Bloggað frá Bandaríkjunum # 1 - Flugið, fjölmiðlafárið kringum Paris Hilton, bíópælingar og fyrirmyndir.

Flugið

Í gær var flogið til Minneapolis.  Ég þurfti að taka rútu frá BSÍ kl. 14:00 til að ná vélinni.

Ég er að ná mér eftir væga matareitrun, en mætti í vinnuna og vann til hádegis. Þá átti ég enn eftir að pakka í ferðatösku. Kom heim og fann mér til einhver föt og hluti sem þyrfti að taka með. Lagði af stað á BSÍ kl. 13:45. Það var frekar þung umferð, en var samt mættur á BSÍ kl. 15:59 og náði rútunni.

Iceland_MinneapolisÍ fluginu hitti ég gamlan og mjög viðkunnanlegan nemanda minn, en við höfðum því miður lítinn tíma til að ræða saman þar sem hann var í starfi flugþjóns. Ég hef mjög gaman af að hitta mína gömlu nemendur úr FB, enda voru tímarnir þar stórskemmtileg lífsreynsla, a.m.k. fyrir mig og ég vona, fyrir nemendurna líka. Gaman að sjá hvað hann hafði framúrskarandi þjónustulund gagnvart kröfuhörðum viðskiptavinum. Fátt kann ég betur að meta hjá starfsmönnum. 

Eftir vegabréfsinnritun, sem var óvenju stutt og þægileg, toll án athugasemda og leigu á bílaleigubíl með GPS tæki, tókst mér auðveldlega að finna hótelið. Fékk ég kóngssvítu, sem er risastór fyrir einn mann, með tveimur stórum sjónvarpstækum og öllum þeim lúxus sem maður þarf ekki á að halda. Maður tímir varla að fara út, þetta er svo flott.

hotel_Minneapolis

Ég áttaði mig á að ég hafði tekið með mér vitlausa tengikló fyrir fartölvuna. Í stað þess að taka mér mér kló fyrir bandaríska kerfið hafði ég tekið Englandskló. Það gekk ekki alveg, tölvan að renna út á batteríum og ég gæti ekkert bloggað ef það gerðist. 

Skrapp í Mall of America, fann þar Radio Shack og keypti mér kló.

 

Fjölmiðlafárið kringum Paris Hilton 

Þegar aftur hótelið var komið gerði ég nokkuð sem ég geri næstum aldrei heima. Ég kveikti á sjónvarpinu. Það var bókstaflega ekkert annað á flestum sjónvarpsstöðum en málið um Paris Hilton, að hún hafði fengið að fara heim. Núna í morgun er svo aðalfréttin að hún var send heim.

Aðalfréttin í þessu máli finnst mér reyndar ekki vera Paris Hilton og staða hennar gagnvart bandaríska réttarkerfinu og viðbrögð föður hennar við því; heldur fjölmiðlafárið sem orðið hefur til í kringum þennan frekar ómerkilega atburð; að um tvítug stúlka, sem er reyndar fyrirmynd óhemju margra unglingsstúlkna í Bandaríkjunum í dag, skuli hafa verið tekin bílprófslaus og full undir stýri, send í fangelsi og sleppt vegna þess að hún virtist tæp á geðheilsu, og svo stungið aftur inn af því að þjóðin og kerfið krefst þess að allir fái sömu meðferð gagnvart lögunum.

Reyndar verð ég að viðurkenna að hérna er hægt að finna fullt af spennandi málum til að ræða:

  1. Er samband einstaklings og ríkis stjórnað af fjölmiðlum?
  2. Eru allir jafnir gagnvart lögunum?
  3. Eru sumir jafnvari gagnvart lögunum en aðrir? 
  4. Hvort er meiri frétt, það sem Paris Hilton er að upplifa, eða fjölmiðlaflutningurinn í kringum það?
  5. Eru það fjölmiðlarnir sem valda það að fjölmenn mótmæli verða á götum úti vegna Paris Hilton, eða er það óréttlætið sem það upplifir með að hún fái að fara heim af því að henni leið svo ósköp illa í fangelsi? 
  6. Er réttlátt að stúlkan lendi í 30 daga fangelsi fyrir að vera full undir stýri?
  7. eiga yfirvöld að sýna umburðarlyndi gagnvart afbrotamönnum sem iðrast?
  8. Hvað er réttlæti?
  9. Hvað er ranglæti?
  10. Hvað er frétt?

Málið er að málið um Paris Hilton er nokkuð sem spennandi er að ræða um, en getur þó samt varla talist til fréttar. Samt er það fréttamiðillinn CNN sem hefur þetta mál sem meginfrétt í dag og í gær.  Réttlætingin á því að kalla þetta frétt er einmitt fjölmiðlafárið í kringum málið, en þetta fjölmiðlafár er eitthvað sem að CNN tekur virkan þátt í að búa til; þannig að ljóst er þeim er ekki mögulegt að flytja hlutlausar fréttir af vettvangi. Snúið?

 

Bíópælingar 

Jæja, í dag ætla ég að taka það rólega. Versla og kaupa mér eitthvað af fötum. Kannski maður skelli sér í bíó í kvöld, sem er náttúrulega lúxus, því að hérna eru aldrei hlé.  Minnir mig á að blogga einhvern tíma um hlé í bíó. Það hefur gjöreyðilagt margar kvikmyndir fyrir mig, og er ein af ástæðunum fyrir því að mér líkar betur að horfa á mynd á DVD en í bíóhúsi á Íslandi. Það er alveg hræðilegt þegar manni er kippt út úr hugmyndaheiminum sem bíómyndin er búin að setja mann í; það er rétt búið að koma áhorfendum fyrir þar sem þeir geta sett sig inn í persónur myndarinnar, en þá er þeim kippt út með hléi; hlé í bíó er eins og að lýsa með vasaljósi í augun á manni sem er að lesa á bókasafni. Óþolandi!

Jæja, það er komið að því að taka á móti deginum og fara út úr húsi; en samt ætla ég fyrst að setja saman leiðbeiningar fyrir þá sem áhuga hafa á að vera með í wiki-verkefninu mínu um heimspeki í kvikmyndum. Hafirðu áhuga á að kíkja á þetta og vera með geturðu smellt á Philosophy in the Movies og búið til og breytt greinum sjálf/ur, eins og þig lystir til. Það má skrifa greinar á íslensku þó að allt sem komið er sé á ensku eins og staðan er í dag. Ég á eftir að finna út hvernig maður skiptir á milli tungumála í wiki-heimum.

Fyrirmyndir

Þegar ég fór í morgunmat áðan (ekkert Cheerios til) stakk það mig strax að það var risastórt sjónvarpstæki yfir morgunverðarsalnum, sem heyrðist nokkuð hátt í, og þar voru enn fréttir um Paris Hilton og svo hafnarbolta. Ég leit í kringum mig, og töluvert af fólki var að ræða saman, en með annað augað á sjónvarpstækinu. Sjónvarpsmenningin er gríðarlega öflug hérna leyfi ég mér að fullyrða, en maður er hvergi laus frá áreitinu, nema kannski þegar maður situr inni í bíl. Flestir veitingastaðir eru með stór sjónvörp í gangi, líka stórverslanir eins og Wal-Mart, og aðrar. Ég er bara að átta mig á hvað þetta er gífurlega magnað og truflandi áreiti.

Í kennslufræði lærir maður mikið um að það mikilvægasta af öllu er að börn hafi góðar fyrirmyndir, því þarf kennarinn ekki aðeins að vera góð manneskja og fín fyrirmynd, heldur nánast fullkomin að öllu leyti, þ.e.a.s. í samræmi við eigin trú. En nú þegar fyrirmyndir í fjölmiðlum eru ekkert endilega góðar, eins og t.d. Paris Hilton og Árni Johnsen - sem hafa brotið alvarlega af sér en fá samt mikla athygli og viðurkenningu frá samfélaginu, - eru þetta fyrirmyndir sem fólk mun fylgja ósjálfrátt um ókomna framtíð? Getur verið að slæmt fordæmi sé virkilega hættulegt samfélaginu, eins og Hugo Chavez, forseti Venezúela vill meina og framkvæmir með því að loka á sjónvarpsstöðvar sem sýna rusl?

Þegar ég lærði kennslufræði í Mexíkó, þá var okkur innprentað nokkuð ólíkt því sem ég lærði í sömu fræðum í Bandaríkjunum og á Íslandi. Ég hef lítið orðið var við umræðu um mikilvægi fyrirmynda á Íslandi, en í bandaríska náminu var kjarninn í fræðunum tengdur "role-models", kennari skyldi haga sér í samræmi við hvernig hann vænti nemendur til að haga sér; ef kennari þættist yfir nemendur hafinn, þá myndu sumir nemendur taka þetta sem fyrirmynd og þykjast yfir aðra nemendur hafnir; sem gæti verið upphafið að eineltishringamyndun. Þess vegna var mikilvægt að kennari velti fyrir sér hvaða eiginleika hann vildi sjá í nemendum sínum, og einbeita sér að því að sýna þessa eiginleika sjálfur. Þeir eiginleikar sem ég vil sjá í mínum nemendum eru umburðarlyndi gagnvart öðrum, hugrekki til tjáningar, það góð hlustun að maður er tilbúinn að setja sig í skó annarra, og þjónustulund gagnvart þeim sem eiga erfiðara með að skilja, og viðurkenning til þeirra sem eru reiðubúnir að vera leiðtogar og leiða aðra í hópnum til skilnings um málefnin. Þetta hefur reynst gríðarlega vel í minni kennslu og fátt er skemmtilegra en þegar hópur nær loks saman. 

Jæja, en hvað um það, ég má ekki gleyma mér og því sem ég ætlaði að segja um kennslufræðinámið í Mexíkó. Þar kenndi ég við kaþólskan framhaldsskóla sem stjórnað var af Herdeild Krists, eða The Legion of Christ, sem er hægrihópur innan kaþólsku kirkjunnar. Þar var okkur bent á að ætlast var ekki aðeins til að við værum góðar fyrirmyndir, heldur þurfti hver kennari að vera ímynd Krists, og ekki bara Krists þegar hann hélt fjallræður, heldur líka Krists þegar hann hafði verið krossfestur.  Því var sú kennsla erfið og helvíti líkust, því ég verð að viðurkenna - oft leið mér þar í skólastofunni eins og Kristi á krossinum, en gat klórað mér út úr erfiðustu augnablikunum með því að hugsa til besta lags kvikmyndasögunnar: "Always Look on the Bright Side of Life".

Ég þykist ekki vera fullkominn eða fær til að setja mig í spor sjálfs Jesús Krists, en skil hins vegar mikilvægi þess að hafa góðar fyrirmyndir í þjóðfélaginu. Því miður held ég að kennarar séu að tapa stríðinu um fyrirmyndirnar. Kennarar eru ekki virtir sem fyrirmyndir í dag á Íslandi, né annars staðar á vesturlöndum, a.m.k. ekki á grunnskólastigi, og fyrirmyndirnar í samfélaginu eru til þess gerðar að ungt fólk án góðrar kjölfestu (með góða fjölskyldu á bakvið sig) verður bara ennþá týndara. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Velkominn til Minnesota, The North Star State!   Vona að þú sjáir eitthvað fleira hérna en Mall of America    Sé að þú ert movie buff... mæli með að þú kíkir í Lagoon Cinema eða Uptown Theater ef þú hefur tíma.  Veit ekki hvað þeir eru að sýna núna en yfirleitt bjóða þeir uppá áhugaverðar Independent myndir sem sumar fá ekki dreifingu í mainstream kvikmyndahúsum.

Kveðja úr sveitinni

Róbert Björnsson, 10.6.2007 kl. 07:46

2 identicon

Paris Hilton er mjög sérstök þekkt persóna. Hún er ekki fræg fyrir neitt nema að vera fræg. En spurning númer 6. þá hafði henni verið gefinn séns og henni var stungið í steininn því hún gerði þetta aftur. Getur verið að ég sé að fara með rangt mál en...

Er mjög svo sammála þér um hlé í bíó á Íslandi. Hérna í danaveldi eru engin hlé líkt og í America.

En njóttu "frísins" og ég bið að heilsa kananum.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 15:00

3 identicon

heyrdu, datt í hug lista sem þú gætir sett saman sem gæti orðið svolítið skemmtilegur. "Bestu"/"flottustu" bíómyndar "quote-in".

Finnst svo gaman af þessum listum þínum, en þetta er bara hugmynd

kv. Oddur Ingi

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 19:59

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Róbert: ég kíki á bíóið sjálfsagt þarnæstu helgi. 

Oddur Ingi: Já, þú segir nokkuð. Það væri gaman að finna bestu bíómyndatilvísanirnar, þar sem að "Where we are going, you talkin' to me, you talkin' to me, we need no roads."

Hrannar Baldursson, 13.6.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband