Crazy Heart (2009) ****

 

Stórgott drama um kántrýsöngvarann Bad Blake (Jeff Bridges) og baráttu hans við alkóhólisma. Þetta er hálfgerð endurgerð "Tender Mercies" þar sem Robert Duvall (framleiðandi Crazy Heart) leikur kántrýsöngvara sem berst við alkóhólisma, þarf að gera upp við fortíð sína og finnur von um betri framtíð í konu og barni. Það er samt allt önnur saga.

Ferill hins sívinsæla Bad Blake er ekki bara á niðurleið. Dag nokkurn nær hann loks botninum. Hann horfir löngunaraugum á uppáhalds viskýið sitt þar sem það situr uppi á hillu í kjörbúð. Vandinn er að hann á ekki fyrir flöskunni og íhugar að kaupa ódýrari drykk. Eigandi verslunarinnar er gamall aðdáandi hans og gefur honum flöskuna sem Bad Blake þráði. Blake er honum afar þakklátur.

Sama kvöld heldur Bad Blake tónleika í keiluhöll, þar sem verslunareigandinn og eiginkona hans eru meðal gesta. Hann tileinkar þeim eitt lag, en nær ekki einu sinni að byrja sönginn, og þess í stað hleypur út úr húsi og að næstu ruslatunnu þar sem hann ælir hinu ágæta viskýi. Þetta er samt ekki nóg til að hann átti sig á vandanum.

Til þess þarf hann að kynnast ungri móður, Jean Craddock (Maggie Gyllenhaal) og syni hennar Buddy (Jack Nation). Hann verður hrifinn upp fyrir haus og honum að óvörum hrífst hún af honum, þrátt fyrir gífurlegan aldursmun, en hann er 57 ára gamall og hún tæplega þrítug. Hann á fjögur hjónabönd að baki, sem áfengisneyslan og frægðarferillinn hafa lagt í rúst, en nú er eins og eitthvað sé að brjótast um í hausnum á honum, að kannski sé hann ekki endilega númer eitt, og allt í lagi þó að einhverjir aðrir séu það.

Bad Blake á góðan vin í kántrýsöngvaranum Tommy Sweet (Colin Farrell), en Bad þolir hann ekki vegna velgengni og vinsælda hans, á meðan ferill Blake hefur verið stöðugt á niðurleið. Hann kennir alltaf öðrum um eigin vanlíðan og óhamingju, en áttar sig ekki á hver hinn raunverulegi óvinur er. 

Samt sér hann ekki af hverju hann þarf að hætta að drekka. Það þarf meira til. Og það augnablik kemur. Blake á fleiri vini sem vilja hjálpa honum upp úr hjólförunum, helstur þeirra er Wayne (Robert Duvall), kráareigandi sem þekkir vel og trúir á hinn sterka innri mann Bad Blake.

Jeff Bridges er mjög góður í aðalhlutverkinu. Reyndar hefur hann alltaf verið góður að mínu mati, síðan ég sá "Against All Odds" í Stjörnubíói forðum daga, og hann negldi sig eftirminnilega sem kvikmyndastjörnu í mínum huga þegar hann fylgdi henni snilldarlega eftir með "Starman", rómantískri vísindaskáldsögu sem John Carpenter leikstýrir. Hann var meira að segja frábær sem illmennið Obadiah Stane í "Iron Man", en það er svolítið óvenjulegt illmenni fyrir ofurhetjumynd, því hann var sérstaklega skapaður fyrir þá kvikmynd, í stað þess að nota illmenni úr teiknimyndasögunum.

Það sem Jeff Bridges gerir sérstaklega vel er að gera persónuna trúverðuga og áhugaverða samtímis. Þetta er það góð persóna að maður vill helst að ekkert slæmt komi fyrir hana, en maður veit að ekkert gott getur biðið manneskju sem er að eyðileggja sig með ofdrykkju. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa baráttu í afburðarleik Jeff Bridges.

Maggie Gyllenhaal er líka mjög góð sem móðirin unga, sem fellur fyrir honum og veit að það er ekki rétta skrefið í lífinu, bæði vegna aldursmunar, öryggi sonar hennar og því að náunginn er fyllibytta. Sá sem kom mér mest á óvart var Colin Farrell, í hlutverki Tommy Sweet, frammistaða hans hefur ekki verið umtöluð, en hann skín af manngæsku og velvilja sem gefur Bad Blake nákvæmlega þá dýpt sem hann þarf. Tommy Sweet er hálfgert afrit af Bad Blake og deilir sömu mannkostum, en ekki sömu göllum, að minnsta kosti ekki ennþá.

Það er ekki annað en hægt að vera ánægður með "Crazy Heart" hafirðu áhuga á drama sem virkar raunverulegt og skemmtilegt í senn. Líklega hefðu yngstu áhorfendur ekkert sérlega gaman að "Crazy Heart" því í raun springur ekkert í loft upp né eru þarna æsispennandi eltingaleikir á ofsahraða, heldur fylgjumst við með manni sem áttar sig smám saman á að lífið er ekki þess virði að lifa því sértu of fullur til að rannsaka það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir þessa góðu gagnrýni, fær mig til að langa á myndina. Gott að lesa öðru hvoru um annað en hrunið og tengd málefni.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 18.4.2010 kl. 09:32

2 Smámynd: Ómar Ingi

Sá þessu snilld einmitt í gær og er þér 100% sammála er án efa 4 stjörnu fullt hús kvikmynd.

Must see fyrir alla kvikmyndaunnendur.

Ómar Ingi, 18.4.2010 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband