The Thing from Another World (1951) **1/2

Hópur hermanna úr bandaríska flughernum er sendur á rannsóknarstöð á Norðurpólnum þar sem vísindamenn urðu varir við fljúgandi furðuhlut. Stór hópur fer með herflugvél að svæðinu þar sem hluturinn lenti, og í ljós kemur að þetta er disklaga skip utan úr geimnum. Það hefur gefið frá sér mikinn hita, sokkið í ísinn sem fraus aftur saman. Ákveðið er að losa skipið með hitasprengjum, en það fer ekki betur en svo að þeir sprengja geimskipið í tætlur. Þegar þeir skoða svæðið finna þeir geimveru frosna undir yfirborði klakans, höggva bút úr ísnum og taka með heim í búðirnar.

Ákveðið er að geima veruna frosna, þrátt fyrir mótmæli vísindamanna, sem vilja rannsaka hana og vekja til lífsins. Einn af vörðunum yfir klakanum er svo gáfaður að leggja hitateppi sem er í sambandi ofan á ísinn, þannig að hann bráðnar, og veran losnar.

Fljótt kemur í ljós að þessi vera er langt frá því að vera vinsamleg. Hún ræðst á sleðahunda og drekkur úr þeim allt blóð. Það sama gerir hún við vísindamenn sem hún nær í. Hópurinn sér að nauðsynlegt er að drepa geimveruna, áður en hún næði að drepa þá og drekka úr þeim allt blóð. Vísindamaðurinn Dr. Carrington (Robert Cornthwaite) vill allt gera til að vernda geimveruna, en flugmaðurinn Patrick Hendry (Kenneth Tobey) vill hins vegar drepa hana sem allra fyrst.

Því miður er persónusköpun fyrir neðan allar hellur, fyrir utan kannski vísindamanninn Dr. Carrington, en samt er hann frekar klisjukennd flatneskja, en ekkert í samanburði við alla hina, sem eru eins og klipptir út úr klisjumetbók Guinnes. Það er lítið mál að fyrirgefa úreltar tæknibrellur, en staðnaðan og stirðan leik er erfiðara að fyrirgefa. Geimskrímslið er samt skemmtilega ógnvekjandi og það eru til nokkur atriði sem fá mann til að bregða.

Ég er viss um að The Thing from Another World hafi þótt frábær á sínum tíma, en hún hefur einfaldlega ekki elst vel, annað en hægt er að segja um endurgerð hennar frá 1982, The Thing, í leikstjórn John Carpenter. Maður sér bara betur hvílíkt þrekvirki John Carpenter hefur unnið með því að endurskrifa söguna frá grunni og skapa eftirminnilegar persónur sem erfitt er að gleyma.

Á meðan The Thing frá 1982 fjallaði um tortryggni og það hvernig samskipti og traust manna molna við erfiðar aðstæður, er 1951 útgáfan mun bjartsýnni á megn mannsins til að ráða við hverja þá ógn sem skotist getur upp á yfirborðið. Þó að ég sé frekar bjartsýnn maður, þá er ég hrifnari af raunsæju og jafnvel bölsýni John Carpenter, enda varð eitthvað til í því ferli sem er erfitt að gleyma.

 

Sýnishorn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gömlu trixin voru ekki eins flott, en þetta voru flottar myndir á sínum tíma. 

Ásdís Sigurðardóttir, 28.1.2008 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband