framkalla minninguna á nógu nákvæman hátt til að greina bílstjórann.

Hjónin og dóttir þeirra Emma (Ella Fanning) eru harmi slegin, og enn erfiðara finnst Ethan að skilja hvernig manneskja geti verið svo grimm að keyra í burtu eftir að hafa drepið 10 ára barn. Ethan heitir að finna morðingjann, er í virkum samskiptum við lögregluna, leitar sjálfur að sökudólginum og trúir að um einhverja yfirhylmingu sé að ræða. Hann ræður lögfræðing sér til aðstoðar, en verður á að ráða Dwight í starfið.

Dwight er fráskilinn faðir, sem hafði verið á hafnarboltaleik með syni sínum Lucas (Eddie Alderson), en þurfti að flýta sér heim vegna framlengingar leiksins og stöðugra símhringinga fyrri eiginkonu hans, Ruth (Mira Sorvino). Við áreksturinn rekst Lucas í mælaborðið, en hann hafði verið sofandi án öryggisbeltis og því ekki séð fórnarlamb árekstursins.

Dwight þjáist af djúpri sektarkennd og langar að gefa sig fram, ætlar að gera það, en vill fyrst sjá úrslitaleik hafnarboltaársins með syni sínum, gefa sig síðan fram og lenda í fangelsi. Vandinn eykst hins vegar þegar Ethan áttar sig á að Dwight var bílstjórinn, kaupir sér byssu og ákveður að taka málin í eigin hendur.

"Reservation Road" er ágætlega leikin af fínum leikurum, en kemst hins vegar ekki upp úr hjólförum melódramans. Ég var einfaldlega ekki sannfærður. Það vantaði einhverja dýpt. Hugsanlega í handritinu eða plottinu, hugsanlega í leiknum. Það er erfitt að segja.

"Reservation Road" virkaði einfaldlega ekki á mig, þó að hún sé vel gerð. Hún gæti hins vegar vel virkað á þig.

 

photo_03_hires
Ethan sýnir Dwight hvar glæpurinn átti sér stað. Dwight er sökudólgurinn, Ethan grunar hann um græsku, en Dwight er lögmaður Ethan í máli Ethans gegn Dwight.

 


Waitress (2007) ***1/2

 


Jenna er gift Earl. Jenna hatar Earl. Earl elskar ekkert nema sjálfan sig. Earl á þá ósk heitasta að Jenna muni ekki elska ófætt barn þeirra meira en hún elskar hann.

 

 

"Waitress" er góð mynd með stjörnuleik frá Keri Russell og mjög skemmtilegum aukaleikurum sem gera kvikmyndina þægilega og notalega.

Jenna Hunterson (Keri Russell) bakar ljúffengar tertur. Það er hennar líf og yndi. Allt annað í lífi hennar er ömurlegt. Fyrir utan starfsfélaga hennar og viðskiptavini. 

Eiginmaður hennar Earl (Jeremy Sisto) er svo sjálfselskur og afbrýðisamur að hann sýgur alla lífshamingju út úr henni. Hún þráir ekkert heitar en að losna við hann fyrir fullt og allt, með því að flytja í burtu og hverfa.

Morgun einn uppgötvar hún eigin óléttu og sekkur fyrir vikið enn dýpra í eigið þunglyndi. Hún getur ekki hugsað sér að koma barni inn í þennan ömurlega heim, en ætlar þó að eignast það og gera sitt besta til að það geti fundið sér farveg í lífinu. 

Þegar Jenna verður yfir sig hrifinn af fæðingarlækni sínum, Jim Pomatter (Nathan Fillion), sem reyndar er sjálfur hamingjusamlega giftur, breytast hlutirnir smám saman. Hún áttar sig á að kannski séu fleiri bjartar hliðar á lífinu en bara pertubakstur, þó að öll hennar sköpunargáfa og athygli fari í að semja nýjar uppskriftir tengdum tilfinningalífi hennar.

"Waitress" er saklaus og þægileg mynd með djúpum undirtón, sem felst helst í lífsleiða Jenna og leið hennar út úr honum. Aukapersónurnar eru sérstaklega skemmtilegar, svo sem tvær þernur sem vinna með Jenna, veitingastjórinn, eigandinn og kærasti vinkonu hennar sem getur ekki hætt að semja viðstöðulaus ljóð.


The Treasure of the Sierra Madre (1948) ****

treasure42
 

"Hvernig spillist sæmilega heiðarleg manneskja?"

"The Treasure of the Sierra Madre" er snilldarmynd í leikstjórn John Huston þar sem hann leikstýrir meðal annars föður sínum Walter Huston. Þeir unnu báðir Óskarshlutverk, John fékk tvö verðlaun, bæði sem besti leikstjóri og besti handritshöfundur, en Walter fékk verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki, þó að auðvelt væri að skilgreina hans hlutverk sem aðalhlutverk. Samt er Humphrey Bogart hið ógleymanlega afl sem keyrir "The Treasure of the Sierra Madre" áfram, hjarta hennar og sál, en án tilnefningar til Óskarsverðlauna það árið. Óskiljanlegt.

Kvikmyndin hefst í Mexíkóborg árið 1925. Charles C. Dobbs (Humphrey Bogart) er bláfátækur Bandaríkjamaður sem betlar peninga frá samlöndum sínum fyrir mat, en notar peninginn sem hann fær í áfengi, vændi og slíkt. Hann er líka algjörlega siðferðilega blankur, fyrir utan að hann telur sig vera heiðarlegan og heldur fast í þá ímynd, þó að hann lifi ekki eftir henni nema til sýndarmennsku.

Þegar Dobbs og félaga hans, Curtin (Tim Holt) er boðin ágætlega launuð vinna af svikahrapp sem borgar þeim ekkert eftir nokkurra vikna þrælerfiða vinnu, og þeir ná að lúskra á gaurnum og ná peningum sínum af honum (ekki umfram það sem hann skuldar þeim), ákveða þeir að nota peninginn til að leggja í ævintýraför og leita að gulli ásamt Howard (Walter Huston), eldri manni sem hefur mikla reynslu af gullgreftri og áhrifum þessa málms á sálarlíf fólks.

Howard minnist á að gullið geti spillt sálum besta fólks, að það þurfi alltaf meira, verði tortryggið, og erfitt að umgangast það. Dobbs veifar þessu frá sér sem tómri vitleysu og segir að sumar manneskjur geti orðið ríkar án þess að umbreytast, og hann sé einn af þeim. Hann hefur rangt fyrir sér.

Dobbs, Curtin og Howard fara í langa ferð upp í Sierra Madre fjöllin, en þau ná alla leið frá Acapulco til Puebla, ná yfir gríðarlega stórt svæði. Á leiðinni þurfa þeir að passa sig á ræningjaflokkum sem þeysast um svæðið og stela öllu léttara, og passa sig á að lögreglan uppgötvi ekki athæfi þeirra, gullgröft, þar sem þeir mega ekki hirða þennan eðalmálm sem með réttu er ein af náttúruauðlindum mexíkósku þjóðarinnar. Þeim stendur á sama um það og telja sig vera í fullum rétti, svo framarlega sem að ekki kemst upp um þá.

Þegar þeir finna loks gull, tekur raunveruleikinn við. Þeir þurfa að vinna hörðum höndum við að ná gullinu úr æð fjallsins, vinna sem tekur marga mánuði, og á sama tíma eykst vantraust þeirra gegn hverjum öðrum og tortryggni þeirra vex með hverjum deginum. Dobbs fer verst út úr þessu, en hann fer að sjá svik og launráð í hverri einustu hugsun og hreyfingu félaga sinna.

"The Treasure of the Sierra Madre" er mögnuð kvikmynd um það hvernig menn geta orðið af aurum apar, þegar þeir eru siðferðilega illa undirbúnir til að treysta félögum sínum, þegar verðmætamat snýst meira um efni frekar en anda.

Dobbs á sér enga drauma aðra en að margfalda allt það sem hann þekkir úr eigin reynslu, en Curtin og Howard reynast báðir vera í leit að einhverju verðmætara en peningum. Charles C. Dobb er útrásarvíkingur eins og þeir gerast bestir, sníkjudýr sem lifa á góðmennsku annarra og átta sig ekki á mikilvægi annarra gæða en þeirra sem þú getur haldið á.


Kemst ríkisstjórnin upp með að brjóta gegn skýrum vilja þjóðarinnar?

Um 93% kjósenda sem þátt tóku í þjóðaratvæði um ICESAVE kusu gegn því að gengið yrði að ICESAVE 2 samningnum. Nú kemur í ljós að forsprakkar ríkisstjórnarinnar eru búnir að skrifa undir ICESAVE 3 án umræðu. Hugmyndin er að borga Bretum og Hollendingum skuldir einkafyrirtækjanna úr vösum alþýðunnar að fullu og með vöxtum!

Þægilegt fyrir ríkisstjórn að fela svona stórfréttir í skjóli eldgoss og rannsóknarskýrslu.

Þekkt taktík. Þetta minnir svolítið á smáfréttina um daginn þegar lögreglan á Suðurlandi tók eftir þekktum innbrotsþjófum sem virtust ætla að laumast inn í tóma bæi í skjóli eldgoss. Mikilvægt að hafa augun opin þegar stórfréttir skyggja á minni fréttir.

Kemst ríkisstjórnin upp með þetta?

Er íslenska þjóðin jafn heimsk og spunameistarar stjórnmálaflokka virðast reikna með?

Hefur þar með tekist að reisa skálkaskjól eða skjaldborg yfir þingmenn, útrásarvíkinga og bankamenn, undir eldfjallinu?

Þeir sem skrifuðu undir þessa viljayfirlýsingu til að fá í gegn lán frá AGS: 

  • Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
  • Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
  • Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra
  • Már Guðmundsson, seðlabankastjóri

Svar mitt við spurningunni sem ég spyr er "". Ríkisstjórninni mun takast að brjóta gegn skýrum vilja þjóðarinnar vegna þess að fólk er orðið leitt á ICESAVE, nennir þessu ekki lengur, stutt í sumarið og þá hverfa öll vandamál að sjálfu sér.

Það væri óskandi að ég hefði rangt fyrir mér í þetta skiptið og að alþýðan bregðist við á viðeigandi hátt.

En hversu líklegt er það á þessu augnabliki?

 

Sjá nánar ágæta grein Guðmunds Ásgeirssonar sem vakti athygli á þessu síðasta laugardag. 

E.S. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að skrifa ekki oftar um ICESAVE, en mér finnst þetta mál svo skuggalegt og grimmt, að ég stóðst ekki mátið.


mbl.is Ábyrgjast Icesave- greiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband