Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Þegar þetta er skrifað hafa 106 misgóðar athugasemdir verið gerðar við helgargreinum mínum Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum? og Hvernig notum við tjáningarfrelsið sem áróðurstæki? Svör við athugasemdum greinarinnar: "Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?" en þar ræði ég um kvikmyndina Fitna og hvernig mér sýnist hún misnota tjáningarfrelsið með óábyrgum hætti.
Það sem kemur mér helst á óvart er heiftin sem má finna í mörgum athugasemdum, sem virðist byggður á þeim ótta að verið sé að gera aðför að tjáningarfrelsinu.
Fyrir mér er tjáningarfrelsið heilagt. Ég vil verja það með kjafti og klóm. Hins vegar virðist fólk skilja hugtakið "tjáningarfrelsi" á ólíkan hátt.
Annars vegar er það fólk sem telur að tjáning skuli ekki bara vera frjáls, heldur ætti tjáningin helst að flæða út og skiptir þá engu máli hvað er sagt, enginn ber ábyrgð og ef einhver særist er það bara af aumingjaskap. Þetta eru ekki ólík þeim rökum þegar fullorðið fólk heldur því fram að einelti og ofbeldi meðal barna sé bara eðlilegur hlutur sem er allt í lagi að viðgangist, því að þetta herðir bara börnin.
Ég er ekki sáttur við þessa skilgreiningu á tjáningarfrelsi.
Í mínum huga er frelsi ekki það að geta gert hvað sem er án þess að þurfa að horfast í augu við afleiðingar gjörða þinna. Þú stekkur ekki fram af kletti og vonar að frelsisins vegna hrapirðu ekki í hafið. Þú keyrir ekki bíl á 200 km. hraða um Kópavoginn af því að bíllinn þinn gefur þér frelsi til að komast svona hratt. Þegar við stökkvum fram af kletti eða keyrum alltof hratt þurfum við að horfast í augu við afleiðingarnar, sama hverjar þær eru.
Það sama á við um tjáningarfrelsi. Við getum sagt hvað sem okkur dettur í hug. Hins vegar getur sumt sem við tjáum verið líkt því að stökkva fram af kletti eða keyra á 200 km. hraða gegnum Kópavoginn. Við þurfum að bera ábyrgð.
Höfundar skopmynda í Danmörku og áróðursmyndarinnar Fitna misskilja tjáningarfrelsið, því að tjáningarfrelsið er nokkuð sem okkur ber að virða, í stað þess að misnota. Misnotkun á tjáningarfrelsi kallar fram raddir sem vilja stýra tjáningu, útiloka að fólk geti tjáð skoðanir sínar, ritstýra. Þetta vil ég ekki.
Það sem ég vil er að virðing sé borin fyrir frelsinu sem við höfum til að tjá okkur, til að hugsa, til að hafa samskipti, og að þetta frelsi verði ekki misnotað, því að þá verði því stefnt í hættu.
Af hverju reiðist fólk slíkri skoðun?
Getur verið að fólk reiðist þessari skoðun af því að hún er vel rökstudd, og þar sem engar glufur á röksemdunum er að finna þurfi að skella sér út fyrir svæði rökfræðinnar þar sem ofbeldi í máli, eða rökvillur, hafa meiri áhrif en vel rökstutt mál?
Þegar sumir einstaklingar verða rökþrota virðist vera í tísku að ráðast gegn persónum frekar en málefninu sjálfu. Það rökþrot er kallað ad hominem, eða persónurökþrotið. Reyndar kemur mér ekkert á óvart að fólk beiti rökþrotum þegar því þrýtur rök og verður pirrað. En mér finnst nokkuð langt gengið þegar hugleysingjar sem skrifa í nafnleysi beita ad hominum á þá sem hafa hugrekki til að skrifa undir eigin nafni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu?
30.3.2008 | 19:36
Egill Helgason spurði þessarar spurningar nokkrum sinnum í Silfri Egils í dag og einu svörin sem hann fékk frá viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra voru:
- Við erum með nefndir í gangi sem eru við það að skila svörum.
- Við ætlum að gera fræðilega rannsókn á þessum málum.
- Við þurfum að sjá hvernig málin þróast og skoða þau vandlega.
Spurningar sem ég vildi óska að teknar væru alvarlega:
1. Af hverju er verið að tala um að ríkið þurfa að standa betur við bankana þegar rökstuddur grunur er um að bankarnir stóðu fyrir gengisfellingunni, sem fólkið í landinu þarf að borga?
2. Bankarnir liggja nú á þúsundum milljörðum króna eins og drekar á gulli. Af hverju gefa þeir fólki ekki tækifæri til að lækka höfuðstóla á lánum þeirra fyrst þeim gengur svona vel og eru svona vellauðugir?
3. Af hverju gerir ríkisstjórnin ekki neitt í þessum málum?
4. Af hverju er ekki aðgerðum til að skattalækkana launa flýtt?
5. Af hverju er ekki enn búið að afmá stimpilgjöld, mál sem Björgvin G. Sigurðsson barðist mikið fyrir í stjórnaraðstöðu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvernig notum við tjáningarfrelsið sem áróðurstæki? Svör við athugasemdum greinarinnar: "Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?"
30.3.2008 | 11:14
Í gær og í dag hef ég fengið mörg áhugaverð svör við grein sem ég skrifaði um kvikmyndina Fitna, sem er áróðursmynd gegn múslimum og með myndum af staðreyndum fullyrt að allir múslimar sér hryðjuverkamenn. Sumir einstaklingar virðast ekki átta sig á að slíkur fordómafullur áróður er hættulegur, og sumir átta sig ekki á að þetta er áróður sem fer með rangt mál, sem er nokkuð alvarlegt mál í mínum huga. Svona fordómafullur áróður væri ekki hættulegur ef allt fólk áttaði sig á að þetta er fordómafullur áróður.
"Það að birting þessarar myndar særi tilfinningar einhvers manns er að mínu viti ekki nógu sterk rök og ég var ekki meðvitaður um að hægt væri að móðga fyrirbæri á borð við trúarbrögð eða siðferðiskennd." (salb)
Málið snýst ekki um móðganir eða særðar tilfinningar, heldur um rétt hópa eða einstaklinga til að æsa upp fordóma og hatur gegn ákveðum hópi fólks.
Fullyrðing kvikmyndarinnar eru sú að múslimar bera ábyrgð á hryðjuverkum. Það er einfaldlega ekki satt. Það er hins vegar satt að sumir einstaklingar sem trúa á Íslam beri ábyrgð á hryðjuverkum. Þessi yfirfæring sumra yfir á alla er fordómurinn ósanni.
Það vill svo til að leiðtogi öflugustu hryðjuverkasamtaka heims er öfgafullur múslimi, og að öfgafullir múslimar nota smávægilegustu rangfærslur sem olíu á eld hatursfullra fordóma, til að hafa áhrif á þá hófsömu og æsa þá til verka. Ég er ekki að segja að það sé rétt hjá öfgafullum múslimum að hóta kvikmyndagerðarmönnum lífláti, frekar en það er rétt hjá nokkrum einstaklingi að senda hótunarbréf til nokkurrar manneskju.
Kristnir öfgatrúarhópar eru lítið skárri, þar sem þeir ofsækja einstaklinga fyrir skoðanir sínar, brenna bækur, brenna hljómplötur, ofsækja fólk af öðrum trúarbrögðum, fremja jafnvel fjöldasjálfsvíg. Ég hef margoft verið vitni að umræðum þar sem allir kristnir eru sagðir klikk út af svona atriðum. Það þýðir samt ekki að allir kristnir séu klikk.
Dæmi: Ef gerð væri kvikmynd sem flokkaði alla Evrópubúa sem nasista og fasista, þar sem að það voru vissulega hópar innan evrópskra þjóða sem voru forsprakkar þessara öfga. Ísland væri tekið sem dæmi um land þar sem nasismi grasseraði vegna þess að til er hópur á Íslandi sem er gegn innflytjendum, og þar af leiðandi séu allir Íslendingar nasistar. Segjum að gerð yrði kvikmynd sem fengi mikla útbreiðslu og mælti með því að Íslendingar yrðu helst skotnir á færi þar sem þeir sæjust utan Evrópu, vegna þess að þeir eru nasistar og þar af leiðandi hryðjuverkamenn, væri þá rangt fyrir Íslendinga að vilja gera einhverjar ráðstafanir gegn slíkri kvikmynd?
Í mínum huga (á þessum tímapunkti) er varla hægt annað en að líta á umrædda klippu sem áróður ætlaðan til að æsa upp og vekja hatur á muslimum og/eða islam í heild... og það merkilega er, að það virðist vera að virka ! Það er ótrúlegt sem fólk lætur útúr sér í kommentum víða á netinu (og þá er eg ekkert sérstaklega að meina hér á mbl bloggum) Ekkert óalgengt að maður sjái: "nuke them" "hefjum krossferð" "útrýmum þeim" o.s.frv. o.s.frv. Óhugnarlegt.
Þetta er alveg komið í þvílíkt rugl. (Ómar Bjarki Kristjánsson)
Sammála.
Á að hengja boðbera válegra tíðinda? (Helga Guðrún Eiríksdóttir)
Nei. En boðberar válegra tíðinda verða að fara með satt og rétt mál, annars er hætta á að ráðist verði að saklausum. Er slíkt réttlætanlegt?
það þarf ekkert að (gera) í þessum málum nema fjarlægjar hömlur af tjáningarfrelsi og hafa þær svipaðar og eru í Bna (Alexander Kristófer Gústafsson)
Bandaríkjamenn hafa ekki samþykkt að fara eftir mannréttindarsáttmála sameinuðu þjóðanna, þó að upphaflegur höfundur þeirra hafi verið Bandaríkjamaður. Mannréttindarsáttmálinn ver til að mynda hópa gegn óábyrgum áróðri. Frelsi er ekki það að mega gera hvað sem er án afleiðinga. Frelsi er fyrir þá sem geta höndlað það, vonandi alla, en þeir sem misnota það verða að standa taka afleiðingum eigin máls og gerða. Ég vil frekar styðja mannréttindin en vinna gegn þeim. Hvað um þig?
Treð því hér inn - að í stað þess að taka svínakjöt og önnur matvæli sem ekki neytt af trúarástæðum - úr mötuneyti t.d. Austurbæjarskóla, hefði e.t.v.átt að bæta við daglegt úrval.
Væri nokkuð slæmt að leyfa "öllum trúar og/eða vantrúarhópum" að hafa sitt tákn/skjaldarmerki/píslarvott/ á skólagangaveggjum, í stað þess að banna það sem fyrir kann að hafa verið (t.d. krossinn)? (Beturvitringur)
Sammála því að almennt sé skynsamlegra að leyfa fleirum að vera með en að útiloka alla.
Þessi stuttmynd á sama rétt á sér og meistaraverk Richard Dawkins "Root of all Evil?"God that wasn't there, bara hina sjokkerandi "Deliver us from Evil" sem Amy Berg gerði. Ég kannast hins vegar ekki við að kaþóikkar, aðrir kristnir eða samkynhneigðir hafi hótað því að strádrepa þá sem stóðu að þessum kvikmyndum. sem og ágæta pæling Brian Flemming um the
Á að taka eitthvað sérstakt auka-tillit til þeirra sem lesa einhvern kóran? (Víðir Ragnarsson)
Kannski tökum við ekki eftir slíkum ummælum frá öfgafullum kristnum trúarhópum af því að við þekkjum slíka hópa aðeins betur en öfgafulla múslímska trúarhópa, og vitum að ekki borgar sig að taka mark á slíku rugli. Hljómar undarlega, en pældu í þessu. Sumt sem er frétt fyrir kristna er ekki frétt fyrir múslima og sumt sem er frétt fyrir múslima er ekki frétt fyrir kristna. Við erum ólík og okkur ber að virða það. Við þurfum að átta okkur á að mannvirðing skiptir máli, og hluti af mannvirðingu er að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum, sama hver á í hlut.
Ég er nú ekki alveg að skilja þennan pistil - eftir svo hámenntaðan mann. Mynd Fitna fjallar um tengsl Islamstrúar við hryðjuverk, kúgun þegna Íslamskra ríkja og svo framvegis.
Í ljósi þess að allir helstu trúarleiðtogar Islamstrúar hafa í áratugi boðað og hvatt til að meðlimir annarra trúarbragða væru myrtir og heilu þjóðunum útrýmt, í ljósi þess að heilu ríkjunum er stjórnað í samræmi við Sharia lög og þar eru almenn mannréttindi einskis virt og það í nafni trúarinnar og í ljósi þess að hvar sem stórir hópar múslima hafa sest að og komið sér upp moskum og trúarbragðakennslu skapast ótrúleg vandamál sem við kannski heyrum minnst um - í ljósi alls þessa er myndin fullkomlega eðlilegt innlegg í umræðu og í anda þess lýðræðis og skoðanafrelsis sem við eigum að venjast. (salb)
Það skiptir nú ekki neinu máli hversu mikla eða litla menntun ég hef, allir hafa rétt á sínum skoðunum sama í hvaða stöðu þeir eru, ríkir sem fátækir, ómenntaðir sem hámenntaðir, Íslendingar sem fólk af erlendum uppruna, þú sem ég.
Geturðu nefnt hverjir þeir eru þessir helstu trúarleiðtogar Íslamstrúar sem hafa mælt með þjóðarmorðum og morðum á einstaklingum, og hversu margir þeir eru í samanburði við alla trúarleiðtoga Íslams? Rétt er að í sumum ríkjum er ekki aðskilnaður á milli ríkis og trúar. Það vandamál er til staðar víðar. Myndin er ekki eðlilegt innlegg, þar sem hennar markmið er að æsa upp fólk gegn múslimum, ekki að ræða hlutina á sanngjörnum forsendum.
Ég veit að mín orð hafa lítið að segja, smárödd sem fellur eins og stakur vatnsdropi á olíubál fordóma, gleyptur af hatrinu og offorsinu sem fylgir þeirri trúarsannfæringu sem tengd er slíkum áróðri.
Ég veit að það sem ég hef að segja er eins og lágvært hvísl í herbergi þar sem sjötíu öskrandi einstaklingar hrópa sama slagorðið, en í stað þess að fylgja straumnum, þá hef ég fullan rétt til að snúast gegn honum. Þann rétt hefur þú líka. Það er nokkur sigur unnin í því að fylgja ekki flæðinu hugsunarlaust.
Hvenær brýtur eitthvað gegn rétti okkar? Ef ég tel einhvern hafa á röngu að standa, má ég þá ekki gagnrýna hann t.d.? Væri það brot gagnvart öðrum? Eða á þetta einungis við um málefni eins og kynhneigð og trúarbrögð? Má ekki tala um eða gagnrýna þau? (Þorsteinn Ásgrímsson)
Tabú er allt annað mál. Mín skoðun er að ræða megi hvað sem er, en það verður að gera vel og af ábyrgð, en ekki hrauna út úr sér hverju sem er.
Flokkast teiknimyndin hér fyrir neðan sem áróður? Ef svo er, er um ábyrgan eða óábyrgan áróður að ræða? Skiptir þessi greinarmunur máli?
Allir myndir fengnar af síðunni Propaganda (áróður) á wikipedia.org.
Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?
29.3.2008 | 18:48
Kvikmyndinni Fitna er lýst sem lifandi tímasprengju af höfundum hennar, en hún hefst með skopmynd af Múhameð spámanni með tímasprengju í stað heila, og í lok myndarinnar springur sprengjan. Þessari kvikmynd er ætlað að kveikja í múslimum, reita þá til reiða, og hvetja öfgamenn til lífshótana, sambærilega afleiðingar og fylgdu birtingu dönsku skopmyndanna og kvikmynda Theo Van Gogh, en Van Gogh var eins og þekkt er myrtur af öfgafullum múslima eftir að hafa fengið töluvert af hótunum.
Fitna er áróðursmynd beint gegn múslimum. Ef lesið er í tungumál kvikmyndarinnar og það þýtt yfir í rökræna hugsun eru skilaboðin augljós, gert er að jöfnu að múslímar og hryðjuverkamenn séu sama fyrirbærið. Sem er alls ekki satt. Síðan þykjast höfundar vera saklaus fórnarlömb ritskoðunar og hótana, á meðan hið sanna er að þeir kölluðu þetta yfir sig.
Við vitum að til eru hryðjuverkamenn sem ekki eru múslímar, eins og til dæmis þjóðernissinnuðu Bandaríkjamennirnir sem sprengdu opinbera byggingu í Oklahoma árið 1995, og það þarf ekki nema einn múslima til sem ekki er hryðjuverkamaður til að sýna fram á að ekki allir múslímar séu hryðjuverkamenn, - en fordómar ala hins vegar á vanþekkingu og í þessu tilfelli þeirri vanþekkingu sem fylgir að þekkja ekki neinn múslima og þar af leiðandi geta ekki afsannað að allir múslimar séu hryðjaverkamenn.
Í kvikmyndinni er lesið upp úr kóraninum nokkra vafasama kafla, en sambærilega kafla má sjálfsagt finna í hvaða trúarriti sem er, sem ætti náttúrulega aldrei að taka bókstaflega og lifa eftir vilji maður sæmilega friðsamlegt líf. Eftir kaflana er sýnt frá hryðjuverkunum 11. september 2001 þegar tvær farþegaflugvélarnar klesstu á tvíburaturnana, sprengja á lestarstöð í Madrid, aftaka einstaklings, myndir og hljóðupptaka af hollenska kvikmyndaleikstjóranum Theo Van Gogh, sem skotinn var af öfgafullum múslima.
Málið er að þegar ráðist er að heilum trúarbrögðum, heilli lífsskoðun og lífssýn, þá má búast við mótmælum. Opinber mótmæli eru sjálfsögð í þessu tilfelli að mínu mati, rétt eins og ef myndin hefði bendlað Íslendinga, Breiðholtsbúa eða Kristna við hryðjuverkastarfsemi. Slíkum áróðri og lygum er sjálfsagt að mótmæla, enda er slíkur áróður misbeiting á frelsi.
En þar sem til er fjöldi öfgafullra einstaklinga og hópa innan sérhverra trúarbragða, og þeir virðast sérstaklega áberandi þessa dagana þegar um múslima er að ræða, er tilhneigingin að dæma alla múslima fyrir þessa einstaklinga, sem aðeins er brot af heildinni. Að segja alla múslima vera hryðjuverkamenn er eins og að segja öll spendýr vera kríur. Þetta er rangt að tvennu leyti, annars vegar eru kríur ekki spendýr og hins vegar stenst ekki að setja smærri flokk (kríur) yfir stærri flokk (spendýr).
Samkvæmt kvikmyndagerðarmönnunum hefur þessi kvikmynd verið fjarlægð af netinu vegna hótana um manndráp frá öfgafullum múslimum. En þetta eru reyndar þau viðbrögð sem að þeir gátu búist við miðað við efni myndarinnar og viðbrögð öfgafullra múslima gegn áróðri sem gerir lítið úr trú þeirra.
Reyndar held ég að þessi kvikmynd hefði aldrei fengið neina athygli hefði henni ekki verið mótmælt af leiðtogum Arabaríkja og múslima, enda með afbrigðum léleg og illa gerð. Það er ljóst að þessi kvikmynd er ærumeiðandi gagnvart múslimum, og ég játa að ég er efnislega sammála þeirri ósk múslima að gera ráðstafanir gagnvart áróðri sem þessum, en er samt ekki viss um að lögbann eða ofbeldi sé rétta leiðin.
Það er einnig ljóst að kvikmyndin brýtur gegn mannréttindarsáttmála sameinuðu þjóðanna sem stefna að því að verja mannvirðingu einstaklinga og hópa óháð trúarbrögðum. Ef við viljum styðja við mannréttindi, erum við í raun skuldbundin til að styðja kröfu múslima, að minnsta kosti efnislega.
En hver ætli rétta leiðin sé?
Það er hægt að finna þessa kvikmynd á YouTube, en ég hef ekki geð í mér að setja á hana tengil, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekkert listrænt gildi, segir ekki satt og hefur tilgang sem er engan veginn réttlætanlegur.
Höfum við frelsi til að segja hvað sem er?
Já. Svo framarlega sem það sem við segjum brýtur ekki gegn öðrum.
Þurfum við að vera ábyrgð fyrir því sem við gerum og segjum ef við erum frjáls?
Já. Annars værum við ekki frjáls.
Sýnir það ábyrgð að útbreiða lygar um heil trúarbrögð?
Nei. Það er misnotkun á frelsi.
Á að grípa til ráðstafana gegn þeim sem misntota frelsið?
Já, en ég veit ekki hvað þarf að gera.
Veist þú það?
Arabaleiðtogar mótmæla Fitna" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (85)
Erum við virkilega hamingjusamasta þjóð í heimi?
29.3.2008 | 09:30
Flest setjum við okkur það markmið að verða hamingjusöm í lífinu, og jafnvel eftir lífið. En til þess að nálgast markmiðið verðum við að miða á rétta skotmarkið. Er mögulegt að einhver okkar séu að miða á rangt skotmark? Það held ég. Sumir halda að þeir séu að miða á hamingju þegar þeir í raun eru að miða á farsæld. Leyfðu mér að útskýra:
Undanfarin ár hefur verið í tísku að mæla það hversu hamingjusamar þjóðir eru. Samkvæmt þessu eru þjóðir hamingjusamari eftir því sem að þær uppfylla fleiri félagsleg skilyrði. Nú er talað um að þjóðir Norðurlanda séu hamingjusamir vegna félagslega kerfisins sem þeir fengu í arf frá forfeðrum sínum, og í fyrra sprengdi íslenska þjóðin alla skala sem hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt alþjóðlegri rannsókn á högum þjóða.
Ég get ekki að því gert. Ég hristi hausinn yfir svona fréttum. Það er ekki verið að tala um hamingjuna, heldur farsæld.
Ég trúi ekki að hægt sé að mæla hamingju þjóðar. Það er hægt að mæla farsæld þjóðar en ekki hamingju. Farsæld er mikil eða lítil eftir því hvernig gengur að uppfylla skilyrði og framkvæma verkefni sem bæta ytri aðstæður í lífinu. Farsæld má ekki rugla saman við hamingju. Alls ekki. Manneskja sem tekur sín fyrstu spor í hinu harða lífi og heldur að farsæld sé það sama og hamingja, sér farsældina fyrir sér og eyðir mörgum árum í að öðlast hana, áttar sig hugsanlega ekki fyrr en of seint eða aldrei að hún setti sér ónákvæmt markmið.
Það eru til ýmsar kenningar um hamingjuna, hvað hún er og hvernig best er að öðlast hana. En í grundvallaratriðum skiptast skoðanir fólks í tvennt, annars vegar eru það þeir sem telja að hamingja sé eitthvað sem hægt er að höndla, telja og mæla - en þetta kalla ég farsæld, á meðan hinn hópurinn sér hamingjuna sem eitthvað handan okkar skilnings, ósnertanlegt og ómælanlegt - þetta kalla ég hamingju. Ég held að við séum samt í grunninn flest sammála um hvað hamingja er en ruglum bara saman hugtökum af því að við höfum ekki hugsað þau af sömu dýpt. Málið er að þegar við höfum eitthvað tvennt til að velja um, annað þeirra er sýnilegt og áþreifanlegt, en hitt ekki, þá höfum við tilhneigingu til að velja það sem við getum höndlað og jafnvel eignast, heldur en eitthvað sem við vitum ekki einu sinni hvort við getum snert.
Sumir einstaklingar virðast þurfa að setja sér áþreifanleg markmið í lífinu sem er raunhæft fyrir þá að ná, og þannig verði þeir hamingjusamir; og svo þegar markmiðinu hefur verið náð, þá þarf að setja sér nýtt og hærra markmið, komast lengra, og í stað þess að vera í góðu standi, vera í betra standi en allir hinir. Þetta er lýsing á farsæld.
Sumir einstaklingar virðast hins vegar setja sér markmið í lífinu sem erfiðara er að mæla. Til er fólk sem setur sér markmið eins og 'Ég stefni á að verða betri manneskja', og þá meina ég ekki betri í hinu og þessu heldur en allir hinir, heldur einfaldlega manneskja sem bætir sig dag frá degi, verður ekkert endilega meiri manneskja, heldur meira manneskja. Það er einmitt það sem menntun snýst um. Ég held einmitt að eftir því sem að maður getur orðið meira manneskja, nálgast maður það að vera hamingjusamur, og í raun muni maður aldrei vita fyrir víst hvort að maður sjálfur sé hamingjusamur - það er aukaatriði - heldur er maður einfaldlega hamingjusamur eða ekki.
Hugsum okkur unga manneskju á Íslandi í dag. Hún fer út í lífið með þann vilja að verða hamingjusöm - en ég held að líkurnar séu töluvert meiri á að manneskjan leiti sér farsældar frekar en hamingju. Svo er auðvitað hægt að leita sér að hvoru tveggja, en þá verður maður að skilja þennan greinarmun og átta sig á að þó að maður sé sáttur og ánægður, þá þýðir það ekkert endilega að maður sé hamingjusamur.
Hér fyrir ofan sérðu þarfapýramída Maslow. Þegar þú hefur uppfyllt allar þessar þarfir, þá er spurningin sú hvort að þú sért farsæl manneskja eða hamingjusöm.
Til að vera farsæll þarftu einfaldlega að uppfylla eigin markmið, til dæmis að eignast nauðsynjar, búa við virðulega samfélagsstöðu, vera í góðu starfi, vera heilbrigð, eða lifa lífi þar sem þér líður vel og þér finnst möguleikar opnir til að gera ýmislegt sem þig langar til að gera. Ég tel þetta vera afar mikilvægt.
Það þarf samt meira til. Þeir farsælu geta nú valið um hvort að þeir vilji verða ennþá farsælli - setja sér fleiri markmið - eða nálgast hamingjuna (eða fá hamingjuna til að nálgast þá) - þar sem líf okkar snýst um að nálgast hið góða eða gefa hinu góða aðgang að okkur sjálfum.Farsæld er gagnleg til að ná frekari markmiðum, en hamingja er markmið í sjálfu sér.
Getur manneskja sem á ekki neitt, ekki einu sinni góð börn eða góða heilsu, gott öryggi eða gott starf, getur sú manneskja verið hamingjusöm í því ástandi sem hún er? Er hamingjan eitthvað sem býr innra með okkur, eitthvað sem þarf að virkja, eitthvað sem þarf að varðveita, eitthvað sem við gerum og erum, eða er hamingjan eitthvað sem við nálgumst eða eitthvað sem nálgast okkur?
Endum þetta með tilvísun í Aristóteles, þar sem hann veltir fyrir sér sams konar hlutum, en er kominn aðeins dýpra, búinn að hafna því að hamingjan felist í auði, virðingarstöðu eða einhverju slíku sem getur verið gagnlegt, heldur eitthvað sem er eftirsóknarvert sjálft sín vegna:
Vissulega er sjón fyrir líkamann eins og rökhugsun fyrir sálina. (Aristóteles - Siðfræði Nikómakkusar)
Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Viltu eignast 50 tommu fislétt "sjónvarpstæki" á kr. 41.669 ?
28.3.2008 | 00:59
Þar sem ég vinn í hátæknifyrirtæki lendi ég oft í mjög skemmtilegum samræðum í matartímum við fólk sem fylgist afar náið með nýjustu tækni og vísindum. Ein slík samræða fjallaði um 50 tommu fislétt "sjónvarpstæki" sem hægt er að kaupa á amazon.com og iwantoneofthose.com.
Reyndar er þetta ekki hefðbundið sjónvarpstæki, heldur gleraugu sem maður setur á nefið á sér, getur tengt í Ipod eða DVD spilara og notað til að horfa á bíómyndir. Það að horfa í þessi gleraugu gefur sömu tilfinningu og að sitja inni í stofu og horfa á 50 tommu sjónvarpstæki.
Þetta finnst mér að sjálfsögðu vera hin mesta snilld, og kíkti á hvað tækið kostaði. Það er á $244.95 og eftir innflutning með ShopUSA kostar græjan í heildina kr. 41.669,- sem mér finnst ágætis verð fyrir sjónvarpstæki sem maður getur horft á hvar sem er og hvenær sem er.
Þessar græjur heita ezVision Video iWear og langar mig ekki lítið til að prufa þessar græjur. Þó hafa gagnrýnendur svipaðra tækja minnst á að eftir um klukkustundar notkun fer þeim að finnast þetta frekar þungt - og sumir hafa kvartað undan ógleði. Sumir kvarta ekki undan neinu og finnst þetta frábært.
En hvað um það, spennandi tæknigræja sem verður líklega innan skamms vinsæl. Ég held að þetta eigi eftir að slá í gegn.
Ég vil taka það fram að ég er ekki að auglýsa neitt af þessum fyrirtækjum sem ég minnist á né hagnast á því þegar smellt er á tenglana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Gætir þú hugsað þér að búa í gámi?
26.3.2008 | 19:48
Fyrir nokkrum vikum ræddi ég við félaga minn um ástandið á íslenska húsnæðismarkaðnum. Hann er verkfræðingur og nýkominn heim úr meistaranámi. Við vorum að velta fyrir okkur yfir hádegismatnum hvernig ungt fólk færi að í dag, þegar það kemur heim úr námi og þarf að koma þaki yfir höfuðið.
Hann sagði mér að útilokað væri fyrir hann að kaupa sér íbúð, til þess er fyrsta útborgun of há. Einnig leist honum ekkert á að festa sig í lánaskuldbindingar næstu 40 árin. Annar kostur var að leigja 90 fermetra íbúð á kr. 160.000,- á mánuði, sem er svipað og grunnskólakennari með mastersgráðu í fullu starfi fær útborgað í mánaðarlaun. Það er líka mjög dýrt fyrir verkfræðing.
Hann sagði mér að nokkrir félagar hans hafi rætt af fullri alvöru að búa til nýtt hverfi þar sem öll hús væru gámar. Málið er að gámar eru vel einangraðir og hægt að setja upp fín loftræstikerfi í þeim. Þar að auki er hægt að raða þeim hverjum ofan á annan, og jafnvel hanna einfalt skolp, rafmagns- og vatnsveitukerfi.
Hugmyndin fékk hljómgrunn við borðið.
Nú er svo komið að einhverjir einstaklingar á Íslandi hafa framkvæmt þetta. Þeir búa í gámi og borga sjálfsagt eigandanum einhverja lágmarks leigu, en þetta þýðir að þessir einstaklingar geta safnað einhverju af þeim peningum sem þeir eignast, í stað þess að borga alltof háa leigu þar sem leigumarkaðurinn á Íslandi er virkilega dýr, eða borga fjármúgur í vexti bankalána á hverjum mánuði þar sem höfuðstóllinn minnkar ekki, heldur breiðist stöðugt út eins og krabbamein.
Eftir að hafa átt þessar samræður dettur mér ekki í hug að fordæma þetta fólk við Bergstaðarstræti, manneskjuna sem á gáminn, eða yfirvöld í Reykjavík. Þetta er ástand sem við höfum búið til. Þetta eru fyrstu merkin um afleiðingarnar á óeðlilegum hækkunum á húsnæðisverði, og ég spái því að við eigum eftir að sjá meira af sambærilegum hlutum í framtíðinni,jafnvel heilt bæjarfélag byggt á gámum, eins og þegar fyrirfinnst í Lundúnum.
Það er byrjað að selja gámaheimili úti í hinum stóra heimi, sem þurfa ekki að vera slæmur kostur miðað við húsbyggingarkostnað í dag. Kannski er framtíðin ekki í sementi, heldur í gámum?
Þátturinn hér fyrir neðan gæti opnað huga þinn um ágæti heimilisgáma.
Búa í gámi í miðborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?
25.3.2008 | 22:14
Eru einhverjir að taka mikla fjármuni út úr bönkunum og skipta þeim yfir í erlendan gjaldmiðil, alltof hratt? Ef svo er, þá gæti eins verið komið fyrir Íslandi og fyrir Argentínu árið 1999, þegar fjárfestar hættu að treysta argentínska hagkerfinu, tóku allan pening úr bönkum, skiptu þeim yfir í dollara og sendu úr landi. Argentína var sem sviðin jörð í mörg ár á eftir.
Árið 1994 lenti Mexíkó í hrikalegri niðursveiflu, nokkuð sem ég upplifði af eigin raun og skuldir margfölduðust á örfáum dögum. Forsendur málsins voru reknar til þáverandi forseta Mexíkó sem var að ljúka sínu síðasta ári á forsetastól, en hann dró sér gífurlegar upphæðir úr hagkerfinu, skipti yfir í erlenda mynt og flutti til Írlands.
Er eitthvað samskonar að gerast hér á landi undir sofandi augum stjórnvalda, sem eru kannski að horfa of mikið út á við þegar mikilvægt er að við lítum aðeins í eigin barm?
Samkvæmt frétt mbl.is segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri að "hugsanlega hafi einhverjir verið að hafa meiri áhrifa á gengi krónunnar að undanförnu en eðlilegt getur talist".
Þetta er stórfrétt í sjálfu sér, að minnsta kosti fyrir mig, því að ég hélt að ómögulegt væri fyrir fáa einstaklinga að leika sér með gengi krónunnar, og trúði að við værum í landi þar sem hlutirnir eru í föstum skorðum og gegna ekki frumskógarlögmálum, en nú hafa hagfræðingar og sjálfur Seðlabankastjóri fullyrt að það sé mögulegt. Athugið: "Að það sé mögulegt!"
Hvort að möguleikinn hafi verið nýttur er annað mál, og hugsanlega sakamál. Einnig má spyrja hversu lengi þessi möguleiki hafi verið til staðar og hvort að þetta sé í fyrsta skiptið sem svona lagað hefur hugsanlega verið gert á Íslandi, eða hvort að þetta sé líkari almennri reglu og bara fattast vegna tæknilegra mistaka?
Stýrivextir hafa verið hækkaðir um 1.25 prósent og eru því komnir í 15%. Það er mikið miðað við að stýrivextir hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum eru um 2%, sem þýðir að lán verða ekki jafndýr fyrir almenning á endanum.
Ég ákvað að lesa mér til og reyna að fræðast um hvað stýrivextir þýða. Svo velti ég þessu fyrir mér, og þrátt fyrir að stundum hafi allt farið í hnút komst ég loks að þessari niðurstöðu:
Samkvæmt mínum skilningi þýðir þetta að ef fjármálastofnanir taka lán frá Seðlabanka Íslands verði vextir á þeim 15%. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir taki þessi lán, því að þau geta ekki verið annað en óhagsstæð. Segjum samt að fjármálastofnanir taki þessi lán á þessum kjörum, hvað þýðir það fyrir almenna neytendur í landinu. Það er ekki um bein áhrif að ræða, þannig að spekingar geta fullyrt að þetta hafi engin áhrif á neytendur.
Aftur á móti getur þetta verið eins og tvíeggja sverð: ef fjármálastofnanir voga sér að taka lán á þessum kjörum er ljóst að þær verða að fá peningana til baka, og hvar annars staðar en hjá borgurum landsins - ef ekki í gegnum fasta vexti, þá í gegnum verðtrygginguna, - þar sem að verðtryggingar, verðbólga og stýrivextir haldast í hendur. Ef fjármálastofnanir taka hins vegar ekki lán á þessum kjörum, þá eru þær sjálfsagt ekki að endurfjármagna sig og munu þá áhrif þessara stýrivaxta vera skammvinn, og gengið byrja aftur í frjálsu falli, jafnvel innan viku.
Vinsamlegast leiðréttið mig með útskýringum sem venjuleg manneskja skilur fari ég með rangt mál.
Dæmisaga sem kemur okkur við:
Einhverjir kunna að hafa haft óeðlileg áhrif á gengið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.3.2008 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hvaðan koma Pólverjar?
24.3.2008 | 11:42
Mikið hefur verið rætt um Pólverja síðustu misserin, um það hversu margir hafa flutt til Íslands og hvernig fjöldi þeirra hefur tekið að sér lægst launuðu störfin á Íslandi. Á laugardaginn var birtist svo frétt um að pólsk mafía væri að störfum á Íslandi sem legði fjölskyldur pólskra verkamanna í einelti. Ég var frekar hissa á þessu öllu saman, og þar sem ég var farinn að heyra orðið Pólverji í annarri hverri setningu, ákvað ég að leita mér upplýsinga um þennan þjóðflokk, - og þá sérstaklega um sögu hans.
Það er óhætt að segja að Pólverjar komi úr allt öðru evrópsku umhverfi en Íslendingar. Íslendingar hafa lifað í friðsæld og fátækt en Pólverjar hafa aftur á móti þurft að lifa og deyja í styrjöldum og lifað við fátækt frá örófi alda - og síðast í síðari heimstyrjöldinni var fjórðungur þjóðarinnar drepinn af nasistum fyrir engar sakir. Ég hef ekki dug í mér að telja allar þær styrjaldir sem Pólverjar hafa tekið þátt í síðustu 1000 árin, en einu blóðugu deilurnar sem ég man eftir á Íslandi yfir þetta tímabil voru á Sturlungaöld, milli Oddverja og Sturlunga á 13. öld.
Fólk hefur búið á landssvæðinu þar sem Pólland er núna í rúm 500.000 ár. Þar lifði fólk gegnum steinöld, bronsöld og járnöld. Rómverjar réðust inn í Pólland og töpuðu því svo aftur þegar herflokkar úr austri réðust að Rómaveldi. En heimsveldið átti eftir að ná völdum á ný.
Árið 966 staðfestir Ottó hinn mikli leiðtogatitil Miezko I, sem gerir Póland aftur að hluta rómverska heimsveldisins, en nú í samvinnu við páfa og þar af leiðandi kaþólsku kirkjuna. Fyrstu konungar Póllands voru öflugir og tókst að efla og styrkja ríkið töluvert, en erfingjar krúnunnar fóru að takast á um hver ætti að fara með hvaða völd í ríkinu, og var því loks skipt í fjóra hluta á 13. öld. Þetta varð til þess að þjóðin var veikari sem heild og illa undirbúin fyrir innrás Mongóla á germönsk svæði. Þetta þýddi að gífurlegur fjöldi af þýskum innflytjendum fluttist inn til Póllands, sem varð til þess að Pólverjar þurftu að aðlagast þýskum lögum og menningu, - innflytjendur tóku yfir Pólland.
Á 14. öld sameinuðust Pólverjar og Litháar í stríði gegn Riddarareglunni frá Riga, sem hafði framið fjöldamorð á pólskum bændum og riddurum.
Á 16. öld ríkti samveldi Pólverja og Litháa, en þetta ástand ríkti fram á 18. öld. En árið 1572 gerðist sá stórmerkilegi hlutur að Sigmundur II Ágústus konungur Póllands lést án erfingja. Eftir miklar pælingar var ákveðið að kjósa næsta kóng, en aðalsmenni fengu kosningarétt. Sá sem fékk kosningu yrði við völd til dauða, og þá færi næsta kosning fram. Þeir sem buðu sig fram voru engir Pólverjar: Henri frá Valois (bróðir Frakkakonungs); rússneskur zsar, Ivan IV, Ernest erkigreifi frá Austurríki og Svíakonungur, Jóhann Vasa III. Henri frá Valois vann kosningarnar, en þremur árum síðar lést Frakkakonungur og hann flutti til Frakklands til að taka við krúnunni, og skyldi Pólland eftir konungslaust.
Mikið var um styrjaldir og uppreisnir á þessu tímabili og eftir styrjaldir 17. aldar var Pólland loks gjaldþrota.
Á 18. öld gerðu Pólverjar samkomulag með Rússum og tóku þátt í stríði gegn Svíum um yfirráð baltneska landsvæðisins. Barist var í Póllandi um pólska hásætið. Svíar sigruðu árið 1704. Svíar töpuðu svo fyrir Rússum 1709. Eftir að borgarastríð árið 1717 var Pólland gert að fylki í rússneska ríkinu. Árið 1732 gerðu Rússar, Prússar og Austurríkismenn samþykkt um að halda Póllandi óvirku sem ríki í Evrópu. Afleiðingin var sú að stjórnleysi ríkti í landinu næstu árin.
Ólíkar þjóðir voru með puttana í stjórnun Póllands næstu áratugina, og Pólverjar sáu fyrst tækifæri til að öðlast sjálfstæði eftir fyrri heimsstyrjöldina árið 1918, enda höfðu þær þjóðir sem vildu stjórna Póllandi allar farið illa út úr stríðinu.
Frá 1918-1930 fengu Pólverjar loks að lifa í friði frá styrjöldum og fátækt. En blómaskeiðið var ekki langt, því árið 1930 skall á kreppan mikla, en samt ríkti friður í Póllandi til 1939 þegar nasistar réðust inn Pólland og hófu þannig síðari heimstyrjöldina. Póllandi var skipt upp í svæði sem sovétmenn og nasistar skiptu á milli sín.
Pólverjar voru mjög andsnúnir nasistum og gerðu margar tilraunir til að berjast gegn þeim, en talið er að um sex milljón Pólverjar hafi verið myrtir af þýskum nasistum og tvær og hálf milljón Pólverja fluttir til Þýskalands í nauðungarvinnu. Aðeins um 500.000 þeirra sem drepnir voru, voru hermenn. Það er útbreiddur misskilningur að það hafi aðallega verið pólskir gyðingar sem voru fórnarlömb nasista, en það rétta er að um helmingur þeirra sem voru drepnir voru kristnir og hinn helmingurinn gyðingar. Árið 1945 höfðu Pólverjar tapað um 25% þjóðarinnar í síðari heimstyrjöldinni, og skyldi eftir sig um eina milljón munaðarleysingja. Þjóðin tapaði um 38% af eigum sínum, á meðan Bretar töpuðu um 1% og Frakkar einnig um 1%.
Í júní, árið 1945 fengu Pólverjar aftur sjálfstæði. Næstu áratugir voru erfiðir. Kommúnistar héldu völdum. Starfsskilyrði voru erfið, laun lág og fátækt mikil. Mikið var um verkföll, sem jafnvel var brugðist við með hervaldi.
Árið 1989 var kommúnismi aflagður í Póllandi, og loks fór ástandið að skána. Pólland gekk í NATO 1999 og í Evrópusambandið árið 2004.
Myndir og upplýsingar: Wikipedia.org. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Hvað er ábyrgð? (30 tilvitnanir)
23.3.2008 | 13:24
Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði um daginn að hann hafi axlað ábyrgð í REI-málinu með því að leggja sig allan fram um að upplýsa um hvað hafði í raun gerst, hrópaði fullt af fólki upp fyrir sig og sagði að það væri ekki að axla ábyrgð. Eina leið hans til að axla ábyrgð hefði verið að viðurkenna að hann gerði ekki bara mistök, heldur reyndi hann að villa um fyrir fólki og þröngva ósanngjörnu máli í gegn til samþykkis, án þess að nokkur fengi tækifæri til að segja nokkuð eða gera nokkuð í málinu.
Ég held að fólk þurfi að axla ábyrgð á gjörðum sínum, sama hverjar þær eru. Ef um mistök er að ræða, þá er hægt að axla ábyrgð með því að leiðrétta þau og gera sitt besta til að slíkt komi ekki fyrir aftur. Ef hins vegar er um vítavert viljaverk að ræða og ekki mistök, sem hann þrætir fyrir og heldur áfram að framkvæma þar til hann er stoppaður, án þess að taka tillit til viðvarana og þeim boðum sem komið er til hans; þá er um alvarlegra brot en mistök að ræða.
Fyrir leikmenn lítur út fyrir að íslenska efnahagskerfið sé að hruni komið, og fljótt heyrir maður að það sé fólkið í landinu sem ber ábyrgð, ekki fjármálastofnanir sem lánuðu fólkinu pening til að kaupa sér miklu meira en það þarf á að halda. En hver ber í raun ábyrgð á hagkerfinu? Eru einhverjir sem hafa meira vald en aðrir, og hvernig fara þeir með það? Það er fólkið með völdin sem ber ábyrgð, en enginn virðist vita hverjir það eru. Er eitthvað mál að finna þessa einstaklinga og athuga hvort að þeir séu að axla þá ábyrgð sem þeim er skylt?
Foreldrar bera ábyrgð á að veita börnum sínum klæði, fæði og húsaskjól. Ríkið ber ábyrgð á að skapa fólki aðstæður þar sem það getur haft klæði, fæði og húsaskjól. En nú eru aðstæður þannig á Íslandi að það er ekki sjálfsagður hlutur að fólk hafi efni á húsaskjóli, án þess að skuldbinda sig við banka í 5-40 ár. Þarna held ég að Ríkið sé ekki að axla eigin ábyrgð. Allir Íslendingar ættu að hafa sem grundvallarréttindi að þeir geti klætt sig, fætt sig og haft þak yfir höfuðið. Einstaklingar sem borgað hafa 40% af launum sínum til ríkisins til margra ára eru ekki einu sinni að fá grundvallarnauðsynjar til baka.
Nóg um mína samfélagsskoðun, og um að gera að vinda sér yfir í 30 tilvitnanir um ábyrgð:
"Manneskjan er vél. Allar hennar framkvæmdir, orð, hugsanir, tilfinningar, skoðanir og venjur eru árangur ytri áhrifa, ytra áreitis. Út frá sjálfum sér getur manneskjan ekki framleitt eina hugsun, eina athöfn. Til að átta sig á þessari staðreynd, til að vera sannfærð um sannleika hennar, þarf hún að losa sig við þúsundir tálsýna um hvað manneskjan er, um það að hún sé skapandi og á meðvitaðan hátt skipuleggjandi eigið líf, og svo framvegis. En það er eitt að skilja með huganum og annað að finna með eigin 'algjöru heild' að svona er þetta og gleyma því aldrei... Það er mögulegt að hætta að vera vél, en til þess er fyrst nauðsynlegt að þekkja vélina. Vél, alvöru vél, þekkir ekki sjálfa sig og getur ekki þekkt sig. Þegar vél þekkir sig þá er hún ekki lengur vél, að minnsta kosti ekki eins vél og hún var áður. Hún er þegar byrjuð að axla ábyrgð á eigin gerðum." (G. I. Gurdjeff)
"Andstæðingar fóstureyðingar hafa haft það miklar áhyggjur af að sanna sjálfstæði fóstursins til að sýna fram á rétt þess til að lifa, rétt eins og móðirin, að þeir hafa gleymt þeim stuðningi sem þeir gætu fengið með því að halda því fram að fóstrið reiði á móðurina, og sýna fram á að það sé móðirin sem ber ábyrgðina fyrir því, ábyrgð sem gefur því réttindi gegn henni sem engin sjálfstæð manneskja hefur." (Judith Jarvis Thomson)
Ef frjálst val er það dýrmætasta í heiminum, er frjálst val til að vera í rauðum sokkum jafn verðmætt og frjálst val til að myrða eigin föður eða fórna eigin lífi fyrir vin sinn. Slík trú er fáránleg. (Mary Warnock)
"Föðurlandsást er lifandi skynjun á samfélagslegri ábyrgð. Þjóðernishyggja er asnalegur hani sem galar uppi á eigin skítahaug." (Richard Aldington)
"Eina ábyrgð rithöfundarins er gagnvart listinni." (William Faulkner)
"Völd án ábyrgðar: forréttindi vændiskvenna gegnum aldirnar." (Rudyard Kipling)
"Frelsi þýðir ábyrgð. Það er ástæðan fyrir því að menn óttast það. (George Bernard Shaw)
"Ábyrgð á sér upptök í draumum." (W.B. Yeats)
"Aldrei skaltu gleyma litlu hlutunum. Aldrei sleppa því að gera aðeins meira en þú þarft, þessar örfáu mínútur til viðbótar, þessum mjúku orðum sem fylgja hrósi og þakklæti, þessari afhendingu þess allra besta sem þú getur gert. Það skiptir ekki máli hvað öðrum finnst, hins vegar skiptir öllu máli hvað þér finnst um þig sjálfan. Þú getur aldrei gert þitt besta, sem þú ættir að gera að kennisetningu þinni, ef þú styttir þér leið og hörfar undan ábyrgð. Þú ert sérstakur. Framkvæmdu í samræmi við það. Aldrei gleyma litlu hlutunum." (Og Mandino)
"Það er auðvelt að svíkjast undan ábyrgð, en við getum ekki komið okkur undan afleiðingum þess að svíkjast undan ábyrgð." (Josiah Charles Stamp)
"Að mistakast ætlunarverk er hluti af undirbúningi náttúrunnar til að taka við mikilli ábyrgð." (Napoleon Hill)
"Undirstaða allra viðskipta er að menn taki ábyrgð." (Mahatma Gandhi)
"Manneskja getur ekkert viljað fyrr en hún hefur skilið að hún getur engum treyst nema sjálfri sér; að hún sé ein, yfirgefin á jörðinni umvafin óendanlegum ábyrgðum, án aðstoðar, með engin önnur markmið en þau sem hún setur sér sjálf, með engin önnur örlög en þau sem hún setur sér sjálf á þessari jörð." (Jean-Paul Sartre)
"Frelsi er pakkatilboð - það kemur með ábyrgð og afleiðingum." (NN)
"Ábyrgðir laðast að þeim sem geta axlað þær og valdið til þeirra sem vita hvernig." (Elbert Hubbard)
"Spurningin er, innan ramma laganna, bera stjórnendur samsteypu einhverja ábyrgð gagnvart gerðum sínum aðra en þá að búa til eins mikinn pening fyrir hluthafa og mögulegt er? Og mitt svar við því er, nei það gera þeir ekki." (Milton Friedman)
"Mikilvægasta ábyrgð hinna frjálsu fjölmiðla er sú skylda að koma í veg fyrir að einhver hluti af ríkinu blekki fólkið og sendi það til fjarlægra landa til að deyja úr útlendum sjúkdómum og útlendum byssuskotum og sprengjubrotum." (Hugo Black)
"Ég lifi ekki mjög puntuðu lífi. Mín bíða ekki bílstjórar eða fólk sem gerir allt fyrir mig. Ég lifi eins og venjuleg manneskja. Það er ekki gott að lifa lífinu án ábyrgðar, veistu það?" (Liv Tyler)
"Ef þú vilt að börn þín hafi fæturna á jörðinni, leggðu þá einhverja ábyrgð á herðar þeirra." (Abigail Van Buren)
"'Ég verð að gera eitthvað' leysir alltaf fleiri vandamál en 'Einhver verður að gera eitthvað'." (NN)
"Manneskjan uppgötvar fyrr eða síðar að hún er garðyrkjumaður eigin sálar, leikstjóri eigin lífs." (James Allen)
"Ábyrgð: birgði sem hægt er að afhlaða og auðveldlega vísa til Guðs, örlaganna, forlaganna, heppni, nágrannans. Á dögum stjörnuspekinnar var venjan að vísa ábyrgðinni til stjarnanna." (Ambrose Bierce)
"Ábyrgð er eins og strengur þar sem við getum bara séð miðjuna. Báðir endar eru huldir sjónum." (William McFee)
"Viljinn til að axla ábyrgð á eigin lífi er uppspretta sjálfsvirðingar." (Joan Didion)
"Axlaðu ábyrgð á eigin líf, og hvað gerist. Hræðilegur hlutur: engum hægt að kenna um." (Erica Jong)
"Þegar þú kennir öðrum um, gefurðu frá þér vald til að breyta." (NN)
"Skylda er nokkuð sem maður reiknar með frá öðrum." (Oscar Wilde)
"Guð hefur treyst mér fyrir mér sjálfum" (Epíktet)
"Miklu valdi fylgir mikil ábyrgð" (Spider-Man - Stan Lee)
"Það ósanngjarnasta við lífið er hvernig því lýkur. Ég meina, lífið er erfitt. Það tekur mikið af þínum tíma. Hvað færðu svo þegar því lýkur? Dauða! Hvað er það, bónus? Ég held að lífsferlið ætti að vera í hina áttina. Þú ættir fyrst að deyja, losna við það. Síðan býrðu á elliheimili. Þér er svo sparkað út þegar þú ert orðinn of ungur, þú færð gullúr, þú ferð að vinna. Þú vinnur í fjörtíu ár þar til þú ert orðinn nógu ungur til að hætta. Þú fer í eiturlyf, áfengi, skemmtir þér, og undirbýrð þig fyrir menntaskóla. Þú ferð í gagnfræðaskóla, verður svo barn, án nokkurrar ábyrgðar, þú verður að litlu barni, þú ferð aftur í móðurkvið og þú eyðir síðustu níu mánuðunum fljótandi... og svo endarðu í fullnægingu." (George Carlin)
Myndir: Wikipedia.org og fleiri. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)