Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Alhæfingar, hið eilífa og ein orsök fordóma


Allar alhæfingar eru ósannar, líka þessi. (Mark Twain) 

Þegar ég tala um að staðhæfing sé sönn, meina ég alltaf og við allar aðstæður. Alhæfingar eru staðhæfingar sem fullyrða að ákveðinn flokkur tilheyri eða tilheyri ekki stærri flokki. Þegar sönnum alhæfingum er snúið við verða þær ekki lengur sannar, nema um klifanir séu að ræða, en klifanir eru alhæfingar um samsemdir; eins og:

allt H2O er vatn

sem er satt, og ef maður snýr henni við kemur út setningin:

allt vatn er H2O,

sem er líka satt, af því að um klifun er að ræða.

Dæmi um alhæfingar (sumar þeirra eru ekki sannar):

  • allir menn eru dauðlegir
  • allar appelsínur eru ávextir
  • allir piparsveinar eru ókvæntir
  • allir hvalir eru spendýr
  • allir dagar eru mánudagar
  • allir fingur eru þumalputtar
  • öll ljón eru kameldýr
  • allt gott er gott
  • allar fegurðardrottningar eru fagrar
  • allir feministar eru öfgafullir 

Þegar þessum setningum er snúið við, hjálpar það manni að átta sig á hvað er satt og rétt. Munum að allar sannar setningar verða ósannar sé þeim snúið við, en ósannar setningar geta verið hvort sem er, sannar eða ósannar, eftir að þeim hefur verið snúið við:

  • allt sem er dauðlegt eru menn
  • allir ávextir eru appelsínur
  • allir sem eru ókvæntir eru piparsveinar
  • öll spendýr eru hvalir
  • allir mánudagar eru dagar
  • allir þumalputtar eru fingur
  • öll kameldýr eru ljón
  • allt gott er gott
  • allt sem er fagurt, eru fegurðardrottningar
  • allt sem er öfgafullt, eru feministar

Takið eftir að allar þessar setningar byrja á 'allir'. Segjum að við ætlum að alhæfa eitthvað um eina ákveðna manneskju, eða hlut, - þá gerist nokkuð skrýtið. Það er ekki hægt, vegna þess að hlutir eru breytilegir og geta jafnvel skipt um form.

Ekkert er hægt er að segja um ákveðna manneskju eða hlut sem verður alltaf og við allar aðstæður satt, dæmi:

  • Jói er alltaf og við allar aðstæður dauðlegur
  • Jói er alltaf og við allar aðstæður maður
  • Þessi appelsína er alltaf og við allar aðstæður ávöxtur 
  • Þetta spendýr er alltaf og við allar aðstæður hvalur
  • Jói er alltaf og við allar aðstæður ókvæntur

Af hverju skiptir þetta máli?

Jú, við höfum tilhneigingu til að dæma fólk eða hluti sem eitthvað ákveðið og hugsa okkur viðkomandi manneskju eða hlut sem hlutverk hennar, viðhengi eða eiginleika. Við getum einungis alhæft um hugtök eða orð, en ekki um einstaka hluti, skepnur eða manneskjur.

Þegar við hugsum um Davíð Oddsson, þennan einstaka mann, hvað kemur þá fyrst upp í hugann? Jú, seðlabankastjóri, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri, skemmtikraftur í Útvarpi Matthildi, Bubbi kóngur. Málið er að hann er ekkert af þessu alltaf og við allar aðstæður, þetta eru bara viðhengi við nafnið Davíð Oddsson, en persónan á bakvið nafnið er eitthvað allt annað og meira en þessi viðhengi. Svona viðhengi við nafn eru líka bara sönn um stund og við ákveðnar aðstæður; en ekki alltaf og við allar aðstæður. Í raun getum við ekkert alhæft um persónuna Davíð Oddsson sem mun alltaf og við allar aðstæður vera satt. Það sama getum við sagt um okkur sjálf. Frægðin er tímabundin. Við þráum að tengjast einhverju varanlegu, einhverju sem aldrei hættir að vera til. Slík tenging er ekki möguleg fyrir neinn einstakling.

Þegar við hugsum um  Esjuna, þetta fagra fjall sem alltaf hefur legið fyrir utan höfuðborgarsvæðið, en ekki alltaf þar sem það er; fólk hefur gengið upp á Esjuna og dáðst að henni í miðnætursól. Það hefur verið sungið um hana. Það er samt ekki hægt að alhæfa neitt um Esjuna sem mun alltaf og við allar aðstæður vera satt. Það er vegna þess að Esjan er einstakt fyrirbæri, en ekki flokkur hugtaka. Einhvern tíma var Esjan ekki til og einhvern tíma verður hún ekki til. Þó að hún sé til nákvæmlega núna, er ekkert hægt að fullyrða um hana sem verður ætíð satt.

Aftur á móti getum við alhæft um seðlabankastjóra, að allir seðlabankastjórar séu fyrrverandi stjórnmálamenn (veit ekki hvort satt sé eða ekki), eða um fjöll, sem Esjan er ákkúrat núna, að öll fjöll séu há.

Málið er að alhæfingar um einstaka hluti eða manneskju er undirrót fordóma, og fordómar er nokkuð sem við viljum ekki að festi rætur. Þegar ég hef kynnst einni manneskju og einni hlut, gæti ég haft tilhneigingu til að flokka hana með öðrum sambærilegum hlutum og leggja því dóm á alla hina hlutina sem fylgja flokknum; en það gengur bara ekki upp.

Þetta hef ég heyrt og þannig upplifði ég fordóm um Pólverja á Íslandi verða til:

Það voru Pólverjar sem brutust inn í sumarbústaðinn og stálu þar sjónvarpstæki og öllu léttu. Þeir náðust. Maður verður að passa sig á þessum Pólverjum.

Gallinn er að það má túlka setninguna á tvo ólíka vegu, önnur merkingin er:

... Maður verður að passa sig á nákvæmlega þessum Pólverjum sem brutust inn í sumarbústaðinn og stálu þar sjónvarpstæki og öllu léttu.

eða

Maður verður að passa sig á öllum Pólverjum.

Lesandi má dæma um hvor túlkunin sé viðeigandi. 


Um forsjárhyggju: Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

 

Vegurinn til heljar er lagður af góðri forsjá

Samuel Johnson, (1709-1784)

Forsjárhyggja er þegar valdhafi ákveður að setja reglur eða lög til að hafa vit fyrir fólki; og er hugtakið þá sérstaklega notað þegar gagnrýnendum þykir valdhafar vera að skipta sér af einhverju sem kemur þeim ekki við. Forsjárhyggja er eitt af tískuorðunum í dag. Þeir sem vilja setja öðrum reglur þykja vera forsjárhyggjufólk. 

Dæmi um forsjárhyggju: að skylda alla ökumenn til að vera í bílbeltum, annars gæti lögreglan sektað þá. Annað dæmi: að skylda alla eigendur veitingahúsa til að halda staðnum reyklausum, annars verði þeir sektaðir af lögreglu. Þarna er verið að hafa vit fyrir fólki. Er það rangt, svo framarlega sem að það stuðlar að góðri hegðun?

Þegar reglur eru settar um hvernig fólk skal hegða sér í daglegum samskiptum, vaknar spurning um hvort að verið sé að troða á persónufrelsi viðkomandi, eða verið að búa til betri heim. Býr maður til betri heim með því að troða hegðunarmynstri upp á annað fólk? Fólk lærir að fara eftir hegðuninni þegar það telur einhvern fylgjast með þeim, en þegar enginn fylgist með, getur verið að þörfin fyrir að breyta rétt hverfi?

Helsta hættan við að móta hegðun fólks utanfrá, en ekki með því að hvetja fólk til gagnrýnnar, yfirvegaðrar og vandaðrar hugsunar er einmitt þessi: fólk fer að treysta á yfirvaldið til að segja sér hvað það á að gera og hlýðir því hugsunarlaust nema þegar yfirvaldið er ekki lengur sjáanlegt.

Málið er að þegar okkur finnst hugmyndirnar um lög og reglur koma frá okkur sjálfum, og þegar okkur finnst þær sjálfsagður hlutur; þá förum við eftir þeim. Snilldin við reykingabannið og bílbeltin, er að það eru góð rök á bakvið hvort tveggja og þessi rök eru rædd og útskýrð af ráðamönnum. Þegar þannig er staðið að málum getur forsjárhyggja verið góð.

Ef aftur á móti yfirvaldið vill setja lög og reglur sem fólki finnst óeðlilegar, og málin hvorki rædd málefnalega né útskýrð, þá er hætta á því að lög, boð og reglur taki gildi í óþökk þjóðarinnar; og sama hversu góð fyrirætlunin er, ef ekki er hugsað opinberlega um lögin á gagnrýninn máta, þá verða þau í fyrsta lagi óvinsæl og í öðru lagi ólíklegt að fólk vilji fara eftir þeim.   

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 

Segjum að íslenska ríkið gerði þessa setningu að lögum, útskýrði hana ekki og kæmi jafnvel í veg fyrir opinbera umræðu um hana, - þeir sem reyndu að mótmæla væri stungið í steininn eða jafnvel teknir af lífi. Slíkt væri forsjárhyggja.

Þegar þú færð ekki að segja þína skoðun opinberlega um mál sem þér þykir mikilvæg og ert hindraður frá því af yfirvöldum, þá er um forsjárhyggju af verstu gerð að ræða. Þegar yfirvaldið setur reglur án þess að hlusta á þegnana, þá er líka um forsjárhyggju af verstu gerð að ræða. Ritskoðun á fjölmiðlum, bókum, bíómyndum, bloggum, vefnum og öðru tjáðu máli er forsjárhyggja sem er í þversögn við sjálfa sig. Ástæðan er einföld: gefirðu rós án umhyggju er gjöfin ekki góð, sama hversu vel rósin getur ilmað.

Blind hlíðni er dæmi um þegar fólk trúir um of á góða forsjá yfirvalda. Nasistar trúðu á Hitler, víkingar trúðu á Óðinn, kristnir trúa sumir á kirkjuna eða Biblíuna sem leiðsögn að Guði og trú nútímamannsins virðist snúast um veraldleg gæði. 

Nokkrar spurningar:

Getur verið að trú í blindni sé ill í sjálfri sér?

Eru góðverk sprottin af forsjá, hegðun eða vilja?

Geta ætlun eða verk sem slík verið góð í sjálfum sér?

Er til dæmi um hegðun sem er alltaf góð, alls staðar?

Hvort er eðlilegra fyrir manneskju sem þekkir hið góða, að gera illverk eða góðverk?

Þeir sem vilja vel, og þekkja það góða, hafa þeir ekkert val?

Hvernig vitum við að þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur, hafi í raun og veru vit á því sem þeir þykjast vita?


Um öfund: "Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það sem náungi þinn á."

Eða:

Þú skalt ekki girnast einbýlishús annarra Íslendinga. Þú skalt ekki girnast konur sem eru í sambandi með öðrum, ekki i-podinn eða DVD græjurnar, né jeppa hans eða tjaldvagn, né nokkuð það sem gaurinn á."

kirkjaÉg hætti að ástunda kirkju eftir að ég byrjaði að hlusta almennilega á það sem predikari nokkur sagði í Kópavogskirkju fyrir um 15 árum síðan. Sífellt minntist hann á hversu syndugt fólk væri, og að allir væru syndugir - svo stóð fólk á fætur og þuldi syndajátninguna, en mér leið einfaldlega illa, því að ég gat engan veginn samþykkt þetta, og ef ég hefði flutt syndajátninguna fannst mér að ég væri þá að ljúga að sjálfum mér, en ég tel það rangt að ljúga að sjálfum sér, því að ég hafði sett mér að breyta rétt; og synd í mínum huga væri röng breytni. Hvaða vald hefur predikari í púlti til að segja mér að ég hafi breytt rangt, eða syndgað, þegar það var alls ekki satt?

Ein af dauðasyndunum sjö er öfund. Öfund innifelur í sér girnd á eigum eða samböndum annarra. Þegar einn öfundar annan er um algjörlega huglægt fyrirbæri að ræða. Það er mannlegt að girnast það sem maður má ekki fá. Er hægt að stjórna því á annan hátt en að gerast dýrlingur? Er venjulegt fólk sem sér i-pod nágranna síns og hugsar með sér: "My precioussss... my darling precioussss... i-pod," er þetta, eða Gollum í Lord of the Rings, einfaldlega syndugt vegna þess að það girnist viðkomandi hluts sem er í eigu annars? Eða verður girndin aðeins að synd þegar viðkomandi framkvæmir áætluin sem stefnir að því að hluturinn eða sambandið skipti um eigendur?

Er hægt að stjórna eigin öfund? Er það hægt án þess að afstilla lísspekina alla, að forgangsraða gildismatinu á annan en efnislegan máta? Auðvelt er að öfunda fólk fyrir hluti sem það á, eða aðstæður sem það lifir við; en getum við öfundað annað fólk fyrir önnur gildi? Til dæmis kann ég ósköp vel að meta það að ég er ég sjálfur og ekki einhver annar. Gæti ég einhvern tímann öfundað einhvern annan fyrir það eitt að vera ekki ég?  Ég held ekki.

Ég velti fyrir mér hvort að öfund feli í sér einhverja breytni, en tilfinning mín er sú að hún geri það ekki. Ef þessi tilfinning mín fyrir merkingunni á öfundarhugtakinu er rétt, þá er boðorðið í fyrirsögninni ósanngjarnt gagnvart mannlegu eðli. Ég held að það sé hverjum manni eðlilegt að þrá  hluti og sambönd sem aðrir eiga, en að girnast nákvæmlega þann hlut og það samband sem viðkomandi á; það er synd.

Þrá er sterk löngun. Tilfinning mín fyrir hugtakinu segir mér að maður geti ekki þráð hluti eða skepnur; aðeins ímynd, breytni eða stöðu, en þessi tilfinning mín getur verið ónákvæm og öðrum fundist annað; þegar þrá verður aftur á móti gagnkvæm er komin forsenda fyrir ást. Ég get þráð það að ást mín verði endurgoldin, ég get þráð að verða heimsmeistari í skák.  Ef ég segist þrá aðra manneskju, eins og svo oft kemur fram í ljóðum "ég þrái þig", þá held ég að þráin tengist frekar athöfnum og stöðu, eða ímynd, heldur en manneskjunni sjálfri.

Girnd er sterk löngun, sem felur í sér ætlun. Sá sem ætlar sér eitthvað vill eitthvað. Þarna blandast inn spurningin um vilja. Vilji maður framkvæma illt verk, er maður þá sjálfvirkt syndugur; eða er það ekki fyrr en verk fylgja viljanum sem syndin spilar inn í dæmið?

Ég held að engin synd eða röng breytni séu sjálfvirkt innifalin í öfund, illum vilja, girnd eða þrá. Slíkt er bara eðlilegur þáttur í mannlegri tilveru. Aftur á móti getur einstaklingur valið um hvort að hann láti eftir þessum hvötum, eða haldi aftur af þeim. Þar liggur munurinn á góðu og illu.  


20 bestu bíólögin: 1. sæti, Always look on the Bright Side of Life - Life of Brian, 1979

Brian fæddist í Betlehem á sama kvöldi og Jesús Kristur fæddist, bara hinu megin við hæðina. Hann lendir oft í því að fólk telur hann vera frelsarann sjálfan, enda fæddist hann undir Betlehemstjörninni og er jafnaldri Jesús. Hann gengur í gegnum mikla þrautagöngu þar sem alltof margir telja hann vera hinn gaurinn, en hann er aftur á móti viss um að svo sé ekki.

Ein besta gamanmynd sem gerð hefur verið, en hún gerir einatt mikið grín að skort á heilbrigðri skynsemi, blindri trú og fylgni, sama hver málstaðurinn er. Í lok myndar hefur Brian verið krossfestur, og það er þá fyrst sem hann fer að sjá spaugið í lífinu. 

Það má nefnilega sjá bjartar hliðar á öllum málum, sama hverjar aðstæðurnar eru.

 

1. sæti, Always look on the Bright Side of Life - Life of Brian, 1979

2. sæti, Llorando - Mulholland Drive, 2001

3. sæti,  Come What May - Moulin Rouge!, 2001

4. sæti, When She Loved Me - Toy Story 2, 1999

5. sæti, Unchained Melody - Ghost, 1990

6. sæti, You Never Can Tell - Pulp Fiction, 1994

7. sæti, Time of My Life - Dirty Dancing, 1987

8. sæti, Moon River - Breakfast at Tiffany's, 1961

9. sæti, Do Re Mi - The Sound of Music, 1965 

10. sæti, Wonderful World - Witness, 1985

11. sæti, Bohemian Rhapsody - Wayne's World, 1992 

12. sæti, Summer Nights - Grease, 1978

13. sæti, Raindrops Keep Fallin' On My Head - Butch Cassidy and the Sundance Kid, 1969 

14. sæti, Twist and Shout - Ferris Bueller’s Day Off, 1986

15. sæti, "Supercalifragilisticexpialidocious" - Mary Poppins, 1964

16. sæti, Puttin' On The Ritz - Young Frankenstein, 1974 

17. sæti, Footloose - Footloose, 1984

18. sæti, Hakuna Matata - The Lion King, 1994,

19. sæti: Rawhyde úr Blues Brothers, 1980

20. sæti: Old Time Rock and Roll  úr Risky Business, 1983

 

Góða skemmtun!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband