Færsluflokkur: Kvikmyndir

Stórleikari fallinn: Heath Ledger (1979-2008)

Þeir segja að þegar fræga fólkið deyr, þá eru það alltaf þrír í einu. Vonandi er það ósatt. Robert J. Fischer dó í síðustu viku, og Heath Ledger í gær.

Heath Ledger var með betri leikurum í Hollywood og var honum spáð miklum frama með hans næstu mynd, framhaldsmyndinni af Batman Begins (2005), The Dark Knight (2008). Það var búið að taka hana upp, þannig að hún verður líklegast tileinkuð minningu Heath Ledger þegar hún kemur í bíó næsta sumar.  Ledger var tilnefndur til óskarsverðlauna árið 2005 fyrir leik sinn í Brokeback Mountain. Einnig þótti hann þrælgóður í myndinni um Bob Dylan, I'm Not There.

Síðasta mynd sem ég sá með Ledger var The Brothers Grimm (2005) sem mér fannst afar góð. Annars ætla ég að setja inn sýnishorn úr þeim myndum sem ég hef séð eftir hann.

The Patriot (2000)

Leikur elsta son Mel Gibson, sem berst fyrir frelsi gegn Englendingum í bandarísku byltingunni árið 1776. Eftirminnilegastur allra í þeirri kvikmynd - stal senunni af Gibson sjálfum.  

A Knight's Tale (2001)

 

 

Leikur bóndason sem vill gerast riddari. Eftirminnileg gamanmynd um miðaldariddara þar sem tónlist Queen virðist lifa á meðal fólksins. 

Monster's Ball (2001)

Leikur ungan mann í sjálfsvígshugleiðingum. Þetta er myndin þar sem Halle Berry fékk óskarinn.  

The Four Feathers (2002)

Leikur breskan hermann árið 1884 sem talinn er heigull fyrir að hætta í hernum. Fyrir vikið tapar hann ástum kærustu sinnar, en ákveður að sanna hugrekki sitt með því að fara dulbúinn í stríð ásamt vinum sínum.

The Brothers Grimm (2005)

Leikur annan Grimmsbræðra, þann sem lifir í heimi ímyndunaraflsins þar sem allt getur gerst. 

Brokeback Mountain (2005)

Leikur kúrekastrák sem verður ástfanginn af öðrum kúrekastrák, giftist síðan konu en heldur síðar framhjá henni með kúrekastráknum. 

 

Og fljótlega:

The Dark Knight(2008)

Leikur The Joker, hrikalega geðveikan glæpamann sem er höfuðóvinur ofurhetjunnar Batman. 

 

Blessuð sé minning þessa fína leikara.

 

Takk fyrir skemmtunina. 


mbl.is Heath Ledger látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 11. sæti: The Thing

Þá er ég búinn að telja niður úr 20. sæti niður í það 11. fyrir þær vísindaskáldsögur sem mér finnst skemmtilegastar. Í ellefta sæti lendir hrollvekjan og vísindatryllirinn The Thing, sem leynir ansi skemmtilega á sér. Helsti styrkleikur myndarinnar er dúndurgóður leikhópur, drungalegt andrúmsloft og geimveru sem líkist engu sem sést hefur á tjaldinu, fyrr eða síðar. 

The Thing (1982) **** 

Á Suðurpólnum hleypur hundur yfir snjóinn á flótta undan byssukúlum frá norskri þyrlu. Hann nálgast bandaríska rannsóknarstöð, þar sem tólf manns dvelja yfir veturinn. Þyrluflugmaðurinn og skotmaðurinn eru drepnir, og hundurinn kemst inn í búðirnar. Hópur manna fer í skoðunarferð að norsku rannsóknarstofunni og kemur að rústum einum. Þeir finna einnig lík í undarlegu ástandi. Þeir taka það með sér til frekari rannsókna.

Í ljós kemur að í hundinum faldi sig geimvera sem getur tekið á sig hvaða lifandi form sem er. Hver einasti blóðdrepi verunnar er sjálfstæð heild sem getur tekið yfir líkama manneskju eða dýra. Eftir að veran drepur flesta hunda stöðvarinnar, vaknar sá grunur meðal manna að einhver þeirra gæti verið smitaður.

Þyrluflugmaðurinn R.J. MacReady (Kurt Russell) gerist leiðtogi hópsins eftir að hann áttar sig á vandamálinu. Hann fer í annan leiðangur að norsku stöðinni og finnur fornt hringlaga geimskip frosið í jörðinni, og ummerki um að lífvera hefur frosið rétt fyrir utan geimskipið og verið flutt í norsku stöðina. Innan skamms byrjar geimskrímslið að drepa mennina, einn af öðrum, en mennirnir leita örvæntingarfullir leiða til að afmá veruna af yfirborði jarðar og komast að því hvort að einhver á meðal þeirra sé þessi hlutur.

The Thing er sérstaklega vel heppnaður vísindatryllir. Leikhópnum tekst að skapa stemmingu þar sem maður hefur á tilfinningunni að allar persónurnar gjörþekkist og hafi verið saman nokkuð lengi á þessum einangraða stað.

Meðal eftirminnilegra persóna eru hundatemjarinn Clark (Richard Masur), sem virðist meta líf hunda meira en manna, stöðvarstjórinn Garry (Donald Moffat) sem skýtur fyrst og hugsar svo, jarðfræðingurinn Norris (Charles Hallahan) sem fer í óvænta, óhugnanlega en jafnframt svolítið skondna hinstu för, vélstjórinn Childs (Keith David) sem reynist harður í horn að taka, líffræðingurinn Blair (A. Wilford Brimley) sem er fyrstur til að uppgötva hvað geimverunni gengur til, læknirinn Copper (Richard Dysart), sem upplifir óhugnanlegt augnablik þegar hann reynir að bjarga lífi félaga síns með hjartastuðtæki,  og samskiptamaðurinn Fuchs (Joel Polis) sem reynist með seinheppnari mönnum.

Þegar ljóst er að hluturinn utan úr geimnum ætlar sér að drepa þá alla og komast síðan til mannabyggða, er ljóst að fyrir liggur ekkert annað en styrjöld milli þessara 12 manna og hlutarins, en það fækkar hratt í hóp mannanna og líkurnar virðast sífellt minnka og aðstæður fara síversnandi með hverri mínútu.

Maður hefur alltaf á tilfinningunni og trúir því að mennirnir séu staddir í miklum kulda, á Suðurpólnum og við sífellt erfiðari aðstæður.Tæknibrellurnar eru einstakar og oft mjög óhugnanlegar og gróteskar, nokkuð sem hefur ekki verið endurgert. Tónlistin er afar góð, en þar stjórnar sjálfur Ennio Morricone og tónlistin rímar fullkomlega við hinn hráa stíl John Carpenter. Það er þessi stíll sem gerir myndina góða. Maður er sannfærður um að þessir hlutir séu að gerast, persónurnar og aðstæðurnar virka það raunverulegar, og einmitt þess vegna verður skrímslið sjálft trúverðugara.

The Thing elur á þeirri hugmynd að maður veit aldrei fullkomlega hvaða mann næsti einstaklingur hefur að geyma, og hversu erfitt getur verið að treysta öðrum við aðstæður sem gera alla tortryggilega. Hvernig getur maður komist að sannleikanum um næsta mann, hvort að hann sé í eðli sínu góður eða illur? Og þegar við vitum það ekki, hvernig er þá best að lifa í samskiptum við aðra? Er betra að sýna fólki traust, ef okkur grunar einhvern um græsku, eða er betra að hafa varann á og sýna tortryggni gagnvart öllum í hópnum?

The Thing gekk mjög illa í bíó, en kom hún út á svipuðum tíma og E.T. The Extra Terrestrial (1982). Það er eins og fólk hafi fengið nóg af sögum þar sem allir eru hræddir við geimverurnar og fögnuðu einni þar sem geimveran er loks vinaleg. Reyndar grunar mig að The Thing hafi fælt marga frá vegna þess hversu gróteskar tæknibrellurnar eru - það er engin spurning að þær hjálpa myndinni innan hennar söguheims, en gera hana jafnframt enn erfiðari í sölu.

 

Óvenju gott sýnishorn:

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


36 Quai des Orfèvres (Lögreglustöð 36) (2004) ***1/2


Stórtækir ræningjar hafa framið sjö vel heppnuð rán á tæpum tveimur árum. Lögreglustjórinn á Stöð 36 hvetur tvo bestu menn sína til að ná þessum ræningjum áður en hann hættir störfum. Sá sem nær þeim mun verða næsti lögreglustjóri. Þessir tveir lögregluforingjar eru þeir Léo Vrinks (Daniel Auteuil) og Denis Klein (Gerard Depardieu).

Vrinks er hörð lögga sem leggur sig allan fram til að ná glæpamönnunum, hann er vinsæll meðal starfsfélaga sinna og líklegastur til að verða næsti lögreglustjóri. Klein er hins vegar metnaðarfullur og agalaus lögregluforingi sem hugsar um það eitt að ná sem mestum frama.

Vrinks fréttir að uppljóstrarinn Hugo Silien (Roschdy Zem) sé tilbúinn að koma til hans gögnum um ræningjana, en þegar á reynir er Vrinks svikinn á hrikalegan hátt, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð hans innan lögreglunnar. En hann fær upplýsingarnar og nýtir þær til að skipuleggja umsátur um ræningjana. Klein kemst á snoðir um áætlunina og er langt frá því að vera sáttur við að Vrinks fari fyrir árásinni, og í örvæntingu drekkur Klein sig fullan og æðir inn í ræningjahópinn með skammbyssu að vopni, en áttar sig ekki á því að hann er að búa til harmleik þar sem hann leiðir marga af félögum sínum í dauðann.

Ræningjarnir sleppa og ljóst er að hegðun Klein verður rannsökuð, enda er Vrinks fokillur út í hann og vill fá hann rekinn af stöðinni. En þá kemst Klein yfir viðkvæmar upplýsingar um Vrinks, og nýtir sér aðstæðurnar til að rústa starfi, máli, fjölskyldu og frama Vrinks, og jafnframt til að hreinsa orðspor sitt og ná starfi lögreglustjórans. Þegar eiginkona Vrinks, Camille (Valeria Golino), reynir að sanna sakleysi hans fer allt í bál og brand. Ljóst er að Vrinks er beittur órétti og þarf að jafna sakirnar.

Fyrir utan truflandi tónlist í upphafi myndarinnar, er henni vel leikstýrt. Það tekst að magna upp spennu og samúð með aðalhetjunni, og andúð gegn illmenninu. Hinir morðóðu ræningjar eru aukaatriði. Skilin á milli glæpamanna og lögreglumanna verða mjög óljós þegar lögreglumenn fá að gera nánast hvað sem er til að leysa glæpi, jafnvel fremja þá.

Umfram allt fjallar myndin um afleiðingar þess að láta tilganginn helga meðalið, að allt hefur afleiðingar og það illa eða góða sem þú gerir mun koma í hausinn á þér í lokin, annað hvort sem byssukúla eða ljúfur koss.

 

Sýnishorn:


The Brothers Grimm (2005) ***1/2


Í veruleikanum eru Grimms bræður þekktastir fyrir að safna saman þjóðsögum og ævintýrum. Terry Gilliam gerir þeim það sem þeir gerðu samtímamönnum sínum,  semur ævintýri um þá sem fléttir saman mörgum af meginþemum sagnabálks þeirra.

Í upphafi sögunnar er sagt frá tveimur bræðrum. Annar þeirra, Jack, er sendur til að selja kýr og fær fyrir hana nokkrar baunir, sem hann trúir að séu töfrabaunir. Systir hans liggur fyrir dauðanum, og fullur af heift húðskammar bróðir hans honum fyrir heimskuna. Þetta eru Grimms bræður og vissulegar er verið að vísa í Jóa og baunagrasið strax í byrjun.

Bræðurnir vaxa úr grasi og gerast draugabanar. Jacob Grimm (Heath Ledger) er sveimhugi sem dreymir um að hitta fallega prinsessu, upplifa ævintýri með henni og lifa hamingjusamur til æviloka. Bróðir hans, Wilhelm (Matt Damon), er mun praktískari náungi. Hann hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig og að eignast sem mest af peningum. Þeir eru semsagt algjörar andstæður, annar þeirra vill upplifa heiminn en hinn vill eignast hann.

Í fjarlægu héraði hverfa ungar stúlkur sporlaust. Ein þeirra er með rauða hettu og önnur heitir Gréta. 11 stúlkur hafa horfið. Frönsku nýlenduherrum lýst ekkert á að fá upp sögusagnir um dularfulla hluti og vilja útrýma þeim sem allra fyrst. Til þess fá þeir Grimm bræður í verkefnið, nauðuga viljuga. Þeir eru handsamaðir af sadistanum Cavaldi (Peter Stormare) og færðir fyrir hershöfðingjann Delatombe (Jonathan Pryce), en þeir vilja endilega að Grimm bræður leysi þetta leiðindamál, annars fái hausar þeirra að fjúka.

Bræðurnir fá loks að kynnast alvöru ævintýri, þar sem myrkir galdrar eru að verki. Þar sem Wilhelm hefur öll svörin í praktískum svindlum þeirra bræðra, hefur Jack ævintýraþrána og það sem til þarf til að þrífast í heimi galdra og töfrabragða sem lútir allt öðrum lögmálum. Sér til aðstoðar fá þeir Angelika (Lena Headey), dóttur veiðimannsins og verndara skógarins (Tomas Hanak), sem nú hefur breyst í úlf. Göldrunum veldur 500 ára drottning (Monica Bellucci) sem þráir að ekkert sé fegurra en hún sjálf, enda á hún spegil sem lætur allt sem í honum speglast líta glimrandi vel út. Skógurinn þar sem atburðirnir eiga sér stað eru undir álögum hennar; hún hefur varúlf á valdi sínu sem og öll tré skógarins.

Reyndar fékk þessi mynd afar misjafna dóma, og þótti mörgum gagnrýnanda sem að Gilliam væri að fatast flugið. Ég er þeim ekki sammála. Leikarar ofleika rétt eins og þeir gerðu í eldri myndum hans, The Holy Grail, Time Bandits, Baron Munchausen og Brazil. Reyndar finnst mér þemu í The Brothers Grimm vera keimlík þeim sem birtast í flestum mynda Gilliam. Átök eru á milli verulegs og ímyndaðs heims. Persónurnar lifa og hrærast í ólíkum heimum, þar sem draumóramennirnir virðast í fyrstu ekki passa í heildarmyndina, en finna sig síðan við aðstæður sem venjulegt fólk skilur ekki og  finna lausn á vandanum, á þeirra eigin skilmálum.

Þó að The Brothers Grimm sé ofleikin og persónurnar frekar staðlaðar og þunnar, þá er dýpt í frásögninni sjálfri. Sjálf ævintýri Grimms bræðra eru sterkasti karakterinn í sögunni. Hafir þú einhvern tíma lesið þig í gegnum Grimm ævintýri af áfergju, eins og ég hef reyndar gert, er ég viss um að þú finnir hér eitthvað við þitt hæfi.

Ekki má gleyma því að tæknibrellurnar eru stórgóðar og mun betri en nokkuð sem ég hef áður séð í kvikmynd eftir Gilliam. Einhvern veginn tekst honum alltaf að koma mér skemmtilega á óvart.

Sýnishorn:


American Gangster (2007) ****

Frank Lucas (Denzel Washington) kemur frá bláfátækri fjölskyldu sem var borin út úr húsi þegar hann var aðeins fimm ára að aldri. Hann flytur sem unglingur til New York og gerist bílstjóri og aðstoðarmaður helsta mafíuforingjans í Harlem, Ellsworth "Bumpy" Johnson. Þeir vinna undir vökulu auga ítölsku mafíunnar, sem stjórna skipulagðri glæpastarfsemi um alla New York. Lucas lærir öll trikkin í bókinni þau 15 ár sem hann aðstoðar glæpaforingjann, og tekur síðan við af honum daginn sem hann deyr úr hjartaáfalli, árið 1968.

Lucas fær dágóðan arf frá Bumpy og notar hann til að kaupa heróín frá Taílenskum hershöfðingja, og tekst að smygla dópinu með herflutningavélum bandaríska hersins, sem ferðast mikið á milli vegna Víetnam stríðsins. Þegar dópið kemst á göturnar, hreinna en allt annað sem áður hefur birst og helmingi ódýrara, tekur Lucas yfir mestalla dópsölu í borginni. Hann reynir að vera sem minnst áberandi, þrátt fyrir að hann kaupi höll handa móður sinni og fyrirtæki handa bræðrum sínum. Það er ekki fyrr en að hann hefur kynnst Evu (Lymari Nadal) að hann gerir smá mistök. Hann kaupir handa henni dýrindis feld, sem hún biður hann um að nota. Hann fer á hnefaleikakeppni hjá Joe Lewis í þessum skrautlega feld, og þá fyrst taka lögreglumenn eftir honum og byrja að rannsaka.

Þeir sem taka eftir Lucas eru hinn gjörspillti rannsóknarlögreglumaður Trupo (Josh Brolin), sem er svekktur yfir því að hafa ekki fengið neinn pening út úr honum, og hins vegar hinn stálheiðarlegi rannsóknarlögreglumaður Richie Roberts (Russell Crowe), sem er að leita að rótinni að baki nýja og öfluga dópinu sem borist hefur út um allt, - og áttar sig á að Lucas gæti verið eitthvað viðriðinn þetta, þar sem að hann er í rándýrum feldi, situr á fremsta bekk og fær að taka í höndina á sjálfum Joe Lewis, heimsmeistara í hnefaleikum.

Richie Roberts er fráskilinn og lauslátur, en er helst þekktur fyrir það innan lögreglunnar að hafa skilað inn milljón dollara sem hann fann í skotti á bíl. Fyrir að vera svona strangheiðarlegur fær hann ákúrur frá öðrum löggum, sem finnst að hann hefði átt að halda fénu sjálfur. Í ofanálag hætta aðrir lögreglumann að styðja hann þegar hann þarf á hjálp að halda. Yfirmaður hans, Lou Toback (Ted Levine) sér að þetta gengur ekki upp og gefur Roberts stjórn á nýjum rannsóknarhóp í fíkniefnamálum, sem á að finna uppsprettur fíkniefnadreifingar á svæðinu. Roberts velur hóp manna sem hann getur treyst og byrjar rannsóknina. Þegar Lucas gerir þau mistök að múta Roberts til að hætta rannsókninni, áttar Roberts sig á að hann er kominn á sporið.

American Gangster er þrælspennandi glæpadrama þar sem manngerðir þeirra Lucas og Roberts eru í aðalhlutverki. Í ljós kemur að þeir eru ekki ólíkir einstaklingar, báðir fylgja þeir mjög sterkum siðferðilegum viðmiðum, vilja halda uppi röð og reglu, og eru ekki sáttir við óheiðarleika. Munurinn er sá að Lucas gerir allt fyrir fjölskyldu sína og er nokkuð sama þó að hann brjóti lögin til að öðlast það sem fjölskyldu hans vantar, en Roberts lítur hins vegar á allt samfélagið sem sína fjölskyldu og myndi aldrei brjóta lög til að fá sínu fram. Þegar Lucas og Roberts hittast loks tekur sagan óvænta stefnu.

American Gangster fjallar fyrst og fremst um ólíkar myndir heiðarleika og samvisku. Roberts verður óvinsæll vegna eigin heiðarleika þó að hann starfi sem lögreglumaður, en ástæðan er sú að lögreglan er gjörspillt og hefur tapað öllum áttum. Eitt af verkefnum Roberts er að gera lögregluna að heiðarlegu afli, því að án heiðarleika er erfitt að gera greinarmun á góðu og illu, eða réttu og röngu. Samt er Roberts ekkert sérstaklega samviskusamur. Fjölskyldulíf hans er í rúst og hann er langt frá því að vera farsæll og hamingjusamur. Lucas er hins vegar afar samviskusamur gagnvart fjölskyldu sinni og vinum, þó að hann sé óheiðarlegur. Hann er vinsæll í Harlem, enda gefur hann töluvert af sér til samfélagsins.

Enn ein góð mynd úr smiðju Ridley Scott, en hann er án vafa einn bestu lifandi leikstjóra samtímans.

 

Sýnishorn:


The Golden Compass (2007) **1/2

The Golden Compass: hliðstæður veruleiki við okkar þar sem yfirvaldið er við það að ná völdum á frjálsum vilja í öllum mögulegum heimum, og það eina sem getur stoppað það frá því að gerast er lítil stúlka sem hefur í sínum fórum áttavita sem segir sannleikann.

Í veruleika hliðstæðum okkar, eru sálir ekki fangnar í líkama einstaklinga, heldur eru þær í dýralíki og geta talað. Lyra Belacqua (Dakota Blue Richards) er ung stúlka sem fræðimenn telja að sé sá einstaklingur sem komi til með að skera úr um úrslitin í stríðinu mikla á milli þeirra sem ráða öllu og þeirra sem krefjast þess að hafa frjálsan vilja; en ráðamenn þessa heims ætla sér að yfirtaka frjálsan vilja, ekki bara í þessum heimi fantasíunnar, heldur í öllum hliðstæðum heimum.

Lyra kemst að þvi að einn útsendari ríkisveldisins hellir eitri í vín Lord Asriel (Daniel Craig) og tekst að stoppa hann frá því að drekka það. Með því hrindir hún af stað atburðarrás sem verður ekki stöðvuð. Lord Asriel hefur uppgötvað leið til að ferðast milli heima, og ætlar að halda norður á Svalbarða til að skoða málið betur. Hann biður um styrk við háskólann þar sem hann starfar og er studdur af skólanum. Hann leggur af stað í þessa löngu ferð, en á sama tíma býðst erindreki ríkisins, Marisa Coulter (Nicole Kidman) til að taka Lyra að sér. Skólastjóri skólans samþykkir, en áður en Lyra fer, gefur hann henni gullinn áttavita, sem hefur þann eiginleika að hann getur sagt henni sannleikann.

Lyra líkar illa vistin hjá Coulter, og þegar hún kemst að því að hún hefur staðið fyrir barnsránum, strýkur hún úr vistinni. Hún lendir í vist með hópi utangarðsmanna sem koma henni undan á skipi, þar sem hún hittir foringja þeirra. Saman sigla þau til Noregs. Á leiðinni stoppar nornin Serafina Pekkala (Eva Green) á skipinu og rabbar aðeins við Lyra um áttavitann. Þegar komið er til Noregs kynnist Lyra kúrekanum Lee Scoresby (Sam Elliot), sem fær hana til að koma ísbirninum stolta, Iorek Byrnison (Ian McKellen) til hjálpar.

Það er margt í gangi og margt eftir að gerast. Það þarf að bjarga stolnum börnum, koma ísbirninum í hásæti ísbjarnanna og bjarga heiminum. Metnaðurinn er mikill hjá framleiðendum og leikstjóra, getan er bara ekki til staðar.

Eins og sést á þessari lýsingu er margt að gerast í þessari sögu, reyndar alltof margt. Þó að tæknibrellurnar séu hreint frábærar, þá vantar handritið fókus, og leikstjórinn hefur ekki nógu góða stjórn á leikurunum. Þarna bregður fyrir fullt af úrvalsleikurum, og fyrir utan þá sem ég hef þegar talið upp má nefna Ian McShane, Christopher Lee, Kristin Scott Thomas, Kathy Bates og Derek Jakobi í litlum hlutverkum. Þrátt fyrir alla þessa úrvalsleikara og góða frammistöðu hjá þeim, gengur persónusköpun engan veginn upp og á endanum eru þær flatar og jafn eftirminnilegar og kvikmyndir með Steven Seagal í aðalhlutverki.

Síðan The Lord of the Rings í leikstjórn Peter Jackson sló svo eftirminnilega í gegn fyrir nokkrum árum síðan, og vegna velgengni Harry Potter, hafa rándýrar fantasíumyndir verið gerðar sem feta í fótspor hringsins eina, en allar hafa þær einhvers staðar villst af sporinu. Harry Potter myndirnar eru endurtekningar á sömu hugmyndinni ár eftir ár, The Chronicles of Narnia fór sæmilega í gang, var með flottar tæknibrellur en náði ekki að grípa anda bókarinnar, og mig grunar að það sama sé satt um The Golden Compass, þó að ég eigi eftir að lesa bækurnar.

Rætt er um frumspeki sem aðal námsefni í skóla, nokkuð sem ég var kátur að heyra, enda hef ég kennt frumspeki og heimspeki börnum og unglingum, - nokkuð sem mætti gera miklu meira af í nútímasamfélagi sem virðist hafa gleymt því að fleira sé til í okkar heimi en efni, auður og völd. Það er gaman að fá kvikmynd sem er jafn stútfull af góðum hugmyndum og TheGolden Compass , það er bara leitt hversu illa er unnið úr þeim.

Rétt er að minnast á að þetta er engin barnamynd, eins og auglýsingar hafa gefið til kynna. Það eru grimmdarleg dráp í myndinni, þar sem til dæmis ein veran fær kjálkann rifinn af andlitinu, og fjölda manns drepnir með byssum, örvum og af kjafti og klóm. Þetta er grimmur heimur sem veit ekki alveg hvar hann er undir stjórn Chris Weitz, sem áður hefur aðeins leikstýrt léttum gamanmyndum. Ég finn að það býr eitthvað mun dýpra og betra að baki hugmyndunum sem myndin er byggð á og er sannfærður um að það tókst engan veginn að grípa þær.

The Golden Compass er ekki leiðinleg, bara langt frá því að vera það undur og stórmerki sem hún hefði getað verið.

 

Sýnishorn:


I Am Legend (2007) **1/2

Árið 2009 finna vísindamenn upp lyf sem læknar krabbamein. Eins og öllum lyfjum fylgja ákveðnar hliðarverkanir þessu nýja lyfi:

  1. Hárið losnar
  2. Hvíturnar í augunum roðna
  3. Rökhugsun fýkur
  4. Reiði tekur völd
  5. Sjúklingurinn verður  mannæta sem þolir ekki sólarljós

Þetta verður til þess að allar manneskjur í New York annað hvort breytast í skrímsli eða eru drepnar. Vísinda- og hermaðurinn Robert Neville (Will Smith) er ónæmur gagnvart sjúkdómnum og því ákveður hann að staldra við í New York ásamt hundinum sínum Sam og leita eftir leiðum til að þróa mótefni úr eigin blóði.

Þegar sagan hefst hefur Robert Neville verið einn með hundi sínum í þrjú ár. Manhattan eyja hefur verið einöngruð og lögð í eyði. Á daginn heldur Neville rannsóknum sínum áfram í kjallara þar sem hann hefur fjölmargar smitaðar rottur, og fer síðan út með hundinum sínum að veiða antilópur. Hann fær samkeppni þar frá ljónum.

Í einum slíkum veiðitúr hleypur Sam inn í myrkt hús sem er fullt af umbreyttum manneskjum. Þeir félagar sleppa naumlega út og ná að handsama eitt skrímslið. Neville fer með það heim og gerir tilraunir til að snúa henni til mennsku. Á nóttinni sefur Neville ásamt hundi sínum í baðkari á meðan skrímslin ýlfra og góla fyrir utan húsið. Honum hefur tekist að hylja slóð sína að húsinu þannig að skrímslin finna hann ekki.

Ekki fyrr en hann verður fyrir klaufalegu slysi, og hundur hans særist. Þá fer að færast fjör í leikinn, en atburðarrásin verður jafnframt órökrétt í fyrsta sinn og söguþráðurinn verður að gatasigti. Í einu atriði getur hann varla dregið sig að bíl sínum þar sem hann er meiddur á fæti, örstuttu síðar berst hann við skrímslahunda og eftir þann bardaga, þegar sólin er sest, í stað þess að sýna æsilegan eltingaleik þar sem hann flýr helsærður frá skrímslunum, þá er hann allt í einu kominn heim og farinn að hjúkra hundinum. Hitt er þegar kona að nafni Anna (Alice Braga) birtist ásamt syni sínum Ethan (Charlie Tahan) og bjargar honum þegar hann hefur rústað bíl sínum og eitt skrímslið skríður inn um bílgluggann hjá honum, en nokkur hundruð þeirra voru sekúndum áður fyrir utan. Hvernig henni tekst að bjarga honum er ekki sýnt nógu vel.

Fyrsti hluti myndarinnar er þrusugóður. Will Smith á einstaklega góðan leik. Það sem kemur mér mest á óvart er hversu illa hefur tekist til með tæknibrellur. Antilópurnar, ljónin og skrímslin eru það gervileg í hreyfingum að það truflar svolítið flæðið, sem er reyndar ósköp lítið. Annars er atriði þar sem Brooklyn brú er sprengd í tætlur, nokkuð flott, enda dýrasta tæknibrelluatriði kvikmyndasögunnar. En eitt atriði og einn góður leikari gera ekki góða mynd.

I Am Legend er gerð eftir skáldsögu Richard Matheson, sem ég hef reyndar ekki lesið, en hefur gerð að kvikmynd þrisvar sinnum. Í fyrsta skiptið með Vincent Price í aðalhlutverki Last Man on Earth (1964) og í annað skiptið hét hún The Omega Man (1971) og þá lék Charlton Heston aðalhlutverkið. Fróðir segja að engum hafi enn tekist að gera skáldsögunni góð skil.

Ég mæli með I Am Legend, en ekki af neinni gífurlegri sannfæringu, og þá fyrst og fremst fyrir leik Will Smith, en hlutverk hans er keimlíkt Tom Hanks í Cast Away (2000), en aðstæðurnar næstum nákvæmlega eins og í Dawn of the Dead (2004), 28 Days Later (2002) og 28 Weeks Later (2007).


Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 12. sæti: Brazil

Síðasta blogg mitt skrifaði ég á öðrum í jólum. Síðan þá hef ég flakkað mikið um Spán, komið við í Þýskalandi og Danmörku, og tekist að ná mér í hlustaverk með tilheyrandi fylgikvillum, en er að ná mér. Þessi færsla er óvenju löng, enda hef ég óvenju mikið að segja um næstu margbrotnu mynd.

 Ég ætla ekki að þykjast hafa fullkomna þekkingu á öllum vísindaskáldsögum sem gerðar hafa verið frá árinu 1902 þegar sú fyrsta var gerð, Ferðin til tunglsins, en hef verið mikill aðdáandi þessarar frásagnagerðar frá því að ég man eftir mér. Vísindaskáldsögur spyrja nefnilega spurninga um tengsl mannsins við heiminn og endurspegla sjálfa heimspekina ansi vel.

Í heimsendasögum sjáum við heiminn eins og hann gæti orðið ef yfirráð mannsins yfir heiminum fer út í öfgar. Í framtíðarsögum getum við séð fyrir okkur heiminn eins og hann gæti orðið, útópíur sem ganga aldrei upp af einhverjum ástæðum. Í tímaflakkssögum lærum við um tengsl minnis og reynslu, og sérstaklega um mikilvægi minnstu ákvarðana. Geimverumyndir sýna okkur síðan hversu lítið við þekkjum heiminn í raun, og hvernig við tökumst á við hið óþekkta. Allt eru þetta spennandi hugmyndir sem næra vísindaskáldskap, sama hvort hann sé í bland við hroll, grín, drama, vestra, rómantík, eða einhverja aðra frásagnagerð. Oftast eru vísindaskáldsögur varnaðarorð um tækni sem fer út í öfgar.

Einnig vil ég minna á að þær vísindaskáldsögur sem ég fjalla um hérna eru þær sem mér finnst hafa mest skemmtanagildi og vekja hjá mér hugmyndir sem mér finnst gaman að pæla í. Listi næsta manns yrði sjálfsagt gjörólíkur, og minn eigin listi yrði sjálfsagt allt öðruvísi að ári, þar sem ég er töluvert að grúska í gömlum vísindaskáldsögum og reyni að fylgjast með öllu því nýjasta í þessum flokki kvikmynda.

12. sætið fer til kvikmyndar sem mér finnst hreint frábær, rétt eins og allar þær myndir sem ég á eftir að telja upp. Það getur verið erfitt að gera upp á milli þessara mynda og bið ég lesendur að taka þann greinarmun ekki of alvarlega. Ég er þó nokkuð viss um að einhverjir verði hneykslaðir, því að ég veit að nokkrar myndir sem taldar eru til mestu djásna kvikmyndasögunnar og eru vísindaskáldsögur, komast ekki inn á þennan lista minn. 

Jæja, áfram með smjörið:

 

Brazil (1985)****

Brazil er merkileg mynd fyrir fleiri sakir en að hún er frumleg, fyndin og djúp. Leikstjórinn, Terry Gilliam, lenti í hálfgerðu stríði við Universal Studios, þá sem höfðu útgáfuréttinn fyrir kvikmyndina í Bandaríkjunum. Þeir höfðu ekki trú á að hún höfðaði til almennings og kröfðust styttri útgáfu en leikstjórinn vildi gefa frá sér. Munurinn var sautján mínútur og endirinn gjörólíkur því sem Gilliam ætlaði sér. Myndinni var slátrað í Bandaríkjunum af mönnum sem voru hræddir við þetta meistaraverk, hræddir um að þeir myndu tapa aurum á því. Þessar kröfur voru álíka absúrd og söguþráður Brazil.

Terry Gilliam gat engan veginn sætt sig við þennan niðurskurð. Í stað þess að gefa eftir, skar hann upp herör gegn framleiðundum og skammaði þá með heilsíðuauglýsingum í helstu dagblöðum Bandaríkjanna. Hann var einn á móti öllum, Don Kíkóti kvikmyndaheimsins. Engin furða að ég held svona mikið upp á kallinn.

Á endanum var Brazil gefin út og sýnd í leikstjóraútgáfunni um allan heim þar sem að hún fékk stórgóðar viðtökur, nema í Bandaríkjunum þar sem hún var sýnd í ræfilsformi. Brazil fjallar um sams konar stríð og Gilliam háði við Universal Studios.

Fluga dettur ofan í prentara og verður til þess að stafur í nafni einstaklings kemur vitlaust út í útprentun. Afleiðing: rangur maður er hafður að rangri sök. Saklaus maður er handtekinn og drepinn í yfirheyrslu, enda eru upplýsingar sem pyntararnir vilja ekki til og pyntararnir vilja ekki vera þekktir fyrir að ná ekki upplýsingunum út úr viðskiptavininum.

Sam Lowry (Jonathan Price) starfar sem metnaðarlaus skrifstofublók. Hann vill helst að enginn taki eftir sér og lifa algjöru meðalmennskulífi. Samt dreymir hann um annan heim, þar sem hann er skínandi hetja með vængi.

Þegar hann kemst að þessum hörmulegu mistökum, býðst hann til að fara með ávísun til ekkjunnar. Á heimili hennar sér hann bregða fyrir andliti Jill Layton (Kim Greist) á hæðinni fyrir ofan, andliti sem hafði birst honum í draumi. Nú fær líf hans tilgang. Hann setur sér að finna Jill og vinna hjarta hennar.

Veruleiki Brazil er kassalaga þar sem vírar og túbur flækjast út um allt. Það er eins og að borgin sé ofvaxin tölva. Sam upplifir sig einmitt sem hluta af stórri vél sem tryggir að 'kerfið' virki, og hann vill helst að það virki án þess að þurfa að gera nokkuð í því sjálfur.

En þá kemur Harry Tuttle til sögunnar (Robert DeNIro) sem er sjálfstæður verktaki í heimi þar sem að sjálfstæðir verktakar eru bannaðir. Ef eitthvað er ekki í lagi á Ríkið að redda málunum með tilheyrandi skriffinnsku. Allt annað er lögbrot.

Harry jafnast á við hryðjuverkamann því að hann vinnur sín störf án reikninga. Hann þykir vera mikil ógn við Ríkið. Hann starfar sem pípulagningamaður en kerfisins vegna klæðist hann sérsveitarbúningi og ber skotvopn. Hann er boðberi frelsisins í augum Sam. Hann endar niðursokkinn í dagblöð, eða líðandi stund.

Í þessu samfélagi eru allir kúgaðir og viðhorf ráðamanna til lífsins og samfélagsþegna á sér sterkan hljómgrunn í fasisma og nasisma. Hefði Hitler sigrað væri heimurinn svona. Það sem Gilliam virðist halda fram að þó svo að Hitler hafi tapað, þá er hann fullur af kúgandi fasisma.

Mannúð og einstaklingurinn skiptir engu máli: Kerfið, völd og peningar skipta öllu máli. Það er algjört aukaatriði hvort að kerfið sé sanngjarnt eða réttlátt. Aðal málið er að það rúlli áfram og viðhaldi hefðarstéttum og ríkjandi kvótakerfum.

Stjórnendur og lögreglumenn eru eins og klipptir úr heimildarmyndum um nasista úr síðari heimstyrjöldinni, og reyndar er öll fatatíska myndarinnar tengd því sem var í gangi á fjórða og fimmta áratug 20. aldar.

Árið 1979 kom út kvikmyndin The Boys from Brazil, sem fjallar um tilraun til að endurskapa Adolf Hitler með klónun. Mér datt í hug hvort að Brazil væri tilvísun í þessa mynd, þar sem að stjórnendur, og sérstaklega yfirmaður Sam, M. Kurtzmann (Ian Holm), afar stífur kall með stutt yfirvaraskegg og gífurlegt ofsóknarbrjálæði, stjórnar eins og lítill Hitler.

Sam þiggur stöðuhækkun sem áhrifamikil móðir hans, Ida (Katherine Helmond) hefur lengi beðið hann um að taka, en hann tekur starfið eingöngu til að eiga auðveldara með að hafa upp á Jill.

Sam finnur upplýsingar um um Jill og kemst að því að leyniþjónustan er á eftir henni. Hún þykir hættuleg vegna þess að hún hefur spurt óþægilegra spurninga um saklausa manninn sem bjó á hæðinni fyrir neðan hana og var handtekinn og drepinn í yfirheyrslum. Spurningar hennar þykja það grunsamlegar að hún hlýtur að vera hryðjuverkamaður og forgangsatriði númer eitt hjá leyniþjónustunni er að yfirheyra hana með pyntingum ef með þarf.

Sam finnur hana umkringda fjölda vopnaðra varða í anddyri leyniþjónustunnar, þar sem hún er að spyrja enn frekari spurninga. Honum tekst að koma henni út, enda yfirmaður í leyniþjónustunni og saman leggja þau á flótta.

Hún skilur ekki hættuna sem hún er í og telur hann einfaldlega vera snargeggjaðan, enda er hann enginn snillingur í mannlegum samskiptum, og í stað þess að útskýra fyrir henni stöðu mála segist hann elska hana. Það hittir ekki í mark.

Brazil er margbrotin mynd með snúnum söguþráði. Hugmyndirnar eru oft krefjandi og svo furðulegar að maður stendur eftir með fullt af spurningum, en getur lítið annað gert en að rembast við að túlka.

Ég hef þrisvar séð Brazil, í fyrri skiptin klipptu útgáfuna og áttaði mig engan veginn á hvað reynt var að segja með henni. Í þessari mun betri endanlegu leikstjóraútgáfu eru skilaboðin kannski ekki skýr, en sagan er heilsteypt og áhrifarík.

Myndmálið er glæsilegt og gaman að upplifa svona undarlega kvikmynd stöku sinnum; sem er svo sannarlega Gillíamsleg, enda hefur hann leikstýrt jafn furðulegum stórmyndum og The Holy Grail, Meaning of Life, Time Bandits, 12 Monkeys, Fisher King, og fleiri góðum.

Ég mæli með Brazil fyrir alla þá sem vilja öðruvísi krydd í tilveruna og tilefni til að pæla í því hvort að samfélag okkar sé nokkuð að nálgast ógnarveröld Gilliams um of, í leit okkar að því mesta, flottasta og besta. Brazil minnir okkur á að hið góða, fagra og næga getur týnst í slíkri leit.

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

Næsta vísindaskáldsaga í kvikmyndum var í uppáhaldi hjá mér til margra ára. Ég sá hana fyrst þegar hún var frumsýnd í Laugarásbíói árið 1982, þá tólf ára gamall. Mér fannst hún það góð að ég fór aftur næsta dag og safnaði spjöldum sem seld voru í sjoppum. Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef elst við mynjagripi úr kvikmynd. E.T.: The Extra Terrestrial er ennþá jafn góð í dag og hún var þá. Ég hef bara séð miklu fleiri myndir og smekkurinn hefur breyst. 

E.T. vakti mig til umhugsunar um mikilvægi þess að taka mark á vitsmunaverum, hvort sem að þær eru börn, fullorðnir, dýr eða geimverur. Aðal vandinn sem söguhetjur E.T. þurfa að takast á við er einhvers konar sambandsleysi í víðtækum skilningi. Frábær mynd í alla staði. 

Það er vel við hæfi að kíkja á E.T. yfir jólin, þar sem boðskapur hennar gæti varla átt betur við en hjá okkur í dag. Við erum svo upptekin af smáatriðum að okkur er hætt við að gleyma því sem skiptir mestu máli. 

E.T.: The Extra Terrestrial (1982) ****

Litlar geimverur eru í rannsóknarleiðangri á jörðinni að skoða plöntur. Þær þurfa að hverfa frá í flýti þegar hópur rannsóknarmanna frá NASA birtast á svæðinu. Fremstur þeirra fer maðurinn með lyklana (Peter Coyote). Ein geimveran verður eftir og flýr í úthverfi smábæjar fyrir neðan skóginn þar sem geimskipið lenti.

Kvöld eitt kemst Elliott í kynni við geimveru og fær hana með sér inn í herbergi. Hann vill halda henni sem gæludýri. Fljótt kemur í ljós að það býr meira í henni en krúttlegt útlit. Hún getur hreyft hluti með hugarorku og lærir fljótt að tala frumstæða ensku. En Elliott og geimveran smella algjörlega saman og djúp vinátta verður til. Elliott finnur allar þær tilfinningar sem geimveran hefur, og öfugt. Þegar geimveran veikist eftir að hafa verið úti heila nótt, þá veikist Elliott líka.

Elliott (Henry Thomas) er ósköp venjulegur strákur. Hann á frekar erfitt með að tengjast öðru fólki, enda foreldrar hans nýlega fráskildir. Mary (Dee Wallace) heldur heimilinu gangandi með þremur börnum, sá elsti er unglingurinn Michael (Robert Macnaughton) og sú yngsta er Gertie (Drew Barrymore. Þau vilja allt gera til að hjálpa Elliott og geimverunni, en gæta sig á að láta fullorðna ekki vita, því þau finna að fullorðnum er alls ekki treystandi. Þau vita að geimveran yrði gerð að rannsóknardýri ef vísindamenn kæmust með puttana í hana, og þar sem með þeim tekst vinátta, hjálpast þau að við að finna geimverunni leið heim.

Það lítur út fyrir að bæði Elliott og geimveran séu við dauðans dyr þegar NASA rannsóknarmenn hafa uppi á þeim félögum. Þeir eru umsvifalaust einangraðir, og heimili Elliott umbreytist í rannsóknarstofu þar sem allir tala eitthvað tæknimál og er greinilega nákvæmlega sama um tilfinningar þeirra vina. Stóra spurningin er, sleppur geimveran undan NASA vísindaskrýmslinu og finnur leið heim?

E.T: The Extra Terrestrial er afar vel gerð og falleg. Handbragðið minnir að miklu leyti á Raiders of the Lost Ark, sérstaklega þegar NASA vísindamennirnir leita geimverunnar í skóginum, og þegar geimveran og félagar Elliott flýja undan á hjólum. Reyndar varð einn drengjanna síðar frægur fyrir að leika Indiana Jones (Sean Patrick Flanery) á unglingsaldri í sjónvarpsþáttunum Young Indiana Jones.

Það er allt svo undravert í þessari veröld sem Steven Spielberg tekst að skapa, þar sem aðal óvinurinn er skeytingarleysi; nokkuð sem aðalhetjan Elliott þarf að sigrast á hjá sjálfum sér en allir fullorðnir í myndinni eru þjakaðir af, fyrir utan manninn með lyklana.

Það er eins og tveimur siðfræðikenningum sé steypt hvorri gegn annarri í E.T. Í fyrsta lagi er heimur barnanna heimur þar sem hver einasti einstaklingur er ómetanlegur, en heimur fullorðinna virðist vera heimur nytjahyggjunnar, þar sem allt í lagi er að fórna einum til að bæta við þekkingu mannkyns. Eina ástæðan sem hinir fullorðnu hafa til að halda geimverunni á lífi er að hún gæti hjálpað þeim að auka við þekkingu mannkyns á heiminum; en börnin átta sig á að með dauða hennar væru þau að missa dýrmætan vin.

Spurning: hvort mikilvægara sé að mannkynið öðlist dýpri þekkingu eða að góður vinur komist heim til sín?

Tónlistin í E.T. eftir John Williams er einstaklega góð, og reyndar er þetta ein af þeim myndum þegar tónlistin verður stundum yfirsterkari myndinni á skjánum, en það er samt allt í lagi. Sumum finnst endirinn frekar væminn, en mér finnst hann hitta á hárréttar nótur sem eru viðeigandi efninu.

E.T.: The Extra Terrestrial er upplifun sem enginn áhugamaður um vísindaskáldsögur á hvíta tjaldinu ætti að láta fram hjá sér fara.

 

Sýnishorn úr E.T.

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

 
13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Back to the Future, Part III (1990) ***

Doc Emmett Brown (Christopher Lloyd) hefur tekist að senda Marty McFly (Michael J. Fox) frá árinu 1955 til 1985, en honum að óvörum birtist Marty sekúndum síðar í allt öðrum fötum og segist vera önnur útgáfa af sjálfum sér sem búin er að fara til 1985, síðan 2015 og aftur til 1985. Svo fóru þeir félagar til 1955 til að koma í veg fyrir framtíð þar sem Biff ræður ríkjum.

Þetta er of mikið af upplýsingum fyrir kallinn. Þegar hann hefur jafnað sig og þeir félagar komast að því að Doc Brown verður myrtur í villta vestrinu, ákveður Marty að fara til villta vestursins vini sínum til bjargar. Yngri Doc Brown mótmælir ekki og sendir Marty til ársins 1885. Við það að bjarga vini sínum leggur Marty eigið líf í hættu, þar sem Mad-Dog Tannen (Thomas F. Wilson), sem hafði hug á að myrða Brown, hefur nú fengið áhuga á að myrða Marty.

Félagarnir ákveða að forða sér inn í framtíðina, en vandinn er sá að tímavélin er bensínlaus og engin bensínstöð nálægt næstu áratugina. Því verður þeim þrautin þyngri að koma tímavélinni upp í 88 mílur á klukkustund til að ferðast um tímann.

Þeir ákveða að ýta á eftir bílnum með lest. Enn einu sinni keppa þeir við klukkuna. Lestin á að koma klukkan átta að morgni, en Mad Dog ætlar í byssueinvígi við Marty á nákvæmlega sama tíma.

Til að flækja fléttuna kynnist Doc kennaranum Klöru Clayton (Mary Steenburgen) sem hann bjargar frá því að hrapa til bana ofan í Clayton gil (sem heitir þá ekki lengur Clayton gil í framtíðinni). Þau verða ástfangin við fyrstu sýn og allt í einu langar Doc Brown alls ekki að ferðast til framtíðar með Marty félaga sínum.

Þessi framhaldsmynd gerir sömu mistök og númer tvö, nefnilega gefur sömu leikurum mörg hlutverk, sem virkar einfaldlega klúðurslega og ódýrt. Michael J. Fox leikur langa-langafa Marty, og Lea Thompson leikur langömmu Lorraine, auk þess sem að Thomas F. Wilson leikur langa-langafa Biff. Þarna hefði frekar mátt bæta við fleiri góðum leikurum sem hefðu getað gefið þessum aukapersónum einhverja dýpt.

Tæknibrellurnar eru flottar sem fyrr, og sagan nokkuð skemmtileg. Hún er langt frá frummyndinni, en ef þú hafðir gaman af fyrri framhaldsmyndinni, þá er þessi töluvert betri.

Sýnishorn úr Back to the Future, part III:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband