Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

10 aðferðir til að kveikja hugmyndir að bloggfærslum

 


 

Stundum langar mig til að blogga en veit ekki alveg um hvað. Það væri hægt að gefast upp strax og segjast bara vera stíflaður, geta ekki skrifað, en 'geta ekki' er ekki til í minni orðabók; þannig að ég hef fundið nokkrar leiðir til að finna mér efni sem gaman er að blogga um.

Sumir virðast einfaldlega afrita efni af öðrum síðum og breyta lítillega texta, en ég er ekki hrifinn af slíkum leiðum og tel þær engan veginn frjóar eða skemmtilegar, og ef eitthvað er, þá finnst mér þær fráhrindandi - og mæli því ekki með þeirri leið.

Mig langar einfaldlega að deila með lesendum mínum hvernig ég fer að, og í staðinn fæ ég kannski athugasemdir með hugmyndum sem mér hefur ekki dottið í hug.

 

Hér er það sem ég geri:

  1. Reyni að hafa alltaf kveikt á gagnrýnni hugsun þegar ég les fréttir eða önnur blogg
  2. Hlusta á fólkið í kringum mig
  3. Les bloggfærslur annarra um mál sem eru mér hugleikin
  4. Skrifa um eigin áhugamál
  5. Fer einn í göngutúr
  6. Skrifa niður hugmyndir hvar sem ég er staddur, hvenær sem er, ef mér dettur eitthvað í hug sem ég gæti viljað móta betur
  7. Fletti upp í bókum sem ég á uppi í hillu
  8. Horfi á bíómynd
  9. Skrái niður fordóma, galla og mannkosti í eigin fari og reyni að komast til botns í þeim
  10. Vafra um Netið og eigin huga þegar ég nenni ekki í göngutúr
 

Hvað gerir þú til að kveikja nýjar hugmyndir að bloggfærslum?

 

 

 Mynd: FreelanceSwitch

 


Ljót saga - Varúð: ekki fyrir viðkvæma

 


 

 

Ég ætla að segja ykkur sögu sem hafði mikil áhrif á mig þegar ég bjó í Mexíkó. Hún fékk mig til að endurhugsa tilgang lífsins og hvernig maður ver ævi sinni. Þetta gerðist í raun og veru fyrir um öld síðan, og þessi saga hefur verið sögð reglulega, ekki til að vekja upp óhug hjá fólki, heldur til þess að minna á hvaða afleiðingar vanþekking og slök hugsun getur haft á líf fólks og hvetja fólk til að halda áfram að vekja aðra til umhugsunar um það sem betur má fara í heiminum.

Ástæða mín fyrir að segja þessa sögu er að minna okkur á að hversu erfitt sem ástandið getur verið og hversu hræðilegir hlutir gerast, þá er hægt að koma í veg fyrir að þeir gerist aftur með því að bæta aðstæður: til þess eru menntakerfið og heilbrigðiskerfið.  Ef við upplifum eitthvað hræðilegt gerast, getur það þýtt verið köllun á okkur um að breyta aðstæðum þannig að sams konar hlutir geti ekki gerst aftur?

 

Sagan:

Dag nokkurn heimsótti prestur þorp sem stóð við læk. Við árbakkann kom hann að svínum sem voru að háma í sig barn. Hann reyndi að bjarga barninu, en var of seinn. Hann var svo snortinn af þessum atburði að allt hans líf frá þessari stundu var helgað því að koma í veg fyrir að svona lagað gerðist aftur.

Barátta hans hefur skilað miklum árangri, því að hann stofnaði skóla til að fræða fátækt fólk, og til að koma í veg fyrir að vanþekking og skortur á umönnum valdi börnum skaða. Í dag fá þúsundir barna fræðslu frá skólakerfinu sem þessi prestur stofnaði. Fyrir stofnun þessarar stofnunar og þau jákvæðu áhrif sem hún hefur haft á líf fólks var viðkomandi einstaklingur tekinn í dýrlingatölu hjá kaþólsku kirkjunni.

 

Hver var þessi maður?

Ég hef leitað að upplýsingum á Netinu um sögu og nafn þessa prests, en hef ekkert fundið enn. Hins vegar man ég þetta vel þar sem ég fékk að sjá málverk af atburðinum á meðan kaþólskur prestur sagði mér söguna. Hann sat á námskeiði hjá mér um heimspeki og gagnrýna hugsun, og spurði mig hvernig gagnrýnin hugsun svaraði vandamáli eins og þessu.

Við áttum frjóar og áhugaverðar samræður um þessi mál, sem snerust að mestu um tilgangsleysi gagnrýnnar og skapandi hugsunar þegar vantar djúp gildi til að halda utan um þær upplýsingar sem til umræðu eru.

Ef einhver þekkir þessa sögu og getur sent mér upplýsingar um hvað presturinn hét sem stofnaði skólann, væri það vel þegið.

 

Sagan endurtekur sig

Þetta er því miður ekkert einsdæmi í veröldinni. Nýjasta fréttin sem ég þekki af svínum að éta nýfædd börn er frá 20. maí 2007 í Nígeríu. Þetta er vissulega óhugnanlegt, en hljótum við ekki að spyrja, fyrst þetta er ennþá að gerast núna á 21. öldinni, hvort að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að svona hlutir gerist í heiminum?


Mynd af svíni: LivingPictures.org

 


Hefur þú nokkurn tíma pælt í fyrir alvöru hvað bloggvinátta þýðir?

 

 
 

 

Í vor töluðu nokkrir bloggarar um að taka til í bloggvinahópum sínum, sem þýddi að einhverjum óvirkum bloggvinum var eytt, reikna ég með. Mér fannst þetta svolítið einkennilegt athæfi, hugsanlega vegna þess að ekki eru til neinar fast mótaðar siðferðisreglur um hvernig maður umgengst bloggvini, en ég geri slíkt ekki af því að mér þætti það dónaskapur af mér sjálfum að hafna einhverjum sem ég hef áður samþykkt. Samt myndi ég ekki túlka það sem dónaskap ef einhver annar tæki mig af sínum bloggvinalista, því að þar væru hugsanlega aðrar umgengnisreglur í gildi.

Ég tel það ekki góða reglu að dæma fólk út frá mínum eigin skoðunum. Til að flækja þetta, þá gæti sumum einmitt þótt það góð regla að dæma aðra út frá sínum eigin reglum. Mér finnst skemmtilegra að leyfa sem flestum að vera með og forðast það að skilja nokkurn útundan. Kannski þetta sé bara kennaraeðlið.

Mínar persónulegu reglur eru frekar einfaldar:

Bjóði einhver mér bloggvináttu, samþykki ég hana skilyrðislaust, og skoða að sjálfsögðu blogg viðkomandi. Ég hef aldrei hafnað beiðni um bloggvináttu né eytt bloggvini og kem ekki til með að gera það, nema viðkomandi fari út fyrir mín velsæmismörk eða brjóti lög.

Ástæðan held ég að sé ósköp einföld. Ég lít ekki á bloggvini til að nota þá á einn eða annan hátt. Ég lít á það sem virðingarvott að einhver sé tilbúin(n) að tengjast mér sem bloggvinur, og ég er tilbúinn að sýna viðkomandi sömu virðingu. Hvort ég lesi svo bloggfærslur bloggvinar míns hann mínar er algjört aukaatriði. Bloggvináttu fylgir engin þvingun til að lesa greinar.

 

 


 

 

Þegar ég samþykki bloggvin, er ég að samþykkja að viðkomandi geti haft samband við mig í gegnum blogg eða tölvupóst þegar hann eða hún vill, og ég reikna með að ég geti gert það sama. Til dæmis gæti mér dottið í hug að fara í framboð og sent þá öllum mínum bloggvinum beiðni um að skrá sig á framboðslistann minn. Ekki það að ég sé með framboð í huga, en mér þætti alls ekki úr vegi að senda slík skilaboð ef þannig staða kæmi upp. 

Síðan má líka reikna með að ný tækni muni koma fram sem mun auka enn frekar á samskipti milli bloggvina, svona svipað og Facebook notar í dag, þar sem að vinir geta myndað hópa kringum áhugamál eða hagsmunamál. 

Það kostar mig ekkert að bæta við bloggvinum og þeir taka ekkert pláss. Það fer ekkert fyrir þeim, nema við séum dugleg að skiptast á skoðunum, og það er bara gaman. Einnig raða ég bloggvinum í stafrófsröð, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki gera upp á milli þeirra, þó svo að ég hafi meiri samskipti við suma en aðra.

Ef þú lítur öðrum augum á bloggvináttu eða eins, skráðu þá endilega stutta athugasemd ef þú nennir.

 

 

 

 

Til gamans langar mig að þýða nokkrar tilvitnanir um vináttuna, sem mér finnst eiga ágætlega við um bloggvináttu, og koma með nokkrar íslenskar líka:

 

Það er sönn vinátta þegar þögn milli tveggja einstaklinga er þægileg. (Dave Tyson Gentry)

 

Það er auðveldara að eiga týndan en fundinn vin. (Málsháttur)

 

Leiðin að heimili vinar þíns er aldrei löng. (Málsháttur)
 
Í góðu veðri - fullt af vinum - í vondu veðri hverfa þeir. (Nafnlaus náungi)
 
Maður deyr jafnoft og maður tapar vini. (Nafnlaus náungi)
 
Vinur minn er sá sem tekur mér eins og ég er. (Henry David Thoreau)
 
Vinur er sá sem hrósar okkur með því að búast við því besta af okkur, og sá sem kann að meta það í okkur. (Henry David Thoreau)
 
Okkur þykir svo vænt um hvert annað vegna þess að veikleikar okkar eru þeir sömu. (Jonathan Swift)
 
Vinátta er jafna. (Pýþagóras)
 
Megi Guð forða mér frá vinum sem þora aldrei að gagnrýna mig. (Thomas Merton)
 
Aldrei gera eitthvað rangt til þess eins að eignast vin eða viðhalda vináttu. (Robert E. Lee)
 
Vinur sem heldur í hönd þína og segir einhverja vitleysu er mun meira virði en sá sem er ekki nærri." (Barbara Kingsover)
 
Vinur er sá sem þekkir þig og líkar samt vel við þig. (Elbert Hubbard)
 
Vertu þinn eigin vinur, og aðrir munu fylgja í kjölfarið. (Thomas Fuller)
 
Eina leiðin til að eiga vin er með því að vera vinur. (Ralph Waldo Emerson)
 
Gamli góði vinur, glaðir gengum við oft forðum
en við gátum líka skipst á grát og grimmdarorðum. (Magnús Eiríksson)
 
Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini. (Hávamál)
 
Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf. (Hávamál)
 
Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera. (Hávamál)
 
Veistu ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft. (Hávamál)
 
Svo er auður
sem augabragð:
hann er valtastur vina. (Hávamál)
 
 

Myndir: 

Api og tígrisdýr: retrogismo.com

Sam og Frodo: Warofthering.net

Fílar í góðum fýling: National Geographic News


Af hverju bloggar þú? (Og af hverju ég blogga)

 

"Ég skil ekki hvað það er sem fær fólk til að blogga, gefa öllum aðgang að þeirra einkalífi, dýpstu skoðunum og þrám. Þetta er bara fólk haldið athyglissýki."

Þetta er skoðun sem ég heyrði út undan mér um daginn, og er hún neistinn sem kveikti í þessari grein.

Nú blogga ég mikið og er svona hæfilega athyglissjúkur. Ég fæ vissulega spark út úr því þegar ég finn að fólk hlustar á það sem ég hef að segja, og að það er farið að skipta einhverju máli í þjóðfélagslegri umræðu. En það er kannski ekki aðal atriðið. Bloggið einfaldlega passar við minn persónuleika eins og flís við rass.

Síðan ég var barn hef ég elskað að skrifa og á ennþá tugir af sögum og ljóðum ofan í skúffu, sem munu sjálfsagt aldrei birtast á prenti, en ég hef lengi fundið að minn eigin hugur er svo djúpur og víður, að ég get ekki annað en kannað hann betur, og besta leiðin sem ég kann til að skoða eigin huga er að skrifa það sem ég hugsa á meðan ég velti fyrir mér einhverju af þeim fyrirbærum sem á hugann rekur.

 


Ég var þannig unglingur að stundum vildi ég ekki vakna á morgnanna, en það var ekki vegna þess að ég var svo þreyttur og sljór, heldur vegna þess að draumarnir voru svo spennandi. Síðan uppgötvaði ég að þegar ég skrifa, þá kemst ég í ástand sem er frekar líkt því og þegar mig dreymir. Mér líður vel, ég verð spenntur, og ég læri. Í fjölmörg ár lenti allt það sem ég skrifaði ofan í skúffu, því að þó mér finnist gaman að skrifa datt mér aldrei í hug að einhver annar gæti haft áhuga á því. 

En svo kemur Netið. Fyrsti spjallþráður sem ég tek þátt í er á íslenska skákhorninu. Einnig skráði ég mig á Rottentomatoes kvikmyndasíðuna og hef tekið þátt í samræðum þar frá 2001. Síðan birtist áströlsk síða á Netinu sem hét writtenbyme.com og þar skrifaði ég fjöldan allan af greinum, sögum og ljóðum; en því vinsælli sem skrefin urðu, því hærri upphæðir gastu fengið til verslunar á Amazon. Mér gekk nokkuð vel á þeirri síðu, sem var síðan lokað þegar eigendur urðu gjaldþrota.

Árið 2000 bjó ég í Mexíkó en tók þátt í uppbyggingu Vísindavefsins undir góðri ritstjórn Þorsteins Vilhjálmssonar, skrifaði eitthvað smotterí, las yfir allar greinar til að leiðrétta málfar og stafsetningu, tók þátt í ritstjórn og almennu utanumhaldi, og vann myndir. Því ævintýri lauk eftir að ég missti netsamband í heilan mánuð eftir fellibylinn Ísídór og þurfti að flytja búferlum til annarrar borgar í kjölfarið.


 

Og í dag er það Moggabloggið. 

Ég er mjög hrifinn af kerfinu sem hefur verið sett upp. Athugasemdir mínar eru galopnar öllum og ég hef ekki fengið einn einasta spam-póst, sem segir nokkuð mikið um kerfið sem liggur á bakvið. Það er gaman að geta tengst bloggvinum, og sérstaklega núna þegar hægt er að senda þeim persónuleg skilaboð.  Flestir sem hafa skrifað athugasemdir eru líka málefnalegir og áhugaverðir einstaklingar með vel mótaðar skoðanir, sem fá mig oft til að hugsa hlutina frá nýju sjónarhorni.

En til að svara spurningunni í fyrirsögninni: "Hvað er það sem fær fólk til að blogga?" þá er svar mitt einfalt. Ég elska að skrifa og rannsaka og því sem mér finnst vert að deila, deili ég, en annað fer ofan í skúffu.

 

En hvað um þig, af hverju bloggar þú?

 

 

 

Myndir:

Teikning af rithöfundi af News.com.au

Málfverkið Efnið sem draumar eru búnir til úr, eftir John Anster Fitzgerald af  MedusaEyes.com

Fellibylurinn Ísídór af Parque Ecologico de Irapuato


The Dark Knight gegn Titanic: hversu líklegt er að The Dark Knight sökkvi Titanic?

Titanic (1997) er tekjuhæsta mynd allra tíma, en hún náði að hala inn rétt rúmum 145 milljörðum króna í miðasölu um allan heim þó að hún hafi verið 194 mínútna löng. Mikið hefur verið spáð í hvort að The Dark Knight muni ná henni, en mér finnst það afar hæpið, þó að hún hafi náð inn tæpum 48 milljörðum króna á þremur vikum, enda er hún 42 mínútum styttri en Titanic, aðeins 152 mínútur að lengd. Wink

Reyndar segir tölfræðin að því styttri sem myndin er, því líklegri er hún til að græða, þar sem að hún getur verið á fleiri sýningum yfir daginn. En svo reynist það öfuga satt. Allar myndanna á topp tíu listanum eru nefnilega vel yfir tveir tímar að lengd, nema JurassicPark sem er rétt rúmir tveir - ætli hún hefði ekki orðið klassísk ef Spielberg hefði nennt að hafa hana þriggja tíma langa. Langar myndir virðast verða að meiri viðburðum í huga fólks.

 

Röð
Kvikmynd
Miðasala um allan heim
Á íslensku
1. 
Titanic (1997) 
kr. 145.906.350.000,-
145 milljarðar, 906 milljónir og 350 þúsund
2. 
The Lord of the Rings: The Return of the King (2003) 
kr. 89.772.930.534,-
89 milljarðar, 772 milljónir, 930 þúsund og 534 krónur
3. 
Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest (2006) 
kr. 84.296.443.926,-
84 milljarðar, 296 milljónir, 443 þúsund og 926 krónur
4. 
Harry Potter and the Sorcerer's Stone (2001) 
kr. 77.008.302.335,-
77 milljarðar, 8 milljónir, 302 þúsund og 335 krónur
5. 
Pirates of the Caribbean: At World's End (2007) 
kr. 76.193.130.084,-
76 milljarðar, 193 milljónir, 130 þúsund og 84 krónur
6. 
Harry Potter and the Order of the Phoenix (2007) 
kr. 74.491.568.847,-
74 milljarðar, 491 milljónir, 568 þúsund og 847 krónur
7. 
Star Wars: Episode I - The Phantom Menace (1999) 
kr. 73.329.130.500,-
73 milljarðar, 329 milljónir, 130 þúsund og 500 krónur
8. 
The Lord of the Rings: The Two Towers (2002) 
kr. 73.267.200.000,-
73 milljarðar, 267 milljónir og 200 þúsund krónur
9. 
Jurassic Park (1993) 
kr. 73.116.150.000,-
73 milljarðar, 116 milljónir og 150 þúsund krónur
10. 
Harry Potter and the Goblet of Fire (2005) 
kr. 70.929.454.562,-
70 milljarðar, 929 milljónir, 454 þúsund og 562 krónur
39.
The Dark Knight (2008)
kr. 47.901.810.273,-
47 milljarðar, 901 milljónir, 810 þúsund og 273 krónu

 

Titanic er epísk og afar rómantísk stórslysamynd.

 

Sjö af efstu tíu eru fantasíur:

Lord of the Rings II (179 mínútur) og III (201 mínútur)

Pirates of the Caribbean II (150 mínútur) og III (168 mínútur)

Harry Potter I (152 mínútur), IV (157 mínútur), og V (138 mínútur)

 

Tvær af efstu tíu eru vísindaskáldsögur:

Star Wars: Episode I - The Phantom Menace (133 mínútur)

Jurassic Park (127 mínútur)

 

Og svo er það The Dark Knight, sem má strangt til tekið flokka sem vísindaskáldsögu en ætti samt frekar að flokka sem ofurhetjumynd.

 

Heldur þú að The Dark Knight nái Titanic í miðasölu?

 

 

The Dark Knight sýnishorn:

 

Titanic sýnishorn:


Er Geir Haarde að dissa bloggara?

 

Það sem mér finnst merkilegast við þessa tilvísun er hvernig Geir H. Haarde jafnar bloggsamfélaginu við stjórnarandstöðuna. Mætti ekki telja slíkt mat á valdi bloggara af jafn merkum manni til stórtíðinda? Veltum þessu aðeins fyrir okkur:

 

„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum mjög fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna.“ (Geir H. Haarde)


Hvert er hlutverk stjórnarandstöðunnar?  

Stjórnarandstaðan eru allir þeir þingmenn sem náðu inn á þing eftir kosningar og eru ekki í meirihluta. Þeir hafa rétt til að láta í sér heyra og gagnrýna á virkan hátt það sem þeim finnst illa gert af stjórninni. Því miður fer það orð af stjórnarandstöðunni að þeir mótmæla öllu bara til að mótmæla og sóa þannig tíma þingsins í vitleysu. Þeirra hlutverk er að veita ríkisstjórninni aðhald, en það er nokkuð ljóst að stjórnin hlustar lítið á stjórnarandstæðuna og öfugt. Ákvarðanir eru teknar á bakvið tjöldin og atkvæði hafa fallið löngu áður en þau eiga sér stað formlega, sama hver hefur hvað að segja og hver er með eitthvað múður. Ég trúi að það viðhorf sé ríkjandi á Alþingi að ekki skuli hlusta á andstæðinginn af það mikilli alvöru að hann geti haft áhrif á gang mála.

 

 

Þar sem að stjórnarandstaðan er ekki að virka, er að brjótast út úr skelinni nýtt og merkilegt afl, sem enginn getur látið fram hjá sér fara vilji þeir vera með í umræðunni, og það er gagnrýniafl bloggsamfélagsins. Megin kostir bloggara umfram formlega stjórnarandstöðu er að þeir eru af öllum stéttum samfélagsins og eru ekkert endilega í andstöðu við stjórnina þó að þeir séu gagnrýnir á mál hennar, þeir geta reyndar líka verið í andstöðu og haft góða hluti að segja. Bloggarar eins og ég er fólk sem skrifar aðeins í frítíma sínum. Yfirleitt skrifa ég eina grein á kvöldin og les hana síðan yfir næsta morgun áður en ég fer í vinnu. Í vinnunni hef ég lítinn tíma til að fylgjast með blogginu, enda hef ég þar öðrum hnöppum að hneppa.

En bloggarar ólíkt stjórnarandstöðuþingmönnum fá ekki greitt fyrir að tjá sínar skoðanir, við gerum þetta til að fylla í einhverja eyðu sem hefur myndast í samfélaginu. Loks getur almenningur tjáð sig af fúsum og frjálsum vilja þannig að allir hafa aðgang að þeirra skoðunum, nánast samtímis, á meðan fólk þurfti á síðustu öld að senda greinar í blöð, sem síðan voru birtar eftir samþykki ritstjóra og birtust jafnvel seint, og þá breyttar frá upprunalegri mynd vegna plássleysis. Þessi vandamál eru ekki lengur til staðar.

Bloggari getur sent frá sér grein strax og hún hefur verið rituð, og þarf ekki aðra gagnrýni en þá sem að lesendur vilja skilja eftir í athugasemdardálkum.

Það eru breyttir tímar.

 

 

Eru bloggarar léttvæg rödd hins fljótfærna almúga sem stjórnast af múgsefjun og tilfinningaofsa; og er upptekinn við að blogga um kisuna sína og eigin vandamál?

Málið er að engir tveir bloggarar eru eins. Við erum jafn ólík og einstaklingarnir eru margir. Sum blogg eru grunn og önnur djúp, sum blogg skemmtileg og önnur leiðinleg, sum blogg eru jafnvel fróðleg á meðan önnur þykja heimskuleg, og sum vel skrifuð en önnur það illa rituð að erfitt getur verið að lesa textann. En öll þessi blogg eiga það sameiginlegt að sá sem bloggar breytist, viðkomandi lærir hratt af eigin mistökum ef áhugi er fyrir hendi og viðkomandi hefur athugasemdarkerfið sitt opið.

Málið er að þeir sem loka athugasemdakerfinu eða gefa sér tíma til að hafna eða samþykkja athugasemdir eru ekki raunverulegir bloggarar. Þeir halda það bara. Þeir eru að halda í hugarfari tengdu Vef 1.0, úreltri hugsun þar sem upplýsingar voru festar á netinu og nánast jafn fastar og útgefnar bækur. Vefur 2.0 hins vegar krefst dínamískrar hugsunar og gefur ölum tækifæri til virkrar þátttöku.

 

Bloggið er sjálfsagt lýðræðislegasta leið sem komið hefur fram til að gefa fólki tækifæri á að tjá sínar skoðanir og hugmyndir um samfélagið. Við þurfum ekki lengur að vera flokksbundin til að það sé hlustað á okkur, við þurfum ekki annað en að hugsa skynsamlega og hafa eitthvað mikilvægt til málanna að leggja til að valdhafar og fólkið í landinu leggi við hlustir. Hvað getur verið slæmt við það?
 
Bloggið er að breyta íslensku samfélagi, af því að í fyrsta sinn er hlustað á venjulega einstaklinga sem hafa engra pólitískra hagsmuna að gæta, það er farið að hlusta á einstaklinga sem eru ekki fréttnæmir á neinn annan hátt.

Stóra spurningin hlýtur að vera: hvort gera bloggarar ríkinu gagn eða ógagn?

Ég tel þá bloggara sem gagnrýna af hreinskilni og heiðarleika vera að taka þátt í lýðræðislegri samræði. Dæmin hafa sýnt að fólk hlustar á þá sem skrifa af einlægni og hreinskilni, og síar út þau blogg sem hafa raunverulegt gildi.

Á heildina litið held ég að þjóðarsálin birtist í blogginu.

Það sem þjóðin er að hugsa, og viðbrögð hennar við ranghugmyndum eða góðum hugmyndum, við öfgum og óréttlæti, mannúðarverkum og skynsemi. Einhvern veginn verður skynsemin ofan á eftir að fjöldinn hefur rætt saman á skipulegum grundvelli og ekki látið tilfinningar hlaupa með sig í gönur. Og við erum að læra á þennan miðil og við erum að læra hratt.

Þeim sem hafa eitthvað að fela eða eru óöruggir með sjálfa sig, gæti þótt steðja ógn af blogginu. Málið er að þessir einstaklingar mættu frekar taka þátt í bloggsamræðum og láta eigin skoðanir í ljós, jafnvel undir dulnefni, bara svo þeir finni meiri tengingu við fólkið í landinu. Í fyrstu fannst mér flott hjá ráðherranum Birni Bjarnasyni að blogga, og hélt að hann væri í takt við tímann. Síðan skoðaði ég færslur hjá honum og ætlaði að gera athugasemd en gat það ekki því hann hafði lokað fyrir athugasemdirnar. Ég hef ekki lesið hann síðan, því ef hann er ekki tilbúinn að hlusta á mig, af hverju ætti ég að vera tilbúinn til að hlusta á hann?

Bloggið er hluti af nýju samskiptaferli. Sjónvarpið og útvarpið eru liðin tíð, því sjónarhorn þeirra eru of takmörkuð. Í stað þess að fá eitt formlegt sjónarhorn matað ofan í þig, þarftu að pæla í hlutunum, átta þig á hvað er rétt og hvað rangt, og kafa virkilega djúpt ofan í hlutina til að móta eigin skoðanir. Youtube og DVD hefur tekið við af sjónvarpinu, Facebook af símaskránni og bloggið af dagblöðunum. Þetta er einfaldlega næsta skref í þróuninni. Sjálfsagt kemur næsta skref aftan að okkur rétt eins og Vefurinn 2.0 er að koma aftan að þeim sem hugsa bara eigin hugsanir, en ekki með öðrum. Ég hef sett mér að vera viðbúinn slíkum breytingum og gæta mín á að festast ekki í sama farinu, halda huganum opnum og vera sveigjanlegur.


Tímar Vefsins 2.0 og virðing fyrir skoðunum samborgara hafa rutt sér leið inn í íslenskt samfélag. Svo er textinn og bókstafurinn allt í einu orðinn að lifandi máli aftur. Íslenskan hefur fundið sér öfluga fótfestu þar sem að tungumálið virðist sameina okkur sem aldrei fyrr.
 
Hvað getur verið slæmt við það?

 

 

Myndir:

Geir Haarde (Silfur Egils)
Alþingi (Ögmundur.is)
Hönd á skjá (Info4Security)
Púlsinn tekinn með lyklaborði (Highlight HEALTH 2.0)
Þjóðarsálin (mi2g)
Veraldarsamfélagið (The Fetzer Institute)


Gúrkublogg: Áðan rölti ég niður í Smáralind og fann þar biðraðir í þremur verslunum og þjónustulund í einni

 


 

 

Þar sem að í kvöld gaf ég bíómiða einhverjum af þeim sem gera athugasemd við greinina Í dag ætla ég að þakka fyrir mig og gefa lesanda BÍÓMIÐA í tilefni 100.000 gestsins á bloggsíðuna ákvað ég fyrr í dag að rölta niður í Smáralind og kaupa mér tening. Sigurvegarinn í teningakastinu reyndist svo vera ofurbloggarinn Ómar Friðleifsson.

Þetta var svolítið merkileg ferð miðað við margt annað svona í gúrkutíð. Í fyrsta lagi losnaði ég algjörlega við stressið sem fylgir því að sitja við stýri og fékk smá hreyfingu út úr þessu, enda sit ég allan daginn við tölvuvinnu og síðan bloggskrif, lestur og kvikmyndagláp eftir vinnu. Það er ágætt að kíkja aðeins út undir beran himinn svona að minnsta kosti í sumarfríinu.

Fyrst lá leiðin í leikfangaverslunarkeðjuna Leikföng eru okkur og þar leitaði ég skamma stund að teningi, en kom þá auga á biðröð eftir afgreiðslu. Það voru tveir menn að afgreiða við kassa og um þrjúhundruð manns í röð (deilt með tíu), þannig að ég var fljótur út.

Ég kíkti inn í Turninn. Bara svona að gamni. Fór inn í lyftuna. Ýtti á 20. Hæðin lokuð. Ýtti svo á 19. Fór upp. Kíkti aðeins út og fór aftur inn áður en hurðin lokaðist. Fór niður og út. Spennandi.

Næst labbaði ég út í Hagkaup og á leikfangasvæðið. Þar fékk ég aðstoð hvorki meira né minna en tveggja leikfangasérfræðinga verslunarinnar. Þau gátu reyndar ekki selt mér einn tening, því að einungis var hægt að kaupa pakka með 12 teningum eða Yatzi pakka með 12 teningum. Ég keypti Yatzi pakkann og held ég bjóði konunni bara í Yatzi fyrir vikið.

Þá datt mér í hug að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Ég rölti út í Krónu, og valdi mér nokkra hluti án þess að taka mér kerru (það eru engar körfur í versluninni) af því að ég ætlaði að kaupa svo lítið, og langaði að hafa smá stjórn á mínum innri manni sem vill alltaf fylla upp í tómar kerrur.

Þegar ég kem að afgreiðslukössunum með tvær tveggja lítra kók og eitthvað annað í fanginu, eru bara tveir unglingar að afgreiða á þessum þrjúhundruð kössum risaverslunarinnar (deilt með tíu), og það voru örugglega fimmhundruð manns (deilt með tíu) sem biðu í röð eftir afgreiðslu. Ég glotti í kampinn og fór á sjálfsafgreiðslusvæðið, en þar var enginn. Þrír af fjórum sjálfsafgreiðslukössum voru lokaðir og sá fjórði náði ekki nettengingu. Ég spurði starfsmann sem var þarna á vappi hvað væri í gangi, og fékk þá að frétta að umsjónarmaður sjálfsafgreiðslukassana væri í mat (kl. 14:30) og á meðan væru þeir ekki í gangi.

Ég fór þá bara aftast í röð og beið með fangið fullt af drasli. Öldruð kona beið í röð fyrir framan mig og tuðaði eitthvað um að hún ætlaði aldrei aftur að versla í Krónunni og best væri í Bónus. Mér fannst þetta svolítið skondið tuð en beið bara þar til röðin kom að mér. Mig grunar að flestir starfsmenn liggi þunnir heima eftir Verslunarmannahelgi.

Síðan gekk ég yfir í Elko. Þetta er stærsta og ódýrasta raftækjaverslun landsins, sem þýðir að ef þú gengur inn í sambærilega verslun nánast hvar sem er erlendis, eru vörurnar ekki nema um helmingi ódýrari. Samt er Elko flott verslun. Þannig séð. Á rölti mínu um verslunina heyrði ég nokkuð sem ég hef ekki heyrt lengi. Ungur starfsmaður sagði vinnufélaga sínum að þeir ættu helst að fara á kassa, það væri svo mikil biðröð. Svar félaga hans kom mér ekkert sérlega á óvart, en það var eins og rigndi allt í einu yfir göfgi félaga hans, en samstarsfélaginn sagði einfaldlega: "So?" og við það var setið. Þeir stóðu þarna þrír í hóp strákarnir, en við kassana voru tveir starfsmenn og tvöhundruð manns (deilt með tíu) í biðröð. Ég þurfti að troða mér gegnum biðröðina til að komast út, þar sem ég keypti ekkert - var bara að skoða.

Á röltinu heim hugsaði ég svo með mér. Væri ekki sniðugt að blogga um þennan tíðindalitla göngutúr? Ég upplifði nefnilega hluti sem ég kannaðist ekki við, enda er ég alltaf að vinna við Sharepoint á þessum tíma dags, á meðan sumt fólk er að þjálfa sig í biðröð.


Í dag ætla ég að þakka fyrir mig og gefa lesanda BÍÓMIÐA í tilefni 100.000 gestsins á bloggsíðuna

99784

 

Frá 01.03.07 til 05.08.08 hafa 99.784 gestir heimsótt þessa bloggsíðu og langar mig þegar gestur númer 100.000 hefur heimsótt síðuna bjóða einum af gestum mínum sem gerir athugasemd við þessa færslu bíómiða. Það þarf ekki að vera nema kvittun eða skopkall.

Ég mun nota tilviljunarkennda aðferð (teningakast) til að velja viðkomandi aðila þriðjudagskvöldið 5. ágúst 2008 úr athugasemdum þeim sem borist hafa fyrir kl. 22:00.

Þetta má vera hvaða mynd í íslensku kvikmyndahúsi sem viðkomandi óskar sér í þessari eða næstu viku, í því kvikmyndahúsi og á þá sýningu sem hann óskar sér.

Svo það fari ekki á milli mála: um er að ræða aðeins einn gest og eina sýningu.

Þetta er mín leið til að halda upp á daginn og þakka fyrir mig.

 

 

Kl. 7:34 vantar ekki nema 135 gesti til að klára dæmið:

 

 

Nú vantar bara 66 til að ná 100.000 gestinum! Wizard

 

Kl. 9:05 eru gestirnir 99.946. Vantar bara 54! Gaman að svona niðurtalningu. 

  

 

Enn magnast spennan:

Kl. 9:26 er komnir 99.972 gestir. Það vantar því aðeins 28 gesti.

99972.jpg

 

Kl. 9:33 eru gestirnir orðnir 99.989. Vantar 11...

99989.jpg

 

Kl. 9:39 vantar aðeins 4

99996.jpg

 

Kl. 9:40 vantar 1 !!!

99999.jpg

 

Kl. 9:41 skutust gestir upp í 100.005 ! Wizard Wizard Whistling

Nú þurfa bara allir þessir gestir að skrá sig í athugasemdir til að eiga möguleika á bíómiða. 

100005_02.jpg

 


10 vinsælustu myndirnar á leigunum í síðustu viku (4.8.2008)

Vinsælustu bíómyndirnar síðustu viku á vídeóleigum landsins eru ekkert endilega frábærar kvikmyndir. Hverri mynd fylgir örstutt umsögn um söguþráðinn og sú einkunn sem ég hef gefið viðkomandi kvikmynd. Viljirðu lesa það sem ég hef skrifað um viðkomandi kvikmynd, smellirðu einfaldlega á fyrirsögnina.

 

1.     Fool's Gold

Í stuttu máli: Nýskilið par leitar að gömlu spænskum fjársjóði með aðstoð milljarðamærings og í kapphlaupi við miskunnarlausa glæpamenn. 

Einkunn: 5 af 10

 

2.     Untraceable

Í stuttu máli: FBI netlögga tekst á við fjöldamorðingja sem notar Netið og netverja sem þátttakendur í morðum sínum.

Einkunn: 4 af 10

 

3.     The Bucket List

Í stuttu máli: Milljarðamæringur sem á engan að og bifvélavirki sem lifir góðu fjölskyldulífi eiga báðir 6-12 mánaða ólifaða, og ákveða að gera saman allt það sem þá hafði alltaf langað að gera en aldrei gert.

Einkunn: 7 af 10

 

4.     No Country For Old Men

Í stuttu máli: Hinn fullkomni leigumorðingi hefur þá sérkennilegu áráttu að vilja vera ósýnilegur og skilur því eftir sig blóðuga slóð í eltingarleik við kúreka sem reynir að hafa af honum háa fjárhæð.

Einkunn: 9 af 10

 

5.     Semi-Pro

Í stuttu máli: Sjálfselskur eigandi körfuboltaliðs reynir að koma ömurlegu liði sínu í NBA með því að skipta á þvottavél og gömlum atvinnumanni úr NBA.

Einkunn: 6 af 10

 

6.     Jumper

Í stuttu máli: Ungur bankaræningi getur stokkið yfir tíma og rúm með hugaraflinu einu saman en margra alda gömul lögreglusveit er á eftir honum.

Einkunn: 6 af 10

 

7.     National Treasure: Book of Secrets

Í stuttu máli: Fjársjóðsveiðari þarf að hreinsa æru fjölskyldu sinnar þegar langafi hans er sakaður um að hafa tekið þátt í samsæri um að drepa fyrrum Bandaríkjaforseta Abraham Lincoln.

Einkunn: 6 af 10

 

8.     Be Kind Rewind

Í stuttu máli: Tveir félagar ákveða að endurskapa helstu kvikmyndaperlur sögunnar eftir að allt efni þurrkast út af myndbandsspólunum sem þeir leigja út. 

Einkunn: 6 af 10

 

9.     Juno

Í stuttu máli: Unglingsstúlka verður ólétt eftir tilraunasamfarir með vini sínum og þarf að velja á milli fóstureyðingar eða gefa barnið til ættleiðingar. Málið flækist eftir að hún ákveður hið síðarnefnda og kynnist tilvonandi foreldrum, og það flækist enn frekar þegar tilvonandi ættleiðingarfaðir verður hrifinn af henni.

Einkunn: 9 af 10


10.     P.S. I Love You

Í stuttu máli: Eiginmaður deyr en hefur skilið eftir sig fjölda bréfa til að hjálpa eiginkonunni að komast út úr sorgarferlinu.

Einkunn: 4 af 10

 

 

Ég notast við vinsældalistann af Myndir Mánaðarins.  


VANDAMÁLIÐ VIÐ VERÐTRYGGINGU: Af hverju einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki tapa á meðan bankarnir græða

Þegar tekin voru 80-100% húsnæðislán árin 2004 og 2005 fengu viðskiptavinir pappíra í hendurnar með útreikningum á hvernig mánaðarlegar greiðslur færu fram. Lánið var á kjörunum 4.3% sem þótti nokkuð gott, en verðtryggt. Útskýringar fylgja um að lánið væri verðbólgutengt, og að verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands væri um 2.5%. Þú gast fengið tvenns konar útreikninga í hendurnar. Annars vegar ef verðbólga yrði 1% og hins vegar ef hún yrði í versta falli 3.5%.

Þremur árum síðar er veruleikinn allt annar en viðskiptavinum var boðið af bankanum. Þeir eru að borga þessi 4.3% eins og áður, en í stað þess að borga 2.5% eins og gert var ráð fyrir vegna verðtryggingar eru þeir að borga 15.5%. Samanlagt er lánið því á ársgrundvelli með vextina 19.8%, í stað 6.8%. Þessir vextir bætast síðan við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti lögum samkvæmt, þannig að höfuðstóllinn eftir árið í ár á eftir að verða óviðráðanlegur. Í dag eru ný og endurnýjuð húsnæðislán á 6.5% vöxtum sem þýðir að nýir viðskiptavinir þyrftu að borga 22% í vexti árlega af nýjum lánum. Engin furða að staðan sé hæg á húsnæðismarkaði í dag.

Þetta er einföld stærðfræði.

Viðskiptavinir hafa verið sviknir af þremur aðilum í þessu máli.

Fyrst af eigin viðskiptabanka fyrir að kynna tölur sem sérfræðingar þeirra höfðu bent á, og voru kolrangar.

Einnig af Seðlabanka Íslands fyrir að hækka stýrivexti upp í 15.5%, sem þýðir að þeir sem skulda þurfa að blæða meira en nokkurn tíma áður, á meðan þeir sem lánuðu maka krókinn sem aldrei fyrr. Niðurstöðurnar af þessu óréttlæti má finna í launum stjórnenda hjá bönkunum, þeir eru að hagnast gífurlega á breyttum stýrivöxtum, á meðan einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki eru að fara á hausinn.

Það finnst mér óréttlátt.

Í þriðja lagi finnst mér ég svikinn af ríkisstjórn Íslands, sem hefur nákvæmlega ekkert gert til að vernda fólkið í landinu gegn þeim ofurkláru fjármálaspekúlöntum sem stjórna hagkerfinu sjálfu úr tryggum stöðum innan bankanna. Þegar í ljós kom að árás var gerð á íslenska hagkerfið sagði Árni Mathiesen í Silfri Egils að ríkið myndi standa með bönkunum. Þegar hann var spurður um fólkið í landinu, endurtók hann að bankarnir yrðu studdir. En hvað ef það voru bankarnir sem réðust á íslenska hagkerfið? Á þá samt að styðja þá frekar en fólkið í landinu?

Það finnst mér rangt.

Í apríl síðastliðnum tilkynnti forstjóri Seðlabanka Íslands að árás hefði verið gerð á íslenska fjármálakerfið, sem þýddi að hækka þurfti stýrivexti - sem hefur mest áhrif á blæðingu lána í dag - en það sem gerðist í raun og veru var að bankarnir keyptu inn gífurlegt magn af erlendum gjaldeyri og hættu að lána hann, þeir segja til að fyrirbyggja sína stöðu vegna erfiðleika sem þeir sáu fyrir í náinni framtíð, en sannleikurinn er sá að bankar í dag eru fyrirtæki sem þurfa að sýna eigendum sínum hagnað, og farið var í aðgerðir til að tryggja hagnað við ársfjórðungsuppgjör. Áhrifin: þessi aðgerð bjó til erfiðleika sem þýddi að allt nema laun hefur hækkað um 30%, auk þess að afborgun af öllum lánum, bæði bíla og húsnæðislánum sem tekin hafa verið með verðtryggingu, hafa aukist mikið.

now_you_can_have_any_type_of_loan

Þetta hefur verið aðal orsakavaldurinn í þeirri gjaldþrotahrinu sem er að skella á, auk þeirrar hagræðingar innan fyrirtækja sem veldur því að fyrirtæki hafa neyðst til að segja upp starfsfólki. Ekki skánar þetta þegar haft er í huga að það er einnig erfið staða víða um hinn vestræna heim vegna hækkandi olíuverðs, sem er hugsanlega hægt að rekja til meiri neyslu í Indlandi og Kína, eða spákaupmennsku hjá OPEC. Einnig hefur fall banka í Bandaríkjunum vegna gjaldfallinna húsnæðislána verið stór orsakavaldur.

Gífurleg lántaka bankanna í erlendri mynt olli gengisfellingu, en hún hafði þau áhrif að allar innkeyptar vörur hækkuðu, og Seðlabankinn sá sig tilneyddan til að hækka stýrivexti, til þess að bankarnir réðu við að greiða erlendar skuldir sínar - en þeir fengu að sjálfsögðu nauðsynlega aukningu tekna með hækkun stýrivaxta. Bankarnir hafa hætt útlánum um sinn, sem þýðir að fyrirtæki eiga ekki jafn auðvelt með að nálgast lausafé og áður, sem þýðir að spilaborgin fellur verði engu breytt.

Er efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að rannsaka þetta mál?

Getur það verið satt, að bankarnir hafi tekið þessi gífurlega háu erlendu lán, og haldið þessum peningunum fyrir sig, og í stað þess að neyðast til að borga sjálfir af sínum eignum, hafi þeir leitað í vasa allra þeirra sem eiga þegar lán hjá þeim, með því að leika sér að íslenska hagkerfinu?

Hvernig stendur á því að bankarnir græða á meðan allir hinir tapa?

Ég er ekki nógu lögfróður til að vita hvort að okurlán upp á minnst 19.8% séu ólögleg eða ekki á Íslandi, en mér finnst að svo ætti að vera.

Málið er að hugsanlega er verið að okra á skuldurum innan ramma lagana, en alls ekki í anda þeirra. Þeir einu sem geta gert eitthvað í þessu máli, er ríkisstjórnin, en þeim er mikill vandi á höndum og í raun óleysanlegur. Því hugsum okkar að ríkisstjórnin gerði það sem er rétt: hún fellir allar verðtryggingar úr gildi. Umsvifalaust færu allir viðskiptabankarnir á hausinn og hagkerfið yrði með því lagt í rúst, og þar sem Ríkið hefur verið að taka erlend lán og lánað bönkunum, er hætta á að það sama kæmi fyrir íslensku þjóðina. Sá sem vogaði sér að snerta við þessum verðtryggingum yrði sjálfsagt samstundis stimplaður sem geðveikur kommúnisti. En hvað getur ríkisstjórnin gert í dag?

Að mínu mati er aðeins eitt sem ríkið getur gert. Ef hún ætlar að halda höfði og gefa Íslendingum von, verður hún að tilkynna að hún standi fyrst og fremst með fólkinu í landinu, en ekki fyrst og fremst með bönkunum. Við verðum að vinna saman. Ríkið verður að kalla á þjóðarsátt, það verður að finna leiðir til að gera Íslendingum mögulegt að búa áfram á Íslandi.

 

Eldri bloggfærslur mínar tengdar þessum málum:

  1. Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008 | 22:14
  2. Íslenskt réttlæti: Erum við að borga alltof mikið í skatta og af lánum vegna bankarána og skattsvika sem við botnum ekkert í? 12.4.2008 | 09:46
  3. Á íslenska þjóðin að redda bönkunum? 9.5.2008 | 22:46
  4. Til hvers þarf ríkið heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán? 30.5.2008 | 07:47
  5. Getur verið að vörubílstjórar noti trukka en ríkið löggur á meðan hinn sanni sökudólgur glottir í kampinn? 24.4.2008 | 19:03
  6. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu? 30.3.2008 | 19:36
  7. Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota? 2.4.2008 | 08:48
  8. Hvar eru Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á meðan neyðarástand ríkir á fjármálamarkaði? 1.8.2008 | 06:25
  9. Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn? 4.4.2008 | 08:57
  10. Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn vinsælasti og besti stjórnmálaflokkur Íslands í dag? 8.5.2008 | 22:14
  11. Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma? 31.1.2008 | 19:17
  12. Bóndinn sem seldi nautgripina - dæmisaga um framtíðarblindu 9.10.2007 | 22:42
  13. Hvernig verður Ísland eftir 100 ár? 23.6.2008 | 13:30
  14. Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði? 3.4.2008 | 22:48
  15. Gætir þú hugsað þér að búa í gámi? 26.3.2008 | 19:48
  16. Tollurinn: með okkur eða á móti? 8.2.2008 | 18:06
  17. Hvernig stendur á því að þegar heimsmarkaðsverð á olíu lækkar, krónan styrkist og hlutabréf erlendis hækka, berast engar fréttar af lækkandi bensínverði á Íslandi? 29.7.2008 | 22:39
  18. Af hverju er eldsneyti allt í einu orðið svona dýrt? 26.6.2008 | 00:15
  19. Hvað er ábyrgð? (30 tilvitnanir) 23.3.2008 | 13:24

 

 

 

Myndir:

Loanshark: Foreclosure Educationa and Strategy

Get a Loan Through Us: IBER-Mortgages

Lánsgleði: BuckMoon.com

Vog: Brooklyn College Pre-Law



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband