Færsluflokkur: Kvikmyndir

My Name is Nobody (1973) ***1/2

Jack Beauregard (Henry Fonda) er mesta byssuskytta Villta Vestursins, hann er það snöggur að þegar hann skýtur þremur skotum hljómar eins og um eitt skot hafi verið að ræða. Hann er orðinn þreyttur á stanslausum byssubardögum, og vill hætta með því að koma sér úr landi. Til þess þarf hann hins vegar að innheimta pening sem Sullivan bróðir hans (Jean Martin) skuldar honum. Sullivan er hins vegar ekki á því að borga Jack peninginn og hefur ráðið leigumorðingja til þess að drepa hann og alla vini hans, sama hvert hann fer.

Á ferð sinni rekst Jack á Nobody, eða Engan (Terence Hill) eins og hann kallar sig, en ef einhver er skjótari en Jack með framhleypuna í öllu Villta Vestrinu, þá er það hann. Í fyrstu heldur Jack að Enginn sé bara enn einn byssubófinn sem vill verða frægur fyrir að drepa hann, en Enginn er með miklu háleitari markmið, hann vill fyrst koma málum þannig fyrir að Jack sigri í skotbardaga gegn 150 byssubófum, og eftir það langar hann að taka kallinn í einvígi.

Sjón Jack er farin að förlast, enda kominn á efri ár og hann veit að komist hann ekki fljótlega úr landi verði hann skotinn af einhverjum heppnum óvini. Það er lán í óláni að hann skuli rekast á Engan, því Enginn vill halda honum á lífi svo að hann geti tekið þátt í skotbardaganum mikla.

Þetta er svolítið öðruvísi vestri. Hann er blanda af alvarlegum spaghettí vestra og léttu spaugi. Henry Fonda sér um að gera söguna og aðstæðurnar trúverðugar, en Terence Hill heldur uppi húmornum, og gerir það afar vel - enda með fína reynslu úr Trinity myndunum frægu. Leikstíll hans minnir töluvert á Jackie Chan, þó að hann sé engin Kung-Fu hetja. Þessi mynd hefði alveg eins getað heitið: "Ég heiti Lukku Láki".

My Name is Nobody er fín skemmtun, en vegna undarlegra klippinga í stóra bardaganum og alltof augljósrar hraðspólurnar til að láta hlutina gerast hratt, hrapar hún aðeins í verði. Hún er samt fín skemmtun og alltaf, og ég endurtek ALLTAF, stórgaman að fylgjast með Henry Fonda. Goðsögnin Sergio Leone framleiddi og átti hugmyndina að myndinni og Ennio Morrecone samdi stórgóða kvikmyndatónlist fyrir hana.


The Adventures of Robin Hood (1938) ***1/2

Bretakonungur, Ríkharður Ljónshjarta (Ian Hunter) hefur farið í krossferð með riddurum sínum. Þegar hann er handsamaður af óvinum gripur bróðir hans Jón prins (Claude Rains) tækifærið og ætlar að sölsa undir sig völd landsins. Hann fær gráðug aðalmenni með sér í lið, og réttlætir stóraukna skatta á almúgafólk með því að segjast ætla að nota peninginn til að borga bróður sinn lausan, á meðan hið sanna er að hann ætlar að nota peninginn til að sölsa undir sig ríkið allt. Hans nánasti samstarfsmaður eru Guy frá Gisbourne (Basil Rathbone), en hann girnist auk valda, lafði Marion (Olivia de Havilland).

Það eina sem stendur í vegi fyrir sigri þessara illmenna er riddarinn ungi Hrói Höttur, eða Robin frá Locksley, eða Robin Hood (Errol Flynn). Þegar hann verður vitni að kúgun þeirra sem völdin hafa gagnvart þeim sem varla geta borið hönd fyrir höfuð, tekur hann að sér að leiða þá sem enn eru trúi Ríkharði Ljónshjarta og hugsjónum hans.

Hrói setur skýrar reglur. Það má stela en aðeins til þess að gefa þeim fátæku. Allir þeir sem fylgja honum þurfa að sverja Ríkharði Ljónshjarta eið, verja þá sem lítils mega sín og berjast fyrir sigri hins góða í heiminum. Meðal félaga Hróa eru hinn skrautlegi Will Scarlett (Patric Knowles), hinn hávaxni kraftaköggull Litli Jón (Alan Hale) og munkurinn Tóki (Eugene Pallette).

Dag einn hertekur flokkur Hróa flutningalest sem flytur með sér mikil auðævi. Meðal farþega er lafði Marion. Hrói verður strax hrifinn af henni, og fljótt kemur í ljós að það er gagnkvæmt. Menn Jóns prins taka eftir þessu og leggja gildru fyrir Hróa, keppni í bogfimi, þar sem Marion afhendir verðlaunin - gildra sem Hrói Höttur getur ekki staðist.

Ævintýri Hróa Hattar eru bráðskemmtileg og litrík. Myndin er tekin upp í Panavision kerfinu, og hún lítur út eins og hún sé glæný, þó að 70 ár verði frá frumsýningu hennar 14. maí næstkomandi. Helstu gallarnir við myndina er að stundum er leikur frekar stífur, og bardagaatriðin algjörlega ótrúverðug. Samt er drifkrafturinn í gorminum Flynn hrífandi og það skemmtilegur að hann drífur söguna áfram með hressileikanum einum saman.

Það er óhætt að mæla með þessari stórskemmtilegu útgáfu af ævintýrum Hróa Hattar.


12 Angry Men (1957) ****

12 Angry Men gerist að mestu í aflokuðu herbergi þar sem kviðdómur þarf að komast að niðurstöðu um morðmál. Það er heitt úti og flesta langar að komast snemma heim, og suma jafnvel á völlinn til að fylgjast með hafnarboltaleik.

Unglingur frá Puerto Rico er sakaður um að hafa myrt föður sinn. Tvær manneskjur voru vitni að morðinu og morðvopnið er í eigu unglingsins. Öllum í kviðdómnum nema einum finnst þetta augljóst mál og réttast að afgreiða það fljótt og örugglega. Strákurinn hlýtur að vera sekur, hann er úr fátæku hverfi, hefur oft verið dæmdur fyrir smærri glæpi, og fjarvistarsönnun hans gengur ekki upp.

En kviðdómari númer 8 (Henry Fonda) finnst ekki rétt að klára morðmál svo hratt, og biður um smá umræðu, bara umræðunnar vegna og af virðingu fyrir réttarkerfinu og lífi unglingsins sem sjálfsagt verður tekinn af lífi verði hann dæmdur sekur. Í ljós kemur að málið er kannski ekki jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera, þegar kviðdómarar, hver á fætur öðrum reyna að sanna kviðdómara 8 um af hverju drengurinn er sekur. Honum tekst hins vegar að vekja upp spurningar sem sífellt erfiðara verður að svara, og tekst að sá efasemdum meðal hinna kviðdómaranna.

Leikurinn í 12 Angry Men er stórgóður. Henry Fonda leikur skynsemismanninn fullkomlega, og Lee J. Cobb er frábær sem hinn stolti og tilfinninganæmi maður sem veit einfaldlega að drengurinn er sekur. Upp koma fjöldi ástæðna til að dæma unglinginn til dauða, meðal þeirra eru fordómar, stolt, hugleysi, óþolinmæði, óákveðni, ónákvæmni, og fleira. Þetta er magnaður bardagi þar sem á takast skynsemi og rökvillur.

Þó að 12 Angry Men gerist í einu herbergi, gerist hún einnig í huga 12 manns sem gerir hana að gífurlega dýnamískri upplifun. Maður veit aldrei hvað kemur næst, og þegar það gerist er það nákvæmlega það sem þurfti að gerast.

Frábær kvikmynd og fróðleg þegar maður veltir fyrir sér því flókna ferli sem getur átt sér stað þegar nokkrar manneskjur eru staddar á sama stað og neyddar til að leita sannleikans.


Stardust (2007) ****

Tristan Thorn (Charlie Cox) er yfir sig ástfanginn af Victoria (Sienna Miller), stúlku sem er ekki jafn merkileg og hún telur sig vera. Þegar þau sjá stjörnuhrap býðst Tristan til að sækja stjörnuna og færa henni að gjöf, en til þess þarf hann að fara yfir vegginn.

 

Veggurinn er það sem skilur að hinn hversdagslega veruleika og heim galdra og ævintýra. Það er bannað að ferðast á milli þessara tveggja heima, en hann er varinn af öldungi sem er afbragðs bardagalistamaður (David Kelly). Faðir Tristans, Dunstan (Nathaniel Parker) komst upp með að flakka yfir vegginn níu mánuðum áður en Tristan fæddist, en það sem hann veit ekki er að móðir hans er bæði ambátt og prinsessa úr ævintýraheiminum (Kate Magowan) og hann sjálfur þar af leiðandi prins og hugsanlegur erfingi krúnunnar.

 

En kóngur ríkisins (Peter O'Toole) er slóttugur og grimmur. Hann á sjö syni og eina dóttur. Þessi dóttir er móðir Tristan, en hún hefur verið þræll nornar í nokkra áratugi. Prinsarnir berjast hins vegar um völdin og eru frekar duglegir að drepa hvern annan, þannig að það styttist fljótt í að Tristan verði eini erfinginn sem eftir er. Kóngurinn gefur frá sér gimstein rétt áður en hann dregur síðasta andann og segir að sá af konunglegu blóði sem nái honum verði næsti konungur.

 

Þessi steinn flýgur svo út úr höllinni, upp í himinninn og rekst á stjörnu sem hrapar með honum til jarðar. Prinsinn Septimus (Mark Strong) leggur strax af stað til að ná gimsteininum. Þessi stjarna er stúlka (Claire Danes) sem þrjár illar nornir girnast til að framlengja eigin ungdóm og endurhlaða galdrakraftana. Nornin Larnia (Michelle Pfeiffer) fer í leiðangur til að hafa uppi á stjörnunni og skera úr henni hjartað með sérstökum fórnarhníf.

 

Tristan er hins vegar fyrstur til að finna stjörnuna, handsamar hana og ætlar að gefa hana sinni heittelskuðu. Við tekur fjölbreytt ævintýri þar sem sköpunargleði höfunda fá að njóta sín fram á síðustu sekúndu myndarinnar, en inn í söguna fléttast einhyrningur, sveitastrákur sem breytist í geit og síðan kynbombu sem hann verður sjálfur hrifinn af, og ekki má gleyma samkynhneigða sjóræningjaskipstjóranum Shakespeare (Robert De Niro) sem þykist vera grimmur og vondur, orðsporsins vegna, en er síðan hið vænsta skinn, sem reyndar er heillaður af kjólum.

 

Stardust er með skemmtilegri ævintýramyndum sem ég hef séð. Það er létt yfir henni eins og The Princess Bride, og alls ekki jafn þung og The Lord of the Rings. Höfundur upprunalegu sögunnar, Neil Gaiman, er einn skemmtilegasti ævintýrahöfundur dagsins, en hann er snillingur í að blanda saman gömlum minnum. Hæst ber að nefna teiknimyndasögur hans Sandman, en þær fjalla um draum og öll hans ævintýri með mannkyninu frá því að fyrsta manneskjan dreymdi draum. Gaiman skrifaði einnig handritið að Beowulf (2007) sem var að mínu mati einstaklega vel heppnuð, þó að hún sé vissulega fersk og frumleg sýn á fornu ljóði.
 

The Princess Bride kom út árið 1987 og þótti sérstaklega vel heppnuð rómantísk ævintýramynd. 20 árum seinna kemur Stardust út og minnir óneitanlega á The Princess Bride. Hvort tveggja eru sögur um galdra, sjóræningja, prinsa, prinsessur og sanna ást. Í bæði skiptin er sögumaðurinn virtur leikari, í The Princess Bride var það Peter Falk, í Stardust er það sjálfur Gandálfur, Ian McKellan.

 

Sýnishorn úr Stardust:


Rush Hour 3 (2007) **1/2

Þó að Rush Hour 3 sé illa uppbyggð, með órökréttri atburðarrás, og persónum sem eru á engan hátt trúverðugar, fannst mér hún bara nokkuð skemmtileg. Það er hreint kraftaverk að hægt sé að gera sæmilega skemmtilega kvikmynd upp úr handriti sem er einskis virði, en það sem gerir Rush Hour 3 skemmtilega eru tvær persónur leiknar af Jackie Chan og Yvan Attal.

Lee lögregluforingi (Jackie Chan) fer með Sendiherranum Han á alþjóðlega glæpadómsráðstefnu í Los Angeles þar sem hann ætlar að uppljóstra fyrir opnum tjöldum hver er leiðtogi kínversku alþjóðamafíunnar. Áður en honum tekst að ljúka ræðunni hefur hann verið skotinn úr launsátri og Jackie Chan stokkinn út um gluggann og farinn að hoppa og hlaupa eins og andskotinn sjálfur á eftir leigumorðingjanum, sem síðar kemur í ljós að er gamall æskuvinur, Kenji (Hiroyuki Sanada) sem Jackie Chan vill að sjálfsögðu ekki skaða en umbreyta í betri manneskju.

Lögreglumaðurinn agalausi og fordómafulli James Carter (Chris Tucker) heyrir tilkynningu um tilræðið á kínverska sendiherranum og þeysir af stað til að hjálpa Jackie Chan. Leigumorðinginn sleppur, en aðeins þar sem Jackie vildi ekki þurfa að skjóta hann. Sem þýðir samkvæmt mínum skilningi að Jackie er starfi sínu ekki vaxinn.

Í ljós kemur að dóttir sendiherrans, Soo Yung (Jingchu Zhang) hefur aðgang að upplýsingunum sem sendiherrann ætlaði að uppljóstra, en Jackie og Tucker komast að því að kínverska mafían hefur þegar náð skjölunum. En þeir eru orðnir að skotmarki og vilja einnig bjarga lífi Han sendiherra og dóttur hans frá byssuglöðum bófunum, og fara því til Parísar, þar sem að fram fer innan tveggja daga innvígsla nýjustu foringja mafíunnar.

Það tekur því varla að rekja söguþráðinn, sem er einfaldlega of vitlaus til að borgi sig að velta sér fyrir honum, en Max von Sydow þráleikur mikilvægt hlutverk í myndinni án nokkurrar áreynslu. Franski leigubílstjórinn George (Yvan Attaf) er langskemmtilegasti þátturinn í þessari mynd, sérstaklega þegar hann ákveður að haga sér eins og ofurnjósnari það sem eftir er myndarinnar, þá sýnir hann viðhorf sem vantar alltof oft í svipaðar myndir - ævintýrahug, hugrekki og húmor sem gaman er að fylgjast með.

Jackie Chan er alltaf að eldast en er samt margfalt fimari en flestir yngri menn í heiminum. Hann er ekki nema svipur hjá sjón miðað við hvað hann var þegar hann var upp á sitt besta. Jackie er 53 ára gamall, aldur sem maður reiknar með að menn standi kyrrir og í mesta lagi láti sig detta í sófa, en nei, hann er á hlaupum yfir götur, stekkur yfir bíla, forðast fljúgandi hnífa, og stekkur af Eiffelturninum á nokkuð sannfærandi hátt.

Jackie Chan er hreint ótrúlegur leikari - hann er sjaldan trúverðuglegur þegar hann reynir að taka sig alvarlega, kann ekki að syngja en gerir það samt, en hefur slík yfirráð yfir líkamlegri tjáningu, þar sem húmor, fimi og bardagalistir renna saman í eitt, að það er sífellt yndi að fylgjast með honum. Ef hægt er að tala um líkamlegar gáfur, þá er Jackie Chan fyrirmyndar fulltrúi fyrir þann flokk greindar.

Fyrsta Rush Hour (1998) myndin var stórskemmtileg og frumleg, og þá var Jackie Chan líka í fantaformi, enda ekki nema 43 ára, persónurnar sæmilega trúverðugar og sagan heilsteypt. Rush Hour 2 (2001) ( var lakari, en samt nokkuð skemmtileg, og Rush Hour 3 enn lakari en önnur myndin, en samt gaman að henni, svo framarlega sem að kröfurnar eru í lægri kantinum.

 

Myndir frá IGN.COM


Óskarsverðlaunum lokið

Ég er mjög ánægður með sæta sigra No Country for Old Men. Ég hafði ekki þorað að veðja á að hún yrði valin sem besta mynd ársins, af því að oftast verða þær útundan. Það var bara greinilega engin spurning þetta árið. Frábær kvikmynd sem ljóst er að maður verður að sjá aftur.

Spá mín hitti ekki alveg í mark. Til dæmis giskaði ég rangt á þær konur sem unnu til verðlauna, en mér fannst Tilda Swinton ekki sýna neinn stórleik í Michael Clayton, og hef ekki séð La Vie en Rose um Edith Pfiafh. Annars hafði ég tilfinningu fyrir öllum öðrum myndum sem unnu til verðlauna í þessum 10 flokkum sem ég tók fyrir.


Don Hugur: 60% rétt.

Don Hjarta:  60 % rétt.

Spá: 50% rétt. 

 Sigurvegari
 Don HugurDon HjartaSpá
Besta teiknimyndin
 
Bestu tæknibrellurnar     
Besta frumsamda handrit
    
Besta handrit byggt á áður útgefnu efni     
Besta leikkona í aukahlutverki
    
Besti leikari í aukahlutverki
    
Besta leikkona í aðalhlutverki
    
Besti leikari í aðalhlutverki    
Besta leikstjórn

  
 Besta kvikmynd
    


80. Óskarsverðlaunin: Spáð í spilin

Þá er komið að Óskarsverðlaunadeginum og að spá í spilin. Ég geri mér fulla grein að vonlaust er að vita hvað fólkið er að pæla sem gefur atkvæði, en oft held ég að verðlaunin fái sú mynd sem hefur verið best markaðssett af framleiðendum. Ég held að Atonement muni sópa til sín verðlaunum í kvöld, ekki vegna þess að hún er góð kvikmynd, heldur vegna þeirrar gífurlega öflugu auglýsingaherferðar sem hefur verið í gangi til að tryggja henni atkvæði. En þetta kemur allt fljótlega í ljós.

Ég nenni ekki að spá í kjóla eða klæðnað á rauða dreglinum.

Ég mun ekki spá í bestu stuttmyndir eða heimildamyndir, enda hef ég ekki séð neinar þeirra. Hins vegar er ég búinn að fylgjast nokkuð vel með kvikmyndum í fullri lengd á árinu, en þar sem ég er að fylgjast með þessu í tómstundum, næ ég náttúrulega ekki að sjá allt það sem mig langar til að sjá. Ég hef ekki heldur fylgst mikið með kvikmyndum utan Hollywood, þannig að ég ræð engan við að velja bestu erlendu myndina, fyrir utan Persepolis.

Don Hugur kemur með þá spá sem Don Hrannar heldur að vinni, sem kalt mat burtséð frá eigin smekk. Don Hjarta byggir á tilfinningu Don Hrannars, og Don Uppreisn stingur upp á mynd sem var ekki einu sinni tilnefnd, og hefði átt að vera það og ætti meira að segja jafnvel að vinna. Endanleg spá er hins vegar sú mynd sem Hrannar trúir að muni vinna, en hefur engan tíma til að útskýra hvers vegna. 

Besta teiknimyndin:

Tilnefndar eru:

PersepolisRatatouilleSurf's Up

Don Hrannar pælir:

Don Hugur velur: RatatouilleDon Hjarta velur: PersepolisDon Uppreisn velur: Beowulf

Don Hrannar spáir: Ratatouille

 

Bestu tæknibrellur:

Tilnefndar eru:

The Golden CompassPirates of the Caribbean: At World's EndTransformers

Don Hrannar pælir: 

Don Hugur velur: TransformersDon Hjarta velur: The Golden CompassDon Uppreisn velur: 300

Don Hrannar spáir: Transformers

 

Besta frumsamda handrit:

    
Diablo Cody (Juno)Nancy Oliver (Lars and the Real Girl)Tony Gilroy (Michael Clayton)Brad Bird, Jan Pinkava, Jim Capobianco (Ratatouille)Tamara Jenkins (The Savages)

Don Hrannar pælir:

   
Don Hugur velur: RatatouilleDon Hjarta velur: JunoDon Uppreisn velur: Hot Fuzz

Don Hrannar spáir: Juno (Diablo Cody)

 

Besta handrit byggt á áður útgefnu efni:

     
Christopher Hampton (Atonement)Sarah Polley (Away from Her)Ronald Harwood (Le Scaphandre et le Papillon)Joel Coen og Ethan Coen (No Country for Old Men)Paul Thomas Anderson (There Will Be Blood)

Don Hrannar pælir:

   
Don Hugur velur: No Country for Old MenDon Hjarta velur: No Country for Old MenDon Uppreisn velur: Stardust

Don Hrannar spáir: Atonement (Christopher Hampton)

 

Besta leikkona í aukahlutverki:

     
Cate Blanchett (I'm Not There)Ruby Dee (American Gangster)Saoirse Ronan (Atonement)Amy Ryan (Gone Baby Gone)Tilda Swinton (Michael Clayton)

Don Hrannar pælir:

   
Don Hugur velur: Cate Blanchett (I'm Not There)Don Hjarta velur: Cate Blanchett (I'm Not There)Don Uppreisn velur: Romola Garai (Atonement)

Don Hrannar spáir: Saoirse Ronan (Atonement)


 

Besti leikari í aukahlutverki

     
Casey Affleck (The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford)Javier Bardem (No Country for Old Men)Philip Seymour Hoffman (Charlie Wilson's War)Hal Holbrook (Into the Wild)Tom Wilkinson (Michael Clayton)

 
Don Hrannar pælir: 

   
Don Hugur velur: Javier BardemDon Hjarta velur: Javier BardemDon Uppreisn velur: Nick Frost (Hot Fuzz)

Don Hrannar spáir: Javier Bardem (No Country for Old Men)

 

Besta leikkona í aðalhlutverki:

     
Cate Blanchett (Elizabeth: The Golden Age)Julie Christie (Away from Her)Marion Cotillard (La Vie en Rose)Laura Linney (The Savages)Ellen Page (Juno)

 
Don Hrannar pælir: 

   
Don Hugur velur: Ellen PageDon Hjarta velur: Ellen PageDon Uppreisn velur: Angelina Jolie (A Mighty Heart)

Don Hrannar spáir: Julie Christie (Away from Her)

 

Besti leikari í aðalhlutverki:

     
George Clooney (Michael Clayton)Daniel Day-Lewis (There Will Be Blood)Johnny Depp (Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street)Tommy Lee Jones (In the Valley of Elah)Viggo Mortensen (Eastern Promises)

Don Hrannar pælir: 

   
Don Hugur velur: Daniel Day-LewisDon Hjarta velur: Johnny DeppDon Uppreisn velur: Simon Pegg (Hot Fuzz)
 

Don Hrannar spáir: Daniel Day-Lewis (There Will Be Blood)

 

Besta leikstjórn:

     
Paul Thomas Anderson (There Will Be Blood)Ethan Coen og Joel Coen (No Country for Old Men)Tony Gilroy (Michael Clayton)Jason Reitman (Juno)Julian Schabel (Le Scaphandre et le Papillon)

Don Hrannar pælir:

  
Don Hugur velur: Ethan Coen og Joel CoenDon Hjarta velur: Ethan Coen og Joel CoenDon Uppreisn velur: Edgar Wrigth (Hot Fuzz)

Don Hrannar spáir: Ethan Coen og Joel Coen (No Country for Old Men)


 

Besta kvikmynd 2007

     
AtonementJunoMichael ClaytonNo Country for Old MenThere Will Be Blood

Don Hrannar pælir:

  
Don Hugur velur: No Country for Old MenDon Hjarta velur: No Country for Old MenDon Uppreisn velur: 3:10 to Yuma

Don Hrannar spáir með óbragð í munni: Atonement



Atonement (2007) **1/2

Hin þrettán ára Briony Tallis (Saoirse Ronan) verður vitni að atburðum sem hún misskilur svo hrikalega að vitnisburður hennar eyðileggur fjölmörg líf. Hún heldur að Robbie Turner (James McAvoy) hafi nauðgað frænku hennar, vegna þess að hún hafði lesið bréf sem hann hafði skrifað um kynfæri systur hennar, Cecilia Tallis (Keira Knightley) og síðan komið að þeim í eldheitum ástaratlotum.

Vitnisburður Briony verður til þess að Robbie er sendur í fangelsi þar sem hann þarf að dúsa í þrjú og hálft ár, þar til seinni heimstyrjöldin hefst, en þá velur hann að fara frekar í herinn og berjast í Frakklandi við nasista heldur en að dúsa lengur bakvið rimla.

Þegar Briony (Romola Garai) hefur náð 18 ára aldri áttar hún sig á eigin misgjörðum og leitar leiða til að bæta fyrir þær. En það eru miklar hindranir á vegi hennar sem koma í veg fyrir að hún geti nokkurn tíma náð sáttum við eigin samvisku. Hvernig er nokkurn tíma hægt að bæta fyrir nokkuð sem hefur eyðilagt svo mikið?

Það er mikið lagt í umgjörð Atonement. Umhverfið er fallegt og ljóðrænt, og svo er eitt langt skot í Frakklandi sem nær yfir nokkrar mínútur, sem er gífurlega vel gert. Mér fannst Romola Garai afar góð sem hin átján ára Briony, en leikur Knightley, sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna, þótti mér bara ósköp venjulegur, ekkert spes - ekki nóg til að fá tilnefningu.

Satt best að segja finnst mér Atonement vera frekar tilgerðarleg kvikmynd sem teygir alltof mikið lopann. Hún er greinilega framleidd með Óskarinn í huga, þar sem búningadrömu fá oft tilnefningar. Mér fannst hinn óvænti endir ekkert sérlega sniðugur, og held að úr hefði orðið betri mynd ef höfundar hefðu ekki reynt að blekkja áhorfendur með trikkum.

Ég hafði alltaf á tilfinningunni að einhver væri að kalla til mín og segja mér - sjáðu hvað þetta atriði er flott gert, sjáðu smáatriðin, sjáðu hvað mikið var lagt í sviðsmyndina fyrir hið hernumda Frakkland, sjáðu - endirinn útskýrir allt. Atonement er meðalmynd eins og Queen var í fyrra, búningadrama sem virðist ætla að ná góðum árangri á verðlaunaathöfnum, enda engin mynd jafnvel auglýst.

Mér finnst trikkið með óáreiðanlega sögumanninn ekki ganga upp, en skil samt hvað höfundarnir voru að fara.

Sýnishorn:


Indiana Jones rænir örkinni aftur

Þá er farið að styttast í Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull (hrykalegur titill) og fyrsta sýnishornið komið. Það sýnir okkur Indiana Jones (Harrison Ford) ræna örkinni úr Raiders of the Lost Arc úr bandarísku vöruhúsi, og Cate Blanchett (fær líklega Óskarinn fyrir I'm Not There) sem svarthærðan rússneskan njósnara. Einnig má sjá Ray Winstone (Beowulf | The Proposition) bregða fyrir og þeim sem fær líklega hattinn eftir þessa mynd, ungstjörnunni Shia LaBeouf (Transformers | Disturbia) .

Það verður spennandi að sjá hvernig tekst til hjá Harrison Ford. Nýlega hefur bæði Bruce Willis (Live Free or Die Hard) og Sylvester Stone (Rocky Balboa | Rambo) tekist að endurvekja eigin ferla á sextugsaldri. Nú er vonandi komið að Fordinum að slá í gegn einu sinni enn, og leika svo kannski Han Solo úr Star Wars einu sinni enn. Mér líst ágætlega á þetta sýnishorn, en samt nokkuð ljóst að Spielberg er ekki að rembast við frumleika í þetta skiptið. 

Ætlar þú að sjá Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull í bíó?


Rambo (2008) ****

 

Sarah Miller (Julie Benz) og unnusti hennar Michael Burnett (Paul Schulze) eru á leið til Búrma í átta manna hóp sem boðberar kristinnar trúar. Þau hafa heyrt af gereyðingu þjóðarbrota sem eiga sér stað og vilja koma einhverju góðu til leiðar með því að fræða og hjúkra fólkinu.

Þau reyna að fá bandarískan veiðimann gleraugnaslanga til að sigla með þau frá Tælandi til Búrma. Í fyrstu segir hann þvert nei, og bendir fólkinu vinsamlegast að fara heim þar sem enginn getur breytt neinu með bókum og hjúkrun í stríðshrjáðu landi, óvarin og vopnlaus. Loks samþykkir hann þó þegar Sarah spyr hann hvort að það sé ekki þess virði að bjarga þó ekki sé nema einu lífi. Svarið sem John Rambo (Sylvester Stallone) gefur með augnaráðinu er nóg til þess að áhorfendur viti að þessi eina manneskja sem hann telur þess virði að bjarga er Sarah Miller sjálf.

Rambo samþykkir að fara með hópinn til Búrma. Eftir að hafa slátrað nokkrum sjóræningjum og vakið þannig mikinn óhug meðal farþeganna, skilur hann þau eftir í Búrma og heldur sína leið. Sarah og Michael sinna þorpsbúum þar sem börn hafa misst útlimi vegna jarðsprengja og fólk er vart læst. Það býr við bágar aðstæður sem versna til muna þegar herinn ræðst á þorpið og slátrar nærri öllum þorpsbúum, og handsama Sarah og Michael, ásamt nokkrum öðrum.

Þegar ekkert hefur heyrst frá hópnum í tíu daga er Rambo beðinn að fylgja hóp málaliða á staðinn þar sem hann skildi þau eftir. Hann er ekki lengi að samþykkja, og býr sér til nýja sveðju áður en lagt er af stað. Málaliðahópurinn er eins og klipptur út úr Predator (1987) með Arnold Schwarzenegger. Þeir gera sér ekki grein fyrir hvers lags vígvél siglir bátnum, nema leyniskyttan sem kölluð er Skólastrákur (Matthew Marsden), en hann áttar sig á hvers lags náungi Rambo er.

Hópurinn vill upphaflega ekki fá Rambo með í björgunarleiðangurinn, enda gamall kall sem þeir halda að muni hægja á þeim, en hann fer samt, - og gerir það sem hann gerir best. Eins og hann segir sjálfur, það er jafn auðvelt fyrir hann að drepa og það er fyrir aðra að anda. Við tekur sérstaklega vel uppbyggður björgunarleiðangur.

Tæknilega er Rambo gífurlega vel heppnuð. Það er langur skotbardagi sem hefði alveg eins getað verið leikstýrður af Spielberg, en hann er án nokkurs vafa stolinn úr þeim 20 fyrstu mínútum af Saving Private Ryan sem mest umtal vakti á sínum tíma. Handritið hentar viðfangsefninu fullkomlega og Stallone leikstýrir af stakri snilld. 2006 leikstýrði Stallone Rocky Balboa og tókst það ómögulega, að gera bestu Rocky myndina frá upphafi. Nú endurtekur hann leikinn, og gerir bestu Rambo myndina frá upphafi.

Til viðvörunar, þá er Rambo gífurlega ofbeldisfull mynd þar sem mannslíkamar eru bókstaflega tættir í sundur. Hún höfðar til allra lægstu hvata áhorfandans, en hún gerir það vel og af hreinskilni, - Stallone þykist ekki vera að gera eitthvað annað en ógeðslega og blóðuga stríðsmynd um aldna ofurhetju. Það eru engar pólitískar ræður, aðeins augnaráð og ofbeldi sem segja margfalt meira en nokkur orð.

Ef þú ferð að sjá Rambo í bíó, skaltu ekki eiga von á Howard's End, ballett eða fínni óperu, heldur drullugum leðjuslag frá upphafi til enda. Rambo höfðar til sömu hvata og þeirra sem fylgjast með kappleikjum - þú ferð til að sjá þinn mann rústa andstæðingnum, og dáist að því hvernig hann gerir það. Hvort þú skammist þín eitthvað fyrir að hafa gaman af jafn viðbjóðslegu ofbeldi og birtist hér, er svo allt annar handleggur, - sem vekur reyndar áhugaverðar spurningar um áhrif ofbeldisfullra kvikmynda á ofbeldi í samfélaginu, - spurningar sem ég þykist ekki getað svarað.

Ég gef Rambo fjórar stjörnur af fjórum mögulegum (myndir komast ekki upp í fimm stjörnur hjá mér nema ég sjái þær tvisvar og gefi þeim í bæði skiptin fullt hús), vegna þess að hún gerir nákvæmlega það sem henni er ætlað að gera, hvorki meira né minna. Hún er formúlumynd sem hefði eins getað verið gerð í Hong Kong, en formúlumynd sem hittir á allar réttu nóturnar á öllum réttu augnablikunum.

Ég er viss um að fjölmargir gagnrýnendur muni gefa Rambo slaka dóma þar sem að hún höfðar ekki til þeirra, hún er ekki nógu gáfuleg, hún er ekki falleg, hún er með of miklu ofbeldi - en þannig á Rambo að vera. Rambo á ekki að vera gáfuleg, heldur má hún sýna hráar og ljótar tilfinningar, og aðalpersónu sem er algjörlega týnd í heimi sem er henni óskiljanlegur. Rambo er vonsvikinn einstaklingur sem finnst heimurinn illur og trúir að einungis ill meðöl geti breytt einhverju, og þá ekkert endilega til hins betra.

 

Sýnishorn úr Rambo: 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband