3:10 to Yuma (2007) ****

Dan Evans (Christian Bale) er bláfátækur nautgripabóndi sem er við það að fara á hausinn vegna mikilla þurrka. Hann skuldar 200 dollara en getur ekki borgað á réttum tíma. Hollander (Lennie Loftin) lánaði Evans peninginn upphaflega, en hefur meiri áhuga á að eignast land Evans heldur en að fá endurgreitt, því að hann sér fram á að geta stórgrætt á landeigninni þegar lestarteinar verða lagðir yfir svæðið. Hann sendir þrjótinn Tucker (Kevin Durand) til að brenna hlöðu Evans.

Þegar Dan Evans lætur þrjótana ganga yfir sig án þess að gera neitt í málinu, er fjórtán ára sonur hans, William (Logan Lerman) vonsvikinn og sár út í heigulshátt föður síns, og lætur hann pabba sinn heyra það. Stolt Dan Evans, sem misst hefur annan fótinn og hefur fengið örorkustyrk vegna þess, hefur verið illa sært. Honum finnst hann hafa brugðist fjölskyldu sinni.

Þegar Dan og synir hans tveir verða vitni að ráni á hestvagni þar sem fjöldamorðinginn og útlaginn Ben Wade (Russell Crowe) og gengi hans, hefur notað nautgripi Evans til að stoppa vagninn, og Wade tekur af þeim hesta þeirra, verður William enn sárari út í föður sinn en áður, og finnst hann vera mesti heigull í heimi. Dan er aftur á móti skynsamur að taka enga áhættu með syni sína tvo sér við hlið á móti heilu glæpagengi.

Einn lifir af árásina á vagninn, mannaveiðarinn Byron McElroy (Peter Fonda), og fer Dan með hann særðan í næsta bæ. Þegar yfirvöldum tekst að handsama Ben Wade, og Dan eru boðnir 200 dollarar til að fylgja honum að lestinni sem fer næsta dag kl. 3:10 til Yuma, ákveður hann að slá til, - enda hefur hann engu að tapa og til alls að vinna.

Sex manns ákveða að fylgja Ben Wade að lestinni, Dan Evans, mannaveiðarinn McElroy, þrjóturinn Tucker, dýralæknirinn hugdjarfi Doc Potter (Alan Tudyk), auðkýfingurinn Grayson Butterfield (Dallas Roberts)  og bóndasonurinn William Evans eltir þá án þeirra vitundar. Þessi hópur á eftir að lenda í miklum ævintýrum á leiðinni að lestinni, en þeir þurfa að kljást við ýmsar hættur á leiðinni, og þá allra verstu gengið hans Ben Wade, sem er rétt á eftir þeim með hinn grimma og trygga Charlie Prince (Ben Foster) í forystu.


Það áhugaverðasta við söguna er hvernig gagnkvæm virðing verður til á milli þeirra Dan Evans og Ben Wade, sem þróast upp í eitthvað allt annað og meira en samband fanga og varðar, eftir því sem að þeir lifa af fleiri hættur og hafa lært meira um hvorn annan.

 


Christian Bale og Russell Crowe sýna báðir stórgóðan leik, og eru studdir af frábærum leikarahóp þar sem Peter Fonda stendur upp úr, eins og persóna dregin upp úr hvaða Clint Eastwood vestra sem er. Ég skil ekki af hverju 3:10 to Yuma var ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin.

Í lokin kemur í ljós að lestin til Yuma er ekkert endilega lestin sem Dan Evans hefur hugsað sér að koma Ben Wade í, heldur myndhverfing fyrir hina þröngu og beinu leið. Mér fannst frummyndin frá 1957 hörkugóð, en 2007 útgáfan ennþá betri.

Sýnishorn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þessa ætla ég sko að sjá, takk fyrir góða umfjöllun að vanda.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.2.2008 kl. 19:56

2 Smámynd: arnar valgeirsson

hef hvoruga séð en ætti jú kannski að kíkja á báðar. var reyndar alltaf á leiðinni að sjá þá nýju. bale er dúndurleikari, ekki síst í american psyko.

arnar valgeirsson, 6.2.2008 kl. 20:34

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Verð að viðurkenna að mér leiðast vestrar en þessi hljómar ekki illa.

Steingerður Steinarsdóttir, 7.2.2008 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband