Bloggað frá Bandaríkjunum # 6 - siðferði, verðlag og skattar

í gær átti ég afmæli. Eins og oftast síðustu 14 árin dvaldi ég einn á hóteli þennan merkisdag í mínu lífi, í limbói milli Bandaríkjanna og Íslands.

Ég notaði daginn til að kíkja í kringum mig. Keyrði út um allt og komst að því að næstum hver einasti smábær í Minnesota er nákvæm eftirlíking af þeim síðasta. Sömu vörumerki út um allt, samskonar gatnakerfi, og fullt af vingjarnlegu fólki. Ég hitti ekki einn einasta einstakling sem ekki var vingjarnlegur og kurteis. Ég hef ekki heyrt neinn nöldra í tvær vikur. Hvílíkur lúxus!


Ég kíkti í nokkrar verslanir og velti fyrir mér muninum á verðlaginu í Bandaríkjunum og heima á Íslandi. Málið er að til er hugtak sem kallast götuverð á munum. Til dæmis gæti götuverð á geisladisk verið 30 dollarar, en útsöluverð verið 9, og þá oft með afslætti sem bætist ofan á, þar sem oft er hægt að finna afsláttarmiða í verslanir eins og, ef maður verslar fyrir 25 dollara, þá fær maður 10 dollara afslátt. Reyndar má taka fram að söluskatti er yfirleitt bætt á útsöluverð við kassa, og er hann yfirleitt um 6%. 

Nú velti ég fyrir mér hvernig þessu er varið á Íslandi. Fara verslunareigendur nokkurn tíma undir götuverð í sölu á vörum? Er ekki alltaf einhver 100-300% álagning á öllu mögulegu heima? Er virkilega hægt að útskýra alla þessa álagningu með kostnaði á innflutningi (um kr. 200.000  gámur) + 10% tollur + 24,5% virðisaukaskattur. Þegar ég velti þessu fyrir mér lítur út fyrir að þetta gangi upp. En af hverju þarf að rukka toll af öllum vörum? Af hverju þarf að borga 24,5% virðisaukaskatt af vörum sem keyptar eru erlendis?  Eru þetta óeðlilegir skattar sem lagðir eru á landan? Ef svo er, hver er tilgangurinn?


Er ekki ljóst að ef skattar eru lægri eykst flæði og þarmeð hagnaður og innstreymi? Er hér um einhverja sparnaðarstefnu að ræða sem á ekki heima í efnishyggjuóðu Íslandi dagsins í dag?

Þegar skattur á fyrirtæki var lækkaður í 10% jókst innkoma í ríkiskassann margfalt. Ef aðrir skattar væru lækkaðir á sama hátt, gæti ég vel trúað að innkoma aukist enn frekar, þar sem að þegar skattar eru ekki of háir, eru þegnar líklegri til að vera sáttir við þá. Er hægt að skera í burtu öll þessi aukagjöld sem eru ekkert annað en leyfar af menningu sem er algjörlega úrelt á Íslandi, stimpilgjöld, tollar og háir skattar meðal þeirra?

Hvernig viljum við hafa Ísland í dag? Í fylgni við nýja strauma, eða hökta í sama gamla farinu?

Ég hef fulla trú á að ríkisstjórnin í dag sé nýtískuleg og leiti leiða til að skera burtu óþarfa skatta; en spurning hvort að þeir hafi á hreinu hvar best er að skera næst. Fjármagnstekjuskatturinn var númer 1, virðisaukaskattur á matvælum og lækkur á tekjuskatti númer 2 og 3 (hefði verið hægt að gera betur samt); en hvað kemur næst? 

shutterstock_1045514

Ég skil vel að fara þurfi hægt og varlega í þessa hluti en vona að sniglast verði áfram á sömu leið og stefnan virtist liggja fyrir kosningar. Það mætti reyndar líka ýta aðeins á eftir sniglinum.  Öryggisverðir á flugvellinum í Minneapolis stóðu sérstaklega fagmannlega að verki. Þetta hefur verið ein af mínum ánægilegri ferðum til Bandaríkjanna, og hef ég nú heimsótt landið yfir 20 sinnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið á laugardaginn!

kv. hsh

Hugrún (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 12:34

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Það hefur verið gaman að fylgjast með þér í bandaríkjunum. Til hamingju með afmælið. En ég er ekki sammála þessu með skattana því ég vil ekki lifa í bandaríska módelinu heldur því skandinavíska. Góð laun, háa skatta og  gott heilbrigðiskerfi og menntakerfi fyrir alla jafnt það held ég sé best.

María Kristjánsdóttir, 25.6.2007 kl. 13:25

3 identicon

Sæll og blessaður Hrannar

Innilega til hamingju með afmælið.
Þetta hefur greinilega verið virkilega skemmtileg ferð hjá þér til USA.  Námskeiðið þitt hljómar líka "interesting" og greinilegt að þú hefur haft mikil og góð áhrif á krakkana.

kv .Ragna

Ragna E, Kvaran (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 15:20

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

HSH: Takk

María: Allt í lagi að vera ósammála, en ég held samt að okkar samfélag sé í eðli sínu mjög ólíkt því bandaríska og held að minni skattar muni ekki veikja heilbrigðis- og menntakerfið nema illa sé haldið á spöðunum. Góðir hlutir gerast hægt.

Ragna: Takk - ég rétt vona að áhrif mín á unglingana hafi verið góð og muni skila sér inn í bandarískt samfélag með tíð og tíma; stoppa stríðsbrölt, auka virðingu fyrir samræðu og svoleiðis... - mín tilraun til að láta gott af mér leiða - það er aldrei að vita hver áhrifin geta verið og nokkuð ljóst að þau eru óútreiknanleg þegar um hugmyndafræði er að ræða. Einn af mínum gömlu nemendum hefur sent eldflaug af stað til Merkúr með NASA og annar er að ryðja sér braut sem leikstjóri í Hollywood. Ekki endilega mér að þakka, en ég veit að þessir nemendur sem sífellt verða áhrifameiri með hverju árinu kunna að hlusta og ræða við annað fólk á skynsamlegum forsendum.

Hrannar Baldursson, 25.6.2007 kl. 15:34

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilega til hamingju með afmælið. 

Ásdís Sigurðardóttir, 27.6.2007 kl. 20:49

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skattar á fyrirtæki voru reyndar lækkaðir í 18% en ekki 10%. Fjármagnstekjuskattur er 10%. . Margir eru hins vegar þeirrar skoðunnar að lækka beri skatta á fyrirtæki niður í 10%  og að einnig beri að lækka tekjuskatta enn meira en gert hefur verið, ég er einn þeirra. "Laffer boginn" svokallaði sýnir ágætlega hvernig mismunandi skattheimta virkar í raun. María Kristjansdótttir talar um skandinavíska modelið og telur það góða fyrirmynd, sem er merkilegt í ljósi þess að skandinavar eru á flótta undan þeirri skattastefnu sem þar hefur verið ríkjandi undanfarna áratugi. Auk þess held ég að misskilnings gæti hjá henni í þessum efnum þ.e. að draga upp samasem merki milli lágrar skattprósentu og lítillar opinberrar þjónustu.

Vil benda á ágæta grein eftir Hannes Hólmstein, varðandi þetta HÉR 

Ps. Til hamingju með afmælið

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2007 kl. 07:13

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ásdís og Gunnar, takk fyrir afmæliskveðjurnar þó að vika sé liðin.

Og Gunnar, þakka þér sérstaklega fyrir þetta góða svar. Ég er algjörlega sammála því að Laffer-boginn virki eins og kenningin segir til um og sé einmitt mannlega þáttinn sem mikilvægastan í þessum efnum. Þegar þú ert beðinn um eitthvað sem þér finnst of mikið, þá gefurðu það ekki með glöðu geði. Ef þú ert hins vegar beðinn að leggja til þinn skerf, sem er hóflegri og finnur mörkin þar sem fólk er sátt, þá færðu fólkið með þér, og það mun snúast gegn skattsvikum. Miðað við það sem ég hef heyrt af fólki á götunni, finnst þeim svört vinna eðlileg miðað við skattaumhverfi Íslands í dag. Skattsvik eru alls ekki réttlætanleg, en ég skil hins vegar fullkomlega hvað átt er við.

þegar mikill mótþrói er til staðar; og allur viljinn kemur frá yfirvöldum, en ekki þjóðinni, þá missir skatturinn marks. Ég trúi því að lægra skatthlutfall muni skila meira í ríkissjóð á endanum og meiri ánægju frá þeim sem borga í skatt, og meiri vilja almennings til að taka þátt í pottinum.

Hrannar Baldursson, 1.7.2007 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband