Færsluflokkur: Kvikmyndir
No Country for Old Men (2007) ****
10.2.2008 | 10:59
Lögreglustjóri í Texas, Ed Tom Bell (Tommy Lee Jones), fær inn á borð til sín ljótt mál, þar sem fíkniefnasmygl og fjöldamorð koma við sögu. Hann kemst að því að fyrrum hermaður úr Víetnam stríðinu, Llewelyn Moss (Josh Brolin), hefur fundið nokkrar milljónir dollara eftir að allir sem komu að fíkniefnasölunni drápu hvern annan. Ed Tom hefur einnig komist að því að leigumorðinginn Anton Chigurh (Javier Bardem), auk mexíkóskrar mafíu er á eftir Moss, og að þeir munu ekki stoppa fyrr en peningurinn er kominn í þeirra hendur.
Þó að hægt sé að fullyrða að Ed Tom Bell sé í raun aðalsögupersóna No Country for Old Men, þar sem að hann virðist vera sá eini sem lærir eitthvað af öllum ósköpunum, þá fylgir frásögnin fyrst og fremst Llewelyn Moss og flótta hans undan hinum snartruflaða morðingja, Chigurh.
Llewelyn Moss er einn á veiðum þegar hann slysast til að finna leifarnar af miklu blóðbaði og tvær milljónir dollara. Hann finnur einn mann á lífi sem biður um vatnsopa. Eftir að hann finnur peninginn, fer hann heim og felur hann. Um miðja nótt man hann síðan eftir manninum sem bað um vatnssopann og fer aftur á staðinn þar sem blóðbaðið átti sér stað. Hann kemur að manninum dauðum, og ljóst er að setið er fyrir honum. Þar með hefst flótti hans. Honum tekst að senda eiginkonu sína, Carla Jean Moss (Kelly Macdonald) í burtu, og ætlar að losa sig við alla þá sem eru á eftir honum.
Á milli Llewelyn Moss og Antons Chigurh, sem drepur nánast allt sem vogar sér að anda í návist hans, er mexíkóska mafían - og fá þeir heldur betur að finna fyrir að ekki er gott að lenda í þessum blessaða Chigurh. Mafíuforinginn (Stephen Root) fær leigumorðingjann Carson Wells (Woody Harrelson) til að leita uppi Chigurh og drepa hann, en Chigurh er ekki bara geðveikur, hann er líka snjall og kann að ná stjórn á nánast hvaða aðstæðum sem er.
Á meðan allt þetta gengur yfir kemst Ed Tom nær sannleika málsins, - og þegar hann kemst að því hvílíkur óhugnaður er í gangi fallast honum hendur, og hann verður að endurmeta allt sitt líf og tilgang þess að starfa sem lögreglumaður í heimi þar sem fólki virðist standa algjörlega á sama um siðferði og lög.
No Country for Old Men fjallar í raun um það sem breytist í samfélaginu og það sem er varanlegt. Svo virðist sem að geðveikin, óheilindin og morðin séu varanleg, en að fólkið eldist og kemur að því að það áttir sig á að það ræður ekki lengur við þessa bilun. Hinir ungu telja sig hins vegar ráða við hana, hvort sem þeir gera það eða ekki. Og þeir biluðu kæra sig kollótta og halda bara áfram í sínum klikkaða heimi að gera klikkaða hluti. Fórnarlömbin eru hins vegar bara á röngum stað og á röngum tíma, hending ein virðist ráða hvort að þau lifi eða ekki.
Leikstjórnin er frábær, en allir leikararnir standa sig stórvel og þá sérstaklega hinn frábæri Javier Bardem, sem leigumorðinginn ósýnilegi Chigurh (sem enginn kann að bera fram). Ég mæli með spænsku myndinni The Sea Inside (Mar adentro (2004)), þar sem hann sýnir einnig stórleik. Josh Brolin og Tommy Lee Jones eru líka mjög traustir, og ljóst að Brolin (sonur James Brolin) kemur mjög sterkur inn árið 2007 eftir mörg mögur ár í Hollywood, en hann lék í fjórum áberandi kvikmyndum í fyrra: No Country for Old Men, Planet Terror, In the Valley of Elah og American Gangster. Það verður áhugavert að sjá hann í kvikmyndinni Bush, þar sem hann mun leika George W. Bush, en Oliver Stone mun leikstýra henni, en sú mynd kemur út 2009.
No Country for Old Men hefur fengið fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna í ár:
- Besta kvikmyndatakan (Roger Deakins)
- Besta leikstjórn (Ethan Coen og Joel Coen)
- Besta klipping (Ethan Coen og Joel Coen)
- Besta árangur í hljóði (Skip Lievsay, Cragi Berkey, Greg Orloff og Peter F. Kurland)
- Besta árangur í hljóðblöndun (Skip Lievsay)
- Besta kvikmynd ársins (Scott Rudin, Ethan Coen og Joel Coen)
- Besti leikari í aukahlutverki (Javier Bardem)
- Besta handrit byggt á áður útgefnu efni (Joel Coen og Ethan Coen)
Ég er handviss um að Javier Bardem fær Óskarinn fyrir sitt hlutverk, enda mjög eftirminnilegt illmenni þar á ferð. Ég reikna einnig með að Coen bræður fái Óskarinn fyrir bestu leikstjórn, bestu klippingu og besta handritið, - en er í meiri vafa um hvort þeir nái verðlaunum fyrir bestu kvikmynd, en miðað við samkeppnina á ég von á því að þeir taki þetta, enda eru snilldirnar Gone Baby Gone og 3:10 to Yuma ekki tilnefndar sem bestu myndirnar í ár.
Sýnishorn úr No Country for Old Men:
The Man from Earth (2007) ***1/2
9.2.2008 | 21:11
Hefði ég séð þessi mynd áður en ég byrjaði á greinum mínum um 20 bestu vísindaskáldsögurnar, hefði The Man from Earth komist á þann lista. Hún er ein af bestu tímaflakksmyndum sem ég hef séð, þrátt fyrir að hún hafi verið hræódýr í framleiðslu og líti út eins og hún hafi verið tekin upp heima í stofu. Handritið er frábært! Atriðið hér á eftir sýnir þegar John Oldman trúir hóp virtra fræðimanna fyrir því að hann hafi lifað í 14.000 ár:
John Oldman (David Lee Smith) hefur verið háskólaprófessor í 10 ár og ákveður að flytja í burtu. Daginn sem hann ætlar að flytja koma nokkrir kollegar í heimsókn til hans og krefja hann svara um hvers vegna hann ætlar að fara, en Oldman hefur getið sér gott orð sem sögukennari. Oldman segist ætla að flytja í burtu og fá næði til að skrifa vísindaskáldsögu um mann sem hefur lifað í 14.000 ár.
Félögum hans finnst þetta mjög spennandi hugmynd og ræða saman um hvort hún gangi upp. Meðal félaga hans eru kærasta hans, Sandy (Annika Peterson), líffræðingurinn Harry (John Billingsley), biblíufræðingurinn Edith (Ellen Crawford), heimspekingurinn Dan (Tony Todd), sálfræðingurinn Gruber (Richard Riehle), mannfræðingurinn Art (William Katt), og háskólanemandinn Linda (Alexis Thorpe),
Þegar Oldman segir félögum sínum að hann sjálfur sé þessi maður sem lifað hefur í 14.000 ár, þá halda félagar hans fyrst að hann sé orðinn eitthvað ruglaður, eða algjör þrjótur að spila svona með þau. Oldman heldur fast í sína sögu og getur á undraverðan hátt svarað öllum spurningum félaga sinna af hreinskilni og sannfæringu. Sannfæring hans er svo mikil að hópurinn fer að trúa honum, en getur það ekki og gerir því allt sem í þeirra valdi stendur til að afsanna þessar hugmyndir hans.
Þegar í frásögn Oldman kemur fram að hann hafi meðal annars kynnst Búdda, þekkt lærisveina Jesús og farið með Kólumbusi til Ameríku, þá verður félögum hans ofboðið - en þeir eru samt fastir í sögu hans, og sitja með honum langt fram á kvöld til að afsanna hugmyndir hans. Það gengur bara frekar illa.
Handritið að The Man from Earth er hrein snilld. Jerome Bixbie skrifaði það á dánarbeðinu, og var reyndar það veikburða að hann varð að fá son sinn til að skrifa fyrir sig. Þetta handrit er hrein snilld og ótrúlegt að það skuli ekki vera tilnefnt til Óskarsverðlauna fyrir besta handritið í ár.
Reyndar standa leikararnir sig bara í meðallagi, og myndatakan er frekar hugmyndalítil. Það er ljóst að myndin var gerð fyrir mjög lítinn pening, en samt er hún margfalt betri en flestar þær myndir sem maður fær úr draumaverksmiðju Hollywood.
The Man from Earth er um lífið og dauðann, sannleikann, efasemdir og trú, trúarbrögð og trúarbragðaleysi, ódauðleikann og vonina, orsakir og afleiðingar. Ég gat ekki slitið mig frá henni.
Myndir:
Jerome Bixby's The Man from Earth
Sýnishorn:
3:10 to Yuma (2007) ****
6.2.2008 | 19:42
Dan Evans (Christian Bale) er bláfátækur nautgripabóndi sem er við það að fara á hausinn vegna mikilla þurrka. Hann skuldar 200 dollara en getur ekki borgað á réttum tíma. Hollander (Lennie Loftin) lánaði Evans peninginn upphaflega, en hefur meiri áhuga á að eignast land Evans heldur en að fá endurgreitt, því að hann sér fram á að geta stórgrætt á landeigninni þegar lestarteinar verða lagðir yfir svæðið. Hann sendir þrjótinn Tucker (Kevin Durand) til að brenna hlöðu Evans.
Þegar Dan Evans lætur þrjótana ganga yfir sig án þess að gera neitt í málinu, er fjórtán ára sonur hans, William (Logan Lerman) vonsvikinn og sár út í heigulshátt föður síns, og lætur hann pabba sinn heyra það. Stolt Dan Evans, sem misst hefur annan fótinn og hefur fengið örorkustyrk vegna þess, hefur verið illa sært. Honum finnst hann hafa brugðist fjölskyldu sinni.
Þegar Dan og synir hans tveir verða vitni að ráni á hestvagni þar sem fjöldamorðinginn og útlaginn Ben Wade (Russell Crowe) og gengi hans, hefur notað nautgripi Evans til að stoppa vagninn, og Wade tekur af þeim hesta þeirra, verður William enn sárari út í föður sinn en áður, og finnst hann vera mesti heigull í heimi. Dan er aftur á móti skynsamur að taka enga áhættu með syni sína tvo sér við hlið á móti heilu glæpagengi.
Einn lifir af árásina á vagninn, mannaveiðarinn Byron McElroy (Peter Fonda), og fer Dan með hann særðan í næsta bæ. Þegar yfirvöldum tekst að handsama Ben Wade, og Dan eru boðnir 200 dollarar til að fylgja honum að lestinni sem fer næsta dag kl. 3:10 til Yuma, ákveður hann að slá til, - enda hefur hann engu að tapa og til alls að vinna.
Sex manns ákveða að fylgja Ben Wade að lestinni, Dan Evans, mannaveiðarinn McElroy, þrjóturinn Tucker, dýralæknirinn hugdjarfi Doc Potter (Alan Tudyk), auðkýfingurinn Grayson Butterfield (Dallas Roberts) og bóndasonurinn William Evans eltir þá án þeirra vitundar. Þessi hópur á eftir að lenda í miklum ævintýrum á leiðinni að lestinni, en þeir þurfa að kljást við ýmsar hættur á leiðinni, og þá allra verstu gengið hans Ben Wade, sem er rétt á eftir þeim með hinn grimma og trygga Charlie Prince (Ben Foster) í forystu.
Það áhugaverðasta við söguna er hvernig gagnkvæm virðing verður til á milli þeirra Dan Evans og Ben Wade, sem þróast upp í eitthvað allt annað og meira en samband fanga og varðar, eftir því sem að þeir lifa af fleiri hættur og hafa lært meira um hvorn annan.
Christian Bale og Russell Crowe sýna báðir stórgóðan leik, og eru studdir af frábærum leikarahóp þar sem Peter Fonda stendur upp úr, eins og persóna dregin upp úr hvaða Clint Eastwood vestra sem er. Ég skil ekki af hverju 3:10 to Yuma var ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin.
Í lokin kemur í ljós að lestin til Yuma er ekkert endilega lestin sem Dan Evans hefur hugsað sér að koma Ben Wade í, heldur myndhverfing fyrir hina þröngu og beinu leið. Mér fannst frummyndin frá 1957 hörkugóð, en 2007 útgáfan ennþá betri.
Sýnishorn:
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3:10 to Yuma (1957) ****
5.2.2008 | 19:01
3:10 to Yuma (1957) ****
Ben Wade (Glenn Ford) og glæpaflokkur hans ræna gullsendingu frá herra Butterfield (Robert Emhardt) og til að stoppa vagn hans nota þeir nautgripi frá bónda í nágrenninu. Þessi bóndi, Dan Evans (Van Heflin) verður vitni að ráninu ásamt tveimur sonum sínum. Hann situr aðgerðarlaus á hesti sínum og lætur Wade fá sinn eigin hest og sona sinna þegar hann biður um þá. Dan Evans er einfaldlega skynsamur maður sem vill ekki hætta lífi sona sinna við ómögulegar aðstæður.
Yngri sonurinn er hissa á föður sínum að gera ekkert í málunum, og eiginkona hans, Alice Evans (Leora Dana) er undrandi að heyra að hann hafi staðið aðgerðarlaus hjá á meðan glæpur var framinn, gefur honum augnaráð eins og hún sé hissa á honum og þekki hann ekki almennilega. Það er ljóst að stolt hans er sært.
Það hefur verið þurrkur í þrjú ár og nautgripir hans eru að skrælna. Eina leiðin til að þeir geti lifað af er ef þeir fá að drekka úr læk sem rennur um jörð nágrannans. Þessi réttur mun hins vegar kosta hann 200 dollara. Dan fer í bæinn til að biðja um lán. Hann slysast til að vera réttur maður á réttum stað, eða rangur maður á röngum stað, því að hann nær að handsama Ben Wade ásamt bæjarbúum. Þegar hann fær ekki lánið en er boðið 200 dollara til að fara með Wade til lestarstöðvar þar sem lest fer um kl. 15:10 á leið til Yuma, ákveður hann að taka starfið.
Það sem kemur helst á óvart er að glæpamaðurinn Ben Wade er ekki eins og glæpamenn eru flestir. Hann er þægilegur og rólegur í umgengni, greinilega mjög gáfaður og sýnir því sem hann telur hafa gildi mikla virðingu. Herra Butterfield og bæjarróninn Alex Potter (Henry Jones) fara með þeim að lestinni.
Eftir að komið er inn á hótel þar sem þeir Wade og Evans bíða lengi inni á hótelherbergi, ræða þeir saman, og virðing Wade fyrir Evans fer dýpkandi. Þegar ræningjahópur Wade kemur í bæinn og Evans stendur einn eftir, þarf Evans að taka ákvörðun. Honum eru boðnir gull og grænir skógar fyrir að sleppa glæpamanninum, en stolt hans hefur verið sært og til eru hlutir mikilvægari en peningar og jafnvel lífið sjálft. Þetta er nokkuð sem Wade skilur og ber nú mikla virðingu fyrir heilindum bóndans, og nú stendur hann í þeim vanda að koma fangaverði sínum lifandi í gegnum hans eigin ræningjahóp á leið þeirra að lestinni til Yuma kl. 15:10.
3:10 to Yuma er hörkuspennandi og vel leikinn vestri. Ég hef ekki séð nýju útgáfuna frá 2007, get varla beðið eftir að hún komi út á DVD, þar sem að hún fær hörkudóma líka. Handritið er líka vel skrifað, eftir smásögu Elmore Leonard.
3:10 to Yuma fjallar um virðingu, heiður, vináttu, traust, bræðralag og hugrekki á mjög spennandi hátt. Ég hef lengi haft mikið dálæti af vestrum þar sem hetjurnar klóra sig í gegnum stanslausa erfiðleika og lifa það stundum af, en stundum ekki. Ég mæli afdráttarlaust með þessari útgáfu af 3:10 to Yuma.
Sýnishorn:
Ned Kelly (2003) ***
4.2.2008 | 02:37
Ned Kelly (Heath Ledger) er bóndasonur í Ástralíu af írskum uppruna. Hann er handtekinn fyrir að stela hesti sem hann stal ekki, og fyrir að lemja lögreglumann sem skaut að honum af engu tilefni. Fyrir þetta þarf Kelly að dúsa þrjú ár í fangelsi.
Þegar hann sleppur út taka á móti honum besti vinur hans, Joseph Byrne (Orlando Bloom) og bróðir (Dan Kelly). Þeir félagar hefja hrossarækt sem gengur ljómandi vel. Ned kemst í kynni við gifta konu, Julia Cook (Naomi Watts) og fljúga neistar og fleira milli þeirra. Þegar Ned er ásakaður fyrir að hafa skotið á lögregluþjón þarf hann að leggja á flótta. Þar sem að ásökunin er hreinn uppspuni reikna þeir félagar með að málinu verði lokið á fáeinum dögum.
En lögreglan handsamar móður Ned og stingur henni í steinnin þar sem hún fær að dúsa í nokkur ár. Lögreglumenn ráðast að Ned og félögum hans, og í sjálfsvörn drepa þeir þrjá þeirra. Þetta verður til þess að safnað er saman heilum her lögregluþjóna til að hafa uppi á þeim félögum.
Þar sem að Kelly og félögum hefur verið stuggað út í horn, ræna þeir banka og koma peningunum til fjölskyldna sem hafa verið beittar órétti af lögreglunni og segja sína sögu öllum þeim sem vilja heyra. Þeir öðlast fádæma vinsældir. Enda minna þeir töluvert á Hróa Hött og félaga.
Fyrir her lögreglumannanna fer Francis Hare (Geoffrey Rush) sem heitir því að gera allt sem í hans valdi stendur til að drepa þessa harðsvíruðu útlaga.
Hinn nýlátni Heath Ledger sýnir stórgóðan leik í túlkun sinni á Ned Kelly, ástralskri þjóðsögu sem hefur verið gert skil af fjölmörgum öðrum leikurum, meðal annars af Mick Jagger úr Rolling Stones árið 1970 og í grínmynd með Yahoo Serious árið 1993.
Þó að persónusköpun annarra en Ned Kelly sé frekar yfirborðskennd, tekst vel að búa til kvikmynd sem minnir helst á Braveheart af öllum myndum, enda eru þemun ekki ólík. Ég viðurkenni fúslega að það vantar töluvert upp í að Ned Kelly teljist klassísk mynd, en Ledger er fantagóður.
Kvikmyndir | Breytt 5.2.2008 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
TMNT (Teenage Mutant Ninja Turtles) 2007 *1/2
2.2.2008 | 21:32
Stökkbreyttu unglinganinjaskjaldbökurnar birtast loks aftur á tjaldinu eftir langa fjarveru. Skjaldbökurnar hafa elst lítið eitt frá því að síðasta mynd í bálknum kom út árið 1993 (Teenage Mutant Ninja Turtles III). Þær hefðu mín vegna mátt hvíla nokkra áratugi í viðbót og birtast sem stökkbreyttar risaskjaldbökur, sem flúið hafa holræsin af því þær eru orðnar alltof feitar eftir endalaust flatbökuát. Myndi sú mynd fjalla um hvernig þeim gengi að komast inn á elliheimili, en vandinn væri sá að þær væru svo kalkaðar að þeim tækist ekki að muna neitt lengur en fimm mínútur í einu. En þetta er ekki svoleiðis mynd.
Fjórar táningsskjaldbökur sem þjálfaðar hafa verið að rottunni Splinter (Mako) til bardagalista ná ekki lengur saman sem liðsheild. Þegar hinn 3000 ára gamli auðkýfingur og forn stríðskóngur undir álögum, Winters (Patrick Stewart) ákveður að ná saman sínum gömlu vinum, sem eru í álögum, til þess eins að stoppa sína eigin alltof langa ævi, þýðir það að 13 skrímsli ráðast á New York borg og gömlu vinir Winters snúast gegn honum, en nú eru þeir úr steini og þykjast sjá að Winters ætli að stoppa ódauðleika þeirra.
Skjaldbökurnar blandast inn í málin og taka að sjálfsögðu þátt í að leysa það sem ein liðsheild og með því eina sem dugar á skrímsli, ofbeldi og meira ofbeldi. Annars vil ég sem minnst skrifa um þessa mynd. Ég hafði á tilfinningunni að höfundar hefðu ekkert að segja og sagan eftir því. Aftur á móti eru þrívíddarteikningarnar afar flottar, og öll tæknivinna til fyrirmyndar. Það er bara ekki nóg, að minnsta kosti ekki fyrir mig.
Kannski er ég bara orðinn alltof gamall fyrir svona vitleysu, - en samt ekki, því ég gaf skjaldbökunum séns. Málið er að þessi mynd er í rauninni hvorki fyrir börn né unglinga, því að sagan er of barnaleg fyrir unglinga og of ofbeldisfull fyrir börn, nema þau sem við viljum heilaþvo og telja trú um að ofbeldi sé svalt, og þar af leiðandi einelti ekkert annað en aumingjavæl. TMNT er svo sannarlega ekki heldur fyrir fullorðna sem eru með einhverjar virkar heilasellur á milli eyrnanna.
Þema myndarinnar er mikilvægi fjölskyldu og vina og hversu vonlaust er að vera til í heimi þar sem vinir manns og fjölskylda geta ekki verið vinir.
Sýnishorn:
Kvikmyndir | Breytt 3.2.2008 kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 10. sæti: Abre los Ojos
30.1.2008 | 21:33
Niðurtalningin heldur áfram. Í athugasemdum hefur verið hneykslast svolítið á því að Blade Runner skuli ekki komast hærra á blað hjá mér. Vissulega tel ég þá kvikmynd góða, og samþykki að um tímamótaverk sé að ræða sem umbylti vísindaskáldsögum á hvíta tjaldinu. Hún er samt ekki nógu skemmtileg til að komast inn á topp 10 hjá mér.
Næsta mynd er mögnuð pæling um veruleikann, sannleikann, fegurð, gildi lífsins og tímaflakk inn í framtíðina, ein af mínum eftirlætis pælingamyndum og þá sérstaklega vegna þess að það er bráðskemmtilegt að horfa á hana, enda eilífðarhugtökum fléttað inn í rómantíska sögu þar sem morð, kynlíf og svik spila stóra rullu.
Abre los Ojos er sérstaklega ætluð þeim sem eru svolítið spilltir og hafa verið duglegir að stinga aðra í bakið, en aðalandhetja myndarinnar er einmitt slík týpa. Opnaðu augun gæti alveg eins verið nútímasaga úr Reykjavík.
Sjálfselski glaumgosinn César (Educardo Noriega) heldur fjölmenna afmælisveislu. Meðal gesta er besti vinur hans, Pelayo (Fele Martinéz), sem kemur með kærustu sína, Soffíu (Penélope Cruz). César verður strax hrifinn af henni og grípur tækifærið þegar vinur lítur undan og fylgir stúlkunni heim. Þau eyða nóttinni saman.
Næsta morgun þegar César er á heimleið keyrir Nuria (Najwa Nimmi) upp að honum og býður honum far. Hann sest upp í hjá henni. Hún keyrir vísvitandi útaf veginum á ofsahraða, drepur sjálfa sig en César lifir af. Þegar César uppgötvar að andlit hans hefur eyðilagst í slysinu, og læknar geta ekkert gert, leiðist hann út í hreina örvæntingu.
Hann trúir ekki að nokkrum geti líkað við mann með afmyndað andlit. Hann trúir ekki að Soffía geti elskað hann og efast um vináttu Pelayo. César ákveður að láta frysta sig þar til tækninni hefur farið það mikið fram að hægt verði að laga andlit hans.
Þessa sögu segir César sjálfur, hulinn sviplausri grímu, í viðtali við sálfræðinginn Antonio (Chete Lera), læstur í fangaklefa, ákærður fyrir morð. Eftir dáleiðslutíma fer César að gruna veruleikann vera annan en það sem hann upplifir. Hann grunar að hann sé hvorki staddur í veruleikanum né draumi; heldur martröð og sjálfskaparvíti sem hann verður að sleppa úr.
Eftir því sem að César er sannfærðari um að lifa í draumaveröld, fyllist sálfræðingurinn Antonio efasemdum um hvort að hann sjálfur sé raunverulegur. Þeir verða að komast að sannleikanum.
Abre los Ojos er spænsk mynd, leikstýrð af Alejandro Amenábar, sem meðal annars hefur einnig gert hinar stórgóðu The Sea Inside og The Others. Abre los Ojos var endurgerð af Cameron Crowe undir nafninu Vanilla Sky með Tom Cruise í aðalhlutverki. Þrátt fyrir góða takta, er endurgerðin langt frá því að vera jafngóð frumgerðinni, sérstaklega þar sem að leikur Eduardo Noriega er óviðjafnanlegur.
Abre los Ojos fjallar um hugtök og spurningar um fegurð, sannleika, þekkingu og framhaldslíf, sem hverjum og einum er hollt að hugsa um.
10. sæti: Abre los Ojos
11. sæti: The Thing
12. sæti: Brazil
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial
14. sæti: Back to the Future
15. sæti: Serenity
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Guillermo Del Toro leikstýrir The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien
28.1.2008 | 20:41
Eins og flestir vita er The Hobbit forsaga The Lord of the Rings, sem Peter Jackson leikstýrði við fádæma undirtektir. Þar sem að Peter Jackson er fastur í öðrum stórverkefnum, meðal annars leikstjórn og framleiðslu á Tinna, ásamt Steven Spielberg, hefur Jackson samþykkt að vera framkvæmdastjóri verkefnisins (executive producer ef ég skil það hlutverk rétt).
Ég man þegar fyrst var tilkynnt að Peter Jackson myndi leikstýra The Lord of the Rings, þá tók hjarta mitt kipp, enda þekkti ég hans eldri myndir og vissi að hann smellpassaði sem leikstjóri. Ég skrifaði meira að segja ritgerð um þetta val á writtenbyme.com, þar sem ég skrifaði greinar í nokkur ár. Þar voru margir í vafa um hvort ég hefði rétt fyrir mér. Eflaust eiga einhverjir eftir að efast um del Toro fyrir The Hobbit, en ekki ég.
Verið er að ræða við mexíkóska leikstjórann Guillermo del Toro um að leikstýra The Hobbit, og verður hún þá gefin út í tveimur hlutum sem teknir verða upp samtímis. Að mínu mati er þetta einfaldlega frábært val á leikstjóra, enda hefur del Toro sýnt frábært vald á sögum sem krefjast einhvers myrkurs og húmors samtímis. Allar myndir hans hafa þó ekki slegið í gegn, og þar á meðal Hellboy, sem samt á sína góðu spretti, og Blade II. Aftur á móti gerði hann hinar stórkostlegu dramahrollvekju El Espinazo del Diablo (Mæna Djöfulsins) og hina frábæru El Laberinto del Fauno (Völundarhús Pans). Ég hef lesið The Lord of the Rings á tíu ára fresti síðan ég var sextán ára gamall, og The Hobbit oftar.
The Hobbit fjallar um ævintýri Bilbo Baggins, gamla frænda Frodo. Galdrakarlinn Gandálfur býður þrettán dvergum í heimsókn til Bilbós, en þeir þurfa að fá hann með sem þjóf í leit að fjársjóði sem varinn er af drekanum Smaug. Bilbo er ekkert sérstaklega hrifinn af ævintýrum, og er meira fyrir að sötra te, en hann lætur sig hafa það og slæst með í hópinn. Áður en hann veit af er hann farinn að berjast við risakóngulær, tröll, orka og úlfa, Gollúm og drekann ógurlega klóka, auk þess að hann þarf að takast á við óvænt vandamál í eigin hóp. Endar bókin á eftirminnilegu stríði á milli fimm herja.
Nú getur maður farið að hlakka til.
Teikningarnar eru eftir Alan Lee, af vefsetrinu TheOneRingNet
Kvikmyndir | Breytt 29.1.2008 kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
The Thing from Another World (1951) **1/2
27.1.2008 | 22:05
Hópur hermanna úr bandaríska flughernum er sendur á rannsóknarstöð á Norðurpólnum þar sem vísindamenn urðu varir við fljúgandi furðuhlut. Stór hópur fer með herflugvél að svæðinu þar sem hluturinn lenti, og í ljós kemur að þetta er disklaga skip utan úr geimnum. Það hefur gefið frá sér mikinn hita, sokkið í ísinn sem fraus aftur saman. Ákveðið er að losa skipið með hitasprengjum, en það fer ekki betur en svo að þeir sprengja geimskipið í tætlur. Þegar þeir skoða svæðið finna þeir geimveru frosna undir yfirborði klakans, höggva bút úr ísnum og taka með heim í búðirnar.
Ákveðið er að geima veruna frosna, þrátt fyrir mótmæli vísindamanna, sem vilja rannsaka hana og vekja til lífsins. Einn af vörðunum yfir klakanum er svo gáfaður að leggja hitateppi sem er í sambandi ofan á ísinn, þannig að hann bráðnar, og veran losnar.
Fljótt kemur í ljós að þessi vera er langt frá því að vera vinsamleg. Hún ræðst á sleðahunda og drekkur úr þeim allt blóð. Það sama gerir hún við vísindamenn sem hún nær í. Hópurinn sér að nauðsynlegt er að drepa geimveruna, áður en hún næði að drepa þá og drekka úr þeim allt blóð. Vísindamaðurinn Dr. Carrington (Robert Cornthwaite) vill allt gera til að vernda geimveruna, en flugmaðurinn Patrick Hendry (Kenneth Tobey) vill hins vegar drepa hana sem allra fyrst.
Því miður er persónusköpun fyrir neðan allar hellur, fyrir utan kannski vísindamanninn Dr. Carrington, en samt er hann frekar klisjukennd flatneskja, en ekkert í samanburði við alla hina, sem eru eins og klipptir út úr klisjumetbók Guinnes. Það er lítið mál að fyrirgefa úreltar tæknibrellur, en staðnaðan og stirðan leik er erfiðara að fyrirgefa. Geimskrímslið er samt skemmtilega ógnvekjandi og það eru til nokkur atriði sem fá mann til að bregða.
Ég er viss um að The Thing from Another World hafi þótt frábær á sínum tíma, en hún hefur einfaldlega ekki elst vel, annað en hægt er að segja um endurgerð hennar frá 1982, The Thing, í leikstjórn John Carpenter. Maður sér bara betur hvílíkt þrekvirki John Carpenter hefur unnið með því að endurskrifa söguna frá grunni og skapa eftirminnilegar persónur sem erfitt er að gleyma.
Á meðan The Thing frá 1982 fjallaði um tortryggni og það hvernig samskipti og traust manna molna við erfiðar aðstæður, er 1951 útgáfan mun bjartsýnni á megn mannsins til að ráða við hverja þá ógn sem skotist getur upp á yfirborðið. Þó að ég sé frekar bjartsýnn maður, þá er ég hrifnari af raunsæju og jafnvel bölsýni John Carpenter, enda varð eitthvað til í því ferli sem er erfitt að gleyma.
Sýnishorn:
Eastern Promises (2007) ***1/2
27.1.2008 | 00:38
Nikolai (Viggo Mortensen) er bílstjóri og útfararstjóri, eða með öðrum orðum hreingerningarmaður rússnesku mafíunnar í London. Hann starfar fyrir hinn óreglusama Kirill (Vincent Cassel) son mafíuforingjans.Semyon (Armin Mueller-Stahl). Kirill lætur myrða vin sinn án samráðs við föður sinn, en þessi vinur hans hafði verið að halda því fram að Kirill væri samkynhneigð fyllibytta. Nikolai þarf að hreinsa upp sönnunargögnin eftir morðið.
Annars staðar í borginni deyr unglingsstúlka af barnförum á sjúkrahúsi. Hún skilur eftir sig dóttur og dagbók, sem ljósmóðirin Anna (Naomi Watts) tekur með sér heim. Þar sem að bókin er á rússnesku fær hún frænda sinn til að þýða hana fyrir sig. Hún finnur nafnspjald í bókinni sem leiðir hana á heimili mafíuforingjans, og fljótlega veit hann um bókina og að frændi hennar er að lesa hana. Í bókinni segir unglingsstúlkan frá því hvernig Semyon hafði nauðgað henni og haldið henni nauðugri og dópað upp með heróíni.
Semyon fær Nikolai til að þagga niður í Önnu og fjölskyldu hennar, en málið er ekki það einfalt, því að Nikolai ber virðingu og hugsanlega einhverjar tilfinningar til Önnu, en á sama tíma komast bræður mannsins sem Kirill lét myrða, að því hverjir sökudólgarnir eru. Semyon vill að sjálfsögðu ekki láta drepa son sinn, og gefur því Nikolai það verkefni að deyja í stað sonar síns, án þess náttúrulega að segja Nikolai frá því. En Nikolai hefur meira til brunns að bera en nokkurn grunar, og hefur aðeins meiri metnað en að vera bílstjóri og útfararstjóri mafíuforingja.
Eastern Promises er meistaraleg söguflétta frá David Cronenberg sem borgar sig ekki að útskýra um of. Hún er uppfull af trúarlegum tilvísunum, og þá sérstaklega í húðflúrum þeim sem Nikolai hefur um líkamann allan. Yfir brjóstkassann er húðflúraður kross, og hegðun hans og viðmót gefa alls ekki til kynna að hann sé harðsvíraður glæpamaður. Hann er nær því að vera heilagur maður eða munkur, sem þarf að gera hræðilega hluti til að ná markmið sem bæta skal heiminn. Hann er maður sem fórnar sér fyrir málstaðinn.
Ef einhvern veikan hlekk er að finna í Eastern Promises, þá myndi ég helst benda á óvenju slakan leik Naomi Watts. Hún les sig einfaldlega í gegnum hlutverkið og myndina, á meðan þeir Vincent Cassel og Viggo Mortensen gefa sig alla og Viggo jafnvel meira en það til að gera hlutverki sínu almennileg skil.
Eastern Promises situr í mér og hvetur mig til umhugsunar um siðferði og fórnir sem sumir einstaklingar færa til að bæta samfélagið á einhvern hátt. Og mér verður hugsað til þess hvernig gott siðferði og fórnir fyrir betri heimi virðast verið orðin hugtök alltof fjarlæg fólki sem er sokkið í líf sem snýst um fátt annað en að eignast sem mest af hlutum og þægilegri aðstöðu en allir hinir. Við búum í skrítnum heimi, og fáum áhugaverða áminningu í þessari mynd um það hvernig fer þegar venjulegt fólk lendir í hringiðu hinnar eilífu baráttu hins góða og illa.
Sýnishorn: