Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Hverjar eru bestu James Bond myndirnar? (Listi með stjörnugjöf yfir allar Bond kvikmyndir sem komið hafa út frá 1962)
2.8.2008 | 15:21
Um daginn bað bloggvinur minn og fyrrum erkifjandi úr skákheiminum Snorri G. Bergsson mig um að búa til lista yfir allar Bond myndirnar og gefa þeim einkunn.
Einkunnirnar eru allar eftir minni. Þær gætu breyst ef ég horfi á hverja og eina þeirra aftur og rýni þær vandlega, þannig að allar þessar einkunnir eru með fyrirvara.
Bestu Bond myndirnar að mínu mati eru Goldfinger (1964 - Sean Connery) og Casino Royale (2006 - Daniel Craig). Í humátt á eftir þeim koma From Russia with Love (1963 - Sean Connery), On Her Majesty's Secret Service (1969 - George Lazenby) og Goldeney (1995 - Pierce Brosnan).
Sú allra lélegasta er án vafa Casino Royale (1967) þar sem 6 ólíkir leikarar léku James Bond, og meðal þeirra Ursula Andres (fyrsta Bondstúlkan), Peter Sellers, David Niven og Woody Allen.
Lélegasta alvöru James Bond myndin finnst mér vera You Only Live Twice (1967), en það skín í gegn hvað Sean Connery leiðist í aðalhlutverkinu. Annars lék hann í hinni ágætu Never Say Never Again (1983) sem var reyndar ekki gerð með samþykki framleiðenda seríunnar.
Allar Roger Moore myndirnar eru vel gerðar. Það er létt yfir þeim og húmorinn ágætur, hasaratriðin skemmtileg, en þær vantar alla dýpt. Samt eru þær ómissandi.
Daniel Craig hefur blásið glænýju og fersku lífi í þennan klassíska kvikmyndakarakter, og ég bíð spenntur eftir næstu mynd, sem er væntanleg í nóvember á þessu ári: Quantum of Solace, með Daniel Craig í aðalhlutverki.
Bondmynd | Ár | Einkunn Don Hrannars | Aðalleikari | |
1 | Dr. No | 1962 | *** | Sean Connery |
2 | From Russia with Love | 1963 | ***1/2 | Sean Connery |
3 | Goldfinger | 1964 | **** | Sean Connery |
4 | Thunderball | 1965 | *** | Sean Connery |
5 | You Only Live Twice | 1967 | *1/2 | Sean Connery |
6 | On Her Majesty's Secret Service | 1969 | ***1/2 | George Lazenby |
7 | Diamonds Are Forever | 1971 | **1/2 | Sean Connery |
8 | Live and Let Die | 1973 | *** | Roger Moore |
9 | The Man with the Golden Gun | 1974 | *** | Roger Moore |
10 | The Spy Who Loved Me | 1977 | *** | Roger Moore |
11 | Moonraker | 1979 | *** | Roger Moore |
12 | For Your Eyes Only | 1981 | *** | Roger Moore |
13 | Octopussy | 1983 | *** | Roger Moore |
14 | A View to a Kill | 1985 | *** | Roger Moore |
15 | The Living Daylights | 1987 | *** | Timothy Dalton |
16 | Licence to Kill | 1989 | *** | Timothy Dalton |
17 | GoldenEye | 1995 | ***1/2 | Pierce Brosnan |
18 | Tomorrow Never Dies | 1997 | *** | Pierce Brosnan |
19 | The World Is Not Enough | 1999 | **1/2 | Pierce Brosnan |
20 | Die Another Day | 2002 | *** | Pierce Brosnan |
21 | Casino Royale | 2006 | **** | Daniel Craig |
! | Never Say Never Again | 1983 | *** | Sean Connery |
! | Casino Royale | 1967 | * | Peter Sellers/Woody Allen/Ursula Andress/David Niven/Terence Cooper/Daliah Lavi |
Ísland í dag: barn deyr í sjúkrabíl af botnlangabólgu eftir að hafa verið sent tvisvar heim af spítala
2.8.2008 | 09:41

Þetta er sorgleg saga. Ekkert er verra en að missa barn.
Áhugavert væri að vita á hvaða forsendum barnið var sent heim tvisvar sinnum, til þess eins að deyja á leið til spítalans í þriðja sinn.
- Er virkilega svona erfitt að greina botnlangabólgu?
- Af hverju var barnið sent heim ef það var kvalið?
- Er þetta dæmi um hnignandi heilbrigðiskerfi á Íslandi, þrátt fyrir auknar tekjur ríkisins?
- Er einhverju í umhverfinu eða starfsháttum um að kenna, eða var þetta einfaldlega óumflýjanlegt og óviðráðanlegt við þessar aðstæður?
Um greiningu á botnlangabólgu af doktor.is:
Einkennin geta verið margvísleg en yfirleitt er ferillinn nokkuð hefðbundinn.
Ungabörn og eldra fólk hafa mjög oft óhefðbundin einkenni sem geta tafið fyrir greiningu sjúkdómsins og það getur leitt til slæmra fylgikvilla.
- Byrjar yfirleitt með kviðverk í eða ofan við nafla.
- Á nokkrum klukkustundum flytur verkurinn sig niður og til hægri í kviðarholinu. Hann magnast upp og er sérstaklega slæmur við hreyfingu.
- Margir finna fyrir ógleði og kasta jafnvel upp. Sumir fá niðurgang.
- Líkamshitinn er yfirleitt í kringum 38° gráður en þriðji hver einstaklingur er hitalaus.
Í síðustu málsgrein er talað um mögulega slæma fylgikvilla. Nú veit ég hvað það þýðir.
Ég ásaka engan, enda þekki ég ekki til málsins og veit að erfitt getur verið að greina botnlangabólgu, en mér finnst samt furðulegt að barnið hafi ekki verið undir eftirliti á sjúkrahúsinu í stað þess að láta það fara heim.
Öll mín samúð fer til aðstandanda barnsins.
![]() |
Ungt barn lést í sjúkrabíl í þriðju ferð til læknis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég borgaði ekki nema 1.1 milljarð fyrir þetta. Tvær fyrir eina. Enda ógeðslega ríkur.
![]() |
Milljarður fyrir tvíburamyndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Endurflutningur á útvarpsþætti Sverris Stormskers með Guðna Ágústssyni bannaður - og RÚV stendur heil að baki Helga Seljan gegn borgarstjóranum
1.8.2008 | 20:09
Máli Sverris Stormskers og Guðna Ágústssonar er líklega lokið, nema upptaka úr þættinum leki inn á Netið. Ég heyrði ekki fyrstu 50 mínútur þáttarins, en fannst samræða þeirra Sverris og Guðna afar skemmtileg þegar ég kveikti á stöðinni - svo skemmtileg að þegar heim var komið leitaði ég aftur að þættinum á útvarpstæki, en fann hann ekki, kveikti á Netinu og hlustaði gegnum Netið, en hugsanlega hefur eitthvað gerst þarna í millitíðinni sem varð til þess að fylla endanlega mælinn hjá Guðna.
Ég hefði gaman af að heyra hvað það var, en fæ sjálfsagt aldrei að gera það, þar sem að þessi þáttur hefur verið bannaður, sem er reyndar söguleg stund því ég man ekki til þess að endurflutningur nokkurs útvarpsþáttar hafi verið settur í straff á Íslandi. Minnir mig svolítið á sögur frá gamla Sovét, en það er sjálfsagt slök samlíking.
Á baksíðu 24 Stunda í dag er eftirfarandi haft eftir Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra á Sögu:
"Ef viðmælendur upplifa ... að þeim sé sýnd ósvífni og vegið sé að persónu þeirra getum við sleppt endurflutningi."
Með öðrum orðum: endurflutningur á þættinum hefur verið bannaður. Reyndar er ég alls ekki ósáttur við rökin og finnst þau mannúðleg, að útvarpsstjóri tekur ákvörðun út frá mannvirðingu og tilfinningum þess sem fannst að sér vegið.
Merkilegt hversu ólíkan tón við heyrum frá RÚV, en þar hefur Kastljós þátturinn þar sem Ólafi F. fannst honum sýnd ósvífni og vegið að hans persónu, verið settur á netið og hann sýndur öllum sem áhuga hafa, án þess að Ólafur F. hafi verið spurður hvort hann væri sáttur við það. Þetta viðtal geturðu séð með því að smella hér. Reyndar óskaði Ólafur sjálfsagt ekki eftir banni á endurflutningi þáttarins, eins og Guðni Ágústsson gerði þegar hann óskaði eftir því við útvarpsstjóra Sögu.
Ég reikna reyndar með að Sverrir sé miður sín yfir þessu og muni ekki láta þáttinn leka á Netið. Spurning reyndar hvort hann fái nokkru um það ráðið. Það þarf ekki nema einhvern einn til sem hefur tekið þáttinn upp til að koma honum á Netið. Synd að þetta skuli hafa gerst, því ég hef ekki heyrt jafn áhugaverðar samræður í útvarpi síðan ég man eftir mér. En stormskerið er bara eins og stormsker eru, og mín skoðun er að fólk sem fer í viðtal við stormsker ættu að mæta í flotgalla.
Heyrst hefur talað um að embætti borgarstjóra og borgarbúum Reykjavíkur hafi verið sýnd vanvirðing í beinni útsendingu, en ég er nú ekki sammála því. Hins vegar var taktík Helga Seljan afar slök og virkaði engan veginn til að fá svör frá borgarstjóranum. Sumu fólki fannst Helgi standa sig vel af því að hann var harður, en ég geri hins vegar greinarmun á því að vera harður og að vera góður. Ég hefði verið til í að hlusta á þá báða hefðu þeir getað rætt almennilega saman.
Mig grunar að máli Helga og Ólafs sé lokið í bili, en álit mitt á RÚV hefur hríðfallið í kjölfar málsins, sérstaklega þar sem að menn virðast standa með Helga bara af því að þeir eru í sama liði, í stað þess að viðurkenna að þáttarstjórn hans var slök. Hann mun ekki bæta sig sem spyrill fái hann ekki heiðarlega gagnrýni, sem bloggheimar hafa þó veitt honum. Spurning hvort hann hlusti. Ég vona það.
Fyrri færslur mínar um þessi mál:
Núna: Sverrir Stormsker og Guðni Ágústsson í stórskemmtilegu ...
Guðni Ágústsson rýkur reiður út eftir erfiðar spurningar frá ...
Ólafur F. hemur reiðina gegn harðri yfirheyrslu í Kastljósi (...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)

Það eru kreppublikur á lofti. Kreppan er kannski ekki skollin á, en merkin eru farin að birtast og hagspámenn sjá hana skella yfir þjóðina í haust.
Þetta byrjaði allt árið 2004 þegar hægt var að taka húsnæðislán upp á 80-100% í fyrsta sinn. Þá kostaði íbúð A 10 milljónir króna. Þegar ljóst var að nægur peningur var á markaðnum, vegna lánanna, tók verð húsnæðis að rjúka upp, og innan fárra ára varð íbúð A 30 milljón króna virði.
Ástæðan er einföld. Laun voru mæld þannig að þau ættu að duga til að greiða þessi lán án þess að viðkomandi legði sig í hættu, enda reiknað með verðbólgu upp á 2.5 prósent, sem gerir lán á 4.3% að 6.8%. Nú er verðbólgan um 15% og því 4.3% lán í raun á 19.3% vöxtum, vegna verðtrygginga.
Sumir keyptu fasteignir til að eignast eitthvað, aðrir til að maka krókinn og sumir til að stækka við sig. Ef viðkomandi missir vinnuna, þarf hann/hún samt að greiða af lánunum. Takist það ekki fer viðkomandi í greiðsluþrot og bankinn eignast fasteignina.
Nú hefur um 500 góðu starfsfólki verið sagt upp á Íslandi í júní og júlí. Taktíkin sem Glitnir sýndi í Mest málinu vekur mikinn óhug, þar sem fyrirtækinu var skipt upp í tvær einingar og sú verðminni gerð gjaldþrota, sem þýðir að fjöldi starfsfólks fær engin laun þessi mánaðarmótin. Sú spurning hlýtur að vakna hjá viðskiptavinum: hvað ef ég lendi í slíkum vandræðum? Mun bankinn leggja sitt af mörkum til að skilja mig eftir allslausan í auðninni, án þess að koma mér til hjálpar?
Bensínverð hefur rokið upp á Íslandi (þó að heimsmarkaðsverð lækki), þrjú stór fyrirtæki hafa sagt upp fjölda starfsmanna á skömmum tíma, sala á húsnæði og bílum hefur stöðvað og sögur í gangi um að menn séu farnir að borga allt að kr. 500.000 með jeppum sem þeir reyna að selja með láni. Það er neyðarástand akkúrat núna, og þeir einu sem geta gert eitthvað í málinu eru í sumarfríi og hafa verið í sumarfríi frá því einhvern tíma í maí.
En hvað geta svosem stjórnmálamenn gert? Eru þeir ekki hvort eð er valdir til starfa meira vegna vinsælda en getu, og klókinda til að næla í betri bita fyrir sitt fólk? Áttar ríkisstjórnin sig á því að fólkið í landinu er þeirra fólk?
Við lærum ekki að trúa á þetta góða fólk þegar við heyrum þau skilaboð að ríkið styðji við bankana frekar en fólkið, nákvæmlega þá aðila sem virðast vera að leika fólk hvað grimmast.
Þjóðin er ekki bankarnir. Bankarnir eru einkarekin fyrirtæki, sem seldir voru auðmönnum af ríkinu. Hefur það gleymst? Hvort er Ísland verksmiðja eða þjóð? Hver er munurinn?
Nú er komið upp neyðarástand. Það er hægt að gera eitthvað í málunum, en skyndilausnir eins og að taka upp erlendan gjaldmiðil eru samt alls ekki lausnin, né að ganga í Evrópusambandið þar sem að slíkir samningar geta tekið áratug. Málið er að fólkið í landinu verður að fá trú á stjórnmálamennina. Við verðum að trúa því að ráðherrar séu að vinna fyrir fólkið, að þeim sé ekki sama. Við verðum að trúa því að fólkið sé mikilvægara í augum ríkisins heldur en bankarnir.
Áhugaverð myndbönd úr fréttatímum RÚV sem tengjast þessari færslu:
31.7.2008: Samkomulag Mest stenst ekki lög
30.7.2008: Mest: Starfsmenn gætu tapað hundruðum þúsunda
31.7.2008: Kaupþing hefur hagnast um 34 milljarða í ár
31.7.2008: Skattakóngar ársins
30.7.2008: Allir starfsmenn Ræsis missa vinnuna
30.7.2008: Verslunum Just4kids lokað
29.7.2008: Góð afkoma (Landsbanka Íslands)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)