Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Eru dauðasyndirnar sjö bara hljóðlátt leyniprump í eyrum okkar Íslendinga?

Á Íslandi má allt.

Það má keyra þjóðina í þrot. Það má hrekja fjölskyldur úr landi. Það má kreista síðasta dropann úr vösum þeirra sem ekkert eiga. Það má alltaf eignast meira. Það má alltaf éta meira. Það má alltaf drekka meira. Það má enginn vera manni framar. Það má eignast það sem maður ekki á með klókindum. Það má níðast á börnum sem eru ekki fædd. Það má stela. Það má svindla. Það má svíkja. Það má hagræða tölum og atkvæðum. 

Dauðasyndirnar sjö hafa verið notaðar sem viðmið í margar aldir um hvers konar viðhorf geta verið hættuleg samfélaginu. Þessar syndir eru:

  • Miskunnarleysi
  • Græðgi
  • Dugleysi
  • Stolt
  • Ágirnd
  • Öfund
  • Ofát

Allt þetta hefur verið í gangi á Íslandi og er enn að.

Spurning hvort að við þurfum að læra klassísk fræði upp á nýtt, og byrja að læra eitthvað af visku fortíðarinnar.

Við höfum þegar áttað okkur á að við erum ekki flottust, fallegust, ríkust og hamingjusömust; en þeir sem trúa slíku mættu nota gátlista dauðasyndanna sjö til að átta sig á villu eigin vegar, taka upp betri siði og leyfa venjulegu fólki að lifa í friði og leita sér hamingjunnar í ró og næði.

Af hverju segjum við ekki "hingað og ekki lengra," eða hrópum af fullri raust í gjallarhorn, hvað eftir annað um alla bæi landsins þannig að glymri landshorna á milli:

 

"HINGAÐ OG EKKI LENGRA!"

 

Ég er að velta fyrir mér af hverju stórkaupmenn mega keyra fyrirtæki sín í þrot og fá annað tækifæri og peninga að gjöf á meðan saklausir borgarar geta ekki borgað skuldir sínar vegna óhóflegs sukks og svínarís og löghlýðni óreiðumanna við þessar sjö dauðasyndir. Ég er að velta fyrir mér af hverju stjórnmálamenn á Íslandi gefa ekki tímabundið frá sér völdin yfir til þjóðstjórnar, en skil að það er sjálfsagt vegna bæði mikillar innri spillingar, þægilegrar stöðu og launa. 

Mér er umhugað um þjóð mína. Þess vegna er þetta sárt.


Draumur um ICESAVE samþykkt

Í nótt dreymdi ég þetta samtal á milli álfs út úr hól og kartöflubónda.

Álfurinn tók fyrst til máls. "Ef ICESAVE verður samþykkt, þá fær Ísland alveg rosalega stórt lán og getur notað þann pening til að styrkja fyrirtæki og einstaklinga sem eiga það skilið. Hægt væri að dæla milljörðum til viðbótar í hyldýpi bankanna, og kannski gætu stjórnmálamenn í lykilstöðum fengið eitthvað í sína vasa og opnað ný tækifæri fyrir vildarvini."

Kartöflubóndinn klóraði skallann og svaraði. "Þjóðin eða framtíð hennar skiptir engu máli. Hún reddar sér sjálf. Tíminn læknar öll sár. Kartöflurnar spretta þó sólin skíni ekki og þó það rigni ekki."

Kinkaði álfurinn gáfulega kolli og sagði. "Við höfum lært að líta á lán sem arð, og þetta lán verður arður næstu sex árin. Við sem skiptum máli verðum hvort eð er flutt úr landi og hætt í íslenskri pólitík áður en borga þarf til baka. Því meiri pening sem við getum tekið með okkur, því betra."

Ég vaknaði í svitakófi.


Up In The Air (2009) ****

 

photo_01_hires

 

George Clooney situr í þægilegu sæti á fyrsta farrými og flugfreyjan spyr hann: "Would you like a can, sir?"

Hann svarar undrandi: "Why would I want a cancer?"

Hún sýnir honum dós og hann fattar misskilninginn.

Þetta er lýsandi dæmi fyrir "Up In The Air" í heild. Maður sem telur sig vera með afar traust tök á lífinu, og kennir fólki hvernig það nær slíkum tökum, uppgötvar að trú hans um hans eigið líf er byggt á misskilningi og falsvonum, nákvæmlega því sem hann flúði undan þegar hann breytti um stefnu upphaflega.

Clooney leikur Ryan Bingham, afar orðheppinn og vel gefinn  einstakling sem hefur atvinnu af því að segja upp fólki. Markmið fyrirtækis hans er að selja þjónustu. Markmið hans er að sinna starfi sínu það vel að þeim sem sagt verður upp finni ný tækifæri í uppsögninni. Og þá erum við ekki að tala um gamlan frasa, heldur leggur hann sig fram við að skoða starfsferil fólks og les þannig í ferlana að honum tekst að grafa upp gamla drauma þeirra sem missa starfið, og finna að líf þeirra þarf ekki að vera bundið einu fyrirtæki alla ævi.

Heimspeki Clooney er einföld. Ef þú þarft á einhverju fleiru að halda en því sem þú kemur ofan í bakpoka, þá ertu orðinn að einhvers konar þræl. Þetta á við um bæði hluti og manneskjur. Myndin fjallar um hvað gerist ef þú hugsar um manneskjur eins og hluti, og þá uppgötvun að sama spekin á ekki við um fjölskyldu þína og eigur þínar.

Það merkilegasta við þessa mynd er hvernig hún grípur augnablik í lífi manns sem telur sig hafa mótað pottþétta lífsspeki, er það viss um að hann hafi rétt fyrir sér að hann tekur þátt í að móta heilar kynslóðir í samræmi við þessa speki, og hvað hann gerir þegar rennur upp fyrir honum að spekin hans ristir grunnt og hefur í raun ekkert með lífið að gera, heldur fyrst og fremst hhvernig fólk vinnur.

Hugsaðu þér manneskju sem lifir fyrir starf sitt og hefur að starfi að segja upp fólki. Er ekki mótsögn í þessari setningu sem áhugavert er að rannsaka?

"Up In The Air" fjallar ekki bara um Clooney, heldur tekur á mjög merkilegri spurningu um tengsl samskiptatækninnar og mannlegra samskipta. Spurningin er hvort að tölvusamskipti geti komið í staðinn fyrir mannlega nærveru.

Í staðinn fyrir að ferðast um heiminn, er nóg að photoshoppa sig inn í ólík umhverfi? Er hægt að kerfisbinda mannleg samskipti? Hvaða munur er á að sitja í sama herbergi og manneskjan sem þú ræðir við um viðkvæm málefni, og að sitja í næsta herbergi með samskipti gegnum tölvuskjá?

Þetta gerir kvikmyndin vel. Afar vel.

Hún sýnir hvernig tilhneiging okkar til að kerfisbinda hið mannlega, gerir okkur ómanneskjulegri og í raun að verra fólki, þó svo að við séum hugsanlega fluggáfuð og vel meinandi. Þetta er viðeigandi pæling fyrir fjarnám og rafræna kennslu, þar sem stóra spurningin er: 

Getur hugbúnaður nokkurn tíma leyst af manneskju sem væri á staðnum? Geta samskipti í gegnum tölvu nokkurn tíma komið í stað manneskju sem er á staðnum?

Þetta er eins og með misskilninginn í upphafi myndar, þetta með dósina. Hefðu þessi samskipti átt sér stað í gegnum tölvu er spurning hvort að flugfreyjan hefði getað sýnt farþeganum dósina. Nálægð skiptir máli.

Ekki nóg með að myndin fjalli um allt þetta, heldur líka um það limbó sem það er að missa vinnuna. Hvernig lifirðu áfram í sátt eftir uppsagnabréfið ógurlega? Persóna George Clooney er í raun stödd þarna í þessu limbó; alltaf á milli vinnustaða og hvergi rótföst, en það er þessi rótfesta sem margir þrá og aðrir hræðast.

Afar góðar pælingar og ég verð að viðurkenna að George Clooney og þessi mynd eiga skilið að fá fullt af óskarstilnefningum, þrátt fyrir að ég geti varla talist mikill Clooney aðdáandi, þar sem að hann rústaði Batman í "Batman & Robin".  Það eru reyndar liðin 13 ár síðan. Ætli maður geti ekki farið að fyrirgefa manninum.

Aðrir leikarar koma við sögu, en allir í smærri hlutverkum. Þetta er fyrst og fremst mynd Clooney og Jason Reitman, sem leikstýrði einnig hinum ágætu "Juno" og "Thank You For Smoking". hann er sonur Ivan Reitman, sem var um tíma afar vinsæll og leikstýrði meðal annars hinum skemmtilegu grínmyndum "Ghostbusters" og "Twins".


Law Abiding Citizen (2009) ***

 


 

"Law Abiding Citizen" er afdráttarlaus hefndarkvikmynd þar sem réttarkerfið er skrímsli sem hinn löghlýðni borgari vill umbreyta. Undirtónninn er svolítið merkilegur, því að hetja myndarinnar er í raun ekkert annað en hryðjuverkamaður sem álítur verkefni sitt heilagt, að fræða lögmann um að hann sé í raun spilltur af gölluðu kerfi, einfaldlega vegna þess að hann fórnar réttlætinu til að vinna sjálfan sig upp í betri stöðu.

Innbrotsþjófar brjótast með valdi inn á heimili hins löghlýðna borgara, Gerald Butler, drepa og nauðga eiginkonu hans og dóttur, og skilja hann eftir í blóði sínu. Hann lifir af. Lögreglan finnur morðingjana. Hann fer í mál. Saksóknarinn í málinu, leikinn af Jamie Foxx, ákveður að semja við annan morðingjann til að tryggja sér prik í réttarkerfinu, og er nákvæmlega sama um réttlætistilfinningu hins særða föður. Ekki grunar hann að þessi særði faðir er sérfræðingur í leynivígjum úr fjarlægð og starfar fyrir einhverja leynilega leyniþjónustu sem sér um að ryðja úr vegi óheppilegum einstaklingum víða um heim.

Nú hefur bandaríska réttarkerfið skapað sér hættulegan óvin og verður aðal skotmarkið Jamie greyið Foxx, sem gerir lítið annað en að hlaupa um alla myndina eins og leynilögga í flottum frakka. Gerald Butler er jafn sannfærandi sem grimmur hefndarengill og hann er ósannfærandi í rómantískum gamanmyndum. Þessi maður á að vera grimmur á svipinn. Alltaf.

Ég skemmti mér ágætlega yfir myndinni, en hún ristir ekkert dýpra en "Death Wish" með Charles Bronson eða "Payback" með Mel Gibson, fyrir utan að hún er um eitthvað. Hún fjallar um hversu ómanneskjulegt og óréttlátt sjálft réttarkerfið getur verið, að manneskjur eru orðnar að forritum í þessu stóra kerfi sem ráða engan veginn við það þó það sé orðið að andhverfu sinni. Hafirðu þörf á virkilega góðri hefndarmynd, þá geturðu alltaf kíkt á "Cape Fear" með Gregory Peck og Robert Mitchum eða endurgerðina með Robert DeNiro og Nicke Nolte.

Ég sé þessa mynd sem frumspekilega gagnrýni á kerfi alls konar, og er viðeigandi þegar rætt er um hagkerfi eða stjórnkerfi þar sem allir hugsa um hvernig eiga að leysa málin, en enginn veltir lengur fyrir sér af hverju, og hvernig markmiðin tengjast lausnunum. Það er nefnilega miklu auðveldara að læra ferli og festast í sömu hjólförum alla ævi, heldur en að hugsa stöðugt gagnrýnið um forsendur kerfisins, og passa upp á að manneskjur hafi ennþá eitthvað að segja, en að kerfið ráði sér ekki sjálft og stjórni þannig stjórnendum sínum.

Sjálfsagt er ég að lesa heldur mikið út úr þessari einföldu spennumynd, en þannig eru kvikmyndir. Til að njóta þeirra verður maður að gefa eitthvað af sjálfum sér og átta sig á hvernig þær tengjast eigin lífi. Ég nenni varla að minnast á hversu ólíklegur, ósennilegur og sjálfsagt ómögulegur söguþráðurinn er, en það er algjört aukaatriði fyrir svona myndir.

Kannski þetta sé tilraun til að gera umfjallanir mínar um kvikmyndir örlítið heimspekilegri. 


Góð leið fyrir Íslendinga til að snúa vörn í sókn og sigrast á kreppunni

Ég ræddi við háttsettan nafna minn hjá Forsætisráðuneytinu í gær á Facebook, þar sem ég gagnrýndi hvernig væri verið að rífa niður góðan málstað Íslendinga erlendis af Íslendingum. Svörin fannst mér áhugaverð og alvarlegt umhugsunarefni. Hann lofar þá sem ég tel skaða málstað Íslendinga erlendis, og hann telur að ég hafi rangt fyrir mér, að ég sjái einfaldlega ekki ljósið, um hversu skaðlegt það er að samþykkja ekki ICESAVE 2. Hugsanlega er þessu öfugt farið, en ég þykist ekki hafa undir höndum einhvern allsherjarsannleik, heldur reyni ég að beita heilbrigðri skynsemi, traustum rannsóknaraðferðum og útsjónarsemi, og veit að ég get haft rangt fyrir mér, en þarf ekki bara rök fyrir málefninu, heldur rök sem ég get samþykkt sem góð og gild.

Samkvæmt honum eru markmið ríkisstjórnarinnar með því að fá ICESAVE 2 samþykkt fyrst og fremst efnahagsleg. Ef ICESAVE 2 verður samþykkt opnast strax fyrir lán, sem hægt verður að nota til að dæla peningum í aðra hluti. Koma kerfinu í gang. Ég held að þetta hafi verið reynt. Seðlabankinn gerði þetta með 500 milljörðum. Þessir 500 milljarðar hurfu í eitthvað ósýnilegt hyldýpi. Lausnin felst ekki í samskonar dælingu á ný. Það þarf meira til. Ég velti fyrir mér hvert þessi lán myndu fara, og ef smjörklípur af þeim færu til vina og vandamanna þeirra sem í dag stjórna. Spillingin er nefnilega til staðar.

Þar að auki þyrftum við að borga þetta lán til baka, sem verður afar erfitt fyrir afkomendur okkar, en þeir sem eru við stjórn í dag væru það heppnir að þurfa ekki að vera meðal okkar lengur þegar þarf að borga. Næsta kynslóð á að þrífa upp eftir þá kynslóð sem stjórnar í dag, rétt eins og þessi kynslóð á að taka til eftir þá síðustu. Og þá er ég að tala um stjórnmálakynslóðir, en ekki kynslóðir manna. 

Merkilegt þótti mér að efnahagslega markmið voru einu rökin sem hugsað var til, og þegar ég spurði um lýðræðisleg, siðferðileg eða réttlætismarkmið, þá kom ég að tómum kofanum. Þá rann það upp fyrir mér að ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki hugsað dæmið til enda, hefur ekki yfirsýn yfir málið út frá gildum sem bæði þjóðin og þau sjálf ættu að krefjast.

Þess vegna stakk ég upp á aðstoð frá sérfræðingum sem ég vinn hjá. Sjálfur er ég ekki öflugur greinandi í þessari tækni, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Mitt starf er að koma í útgáfu bók um aðferðafræðina og koma upplýsingum fyrir í hjálparkerfi vefforrits sem styður fræðin. Þetta eru sérfræðingar sem hafa starfað með NASDAQ og tekist að ná yfirsýn yfir þá flóknu starfsemi sem þar á sér stað, og átt viðskipti með fjölda öflugra fyrirtækja um allan heim. Ég hef spurt eigendur fyrirtækisins hvort þeir hefðu áhuga á að kynna þessa aðferðafræði á Íslandi, og þeir hafa verið afar jákvæðir og boðist til að senda sérfræðing á kynningarfundi til Íslands.

Þetta finnst mér frábært boð.

Ástæðan er sú að þessi aðferðarfræði er sniðin að því að taka á stórum stjórnsýslumálum og taka á krísu. Til staðar er myndrænt hugbúnaðarkerfi sem notað er til að tryggja að öll sjónarmið komist að, og úrvinnslan er til þess gerð að allir átti sig á hver sameiginleg markmið eru, hvaða vandamál koma í veg fyrir að þessi markmið verði að veruleika, hvernig ólíkar lausnir geta verið notaðar til að uppfylla þessar kröfur, og þá hugsanlega splæsa saman ólíkum lausnum til að uppfylla sömu kröfur, og loks skila afurð sem uppfyllir markmiðið á fljótlegan og nákvæman hátt. Ég hef séð þessa aðferðarfræði virka og er sannfærður um að ef henni yrði beitt innan íslenskrar stjórnsýslu væri hægt að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir með því að samstilla strengi.

Hins vegar voru svör þessa hátt setta einstaklings innan forsætisráðuneytisins ekki til þess gerð að vekja hjá mér bjartsýni. Þar á bæ væri þegar búið að fá fullt af sérfræðiáliti og greiningum, og menn með hlutina á hreinu. Þar sem að mín sérfræði snúast um heimspeki, gagnrýna hugsun og upplýsingatækni, þá veit ég að stærsti veikleiki fólks þegar kemur að þekkingu er að telja sig vita meira en þeir gera. Ég veit að þarna er aðferðarfræði sem getur stutt stjórnun þannig að öll hagkvæmni eykst um að minnsta kosti 30%.

Þessi aðferðarfræði uppfyllir allar kröfur um gagnsæi, og auðvelt verður að birta niðurstöður rannsókna og koma fyrir augu almennings.

Þessi aðferðarfræði er ólík mörgum slíkum, þar sem hún einblínir ekki á hvernig skal gera hlutina, þó að vissulega reikni hún með þeirri hlið, heldur felst helsti styrkur hennar í því að rannsaka af hverju hlutirnir eru gerðir eins og þeir eru gerðir.

Segjum að þú stjórnir heimili. Ef þú hugsar bara um hvernig borga skal reikninga, senda börnin í skóla, finna vinnu, kaupa í matinn, og þar eftir götunum, verður ferðin til lítils. Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því, en það er að stefna að ákveðnum markmiðum. Þessi markmið eru ástæðan fyrir af hverju allir þessir hlutir eru framkvæmdir. Það er misjafnlega djúpt á þessum ástæðum. Og þær eru ólíkar eftir heimilum.

Sumir vilja einfaldlega græða mikinn pening og skapa þægilegar aðstæður, og trúa að þá verði hlutirnir í lagi. Aðrir vilja einbeita sér að farsæld barna sinna, og gera allt sem í þeirra valdi stendur að hlífa þeim gegn ofbeldi af hvaða tagi sem er og styðja þau í skólagöngu. Aðrir vilja skapa sér sem mestan frítíma til þess einfaldlega að slappa af. Ástæðurnar virðast vera jafn margar og fólkið. Ef fjölskyldan velti þessum markmiðum fyrir sér og kæmi þeim á blað, af hverju verið er að vinna sleitulaust frá morgni til kvölds, af hverju er verið kaupa stærri og betri íbúð, af hverju er verið að uppfæra bílinn, tölvuna og sjónvarpið; þá gæti fjölskyldan samþykkt í sameiningu þau markmið sem skipta þau mestu máli. Út frá því átta þau sig á vandamálum sem þarf að leysa til að gera markmiðin að veruleika, og einbeita sér síðan að lausnum til að leysa þessi vandamál.

Hins vegar er samfélagið uppbyggt af ansi mörgum manneskjum með ansi mörg og ólík markmið í lífinu. Ef markmiðin eru ólík, en starfsmenn halda að þau séu eins, þá er öruggt að vinna þeirra verður ekki samstillt.

Það er ákveðið tækifæri opið í dag, þar sem ég hef aðgang að þessum sérfræðingum og tækni, og get komið með þá til að kynna þessi mál á Íslandi, en til þessa hefur mér ekki tekist að vekja áhuga neins, og það á augnabliki sem ég held að fátt sé mikilvægara en að þjóðin samstilli strengi sína, í stað þess að grafa sig í pólitískar skotgrafir.

Hafir þú lesið þessa grein, og þekkir einhvern sem er í vanda með rekstur, hvort sem það er á fyrirtæki, ríkisstofnun, stjórnmálaflokki, menntastofnun eða ráðuneyti, þar sem þessi tækni er notuð fyrir stærri rekstur en heimili, þó að vissulega sé hægt að nota tæknina í smærri hluti, láttu þá viðkomandi endilega vita af þessu tækifæri. Dyrnar eru opnar í augnablikinu og geta lokast hvenær sem er.

Fyrir þá sem ekki vita, þá starfa ég í Noregi og þessir sérfræðingar eru norskir. Þeir hafa boðist til að fara á kynningarfundi til Íslands eftir að ég hafði frumkvæði um að biðja um hjálp. Hins vegar hefur enginn tekinn þessari aðstoð. Vekur það furðu.

Þeir sem þekkja mig, vita að ég hef fórnað miklu til að geta hjálpað öðrum. Það er hins vegar afar erfitt að hjálpa þeim sem vilja ekki þiggja hjálp, og vilja ekki einu sinni læra um af hverju þessi leið er góð.

Ég veit að sumir þingmenn hafa verið að glugga í greinarnar mínar. Ég væri til í að koma á kynningu fyrir stjórnendur allra stjórnmálaflokka, óháð flokki. Þeir sem ákveða að nota þessa tækni munu fá öflugt forskot. Mín ósk er að ríkisstjórnin noti þessa tækni til að ná forskoti á Hollendinga og Breta, en stjórnmálaflokkar gætu einnig notað þetta til að átta sig betur á eigin málum og ná forskoti á aðra flokka.

 

Vinsamlegast skrifaðu athugasemd ef þú hefur hugmyndir um hvernig ég get komið þessari hjálp á framfæri.


Sjáðu hvernig James Cameron bjó til Avatar (myndband)

Eftir að Cameron kláraði Titanic árið 1997 hvarf hann úr heimi kvikmynda. Hann kannaði undur dýpisins næstu fimm árin, en ákvað svo að gera geimkvikmynd sem yrði betri og vinsælli en Star Wars. Honum tókst það!

Sjá myndband hér.

 

Sjá nánar: WIRED


Íslenskir tónlistarsalar ekki í takt við tímann?

Tengt þessari frétt af Eyjunni: Algjört hrun hefur orðið í sölu tónlistar. Erlend tónlist nær hætt að seljast

tonlist.jpgFullyrðingar um að niðurhal tónlistar af netinu styðji við almenna tónlistarsölu eiga ekki við rök að styðjast. Þetta segir Gunnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda, í Fréttablaðinu í dag. Hlutdeild erlendrar tónlistar í sölu hefur farið úr 60 í 35 prósent.

Hann segir að hér hafi orðið algjört hrun í sölu tónlistar, sér í lagi þegar horft er til sölu á erlendri tónlist. Gunnar bendir á að þar til fyrir fáum árum hafi hlutdeild erlendrar tónlistar verið í kringum 60 prósent á móti þeirri íslensku. “Núna er þetta hlutfall komið niður í 35 prósent.”

 

Sjálfur hef ég keypt erlenda tónlist og kvikmyndir frá play.com, amazon.co.uk og amazon.com. Dettur ekki í hug að kaupa þessar vörur á Íslandi, enda verðlagningin með ólíkindum.

Maður fær vörurnar mun ódýrara heim í póstkassann með því að borga toll, skatt og flutningsgjald, heldur en að kaupa diska heima. Þar að auki eru diskar að verða úrelt fyrirbæri.

Þetta er einfaldlega merki um að Íslendingar séu ekki í takt við tímann.

Dæmi: “Essential” með Michael Jackson. Tók þetta dæmi saman á fimm mínútum:

Skífan: kr. 3.799,-
Play.com: kr. 2.737,- (Var um kr. 1.400,- fyrir rúmu ári)
Amazon.co.uk: kr. 1415,- (Var um kr. 700,- fyrir rúmu ári)
Amazon.com: kr. 1642,- (Var um kr. 800,- fyrir rúmu ári)

Það þarf mikið til að sannfæra mig um að punga út fjögurþúsund krónum fyrir eitthvað sem hægt var að kaupa á þúsundkall fyrir ári og fyrir tvöþúsundkall í dag, eða um 3000 eftir toll, flutning og skatt.


Skal ásaka slökkvilið fyrir hús sem brenna?

 


 

Fjármálaeftirlitið er stofnun sambærileg við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur ákveðna forvarnarstarfsemi í gangi, og fylgist með hvort að lögum sé fylgt innan fjármálafyrirtækja. Eðlilega hljóta helstu gögn FME að vera svipuð og hjá lögreglu eða slökkviliði, ef kæra berst, augljóst brot hefur átt sér stað, að gögn sýna að ekki sé allt með felldu, þá er brugðist við.

Nú lítur út fyrir að engin ljós hafi blikkað þó svo að skíðlogaði út um alla glugga. Það sama gæti verið í gangi í dag án þess að FME hefði nokkra yfirsýn um málin, þó að vissulega hljóti menn að vera meira vakandi í dag.

Það eru gögnin sem starfsmenn Fjármálaeftirlitsins fengu í hendurnar sem þarf að rannsaka, og þá sem skrifuðu undir þau. Að sjálfsögðu gat Fjármálaeftirlitið á Íslandi ekki farið ofan í saumana á starfsemi bankanna og þurfti að treysta á lögleg og vottuð gögn frá bönkum og endurskoðendum.

Ásakanir á FME og Seðlabankann eru fyrir neðan beltisstað. Það þarf að rannsaka þá sem báru ábyrgð á upplýsingagjöfinni fyrst, síðan rannsaka endurskoðendur og þar á eftir FME. Inni í slíkri rannsókn þarf að skoða hver gerði hvað og af hverju.

Það er byrjað á röngum enda þegar eftirlitið er ásakað.

Svona eins og ef Securitas væri ásakað um innbrot sem þeim tókst ekki að koma í veg fyrir, eða Umferðarstofa ásökuð um umferðarslys, eða slökkviliðsmönnum kennt um að hús brenni til grunna.

 

Mynd: Eyjafréttir


mbl.is Vísar ásökunum um lygar á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cape Fear (1962) ***1/2

 

poster

 

"Cape Fear" er mögnuð spennumynd með flottum leikurum, ógleymanlegri tónlist og söguþræði sem gengur fullkomlega upp. Það er freistandi að gefa þessari mynd lægri einkunn en endurgerð Scorcese frá 1991 þar sem Robert DeNiro fór á kostum, en það væri ósanngjarnt. Ég geri það samt.

Lögmaðurinn Sam Bowden (Gregory Peck) sem fyrir átta árum bar vitni gegn ofbeldisfullum brjálæðingi er heimsóttur af þessum sama brjálæðingi nú þegar hann hefur setið í steininum síðustu 8 ár, með tvær hugsanir í kollinum, þá fyrri hvað hann langaði að drepa Bowden, og sú seinni, hvernig hann gæti drepið hann hægt og kvalið að hætti kínverskrar pyntingartækni. Max Cady (Robert Mitchum) hefur lært lögfræði á bak við lás og slá, og kemur afar vel undirbúinn til leiks. Ætlun hans er augljós, hann ætlar að byrja pyntinguna á að nauðga dóttur Bowden.

Bowden leitar úrræða hjá lögreglunni, sem getur lítið gert til að koma í veg fyrir hugsanlega glæpi, þannig að hann ræður til sín einkaspæjarann Charles Sievers (Telly Savalas), sem staðfestir grun hans um illar fyrirætlanir Cady. Einkaspæjarinn mælir með að Bowden fái aðstoð frá mafíunni, en að sjálfsögðu hikar lögmaðurinn heiðarlegi og hafnar slíku ráði í fyrstu. En hvað er maður ekki tilbúinn að gera til að vernda eigin fjölskyldu gegn slíkri ógn?

Ákveður Bowden að leggja gildru fyrir Cady á Cape Fear ánni í Florida. 

Bæði Gregory Peck og Robert Mitchum eru stórgóðir í sínum hlutverkum, og Mitchum sérstaklega, en samt verður hann að hálfgerðum kettlingi til samanburðar við túlkun Robert DeNiro á sama karakter 29 árum síðar.


Af hverju neitar Fjármálaeftirlitið á Íslandi að senda fulltrúa fyrir hollenska rannsóknarnefnd?

Ég hnaut um þessa málsgrein:
Hollensk rannsóknarnefnd fjallar nú um efnahagshrunið þar í landi undir stjórn þingmannsins Jan de Wit. Hann sagði í síðustu viku, að Fjármálaeftirlitið á Íslandi hafi neitað að senda fulltrúa sinn fyrir nefndina. (Úr frétt mbl.is)

Við eigum skilyrðislaust að styðja Hollendinga í þeirra rannsókn á efnahagshruninu, þrátt fyrir að einhver stirðleiki sé á milli þjóðanna, annars fáum við varla stuðning frá þeim fyrir okkar rannsókn.

Sannleikann þarf að opinbera.
mbl.is Segir Íslendinga hafa logið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband