Getum við valið gleði eða depurð?

theatermasken-2091135_1920 

Þú stendur fyrir framan aftökusveit með bundið fyrir augun. Hendur þínar eru reyrðar fyrir aftan bak og fæturnir bundnir við staur. Geturðu eitthvað gert í málunum? Maðurinn sem stjórnar aftökusveitinni byrjar að telja niður. Þú getur ekki losnað úr þessum fjötrum. Það er deginum ljósara. Og síðasta augnablikið nálgast, þegar hann telur niður í núllið og sjö skyttur skjóta þig í spað. Hvað geturðu gert?

“Ekkert” segja kannski sumir. “Hert upp hugann” segja aðrir. Sætt þig við orðinn hlut. Grátið beiskum tárum kannski?

Taktu eftir að þarna hefurðu val, eitthvað sem skiptir kannski ekki máli fyrir það sem mun gerast, en getur skipt máli fyrir þig. Þú getur ákveðið að grenja og kveina, skjálfandi míga í þig og berjast um þar til yfir líkur, eða þú getur ákveðið að standa keikur, verið kátur og reifur, brosað framan í aftökusveitina.

Hvort tveggja er hægt, en síðarnefnda leiðin krefst ákveðins aga og hugarfars. Það breytir kannski ekki því sem gerist, en það getur breytt hvernig þú tekur hlutunum sem þú hefur enga stjórn á. 

Til allrar hamingju lendum við ekki fyrir framan aftökusveit dags daglega í hinu daglega lífi, en við lendum samt í ýmsu. Við upplifum fráfall ástvinar, lendum kannski í bílslysi, eigum erfitt með að stjórna þyngd okkar og heilsu, hugsanlega vegna veikinda sem maður getur ekki stjórnað. Margt getur gerst og margt gerist. 

Það er sama hvað gerist, þú getur stjórnað hugarfari þínu, hvernig þú bregst við, hvernig þú ákveður að hugsa, hvernig þú ákveður jafnvel að láta þér líða, hugsanlega andlega vel jafnvel þó að þú þjáist líkamlega.

Við getum ákveðið okkar eigið hugarfar, sama hvað við tökum okkur fyrir hendur. Og sama hvað gerist, við getum haldið í þetta hugarfar ef það er það sem okkur langar að gera. 

Stóuspekingurinn Epítekt ákvað að meta efnislega hluti og sambönd einskis. Þetta eru hlutir eða sambönd sem koma inn í líf okkar og fara síðan aftur. Það væri útilokað að halda þeim að eilífu. Samt reynum við að halda þeim sem okkur þykir vænt um að eilífu, og fyllumst djúpri sorg þegar þetta sem við elskum hverfur úr lífi okkar. En það er hægt að stilla hugarfarið þannig að þetta eru einfaldlega viðbúnir atburðir í lífinu; svona gerist og það er ekkert sem við getum gert við þeim, annað en ákveðið hvernig áhrif hvarf þessara hluta og sambanda mun hafa á hug okkar og tilfinningar.

Þetta er ansi köld leið til að horfa á heiminn, en hún er möguleg. Hugsanlega er hún fýsileg fyrir þá sem þjást mikið í þessu lífi, því þá gætu þeir fundið leið til að horfast í augu við hörmungar með brosi á vör og hugrekki í hjarta, og jafnvel finna til hamingju innan eigin takmarkana og heimsins, í stað þess að bugast af sorg.

 

Mynd eftir Christian Dorn frá Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi setning hjá þér Hrannar er mjög góð og í henni felst mikilvægur boðskapur:

 Það er sama hvað gerist, þú getur stjórnað hugarfari þínu, hvernig þú bregst við, hvernig þú ákveður að hugsa, hvernig þú ákveður jafnvel að láta þér líða, hugsanlega andlega vel jafnvel þó að þú þjáist líkamlega.

Við getum valið að vera ávalt glaðir vegna samfélagsins við Drottinn sem rofnar aldrei hjá okkur hinum kristnu. Því hvorki dauði né líf gera okkur viðskila við Guð.

Í Guði og með Guði getum við þroskað með okkur hugarfar djúprar gleði af þeirri tegund sem ekkert fær haggað.    Þessi tegund af gleði er í ætt við trú okkar á Guð og kærleikann sem við höfum þegið frá Guði að ógleymdri gjöf réttlætisins sem við höfum þegið í Jesú Kristi fyrir þjáningar hans og dauða á krossi.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 27.5.2021 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband