Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Hellislíkingin, heimspeki menntunar og það sem þú færð aldrei að vita nema þú leggir þig eftir því

Í gærmorgun lásum við hellislíkingu Platóns og ræddum út frá henni um eðli menntunar. Mikið var furðað sig yfir hversu erfitt það getur verið að koma mikilvægri þekkingu til skila eftir að við höfum lært hana, því að erfitt er að fá fólk til þess einfaldlega að hlusta og meðtaka eitthvað nýtt. Ný þekking getur nefnilega rutt sér leið inn í þægindasvæði viðkomandi og verið óþægileg, þar sem að þá þyrfti viðkomandi hugsanlega að endurmóta eigin hugmyndir um lífið og tilveruna.

Við í þessum litla hóp erum að upplifa slíka hluti. Síðustu fimmtán ár hef ég verið að kenna heimspeki í þessari sömu skólastofu tvær vikur á ári, og alltaf verða til samræður og hópar sem halda út í lífið með þekkingu sem erfitt er að öðlast hvar sem er.

Málið er að við ræðum um þau málefni sem okkur kemur til hugar, og reynum að kryfja málin til mergjar. Þar sem ég hef ágæta þekkingu á sögu hugmynda, og heimspeki er mér sérstaklega hugfangin, þá tekst yfirleitt að fá í gang samræður þar sem farið er í grundvallarspurningar.

Til dæmis þegar rætt er um almenn hugtak eins og vináttu, og teknir ólíkir vinklar á því, og spurt hvernig vinátta tengist fegurð, hinu góða, trausti, þekkingu, samræðum, virðingu, og jafnvel mótun samfélags og stjórnskipan, brjótast fram hugmyndir úr huga hvers og eins sem hafa síðan áhrif á misjafnlega mótaðar skoðanir einstaklinga í hópnum, sem hafa hugsanlega áður ekki hugsað um málið, hafa kannski spjallað aðeins um það, hafa lært um það frá kennurum eðal lesið í bókum, eða hafa hugsað um það sjálf - en ekkert jafnast á við að geta einbeitt sér að málum sem eru manni hugfangin með hópi af fólki sem hefur fullan vilja, áhuga og getu til að dýpka vitund og þekkingu um viðkomandi fyrirbæri.

Við höfum nú þegar einbeitt okkur að heimspeki og samræðum, vináttu og visku, samfélagi og einstaklingi, spillingu og heiðarleika, umburðarlyndi og skort á því, trúarbrögðum og trúleysi, muninum á að leita sannleikans og leita eftir skuggamyndum hans, við höfum hugsað um hugann og hvernig hann tengist skynjun, ímyndun, tilfinningum og hugsunum, og jafnvel velt fyrir okkur hvort að verðið á bensíni væri svona hátt ef Bill Gates væri forseti Bandaríkjanna. Þetta er ekki allt sem við höfum rætt. Ein aum færsla nær ekki yfir öll viðfangsefnin sem farið er í, hægt væri að skrifa heila bók út frá samræðum sérhvers dags.

Heimspekilegar spurningar virðast nefnilega ekki loka neinum möguleikum, heldur þegar einni hefur verið svarað, opnast tíu nýjar gáttir inn í víðáttur huga og þekkingar. Öfugt við þegar maður spyr hvað klukkan sé.

Annars er best að drífa sig í morgunmat, því kennslan byrjar eftir 35 mínútur. LoL


4 unglingar drepnir af stormsveipi í Iowa, grundvöllur trúarbragða rakinn og ræddur, auk þess að Don Hrannar keppti í blaki

13_62_scout320

95 unglingar á aldrinum 13-18 ára dvöldu í sumarbúðum þegar einn mesti stormur síðustu ára skall á í gærkvöldi. Stormsveipur snerti land og rústaði skála drengjanna þannig að 40 slösuðust en 4 létust. Þetta gerðist í Iowa, fylki sem tengir saman Nebraska og Minnesota, þar sem ég keyrði um í flóði og stormi síðasta sunnudag.

Við fundum fyrir storminum hérna í Nebraska og fylgdumst með þróuninni með hjálp gervihnattar, en mestu lægðirnar laumuðust framhjá Holdrege. Samt þegar ég fór út úr húsi leiftraði himinninn allt í kring, og regndroparnir sem féllu af himnum voru öðruvísi en ég hafði áður verið vitni að. Það voru frekar strjálir dropar en þungir sem féllu. Ég hef aldrei séð jafn stóra regndropa, en hver og einn þeirra var á stærð við möndlu.

Fyrir utan þetta var dagurinn ágætur. Ég horfði á hina frábæru kvikmynd The Man From Earth (2007) til þess að vekja upp samræður um trúarbrögð, og áttum við í kjölfarið afar góðar samræður um mikilvægi umburðarlyndis gagnvart ólíkum skoðunum og trúarbrögðum, auk þess að við veltum fyrir okkur því sem er sameiginlegt ólíkum trúarbrögðum og því sem er ólíkt. Þau komust að því að mikilvægasta hlutverk trúarbragða virðist vera að setja saman siðferðireglur sem einstaklingum í viðkomandi samfélagi er ætlað að fylgja. En stundum væri munur á hvort að einstaklingar verði nauðsynlega að fylgja þessum reglum, eða hvort um leiðarkerfi um ákvarðanatöku og gildismat væri í gangi, sem ekki þyrfti að fylgja en væri gott að hafa til hliðsjónar. Afar góðar samræður.

Kvöldið hjá okkur var leikjakvöld, á meðan stormurinn fór um Nebraska og nærliggjandi fylki, spiluðu unglingarnir tölvuleiki, horfðu á kvikmyndir, spiluðu körfubolta og blak. Við kennararnir kepptum við sigurvegara nemenda í blaki, og eftir spennandi leik þurftum við að lúta í lægra haldi, enda ansi öflugir andstæðingar sem æfa sex sinnum í viku allt árið - örugglega bara til að ráða við okkur. 

Annars var dagurinn góður og unglingarnir blogguðu í lok dagsins hérna

Mynd frá Fox News


Stjórnmálaheimspeki og keila

Í gærmorgun lásum við úr Politics eftir Aristóteles og fjölluðum um hvernig samfélög verða til, og um stjórnskipun, hvort að stjórnmálamenn væru líklegri til að stela og ljúga til að ná völdum, eða fara heiðarlegu leiðina. Unglingarnir sögðu að auðveldari leiðin væri skemmtilegri og þar sem að sjaldan kemst upp um lygar og stuld stjórnmálamanna, væri sú leið betri. Samt sé hún slæm.

Við ræddum um ólíkar gerðir stjórnskipunar og komumst að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin væru Oligarchy, eða auðmannaveldi, þar sem auðmenn virðast stöðugt halda í spottana og kippa í stjórnmálamenn öðru hverju til að þeir hagi sér eftir óskum þeirra. Sams konar stjórnskipun virðist ríkja á Íslandi í dag.

Um kvöldið fórum við svo í keilu, þar sem ég skoraði heil 121 stig, þrátt fyrir að ég stundi keilu reglulega: einu sinni á ári.

Ég þakka lesendum fyrir að benda á skemmtileg lög til að hlusta á. Ég mun halda áfram að kynna stutt tónlistarbrot, og ekki kæmi mér á óvart þó að ég spilaði fyrir þau eitthvað íslenskt og gott.

Ég fann ekki sænska Eurovision lagið Húbba húlla á YouTube. Veit einhver hvað það heitir í raun?

Sjá blogg nemenda hérna. 


Hvaða tónlist á ég að spila fyrir bandarísk ungmenni?

Í morgun spilaði ég lagið 'Congratulations' fyrir unglingana sem ég er að kenna rökfræði og heimspeki hérna í Nebraska. Þau höfðu aldrei heyrt þetta lag og aldrei nokkurn tíma heyrt minnst á Cliff Richards.

Ég prófaði líka að spila fyrir þau Summer Holiday með sama flytjanda, en þau höfðu aldrei heyrt þetta áður. Ég spilaði líka Eurovisionlagið Haleluja frá 1979, sem þau höfðu heldur aldrei heyrt. 

Ég ætla að spila  fyrir þau nokkur lög á dag næstu daga, og þætti gaman ef bloggvinir mínir kæmu með skemmtilegar uppástungur. 

Hefur þú hugmynd?


Ég bið að heilsa, ljóðasamkeppni fyrir framan áheyrendur, heimspekinámskeið og skemmtilegur smábær í miðjum Bandaríkjunum

Holdrege er svolítið skemmtilegur bær. Ég hef heimsótt hann á hverju sumri síðustu 15 ár, til að kenna þar rökfræði. En þar sem ég má ekki fá greiðslu fyrir þetta, lít ég á þetta sem sumarfrí og tækifæri til að fríska mig við þegar kemur að gagnrýnni hugsun og heimspeki.  Holdrege er svona bær þar sem þú veifar þeim sem þú gengur framhjá með bros á vör. Sért þú í bíl, veifarðu bakvið stýrið. Yfirleitt er veðrið afar gott á þessum árstíma, um 30 stiga hiti og blíða.

Þó gerist það stundum að á skellur úrhelli. Eitt árið sáum við skýstrók þeysa um svæðið. Hann var í um 5 km fjarlægð, en að fylgjast með þessu fyrirbæri yfir sléttlendinu, sópa trjám og húsum í burtu án fyrirhafnar, var sjón sem ég mun seint gleyma. Einnig hafa skollið á undarleg haglél, þar sem hvert hagl hefur verið á stærð frá golfkúlu upp í hafnarbolta og gert gróðurhúsum og bílþökum lífið leitt. Eins og ég sagði frá í gær keyrði ég í gegnum fllóðasvæði.

Annars er ég staddur hérna til að kenna afburðargreindum unglingum heimspeki og rökfræði. Þetta eru allt unglingar sem eru að skora einkunnir frá 9.8-10 á samræmdum prófum í Nebraska. Um 100 unglingar sækja um að komast í heimspekikúrsinn minn á hverju ári, en aðeins 14 komast að. 

Í gær lásum við úr hugleiðingum Descartes, þar sem að hann fjallar um ætlun sína um að endurhugsa alla sína trú og öll sín gildi, afmá allar þær skoðanir sem byggja aðeins á tómum hefðum og villutrú. Hann ætlaði að hugsa heiminn upp á nýtt og tókst það. Nemendur spurðu fjölda spurninga og svo ræddum við þær allan daginn. Afrakstur dagsins má sjá hérna, þar sem að ég hef undirbúið bloggkerfi þar sem nemendur skrifa eitthvað af sínum pælingum eftir daginn. Hver sem er getur skráð sig inn og gert athugasemdir.

Um kvöldið tók ég svo þátt í ljóðakeppni fyrir framan áheyrendur, þ.e.a.s. alla nemendur námskeiðsins, um 125 talsins og kennarana. Ég skráði mig í keppnina aðeins vegna þess að nemendur mínir hvöttu mig til þess. Þau vildu fá að heyra eitthvað íslenskt. Ég valdi eitt af mínum eftirlætisljóðum eftir Jónas Hallgrímsson, Ég bið að heilsa, til að flytja fyrir framan hópinn. En þegar á hólminn var komið, frétti ég að reglurnar væru þannig að maður þyrfti að flytja frumsamið ljóð. Þannig að ég henti einu slíku saman og flutti, og síðan flutti ég að sjálfsögðu ljóð Jónasar á eftir við mikinn fögnuð.

Ég vissi að ljóðið gæti ekki verið nein snilld, þar sem að ég hafði nánast engan tíma til að skrifa það og í fullum sal af fólki, aðeins með eina litla pappírsörk, bakhliðina, þar sem á framhliðinni var ljóð Jónasar. Ég ákvað að biðja áheyrendur að taka þátt í ljóðinu, þannig að éf ég lyfti upp hönd, þá þyrftu þeir að framkalla hljóð sem átti við um samhengi ljóðsins. Þetta var gaman.

Þannig hljómar ljóðið. Það er nafnlaust.

 

Thunders

drum at your lungs

 

Lightnings

flash through your eyes

 

Rain

flows up your cheek

 

Since you bath

in the grass

under the sun,

the hidden sun,

loved. 

 

Þetta ljóð og flutningurinn sló í gegn og til að gera langa sögu stutta þá vann ég keppnina, sem skipti þó engu máli því ég var ekki gjaldgengur til að taka þátt, þar sem ég er kennari en ekki nemandi. Grin Ljóðið fékk tvær 10ur í einkunn, eitt 9.5, eitt 9.0 og eitt 666.

Gaman að þessu.  


Í gær keyrði ég gegnum þrumuveður og flóð í Iowa

Á ferð minni um Bandaríkin í gær, frá Minneapolis og um Iowa til Nebraska, skall á mikið þrumuveður. Mér fannst ég vera að keyra í gegnum þvottastöð í klukkutíma á alltof litlum hraða.

Þegar ég var nánast bensínlaus ákvað ég að leita bensínstöðvar í litlum afviknum bæ, en þegar ég kom þar að var allt á floti. Maður óð garðinn sinn í vaðstígvélum og húsin virtust sokkin ofan í vatnsfen. Þetta var frekar súrrealísk sýn.

12 tíma ökutúrinn gekk annars bara vel. Engin óhöpp, ekkert vesen, bara lengur á ferðinni en ég ætlaði mér.

Vildi bara deila þessu.

 


mbl.is Óveður í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að frétta frá landi hinna frjálsu?

coca-bearStúlka sem sat við hlið mér í flugvélinni sagði mér að hún væri að fara til Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Þá fór ég að velta fyrir mér hversu oft ég hef heimsótt land hinna "frjálsu". Ljóst er að þessi tala er komin eitthvað yfir annan tug.

Það er alltaf áhugavert að kíkja á fréttirnar í sjónvarpi hótelherbergisins.

Tvær aðalfréttir hafa verið stöðugt í gangi:

1) Obama er sigurvegari og líklegt að Hillary verði honum ekki við hlið sem varaforseti, þar sem að hún og Bill hennar passa einfaldlega ekki í hópinn hans.

2) Stöðugir skýstrókar eru á hreyfingu yfir miðríkjum Bandaríkjanna og fólk varað við að vera of mikið á ferli. Það er búið að rigna töluvert hérna.

Það hefur ekkert verið minnst á íslenska ísbjarnardrápið, enda Bandaríkjamenn vanir vandamálum tengdum böngsum sem birtast hér og þar um Bandaríkin og róta í ruslatunnum, ásamt því að geta skaðað fólk. Eða kannski er bara of langt liðið síðan ísbjörninn fagri var felldur.

Bear_Drink_A_Coca_Colla

Á morgun hef ég dag til að flakka um Minneapolis og er bara búin að taka eina ákvörðun um morgundaginn: ég ætla ekki að fara í Mall of America.

Kannski maður skelli sér á vísindasafn Minneapolis, eða dýragarðinn. Það er örugglega hægt að gera ýmislegt skemmtilegt hérna annað en að horfa á sjónvarpið og blogga.


Af hverju eru sjónvarpstæki farin í megrun?

Manstu þegar sjónvarpstæki voru kubbar?

 
Allir vilja vera grannir, ef ekki í eigin persónu, þá með eigum sínum. Ný viðmið fyrir að vera svalur hefur komið fram. Ef þér gengur illa í megrun, fáðu þér græjur sem hefur gengið betur í megrunarkúrum.

 

 

Sony hefur framleitt 11 tommu sjónvarpstæki sem er aðeins 3 mm á þykkt. Hversu þykkt er það? Það er á við lengd hunangsflugu. 


Samsung hefur framleitt þrisvar sinnum þykkari, 40 tommu sjónvarpstæki, en þau eru aðeins 10 mm þykk.

Af hverju eru þessi hátæknifyrirtæki að leggja svona mikið í þróun á einhverju sem virðist í fyrstu sýn ekkert annað en kjánaleg keppni um hver verður fyrstur til að vera þvengmjór? Er þessi samkeppni jafn óhöll og þegar ungar stúlkur keppast við að láta hvert einasta fitumerki hverfa, og fyrir vikið þjást af anorexíu? Ég held ekki.

Það sem fyrirtæki eins og Sony og Samsung græða á þessu er fullt af áhuga frá almenningi og trúverðugleika. Sá sem setur svona mikið í vöruþróun og nær slíkum árangri á háu stigið þýðir að viðskiptavinir hika ekki við að kaupa nýjustu græjurnar frá þeim, ef þær eru eitthvað nýtt og spennandi á viðráðanlegu verði. Með góðri ímynd seljast aðrar vörur betur. 

 

Hvernig fara þeir að því að þróa þessi nauðaþunnu sjónvarpstæki? Sony notar lífrænar ljósleiðandi díóður (OLED), sem eru bjartari og skýrari en það sem hægt er að framleiða með LCD tækni. 

Hvenær var þessi tækni fundin upp og hvar verður hún eftir tíu ár?  Eastman Kodak fann upp á hinum lífrænu ljósleiðandi díóðum á 8. áratug 20. aldar, en þessar díóður eru í raun örsmáar lífrænar verur sem senda frá sér ljós þegar þær fá rafstuð.

Bandaríska ríkisstjórnin leggur gífurlegar upphæðir á rannsóknir OLED þessa dagana, og þar sem rannsóknarsjóðurinn er stjarnfræðilegur, enda bæði fengin úr skattpeningum borgara og greiðslu hátæknifyrirtækja til styrktar ríkinu, sem greiðir til baka með aukinni þekkingu, getum við búist við kaffibollum eftir nokkur ár með hreyfimyndum. 

Við eigum eftir að geta límt sjónvarpsskjái á bílglugga og stofurúðuna, ímyndaðu þér að veggfóðra íbúðina með sjónvarpstækjum, þar sem að þessi tækni, þó að hún sé dýr í þróun akkúrat í dag, þá verður hún alls ekki dýr eftir nokkur ár þar sem aukahlutir eru tiltölulega ódýrir og aðgengilegir.

Ímyndaðu þér bíósal eða heimabíó með þessari tækni, þar sem allir veggir eru þaktir díóðuplötum og kvikmyndin getur umkringt þig, rétt eins og hljóðrásir gera í dag. Væri þetta ekki svalt?

Smelltu hér til að horfa á fróðlegt myndband frá Expert Village sem útskýrir hvernig díóður virka.
 

Myndir:

Gamalt sjónvarpstæki: iFelix.co.uk

Sony sjónvarp: Whatis.com

Hunangsfluga: Wikipedia.org

Samsung sjónvarp: fosfor gadgets

Díóða: teamxbox.com


10 flottustu DVD pakkar sem komið hafa út frá upphafi

Nú er DVD formatið búið að vera í gangi síðustu 10 árin eða svo, og margir farnir að tala um næstu kynslóð: BlueRay sem arftaka DVD.

Reyndar er ég sjálfur ekki að fatta hvað fólki finnst svona miklu merkilegra við BlueRay en DVD. Vissulega er upplausnin og hljóðið töluvert betra, en maður sér samt sömu kvikmyndirnar og upplifunin er ósköp svipuð. Að minnsta kosti á enn eftir að sannfæra mig um annað.

En á þessum tíu árum hafa verið búnir til DVD pakkar sem maður einfaldlega getur ekki annað en slefað yfir. Smelltu á örvarnar fyrir neðan hringekjuna til að skoða titlana. Svo smellirðu bara á myndirnar ef þig langar að kaupa þær frá Amazon.co.uk, en þrátt fyrir skatta og tolla er enn ódýrast að kaupa svona stóra pakka í gegnum netið. Því meira sem er í einni sendingu, því minna er maður líka að borga.

Þetta eru allt flottir pakkar og erfitt að bera þetta saman.

 

The Godfather Trilogy

Klassískar kvikmyndir um valdabrölt ítalskra mafíósa í New York. Einn mesti harmleikur kvikmyndasögunnar. Fyrstu tvær myndirnar fengu óskarinn sem besta kvikmynd ársins, The Godfather, árið 1972 og The Godfather Part II fékk óskarinn sem besta kvikmynd ársins 1974.. The Godfather Part III var tilnefnd sem besta kvikmynd ársins 1990 en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Dances with Wolves.

 

Star Wars Original Trilogy

Star Wars gjörbreytti heimi kvikmynda með því að grípa ímyndunarafl áhorfenda á nýjan hátt. Árið 1977 var hún tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin. Kvikmynd Woody Allen, Annie Hall vann það árið.

Þó að margir telji fyrstu framhaldsmyndina, The Empire Strikes Back, betri en þá upprunalegu, var sú mynd aldrei tilnefnd. The Return of the Jedi var svo komin út í hálfgerða vitleysu, en skemmtileg kvikmynd engu að síður. Forsagan sem kom út mun síðar er ansi langt frá því að ná þeim hæðum sem upprunalegu myndirnar náðu.

 

Alien Quadrilogy

Engar af Alien myndunum fengu óskartilnefningar sem besta myndin, en flestar fengu þær einhverjar tilnefningar fyrir tæknibrellur og sviðsetningu. Alien er framúrskarandi hrollvekja sem byggir fyrst og fremst á persónusköpun og hvernig venjulegt fólk úti í geim bregst við þegar geimskrímsli ræðst á skip þeirra og ógnar lífi þeirra allra.

Það áhugaverða við framhaldsmyndirnar er að þær fylgja engri ákveðinni formúlu. Þannig er Aliens hörku stríðs- og hasarmynd, og Alien 3 er meira pæling um tilvistarkreppu einangraðra karlmanna á fangaplánetu, og síðan fáum við skemmtilegan viðsnúning þegar franskur gamanmyndaleikstjóri gerði eina vanmetnustu svörtu kómedíu síðari tíma: Alien Ressurection, sem er reyndar meira framhald af Delicatessen og City of Lost Children heldur en Alien myndunum.

  

The Indiana Jones Trilogy

Raiders of the Lost Ark er fyrsta ævintýri Indiana Jones á hvíta tjaldinu, þar sem fornleifafræðingurinn snjalli er í kapphlaupi við þriðja ríkið til að ná valdi á guðlegu afli sáttmálaarkar Móses. Raiders var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin árið 1981, en það ár vann mynd sem allir væru búnir að gleyma hefði hún ekki fengið óskarinn: Chariots of Fire.

Framhaldsmyndin, The Temple of Doom er álíka slök og hin glænýja Kingdom of the Crystal Skull, en The Last Crusade er stórgóð skemmtun þar sem Indy fær engan annan en James Bond sjálfan sér til aðstoðar, það er að segja Sean Connery í hlutverk föður síns.

 

The Ultimate Matrix Collection

The Matrix er ein frumlegasta og skemmtilegast kvikmynd síðari ára, sem gaf tilefni til mikilla vona um framhaldið, The Matrix Reloaded og The Matrix Revolutions. Því miður voru framhaldsmyndirnar langt frá því að vera jafn góðar frummyndinni, en þær eru engu að síður nokkuð skemmtilegar, með gífurlega flottum tæknibrellum.

Það sem gerir þennan pakka sérstaklega skemmtilegan eru nákvæmar útskýringar á hvernig tæknibrellurnar voru unnar, og þar að auki fylgja með hinar ágætu teiknimyndir sem safnað er saman undir heitinu The Animatrix.

 

The Lord of the Rings Trilogy (Extended Edition)

Þegar The Fellowship of the Rings kom út varð allt vitlaust. Peter Jackson hafði tekist að koma sýn fjölmargra aðdáanda J.R.R. Tolkien yfir á hvíta tjaldið með slíkri nákvæmni og natni, að flestum var sama þó að nokkrum atriðum úr bókunum var sleppt úr myndinni, og nokkrum persónum breytt.

Árið 2001 var Fellowship tilnefnd til óskarsins sem besta kvikmynd ársins, en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir hinni mistæku A Beautiful Mind, sem að mínu mati er engan veginn sambærileg við afrekið sem Fellowship er. Næsta ár fylgdi í kjölfarið hið engu síðra framhald: The Two Towers, en hún var einnig tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin, en árið 2002 vann önnur kvikmynd sem er engan veginn á sama stalli, Chigago - söngvamynd sem auðvelt er að gleyma.

Árið 2003 var hins vegar árið þegar The Return of the King kláraði dæmið og fékk óskarinn sem besta kvikmyndin. Reyndar þótti mér Peter Jackson takast heldur illa með að enda síðustu myndina, og fjarlægðist hann kjarnann í sögunni alltof mikið fyrir minn smekk. Á meðan hobbitarnir í bókinni þurftu að berjast til að koma mennskum skúrkum úr Hobbiton með þeirri reynslu sem þeir höfðu aflað sér í fyrri ævintýrum, þá var endirinn gerður auðveldur og alltof væminn. Ég hefði frekar viljað sjá Mystic River taka óskarinn það árið.

 

Buffy the Vampire Slayer

Mínir uppáhalds sjónvarpsþættir fyrr og síðar, betri en The X-Files og Star Trek, einfaldlega vegna þess hversu leiftrandi vel þeir eru skrifaðir. Vissulega er viðfangsefnið út í hött, unglingsstúlka sem er hin eina valda til að forða vampírum frá því að taka yfir jarðríki með því að opna púkum og árum leið úr helvíti til jarðar. Persónusköpunin er afar góð og þá skarar sérstaklega fram úr hin illa vampíra Spike sem verður ástfangin af Buffy. Tölum um tilvistarkreppu.

Reyndar eru seríur fimm og sex ekki jafn góðar og þær sem á undan komu, en þeim líkur með fersku yfirbragði sjöundu seríunnar þar sem persónurnar þurfa að safna saman her til að berjast við vampírur sem komast í gegnum hlið helvítis ef ekkert verður að gert.

 


Monty Python: The Definitive, Outrageously Luxurious Special Edition Monster Box Set

Þetta safn er nákvæmlega það sem það þykist vera. Öllum verkum grínhópsins Monty Python hefur verið safnað saman í einn pakka. Reyndar kom Monty Python aldrei til greina þegar um óskarsverðlaun er að ræða, en það er meira vegna meinloku í hugsunarhættu en að þeir hafi átt þetta skilið.

Frá þeim koma nokkrar snilldarkvikmyndir en tvær þeirra eru hrein klassík: Life of Brian sem fjallar um ævi Brian, sem fæddist undir Betlehemstjörninni, bara í næsta hverfi við Jesús, og The Holy Grail, sem fjallar um leit Arthúr konungs að hinum heilaga kaleik, með ansi skemmtilegum útúrdúrum og atriðum.

Einnig er í pakkanum The Meaning of Life, vel heppnuð kolsvört gamanmynd um öngstræti lífsins. Einnig er í pakkanum kvikmyndin And Now for Something Completely Different, sem ég hef reyndar aldrei séð. Einnig, og síðast en ekki síst, er í pakkanum öll sjónvarpssería Monty Python's Flying Circus ens og hún leggur sig. Þetta er enginn smápakki.

 

James Bond Casino Collection

James Bond þarf varla að kynna, en þessi pakki inniheldur allar James Bond kvikmyndirnar sem gerðar hafa verið fyrir utan sjónvarpsmynd sem var gerð áður en Dr. No kom út, og hann inniheldur ekki heldur hina hörmulegu Peter Sellers, David Niven og Woody Allen útgáfu af James Bond: Casino Royale: frábært dæmi um lélegt grín. Einnig vantar í kassann Never Say Never Again, sem gerð var af öðru stúdíói, en með Sean Connery í hlutverki Bondsins.

Í þessum pakka er hægt að rifja upp ævintýri James Bond í túlkun þeirra Sean Connery, George Lazenby (í best skrifuðu Bond sögunni), Roger Moore, Timothy Dalton, Pierce Brosnan og loks Daniel Craig. Það góða við alla þessa leikara er að þeir leifa eigin persónuleika að njóta sín í hlutverkinu, reyndar allir nema Lazenby sem mér fannst reyna alltof mikið að feta í sömu fótspor og Sean Connery. Bara ef Connery hefði leikið í þeirri mynd.

 

The BBC TV Shakespeare Collection

William Shakespeare þarf ekki að kynna, en BBC hefur í gegnum árin tekið upp öll hans leikrit, og nú er hægt að fá þau öll í einum pakka. Þetta er mun aðgengilegri nálgun á Shakespeare heldur en að lesa handritin að leikritunum eða kíkja í tilvitnanir. Þessu mæli ég með fyrir alla sem hafa áhuga á að skemmta sér vel og hlusta á svo myndríkar samræður að heilu bardagaatriðin geta birst í manns eigin ímyndunarafli hlusti maður bara nógu vel.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband