Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Die Hard 4.0 (2007) ***1/2

John McClane (Bruce Willis) hefur ekki lent í lífsháska í 12 ár. Hjónaband hans hefur flosnað upp, en hann gerir sitt allrabesta til að halda sambandi við dóttur sína og vera henni góður faðir. Hann er jafngóður faðir og lögga; brýtur allar reglurnar, er duglegur að koma sér í vonlausar aðstæður, en virðist alltaf finna einhverja leið á endanum. 

Kvöld nokkurt er McClane að fylgjast með og skipta sér af ástarmálum dóttur sinnar í New Jersey þegar yfirmaður hans hefur samband við hann og óskar eftir að hann handtaki tölvuhakkara og fari með hann til alríkislögreglunnar í Washington. Hann veit ekki að fjöldi hakkara hefur verið myrtur þennan sama sólarhring og að tölvuárás er í bígerð á helstu upplýsingakerfi Bandaríkjanna.


McClane er ekki fyrr búinn að finna hakkarann Matt Farrell (Justin Long) en kúlurnar byrja að fljúga, sprengjur að springa og líkamar að falla ofan á bíla. McClane sér að það er eitthvað meira á bakvið þennan hakkara en venjuleg handtaka, og leggur líf sitt í hættu til að verja líf hans og drepa nokkra vonda gaura í leiðinni.

Áhugaversta illmennið er Mai Lihn (Maggie Q) sem minnir svolítið á Hans Gruber úr fyrstu myndinni,  sérstaklega í síðasta atriði hennar, en aðalbófinn Thomas Gabriel (Timothy Olyphant) finnst mér standa sig frekar aumlega; eða lúmskt vel, því manni var farið að líka svolítið skemmtilega illa við hann í lokin.

Það sem kom mér mest á óvart er hversu smekklega Die Hard 4.0 er gerð (eða Live Free or Die Hard eins og hún heitir í Bandaríkjunum). Handritið er afar vel skrifað miðað við spennumynd og gaman að sjá Bruce Willis aftur í formi. Þetta er besta framhaldsmynd sumarsins til þessa. Þegar Brúsarinn byrjar að tala við sjálfan sig um leið og hann setur markið á að drepa ljótu kallanna, þá nær hann takti sem enginn annar leikari getur náð. 

Reyndar eru nokkur atriði hálf hallærisleg og virka einfaldlega ekki innan söguheims myndarinnar; eins og þegar illmenni sem er búið að skjóta fullt af saklausu fólki og kemur aftan að McClane, og ákveður þá að koma alltof nálægt honum, nógu nálægt til að McClane nái að grípa hann - afar heimskulegt. Og síðan finnst mér eltingarleikur trukks og sendibíls ekki ganga alveg upp - þar er hlutunum hagrætt aðeins og mikið til að hlutirnir gangi upp fyrir McClane. Það er reyndar ákveðinn húmor í því atriði sem vegur upp á móti heimskunni, og sérstaklega í einvígi McClanes á trukki og herþotu. Engin spurning hvor hefur betur á endanum. 

Annars er myndin filmuð með dempuðum litum og myndatakan frekar hrá. Mér fannst það passa ágætlega við söguna. Die Hard 4.0 hefur verið gagnrýnd helst fyrir að vera allt öðru vísi en hinar Die Hard myndirnar (eins og það sé slæmt), sem einkenndust af innilokunarkennd á lokuðum svæðum; en í þessari mynd fer McClane frá New Jersey til West Virgina og Washington; og mér finnst reyndar takast ágætlega að búa til innilokunarkennd, sem einkennist að því að tölvukerfi, og þar af leiðandi símar og ýmis nútímaþægindi hætta að virka.

Ég skemmti mér vel með John McClane og þætti gaman ef fimmta myndin væri gerð. Á meðan Bruce Willis heldur jafngóðu formi og hann er í núna, þá er um að gera að raða niður eins mörgum Die Hard myndum og mögulegt er. Að lokum:

Yippee Ki Yay Mo... - John 6:27


Undirbúningur hafinn: Heimsmeistaramót í Tékklandi 2007

 Besta leiðin til að gera drauma þína að veruleika er að vakna.

Paul Valery

 

Þá er maður búinn að ná sér af flugþreytunni eftir Ameríkuflugið.  Á morgun byrja ég að þjálfa fimm ungmenni sérstaklega fyrir heimsmeistarakeppni barnaskólasveita í skák sem haldin verður í Tékklandi í næsta mánuði. Síðustu þrjú árin höfum við félagi minn, Tómas Rasmus, þjálfað þau saman í Salaskóla. Fyrir mína tíð þjálfaði Smári Teitsson börnin í skólanum ásamt honum Tómasi; þannig að ég kom að góðu búi.  Skólastjórnendur hafa stutt sérstaklega vel við skákina; og hafa töfl í öllum skólastofum, auk þess að halda töflum við á ganginum þar sem að nemendur geta sest niður í rólegheitum og teflt. 

Á síðustu æfinguna í vetur mættu 18 stúlkur og 16 strákar.

dsc00139web

Þau hafa náð gífurlega góðum árangri í vetur.

  • Á Íslandsmóti grunnskólasveita lenti Salaskóli í 3. sæti á eftir Rimaskóla og Laugalækjaskóla, en í kvöld lenti Laugalækjaskóli í 2. sæti á Evrópumóti grunnskólasveita. Aðrar sveitir Salaskóla voru einnig verðlaunaðar fyrir góðan árangur.
    • A-sveitina skipuðu:
      • Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
      • Patrekur Maron Magnússon
      • Eiríkur Örn Brynjarsson
      • Páll Snædal Andrason
      • Varamaður: Ragnar Eyþórsson
  • Á Íslandsmóti barnaskóla lenti Salaskóli í 2. sæti á eftir Grunnskóla Vestmannaeyinga þrátt fyrir að okkur hafi vantað lykilmann í A-liðið. Vestmannaeyingar tefla á Evrópumóti barnaskólasveita.
    • A-sveitina skipuðu:
      • Eiríkur Örn Brynjarsson
      • Páll Snædal Andrason
      • Birkir Karl Sigurðsson
      • Ómar Yamak
  • Á Íslandsmóti barnaskóla, stúlknaflokki, lenti Salaskóli í 2. sæti á eftir Rimaskóla.
    • A-sveitina skipuðu:
      • Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
      • Selma Líf Hlífarsdóttir
      • Ragnheiður Erla Garðarsdóttir
      • Guðbjörg Lilja Svavarsdóttir
  • Fimm börn og unglingar úr Salaskóla kepptu á Landsmóti í skólaskák. Það er met, aldrei hafa fleiri þáttakendur verið með á landsmóti úr einum og sama skólanum. Þau tefldu sem fulltrúar Reykjaneskjördæmis, sem telur Kópavog, Garðabæ, Hafnafjörð, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og restina af Reykjanesinu. Með það í huga er þetta einstakur árangur.
Kópavogsbær er helsti styrktaraðili sveitarinnar til þátttöku á heimsmeistaramóti barnaskólasveita í næsta mánuði. Þessi börn eru ekkert annað en frábær, þau ætla að láta drauma sína rætast og hafa vaknað.  Kunnum við Kópavogsbæ bestu þakkir fyrir.

Páll Snædal Andrason, einn af liðsmönnum sveitarinnar hefur sett upp bloggsíðu fyrir keppnina. 

Þau sem keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu eru:

  1. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  2. Patrekur Maron Magnússon
  3. Páll Snædal Andrason
  4. Guðmundur Kristinn Lee
  5. Birkir Karl Sigurðsson 

Bloggað frá Bandaríkjunum # 6 - siðferði, verðlag og skattar

í gær átti ég afmæli. Eins og oftast síðustu 14 árin dvaldi ég einn á hóteli þennan merkisdag í mínu lífi, í limbói milli Bandaríkjanna og Íslands.

Ég notaði daginn til að kíkja í kringum mig. Keyrði út um allt og komst að því að næstum hver einasti smábær í Minnesota er nákvæm eftirlíking af þeim síðasta. Sömu vörumerki út um allt, samskonar gatnakerfi, og fullt af vingjarnlegu fólki. Ég hitti ekki einn einasta einstakling sem ekki var vingjarnlegur og kurteis. Ég hef ekki heyrt neinn nöldra í tvær vikur. Hvílíkur lúxus!


Ég kíkti í nokkrar verslanir og velti fyrir mér muninum á verðlaginu í Bandaríkjunum og heima á Íslandi. Málið er að til er hugtak sem kallast götuverð á munum. Til dæmis gæti götuverð á geisladisk verið 30 dollarar, en útsöluverð verið 9, og þá oft með afslætti sem bætist ofan á, þar sem oft er hægt að finna afsláttarmiða í verslanir eins og, ef maður verslar fyrir 25 dollara, þá fær maður 10 dollara afslátt. Reyndar má taka fram að söluskatti er yfirleitt bætt á útsöluverð við kassa, og er hann yfirleitt um 6%. 

Nú velti ég fyrir mér hvernig þessu er varið á Íslandi. Fara verslunareigendur nokkurn tíma undir götuverð í sölu á vörum? Er ekki alltaf einhver 100-300% álagning á öllu mögulegu heima? Er virkilega hægt að útskýra alla þessa álagningu með kostnaði á innflutningi (um kr. 200.000  gámur) + 10% tollur + 24,5% virðisaukaskattur. Þegar ég velti þessu fyrir mér lítur út fyrir að þetta gangi upp. En af hverju þarf að rukka toll af öllum vörum? Af hverju þarf að borga 24,5% virðisaukaskatt af vörum sem keyptar eru erlendis?  Eru þetta óeðlilegir skattar sem lagðir eru á landan? Ef svo er, hver er tilgangurinn?


Er ekki ljóst að ef skattar eru lægri eykst flæði og þarmeð hagnaður og innstreymi? Er hér um einhverja sparnaðarstefnu að ræða sem á ekki heima í efnishyggjuóðu Íslandi dagsins í dag?

Þegar skattur á fyrirtæki var lækkaður í 10% jókst innkoma í ríkiskassann margfalt. Ef aðrir skattar væru lækkaðir á sama hátt, gæti ég vel trúað að innkoma aukist enn frekar, þar sem að þegar skattar eru ekki of háir, eru þegnar líklegri til að vera sáttir við þá. Er hægt að skera í burtu öll þessi aukagjöld sem eru ekkert annað en leyfar af menningu sem er algjörlega úrelt á Íslandi, stimpilgjöld, tollar og háir skattar meðal þeirra?

Hvernig viljum við hafa Ísland í dag? Í fylgni við nýja strauma, eða hökta í sama gamla farinu?

Ég hef fulla trú á að ríkisstjórnin í dag sé nýtískuleg og leiti leiða til að skera burtu óþarfa skatta; en spurning hvort að þeir hafi á hreinu hvar best er að skera næst. Fjármagnstekjuskatturinn var númer 1, virðisaukaskattur á matvælum og lækkur á tekjuskatti númer 2 og 3 (hefði verið hægt að gera betur samt); en hvað kemur næst? 

shutterstock_1045514

Ég skil vel að fara þurfi hægt og varlega í þessa hluti en vona að sniglast verði áfram á sömu leið og stefnan virtist liggja fyrir kosningar. Það mætti reyndar líka ýta aðeins á eftir sniglinum.  Öryggisverðir á flugvellinum í Minneapolis stóðu sérstaklega fagmannlega að verki. Þetta hefur verið ein af mínum ánægilegri ferðum til Bandaríkjanna, og hef ég nú heimsótt landið yfir 20 sinnum.

 


Bloggað frá Bandaríkjunum # 5 - Live Free & Blog og uppgjör á námskeiði

Nú er tveimur vikum af ströngu námskeiði lokið, þar sem ég sat með 14 nemendum í 10 daga frá kl. 8:30-16:30 og áttum saman heimspekilegar samræður, auk minni verkefna, eins og að setja upp wikisíðu. Á kvöldin var síðan margt sér til gaman gert með nemendunum; ljóðakeppni, keila, íþróttakvöld, spurningakeppni, bíókvöld, lautarferð, lokauppgjör, dansleikur og formleg útskrift.

Ég var sérstaklega ánægður með þetta námskeið. Nemendurnir höfðu allir mikinn sjálfsaga og unnu öll sín verkefni af alúð. Þeir tóku virkan þátt í samræðum og gættu þess að hver einn og einasti kæmist að með sínar eigin hugmyndir. Á síðasta degi tókst þeim að komast á enn dýpra stig í samræðunum þegar þau byrjuðu að spyrja um rót gagnrýnnar hugsunar og samræðu; hvort að orðabækur séu áreiðanleg heimild fyrir hugtökum eins og 'rökfræði', 'rökrétt' og 'skynsamlegt'.

Margt var rætt. Hluta af þeim hugtökum má finna á heimasíðu minni livefreeblog.com. Það sem virtist þó sitja sterkast í nemendum við lok námskeiðsins var gildi samræðunnar, og mikilvægi þess að geta rætt hlutina á skynsamlegan máta án þess að keppast fyrst og fremst um að koma eigin skoðunum á framfæri, heldur því sem er satt og rétt; þó að það geti hugsanlega stangast á við manns eigin skoðanir.

Meðal þess sem rætt var á námskeiðinu:

  • Verund og tilvist
  • Tengsl sálar, líkama og hugar
  • Hugtökin ekkert, allt og eitthvað (og þá sérstaklega hvort að hægt væri að ímynda sér ekkert)
  • Tilgangur lífs og dauða
  • Frjáls vilji og nauðhyggja
  • Undirstöður gagnrýnnar hugsunar og samræðu
  • Ólíkar birtingarmyndir greindar
  • Líf eftir dauðann eða ekki?
  • Þversagnir efahyggjunnar
  • Er rökhugsun erfið?
  • Hið alslæma: ofbeldi?
  • Hið algóða: samræðan?
  • Tími og rúm
  • Draumar og veruleiki
  • Hvað þýðir fyrir eitthvað að vera eðlilegt?
  • Listir og fegurð
  • Sjálfsgagnrýni
  • Trúleysi og trú
  • Hvað þýðir að eitthvað sé út í hött en annað ekki?
  • Draugar og andar
  • ... og margt fleira

Í lok námskeiðs skráðu nemendur mat sitt á námskeiðinu þar sem þeir voru beðnir um að skrá niður bæði það jákvæða og það sem betur má fara við námskeiðið. Nemendur skiluðu inn athugasemdum nafnlaust til stjórnenda til að hafa þær hlutlausar. Þau eru unglingar á aldrinum 13-17 ára, og því að sjálfsögðu erfitt að svara kröfum bæði allra aldurshópa í samræmi við getu, dýpt, áhuga og þroska. Ég ætla að þýða textann beint úr matsblöðunum:

Fyrst það neikvæða:

 

Athugasemd # 1 

Má bæta: 

  • Bæta við hvíldartíma (ég keyrði þau áfram, án hvíldar)
  • Meira af sápukúlum (við fórum einn daginn í gönguferð, keyptum sápukúlur og blésum þær við tjörn fyrir utan skólann)
  • Vantar sófa

 

Athugasemd # 2

Má bæta: 

  • Meira af sápukúlum
  • Meiri tíma fyrir sápukúlur
  • Minni vind til að blása sápukúlur

 

Athugasemd # 3 

Má bæta:

  • Bíómyndir sem ég get skilið (horfðum á Stranger than Fiction og The Fountain)
  • Ekkert annað! 

 

Athugasemd # 4 

Má bæta: 

  • Opnari huga gagnvart öllum hugsunum
  • Ekki endilega gera ráð fyrir að þegar einhver spyr spurninga sé hann endilega að tjá eigin skoðanir
  • Taka á meiri rökfræði en bara heimspekilegri (jarðbundnari með alvöru aðstæðum / vandamálum)

 

Athugasemd # 5

Má bæta:

  • Frábært eins og er

 

Athugasemd #6

Má bæta:

  • Meiri fjölbreytileika (samræður, leikir sem tengjast hugsun, o.s.frv.)
  • Samræður við aðra hópa
  • Hópferðir

 

Athugasemd #7

Má bæta:

  • Meiri internetaðgang - ekki blokka svona mörg vefsvæði (skólinn lokaði t.d. fyrir MSN og Youtube)
  • Ekkert annað

 

Athugasemd #8

Má bæta:

  • Fjölbreytilegri málefni fyrir samræður

 

Athugasemd #9

Má bæta:

  • Vinna minna með tölvur
  • Fleiri hægindastóla (nemendur höfðu leyfi til að koma með eigin stóla í skólastofuna)

 

Athugasemd #10

Má bæta:

  • Kannski ókeypis kaffeinpillur fyrir morguninn, en annað er í lagi

 

Athugasemd #11

Má bæta:

  • Viðfangsefni sem vekja meiri deilur
  • Fleira fólk

 

Athugasemd #12

Má bæta:

  • Minna af löngum þögnum

 

Athugasemd #13

Má bæta:

  • Meiri samræður

 

Athugasemd #14

Má bæta:

  • Meiri fjölbreytileika

 

Þessar upplýsingar nýti ég að sjálfsögðu til að bæta námskeiðið. Ljóst er að ég þarf að finna fleiri viðfangsefni sem nemendum þætti spennandi að ræða. Samt vil ég varast að fara of mikið inn á svið trúarbragða og stjórnmála, en meira inn á pælingar um trúarbrögð og stjórnmál; þannig að ég ýtti ekki á slíkar samræður, en kom heldur ekki í veg fyrir þær. Spurning um að velta þessu betur fyrir sér.

Og nú að því jákvæða:

 

Athugasemd # 1 

Það besta við námskeiðið:

  • Allir báru virðingu hver fyrir öðrum
  • Þú þarft ekki að rífast til þess að ræða málin
  • Við fengum að ræða áhugaverð málefni og skrá þau á vefsvæðið

 

Athugasemd # 2

Það besta við námskeiðið:

  • Við gátum talað um hvað sem er
  • Okkur var ekki kennt, við fengum tækifæri til að tjá hugmyndir okkar
  • Við fengum að sitja í þægilegum stólum

 

Athugasemd # 3 

Það besta við námskeiðið:

  • Þetta námskeið hvetur þig til að hugsa útfyrir kassann, nota aðferðir gagnrýnnar hugsunar og kynnir námsaðferðir sem ég mér hefur aldrei áður dottið í hug að velta fyrir mér.

 

Athugasemd # 4 

Það besta við námskeiðið:: 

  • Gagnrýnin hugsun / rökhugsun
  • Hlustun (allir tóku þátt í henni)
  • Samræða / rannsóknir og leit

 

Athugasemd # 5

Það besta við námskeiðið:

  • Samræða
  • Wikisíðan 

 

Athugasemd #6

Það besta við námskeiðið:

  • Hversu nánu sambandi nemendur ná hver við annan
  • Þægilegt andrúmsloft
  • Djúpar samræður þar sem að þrátt fyrir að sumt fólk hafði sterkar skoðanir, var það kurteist og bar virðingu fyrir því sem aðrir höfðu til málana að leggja

 

Athugasemd #7

Það besta við námskeiðið:

  • Hrannar
  • Sápukúlur
  • Allt 

 

Athugasemd #8

Það besta við námskeiðið:

  • Þægilegt andrúmsloft
  • Að hugsa um hlutina á ólíkan hátt
  • Tókst að kynnast bekkjarfélögum mínum nokkuð vel

  

Athugasemd #9

Það besta við námskeiðið:

  • Að kynnast nýja fólki
  • Samræður
  • Að horfa á 'Stranger than Fiction'

 

Athugasemd #10

Það besta við námskeiðið:

  • Samræður
  • Samheldni hópsins
  • Að kynnast ólíkum skoðunum og viðhorfum 

 

Athugasemd #11

Það besta við námskeiðið:

  • Hrannar
  • Hugsun
  • Samræðan 

 

Athugasemd #12

Það besta við námskeiðið:

  • Samræða
  • Vinir
  • Kvikmyndir 

 

Athugasemd #13

Það besta við námskeiðið:

  • Sjónarhorn
  • Andrúmsloft
  • Að öðlast þekkingu 

 

Athugasemd #14

Það besta við námskeiðið:

  • Fólkið
  • Samræður
  • Að líða þægilega


Þetta var bráðskemmtilegt námskeið sem einfaldlega hjálpar mér að endurhlaða rafhlöðurnar á hverju ári.

Svona eru sumarfríin hjá Don Hrannari de Breiðholt.


Sá einmitt 'Stranger Than Fiction' í leikstjórn Marc Forster í dag!

StrangerThanFiction

Ég sá einmitt Stranger Than Fiction í dag með nemendum mínum. Hún er stórskemmtilega skrifuð, og vel leikstýrt af Marc Forster. Hann hugsar meira um karakter en hasar, sem ég held að geti gert Bond enn betri. Ég mæli eindregið með þessari mynd, sem er ekki gamanmynd þrátt fyrir að Will Ferrell leiki aðalhlutverkið, hún er meira drama og fantasía.

Nemendur mínir skrifuðu niður fullt af spurningum eftir að hafa séð Stranger Than Fiction í morgun, þær má sjá með því að smella hérna


mbl.is Marc Forster mun leikstýra næstu Bond-mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggað frá Bandaríkjunum # 4: Lélegt netsamband, F4-Silver Surfer og Knocked Up

Því miður hafði ég mjög takmarkað netsamband um helgina og virka daga er ég svo upptekinn að ég kemst ekki í bloggið. Reyndar hef ég verið duglegur við að læðast inn á óvarin netport, en þau eru ekkert sérstaklega áreiðanleg, og sambandið á það til að slitna við minnstu hreyfingu. 

Annars hef ég farið tvisvar í bíó síðustu daga.

Fyrri myndin var Fantastic 4: The Rise of the Silver Surfer. Ég var sáttur við fyrri myndina, en leikurinn og sagan í þessari mynd var fyrir neðan allar hellur. Eina heilsteypta persónan í myndinni var með rödd Lawrence Fishburne og teiknuð. Ég játa að nokkur atriði voru flott vegna tæknibrella, en sagan gaf þeim því miður ekkert bakland og misstu þau því áhrifamátt sinn. Myndin féll kylliflöt. Ég gef henni eina stjörnu.

Seinni myndin var Knocked Up, gerð af sama leikstjóra og 40 Year Old Virgin, og er ekkert síðri.***1/2. Aðalleikararnir fjórir eru fantagóðir, orðbragð frekar klúrt og alls ekki pólitísk rétt; en samt tekst að gefa myndinni hjarta. Maður trúir að þessar persónur gætu verið til og er ekki sama um hvernig fer fyrir þeim, sem er frekar sjaldgæft þessa dagana. Fyndin mynd sem skiptir máli.

Meira seinna...


Bloggað frá Bandaríkjunum # 3: Þegar 'ekkert' blómstrar

Í gær, þegar heimspekihópurinn byrjaði að ræða um ekkert, var eins og þau hefðu óljósa hugmynd um hvað ekkert væri; þar sem að í fyrri samræðum hafði komið fram að sumir trúi því að þegar þeir deyi, taki ekkert við. Þannig að þau vildu komast að því hvað þetta ekkert væri og hvort hægt væri að gera sér skýra hugmynd um hvað ekkert sé.

17279990.IntoNothingness

Þau komust að þeirri niðurstöðu að einungis sé hægt að gera sér óljósa hugmynd um fyrirbærið ekkert, en útilokað að sjá það fyrir sér. Til dæmis áttuðu þau sig á því að ekkert hefði enga eiginleika, og þar af leiðandi enga liti; og þá spurning hvort að ekkert væri gegnsætt - og fyrst ekkert er hinu megin við ekkertið sem þau sjá í gegn; hvað væri þá mögulegt að sjá? Svo áttuðu þau sig á því að ef einhver væri til staðar til að skynja ekkert, þá væri varla um ekkert að ræða; því að einhver til að skynja er eitthvað, en ekki ekkert.

Útfrá þessu fóru þau að velta sér hvort að ekkert væri þá eins og að vera milli tveggja spegla, eða innan í spegli sem er sívalningur, eða innan í spegli sem er hnöttur. Þá áttuðu þau sig á því að það þyrfti ljós til að sjá eitthvað í speglinum, og fóru að velta fyrir sér hvort hægt væri að setja myndavél sem gæti séð í myrkri inn á milli speglanna, en áttuðu sig þá á því að myndavélin sjálf hefði þá áhrif á skynjunina, rétt eins og í kenningum skammtafræðinnar. Það var gaman að sjá allar þessar hugmyndir blómstra, og hvernig þær spruttu ljóslifandi fram úr hugarheimi nemendanna, og ákafann og gleðina sem fylgdi því að velta þessum hugmyndum fyrir sér.

Ég held að fátt sé jafn upplífgandi og að uppgötva þessa dýpt sem hver einasti mannhugur virðist geyma. Við erum öll haf, af ekki bara upplýsingum og hugmyndum, heldur hugsunum sem við rétt snertum lauslega þegar við reynum að tjá þessar hugsanir með skrifum, tali, listum, athöfnum eða hverslags tjáningu. 

Eftir pælingarnar um ekkert fóru nemendur að velta fyrir sér skynjunum og huganum, og hvort betra sé að treysta því sem maður skynjar með skilningarvitunum, eða huganum. Þau reyndu að átta sig á hvort að maður sjái hlutina eins og þeir raunverulega eru, eða hvort sýnin sé í raun alltaf skökk. Samkvæmt kenningum sjónfræðinga túlkar heilinn það sem við skynjum; og það myndefni sem við fáum inn um augun birtist heilanum í raun á hvolfi - þannig að einn nemandi fór að velta fyrir sér, af fullri alvöru, hvort að þegar við héldum að fólk gengi um gólf, þá væri það hugsanlega að ganga á loftinu. Þetta voru skemmtilegar pælingar, og sérstaklega vegna þess að hópurinn fylgdi þessari hugmynd, reyndi að sjá hana fyrir sér, varð frekar ringlaður, og áttaði sig á að það eru takmörk fyrir áreiðanleika skynjunarinnar. 

Taj_Mahal-lge

Frá mánudegi hefur hópurinn rætt saman um heimspekileg málefni. Ég hvet nemendurna til að búa til sínar eigin spurningar, en vel ákveðna texta til að gefa þeim efni til að spyrja um.

Á fyrsta degi þurfti nánast að draga spurningarnar úr kokinu á þeim, en í gær kepptust þau um að skrá spurningar á töfluna til að koma eigin hugmyndum á framfæri. 

Dagur 1: Sannleiksgildi alhæfinga og hvort að hugurinn fylgi ákveðnum reglum.

Dagur 2: Verund og tilvist

Dagur 3: Ódauðleiki sálarinnar: eru sál og líkami eitt eða aðskilin?

Dagur 4: Ekkert og hvernig við skynjum 

Spurningar sem nemendurnir hafa skrifað á livefreeblog:   

 
Ég reikna með að fleiri greinar bætist við í dag, og þá sérstaklega um Ekkert og Skynjanir. Aðrir hópar á námskeiðinu hafa byrjað að nota þessa skemmtilegu tækni. Ég hvet hópinn minn til að kenna öðrum hópum hvernig þetta er notað. 

Þrátt fyrir miklar efasemdir sumra stjórnenda um að gefa nemendum aðgang að opnu neti, og það var þess vegna sem ég keypti mér mitt eigið vefsvæði á http:livefreeblog.com, þá er ljóst að Wiki-hugmyndin er heldur betur að slá í gegn! 


Bloggað frá Bandaríkjunum # 2 - Langur akstur, ungir snillingar og ný wikisíða

Ég ók frá Minneapolis til Holdrege bæjar í Nebraska með því að elta GPS leiðbeiningar í 10 klukkustundir. Þessi græja virkaði undravel, hún spáði fyrir um klukkan hvað ég yrði kominn á staðinn. Skekkjumörkin voru innan fimm mínútna, sem er gott miðað við 945 km. leið.

Minneapolis_Holdrege

Kennsla byrjaði kl. 8:30 á mánudagsmorgni. Fagið er rökfræði og heimspeki. Nemendurnir eru  allir afburðarnámsmenn sem sóttu sérstaklega um að komast á sumarnámskeiðið. Rúmlega 500 ungmenni sóttu um, en um 125 komust inn. Um 100 nemendur sóttu um rökfræðinámskeiðið hjá mér, en aðeins 14 komust að.

Logicsmall

Þessir ungu snillingar hafa rætt áhugaverð málefni, en svo virðist sem að meginþemað í ár snúist um verund og tilvist. Í dag komu þau fram með þá kenningu að verund tilheyri veruleikanum sem tímahugtak (time), en að tilvistin tilheyri veruleikanum sem svæðishugtak (space). 

Við skráum eitthvað af spurningum og svörum inn á wiki-vefsvæði sem ég bjó til fyrir hópinn: http:livefreeblog.com/logic og lítur út fyrir að vefsíðan verði nokkuð öflug miðað við að gerð hennar hófst síðasta mánudag.

Á mánudagskvöldið var haldin ljóðakeppni (poetry slam) þar sem ljóðskáld lesa frumsamin ljóð og fá einkunn frá dómurum fyrir. Þetta form var fundið upp þegar fólki fór að leiðast hversu mikið innan í sér mörg snilldarskáld voru við upplestur. Þar á eftir var haldin spurningakeppni, þar sem allar spurningarnar fjölluðu um fólkið sem tekur þátt í námskeiðinu þetta árið. Á þriðjudagskvöldið var svo farið í keilu, þar sem undirritaður náði 128 stigum, sem ég er bara nokkuð sáttur við. Í kvöld verður keppt í blaki og verð ég í kennaraliðinu, en nemendurnir eru ansi öflugir, og unnu kennarana í fyrra. 

Ég hef til allrar hamingju ekki haft neinn tíma til að horfa á sjónvarp, og hef ekki mikinn tíma til að blogga, enda fer ég út að borða eftir hálftíma.

Bestu kveðjur til bloggvina.


Bloggað frá Bandaríkjunum # 1 - Flugið, fjölmiðlafárið kringum Paris Hilton, bíópælingar og fyrirmyndir.

Flugið

Í gær var flogið til Minneapolis.  Ég þurfti að taka rútu frá BSÍ kl. 14:00 til að ná vélinni.

Ég er að ná mér eftir væga matareitrun, en mætti í vinnuna og vann til hádegis. Þá átti ég enn eftir að pakka í ferðatösku. Kom heim og fann mér til einhver föt og hluti sem þyrfti að taka með. Lagði af stað á BSÍ kl. 13:45. Það var frekar þung umferð, en var samt mættur á BSÍ kl. 15:59 og náði rútunni.

Iceland_MinneapolisÍ fluginu hitti ég gamlan og mjög viðkunnanlegan nemanda minn, en við höfðum því miður lítinn tíma til að ræða saman þar sem hann var í starfi flugþjóns. Ég hef mjög gaman af að hitta mína gömlu nemendur úr FB, enda voru tímarnir þar stórskemmtileg lífsreynsla, a.m.k. fyrir mig og ég vona, fyrir nemendurna líka. Gaman að sjá hvað hann hafði framúrskarandi þjónustulund gagnvart kröfuhörðum viðskiptavinum. Fátt kann ég betur að meta hjá starfsmönnum. 

Eftir vegabréfsinnritun, sem var óvenju stutt og þægileg, toll án athugasemda og leigu á bílaleigubíl með GPS tæki, tókst mér auðveldlega að finna hótelið. Fékk ég kóngssvítu, sem er risastór fyrir einn mann, með tveimur stórum sjónvarpstækum og öllum þeim lúxus sem maður þarf ekki á að halda. Maður tímir varla að fara út, þetta er svo flott.

hotel_Minneapolis

Ég áttaði mig á að ég hafði tekið með mér vitlausa tengikló fyrir fartölvuna. Í stað þess að taka mér mér kló fyrir bandaríska kerfið hafði ég tekið Englandskló. Það gekk ekki alveg, tölvan að renna út á batteríum og ég gæti ekkert bloggað ef það gerðist. 

Skrapp í Mall of America, fann þar Radio Shack og keypti mér kló.

 

Fjölmiðlafárið kringum Paris Hilton 

Þegar aftur hótelið var komið gerði ég nokkuð sem ég geri næstum aldrei heima. Ég kveikti á sjónvarpinu. Það var bókstaflega ekkert annað á flestum sjónvarpsstöðum en málið um Paris Hilton, að hún hafði fengið að fara heim. Núna í morgun er svo aðalfréttin að hún var send heim.

Aðalfréttin í þessu máli finnst mér reyndar ekki vera Paris Hilton og staða hennar gagnvart bandaríska réttarkerfinu og viðbrögð föður hennar við því; heldur fjölmiðlafárið sem orðið hefur til í kringum þennan frekar ómerkilega atburð; að um tvítug stúlka, sem er reyndar fyrirmynd óhemju margra unglingsstúlkna í Bandaríkjunum í dag, skuli hafa verið tekin bílprófslaus og full undir stýri, send í fangelsi og sleppt vegna þess að hún virtist tæp á geðheilsu, og svo stungið aftur inn af því að þjóðin og kerfið krefst þess að allir fái sömu meðferð gagnvart lögunum.

Reyndar verð ég að viðurkenna að hérna er hægt að finna fullt af spennandi málum til að ræða:

  1. Er samband einstaklings og ríkis stjórnað af fjölmiðlum?
  2. Eru allir jafnir gagnvart lögunum?
  3. Eru sumir jafnvari gagnvart lögunum en aðrir? 
  4. Hvort er meiri frétt, það sem Paris Hilton er að upplifa, eða fjölmiðlaflutningurinn í kringum það?
  5. Eru það fjölmiðlarnir sem valda það að fjölmenn mótmæli verða á götum úti vegna Paris Hilton, eða er það óréttlætið sem það upplifir með að hún fái að fara heim af því að henni leið svo ósköp illa í fangelsi? 
  6. Er réttlátt að stúlkan lendi í 30 daga fangelsi fyrir að vera full undir stýri?
  7. eiga yfirvöld að sýna umburðarlyndi gagnvart afbrotamönnum sem iðrast?
  8. Hvað er réttlæti?
  9. Hvað er ranglæti?
  10. Hvað er frétt?

Málið er að málið um Paris Hilton er nokkuð sem spennandi er að ræða um, en getur þó samt varla talist til fréttar. Samt er það fréttamiðillinn CNN sem hefur þetta mál sem meginfrétt í dag og í gær.  Réttlætingin á því að kalla þetta frétt er einmitt fjölmiðlafárið í kringum málið, en þetta fjölmiðlafár er eitthvað sem að CNN tekur virkan þátt í að búa til; þannig að ljóst er þeim er ekki mögulegt að flytja hlutlausar fréttir af vettvangi. Snúið?

 

Bíópælingar 

Jæja, í dag ætla ég að taka það rólega. Versla og kaupa mér eitthvað af fötum. Kannski maður skelli sér í bíó í kvöld, sem er náttúrulega lúxus, því að hérna eru aldrei hlé.  Minnir mig á að blogga einhvern tíma um hlé í bíó. Það hefur gjöreyðilagt margar kvikmyndir fyrir mig, og er ein af ástæðunum fyrir því að mér líkar betur að horfa á mynd á DVD en í bíóhúsi á Íslandi. Það er alveg hræðilegt þegar manni er kippt út úr hugmyndaheiminum sem bíómyndin er búin að setja mann í; það er rétt búið að koma áhorfendum fyrir þar sem þeir geta sett sig inn í persónur myndarinnar, en þá er þeim kippt út með hléi; hlé í bíó er eins og að lýsa með vasaljósi í augun á manni sem er að lesa á bókasafni. Óþolandi!

Jæja, það er komið að því að taka á móti deginum og fara út úr húsi; en samt ætla ég fyrst að setja saman leiðbeiningar fyrir þá sem áhuga hafa á að vera með í wiki-verkefninu mínu um heimspeki í kvikmyndum. Hafirðu áhuga á að kíkja á þetta og vera með geturðu smellt á Philosophy in the Movies og búið til og breytt greinum sjálf/ur, eins og þig lystir til. Það má skrifa greinar á íslensku þó að allt sem komið er sé á ensku eins og staðan er í dag. Ég á eftir að finna út hvernig maður skiptir á milli tungumála í wiki-heimum.

Fyrirmyndir

Þegar ég fór í morgunmat áðan (ekkert Cheerios til) stakk það mig strax að það var risastórt sjónvarpstæki yfir morgunverðarsalnum, sem heyrðist nokkuð hátt í, og þar voru enn fréttir um Paris Hilton og svo hafnarbolta. Ég leit í kringum mig, og töluvert af fólki var að ræða saman, en með annað augað á sjónvarpstækinu. Sjónvarpsmenningin er gríðarlega öflug hérna leyfi ég mér að fullyrða, en maður er hvergi laus frá áreitinu, nema kannski þegar maður situr inni í bíl. Flestir veitingastaðir eru með stór sjónvörp í gangi, líka stórverslanir eins og Wal-Mart, og aðrar. Ég er bara að átta mig á hvað þetta er gífurlega magnað og truflandi áreiti.

Í kennslufræði lærir maður mikið um að það mikilvægasta af öllu er að börn hafi góðar fyrirmyndir, því þarf kennarinn ekki aðeins að vera góð manneskja og fín fyrirmynd, heldur nánast fullkomin að öllu leyti, þ.e.a.s. í samræmi við eigin trú. En nú þegar fyrirmyndir í fjölmiðlum eru ekkert endilega góðar, eins og t.d. Paris Hilton og Árni Johnsen - sem hafa brotið alvarlega af sér en fá samt mikla athygli og viðurkenningu frá samfélaginu, - eru þetta fyrirmyndir sem fólk mun fylgja ósjálfrátt um ókomna framtíð? Getur verið að slæmt fordæmi sé virkilega hættulegt samfélaginu, eins og Hugo Chavez, forseti Venezúela vill meina og framkvæmir með því að loka á sjónvarpsstöðvar sem sýna rusl?

Þegar ég lærði kennslufræði í Mexíkó, þá var okkur innprentað nokkuð ólíkt því sem ég lærði í sömu fræðum í Bandaríkjunum og á Íslandi. Ég hef lítið orðið var við umræðu um mikilvægi fyrirmynda á Íslandi, en í bandaríska náminu var kjarninn í fræðunum tengdur "role-models", kennari skyldi haga sér í samræmi við hvernig hann vænti nemendur til að haga sér; ef kennari þættist yfir nemendur hafinn, þá myndu sumir nemendur taka þetta sem fyrirmynd og þykjast yfir aðra nemendur hafnir; sem gæti verið upphafið að eineltishringamyndun. Þess vegna var mikilvægt að kennari velti fyrir sér hvaða eiginleika hann vildi sjá í nemendum sínum, og einbeita sér að því að sýna þessa eiginleika sjálfur. Þeir eiginleikar sem ég vil sjá í mínum nemendum eru umburðarlyndi gagnvart öðrum, hugrekki til tjáningar, það góð hlustun að maður er tilbúinn að setja sig í skó annarra, og þjónustulund gagnvart þeim sem eiga erfiðara með að skilja, og viðurkenning til þeirra sem eru reiðubúnir að vera leiðtogar og leiða aðra í hópnum til skilnings um málefnin. Þetta hefur reynst gríðarlega vel í minni kennslu og fátt er skemmtilegra en þegar hópur nær loks saman. 

Jæja, en hvað um það, ég má ekki gleyma mér og því sem ég ætlaði að segja um kennslufræðinámið í Mexíkó. Þar kenndi ég við kaþólskan framhaldsskóla sem stjórnað var af Herdeild Krists, eða The Legion of Christ, sem er hægrihópur innan kaþólsku kirkjunnar. Þar var okkur bent á að ætlast var ekki aðeins til að við værum góðar fyrirmyndir, heldur þurfti hver kennari að vera ímynd Krists, og ekki bara Krists þegar hann hélt fjallræður, heldur líka Krists þegar hann hafði verið krossfestur.  Því var sú kennsla erfið og helvíti líkust, því ég verð að viðurkenna - oft leið mér þar í skólastofunni eins og Kristi á krossinum, en gat klórað mér út úr erfiðustu augnablikunum með því að hugsa til besta lags kvikmyndasögunnar: "Always Look on the Bright Side of Life".

Ég þykist ekki vera fullkominn eða fær til að setja mig í spor sjálfs Jesús Krists, en skil hins vegar mikilvægi þess að hafa góðar fyrirmyndir í þjóðfélaginu. Því miður held ég að kennarar séu að tapa stríðinu um fyrirmyndirnar. Kennarar eru ekki virtir sem fyrirmyndir í dag á Íslandi, né annars staðar á vesturlöndum, a.m.k. ekki á grunnskólastigi, og fyrirmyndirnar í samfélaginu eru til þess gerðar að ungt fólk án góðrar kjölfestu (með góða fjölskyldu á bakvið sig) verður bara ennþá týndara. 


Eitt besta lag allra tíma: El Problema

Það væri nú gaman ef einhver af mínum söngelsku bloggvinum tæki þetta lag upp á arma sína og flytti það með textaþýðingunni sem ég læt fylgja, sem ég henti saman nú í kvöld og væri sjálfsagt hægt að bæta með yfirlestri og gáfulegum pælingum.  

Ég heyrði það fyrst í Mexíkó árið 2004, rétt áður en ég flutti heim til Íslands. Ég ætla snöggvast að snúa textanum yfir á íslensku. Þetta er eitt af þessum lögum sem maður þarf að hlusta á nokkrum sinnum til að ná, og skilja síðan textann. Svei mér þá ef þetta lag jafnast ekki á við Bohemian Rhapsody í gæðum og skemmtanagildi, í það minnsta fyrir mig.

Lagið er: El Problema, í flutningi Ricardo Arjona. Ætli hann sé ekki Bono Suður Ameríku? Textar hans eru sérstaklega góðir.

EL PROBLEMA 

El problema no fue hallarte
El problema es olvidarte
El problema no es tu ausencia
El problema es que te espero
El problema no es problema

El problema es que me duele
El problema no es que mientas
El problema es que te creo.

El problema no es que juegues
El problema es que es conmigo
Si me gustaste por ser libre
Quién soy yo para cambiarte
Si me quedé queriendo solo
Cómo hacer para obligarte
El problema no es quererte
Es que tú no sientas lo mismo.

CHORUS:
Y cómo deshacerme de ti si no te tengo
Cómo alejarme de ti si estás tan lejos
Cómo encontrarle una pestaña
A lo que nunca tuvo ojos
Cómo encontrarle plataformas
A lo que siempre fue un barranco
Cómo encontrar en la alacena
Los besos que no me diste.

Y cómo deshacerme de ti si no te tengo
Cómo alejarme de ti si estas tan lejos
Y es que el problema no es cambiarte
El problema es que no quiero.

El problema no es que duela
El problema es que me gusta
El problema no es el daño
El problema son las huellas
El problema no es lo que haces
El problema es que lo olvido
El problema no es que digas
El problema es lo que callas.

CHORUS (x2)

Y cómo deshacerme de ti si no te tengo
Cómo alejarme de ti si estas tan lejos
El problema no fue hallarte
El problema es olvidarte
El problema no es que mientas
El problema es que te creo
El problema no es cambiarte
El problema es que no quiero
El problema no es quererte
Es que tú no sientas lo mismo
El problema no es que juegues
El problema es que es conmigo.

igualitosppal_400
Svipur með þeim Arjona og Bono. 

VANDINN

Vandinn er ekki að finna þig
Vandinn er að gleyma þér
Vandinn er ekki fjarvera þín
Vandinn er að ég bíð þín
Vandinn er ekki vandamál
Vandinn er að mér sárnar
Vandinn er ekki að þú ljúgir að mér
Vandinn er að ég trúi þér 

Vandinn er ekki að þú leikir þér
Vandinn er að þú leikur þér að mér

Ef frelsi þitt var það sem hreif mig
Hver er ég þá til að breyta þér
Ef ég vildi vera í friði
Hvernig get ég þvingað þig
Vandinn er ekki að ég elski þig
Heldur að þú elskar mig ekki

KÓR:

Hvernig get ég losnað við þig ef ég hef þig ekki
Hvernig get ég farið frá þér ef þú ert farin
Eins og að finna augnhár
sem aldrei kom nálægt augum
Eins og að finna pall
þar sem alltaf var dýpi
Eins og að finna í skáp
Kossana sem þú gafst mér aldrei

Og hvernig get ég losnað við þig ef ég hef þig ekki
Hvernig get ég farið frá þér ef þú ert svo fjarlæg
Vandinn er ekki að breyta þér
Vandinn er að ég vil það ekki

Vandinn er ekki sársaukinn
Vandinn er að mér líkar hann
Vandinn er ekki skaðinn
Vandinn er hvað ég er marinn
Vandinn er ekki það sem þú gerir
Vandinn er að ég gleymi því
Vandinn er ekki það sem þú segir
Vandinn er þegar þú þegir

KÓR (x2)

Og hvernig get ég losnað við þig ef ég hef þig ekki
Hvernig get ég farið frá þér ef þú ert farin
Vandinn er ekki að finna þig
Vandinn er að gleyma þér
Vandinn er ekki að þú ljúgir að mér
Vandinn er að ég trúi þér
Vandinn er ekki að breyta þér
Vandinn er að ég vil það ekki
Vandinn er ekki að ég elski þig

Heldur að þú elskar mig ekki
Vandinn er ekki að þú leikir þér
Vandinn er að þú leikur þér að mér

 

Tónleikaflutningur af þessu stórgóða lagi. Sjaldan hefur maður heyrt áheyrendur taka jafn vel undir:

 

Þessi útgáfa hljómar vel, en mig grunar að einhver hafi klippt þetta til að senda elskunni sinni.



Opinbera myndbandið, í frekar slökum hljómgæðum.



Njótið vel! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband