Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Ný kvikmyndasíða
29.6.2008 | 21:52
Ég hef lengi tamið mér að skrifa um allar kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem ég sé, og allar bækur sem ég les. Þetta hvetur mig til að vanda valið á afþreyingarefni og gefur því nýja vídd, því alltaf virðist ég uppgötva eitthvað nýtt þegar ég skrifa.
Síðasta árið hef ég skrifað töluvert af kvikmyndagagnrýni á moggabloggið við afar góðar viðtökur, og komist í kynni við fleira fólk sem hefur gaman af að pæla í bíómyndum. Þetta hefur orðið til þess að á mannafundum finnst alltaf eitthvað umræðuefni, ef ekki yfir borðinu, þá af blogginu. Sem er gaman.
En nú hef ég ákveðið að venda mínu kvæði í kross og skrifa gagnrýni á ensku. Mig langar til að stækka lesandahópinn um leið og ég æfi mig við að hugsa og skrifa á ensku. Að sjálfsögðu mun ég samt halda áfram að blogga á íslensku, en líklega ekki jafnmikið um kvikmyndir og áður.
Ég keypti mér enn eitt lénið hjá snilldarfyrirtækinu Lunarpages fyrir síðuna Seen This Movie! og hef þegar birt þar nokkra dóma um sumarmyndirnar í ár, sem og aðrar ágætar kvikmyndir. Ég á eftir að þróa síðuna töluvert áfram, en held að þetta sé fínt upphaf.
Sumarmyndirnar sem ég hef rýnt eru þessar:
The Incredible Hulk (2008) ***
Bloggar | Breytt 30.6.2008 kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sleggjudómur Stefáns Friðriks Stefánssonar: "Eitthvað stórlega vantar á siðferði þeirra sem starfa í bandarískum skólastofnunum."
28.6.2008 | 18:16
Stefán Friðrik Stefánsson skrifar grein um kynlífshneyksli við Bandarískan skóla þar sem að 25 ára kennari stakk af með nemanda sínum (hugsanlega 13 ára) yfir landamæri Mexíkó. Einnig nefnir hann tvö önnur dæmi, án þess að greina nánar frá þeim. Greininni er lokið með staðhæfingunni:
Greinilegt að eitthvað stórlega vantar á siðferði þeirra sem starfa í bandarískum skólastofnunum.
Það er eitthvað til í þessu, en þetta er vissulega ofureinfaldur sleggjudómur á máli sem má ekki kippa úr samhengi. Staðhæfingum sem slíkum er oft fleygt fram þegar þekkingu vantar á aðstæðum og forsendum. Ég vil reyna að bæta aðeins úr.
Ég hef unnið mikið með góðum fagmönnum í bandarískum skólum og fullvissa lesendur mína um að almennt siðferði meðal kennara þar er afar gott. Reyndar var ég með kennurum í Bandaríkjunum þegar þetta mál kom upp, og áhugaverðar umræður spunnust um það.
Kennarinn sem strauk með nemanda sínum til Mexíkó er frá Lexington í Nebraska. Þangað hef ég farið nokkrum sinnum. Stúlka sem ólst upp í þessum bæ sagði mér að þegar hún var lítil gat hún gengið óhult um göturnar og fólk skildi hús sín eftir ólæst á kvöldin, eins og enn viðgengst í miðríkjum Bandaríkjanna, nema að síðustu árin hefur þróunin verið frekar óhugnanleg. Fréttir um skotbardaga berast reglulga frá bænum, enda hafa þrjú vopnuð götugengi hreinlega tekið völdin í bænum, sem er álíka fjölmennur og Reykjavík en aðal iðnaður þeirra er kjötvinnsla.
Fyrir um 10 árum síðan byrjuðu innflytjendur að streyma inn í Lexington, en það sárvantaði ódýran starfskraft í kjötvinnslu, og var afar vel tekið á móti þeim. Lögð var áhersla á að kenna ensku sem annað mál í skólum á svæðinu.
Hins vegar breyttist margt þegar ríkisstjórn Bush var kjörin (hugsanlega) til valda árið 2000. Fyrir nokkrum árum fór ríkisstjórnin af stað með nýtt menntakerfi sem kallast No Child Left Behind, sem þýðir í raun að skólar tapa fjárhæðum með hverjum bekk sem sýnir of góðan árangur.
Öfugsnúið og fáránlegt? Já.
Staðreynd? Já.
Það er lögð mikil áhersla á að allir nemendur komist í gegnum nám, sem þýðir að árangursstaðlar hafa verið mikið lækkaðir víðast hvar, og sem hefur aftur á móti mikil áhrif á afburðarnemendur sem er haldið aftur. Bæði kennarar og aðrir sérfræðingar í menntageiranum þola ekki þetta kerfi - og hafa margir leitað sér starfa á öðrum vettvangi vegna þess.
Kennarar í Bandaríkjunum eru láglaunastétt eins og á Íslandi, og þeir sem hafa haldið áfram hafa gert það af hugsjón, en þegar kerfið gerir þeim ómögulegt að vinna eftir eigin hugmyndum, borga lægri laun en fást fyrir að starfa við færibandavinnu og skapar fleiri vandamál en leysir, hrökklast kennarar sem starfað hafa af hugsjón í önnur störf.
Snúum okkur aftur að Lexington. í nokkur ár hefur bærinn verið í miklum vandræðum með kennara. Þeir geta ekki borgað góð laun og góðir kennarar fást ekki til að flytja á svæðið vegna þeirra miklu vandamála sem ríkja þar, aðallega vegna mikils fjölda ólöglegra innflytjenda. Margir hæfir kennarar sem fæðst hafa í Lexington og ætlað sér að kenna þar, fá tilboð sem þeir geta ekki hafnað, annað hvort frá öðrum bæjum eða ríkjum í Bandaríkjunum. Ástandið er semsagt slæmt í bænum.
Ekki má heldur gleyma að fjármunir sem voru áður í bandaríska menntakerfinu hafa gufað upp vegna stríðsreksturs í Afganistan og Írak, og því hefur þurft að leggja af námsleiðir sem menntastofnanir höfðu þróað í áratugi.
Allt þetta veldur því að nú er erfitt að ráða hæfa og góða kennara í Lexington, og því þarf að ráða fólk sem hefur hugsanlega ekki það háa siðferðisvitund sem flestir kennarar í Bandaríkjunum hafa. Sem lýsir sér einmitt í svona máli.
Vandamál í bandarískum menntamálum hafa stóraukist vegna stöðugra árása á það vel unna starf sem áunnist hafði í fjölda áratuga. Þetta er ein af afleiðingum stríðsrekstursins í Bandaríkjunum, og eigum við örugglega eftir að heyra mun fleiri voðafréttir á næstunni, þar sem úr skólum er að útskrifast kynslóð sem upplifað hefur ómanneskjulegt menntakerfi, sem vinnur meira gegn fólki en með því, þar sem að nám snýst mun meira um árangur þeirra sem minnst mega sín gagnvart viðmiðum sem eru alltof lág, í stað þess að geta unnið með öðru fólki og liðið vel í námi án takmarkana trúarbragða eða stjórnmála.
Skólum með afburðarnemendum er ekki umbunað í Bandaríkjum nútímans. Þeim er bókstaflega refsað, því að ef þeir skila góðum árangri líta pólitíkusarnir þannig á að skólinn hafi of mikinn pening á milli handanna, og veita því meiri pening í skóla sem nær slökum árangri. Af þessum sökum reyna skólar að halda aftur af afburðarnemendum, og leyfa þeim ekki að njóta sín.
Ég veit þetta af eigin reynslu, því fyrir aðeins viku síðan, útskrifaðist nemandi frá Lexington úr áfanga hjá mér sem ég kenni mér til ánægju í sumarfríi, en hún hefur tekið kúrsinn minn í þau þrjú ár sem henni tókst að ná þeim þungu prófum sem þarf að ná til að komast inn, en rúmlega hundrað nemendur sækja um að komast inn - aðeins 14 komast að, - hún kvaddi mig með tárin í augunum og þeim orðum að þessi kúrs hafi verið ljósið við enda myrkra ganga.
Til að komast í áfangann þurfti hún heldur betur að berjast - kennararnir og skólastofnunin vildi ekkert fyrir hana gera, hún þurfti að berjast fyrir leyfi til að sækja um í áfangann. Og þegar hún hafði fengið það í gegn, þurfti hún að taka prófið og ná því villulaust. Afburðarárangur virðist ekki lengur vera af hinu góða, heldur dæmi um sjálfselsku. Það er viðhorf sem má gagnrýna.
Þetta umhverfi flúðu hinn 25 ára kennari Kelsey Peterson, fædd og uppalin í Lexington, og hugsanlega 13 ára nemandi hennar Fernando Rodriguez 25. október 2007. Ég þekki ekki söguna á bakvið söguna um flótta þeirra, annað en að þau virðast ástfangið par, - aðskilin af aldri og stétt. Það er lítið mál að fordæma þau án þess að kynnast þeim betur, en spurning hvort við getum haldið persónulegum skoðunum okkar aftur á meðan við hlustum á sögu þeirra.
Við þekkjum ekki söguna sem þetta fólk hefur að segja. Reyndar hefur parið verið handtekið í Mexíkó og Kelsey verið send til Bandaríkjanna þar sem hún er í haldi FBI. Rodriguez hefur ekki fengið að koma aftur til Bandaríkjanna þar sem að hann er ólöglegur innflytjandi. Ekki er vitað hvort að flótti þeirra hafi verið vegna þess að þau hafi átt í ástarsambandi í raun og veru, eða hvort þau hafi flúið af ótta vegna þeirra ásakanna sem á þau voru bornar. Ég vil enn og aftur forðast að dæma það sem ég þekki ekki nógu vel.
Hér er áhugavert myndband um framvindu mála, þar sem meðal annars kemur fram að hugsanlega er nemandinn mun eldri en 13 ára, þar sem að hann hefur enga pappíra til að sýna fram á raunverulegan aldur sinn.
Smellta á myndina til að skoða myndbandið:
Annars þakka ég Stefáni fyrir ágætis tækifæri til að fjalla um fordóma og hættulegar alhæfingar. Ég hefði skrifað athugasemd við færslu hans, en geri það ekki þar sem að hann birtir aðeins sumar athugasemdir eftir að hafa rýnt þær sjálfur. Það finnst mér ekki góð regla.
Besta leiðin til að taka á sleggjudómum er að rannsaka málið frá fleiri sjónarhornum en einu. Slíkt er alltaf lærdómsríkt þegar hugsað er vandlega um viðkomandi mál, en hættulegt ef við meðtökum fordómana umhugsunarlaust.
Myndir: Wikipedia og almennar fréttasíður
Af hverju er eldsneyti allt í einu orðið svona dýrt?
26.6.2008 | 00:15
Þegar ég var í Bandaríkjunum síðustu tvær vikurnar spurði ég marga þessarar spurningar. Margir ypptu öxlum og svöruðu: "Bush". Aðrir héldu því fram að þetta væru aðgerðir sem tengdust spákaupmennsku í fjármálaheiminum.
Spáum aðeins í þetta. Í Bandaríkjunum kostaði lítrinn af bensíni um 23 cent árið 1999 (um kr. 20), en er í dag um 1 dollar (kr. 82). Þetta þýðir að verðið hefur hækkað um 400% á kjörtímabili Bush, og að vonum er hann ekki vinsælasti maðurinn í Bandaríkjunum þessa dagana. En þar er samt kannski verið að hengja bakara fyrir vínarbrauðsgerðarmann.
Nýjustu hækkanirnar hafa ekki verið raktar til náttúruhamfara, styrjalda eða hryðjuverka, heldur til spákaupmennsku sem orðið hefur til vegna stærri markaðar. Eftirspurn eftir hráolíu hefur aukist gífurlega þar sem Indverjar og Kínverjar hafa stóraukið eldsneytisnotkun, og fólk er tilbúið að borga mjög háar upphæðir til að halda vélum sínum gangandi.
Það er einfaldlega verið að prófa hversu mikið eigendur komast upp með að hækka verðið og svo framarlega sem að fólk kaupir eins og ekkert hafi í skorist, sjá þeir enga ástæðu til að hækka ekki verðið. Reyndar er hafin rannsókn á þessu máli í Bandaríkjunum og búið að leggja fyrir þingnefnd, þar sem að ef þetta er satt, og þessum fyrirtækjum stjórnað af Bandaríkjamönnum, gætu viðeigandi verið dæmdir í fangelsi fyrir fjársvik og landráð til margra ára.
Ég vona bara að íslensku olíufélögin séu ekki að leika sér að okkur líka, en hækkanir hérna heima hafa verið jafnvel enn öfgafullri en erlendis síðustu vikurnar, og ég spyr hvort að verið sé að fylgjast með af löggildum aðilum hvort að þessar hækkanir séu eðlilegar og í samræmi við gengisbreytingar (sem bankar virðast hafa valdið) og hærra hráolíuverð (sem olíufyrirtæki virðast hafa valdið).
Ég get ekki annað séð en að stórfyrirtæki eins og bankar og olíufyrirtæki séu að verða versti óvinur fólksins, þar sem þau hlíta engu siðferði, en hugsa einungis um ebitu og bættan hag eigenda. Er kominn tími til að spyrja sig hvort að fólkið stjórni kerfinu eða kerfið fólkinu?
Það þarf varla að rifja upp hvað gerist þegar heilar þjóðir fara af stað með slíkar pælingar.
En svo eru líka til kaldar pælingar um að þetta sé einfaldlega leynivopn repúblikanaflokksins til að halda völdum, með því að koma með töfralausn rétt fyrir kosningar, og auka þannig vinsældir eigin frambjóðanda.
Áhugaverðar pælingar um hækkanirnar:
3 leiðir til að lækka bensínverð
Sannleikskorn frá Mike Gravel:
Meiri snilld frá Mike Gravel, sem mun reyndar ekki verða í forsetaframboði, þar sem að hann tapaði í forkosningum - en hér spáir hann í kerfið og að úrslit kosninga hafi verið ráðin fyrir löngu síðan þar sem að demókrataflokkurinn og repúblikanaflokkurinn sé í raun stjórnaður af sama fólkinu:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hvernig verður Ísland eftir 100 ár?
23.6.2008 | 13:30
Lesendur þurfa ekki að svara öllum þessum spurningum, en gaman væri að fá einhverjar pælingar í gang.
- Verður betra eða verra að vera Íslendingur eftir 100 ár?
- Hvernig verður heilsa, menntun, iðnaður, fjármál og viðskipti eftir 100 ár?
- Verður Ísland enn sjálfstæð þjóð?
- Hvaða tungumál munu Íslendingar tala?
- Verður Ísland ennþá fallegt land?
- Verða Íslendingar fallegir?
- Verða Íslendingar ríkir?
- Verða Íslendingar hraustir?
- Mun tæknin leiða Íslendinga fram á veginn eða til glötunar?
- Hver man eftir þér og af hverju?
Mynd: Travel Reader
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Get Smart (2008) ***1/2
23.6.2008 | 02:20
Maxwell Smart (Steve Carell) þráir að vera njósnari. Reyndar starfar hann fyrir leyniþjónustu sem aðal samtalsgreinir stofnunarinnar, en skýrslurnar sem hann skrifar eru það nákvæmar að enginn nennir að lesa þær. Hann fær toppeinkunn í njósnaraskólanum en Stjórinn (Alan Arkin) leyfir honum ekki að komast út í heim ævintýra vegna mikilvægi hans sem greinir.
Þegar ráðist er á Stofnunina og í ljós kemur að njósnarar um allan heim hafa verið myrtir, fær Smart loksins tækifæri til að sanna sig. Hann er þegar búinn að greina vandann og veit miklu meira um fjandmennina en nokkur annar innan stofnunarinnar, þannig að hann er ágætlega undirbúinn fyrir verkefnið. Eina vandamálið er að hann er algjörlega reynslulaus, hefur ofsatrú á sjálfum sér og er svolítið klaufskur. Smart fær Númer 99 (Anne Hathaway) sem samstarfsfélaga, en hún þarf að hafa sig alla fram við að bjarga honum úr þeim fjölda vandamála sem hann lendir í vegna eigin klaufaskaps.
Aðeins tveir njósnarar fyrir utan númer 99 er á lífi. Það eru númer 23 (Dwayne "The Rock" Johnson) sem þarf að sitja heima og sjá um greiningarvinnuna í stað Smart og númer 13 (Bill Murray) sem er svo óheppinn að hafa verið plantað niður í tré, en þeir þurfa að sigrast á illmennunum Siegfried (Terence Stamp), Shtarker (Ken Davitian) og Dalip (Dalip Singh Rhana).
Það er óvenju mikið af skemmtilegum persónum í ólíklegustu hlutverkum, en hæst ber að nefna forsetann (James Caan), Bruce (Masi Oka) og Hymie (Patrick Warbutton).
Ég brosti nánast alla myndina og hló stundum, sem er náttúrulega afrek þegar kemur að húmorslausum mönnum eins og mér, þannig að ég get auðveldlega mælt með þessu góðlátlega gríni.
Reyndar skilur hún nánast ekkert eftir sig, en á meðan hún varir er gaman. Það versta við Get Smart er að henni lýkur. Mig langaði til að horfa á þessa mynd enn lengur. Steve Carrell er snillingur, og ljóst að hann hefur nú formlega tekið við stöðu Jim Carrey sem aðal trúðurinn í Hollywood.
Tæknilega er Get Smart jafn vel kvikmynduð og nýjustu James Bond myndirnar, og er óvenju spennandi, rómantísk og fyndin. Hún kemur manni í gott skap með ABBA lagi á óvæntu augnabliki og gefur aldrei eftir.
Leikstjóri:Peter Segal
Einkunn: 8
E.S.
Eitt sem mig langar að minnast á í lokin, það hversu gaman er að fara í bíó hérna í Bandaríkjunum. Aðgangsmiðinn er ekki nema kr. 400 íslenskar, popp+kók+súkkulaði á kr. 500, ekkert hlé, enginn texti og bíóið hreint.
Ég skil ekki alveg hvernig stendur á að miðinn heima kostar kr. 1000 á meðan miðinn hér, í miklu flottara bíói en nokkurn tíma heima kostar ekki nema kr. 400.
Ég myndi glaður fara a.m.k. einu sinni í bíó hverja viku ef það væri mögulegt. Spurning hvort að einhverju íslensku tímariti eða dagblaði vanti kvikmyndarýni?Smart spæjari slær í gegn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 02:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Samkvæmt þinni reynslu, hvort er betra að búa á Íslandi eða í útlöndum?
22.6.2008 | 16:30
Ég hef heyrt fjölmarga halda því fram að betra sé að búa á Íslandi en í útlöndum, en margir af þessum fjölmörgu hafa ekki upplifað hvað það er að búa í öðru menningarsamfélagi, í annarri menningu, með öðru tungumáli.
Það er mjög spennandi að búa í ólíku menningarsamfélagi, en það getur verið mjög krefjandi og erfitt, og stundum freistandi að flytja aftur heim, einfaldlega heimþráarinnar vegna, til að geta hugsað með öðru fólki á íslensku.
Reyndar er spurning hvort að moggabloggið sé ekki einfaldlega búið að leysa þetta mál og gerir fjarlægum Íslendingum mögulegt að finnast þeir vera nálægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gætir þú hugsað þér að flytja erlendis fyrir ástina?
21.6.2008 | 18:50
Hugsaðu þér að þú elskir manneskju sem er ekki sömu þjóðar og þú. Værir þú til í að flytja erlendis til að vera með viðkomandi til frambúðar þó að það gæti þýtt að þú komir lítið til með að hitta eigin fjölskyldu og vini í framtíðinni, læra nýtt tungumál og lifa í annarri menningu en þú hefur vanist?
Hverju gætir þú fórnað fyrir ástina?
Mynd: Gallery Mode Fine Art
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
The Incredible Hulk (2008) ***
18.6.2008 | 12:58
Bruce Banner (Edward Norton) starfar við gosdrykkjaframleiðslu í Brasilíu þegar hann sker sig og dropi af blóðinu hans ógurlega lendir ofan í gosflösku sem síðar er flutt til Bandaríkjanna. Þegar Ross hershöfðingi (William Hurt) berast fréttir um undarleg áhrif gosflöskunnar lætur hann rekja hana til verksmiðjunnar og sendir hóp þrautþjálfaðra hermanna á staðinn. Meðal þeirra er harðjaxlinn Blonsky (Tim Roth) sem hefur hreina unun af bardagalistum og getur varla beðið eftir að fá verðugt verkefni. Þetta verður til þess að Banner þarf að leggja á flótta, breytist í Hulk til að ganga frá árásarmönnunum og vaknar svo nakinn í frumskógum Guatemala.
Banner hefur verið að leita leiða til að útrýma risanum ógurlega með því að gera alls konar tilraunir með eigin blóð. Vísindamaður frá New York sem hefur verið að aðstoða hann óskar eftir nánari upplýsingum um það hvernig Banner breyttist í Hulk. Banner heldur til Virginia háskóla þar sem hann starfaði áður, í leit að upplýsingum úr tölvukerfinu þar. Við leitina rekst hann á gömlu unnustu sína, Betty Ross (Liv Tyler) sem er dóttir hershöfðingjans sem hundeltir hann, og ástin blómstrar á ný.
En Ross hershöfðingi kemst að því hvar Banner heldur sig, og ræðst til atlögu, en nú með erfðabættan Blonsky í broddi fylkingar.
The Incredible Hulk er afar vel gerð mynd á sjónræna sviðinu, og slagsmálaatriðin eru gífurlega flott og skemmtileg. Edward Norton er frábær í sínu hlutverki og einnig er mjög gaman að þeim William Hurt og Tim Roth. Hins vegar er ljóst að myndin hefur verið klippt illa af framleiðendum, sjálfsagt til að stytta hana, en það vantar brot hér og þar í söguþráðinn, nokkuð sem veikir myndina töluvert.
The Incredible Hulk er önnur Marvel mynd sumarsins og hún er góð, en ekki jafn nálægt fullkomnun og hin snilldarlega vel gerða Iron Man. Reyndar birtist Robert Downey Jr. sem Tony Stark í stuttu atriði og tengir myndirnar þannig skemmtilega saman.
Þessi útgáfa af risanum græna er mun betri en draslið sem kom frá Ang Lee árið 2003, þar sem blandað var inn hugtökum sem höfðu ekkert að gera við söguheim Hulk. Reyndar er eitt smá hneykslismál tengt þessari mynd. Edward Norton endurskrifaði handrit myndarinnar, en er ekki getið sem einn af höfundum sögunnar vegna þess að hann er ekki skráður í rithöfundasamband Bandaríkjanna.
Þá veistu það.
Leikstjóri: Louis Leterrier
Einkunn: 7
Myndir: Rottentomatoes.com
Hvaða hugmyndir hafa bandarískir unglingar um ísbjarnarmálið?
16.6.2008 | 16:28
Nemendur mínir í Nebraska heyrðu um ísbjörninn í Skagafirði og vildu fá að koma nokkrum spurningum og athugasemdum á framfæri til Íslendinga og íslenskra stjórnvalda. Þetta eru góðar athugasemdir sem ég held að séu vel virði að skoða.
Hafa Íslendingar velt fyrir sér að búa til verndað svæði fyrir ísbirni á Íslandi? (Laura)
Vinsamlegast ekki drepa ísbjörninn! Gætuð þið hugsað ykkur að senda hann til Henry Doorley dýragarðsins í Omaha, Nebraska? (Colby)
Hvað munu Íslendingar gera ef ísbjörnum fjölgar mikið á landinu? (Audrey)
Til athugunar: þessir unglingar búa ekki í vernduðu umhverfi. Þau eru flest af bændastétt og búa í sveit, og eru reyndar flest af skandinavískum uppruna.
Allt í biðstöðu" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Kung Fu Panda (2008) ***1/2
14.6.2008 | 20:53
Pönduna Po (Jack Black) dreymir um að verða Kung Fu meistari, en trúir ekki að hann geti orðið það, enda feitur, latur og þungur. En þegar hann er valinn af skjaldbökunni Oogway (Randall Duk Kim) til að verja þorpsbúa gegn hinum illa tígrisketti Tai Lung (Ian McShane) er ljóst að þjálfari Kung Fu musterisins, Shifu (Dustin Hoffman) á mikið og erfitt verk fyrir höndum.
Po er umkringdur hetjum sem finnst hann engan veginn passa inn í hópinn. Þau eru Tigress (Angelina Jolie), Monkey (Jackie Chan), Mantis (Seth Rogen), Viper (Lucy Liu) og Crane (David Cross). Raddsetningin er hreint afbragð og passar 100% við persónurnar. Maður sér ekki leikarana fyrir sér, eins og þegar Robin Williams var andinn í Aladdin, eða Jim Carrey fíllinn í Norton Hears a Who.
Kung Fu Panda er stórvel teiknuð og falleg á að horfa. Sagan er kannski frekar klisjukennd, en hún er einfaldlega samansuða af flestum þeim Kung Fu myndum sem gerðar hafa verið um tíðina. Það má því segja að þetta sé týpísk Jackie Chan mynd, fyrir utan að hún er jafn flott og Shrek myndirnar.
Allar persónurnar eru eftirminnilegar og vel hannaðar, og ljóst að einhver á eftir að moka inn peningum þegar leikföngin birtast í verslunum.
Dágóð skemmtun fyrir alla fjölskylduna nema þau allra yngstu.
Leikstjórar: Mark Osborne og John Stevenson
Einkunn: 8
Myndir: Rottentomatoes.com