The Lovely Bones (2009) **

 

photo_13_hires

Peter Jackson, leikstjóri "The Lord of the Rings" og "King Kong" snýr aftur og bregst loks bogalistin.

"The Lovely Bones" er ein af þessum myndum sem hefði getað verið frábær. Auðvitað reiknar maður með að þetta sé saga með þéttri atburðarrás þar sem málið snýst um að myrt unglingsstúlka reyni að stoppa morðingjann frá því að myrða systur hennar og hjálpa föður sínum að koma upp um gauurinn, en hann hefur þegar gengið frá dágóðum hópi kvenna..., en nei. Myndin fjallar um söknuð og kossinn sem aldrei var kysstur.

Mér finnst þetta ekki alveg nógu sniðug umgjörð. Það hefði verið heppilegra að láta stúlkuna deyja í bílslysi eða rafmagnslosti eða einhverju slíku, því að fjöldamorðingjafléttan hefur í raun ekkert með kjarna myndarinnar að gera.

Hamingjusamri fjölskyldu er sundrað þegar hin 14 ára Susie Salmon (Saoirse Ronan) er myrt af frekar klikkuðum nágranna sem heitir hinu skuggalega nafni George Harvey (Stanley Tucci) og satt best að segja er hann það langbesta við þessa mynd, þó að hlutverk hans sé ekki jafn merkilegt og það hefði getað verið.

Mark Wahlberg leikur pabbann sem getur ekki sætt sig við dauða dóttur sinnar og í einhvers konar sturlun ásakar hann nánast alla í hverfinu um morðið, og virðist fyrirmunað frá upphafi til enda myndarinnar að hugsa eina rökrétta hugsun. Spennandi karakter eða hitt þó heldur. Kona hans, leikin af Rachel Weisz, sem er nánast óþekkjanleg frá fyrri hlutverkum, sjálfsagt eftir fegrunaraðgerðir, virkar eitthvað svo venjuleg núna, fer á taugum og hypjar sig í kartöflutínslu eða eitthvað slíkt til Mexíkó, á meðan fjöldamorðinginn hefur augastað á næstu dóttur í röðinni, Lindsey, sem er vel leikin af Rose McIver. 

Málið er að það er ekkert samband á milli hins skrautlega og tölvugerða limbóheims Susie og veruleikans, annað en að kannski hefur hún áhrif á ímyndunarafl eða hugsanir þeirra sem enn halda í minningu hennar. Og kannski ekki. Ekki nógu góð tenging finnst mér. Hér saknaði ég draugsins sem Patrick Swayze gerði svo eftirminnilegan í "Ghost" þegar hann lagði sig allan fram við að sparka í Pepsídollu og hreyfa til smápening, og náttúrulega hafa virk samskipti við miðil sem gat bjargað eiginkonu hans frá skúrkinum skapvonda.

Ekkert svoleiðis hérna. Peter Jackson reynist væminn. Ótrúlegt en satt. Karlinn varð frægur á splattermyndum þar sem persónurnar þurftu að hafa áhyggjur af smáatriðum eins og líma höfuðkúpuna fasta til að heilinn rúllaði ekki út. Síðan gerði hann "Heavenly Creatures" sem fékk mikið lof margra gagnrýnenda, þó að ég hafi ekkert verið sérstaklega hrifinn, en eftir það gerði hann snilldina "The Frighteners" með Michael J. Fox og fylgdi eftir með Hringadróttinssögu, sem stimplaði nafn hans endanlega sem alvöru leikstjóra. Síðan klikkar hann núna.

Vonandi heldur hann ekki uppteknum hætti með "Tinna" og "The Hobbit", en hann mun reyndar ekki leikstýra þeirri síðarnefndu, heldur verður það Guillermo del Toro sem á það til að gera bráðskemmtilegar myndir, en á það líka til að floppa svolítið. Steven Spielberg mun síðan leikstýra annarri Tinnamynd á móti Jackson. Ég held að Tinni geti ekki klikkað í þeirra höndum.

Ég varð fyrir vonbrigðum með "The Lovely Bones," og það í fyrsta sinn frá því ég byrjaði að fylgjast með Peter Jackson eftir "Bad Taste". Mér datt einfaldlega ekki í hug að hann ætti þessa væmni til.

Enginn virðist fullkominn þessa dagana, fyrir utan James Cameron.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó ég geri ráð fyrir að þetta sé drepleiðinleg mynd er nú ekki hægt að fara fram á að Peter Jackson gjörbreyti öllu concepti bókarinnar (sem er metsölubók). Bókin fjallar nákvæmlega um söknuð og uppgjör og hversu erfitt stúlkan á með að sætta sig við að hún er dáin og getur ekki haft nein áhrif á okkar veröld.

Þetta er ekki bók sem er að reyna að vera eitthvað rosa spennusaga eða fara út í pælingar eins og þetta með pepsídósina í Ghost. Það er eðlismunur á þessu verki og síðan afþreyingarmyndum.

Ég tek hins vegar alveg undir það að ég myndi miklu frekar horfa aftur á Ghost en að sjá þessa mynd. Mér leiðist tilfinningaklám.

Gunnsó (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 21:44

2 Smámynd: Ómar Ingi

Einn ofmetnasti leikstjórinn í bransanum í dag , innilega sammála þér með myndina mikil vonbrigði og átti aldrei að reyna að færa þessa snilldarbók í kvikmyndaform og jackson klúðraði henni með þvílíkum stæl.

Ómar Ingi, 16.2.2010 kl. 00:40

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gunnsó: Ég hef ekki lesið bókina, en náði því um hvað myndin átti að fjalla, en í stað þess að beina öllum spjótum sínum að kjarnanum, fjallar hún alltof mikið um hliðarsöguna. Gengur ekki upp á tjaldinu.

Ómar Ingi: Fáir leikstjórar fara jafn vel með tæknibrellur og hasar líkt og PJ gerði í LOTR. Hans styrkur liggur ekki í því ósnertanlega, heldur einhverju sem hægt er að höggva og berja á með miklu afli.

Hrannar Baldursson, 16.2.2010 kl. 05:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband