Færsluflokkur: Bloggar

Hugmynd um heimspeki

"Einn hefðbundinn skilningur á heimspeki er sá að hún sé endalaus leit þekkingar og skilnings á heiminum. Annar hefðbundinn skilningur er sá að hún sé heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum, vísindi allra vísinda. Hinn þriðji hefðbundni skilningur á heimspeki er sá að hún sé fræðigrein um hinstu rök og ástæður hlutanna, hún sé altækust allra fræða því að hún fjalli um undirstöðuatriði í skilningi okkar á veruleikanum." - Páll Skúlason, Pælingar II

 

Mig langar að grípa þessar pælingar Páls á lofti og velta aðeins vöngum yfir þeim. Vonandni finnst gjafmild heimspeki í slíkum vangaveltum. 

 

Leit þekkingar og skilnings á heiminum

Í þessari hugmynd felst heimspekin í manneskju sem leitar sannleikans, en þekking og skilningur á heiminum er ekkert annað en sannleikurinn. Þessi manneskja er oft kölluð heimspekingur eða heimspekileg, enda er það hegðun hennar og hugsun sem skilgreinir hana. Hún fær ákveðin verkfæri í þessa ævintýralegu leit, sem eru skynfæri hennar, rökhugsun og dómgreind. Takist henni að beita þessum verkfærum vel, er hún líklegri til að nálgast sannleikann heldur en með nokkrum öðrum verkfærum sem við þekkjum, eins og skoðunum, trú, innsæi og tilfinningum. Samt gæti verið áhugavert fyrir manneskjur sem stunda sömu leit en með ólíkum verkfærum að ræða saman og átta sig á hvað hvert og eitt okkar hefur fundið á lífsleiðinni, hvert leitin hefur leitt okkur.

 

Heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum

Þetta er frekar vandasöm hugmynd, þar sem stóra spurningin er hvort örugg þekking sé yfir höfuð möguleg. Við getum leitað að öruggri þekkingu bæði í stóru og smáu samhengi og áttað okkur á að hugsanlega sé enginn munur á öruggri þekkingu og trú. Reyndar er þar mikill munur, því trú getur byggt á nánast hvaða forsendu sem er, á meðan örugg þekking þarf að byggja á rökum sem hægt er að réttlæta með sönnunargögnum. Við getum vitað af öryggi að jörðin snýst um sólina, rétt eins og Bubbi, en getum við vitað hvað það þýðir, hvað jörðin og sólin eru bæði í hinu smáa samhengi einstaklingsins og stóra samhengi himintunglanna? Getum við skilið þetta samband af slíkum hreinleika að við byrjum ekki að skálda eitthvað til að átta okkur betur á hlutunum, og að okkar eigin skáldskapur villi okkur sýn? Er nóg að sjá samhengið með skýrum rökum, eða þurfum við að bæta einhverju kjöti á beinin?

 

Fræðigrein um hinstu rök og ástæður hlutanna

Þetta er í raun sú hugsun sem við heyrum stöðugt hjá börnum, oft áður en þau byrja í skóla og eru að velta fyrir sér öllu mögulegu í heiminum. Stundum reynum við að útskýra hlutina fyrir barni, sem jafnvel skilur ekki öll orðin sem við notum, hvað þá heiminn, og getur þá lítið annað gert en að beita því öfluga vopni sem undrunin er, og spyrja í sífellu: "Af hverju?" Það að spyrja af hverju við hverju svari er góð leið til að kafa djúpar í meiningu þess sem heldur einhverju fram. Það getur verið pirrandi að vera á hinum enda 'af-hverju-spurninga', en ef þú gerir þitt besta til að svara, þá muntu á endanum átta þig betur á eigin takmörkunum og skilningi, þú getur átt von á að uppgötva að þú vitir og skiljir ekki hlutina jafn vel og þú hélst. Og það eitt gefur þér aukna dýpt og þekkingu á þér og veruleikanum.


Dýrmætasta sameign Íslendinga?

"Oft er sagt að tungumálið sé dýrmætasta sameiginlega eign okkar Íslendinga. Önnur dýrmæt sameign eru hugmyndir og skoðanir á lífinu og tilverunni, sjálfum okkur og heiminum." (Páll Skúlason, Pælingar II, 1989)

 

Mig langar að pæla aðeins. Hugmyndin er alls ekki að svara þeim spurningum sem ég spyr, heldur hvetja þá sem lesa til að velta þessu líka fyrir sér, og gaman væri að sjá í athugasemdum hvort einhver hafi svör við einhverjum af þeim spurningum sem ég spyr. Það er örugglega einn og einn lesandi sem hefur gaman af þessu, jafngaman og ég hef af því að velta þessu lauslega fyrir mér, eins og litlum steini á þúfu og skoða aðeins hvað felst undir honum.

Tungumálið

Það er nokkuð augljóst að íslenska málið er eitt af okkar dýrmætustu sameignum, þó að málið virðist eiga mikið undir högg að sækja undanfarið, þar sem erfitt er að finna þann veitingastað eða hótel þar sem hægt er að bjarga sér á íslensku einni saman, innanlands. Þar sem íslenska tungan, augljósasta sameign okkar, kannski fyrir utan óveiddan fiskinn í sjónum stafar greinilega ógn af enskunni, væri kannski áhugavert að líta aðeins á þá hluti sem eru ekki jafn óþreifanlegir.

Hinn óveiddi fiskur í sjónum

Ólíkt Norðmönnum mega Íslendingar ekki leita sér eftir sjávarfangi á skipulagðan hátt nema eiga kvóta fyrir honum. Hvort við höfum leigt eða selt þessa sameign fáeinum einstaklingum veit ég ekki, en umræðan virkar frekar skrítin. Einhver sagði einhvern tíma að þjóðin gæti ekki átt neitt þar sem hún hefur ekki kennitölu fyrirtækis eða einstaklings. Hvernig ætli málum sé farið í dag? Má ég kaupa mér trillu eða togara og fara út á sjó og veiða í íslenskri lögsögu? Má ég það ef ég sel ekki aflann, nota hann bara sjálfur?

Hugmyndir og skoðanir um lífið og tilveruna

Skoðanir Íslendinga um lífið og tilveruna eru allskonar, en samt öðruvísi en annarra þjóða. Okkur virðist frekar annt um að hlusta á rök og vísindi, við stefnum að jöfnuði að því er virðist óháð stjórnmálaflokki, við höfum ekki mikinn áhuga á stéttaskiptingu og viljum geta verið stolt yfir afrekum okkar í sameiningu. Við elskum það þegar strákarnir og stelpurnar okkar gera góða hluti á alþjóðlegum vettvangi og nærumst mikið á sameiginlegum sigrum. Einnig stöndum við þétt saman þegar við töpum. Er þetta nærri lagi? 

Hugmyndir og skoðanir um sjálf okkur

Hvert og eitt okkar hefur rétt til að hugsa sjálfstætt. Við megum trúa því sem við viljum, hvort sem það er byggt á trúarbrögðum eða vísindum. Hins vegar viljum við helst ekki að trúarbrögð og vísindi stangist á, því sagan hefur sýnt okkur að á endanum verða vísindin yfirleitt ofan á, sama hversu mikil þrjóska og einurð stendur á bakvið kreddur og hindurvitni. Við teljum flest okkar gott að vera sjálfstæð, finnst réttlátt að kynin séu jöfn, finnst að börn okkar eigi að fá menntun og að fullorðnir eigi að fá tækifæri til að fóta sig hvar svo sem þeir eru staddir félagslega. Við getum verið gríðarlega eigingjörn, og við getum líka haldið af ofstæki með félagsliði, stjórnmálaflokki eða trúfélagi, en á endanum erum við flest til að vega og meta hvar við stöndum út frá skynsamlegum rökum frekar en hreinni tilfinningu. Er þetta nærri lagi?

Hugmyndir og skoðanir um heiminn

Hvernig ætli Íslendingar líti á heiminn? Sjáum við hann útfrá árstíðum okkar, útfrá því hvað sumarið á Íslandi er bjart, hlýtt (stundum) og skemmtilegt, en veturinn myrkur, kaldur og drungalegur? Hefur það áhrif á hvernig við metum hvert annað og mannlíf á Jörðu? Hefur það hvað við erum fámenn áhrif á hvernig við sjáum heiminn? Hefur aðgengi okkar að hreinu vatni og lofti áhrif á hvernig við skynjum og skiljum heiminn? Hefur aðgengi okkar að heimsfréttum, samfélagsmiðlum, Internetinu, sjónvarpsefni og tölvuleikjum einhver áhrif á hvernig við sjáum og skiljum heiminn? Erum við önnur þjóð í dag heldur en fyrir hundrað árum? Erum við önnur þjóð í dag en fyrir þúsund árum? Hvernig verðum við eftir hundrað eða þúsund ár, ennþá sama þjóðin, með sameiginlega sýn á heiminum? Eða breytumst við einfaldlega út frá tíðarandanum og náttúrunni og heimsmynd okkar með?

 


Hvað er góð kennslustund?

campaign-creators-gMsnXqILjp4-unsplash

Hefurðu einhvern tíma setið á námskeiði þar sem leiðbeinandi eða kennari talar allan tímann og reiknar með að allt sem hann eða hún segir skiljist af nemendum sínum, og spyr svo kannski í lok tímans, "hafið þið einhverjar spurningar?"

Það er ekki kennsla, heldur fræðsla. Fræðslu er hægt að fá víða. Þú getur kveikt á sjónvarpstækinu og fræðst um heil ósköp um hvað sem er, getur keypt eða leigt þér bækur, og ef þú lest þær vel, geturðu fræðst af þeim. Ein vinsælasta leiðin til að fræðast í dag er með því að Googla eða horfa á YouTube myndbönd. Mjög gagnlegar leiðir. 

Eitt af því áhugaverða við fræðslu er að við öll túlkum hana á ólíkan hátt, út frá fyrri þekkingu okkar og reynslu, því við reynum stöðugt að tengja það sem við lærum við eitthvað sem skiptir okkur lífi í málinu. Þegar þessi þörf er uppfyllt gerist eitthvað merkilegt í okkur.

Kennsla gerist þegar umhverfi fyrir nám hefur verið afmarkað í tíma og rúmi, hvort sem það er í skólastofu, úti í skógi, inni í verksmiðju, á skrifstofu, eða á netinu. Sett hafa verið skýr námsmarkmið um hvað skal læra og jafnvel mörg undirmarkmið sem saman vinna að stóra markmiðinu. Þegar þú ert í kennslustund áttu ekki bara að sitja kyrr, þegja og glósa, heldur þarftu að fá virkni, þú þarft að æfa þig að nota hugtökin sem þú ert að læra með því að skrifa um þau eða ræða þau með félögum þínum, og ef þú ert að læra um að nota eitthvað verkfæri, sama hversu lítið eða stórt, einfalt eða margbrotið, þá þarftu fyrst að fá upplýsingar um til hvers það er notað, og hvað þér verður kennt um notkun þess, og síðan þarftu að æfa þig í notkun þess. 

Þetta er alls ekki flókið, en getur verið það. Kennarinn þarf nefnilega að þekki viðfangsefnið ansi vel, og vera nógu opin manneskja til að átta sig á að nám streymir ekki frá kennara eða námsefni til nemenda, heldur tengist það þörfum og reynslu nemenda, sem þurfa að átta sig á merkingu viðfangsefnisins út frá eigin forsendum og í tengslum við fyrri reynslu til að átta sig á af hverju það gagnast þeim. Þegar við áttum okkur á hvernig hlutirnir gagnast okkur er eins og dauf pera lýsi upp huga okkar, og okkur langar að læra, og við bæði getum og gerum það.

Mitt eftirlætis tæki er mannshugurinn og þá sérstaklega gagnrýnin og skapandi hugsun sem stýrt er af umhyggju. En þannig er ég. Mér finnst fátt skemmtilegra en að kenna heimspeki, sem snýst nákvæmlega um þetta. Í öllum þeim heimspekitímum sem ég hef kennt hefur mér tekist að bæta við eigin þekkingu og kunnáttu, og læri sjálfur af því að kenna öðrum. Fátt er skemmtilegra.

Þitt eftirlætis tæki gæti verið Excel, hamar, bor, flutningabifreið, og þar fram eftir götunum. En öll þessi tæki eiga það sameiginlegt að ef við ætlum að beita þeim vel, þá þurfum við að læra að beita þeim. 

Að komast í kennslustund hjá manneskju sem skilur hvernig við lærum, skilur að við þurfum að ræða saman til að átta okkur á hlutunum áður en við köfum af dýpt í tækið sem við ætlum að læra á, þurfum aðeins að átta okkur á aðstæðunum þar sem við getum notað tækið, og þurfum að skilja út frá eigin forsendum af hverju við viljum læra um það, slík kennslustund og röð kennslustunda er fjársjóður sem geggjað er að finna.

Það er óragrúi af tækifærum fyrir svona nám á Íslandi, í barnaskólum, framhaldsskólum, háskólum, á símenntunarstöðvum, og hjá einstaklingsreknum fyrirtækjum sem sum bjóða námsferli, og önnur sem kenna innanhús. Það er sannur fjársjóður að komast í slíkt, sérstaklega þegar kennarinn veit hvað hann er að gera og kann vel á tækið sem hann kennir nemandanum að nota. Við erum gríðarlega heppin að hafa vel menntaða kennara sem fylla flestar stöður og sinna starfi sínu vel, og háskólastofnanir sem styðja stöðugt við bakið á kennurunum með framboði á námi fyrir þessa stétt, sem öllum fremur þarf stöðugt að vera í símenntun, því ef það er eitthvað sem ég veit um þekkingu, þá fyllist sá tebolli aldrei og það flæðir heldur aldrei upp úr honum.

Allt nám snýst um að læra á einhvers konar tæki, hvort sem tækið er veraldlegt eða andlegt, jafnvel siðferðilegt, það er eitthvað sem við þurfum að læra að nota.

Við lærum á tækið 'lestur' til að lesa, við lærum á tækið 'heimspeki' til að hugsa betur, við lærum á tækið 'ritlist' til að skrifa betur, við lærum á tækið 'akstur' til að keyra bíl og svo frameftir götunum.

Getur þú sagt mér hvað einkennir góða kennslustund að þínu mati?

 

Mynd eftur Campaign Creators á Unsplash  


Erum við að stela þegar við deilum ekki af sjálfum okkur?

SethGoden
 
"Ef þú hikar við að markaðssetja það sem þú hefur fram að færa er málið ekki feimni eða að þú sért tvístíga. Það er að þú ert að stela, vegna þess að einhver gæti þurft að læra frá þér, taka þátt með þér eða kaupa frá þér." (Seth Godin, This is Marketing, bls. 250 - þýðing HB)
 
Þessa dagana tek ég þátt í námskeiði hjá Háskóla Íslands sem ber heitið "Markaðssetning fyrir fullorðna námsmenn". Kennarar eru Hróbjartur Árnason og Magnús Pálsson. 
 
Hróbjartur sagði okkur sögu af bandarísku pari sem fór til Víetnam og þorps inni í landi þar sem fréttir höfðu borist að börn væru illa nærð. Þegar parið hafði skoðað aðstæður í þorpinu sá það að börn voru almennt vannærð, og spurðu hvort það væru einhverjar undantekningar frá reglunni, hvort einhver börn voru vel nærð. Jú, einhver börn voru að fá næringu, en lifðu samt við sambærilegar aðstæður. Fór þá parið og heimsótti foreldra þessara barna og spurðu þau hvernig stæði á því að börn þeirra væru ekki í sömu neyð og önnur börn. Þau útskýrðu að þau veiddu rækjur úr nærliggjandi vatni sem þau bættu út í hrísgrjón og fengu þannig nauðsynlega næringu. Parið fékk þess foreldra til að kenna öðrum í þorpinu þessa aðferð og tókst þannig að leysa þennan vanda um vannærð börn. Það gerðu þau og urðu þannig að áhrifavöldum í þorpinu.
 
Hugsum okkur hvað þessi fræðsla hafði mikið að segja fyrir fólkið í þorpinu. Við hefðum kannski getað ímyndað okkur að lausnin á vandanum væri að senda pening eða mat til þorpsbúa, halda söfnun, en svo kemur í ljós að fræðsla og yfirfærsla þekkingar gat leyst vandann með frekar lítilli fyrirhöfn og kostnaði, og ekki bara í augnablikinu heldur hugsanlega margar kynslóðir fram í tímann.
 
Ég velti fyrir mér þessum tveimur hugmyndum, þegar við vitum og skiljum eitthvað betur en aðrir, hvort að okkur beri skylda til að fræða aðra um slíka þekkingu, eins og Seth Godin minnist á og þá hvernig við komum þessari þekkingu á framfæri.
 
Ef við höfum góða reynslu og þekkingu af alls konar hlutum, ættum við að miðla öllu því sem við þekkjum, eða væri betra að pakka einhverju af okkar þekkingu og skilningi inn og markaðssetja innan ákveðins ramma?
 
Væri betra að velja sér eitt áhugasvið og gera því góð skil eða velja mörg svið og taka þá áhættu að maður fleyti kellingar á yfirborðinu frekar en kafi djúpt?
 
Nú er ég farinn að velta fyrir mér hverjir mínir eigin styrkleikar eru, hvað ég veit og skil, og hvort að deila 'mér' með öðru fólki á opinberum vettvangi geti gefið samfélaginu einhver verðmæti? Og ég velti fyrir mér hvort það sé mín skylda að átta mig á þessu, og þá að deila þeirri þekkingu og skilningu sem ég hef safnað að mér á lífsleiðinni. Getur virkilega verið, að ef ég geri þetta ekki, eins og Seth Goden meinar, að ef ég geri þetta ekki, sé ég í raun þjófur?
 
 
Það er kannski djúpt í árina tekið. Hugsanlega ekki samt. Eins og Magnús minntist á í einum tímanum: við erum öll kraftaverk. Ber okkur ekki að deila af þessu kraftaverki sem hvert og eitt okkar er?
 
Erum við að stela þegar við deilum ekki af sjálfum okkur?

Getum við vitað þegar einhver lýgur að okkur?

mental-illness-4364348_1280

Við ljúgum þegar við viljandi segjum einhverjum öðrum eitthvað ósatt. En að vita hvenær einhver gerir eitthvað viljandi eða óviljandi er næstum ómögulegt að átta sig á. Við getum trúað einhverju um ætlun annarra, en við getum aldrei fyllilega vitað það.Erfitt verður að sanna þá ásökun að einhver hafi yfir höfuð logið, því þá ertu að gefa þér að þú vitir bæði hvað viðkomandi gerir viljandi.

Þegar við tölum um hvort að einhver sé að ljúga, erum við í raun sjálf að ljúga, því við vitum ekki hvað viðkomandi hefur gert viljandi. Við getum ekki lesið hugsanir annarra, við getum í mesta lagi giskað eða dregið ályktanir, en náum aldrei fullvissu. Í mesta lagi vitum við að þegar við teljum einhvern ljúga, er að hann eða hún er að segja ósatt, og þá kannski bara hugsanlega. Það getur verið að við vitum ekki einu sinni hvort að viðkomandi hafi verið að segja ósatt, því kannski hefur hann eða hún meiri eða minni upplýsingar en við og túlkar þær á annan máta, jafnvel út frá ólíkri heimsmynd. Þannig að þegar við teljum einhvern vera að ljúga getur vel verið að við höfum rangt fyrir okkur. 

Hins vegar þegar einhver segir eitt við eina manneskju og svo andstæðuna við aðra manneskju, þá er ljóst að viðkomandi er annað hvort að ljúga eða hefur ekki nógu mikla greind til að vera samkvæmur sjálfum sér. Jafnvel þó að við vitum að viðkomandi hafi fengið áreiðanlegar upplýsingar, og heldur svo öðru fram, þá getum við ekki dæmt um hvort að viðkomandi sé að segja viljandi ósatt, eða hvort að hann sé bara ósáttur við veruleikann og sannleikann. Hann gæti verið öfgafullur efahyggjumaður, narsisískur sjálfsdýrkandi, eða bara algjörlega villtur í heimi skynsamlegra röksemda. Margt kemur til greina.

En það að vera ekki þess valdur að segja satt hlýtur samt að vera á ábyrgð hvers og eins. Við hljótum að bera nógu mikla ábyrgð á eigin menntun og þekkingu til að afla okkur fróðleik um hluti sem skipta máli, við berum ábyrgð á okkar eigin hugsunum og gerðum, að við beitum hugsuninni til að átta okkur á hvað er satt og rétt, til að við getum gert skyldu okkar í samræmi við það sem er satt og rétt. Einnig ber okkur að fylgjast nógu vel með hlutum sem eru að gerast til að geta tekið ákvarðanir í takt við tímann, en við þurfum samt alls ekki að þekkja hvert einasta málefni í kjölinn. Yfirborðskennd þekking á því sem er í gangi er yfirleitt nóg, en dýpri þekking á málefnum sem tengjast störfum gæti krafist þess af okkur að treysta þeim sem vita betur.

Við getum lifað lífi okkar án þess að hafa djúpa þekkingu á einu eða neinu og án þess að styðjast við rök eða hugsa hlutina vel, en slíkt leiðir líklega til tómlegra og leiðinlegra lífs en þeirra sem vita og skilja meira, því að þeir sem hafa þekkinguna sjá fleiri möguleika til að vaxa og dafna.

Þegar við leitum ekki þekkingar eða skilnings á okkar innri og ytri veruleika, þá erum við líklegri til að blekkja sjálf okkur og þegar við tölum við aðra er líklegra að við förum með ósannindi. Hvort sem þessi ósannindi eru viljandi eða ekki, geta þau hæglega skaðað orðspor okkar, jafnvel þannig að við fáum það orð á okkur að vera fáfróð eða lygarar. Þessir stimplar þurfa ekkert endilega að vera sannir til að hafa áhrif. 

Gleymum því ekki að fáfróð manneskja getur lært og sú sem við teljum ljúga sér heiminn kannski allt öðruvísi en aðrir, og telur sjálfan sig ekkert endilega vera að ljúga, þó að hann lifi í sjálfsblekkingu.

 

Mynd eftir mohamed Hassan frá Pixabay


Þekkjum við okkar ytri og innri veruleika?

ECAF9A84-F1F8-4803-84B5-D5C543A0E828

Við lifum samtímis í tveimur veruleikum; innri veruleika sálarlífsins og ytri veruleika heimsins. Báðir eru þessir veruleikar gríðarlega stórir og upplýsingar um þá takmarkaðar. 

Upplýsingar um hinn ytri veruleika kemur frá skynfærum okkar, vísindalegum rannsóknum og samansafnaðri visku, og reyndar stundum fáfræði sem við höfum erft frá fyrri kynslóðum. En þessi erfða þekking (eða trú) tengir þessa tvo veruleika saman í sérhverri manneskju.

Lögmálin á bakvið það að kynnast sjálfum og innri veruleika eru allt önnur en þau sem við notum til að læra um hinn ytri veruleika. 

Við getum lært ýmislegt um hinn innri veruleika, bæði persónulegan og samfélagslegan, með því að lesa og læra heimspeki, bókmenntir, listir, tungumál og nánast allt það sem við kemur hugvísindum.

Það er samt sífellt stór spurning hvenær hægt er að alhæfa eitthvað um þessa óskildu veruleika. Hvenær vitum við eitthvað með fullri vissu um hluti í þeim báðum, og hvenær er það sem við teljum okkur vita aðeins trú, sem verður hugsanlega augljós framtíðar kynslóðum en er okkur hulin í dag?


Hvernig geta reiðiköst gert þig að betri manneskju?

 bulb-1994881_1920

Þegar við reiðumst getum við algjörlega tapað okkur eins og lýst var í fyrri grein, við heyrum hvorki né sjáum. Það er mögulegt að bregðast við með því að telja upp að tíu og síðan afturábak á núllið. En hvað svo?

Það sem gerist þegar við höfum byggt okkur upp svar við reiðinni, eitthvað viðbragð sem sefar tilfinningarnar og skerpir hugann, þá náum við áttum og getum valið hvort við vörpum reiðinni fyrir borð eða skoðum hana betur til að læra af henni.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að halda reiðinni aðeins lifandi og átta sig á að hún er aðeins innri veruleiki, en ekki veruleika allra annarra sem lifa í þessum heimi, og gefa okkur tíma til að greina hana. Hægt er að velta fyrir sér orsökum hennar, hvað varð til þess að hún blossaði upp? Þegar við höfum skoðað þessar forsendur getum við lært eitthvað um okkur sjálf, eitthvað sem getur breytt lífi okkar til hins betra.

Veltu fyrir þér augnabliki þar sem þú reiddist síðast. Hvernig voru aðstæðurnar? Hvað gerðist til að koma reiðinni í gang? Hvernig brást fólkið í kringum þig við? Var reiðin réttlát eða byggð á eigin vanþekkingu eða misskilningi? Hvernig tókst þér að hemja tilfinninguna og hvernig tókst þér að greina orsökina?

Ef þú veltir þessu aðeins fyrir þér ertu líklegri til að taka stjórnina næst þegar eitthvað kveikir á þessari tilfinningu sem deyfir öll skynfærin.

 

Mynd eftir SAFA TUNCEL frá Pixabay


Hvernig bregstu við eigin reiði?

fist-1148029_1920 

Hver kannast ekki við það að hafa allt í einu fundið til mikillar reiði, svo mikillar að maður hvorki sér né heyrir neitt lengur, heldur hefur ríka tilhneigingu til að bregðast við?

Við stjórnum reiðinni misjafnlega vel. Sumir hafa stuttan kveikiþráð, aðrir lengri. Sumir átta sig á mikilvægi þess að láta hugsunina ráða ferðinni, aðrir leyfa tilfinningunum að taka völdin. 

Þeir sem leyfa reiðinni að taka völdin eru fljótir að bregðast við alls konar áreiti, jafnvel þó að stundum væri betra að gera ekki neitt. 

Það er margt sem getur vakið í okkur reiðina, en það er yfirleitt eitthvað sem stríðir gegn okkar lífsspeki, hvort sem hún er djúp eða grunn. 

Mikið af fólki fær útrás fyrir reiðinni með alls konar hætti, til dæmis gerist það þegar það fylgist með íþróttaleikjum, og þá er oft auðvelt að reiðast andstæðingum þess sem að maður heldur með eða dómaranum. Það losar um eitthvað að geta rifist út af einhverju sem gerðist.

Svona útrás er hægt að fá með því að lesa sögu, fara í leikhús, horfa á sjónvarpsþátt eða kvikmynd, því sögurnar búa til persónur sem við getum haldið með og séð sjálf okkur í, og svo þegar illmenni gerir eitthvað á þeirra hlut, þá bregst persónan misjafnlega við áreitinu, en það sem hún lendir í kallar á áhuga okkar og viðbrögð.

Þetta er allt góður undirbúningur fyrir augnablikin sem við finnum fyrir réttlátri reiði í lífinu sjálfu, þegar einhver gerir á okkar hlut, stelur eða lýgur, brýtur einhvern veginn gegn okkur. Þá verðum við kannski búin að fá einhverja þjálfun í hvernig best er að bregðast við, með því að skoða okkar eigin viðbrögð í leik eða sögu.

Þau sem velta þessum hlutum fyrir sér eru líklegri til að ráða við eigin reiði, en þau sem gera það ekki eru líkleg til að gera eða segja eitthvað sem þau sjá síðan eftir. Slík reiðiköst geta haft afdrifaríkar afleiðingar í samskiptum við annað fólk, þegar kemur að starfsfélögum, vinum og fjölskyldu. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að afsökunarbeiðni sé nóg þegar einhver hefur leikið af sér í reiðikasti. 

En þegar maður reiðist, þá gerist þetta óhjákvæmilega. Maður hættir að hlusta og fylgjast með. Það verða svo mikil læti innra með manni að ekkert annað kemst að. Gamalt heimilisráð er að telja hægt upp að tíu og ef það dugar ekki telja aftur á bak frá tíu til núll. Það virkar ekkert endilega alltaf, en öðru hverju ætti það að duga.

Ég velti svolítið fyrir mér hvort að skapið okkar sé eitthvað sem okkur er gefið frá fæðingu og verður aldrei stjórnað, eða hvort við getum lært inn á okkar eigin skap og lært að stjórna því. Það held ég að sé hægt að einhverju leyti, en kannski blossar skapið alltaf upp í okkur misjafnlega sterk og kannski er það í sjálfu sér óviðráðanlegt, og það eina sem við getum gert er að stjórna viðbrögðum okkar, þegar við höfum vit á því.

Mynd eftir wendy CORNIQUET frá Pixabay


Getum við valið gleði eða depurð?

theatermasken-2091135_1920 

Þú stendur fyrir framan aftökusveit með bundið fyrir augun. Hendur þínar eru reyrðar fyrir aftan bak og fæturnir bundnir við staur. Geturðu eitthvað gert í málunum? Maðurinn sem stjórnar aftökusveitinni byrjar að telja niður. Þú getur ekki losnað úr þessum fjötrum. Það er deginum ljósara. Og síðasta augnablikið nálgast, þegar hann telur niður í núllið og sjö skyttur skjóta þig í spað. Hvað geturðu gert?

“Ekkert” segja kannski sumir. “Hert upp hugann” segja aðrir. Sætt þig við orðinn hlut. Grátið beiskum tárum kannski?

Taktu eftir að þarna hefurðu val, eitthvað sem skiptir kannski ekki máli fyrir það sem mun gerast, en getur skipt máli fyrir þig. Þú getur ákveðið að grenja og kveina, skjálfandi míga í þig og berjast um þar til yfir líkur, eða þú getur ákveðið að standa keikur, verið kátur og reifur, brosað framan í aftökusveitina.

Hvort tveggja er hægt, en síðarnefnda leiðin krefst ákveðins aga og hugarfars. Það breytir kannski ekki því sem gerist, en það getur breytt hvernig þú tekur hlutunum sem þú hefur enga stjórn á. 

Til allrar hamingju lendum við ekki fyrir framan aftökusveit dags daglega í hinu daglega lífi, en við lendum samt í ýmsu. Við upplifum fráfall ástvinar, lendum kannski í bílslysi, eigum erfitt með að stjórna þyngd okkar og heilsu, hugsanlega vegna veikinda sem maður getur ekki stjórnað. Margt getur gerst og margt gerist. 

Það er sama hvað gerist, þú getur stjórnað hugarfari þínu, hvernig þú bregst við, hvernig þú ákveður að hugsa, hvernig þú ákveður jafnvel að láta þér líða, hugsanlega andlega vel jafnvel þó að þú þjáist líkamlega.

Við getum ákveðið okkar eigið hugarfar, sama hvað við tökum okkur fyrir hendur. Og sama hvað gerist, við getum haldið í þetta hugarfar ef það er það sem okkur langar að gera. 

Stóuspekingurinn Epítekt ákvað að meta efnislega hluti og sambönd einskis. Þetta eru hlutir eða sambönd sem koma inn í líf okkar og fara síðan aftur. Það væri útilokað að halda þeim að eilífu. Samt reynum við að halda þeim sem okkur þykir vænt um að eilífu, og fyllumst djúpri sorg þegar þetta sem við elskum hverfur úr lífi okkar. En það er hægt að stilla hugarfarið þannig að þetta eru einfaldlega viðbúnir atburðir í lífinu; svona gerist og það er ekkert sem við getum gert við þeim, annað en ákveðið hvernig áhrif hvarf þessara hluta og sambanda mun hafa á hug okkar og tilfinningar.

Þetta er ansi köld leið til að horfa á heiminn, en hún er möguleg. Hugsanlega er hún fýsileg fyrir þá sem þjást mikið í þessu lífi, því þá gætu þeir fundið leið til að horfast í augu við hörmungar með brosi á vör og hugrekki í hjarta, og jafnvel finna til hamingju innan eigin takmarkana og heimsins, í stað þess að bugast af sorg.

 

Mynd eftir Christian Dorn frá Pixabay


Ættu hinir skynsömu að skera upp herör gegn ósannindum?

chess-1483735_1920

Skynsemin er í sjálfu sér sára einföld. Hún snýst um að við söfnum að okkur áreiðanlegum upplýsingum og áttum okkar á sambandinu milli þeirra.

Hins vegar getur reynst erfitt að átta sig á hvaða upplýsingar eru áreiðanlegar eða ekki. Einnig getur okkur þótt erfitt að tengja þessar upplýsingar saman með ferlum sem fylgja lögmálum rökfræðinnar.

Hvernig finnum við áreiðanlegar upplýsingar? 

Þær koma frá áreiðanlegum aðilum, en þær eiga það sameiginlegt að rökfærslur byggja á sterkum sönnunargögnum og tengjast staðreyndum eða sannreynanlegum atvikum. Þessar upplýsingar eru hægt að finna í vísindagreinum og bókum, fagtímaritum og fréttagreinum. 

Efasemdamaður gæti spurt hvort við gætum yfir höfum treyst fréttaveitum. Svarið hlýtur að vera að sumu er hægt að treysta en öðru ekki. Við þurfum að átta okkur á áreiðanleika fréttamanna, hvernig þeir fara með efnið sem þeir vinna með, og hvort þeir fari eftir lögmálum rökfræðinnar. Ef þeir lenda stöðugt í rökvillum eða segja ósannindi vitum við að þeim er ekki treystandi. Þegar það gerist og slíkt sleppur óhindrað í gegnum ritstjórn fréttamiðilsins, þá höfum við góða ástæðu til að efast um gæði miðilsins.

Hver eru lögmál rökfræðinnar?

Í stuttu máli felst rökhugsun í því að hugsun fari eftir gildum leiðum, að annars vegar sé hægt að finna niðurstöðu út frá ákveðnum upplýsingum, eða finna upplýsingar út frá ákveðnum niðurstöðum. Fyrri leiðin er kölluð afleiðsla en sú seinni kallast aðleiðsla. 

Afleiðsla byggir á að við höfum fundið einhverjar sannar setningar sem hægt er að nota til að finna sannindi sem leiða af þeim. Til dæmis vitum við að allar manneskjur eru dauðlegar, og að þú kæri lesandi ert manneskja. Þar af leiðandi get ég dregið þá ályktun að þú sért dauðlegur. Þetta er frekar skýrt og skorinort. Það eru til ýmsar leiðir til að átta sig á hvort að fullyrðing sé sönn, en mikilvægt er í röksemdarfærslu að allar fullyrðingar séu sannar, annað hvort dregnar af staðreyndum, lögmálum eða almennum sannindum, til að hægt sé að finna niðurstöður. 

Aðleiðslan er snúnari, því þar þarf að draga ályktanir, nánast með ágiskunum. Því þar byrjum við á niðurstöðunni. Við vitum eitthvað, til dæmis að hafið sé blautt, og út frá þessari staðreynd reynum við að átta okkur á af hverju hafið sé blautt. Efnafræðingar eiga sjálfsagt auðvelt með að finna viðtekin vísindaleg rök fyrir þessu í dag, en fyrr á öldum gat fólk ímyndað sér alls konar forsendur, eins og að guðlegar verur hafi skapað bleytuna í sjónum, og það þótti bara nóg útskýring og allt annað firra. Mig grunar að aðleiðslur hafi verið forsendur trúarbragða frá örófi alda, að þar hafi verið reynt að útskýra alls konar hluti, en án þess að rökstyðja þá vel, þessi í stað með því að finna svör og ákveða að þau væru eitthvað sem ekki mætti hræra við. Til dæmis er þessi hugmynd mín aðleiðsla, en þér er velkomið að gagnrýna ályktun mína. Hún er ekki heilög á neinn hátt og ég get auðveldlega haft rangt fyrir mér. Vandinn verður hins vegar meiri þegar trúin á forsendurnar verður það sterk að ekki má gagnrýna hana á nokkurn hátt lengur.

Óvinir skynseminnar

Óvinir skynseminnar eru allir þeir sem hafna þessu tvennu, að nota áreiðanlegar upplýsingar og fara eftir gildum reglum rökhugsunar til að komast nær sannleika hvers máls.

Málið flækist þegar trúin hefur orðið að trúarbrögðum, og kynslóðir fólks hefur fylgt þeim gildum sem felast í þeim sögum sem trúarbrögðin segja frá, sögum sem fléttast inn í ólíka menningarheima, og reynast stundum mynda þræði sem hjálpar fólki að átta sig betur á eigin tilveru. Þó að líklegast sé notkun skynseminnar besta leiðin til að átta sig á eigin tilveru, þá er ekki ljóst að það sé nóg. Það er alls ekki öruggt að við getum greint allar sögusagnir, lygar, ósannindi, hindurvitni frá sannindum, og enn síður ljóst að við séum tilbúin að fórna þeim gildum sem geta falist í slíkum sögum. 

Það er nefnilega hægt að finna áhugaverða dýpt og gildi í sögum um álfa, tröll, drauga, engla, fórnir, kraftaverk og allskonar svoleiðis, þó að við viðurkennum ekkert endilega sanngildi þeirra. 

Til eru manneskjur sem telja öll ósannindi vera slæm, sérstaklega þegar heilu menningarsamfélögin eru farin að trúa á þau. Ég aftur á móti vill varast að draga svo herskáar ályktanir, því trú og sögur eru hluti af því hvernig ólíkir menningarheimar tengjast og mynda heild. Ég er ekkert viss um að heimurinn yrði betri ef tekist að afhjúpa og útrýma öllum ósannindum. Hugsanlega yrði hann fátækari fyrir vikið. 

Síðan eru til manneskjur sem telja vísindin og hreina skynsemi slæma, og hafna jafnvel augljósum sannindum vegna þess að þau henta ekki, og eru tilbúnar til að hlusta á og dreifa ósönnum upplýsingum, samsæriskenningum og lygum, einfaldlega vegna þess að það fellur að þeirra hugmyndaheimi. Þessar ósönnu upplýsingar ná sífellt til fleiri einstaklinga sem hafa hugsanlega ekki vilja, þekkingu eða getu til að beita gagnrýnni hugsun, og gera greinarmun á því sanna og ósanna. 

Þetta er stórt vandamál. Ættu hinir skynsömu að skera upp herör gegn ósannindum, rétt eins og þeir sem dreifa ósannindum skera upp herör gegn hinum skynsömu?

 

Mynd eftir klimkin frá Pixabay


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband