Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hvað er heiðarleiki? (53 tilvitnanir)

Þegar ég var pjakkur sagði móðir mín mér að segja alltaf satt, og faðir minn að vernda það sem er gott. Ég áleit sannleikann vera eitthvað gott og ákvað því að bæði vernda hann og segja alltaf satt. Þessi heiðarleiki kom mér oft í vandræði, því að ekki var vinsælt þegar einn daginn skólastjórinn kom inn í stofu og spurði hvort einhver hefði séð hver kastaði grjóti gegnum rúðu á skólastofu, og ég rétti upp hönd og sagði satt frá, enda hafði ég séð atburðinn.

Varð ég fyrir ofsóknum næstu frímínútur og þurfti að leggja á flótta undan stórum hópi af krökkum, sem töldu mig hafa gert rangt með því að segja satt. Það var ekki fyrr en ég hætti að flýja og tók upp grjót, og hótaði að henda í þann sem nálgaðist mig að þau hættu þessum ofsóknum. Þetta gerðist allt á tveimur klukkustundum fyrir mörgum árum, en ég man það eins og gerst hefði í gær og er enn stoltur af að hafa náð að segja satt og verndað sannleikann, eins og foreldrar mínir höfðu kennt mér. Samt er spurning hvort að gott sé að finna til stolts vegna slíkra hluta.

Árin liðu og enn trúði ég þessu. Einn af félögum mínum dó þegar við vorum unglingar og fólk í kringum mig talaði um hversu tilgangslaus þessi dauði var. Ég trúði því ekki að nokkur dauði væri tilgangslaus, nema við lifðum í samræmi við þá trú að hann væri tilgangslaus. Því ákvað ég á þessu augnabliki að lfia mínu lífi með það til hliðsjónar að tilgangur verði með lífi og dauða þess fólks sem tengist mér á einhvern hátt.

Í námi í Bandaríkjunum bjó ég í fátæklegu New Jersey hverfi á Orange Road, sömu götu þar sem Thomas Edison hafði verið með rannsóknarstofu hundrað árum áður. Ég leigði íbúð ásamt Íranum Ken, eiginkonu hans Felicity frá Zimbabwe, Finnanum Hannu, og Brasilíumanninum Rigoni. Við vorum allir nema Felicity að nema kennslufræði í heimspeki fyrir börn. Okkur varð tíðrætt um sannleikann og fengum oft fjörugar samræður út úr þeim. Ken hélt því fram að ekki væri til heiðarleg manneskja í heiminum, og ég svaraði honum því að sú manneskja væri til, og að ég viss það enda væri ég það og það væri nóg fyrir mig til að vita að heiðarleg manneskja væri til í heiminum. 

Spólum nokkrum árum fram í tímann, þar sem ég er að kenna heimspeki í FB. Einn af nemendum mínum, Jens, hefur komið með fullyrðingu sem hann síðan áttar sig á að hann getur ekki staðið við. Hann réttir upp hönd og viðurkennir að hafa haft rangt fyrir sér. Hann gerði þetta tvisvar sinnum í námskeiðum hjá mér og fannst það greinilega mjög erfitt í bæði skiptin, en launin voru ríkuleg. Hann komst aðeins nær sannleikanum.

Í dag er ég að velta fyrir mér dygðum. Í gær tók ég fyrir virðingu, og í dag er það heiðarleikinn. Ég tel allar þessar dygðir vera forsendur fyrir góðu lífi sem hefur merkingu útfyrir líf og dauða, ríkidæmi og fátækt, og málefni líðandi stundar.  

Ég er með tíu grundvallardygðir í huga sem mig langar að velta fyrir mér á næstu dögum.

 

Heiðarleiki 

 

"Ef þú segir alltaf satt þarftu ekki að muna neitt." (Mark Twain)

 

 

"Heiðarleiki er fyrsti kaflinn í bók viskunnar." (Thomas Jefferson)

 
 
"Heiðarleikinn er lofaður en síðan skilinn eftir skjálfandi." (Juvenal)
 
 
"Heiðarleiki er góður en ekki hagkvæmur fyrir notandann nema honum sé vel stjórnað." (Don Marquis)
 
 
"Þú skalt ekki byggja heiðarleika þinn á trúarbrögðum og reglum. Bæði trúarbrögð þín og reglur skulu byggja á heiðarleika þínum." (John Ruskin)
 
 
 "Spilling er ekki sigursælari en heiðarleiki." (William Shakespeare - Henry VIII)
  
 
"Hugsanlega eru engar aðstæður jafn hættulegar fyrir heilindi eigin heiðarleika en þær... að vita að maður er elskaður af stúlku sem maður næstum því elskar sjálfur." (Anthony Trollope.)
 
 
"Heiðarleiki er besta reglan, en sá sem lætur stjórnast hugsunarlaust af þessari reglu er ekki heiðarleg manneskja." (Richard Whately)
 
 
"Það er erfitt að trúa því að manneskja sé að segja satt þegar þú veist að þú myndir ljúga í hans sporum." (Henry Louis Mencken)
 
 
"Sá sem lýgur fyrir þig mun ljúga gegn þér." (Bosnískt spakmæli)
 
 
"Engin manneskja er með nógu gott minni til að ná góðum árangri sem lygari." (Abraham Lincoln)
 
"Hálfur sannleikur er heil lygi." (Jiddískt spakmæli) 
 
 
"Þeir sem telja ásættanlegt að nota hvítar lygar verða fljótlega litblindir." (Austin O'Malley)
 
 
"Hættulegustu lygarnar eru smávægilegar hagræðingar á sannleikanum." (Georg Christoph Lichtenberg)
 
 
"Með lygum kemstu kannski áfram í lífinu - en þú kemst aldrei til baka." (Rússneskt spakmæli) 
 
 
"Lygar hafa hraða, en sannleikurinn hefur úthald." (Edgar J. Mohn)
 
 
"Sannleikurinn er það dýrmætasta sem við höfum, því reyni ég að varðveita hann." (Mark Twain)
 

"Við ljúgum þegar við erum hrædd... hrædd við það sem við þekkjum ekki, hrædd við hvað aðrir hugsa, hrædd við hvað uppljóstrast um okkur. En í hvert sinn sem við ljúgum, verður þetta sem við óttumst enn öflugra." (Tad Williams)
 
 
"Sannleikurinn óttast engar spurningar." (NN)
 
 
"Stundum hrasa menn yfir sannleikanum, en flestir eru fljótir að koma sér á fætur og flýta sér í burtu eins og ekkert hefði í skorist." (Winston Churchill) 
 
 
"Sannleikurinn er mikilvægari en staðreyndirnar." (Frank Lloyd Wright)
 
 
"Ef lygar, eins og sannleikurinn, hefðu aðeins eitt andlit, þá værum við í sömu stöðu. Því að við myndum álíta andstæðu þess sem lygarinn segir sem fullvissu. En andstæða sannleikans hefur hundrað þúsund andlit og óendanlegan völl." (Michel de Montaigne)
 
 
"Þegar manneskja lýgur, myrðir hún hluta af heiminum." (Rospo Pallenberg og John Boorman)
 
 
"Þeir sem eru heiðarlegir af hörku fá meira út úr hörkunni en heiðarleikanum." (Richard J. Needham)
 
 
"Ef við fengjum öll þann töframátt að geta lesið hugsanir hvert annars, reikna ég með að fyrstu áhrifin yrðu þau að öll vinátta yrði að engu." (Bertrand Russell)
 

"Gættu þín á hálfum sannleikanum. Þú gætir verið með ranga helminginn." (NN)
 
 
"Sannleikur er svo sjaldgæfur, það er unaður að segja hann." (Emily Dickinson)
 

"Sannleikurinn er mikill og mun sigra að lokum. Það er ekkert að þessu, nema að svona er þetta ekki." (Mark Twain) 
 
 
"Veruleikinn er nógu slæmur. Af hverju ætti ég að segja sannleikann?" (Patrick Sky)
 
 
"Segðu sannleikann, en flýttu þér í burtu strax og þú ert búinn." (Slóvenskt spakmæli)
 
 
"Grimmilegustu lygarnar eru oft sagðar í þögn." (Adlai Stevenson)
 

"Það er ekki án góðrar ástæðu sagt að sá sem hefur slakt minni skuli aldrei venja sig á lygar." (Michel de Montaigne)
 
 
"Manneskja er síst hún sjálf þegar hún talar frá eigin hjarta. Láttu hana fá grímu og hún mun segja þér sannleikann." (Oscar Wilde)
 

"Lygi getur ferðast yfir hálfan heiminn á meðan sannleikurinn er enn að setja á sig skóna." (Mark Twain)
 
 
"Smá ónákvæmni getur stundum komið í veg fyrir heljarinnar útskýringar." (Saki)
 
 
"Sumt fólk þolir ekki tilfinningalegan heiðarleika í samskiptum. Það myndi frekar verja óheiðarleika með þeim rökum að heiðarleikinn geti sært aðra. Þar af leiðandi, eftir að hafa rökstutt fals sem eitthvað göfugt, sættir það sig við yfirborðskennd sambönd." (NN)
 

"Það þarf tvo til að ljúga. Einn til að ljúga og annan til að hlusta." (Matt Groening - Hómer Simpson)
 

"Það er hægt að komast að því hvort að manneskja sé heiðarleg - spurðu hana. Ef svarið er "Já", þá veistu að hún er það ekki." (Groucho Marx)
 
 
"Segðu alltaf sannleikann. Ef þú getur ekki alltaf sagt sannleikann, ekki ljúga." (NN)
 
 
"Samkvæmni er að segja sjálfum mér sannleikann. Heiðarleiki er að segja öðrum sannleikann." (Spencer Johnson)
 
 
"Ef það er ekki rétt, gerðu það ekki. Ef það er ekki satt, segðu það ekki." (Markús Árelíus)
 

"Heiðarleg hjörtu framkvæma heiðarlega." (Brigham Young)
 
 
"Allar athafnir framkvæmdar af óheiðarleika hafa að minnsta kosti tvö fórnarlömb: þann sem maður telur að sé fórnarlambið, og gerandann líka. Sérhver ögn af óheiðarleika býr til annan rotinn blett einhvers staðar í sál gerandans." (Lesley Conger)
 
 
"Heiðarleiki er hornsteinn alls árangurs, en án heiðarleika myndu traust og geta til framkvæmda verða að engu." (Mary Kay Ash)
 

"Besta leiðin til að lifa með heiðri í þessum heimi er að vera sá sem við þykjumst vera." (Sókrates)
 
 
"Baktal og níð geta ekki eyðilagt heiðarlega manneskju - þegar flóðið gengur til baka er kletturinn ennþá til staðar." (Kínverskt spakmæli)
 
 
"Að vera ósammála á heiðarlegum forsendum er oft merki um góða þróun." (Mahatma Gandhi)
 
"Ég hræðist ekki hótanir þínar, Cassius, því að ég er vel undirbúinn, með heiðarleikann að vopni, þannig að hótanir þínar fjúka framhjá mér eins og stefnulaus vindur, nokkuð sem ég ber enga virðingu fyrir." (Williams Shakespeare - Julius Caesar)
 
 
"Öll lifum við aðeins einu sinni; ef við erum heiðarleg, þá er nóg að lifa einu sinni." (Greta Garbo)
 
 
"Ég á mér sex heiðarlega þjóna: þeir kenndu mér allt sem ég kann. Þeir heita Hvað og Hví og Hvenær og Hvernig og Hvar og Hver." (Rudyard Kipling)
 
 
"Eitt af því erfiðasta í þessum heimi er að viðurkenna þegar þú hefur rangt fyrir þér." (Benjamin Disraeli)
 
 
"Við þurfum að gera heiminn heiðarleikann áður en við getum af heiðarleika sagt við börn okkar að heiðarleiki sé besta reglan." (George Bernard Shaw)
 
 
"Heiðarleiki er að mestu leiti óhagkvæmari en óheiðarleiki." (Platón)
 
Myndir: Wikipedia.org og fleiri. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.

30 óljós svör við spurningunni: "Hvað er virðing?"

Print3

Undanfarna daga hef ég verið að velta fyrir mér virðingu og spáð í það hvort að við berum nógu mikla virðingu fyrir náunganum og náunginn fyrir okkur. Ég hef sérstaklega verið að hugsa um virðingu milli kynslóða, stétta og þjóða.

Berum við jafn mikla virðingu fyrir öðrum á Íslandi í dag og við eigum að venjast?

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort að virðing sé kennd í leikskólum og grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum og á vinnustöðum, og hvort að yfirleitt sé mögulegt að kenna virðingu.

Maður heyrir aldrei of mikið af visku og pælir aldrei of lítið í hlutum eins og gagnkvæmri virðingu.

Gerðu svo vel. Njóttu! 

 

 Virðing


"Það er ekki nóg að eiga virðingu skilið til að vera virtur af öðrum." Alfred Nobel

 

 

"Það er líklega enginn heiður meiri en sá að öðlast virðingu félaga þinna." Cary Grant

 

 

"Þeir einir eru virðingarverðir sem virða aðra." (Ralph Waldo Emerson)

 

 

"Ef þú berð virðing fyrir fólki eins og það er, þá geturðu gert meira gagn í að hjálpa þeim að bæta sig." (John W. Gardner)

 

 

"Ég verð að virða skoðanir annarra þó að ég sé þeim ósammála." (Herbert Henry Lehman)

 

 

"Síðan hvenær er snilld virðingarverð?" (Elizabeth Barrett Browning)

 

 

"Ég ber of mikla virðingu fyrir hugmyndinni um Guð til að gera hana ábyrga fyrir þessum fáránlega heimi. (Georges Duhamel)

 

 

"Maður skal hafa sem reglu að bera virðingu fyrir almenningsálitinu svo framarlega sem að það kemur í veg fyrir að maður svelti í hel eða verði kastað í steininn, en allt fyrir utan það er viljandi undirgefni ónauðsynlegs ógnvalds, og er líklegt til að trufla leitina að hamingjunni á margvíslegan hátt." (Bertrand Russell)

 

 

"Ég hata fórnarlömb sem bera virðingu fyrir böðlum sínum." (Jean-Paul Sartre)

 

 

"Berð þú enga virðingu fyrir stað, manneskjum eða tíma?" (William Shakespeare)

 

 

"Því meira sem maður skammast sín, því virðingarverðari er hann." (George Bernard Shaw)

 

 

"Ef fólk ætlar að bera virðingu vegna manneskjunnar sjálfrar, þarf það að hætta að bera virðingu vegna þess sem manneskjurnar eiga." (J.P. Taylor)

 

 

"En hvað ég virti þig mikils þegar þú þorðir að segja mér sannleikann!" (Anthony Trollope)

 

 

"Einungis þeir sem lifa verðskulda virðingu, hinir dauðu verðskulda sannleikann." (Voltaire).

 

 

"Enginn ber virðingu fyrir mér." (Rodney Dangerfield)

 

 

"Ef þú hefur tíu þúsund reglugerðir tapast virðingin fyrir lögunum." (Winston Churchill)

 

 

"Sambönd af öllum toga eru eins og sand sem þú heldur í hendi þinni. Haltu laust og með opinni hendi og sandurinn liggur áfram þar sem hann er. Þegar þú lokar hendinni og kreistir fast til að halda í sandinn, þá rennur hann milli fingra þinna. Þú getur haldið í eitthvað af honum, en mest af honum fer. Sambönd eru þannig. Haltu laust, með virðingu og frelsi, og sambandi er líklegt til að vera heilt. En haldir þú of fast, af of mikilli eigingirni, þá rennur sambandið út í sandinn og er týnt." (NN)

 

 

"Þegar þú ert sáttur við að vera einfaldlega þú sjálfur og berð þig ekki saman við aðra og keppir ekki, þá munu allir bera virðingu fyrir þér." (Lao Tzu) 

 

 

"Jafnt á meðal einstaklinga sem og þjóða, þá er virðing fyrir rétti annars fólks friður." (Benito Juarez)

 

 

"Vinur hættir við áætlanir sínar þegar þú ert í vanda, fagnar með þér í sigrum þínum, er dapur þegar þér líður illa. Vinur hvetur þig til að láta drauma þína rætast og gefur ráð - en þegar þú fylgir þeim ekki, ber hann samt virðingu fyrir þér og elskar þig." (NN) 

 

 

"Ég ber virðingu fyrir þeim manni sem kann að stafsetja orð á fleiri en einn hátt." (Mark Twain).

 


"Án virðingar, hvað er það sem greinir menn frá skepnum?" (Confusius)

 


"Þegar fólk ber ekki virðingu fyrir okkur móðgumst við hrikalega, en samt ber engin manneskja mikla virðingu fyrir sjálfri sér!" (Mark Twain)

 

 

"Ekkert er fyrirlitlegra en virðing sem sprottin er af ótta." (Albert Camus)

 

 

“Ef við eigum að bera virðingu fyrir trúarbrögðum annarra eins og við viljum að þeir beri virðingu fyrir okkar, er það heilög skylda okkar að fræðast um trúarbrögð heimsins á vingjarnlegum nótum.” (Mahatma Gandhi)

 

 

"Ég vil vera mjög nálægt einhverjum sem ég virði og lofa, og ég vil hafa einhvern nálægt mér sem hefur sömu tilfinningu gagnvart mér." (Richard Bach)

 

 

"Enginn innri styrkur, engin ytri virðing." (Kashmiri spakmæli)

 

 

"Umhugsunarlaus virðing fyrir yfirvaldinu er versti óvinur sannleikans." (Albert Einstein)

 

 

"Ást og virðing fylgja ekki leiðtogastöðum sjálfkrafa. Það verður að vinna fyrir þeim." (NN)

 

 

"Að hlæja oft og mikið; að öðlast virðingu fólks með góða greind, og kærleika frá börnum... að skilja við heiminn í betra ástandi en þegar þú komst inn í hann... að vita að þó ekki nema eitt líf hafi andað rólegar vegna þess að þú lifðir. Það er að hafa náð árangri."  (Ralph Waldo Emerson)

Baby%20Feet

 

Myndir: Wikipedia.org og fleiri. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties. 


My Name is Nobody (1973) ***1/2

Jack Beauregard (Henry Fonda) er mesta byssuskytta Villta Vestursins, hann er það snöggur að þegar hann skýtur þremur skotum hljómar eins og um eitt skot hafi verið að ræða. Hann er orðinn þreyttur á stanslausum byssubardögum, og vill hætta með því að koma sér úr landi. Til þess þarf hann hins vegar að innheimta pening sem Sullivan bróðir hans (Jean Martin) skuldar honum. Sullivan er hins vegar ekki á því að borga Jack peninginn og hefur ráðið leigumorðingja til þess að drepa hann og alla vini hans, sama hvert hann fer.

Á ferð sinni rekst Jack á Nobody, eða Engan (Terence Hill) eins og hann kallar sig, en ef einhver er skjótari en Jack með framhleypuna í öllu Villta Vestrinu, þá er það hann. Í fyrstu heldur Jack að Enginn sé bara enn einn byssubófinn sem vill verða frægur fyrir að drepa hann, en Enginn er með miklu háleitari markmið, hann vill fyrst koma málum þannig fyrir að Jack sigri í skotbardaga gegn 150 byssubófum, og eftir það langar hann að taka kallinn í einvígi.

Sjón Jack er farin að förlast, enda kominn á efri ár og hann veit að komist hann ekki fljótlega úr landi verði hann skotinn af einhverjum heppnum óvini. Það er lán í óláni að hann skuli rekast á Engan, því Enginn vill halda honum á lífi svo að hann geti tekið þátt í skotbardaganum mikla.

Þetta er svolítið öðruvísi vestri. Hann er blanda af alvarlegum spaghettí vestra og léttu spaugi. Henry Fonda sér um að gera söguna og aðstæðurnar trúverðugar, en Terence Hill heldur uppi húmornum, og gerir það afar vel - enda með fína reynslu úr Trinity myndunum frægu. Leikstíll hans minnir töluvert á Jackie Chan, þó að hann sé engin Kung-Fu hetja. Þessi mynd hefði alveg eins getað heitið: "Ég heiti Lukku Láki".

My Name is Nobody er fín skemmtun, en vegna undarlegra klippinga í stóra bardaganum og alltof augljósrar hraðspólurnar til að láta hlutina gerast hratt, hrapar hún aðeins í verði. Hún er samt fín skemmtun og alltaf, og ég endurtek ALLTAF, stórgaman að fylgjast með Henry Fonda. Goðsögnin Sergio Leone framleiddi og átti hugmyndina að myndinni og Ennio Morrecone samdi stórgóða kvikmyndatónlist fyrir hana.


Hvað er svona merkilegt við Harry Potter? (Bækur 1-7) ***1/2

Árið 2001 las ég fyrstu Harry Potter bókina áður en fyrsta kvikmyndin kom út. Mér þótti hún mjög góð og spennandi, og mun betri en kvikmyndin. Síðan hef ég lesið allar hinar bækurnar og kláraði þá síðustu í gær. Nú vil ég einfaldlega gera grein fyrir hvað mér finnst um þessar bækur. Ég vil taka það fram að ég las þær allar á ensku og hef ekki kynnt mér íslensku þýðinguna. Hægt er að segja að J.K. Rowling hafi unnið mikið þrekvirki með þessum bókum, en 765 persónur eru nafngreindar í þeim, þannig að ekki er ofsagt að hún hafi skapað með þessum skáldsögum heilan heim.

Harry Potter and the Philosopher's Stone (1997) fjallar um upphafið á sögu Harry Potter. Hinn illi galdramaður Voldemort myrti foreldra hans og ætlaði að myrða hann, vegna þess að spádómur sá fyrir að þessi drengur væri það eina sem gæti staðið í vegi fyrir því að Voldemort næði heimsyfirráðum í galdraheiminum. Þegar hann reyndi að drepa drenginn sundraðist hann sjálfur og varð að nánast engu. Það tekur Voldemort mörg ár að ná fullum kröftum á nýjan leik. Þegar vinir foreldra Harry Potters koma á staðinn og sjá að þau hafa verið myrt, þurfa þau að finna honum einhvern stað. Þau fara með hann til systur móður hans og biðja hana að gæta hans næstu árin. Hún gerir það, en Harry Potter verður stöðugt fyrir andlegu ofbeldi frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Hann er látinn gista í kytru undir stiga og fær ekki almennilegt herbergi fyrr en hann er orðinn of stór fyrir kytruna.

Árin líða og Harry uppgötvar að hann er ekki eins og önnur börn. Til dæmis stendur hárið alltaf í allar áttir og þó að það sé klippt af vex það aftur á ofurhraða. Hann uppgötvar líka að hann getur hreyft sig á ofurhraða, sérstaklega þegar hann er á flótta undan jafnöldrum sínum. Og síðast og ekki síst uppgötvar hann að hann getur talað við slöngur.

Þegar Harry er kominn á aldur er honum boðið að fara í Hogwarts, skóla fyrir börn með galdrablóð í æðum. Hann þiggur boðið með þökkum, þrátt fyrir mótmæli fósturforeldranna. Þar kynnist hann góðum vinum, Ron Weasley og Hermoine Granger, sem eiga eftir að fylgja honum gegnum öll hans ævintýri næstu sjö árin. Einnig kynnist hann hinum illkvittna Draco Malfoy, sem virðist vera náttúrulegur óvinur Harry.

Kennarar skólans eru einnig mjög skrautlegir og of margir til að telja upp. Fremstur þeirra er Albus Dumbledore, skólastjóri og magnaður galdramaður. Helsti aðstoðarmaður hans er svo Minerva McGonagall sem getur skipt um ham eftir geðþótta. Besti vinur Harry á meðal starfsmanna er hinn hálfmennski og hálfur risi Hagrid, en galdrar hans misheppnast oftast, en hann hefur mikla þekkingu á meðhöndlun skrímsla og annarra galdravera. Harry er meinilla við Severus Snape, kennara sem virðist holdgerving hins illa, en er annað hvort hliðhollur Dumbledore eða Voldemort, nokkuð sem kemur ekki í ljós fyrr en í síðustu bókinni.

Í ljós kemur að Voldemort er aftur kominn á kreik og er á höttunum eftir heimspekisteininum (Philosopher's Stone) og Harry tekur að sér það verkefni að koma í veg fyrir að Voldemort nái aftur fullum styrk. Næstu fimm bækur fjalla um það nákvæmlega sama, nema að Voldemort og Harry eru á höttunum eftir ólíkum hlutum, og skemmtilegum persónum fjölgar stöðugt, þar til að stríðið á milli Dauðahers Voldemorts og Fönix-reglan (Order of the Phoenix - leynisamtök hinna góðu) takast á í síðustu bókinni, þá hríðfækkar þeim enda að minnsta kosti fimmtíu manns drepnir á síðustu hundrað blaðsíðum sögunnar, og af þeim nokkrir sem komið hafa mikið við sögu. Ég ætla ekki að gefa upp hvað verður um Harry Potter og félaga hans, en endirinn er nokkuð óvæntur sama hvað maður hefur reiknað með.

Ekki má gleyma Qudditch, sem er knattleikur spilaður á fljúgandi kústsköftum. Mér finnst alltof mikið gert úr þessum leik í bókunum, þó að hugmyndin sé vissulega sniðug.

Í Harry Potter and the Chamber of Secrets (1998) berst Harry og félagar við gríðarlega stóran snák sem sloppið hefur úr leyniherbergi með hjálp Ginny Weasley, en hún er andsetin af minningum Voldemorts sem geymdar voru í dagbók Tom Riddle, sem hún fann og las, en Voldemort hét Tom Riddle áður en hann tók sér illmennisnafnið.

Í Harry Potter and the Prisoner of Azkaban (1999) stækkar heimur Harry Potter enn meira þegar í ljós kemur að guðfaðir hans, Sirius Black, hefur sloppið úr fangageymslum Azkaban, en Sirius þessi hefur löngum verið talinn svikarinn sem sveik foreldra Harry í hendur Voldemort, og nú er óttast um að hann ætli að myrða Harry sjálfan. Besti vinur Black er varúlfurinn Remus Lupin, og ljóst að þeir hafa mikinn áhuga á Harry Potter. Til að vernda Potter og félaga eru Dementors (Afhugarar) fengnir til að umkringja skólann og gæta þess að enginn skaði nemendurnar, en þessi afhugarar sjúga sálir úr líkömum þeirra sem þeir ná. Ætlun Voldemorts er að þessir Afhugarar nái Potter, en Sirius Black hefur komist að þessu tilræði og vill gera allt sem hann getur til að bjarga Harry Potter. Það er skemmtilega unnið með tímaflakk í þessari sögu.

Í Harry Potter and the Goblet of Fire (2000) er haldið alþjóðlegt mót í Hogwarts þar sem Harry Potter er meðal þátttakenda þrátt fyrir að vera of ungur til að keppa. Keppa skal í þremur greinum. Í ljós kemur að Voldemort hefur komið að skipulagi keppninnar, sem er gildra til að drepa Harry Potter.

Í Harry Potter and the Order of the Phoenix (2003) kemst Harry að því að leynisamfélagið Fönix-reglan hefur verið stofnuð til að veita Voldemort mótspyrnu, þar sem að völd hans og áhrif vaxa stöðugt. Í ljós kemur að Voldemort og Harry hafa órjúfanlega tengingu, þannig að Voldemort getur lesið hug Harry og öfugt. Með þessari tengingu leiðir Voldemort Harry í enn eina gildruna, sem verður góðum manni að bana.

Í Harry Potter and the Half-Blood Prince (2005) finnur Harry bók með upplýsingum sem hjálpa honum að blanda töfraseiði á óaðfinnanlegan hátt. Hann þarf að komast að því hver þessi Half-Blood Prince er. Dumbledore hefur á sama tíma áttað sig á hvernig mögulega er hægt að sigrast á Voldemort, en til þess þarf að finna sjö hluti. Voldemort hefur öðlast ódauðleika með því að skipta sál sinni í sjö hluta, og eina leiðin til að drepa hann, er með því að útrýma fyrst þessum sjö hlutum, sem kallaðir eru horkrossar (horcrux). Voldemort hefur lagt gildrur fyrir þá sem nálgast þessa hluti, en þeir Harry og Dumbledore fara saman í leit að þeim. Ein af þessum leitum endar með ósköpum, þegar einn af þeim einstaklingum sem er Harry kærastur er myrtur af einum kennara skólans, og ljóst að Dauðaher Voldemorts hefur opinberað sig.

Í Harry Potter and the Deathly Hallows (2007) er reynt að fela Harry fyrir Voldemort, en þegar Harry nær 17 ára aldri hverfa verndargaldrar af heimili hans, og hann verður auðveldara skotmark fyrir Voldemort og dauðaherinn. Harry Potter leggur á flótta ásamt Ron og Hermoine, og snýr vörn í sókn þar sem hann leitar að horkrossum Voldemorts og eyðileggur þá einn af öðrum, þar til í ljós kemur að aðeins tveir horkrossar standa í vegi fyrir Voldemort, snákur sem fylgir honum alltaf og örið sem er fast á enni Harry Potter. Dauðaherinn nær völdum í galdraheimum og ofsækja alla þá sem eru ekki með hreint galdrablóð í æðum, og kúga alla til samvinnu sem sýna hana ekki að fyrra bragði. Harry Potter verður að tákni frelsisbaráttu og sameiningarafl fyrir hið góða, sem leiðir til mikils bardaga undir lok sögunnar, sem lýkur með dramatískum hætti, þar sem Severus Snape leikur lykilhlutverk.

Það má segja að þessar bækur séu vel lestursins virði. Þær eru ekki hugsaðar sem barnabækur, heldur fantasíur sem hafa börn í margbrotnu þroskaferli, í aðalhlutverkum. Ég mæli sérstaklega með bókum 1 og 7, en finnst hinar hafa of mikið af uppfyllingarefni, þó að margar skemmtilegar persónur og aðstæður séu skapaðar í þeim.

Ég held að það væri vel þess virði að kvikmynda aftur þessar sögur í heild sinni, og gera þá þrjár kvikmyndir: Þá mætti byrja á forsögunni, og sýna hvernig Tom Riddle breytist í Voldemort og drepur Lily og James Potter til þess að öðlast enn meiri krafta. Í lok þeirrar sögu mætti sýna hvernig Harry Potter er komið fyrir hjá fjölskyldu sinni, hvernig hann uppgötvar að hann er öðruvísi en annað fólk og fyrstu ferðinni til Hogwarts, ásamt fyrsta ævintýrinu. Kvikmynd tvö mætti svo fjalla um allt sem gerist í bókum 2-6. Þriðja og síðasta kvikmyndin mætti svo taka á síðustu skáldsögunni, sem er afar gott efni í spennandi kvikmynd. Reyndar er ætlunin að skipta The Deathly Hallows upp í tvær kvikmyndir sem báðar verða frumsýndar á árinu 2010.

Stjörnugjöf fyrir bækurnar (af fjórum mögulegum):

Harry Potter and the Philosopher's Stone ****

Harry Potter and the Chamber of Secrets **1/2

Harry Potter and the Prisoner of Azkaban ***

Harry Potter and the Goblet of Fire ***

Harry Potter and the Order of the Phoenix **1/2

Harry Potter and the Half-Blood Prince ***

Harry Potter and the Deathly Hallows ****


Er baráttan gegn einelti fyrirfram töpuð?

Við vitum að einelti er eitthvað slæmt. Þegar börn eru beitt einelti lenda þau í áhættuhóp yfir þá ólánsömu einstaklinga sem geta villst á þjóðvegum lífsins.

Ég skilgreini einelti sem hvaða form ofbeldis sem átt getur sér stað og er síendurtekið beitt gegn einstaklingi eða hópi. Ofbeldi getur verið misjafnlega harkalegt og valdið misjafnlega miklum skaða, en ofbeldi ber ávallt að taka alvarlega.

Ég hef rætt við fólk sem lítur á einelti sem sjálfsagðan þátt í tilveru barna. Það sé rétt eins og íslenska veðrið. Börnin verða að standa þetta af sér, herðast gegn því, læra að þola það. Þetta er slæm leið.

Ég er á þeirri einföldu skoðun að rót alls hins illa í heiminum felist í ofbeldi og að ofbeldi nærist á fávisku og heimsku. Það að þekkingu og visku þurfi til að koma í veg fyrir ofbeldi þýðir að hér er um vandasamt mál að fást. 

Við teljum réttlætanlegt að beita ofbeldi við ákveðnar aðstæður. Til dæmis eru lögreglumenn og hermenn þjálfaðir til að beita ofbeldi á agaðan hátt. Afbrotamenn eru beittir ofbeldi þar sem þeir eru útilokaðir frá samfélaginu, en þetta ofbeldi þykir réttlætanlegt þar sem það fylgir ströngum ferlum kerfisins og samfélagsins.

Allir vita að ofbeldi er rangt, en átta sig ekki alveg á hvað "einelti" þýðir og af hverju það er líka rangt.

Dæmi um líkamlegt ofbeldi er þegar einhver er laminn. Dæmi um andlegt ofbeldi er þegar einhver er kallaður illum nöfnum eða skilinn útundan. Einelti er hins vegar þegar einhver er stöðugt laminn, stöðugt kallaður illum nöfnum, stöðugt skilinn útundan. Þannig er einelti í raun jafn djúpt og alvarlegt fyrirbæri og ofbeldi, án þess að ég vilji gera lítið úr ofbeldi, sem getur verið það harkalegt að það skilur þolandann eftir örkumla og jafnvel lífvana. Það getur einelti reyndar líka gert, það er bara erfiðara að sjá það.

Merki eineltis eru sjaldnast sýnileg, enda algengasta form þeirra sprottið úr illskuverkum sem erfitt er að sanna: úr andlegu ofbeldi. Það þekkja flestir þá tilfinningu að hafa einhvern tíma verið skilinn útundan. Hvernig verður sú tilfinning þegar hún er endurtekin fimmtíu sinnum á mánuði? 

Við þekkjum þá tilfinningu sem fylgir því að hafa verið refsað fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert. Hvernig tilfinning ætli það sé að vera refsað reglulega fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert?

Við þekkjum þá tilfinningu sem fylgir því að lítið sé gert úr manni, að gert sé grín að einhverju í fari manns. Það er óþægilegt einu sinni. En hvað ef slíkt gerist ekki bara daglega, heldur oft á dag?

Listinn hér fyrir neðan er dæmi um einelti, og alls ekki tæmandi:

EINELTI SEM ANDLEGT OFBELDIEINELTI SEM LÍKAMLEGT OFBELDI
 Stríðni sem þolanda finnst ekki fyndin
 Að sparka í einhvern
 Að uppnefna einhvern
 Að berja einhvern
 Að hóta einhverjum
 Að neyða einhvern til að gera hluti gegn vilja
 Að stela hlutum frá einhverjum
 Að neyða einhvern til að borga pening eða eigur  fyrir að vera látinn í friði
 Að eyðileggja hluti einhvers
 Að níðast á einhverjum vegna trúarbragðaskoðana
 Að gera óvinsamlegt grín að einhverjum
 Að níðast á einhverjum vegna húðlits
 Að láta einhvern finna fyrir óþægindum
 Að níðast á einhverjum vegna þjóðernis
 Að hræða einhvern
 Að níðast á einhverjum vegna tungumáls
 Að hunsa einhvern eða skilja útundan
 Að níðast á einhverjum vegna fötlunar (t.d. nærsýni)
Að baktala einhvern 
Að dreifa gróusögum um einhvern 
Að segja eða skrifa illkvittna hluti um einhvern 

Langvarandi einelti er líklegt til að vekja eftirfarandi tilfinningar, sérstaklega ef þolanda vantar stuðningsnet fjölskyldu, og jafnvel þó að viðkomandi hafi það:

  • Þunglyndi
  • Minnimáttarkennd
  • Feimni
  • Áhugaleysi gagnvart verkefnum
  • Einmanaleika
  • Sjálfsvígshugleiðingum

Af hverju leiðist fólk út í að stunda einelti?

  • Hegðun sem allir hinir stunda
  • Sjálfsvörn gegn mögulegu einelti frá öðrum
  • Vilja frekar vera gerendur en fórnarlömb
  • Lélegt sjálfsálit
  • Vilja vera töff
  • Finnst allt í lagi að særa aðra
  • Annað...

Og nú er það spurningin sem enginn virðist geta svarað í verki:

Er baráttan gegn einelti fyrirfram töpuð?

Hvernig útrýmum við einelti og ofbeldi?

Í eitt skipti fyrir öll?

Einu atviki í einu?

Horfum í kringum okkur.

Upplifum daginn í dag án ofbeldis.

Lifum lífinu án eineltis.


The Adventures of Robin Hood (1938) ***1/2

Bretakonungur, Ríkharður Ljónshjarta (Ian Hunter) hefur farið í krossferð með riddurum sínum. Þegar hann er handsamaður af óvinum gripur bróðir hans Jón prins (Claude Rains) tækifærið og ætlar að sölsa undir sig völd landsins. Hann fær gráðug aðalmenni með sér í lið, og réttlætir stóraukna skatta á almúgafólk með því að segjast ætla að nota peninginn til að borga bróður sinn lausan, á meðan hið sanna er að hann ætlar að nota peninginn til að sölsa undir sig ríkið allt. Hans nánasti samstarfsmaður eru Guy frá Gisbourne (Basil Rathbone), en hann girnist auk valda, lafði Marion (Olivia de Havilland).

Það eina sem stendur í vegi fyrir sigri þessara illmenna er riddarinn ungi Hrói Höttur, eða Robin frá Locksley, eða Robin Hood (Errol Flynn). Þegar hann verður vitni að kúgun þeirra sem völdin hafa gagnvart þeim sem varla geta borið hönd fyrir höfuð, tekur hann að sér að leiða þá sem enn eru trúi Ríkharði Ljónshjarta og hugsjónum hans.

Hrói setur skýrar reglur. Það má stela en aðeins til þess að gefa þeim fátæku. Allir þeir sem fylgja honum þurfa að sverja Ríkharði Ljónshjarta eið, verja þá sem lítils mega sín og berjast fyrir sigri hins góða í heiminum. Meðal félaga Hróa eru hinn skrautlegi Will Scarlett (Patric Knowles), hinn hávaxni kraftaköggull Litli Jón (Alan Hale) og munkurinn Tóki (Eugene Pallette).

Dag einn hertekur flokkur Hróa flutningalest sem flytur með sér mikil auðævi. Meðal farþega er lafði Marion. Hrói verður strax hrifinn af henni, og fljótt kemur í ljós að það er gagnkvæmt. Menn Jóns prins taka eftir þessu og leggja gildru fyrir Hróa, keppni í bogfimi, þar sem Marion afhendir verðlaunin - gildra sem Hrói Höttur getur ekki staðist.

Ævintýri Hróa Hattar eru bráðskemmtileg og litrík. Myndin er tekin upp í Panavision kerfinu, og hún lítur út eins og hún sé glæný, þó að 70 ár verði frá frumsýningu hennar 14. maí næstkomandi. Helstu gallarnir við myndina er að stundum er leikur frekar stífur, og bardagaatriðin algjörlega ótrúverðug. Samt er drifkrafturinn í gorminum Flynn hrífandi og það skemmtilegur að hann drífur söguna áfram með hressileikanum einum saman.

Það er óhætt að mæla með þessari stórskemmtilegu útgáfu af ævintýrum Hróa Hattar.


12 Angry Men (1957) ****

12 Angry Men gerist að mestu í aflokuðu herbergi þar sem kviðdómur þarf að komast að niðurstöðu um morðmál. Það er heitt úti og flesta langar að komast snemma heim, og suma jafnvel á völlinn til að fylgjast með hafnarboltaleik.

Unglingur frá Puerto Rico er sakaður um að hafa myrt föður sinn. Tvær manneskjur voru vitni að morðinu og morðvopnið er í eigu unglingsins. Öllum í kviðdómnum nema einum finnst þetta augljóst mál og réttast að afgreiða það fljótt og örugglega. Strákurinn hlýtur að vera sekur, hann er úr fátæku hverfi, hefur oft verið dæmdur fyrir smærri glæpi, og fjarvistarsönnun hans gengur ekki upp.

En kviðdómari númer 8 (Henry Fonda) finnst ekki rétt að klára morðmál svo hratt, og biður um smá umræðu, bara umræðunnar vegna og af virðingu fyrir réttarkerfinu og lífi unglingsins sem sjálfsagt verður tekinn af lífi verði hann dæmdur sekur. Í ljós kemur að málið er kannski ekki jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera, þegar kviðdómarar, hver á fætur öðrum reyna að sanna kviðdómara 8 um af hverju drengurinn er sekur. Honum tekst hins vegar að vekja upp spurningar sem sífellt erfiðara verður að svara, og tekst að sá efasemdum meðal hinna kviðdómaranna.

Leikurinn í 12 Angry Men er stórgóður. Henry Fonda leikur skynsemismanninn fullkomlega, og Lee J. Cobb er frábær sem hinn stolti og tilfinninganæmi maður sem veit einfaldlega að drengurinn er sekur. Upp koma fjöldi ástæðna til að dæma unglinginn til dauða, meðal þeirra eru fordómar, stolt, hugleysi, óþolinmæði, óákveðni, ónákvæmni, og fleira. Þetta er magnaður bardagi þar sem á takast skynsemi og rökvillur.

Þó að 12 Angry Men gerist í einu herbergi, gerist hún einnig í huga 12 manns sem gerir hana að gífurlega dýnamískri upplifun. Maður veit aldrei hvað kemur næst, og þegar það gerist er það nákvæmlega það sem þurfti að gerast.

Frábær kvikmynd og fróðleg þegar maður veltir fyrir sér því flókna ferli sem getur átt sér stað þegar nokkrar manneskjur eru staddar á sama stað og neyddar til að leita sannleikans.


Stardust (2007) ****

Tristan Thorn (Charlie Cox) er yfir sig ástfanginn af Victoria (Sienna Miller), stúlku sem er ekki jafn merkileg og hún telur sig vera. Þegar þau sjá stjörnuhrap býðst Tristan til að sækja stjörnuna og færa henni að gjöf, en til þess þarf hann að fara yfir vegginn.

 

Veggurinn er það sem skilur að hinn hversdagslega veruleika og heim galdra og ævintýra. Það er bannað að ferðast á milli þessara tveggja heima, en hann er varinn af öldungi sem er afbragðs bardagalistamaður (David Kelly). Faðir Tristans, Dunstan (Nathaniel Parker) komst upp með að flakka yfir vegginn níu mánuðum áður en Tristan fæddist, en það sem hann veit ekki er að móðir hans er bæði ambátt og prinsessa úr ævintýraheiminum (Kate Magowan) og hann sjálfur þar af leiðandi prins og hugsanlegur erfingi krúnunnar.

 

En kóngur ríkisins (Peter O'Toole) er slóttugur og grimmur. Hann á sjö syni og eina dóttur. Þessi dóttir er móðir Tristan, en hún hefur verið þræll nornar í nokkra áratugi. Prinsarnir berjast hins vegar um völdin og eru frekar duglegir að drepa hvern annan, þannig að það styttist fljótt í að Tristan verði eini erfinginn sem eftir er. Kóngurinn gefur frá sér gimstein rétt áður en hann dregur síðasta andann og segir að sá af konunglegu blóði sem nái honum verði næsti konungur.

 

Þessi steinn flýgur svo út úr höllinni, upp í himinninn og rekst á stjörnu sem hrapar með honum til jarðar. Prinsinn Septimus (Mark Strong) leggur strax af stað til að ná gimsteininum. Þessi stjarna er stúlka (Claire Danes) sem þrjár illar nornir girnast til að framlengja eigin ungdóm og endurhlaða galdrakraftana. Nornin Larnia (Michelle Pfeiffer) fer í leiðangur til að hafa uppi á stjörnunni og skera úr henni hjartað með sérstökum fórnarhníf.

 

Tristan er hins vegar fyrstur til að finna stjörnuna, handsamar hana og ætlar að gefa hana sinni heittelskuðu. Við tekur fjölbreytt ævintýri þar sem sköpunargleði höfunda fá að njóta sín fram á síðustu sekúndu myndarinnar, en inn í söguna fléttast einhyrningur, sveitastrákur sem breytist í geit og síðan kynbombu sem hann verður sjálfur hrifinn af, og ekki má gleyma samkynhneigða sjóræningjaskipstjóranum Shakespeare (Robert De Niro) sem þykist vera grimmur og vondur, orðsporsins vegna, en er síðan hið vænsta skinn, sem reyndar er heillaður af kjólum.

 

Stardust er með skemmtilegri ævintýramyndum sem ég hef séð. Það er létt yfir henni eins og The Princess Bride, og alls ekki jafn þung og The Lord of the Rings. Höfundur upprunalegu sögunnar, Neil Gaiman, er einn skemmtilegasti ævintýrahöfundur dagsins, en hann er snillingur í að blanda saman gömlum minnum. Hæst ber að nefna teiknimyndasögur hans Sandman, en þær fjalla um draum og öll hans ævintýri með mannkyninu frá því að fyrsta manneskjan dreymdi draum. Gaiman skrifaði einnig handritið að Beowulf (2007) sem var að mínu mati einstaklega vel heppnuð, þó að hún sé vissulega fersk og frumleg sýn á fornu ljóði.
 

The Princess Bride kom út árið 1987 og þótti sérstaklega vel heppnuð rómantísk ævintýramynd. 20 árum seinna kemur Stardust út og minnir óneitanlega á The Princess Bride. Hvort tveggja eru sögur um galdra, sjóræningja, prinsa, prinsessur og sanna ást. Í bæði skiptin er sögumaðurinn virtur leikari, í The Princess Bride var það Peter Falk, í Stardust er það sjálfur Gandálfur, Ian McKellan.

 

Sýnishorn úr Stardust:


Rush Hour 3 (2007) **1/2

Þó að Rush Hour 3 sé illa uppbyggð, með órökréttri atburðarrás, og persónum sem eru á engan hátt trúverðugar, fannst mér hún bara nokkuð skemmtileg. Það er hreint kraftaverk að hægt sé að gera sæmilega skemmtilega kvikmynd upp úr handriti sem er einskis virði, en það sem gerir Rush Hour 3 skemmtilega eru tvær persónur leiknar af Jackie Chan og Yvan Attal.

Lee lögregluforingi (Jackie Chan) fer með Sendiherranum Han á alþjóðlega glæpadómsráðstefnu í Los Angeles þar sem hann ætlar að uppljóstra fyrir opnum tjöldum hver er leiðtogi kínversku alþjóðamafíunnar. Áður en honum tekst að ljúka ræðunni hefur hann verið skotinn úr launsátri og Jackie Chan stokkinn út um gluggann og farinn að hoppa og hlaupa eins og andskotinn sjálfur á eftir leigumorðingjanum, sem síðar kemur í ljós að er gamall æskuvinur, Kenji (Hiroyuki Sanada) sem Jackie Chan vill að sjálfsögðu ekki skaða en umbreyta í betri manneskju.

Lögreglumaðurinn agalausi og fordómafulli James Carter (Chris Tucker) heyrir tilkynningu um tilræðið á kínverska sendiherranum og þeysir af stað til að hjálpa Jackie Chan. Leigumorðinginn sleppur, en aðeins þar sem Jackie vildi ekki þurfa að skjóta hann. Sem þýðir samkvæmt mínum skilningi að Jackie er starfi sínu ekki vaxinn.

Í ljós kemur að dóttir sendiherrans, Soo Yung (Jingchu Zhang) hefur aðgang að upplýsingunum sem sendiherrann ætlaði að uppljóstra, en Jackie og Tucker komast að því að kínverska mafían hefur þegar náð skjölunum. En þeir eru orðnir að skotmarki og vilja einnig bjarga lífi Han sendiherra og dóttur hans frá byssuglöðum bófunum, og fara því til Parísar, þar sem að fram fer innan tveggja daga innvígsla nýjustu foringja mafíunnar.

Það tekur því varla að rekja söguþráðinn, sem er einfaldlega of vitlaus til að borgi sig að velta sér fyrir honum, en Max von Sydow þráleikur mikilvægt hlutverk í myndinni án nokkurrar áreynslu. Franski leigubílstjórinn George (Yvan Attaf) er langskemmtilegasti þátturinn í þessari mynd, sérstaklega þegar hann ákveður að haga sér eins og ofurnjósnari það sem eftir er myndarinnar, þá sýnir hann viðhorf sem vantar alltof oft í svipaðar myndir - ævintýrahug, hugrekki og húmor sem gaman er að fylgjast með.

Jackie Chan er alltaf að eldast en er samt margfalt fimari en flestir yngri menn í heiminum. Hann er ekki nema svipur hjá sjón miðað við hvað hann var þegar hann var upp á sitt besta. Jackie er 53 ára gamall, aldur sem maður reiknar með að menn standi kyrrir og í mesta lagi láti sig detta í sófa, en nei, hann er á hlaupum yfir götur, stekkur yfir bíla, forðast fljúgandi hnífa, og stekkur af Eiffelturninum á nokkuð sannfærandi hátt.

Jackie Chan er hreint ótrúlegur leikari - hann er sjaldan trúverðuglegur þegar hann reynir að taka sig alvarlega, kann ekki að syngja en gerir það samt, en hefur slík yfirráð yfir líkamlegri tjáningu, þar sem húmor, fimi og bardagalistir renna saman í eitt, að það er sífellt yndi að fylgjast með honum. Ef hægt er að tala um líkamlegar gáfur, þá er Jackie Chan fyrirmyndar fulltrúi fyrir þann flokk greindar.

Fyrsta Rush Hour (1998) myndin var stórskemmtileg og frumleg, og þá var Jackie Chan líka í fantaformi, enda ekki nema 43 ára, persónurnar sæmilega trúverðugar og sagan heilsteypt. Rush Hour 2 (2001) ( var lakari, en samt nokkuð skemmtileg, og Rush Hour 3 enn lakari en önnur myndin, en samt gaman að henni, svo framarlega sem að kröfurnar eru í lægri kantinum.

 

Myndir frá IGN.COM


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband