Færsluflokkur: Bloggar
Af hverju fyrirlítur sumt fólk frelsið?
20.5.2021 | 21:59
Í bandarískum stjórnmálum er talað um íhaldið gegn frjálshyggju, á meðan íhaldið á Íslandi þykist að minnsta kosti aðhyllast frjálshyggju. Það gleymist stundum að frelsið er lykilhugtak hjá lýðræðisríkjum, að fólk sé frjálst til að kjósa og lifa lífinu eins og það velur að gera það.
Af einhverri ástæðu hefur risið upp mikil andstaða við frjálshyggju þar í landi sem hlýtur að vera byggð á misskilningi, því ef þú ert á móti frjálshyggju, ertu á móti því að gefa fólki frelsi til að kjósa, og vilt frekar fá einhvers konar einræði yfir þig, vilt að völdin fari frá lýðnum og þess í stað til einhvers hóps sem mun fara með völdin. Á tímabili hélt ég næstum að Trump yrði kóngur yfir Bandaríkjunum, enda stjórnaði hann landinu meira eins og einráður myndi gera heldur en lýðræðislega kosinn þjónn þjóðar.
Ég hef rætt við bandaríska vini mína um frjálshyggjuna (liberalism), og þeir hafa sumir (en alls ekki allir) með andstyggðartóni notað hugtakið liberals eins og einhvers konar blótsyrði. Þá hef ég vinsamlegast spurt hvort að viðkomandi hafi eitthvað á móti frelsinu sem slíku, og fengið það svar að svo sé ekki, og síðan bent á að liberal þýði manneskja sem aðhyllist frelsi fyrir manneskjuna, og þá fyrir þær allar frekar en einhverjar útvaldar. Oft stoppuðu samræðurnar þar. Það er eins og merkingin hafi horfið úr orðinu.
En ef við veltum þessu með frelsið aðeins meira fyrir okkur. Mannkynið hefur í árþúsundir alls ekki verið frjálst. Fólk hefur verið bundið í þrældóm, þeir sem hafa átt minna eða lært minna hafa ekki fengið atkvæðisrétt og konur hafa verið útilokaðar frá kosningum. Það hafa verið konungsríki við völd, prestastéttir hafa ráðið samfélögum, og núna í tiltölulega stuttan tíma hefur lýðræði fengið að ráða í hinum vestræna heimshluta. Bara vegna þess að við Íslendingar sem nú eru á lífi þekkjum ekkert annað en frelsið, þá er það alls ekki sjálfsagður hlutur.
Það eru alltaf einhverjir sem reyna að hrifsa til sín völdin og útiloka þá sem eru ekki á sama máli frá því að ná þeim. Snjallasta leiðin sem mannkynið hefur fundið upp á til að tryggja einhvers konar sanngirni í þessum málum er með lýðræðinu. Gallarnir við lýðræðið eru ýmsir, eins og mikið skrifræði, margar stofnanir sem vinna úr málum, sífellar kosningar og deilur um hvað á að velja, en meirihlutaákvörðun er virt. Þar til hún fær ekki lengur að ráða.
Þegar konungar eða einvaldar hrifsa til sín völdin gerist það yfirleitt frekar óvænt og í nafni einhvers ósýnilegs valds. Oftast nær viðkomandi hervaldi á bakvið sig, eða hefur það mikla fjármuni að hægt er að múta áhrifaríku fólki hér og þar. Einveldið leiðir alltaf til hörmunga. Það er bundið í hugtakið. Til að einhver ein ófullkomin manneskja fái að ráða öllu, þarf að fórna ansi mörgum mögulegum skoðunum og hugmyndum. Þetta leiðir til staðnaðar fyrir samfélagið og að alls ekki verður hlustað á venjulega fólkið sem þarf að strita fyrir rifnum fötum og maðkétnum mat, og má út frá sjónarhorni yfirvaldsins sýna þakklæti fyrir það litla sem úti frýs.
Þannig að frelsið er ekkert sjálfsagður hlutur í samfélaginu, en samt er frelsið eiginleiki sem virðist innbyggður í hverja einustu manneskju. Við finnum að við þurfum að eignast eitthvað, merkja okkur eitthvað pláss, vera eitthvað, og til þess þurfum við frelsi. Við metum það ómetanlega mikið en gleymum því stundum, sérstaklega þegar við höfum það.
Til að mynda lítum við á það sem harða refsingu í okkar samfélagi að svipta fólk frelsinu, og þannig gefum við okkur að við séum öll frjáls, svo framarlega sem einhver önnur manneskja eða aðstæður svipta þig því ekki. Það er reyndar líka þannig í einræðis og harðstjórnarríkjum, að fólk sem vinnur gegn stjórnvaldinu er jafna lokað inni án dóms og laga, svipt frelsinu, eða jafnvel lífinu sjálfu, sem er hið æðsta frelsi okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Er "manneskjan" til eða bara hugarburður?
19.5.2021 | 21:05
Allir sem lesa þennan texta eru manneskjur reikna ég með. Það kæmi mér virkilega á óvart ef einhver sem ekki er manneskja les þetta, og reikna ég þá með að það séu mörg hundruð ár síðan ég skrifaði þetta og þú lest þetta.
En hvað þýðir það að vera manneskja?
Ég geri ráð fyrir að þetta sé sama spurning og spurð hefur verið í mörg hundruð ár en sumir hafa túlkað sem kynbundna hvað þýðir það að vera maður, en ég sjálfur hef ávallt túlkað það þannig að maður sé ókynbundið hugtak.
Hvort ætli það að vera manneskja sé föst mótuð hugmynd eða eitthvað sem við búum til á meðan við lifum lífinu og breytum hinum mannlega veruleika? Mig grunar að svarið sé hvort tveggja, og tel ljóst að við höfum frelsi til að skilgreina okkar eigið líf og móta mannkynið í þá átt sem okkur langar. Við höfum þróað valkerfi til að ákveða í hvaða átt við ætlum að stefna, og skásta valkerfið af mörgum slæmum, höfum við flest sætt okkur við, er lýðræðið.
Við getum valið hvort við viljum fara veg frelsis og lista, vísinda og fræða, auðs og vaxtar, laga og reglna, eða látið okkur fátt um finnast um allt sem hefur gerst, og allt sem getur gerst. Þetta er allt val, og sá velur fyrir okkur sem völdin hefur, hvort sem viðkomandi hefur verið kosinn af lýðnum eða hrifsað til sín völdin með lygum og blekkingum, eða erft þau af foreldrum sínum.
Allt þetta val, niður í hverja einustu manneskju, skilgreinir hvað við erum og hvað við verðum sem manneskja.
Svo er hægt að sjá þetta frá öðru sjónarhorni. Við höfum hugmynd um manneskju. Hún er nokkuð skýr. Við sjáum hana fyrir okkur í huganum. Við áttum okkur á að hún hugsar, getur líklega talað, unnið með höndunum, stendur yfirleitt upprétt, og þar fram eftir götunum. Við getum jafnvel gert okkur í hugarlund hina fullkomnu manneskju, en þá förum við fljótt út í goðafræði og önnur trúarbrögð, enda er slík manneskja ekkert endilega til þó að við getum gert okkur hana í hugarlund.
En hvað um þessa hugmynd sem við sjáum öll í hendi okkar og er svo auðskiljanleg? Hvernig getur verið að hún sé okkur öllum sýnileg, en eigi sér samt ekki tilvist? Er þessi hugmynd eitthvað sem við fæðumst með? Og ef svo er, var einhver sem gróðursetti þessa hugmynd í huga okkar?
Nú munu einhverjir hrópa Já, það var Guð og aðrir Nei, þetta er bara eitthvað í mannlegu eðli sem orðið hefur til með þróun mannkyns. Ég ætla ekki að skera úr um hvor hópurinn hefur rétt eða rangt fyrir sér, en ljóst er að þessi hugmynd, þetta fyrirbæri sem við köllum manneskjuna, er eitthvað sem við getum gert okkur í hugarlund. Kannski er það form, eins og hinir fornu heimspekingar kölluðu þetta, og svo breytist manneskjan með reynslunni, sem er efnið.
Það er reyndar svolítið magnað að við getum nefnt eitt orð, eins og svín, hestur, penni eða stóll og samstundis sprettur fram mynd í huga okkar. Heimspekingar hafa rætt það sundur og saman hvort að þessi sameiginlega hugmynd sé okkur í raun sameiginleg eða ekki, hvort að hún spretti úr reynslu okkar, eða hvort þetta sé einhver skilningur meðfæddur í okkur öllum.
En ég er nokkuð viss um að ef við reynum að svara þessari spurningu sjálf, og erum tilbúin að hlusta á ólíkar skoðanir, ólík rök, ólíkar hugmyndir, þá munum við í leiðinni komast nær því að svara spurningunni hvað manneskja er og hvort hún sé til eða bara hugarburður.
Hefurðu nokkurn tíma hitt þessa manneskju sem þú gerir þér í hugarlund þegar þú sérð fyrir þér hvað manneskja er?
Mynd eftir Leonardo da Vinci - Leonardo Da Vinci - Ljósmynd frá www.lucnix.be. 2007-09-08 (photograph). Photograpy:This image is the work of Luc ViatourPlease credit it with: Luc Viatour / https://Lucnix.be in the immediate vicinity of the image. A link to my website https://lucnix.be is much appreciated but not mandatory.An email toViatour Luc would be appreciated too.Do not copy this image illegally by ignoring the terms of the license below, as it is not in the public domain.If you would like special permission to use, license, or purchase the image please contact me Viatour Luc to negotiate terms.More free pictures in my personal gallery[Note: this is in the public domain, despite the photographer's contradictory claim. Any use is permissible, and no credit to the photographer is necessary.]Nikon case D80 optical Sigma 17-70mm F2,8/4,5 Macro, Public Domain, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=2738140
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Getum við valið um að lifa innihaldsríku eða tómu lífi?
17.5.2021 | 21:19
Til að svara þessari spurningu þurfum við fyrst að átta okkur á hvort að innihaldsríkt eða tómt líf sé eitthvað sem kemur fyrir okkur eða hvort það sé eitthvað sem við veljum. Aðstæður okkar geta verið ólíkar, við getum verið á erfiðum stað í lífinu og átt erfitt með að sjá leiðina út úr depurð og inn í hamingjuna, eða getum verið á þægilegum stað þar sem erfiðast er að stinga sig ekki á rósunum sem dansað er á.
Ég tel án nokkurs vafa að hægt sé að vinna sig úr nánast öllum vanda, sama hversu erfiður hann virðist vera. Það er hægt að vinna sig upp úr atvinnuleysi, skuldum, heimilisleysi, alkóhólisma, þunglyndi, áfallastreitu og kvíða, að svo miklu leyti að við getum ekki ákveðið í hverju við lendum, en getum ákveðið hvernig við tökum því sem gerist.
Það eru til alls konar stofnanir í samfélaginu sem hjálpa okkur að sigrast á nánast hvaða vanda sem er, þessar stofnanir innihalda sérfræðinga sem gera sitt best að finna allar bestu aðferðirnar til að styðja við þá sem eru í vanda staddir. Úrræðin eru til staðar, en stundum strandar þessi ákvörðun að nýta þau á manni sjálfum, hugsanlega eigin stolti, eigin skort á von, skort á trú um að hlutirnir geti verið betri.
En það er eitt fyrirbæri í þessum heimi sem getur hjálpað hverjum sem er að finna leiðina að innihaldsríku lífi, jafnvel að hamingjunni. Það felst í að rækta samband, hugsanlega við einhvern hlut, hugsanlega við aðra manneskju, jafnvel við huglægt fyrirbæri. Það er sama hvað þú velur, ef þér tekst að rækta þetta samband og kveikt neista sem fær þig til að elska, þá er það fyrsta og síðasta skrefið í rétta átt.
En þetta verður að vera ást sem endist. Þetta þarf að vera sönn ást. Ekki eitthvað dúllerí, föndur eða framhjáhald. Þetta verður að vera eitthvað eða einhver sem þú getur lært að elska af öllu hjarta, þetta getur jafnvel verið þú sjálf, þó að sjálfsást geti því miður leitt til hörmunga á endanum eins og þeir sem kannast við goðsöguna um Narsissus þekkja vel, en hann var ungur sveinn sem dáðist svo að eigin spegilmynd að hann gat ekki annað en speglað sig í tjörn þar til vatnið gleypti hann.
Það merkilega gerist þegar þú elskar af öllu hjarta, þá verður líf þitt innihaldsríkara, það er eins og einhverjar víddir opnist, og möguleikar þínir til að njóta lífsins opnist með. Ef þú ert á slæmum stað í lífinu hljómar þetta kannski eins og fjarlægur draumur. Það má vel vera. En þessi draumur er raunverulegur, hann getur breytt öllu í tilvist þinni, bætt hana, gert hana skemmtilegri og litríkari. Þú þarft bara að átta þig á hvað er að og fá hjálp til að finna leiðina út.
En það er samt ekkert bara. Fyrst þarf maður að finna djúpt í sjálfum sér að eitthvað er ekki í lagi. Síðan þarf að greina hvað það er sem ekki er í lagi. Hugsanlega þarf sérfræðihjálp til að greina vandann, og svo þegar vandinn hefur verið greindur þarf að finna úrræði sem hægt er að framkvæma.
Ég hef heyrt af fólki sem vill fá hjálp frá sálfræðingum til að greina eigin vanda og finna úrræði, en er ekki tilbúið til að greiða hönd og fót fyrir hjálpina. Nú er búið að festa í lög að fólk geti fengið aðstoð frá sálfræðingum og loforð um að ríkissjóður borgi brúsann. Hins vegar vantar fjármagn til að gera þetta að veruleika.
Eftir kórónuveiruna og langvarandi atvinnuleysi verður ennþá mikilvægara að fólk sem þarf þessa hjálp fái hana. Án þessarar hjálpar gæti stór hlutur þjóðarinnar staðið fastur í einhverju tómi, á meðan það gæti verið að vinna sig inn í innihaldsríkara líf.
Þetta er ekki framboðsræða né ákall til stjórnmálaflokka um að gera betur, heldur ákall til okkar allra, að gera aðeins betur fyrir þá sem minna mega sín á meðal okkar. Og þetta er ein leiðin: að útvega fjármagn fyrir ríkisstudda sálfræðiþjónustu.
Hjálpum þeim sem vilja hjálpa sér út úr myrkrinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eru þeir sem ljúga og blekkja tómir heimskingjar?
15.5.2021 | 22:12
Til eru fjórar leiðir til að taka þátt í samræðu.
Leið 1: Þú getur virt reglur rökfræðinnar og stuðst við staðreyndir og vel rökstuddar hugmyndir. Þeir sem tilheyra þessum hópi bera virðingu fyrir sannleikanum og sjá hann sem einhvers konar leiðarljós, þó að þeir þekki hann ekki að fullu. Hins vegar þekkjum við ýmsar leiðir til að komast nær sannleikanum, og til að komast nær honum þurfum við ekki aðeins að þekkja þessar reglur heldur einnig fylgja þeim eftir í einlægni.
Leið 2: Þú þekkir reglur rökfræðinnar, en ákveður að fylgja þeim ekki eftir, heldur notar rökvillur og ríkt myndmál til að hljóma sannfærandi. Þú getur fengið orðsport fyrir að vera virkilega klár og góður að gera þig skiljanlegan á mannamáli. Og þú veist að besta leiðin til að sannfæra fólk um ósannindi er að segja næstum því sannleikann, snúa aðeins frá honum þegar þú hagnast á því.
Leið 3: Þú kannt ekki reglur rökfræðinnar og þér er nákvæmlega sama um þær. Þú vilt að brjóstvitið fái að ráða og trúir bara því sem þér dettur í hug að trúa, helst því sem þér líkar best hverju sinni. Þú gerir engan greinarmun á fræðilegum hugmyndum og samsæriskenningum og ert alveg til í að fylgja samsæriskenningum einfaldlega vegna þess að þær eru auðskiljanlegar og falla vel inn í þína heimsmynd. En samsæriskenningar eru ekkert annað en blekkingar, sögur sem ganga upp út frá ákveðnu sjónarhorni en eru ekki í samræmi við veruleikann.
Leið 4: Þú kannt ekki reglur rökfræðinnar en leitar samt sannleikans í einlægni. Svo framarlega sem þú gefur þér ekki einhver ákveðin svör, ertu líklegur til að læra smám saman hvernig góð hugsun virkar.
Þeir sem fylgja leiðum 1 og 4 gera samfélagslegt gagn. Þar eru vísinda- og fræðimenn, sérfræðingar á ýmsum sviðum og fullt af fólki sem leitar sannleikans á einlægan hátt, óháð hvort að viðkomandi hafi prófgráðu til þess eða ekki.
Leiðir 2 og 3 eru hins vegar gríðarlega varasamar, en reynast stundum vinsælli en sannleiksleitin hugsanlega vegna þess að leiðin að sannleikanum er frekar leiðinleg, hún krefst mikillar vinnu. Spekingar og fræðimenn geta rökstutt hluti fram og til baka í mörg þúsund ár án þess að ná ákveðinni niðurstöðu. En leiðir 2 og 3 gefa sér ákveðinn sannleika. Það er miklu auðveldara þegar maður gefur sér svarið fyrirfram að vera sannfærandi og gera lítið úr þeim sem segja sannleikann. Vandamálið er að þegar maður gefur sér sannleikann eru 100% líkur á að maður hafi rangt fyrir sér, því að maður gefur sér fullkomna heildarmynd og á svör við öllu, á meðan sönn þekking fer sífellt stækkandi og nær aldrei utan um allan sannleikann.
Það hefur verið svo merkilegt undanfarið með falskar fréttir. Leið 1 bendir á falskar fréttir og útskýrir með rökum af hverju eitthvað er ósatt. Leiðir 2 og 3 svara að leið 1 sé falsfrétt, og þurfa ekki að rökstyðja það. Þeir kasta bara fram lygum og bulli og vonast til að eitthvað festist. Og það er nóg fyrir fólk sem nennir ekki að hafa fyrir sannleikanum. Því hver nennir því svosem? Er ekki nóg að hlusta á yfirvaldið, þá sem stjórna?
Reyndar hefur það gerst að yfirvaldið lýgur og til að réttlæta eigin lygar getur reynst gagnlegt að segja alla ljúga, engan virða sannleikann og ferlið að honum, og skjóta á þá sem vinna að sannleikanum, því þá þurfa þeir að eyða tíma í að verja sig með traustum rökum.
Það er engin furða að fólk víða um veröld átti sig ekki á hvað er satt og hvað er logið, hverjum skal treysta og hverjum ekki, en það er hægt að átta sig á þessu. Það krefst mikillar vinnu og yfirlegu, það krefst gagnrýnnar hugsunar og samræðu.
Til skamms tíma vinna lygar og bull, en til lengri tíma vinnur sannleikurinn. Það er eins og lygar og bull skolist í burtu með árunum, kannski vegna þess að lygararnir á endanum deyja og lygar þeirra með þeim, en sannleikurinn stendur alltaf eftir þar sem hann er ekki háður þeim sem segja satt, hann er stærri en fólkið sem leitar hans.
Svarið við spurningunni Eru þeir sem ljúga og blekkja tómir heimskingjar? tel ég vera skýrt JÁ, en við áttum okkur kannski ekkert á því til skamms tíma. Það kemur smám saman í ljós. Tíminn sýnir okkur á endanum hverjir stóðu réttu megin við sannleikann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vilt þú lifa sama lífi aftur?
12.5.2021 | 21:26
Gefum okkur að þú liggir uppi í sófa og sért að glápa á Netflix. Það er enginn hjá þér og myndin er skemmtileg. Skyndilega fer allt rafmagn og þú situr í myrkrinu enda áttu hvorki kerti né LED kerti með rafhlöðum. Þú liggur bara uppi í sófa og hallar aftur augunum. Þá finnurðu kaldan gust og finnur eitthvað ískalt strjúka handlegg þinn, og þú finnur að það er einhver sestur við hlið þér í sófann. Þú opnar augun en sérð engan vegna myrkursins, en veist að það er einhver þarna. Þér finnst þetta frekar óhugnanlegt og hjúfrar þig undir teppi. Þá heyrirðu ráma rödd ávarpa þig og hún spyr þig spurningar sem þú veist að þú þarft að svara:
Hugsaðu um líf þitt eins og þú lifir því núna, segir þessi vera. Hugsaðu um allt sem þú hefur gert, það sem þú ert að gera núna og allt það sem þú munt í framtíðinni gera. Mig langar að gefa þér val: að þú fáir að lifa aftur þessu sama lífi, á nákvæmlega sama hátt og þú hefur lifað því og á nákvæmlega sama hátt og þú átt eftir að lifa þína síðustu daga, hvert einasta smáatriði verður eins, þú munt þekkja allt saman fólkið aftur, þú munt meiðast á sama hátt og þú gerðir í þessu lífi, þú munt upplifa dauða og sársauka ástvina þína eins og þú hefur gert í þessu lífi. Aðeins eitt verður öðruvísi, þú manst allt sem gerst hefur í þessu lífi og getur breytt viðhorfi þínu. Myndir Þú gera það, og hvernig þá?
Þú skelfur og nötrar og finnur stingandi kulda streyma frá þessari veru. En þú getur ekki annað en hugleitt spurninguna. Myndi ég vilja lifa þetta líf aftur, alveg eins og ég hef lifað því? En svo bætir röddin við.
Ef þú ákveður að lifa lífi þínu aftur, þarftu ekki aðeins að gera það einu sinni heldur óendanlega oft. Og alltaf mun minni þitt og hugarfar vera það eina sem þú getur breytt. Viltu gera þetta?
Þú lítur upp úr teppinu og reynir að finna þessa veru í myrkrinu sem situr við hlið þér í sófanum, og greinir tvö augu sem eru svo svört að þau eru dimmari en allt myrkrið í kring. Og þessi augu nálgast þig, og veran spyr þig aftur, og þú veist að ef þú svarar ekki mun eitthvað skelfilegt gerast:
Já eða nei? hvæsir þessi illi andi.
Þú stamar: Hverjir eru kostirnir? Hvað ef ég segi nei, hvað gerist þá?
Þú færð ekki að vita það frekar en nokkur önnur sál, hreytir veran út úr sér. En ef þú segir já, þá færðu að lifa því sem þú átt ólifað eftir þínu höfði, en verður að endurtaka leikinn aftur og aftur. Þú verður að svara áður en ljósin kvikna.
Hverju svarar þú?
Image by PublicDomainPictures from Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Geturðu ímyndað þér allt og ekkert án þess að bresta í hljóðan grát?
11.5.2021 | 21:06
Hefurðu einhvern tíma velt af alvöru fyrir þér hugtökunum allt og ekkert? Hefur það hvörflað að þér að þessi hugtök eru ekki jafn augljós og þau virðast við fyrstu sýn? Hugmyndirnar um algjörlega allt og algjörlega ekkert eru til staðar í hugum okkar án þess að við höfum nokkurn tíma upplifað þau, enda bæði hugtökin handan mannlegs skilnings. Þetta eru hugtök sem renna okkur úr greipum nánast um leið og okkur finnst við hafa náð tökum á þeim.
Ef þessi hugtök koma ekki úr reynsluheimi okkar, hvaðan koma þau þá? Hvernig stendur á því að okkur reynist svona auðvelt að sjá þau fyrir okkur eitt augnablik, en jafnframt svo erfitt að sjá þau fyrir okkur og skilja til lengri tíma?
Sumir segja að eftir dauðann taki ekkert við. Aðrir segja að eftir dauðann taki allt við. Og enn aðrir að það sé sumt, og svo einhverjir sem segja að það sé ekki sumt. Margar af þessum hugmyndum eru stórskemmtilegar og frjóar, auðga mannlífið með margbreytileika sínum og gildishlöðnum sögum, sem reyndar geta líka valdið vandræðum sérstaklega ef trúað er á þessar sögur bókstaflega. Það nefnilega getur nefnilega reynst sannleikur frásögnin sem ekki er sönn.
Allt og ekkert taka aðeins á sig merkingu ef við stillum þeim upp í ímynduðum aðstæðum. Þegar til dæmis enginn hlutur er á borði, þá getum við sagt að ekkert sé á borðinu, þó að sjálfsögðu sé það ekki satt, enda einhver rykkorn, sápa eða ljósgeislar sem hvíla á því, allt eftir því af hversu mikilli nákvæmni og hversu vel við skoðum borðið. Og ef við segjum að allt sé á borðinu, þá meinum við líkast til í ákveðnu samhengi, til dæmis ef kvöldmaturinn er tilbúinn og búið er að leggja á borðið, en ekki að allar heimsins plánetur, sólir og skósólar séu ofan á borðinu ásamt öllum öðrum mögulegum hlutum.
Við sjáum þannig allt og ekkert sem óskynjanleg hugtök, eitthvað sem við getum ekki skilið í sjálfum sér heldur einungis sem hluta af stærra samhengi. Samt getum við gert okkur í hugarlund hugmyndina um þau að þau séu algjör, rétt eins og við getum gert okkur í hugarlund Guð og ódauðleikann, alheiminn og tímaflakk óháð hvort að þau lýsa einhverju í efnislegum veruleika okkar eða eru hugarburður einn.
Þessir hliðstæðu veruleikar efnis og huga eru gríðarlega áhugaverðir. Líkast til getum við einungis nálgast mörkin milli þeirra með skýrri hugsun, góðu ímyndunarafli og slatta af þolinmæði til að fylgja hugmyndum okkar eftir til ystu marka.
Hvort að þessir hliðstæðu veruleikar séu til eða ekki er algjört aukaatriði, það að við getum gert okkur þá í hugarlund er það sem skiptir máli. Það má svo spyrja hvort að hinn huglægi veruleiki sé eitthvað annað en það sem á sér stað í heila okkar, það sem gerist þegar við höfum gleypt allt sem við getum með skynjunum okkar og reynslu, eða hvort að hann lifi sjálfstæðu lífi á einhverjum stað og tíma sem ekki eru til.
Mynd eftir Sarah Richter frá Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hræðilegar skoðanir fylgja okkur eins og skugginn
9.5.2021 | 19:40
Við höfum öll einhverjar skoðanir. Þær eru misjafnlega góðar, þær bestu eru byggðar á þekkingu, reynslu og skilningi, þær verri geta komið úr ólíkum áttum, og skortir yfirleitt yfirvegaða umhugsun. Stundum eru slæmar skoðanir vel rökstuddar og sannfærandi, en betri skoðanir illa rökstuddar og ósannfærandi.
Hvernig tökum við þá ákvörðun að fallast á ákveðna skoðun? Er það tengt einhverri tilfinningu sem maður hefur þegar maður heyrir hana, líkar við tóninn, getur tengt við eitthvað úr lífinu, eða samþykkjum við einungis skoðanir sem eru byggðar á rökfestu? Getum við krafist þess að við hugsum það vel að geta alltaf áttað okkur á hver rétta skoðunin er, skoðunin sem að maður ætti að hafa?
Ég velti þessu fyrir mér í sambandi við söfnuði trúarbragða, félagsmenn stjórnmálaflokka og aðdáendur íþróttaliða. Þessir hópar eiga það sameiginlegt að þeir eru sannfærðir um að fylgja ákveðnu liði í gegnum þykkt og þunnt, og finna ákveðin gildi í því að ákveða hvað verður fyrir valinu.
Það er eins og þessi ákvörðun sé hafin yfir rök, og að geðþótti sé bara fínasta ástæða fyrir ákvörðuninni. Þessi geðþótti getur verið tengdur þeim menningarheimi, fjárhagsaðstæðum eða jafnvel hverfinu þar sem maður ólst upp.
Það að taka réttu ákvarðanirnar skiptir gríðarlegu máli í lífinu öllu. Þegar maður verður ástfanginn og þarf að ákveða hvort þú viljir vera lífsförunautur viðkomandi það sem eftir er ævinnar. Það er svolítið stór ákvörðun, og mörg okkar veljum rangt. En hvernig vitum við að hann eða hún sé hin eina rétta manneskja fyrir okkur?
Á sama hátt þarf að taka ákvarðanir þegar maður velur sér feril? Ég stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun fyrir löngu síðan að ákveða hvort ég vildi frekar ástunda hugvísindi eða verkfræði. Eftir langa og erfiða umhugsun valdi ég í samræmi við þær spurningar sem leituðu á mig, það sem væri meira í samræmi við hver ég er, heldur en hver ég vildi verða. Maður veit aldrei hvort að valið sé það eina rétta, maður verður bara að standa við það, eða skipta um leið.
Það sama þegar við leitum okkur að starfi. Hvernig vitum við hvernig störf henta okkur, hvar við yrðum ánægð, hvar við gætum gefið sem mest af okkur? Er betra að hafa mótað skýra skoðun um þetta áður en farið er í starfsleit?
Hvað ef maður hefur tekið afdrifaríka ákvörðun og svo áttað sig á því að hún var röng? Hvað er best að gera? Getum við alltaf lagt á vegarkantinum, hugsað okkur aðeins um og skipt svo um stefnu?
Ein stærsta skoðun sem ég hef breytt á minni ævi hafði með lántöku að gera. Þegar ég var yngri taldi ég lán vera af hinu góða, en komst svo að því í hruninu að þau voru ekkert annað en ólán, eitthvað sem át upp allan minn tíma og skapaði gríðarlegar áhyggjur og varð loks til þess að ég sá mig tilneyddan til að flytja af landi brott. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að taka ekki lán aftur, borga þau upp, byrja á því smæsta og enda á því stærsta. Það var gæfuspor.
Maður lærir nefnilega ýmislegt á lífsleiðinni. Við komumst að því að eitthvað sem okkur þótti einhvern tíma rétt, þykir okkur ekki lengur rétt, og þannig er því einmitt farið með slæmar skoðanir, þær byggja á því sem okkur finnst, ekkert endilega á vel ígrunduðum pælingum og þekkingu, einhverri speki sem er rökrétt og skilar sér í betra lífi.
Ég velti fyrir mér öllum þeim sem studdu nasisma og fasisma í upphafi síðustu aldar, sem síðan þurftu að horfa upp á afleiðingar þessarar öfgaskoðana sem leiddu til hörmunga fyrir margar milljónir manna. Rétt áður en COVID-19 skall á heimsótti ég Auschwitz og Birkenau, þar sem hægt var að sjá afleiðingarnar með eigin augum, hvernig slæm skoðun hafði valdið því að milljónir manna sem höfðu aðra lífsskoðun voru færð í útrýmingarbúðir þar sem þau voru á skipulagðan og grimman hátt drepin fyrir það eitt að hafa hugsanlega ólíkar skoðanir.
Hvar ætli svona skoðanir verði til og hvernig ná þær framgangi? Þær eiga það sameiginlegt að tengjast tilfinningum okkar, og þá allra verstu tilfinningunum, hatri, vantrausti, öfund, ágirnd, allt sem tengist fáfræði, fljótfærni og skort á góðri umhugsun.
Það að svona hlutir gerast einu sinni þýðir þeir gerast aftur, á hverjum degi, út um allt. Kannski í smærri mynd, og kannski aðeins meðal fólks í lokuðum hópum, en það gerir hugmyndirnar ekkert betri. Hræðilegar skoðanir fylgja okkur, hugsanlega allt lífið, eins og skugginn, sérstaklega ef við erum ekki tilbúin að skipta þeim út fyrir betri skoðanir þegar þær birtast okkur.
Myndir: úr ferðalagi til Auschwitz og Birkenau í febrúar 2020.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sú sorglega staðreynd að við erum varla til
7.5.2021 | 20:46
Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvað við erum smá, bæði þegar kemur að rúmi og tíma? Þegar við sjáum fyrir okkur Fjöldi manneskja á jörðinni er að nálgast átta milljarða. Það er varla að maður kunni að skrifa töluna: 8000000000. Og pældu í því að hver einasta af þessum manneskjum hefur þessa dýpt sem við sjáum flest í sjálfum okkur. Til eru um 9 milljónir dýrategunda á landi og í sjó, Næstum fimm milljarða farsíma eru til í heiminum, þar af um fjórar milljarðar snjallsímar. Það eru ekki nema átta plánetur í sólkerfinu okkar, en vísindin hafa uppgötvað um 3200 sólkerfi þarna úti einhvers staðar, og hvert sólkerfi hefur nokkrar plánetur. Þannig að við erum hvert og eitt frekar lítil í stóra samhenginu.
Þegar kemur að tíma erum við ennþá smærri. Það má reyndar deila um hvort að við höfum verið englar eða sálir áður en við fæddumst og eftir að við deyjum, en gerum ráð fyrir að við vitum ekkert um það, þá erum við að tala um milljónir ára áður en við verðum til í þessum heimi, svo lifum við lífi okkar, vonandi til hins fyllsta, hvað sem það þýðir fyrir hvert og eitt okkar, og eftir að við deyjum, verðum við áfram ekki til í milljónir ára. Eftir líf okkar verðum við kannski bergmál í hjörtum einhverra þeirra sem lifa okkur af, en brátt verður þetta fólk líka að bergmáli, og þannig hverfum við.
Þrátt fyrir þessa smæð okkar, er lif okkar margbreytilegt og flókið. Við leitum að merkingu í lífinu, sumir meira en aðrir. En við lifum lífinu áfram og gerum okkar besta, bæði sem einstaklingar og samfélag, til að vera besta mögulega útgáfan af sjálfum okkur. Við erum eins og lítil ljós sem gleðja í myrkrinu. Stundum þegar við horfum á logann, tökum við eftir birtunni frá honum og hitanum, en stundum tökum við aðeins eftir myrkrinu sem umlykur hann.
Við eltum ýmislegt í þessu lífi. Sumir keppast við að tryggja sér öryggi, fjármagn, ánægju, sumir vilja einfaldlega tengjast öðrum, en aðrir vilja bara vera einir og útaf fyrir sig. Og öll hugsum við einhvern veginn um þennan heim. Við eigum okkar eftirlætis lit, bragð, lykt og snertingu, við eigum okkar uppáhalds minningar og hugsanir, sum gleymum við okkur í ímyndunum og draumum, og aðrir í sögum, sumum skálduðum, öðrum sem eru sannar.
Við eigum okkar fjölskyldu, vini, kunningja, bekkjarsystkin, vinnufélag og allskonar og hvert samband við allar þessar manneskjur er ólíkt. Eitt það furðulegasta sem gerist að við erum ekki saman persónan í augum neins annars, og í eigin augum erum við svo eitthvað allt annað en nokkur annar getur upplifað.
Þegar fólk pælir í svona hlutum eru sumir sem yppta bara öxlum og glotta, aðrir leggjast í þunga þanka, enn aðrir reyna að ræða þessa hluti við félaga sína til að átta sig betur á hvernig þessi veröld er og hvernig við finnum merkingu í henni, og ef við finnum ekki merkingu, hvernig við búum hana til.
Þessi tilvist okkar er undarlegt ferðalag. Ég elska hvert einasta augnablik í þessu ferðalagi og reyni að verja tímanum vel með því að lesa, læra, upplifa og finna fyrir þessari tilvist, og með því víkkar sjónarhornið og betra verður að velja hvernig maður vill lifa þessu blessaða lífi. Sumir hafa fyrir löngu fundið svarið við þessari spurningu og öðrum dettur ekki einu sinni í hug að spyrja, sumir velta sér upp úr svona pælingum, en aðrir velta þeim fyrir sér.
Mér finnst æðislegt að geta skrifað svona hugsanir og velt þeim fyrir mér í rituðu máli, reynt að tengja þær við þig sem lest þetta og svo leyfa þessu bara að sjatna í eigin huga, og hugsanlega breyta því að einhverju leyti hvernig við sjáum heiminn, og mögulega hafa nákvæmlega engin áhrif.
Mynd: WikiImages frá Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Aðeins um eyðingarhyggju
4.5.2021 | 22:56
Eyðingarhyggja (nihilismi) er ein af mörgum mögulegum leiðum til að hugsa um heiminn, og að mínu mati afar vond leið, en manneskja sem lifir eftir þessu hugarfari efast um öll mannleg gildi og þekkingu. Slík manneskja virðir ekki sannleikann viðlits og er líkleg til að vera fjandsamleg óhagstæðum staðreyndum og rökum. Það er ekkert gott eða illt í heimi hennar, engar lygar heldur, enda hvað getur verið lygi í heimi þar sem sannleikurinn er ekki til?
Nihilismi hefur oft verið þýddur sem tómhyggja á íslensku, en mér finnst nærtækara að kalla þetta eyðingarhyggju, þar sem hugtakið er tengt eyðileggingu, rétt eins og annihilation þýðir gjöreyðing.
Í heimi slíkrar manneskju er engin ást, því að ástin er gildi og gildin ekki til í hennar heimi. Þess í stað finnur hún fyrir girnd og reynir að svala þörfum sínum og kallar það kannski ást enda skipti hana engu máli hvaða orð eru notuð um hlutina enda sannleikurinn ekki til í hennar heimi.
Slík manneskja efast um áreiðanleika frétta sem byggja á staðreyndum og gildismati fréttamanna, þeirra sem ákveða hvað er fréttnæmt og hvað ekki eftir settum reglum fréttamanna. Ef henni líkar ekki fréttin gæti hún jafnan orðið fjandsamleg fréttafólkinu og úthrópað það sem boðbera ósanninda. Annað eins hefur gerst. Fréttafólk bæði á Íslandi og erlendis hefur verið gagnrýnt fyrir falsfréttir, á meðan gagnrýnin sjálf ætti frekar að vera gagnrýnd sem ósanngjarnt dæmi um eyðingarhyggju.
Slík manneskja gerir ekki greinarmun á samsæriskenningum, skáldskap og sagnfræði, því það að eitthvað hafi gerst skiptir minna máli en að hún geti séð fyrir sér að hlutirnir hefðu getað verið öðruvísi.
Slík manneskja segir og gerir hvað sem er til að sannfæra annað fólk um eigin málstað, sama þó að hún eigi sér engan málstað, með hvaða meðulum sem er, með því fyrst að vekja athygli, helst mikla athygli og þá með því að gagnrýna aðra og tala illa um hvað allir aðrir eru að gera, en dásama í leiðinni sjálfa sig. Þetta getur virkað og þetta hefur virkað. Bæði hérlendis og erlendis. Við þekkjum öll slík dæmi.
Þegar slík manneskja kemst til áhrifa er líklegt að stefna hennar leiði til hörmunga, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki hugmynd um í hvaða átt væri gott að stefna, þar sem að ekkert skiptir hana máli nema kannski að svala eigin hungri, hvers eðlis sem það kann að vera. Þegar slíkar manneskjur komast til áhrifa, óháð flokki eða skoðunum, skilja þær ætíð eftir sig sviðna jörð.
Talað er um slíkar manneskjur sem skíthæla (asshole), en fyrir manneskjur þar sem gildin skipta engu máli er lítið mál fyrir þær að þykjast vera eitthvað annað en þær eru í raun, því að fyrir manneskju sem er innst inni ósönn, getur hún auðveldlega þóst vera hvað sem er og komist upp með það, um stund að minnsta kosti. Þannig getur slík manneskja auðveldlega platað sig inn í áhrifastörf, það eina sem hún þarf að gera er að leika hlutverk sitt nógu vel fyrir rétta áhorfendur.
En veltu aðeins fyrir þér manneskju sem efast á svo öfgafullan hátt að hún efast um allt, trúir alls engu, virðir alls ekkert. Ef slík manneskja yrði að hópi færi hún sjálfsagt um heiminn eins og eldibrandur sem reyndi að eyða öllu því sem stangast á við þessa trú hennar, að ekkert hafi gildi.
Ég velti þessu til dæmis fyrir mér þegar kemur að mútumálum þar sem fólki er mútað með gjöfum og peningum til að gera eitthvað sem stríðir gegn skyldum þeirra. Báðir aðilar í mútumáli hljóta að aðhyllast einhvers konar eyðingarhyggju, að gildin sem samfélög þeirra byggja á skipti ekki svo miklu máli, hugsanlega engu máli, og séu kannski bara til trafala.
Einnig velti ég fyrir mér fólki sem lýgur blákalt og reynir að sannfæra annað fólk um eitthvað sem augljóslega ekki er satt. Slík manneskja hlýtur að aðhyllast eyðingarhyggju. Það sama á við um þá sem ákveða að fremja skipulagða glæpi. Þetta er fólk sem vantar tengsl við veruleikann, og er fullt efasemda um öll gildi sem við flest virðum og notum til að byggja traust samfélag.
Slíkar manneskjur eiga það til að ráðast á saklaust fólk til þess að ná sínu fram.
Það er til frábær bók um hvernig slíkar manneskjur sem ráðnar eru inn í fyrirtæki geta skaðað fjárhagsstöðu þess til lengri tíma, því að þegar svona manneskjur safnast saman rústa þær smám saman því sem byggt hefur verið upp. Þessi bók heitir The No Asshole Rule og er eftir Stanford prófessorinn Robert I. Sutton. Mæli með henni.
Stóra spurningin er hvernig hægt er að koma í veg fyrir að eyðingahyggja nái farvegi í okkar eigin lífi, hvað gerum við til að komast undan slíkum áhrifum eða koma í veg fyrir að þau vaxi? Eða erum við kannski það langt leidd sjálf að slíkir hlutir skipta okkur ekki máli, og þar af leiðandi orðin að einhverju leyti eyðingarhyggjufólk?
Mynd af síðu Amazon
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kapphlaupið um lífsgæðin
1.5.2021 | 22:40
Manneskjur eru sífellt á fleygiferð hvar sem er í heiminum. Reyndar hvílast þær flestar á nóttinni, en yfir daginn skjótast þær fram og til baka á fleygiferð, alltaf að flýta sér að komast eitthvert annað, kannski vegna þess að þeim sýnist grasið alltaf vera grænna hinumegin.
Við keppumst um að eignast hús og bíla, tæki og alls konar. Keppum við hvert annað í íþróttum og spilum. Setjum bestu listamennina nánast í guðatölu, hvort sem það eru söngvarar, skáld, kvikmyndagerðarmenn, málarar eða tölvuleikjahönnuðir.
Við sjáum þá sem gera góða hluti og njótum þess að fylgjast með því, en jafnframt viljum við sjálf geta gert jafnvel og hugsanlega betur. Við erum í stöðugri samkeppni, hvort sem það er við annað fólk, eða við okkur sjálf.
Ef við hættum að keppast við að bæta okkur, stöndum við í stað í heimi sem er sífellt á fleygiferð. Það að stoppa í þessum heimi er svipað og að stoppa bílinn á hraðbraut og stíga út. Það er stórhættulegt. Við þurfum alltaf að leita einhvers.
Spurningin er hvers skulum við leita?
Ef við leitum efnislegra hluta, það er hluta eins og peninga og allt sem þeir geta keypt, þá fáum við aldrei nóg. Það er einfaldlega eðli efnisins, ef við viljum bara meira, þá er alltaf hægt að vilja meira, sama þó að það sem við höfum geti verið nóg.
Ef við leitum andlegra hluta er líka alltaf hægt að finna meira, en það furðulega við hið andlega er að eftir því sem maður hefur meira af því, hefur maður minni þörf fyrir hið efnislega. Ætli það virki ekki eins á báða bóga? Efnisleg gæði snúast um að stækka eigin tilveru á þessari jörðu út á við, en andleg gæði snúast um að átta sig á eigin tilvist, þau leita inn á við.
Auðvitað getur sérhver manneskja lifað í báðum þessum heimum, fundið jafnvægi á milli andlegra og efnislegra gilda. Það er ekki eins og við séum bara annað hvort efnislegar eða andlegar verur, eða réttara sagt, við ættum ekki að vera það.
Sú sem er algjörlega efnisleg reynir að dreifa úr sér eins og mykjudreifari, án þess að velta fyrir sér hvort hún sé að bæta heiminn eða ekki. Þá er það bara sjálfið sem skiptir máli, óháð því hversu ánægt eða vansælt það kann að vera. Líkast til er það afar vansælt þegar einu gæðin sem skipta máli í lífi viðkomandi eru efnisleg.
Sumt fólk hellir sér algjörlega út í andlegu gæðin. Það er einhvern veginn erfiðara að gagnrýna slíkt fólk, en þau sem standa sig vel þar verða að fyrirmyndum fyrir þá sem á eftir fylgja. Hægt er að nefna nokkur góð dæmi: Platón, Sókrates, Aristóteles, Jesús, Múhammed, Búdda, Gandhi, Móðir Teresa og fjöldinn allur af eðalfólki sprettur þarna fram.
Siðferðið virðist vera það sem tengir saman efnisleg og andleg gæði, það sem við gerum ekki aðeins fyrir sjálf okkur heldur einnig fyrir aðra í heiminum. Þar vegur mikið hamingjan, ástin, vináttan, réttlætið, hugrekki, hreinskilni, heiðarleiki og þar fram eftir götunum. Þeir sem lifa aðeins í hinum efnislega heimi gætu verið tortryggnir á slík hugtök og talið nóg að fylgja eftir lögum eða gera það sem maður getur komist upp með, og það sé nóg, en þeir sem eru meira andlega þenkjandi vilja skilja dýptina á bak við af hverju við setjum lög og reglur, og af hverju við þurfum að breyta rétt.
Mynd eftir Oleksandr Pyrohov frá Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)