Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

The Adventures of Tintin (2011) ****

80008_gal

"The Adventures of Tintin" er besta ævintýramynd úr smiðju Steven Spielberg síðan "Raiders of the Lost Ark". Mér finnst "Tintin" betri en hinar þrjár Indiana Jones myndirnar, "E.T.", "Jurassic Park" (báðar),  "Minority Report" og "War of the Worlds", þó að hún komist ekki í sama klassa og "Munich", "Color Purple" og "Schindler's List". Spielberg hefur verið frekar slappur síðasta áratuginn og kominn tími til að hann sýni aftur klærnar.

Flestir Íslendingar hafa kíkt í Tinnabækurnar. Þeir sem féllu fyrir þeim munu falla fyrir þessari mynd, enda nær hún persónunum einstaklega vel, sérstaklega Tinna, Kolbeini Kafteini og þeim Skafta og Skapta. 

Ef "Tintin" hefði ekki verið jafn tæknilega fullkomin og hún er, hefði hún samt verið stórskemmtileg kvimynd. Sagan er góð samansuða úr nokkrum Tinnabókum, og játa ég mig sigraðan að geta ekki nefnt vísanir úr öllum þeim bókum sem vísað var í með einum eða öðrum hætti. 

Persónurnar og umhverfið er í fullkomnu listrænu samræmi við Tinnabækurnar, bara aðeins fágaðra. Og þá er mikið sagt. Hergé hafði þróað persónuna og söguumhverfið með sífellt betri teikningum gegnum árin og einhvern veginn virkar þessi kvikmynd eins og rökrétt skref fram á við. 

Ég fór á "Tintin" með tveimur börnum mínum og konu. Konan mín sagði að andlit mitt ljómaði af gleði meðan myndin var í gangi. Þrjú okkar gáfu "Tintin" 10 í einkunn, en sonurinn gaf henni 9. Góð meðaleinkunn!

82065_gal

Þrívíddin er vel gerð. Gleraugun sem við fengum voru þægileg gúmmígleraugu og engar truflanir í þrívíddinni. Það var óvenju þægilegt að horfa á hana, og síðan var henni líka beitt skemmtilega til að leysa eina af ráðgátum sögunnar. 

Sagan fjallar um fyrstu kynni Tinna og Kolbeins, og þessi fyrstu kynni eru vafin í skemmtilega ráðgátu um skip sem fórst fyrir hundruðum ára og tengist gleymdri fjölskyldusögu Kolbeins kafteins. Tinni getur ekki annað en rannsakað ráðgátuna, látið rota sig, og sífellt hársbreidd frá byssukúlum harðsnúna þrjóta. Vinátta þeirra Kolbeins er vel útfærð, og ljóst að þeir þurfa hver á hinum að halda, Tinni vegna þess að annars væri líf hans frekar dauft og leiðinlegt, en Kolbeinn til að leysa öll þau vandamál sem hann þarf stöðugt að takast á við; en hann hefur átt í stríði við áfengisvanda, lent í slæmum félagsskap og tapað sjálfum sér algjörlega, áður en hann hittir þessa ungu hetju.

Þeir eiga eitt sérstaklega gott atriði saman þar sem Tinni aldrei þessu vant efast um eigið ágæti, og Kolbeinn flytur í því tilefni þrumuræðu sem hittir beint í mark.

Myndin er vel leikin, sérstaklega af Jamie Bell í hlutverki Tinna, Andy Serkis sem Kolbeinn, og af þeim öflugu grínfélögum Simon Pegg og Nick Frost sem tvíburalöggurnar seinheppnu. Ekki má gleyma Tobba, en hann á margar góðar senur.

82075_gal

Það er ekki hægt að segja annað en að "Tintin" sé unnin af sönnu draumaliði. Bara það að Edgar Wrigth kemur að handritsgerðinni er mikill gæðastimpill, en hann er aðal maðurinn á bakvið snilldarmyndirnar "Shawn of the Dead" og "Hot Fudge", og ekki má gleyma framleiðandanum, sjálfum leikstjóra "Lord of the Rings", Peter Jackson. Þetta er einvalalið. 

Þegar myndinni lauk þótti mér það frekar leitt, því mig langaði að fylgjast með fleiri ævintýrum Tinna. Það verður spennandi að bíða eftir næstu verkum Peter Jackson, því hann mun leikstýra næstu Tinnamynd, en í millitíðinni taka að sér leikstjórn einnar skemmtilegustu skáldsögu allra tíma: "The Hobbit". Það er til einhvers að hlakka í náinni kvikmyndaframtíð. 

82077_gal

 

Myndir: Rotten Tomatoes


Leiða góðar fyrirætlanir okkur til helvítis?

Ég hef ferðast mikið um heiminn. Á þessu ári heimsótt 13 ólík lönd. Alls staðar hitti ég fjöldan allan af góðu fólki. Hef aldrei hitt manneskju sem ég get álitið illa. Kannski afvegaleidda, en ekki illa. Við vitum af miklum minnihluta sem stundar glæpi og eru einhvers konar hrottar. En að er ekki mikið af slíku fólki. Held ég.

Þegar við lítum hins vegar á stóru myndina, kerfin sem þetta góða fólk um allan heim hefur búið til, sjáum við kerfi sem er gríðarlega stórt, flókið og ranglátt fyrir suma, en réttlátt í augum annarra - virðist fara eftir aðstöðu. Það er eins og þetta kerfi sé orðið að ríkjandi heimsmynd, einhvers konar trúarbrögðum. Ef einhver verður útundan í þessu kerfi, lendir undir því og kemst ekki af vegna þess, er fólk sem hefur það gott líklegt til að yppta öxlum og kalla hina ólánsama.

Hagkerfið er kerfi sem á að veita öllum farboða. Stjórnkerfið á að tryggja sanngjarna skiptingu auðs. Þetta á að virka. En af einhverjum ástæðum virkar þetta ekki fullkomlega og það veldur reiði fólks. Þeir sem halda um stýrið virðast flestir halda að kafbáturinn sé á réttri siglingu, þrátt fyrir rauð ljós úti um allt. Það er eins og mælikvarðar á vandamál séu teknir úr sambandi og aðeins litið á þá mæla sem sýna að allt sé í lagi einhvers staðar. Það er ekki góð stjórnun. Slíkur kafbátur er ekki líklegur til að komast á leiðarenda. Svona stjórnun tíðkast hins vegar um allan heim, af góðu fólki, sem telur sig vita en veit ekki betur.

Eitt vandamálið er hvað við erum orðin mörg. Þegar elstu þingmenn Íslendinga hófu störf sín á þingi var mannkynið helmingi minna en það er í dag. Þá voru rándýr símtöl, telefax eða bréfasendingar helsti samskiptamiðillinn. Sjónvarp var tiltölulega nýlegt fyrirbæri og ekkert Internet sem gat fætt fólk á upplýsingum, þannig að það gat áttað sig á með sæmilega virkri gagnrýnni hugsun, að ekki er allt sem sýnist. Áður var fjallað um slík mál í blaðagreinum, tímaritum eða bókum, sem ekki hver sem var gat birt. Í dag breiðast mikilvægar upplýsingar út sem eldur í sinu gegnum samskiptasíður á Netinu. Þessar upplýsingar eru samt ekki alltaf réttar, og sífellt mikilvægara að vera gagnrýninn á hvaðan upplýsingarnar koma, hvernig þær eru settar fram og í hvaða tilgangi. Samt er haldið í gömlu kerfin sem hönnuð voru fyrir allt annan heim. Það er geggjun!

Vandamálið virðist ekki bara felast í kerfunum sem við sköpum, heldur hvernig þeim er beitt. Kerfin verða til af því að einhver vitringurinn eða sérfræðingur heldur að það sé góð hugmynd til að leysa ákveðin vandamál. Kerfin virka yfirleitt vel í fyrstu, og sérstaklega gagnvart viðkomandi vandamáli. En síðan líður tíminn og aðstæður breytast. Ný vandamál koma fram á sjónarsviðið. Og einhvern veginn heldur fólk að hægt sé að beita sama gamla kerfinu til að laga þessi nýju vandamál. Áttar sig ekki á að þegar forsendur breytast, breytist eðli vandans. Í stað þess að leysa vandamál, fer kerfið að skapa ný vandamál, sem loks verða óviðráðanleg og skrímsli hefur orðið til.

Verðtryggingin er eitt slíkt lítið skrímsli sem skapað var til að tryggja jafnvægi í lána- og launamálum. Síðan var lögum breytt þannig að hún passaði aðeins við lánamál, ekki lengur laun. Þannig verður verðtrygging að skrímsli fyrir þá sem afla sér tekna með launum, en hagkvæm fyrir þá sem þegar eiga fjármuni og lána þá. Þetta verðtryggingarskrímsli skapar gjá milli fólks. Það lendir í sitthvoru liðinu eftir því hvort það þjáist eða græðir. Sagan sýnir okkur að þeir ríku og voldugu sigra alltaf, nema í einstökum undantekningartilfellum, eins og þegar algjör bylting á sér stað og hinir þjáðu verða það margir og sameinast gegn hinum voldugu, að eitthvað verður að breytast.  

Það eru ekki venjulegar manneskjur sem búa til kreppur og styrjaldir, heldur eru það þessi gígantísku kerfi sem fólk býr til og taka yfir. Þessi kerfi geta verið í formi trúarbragða, stjórnmálahugmynda, hagfræðikrúsidúlla, eða annað. Við verðum að passa okkur á að heilbrigð skynsemi og gagnrýnin hugsun verði nægileg mótbára gegn þessum kerfum.

Skynsemi og gagnrýnin hugsun er aldrei nóg þegar þeir sem stjórna kerfunum telja allt vera í himnalagi og nenna ekki að hlusta á "svartsýnisraus", einelti eða andúð, sem einatt eru þau nöfn sem gagnrýnni hugsun er gefið sé hún ekki þóknanleg þeim sem kerfinu stjórna.


Bylting í hugarfari ráðamanna?

Fátækt, vændi, þrælkun, matvælaskortur og skuldafangelsi virðast vera vandamál sem þrífast á Íslandi í dag. Fáir vilja að slík fyrirbæri vaxi í samfélaginu. Það gerist hins vegar þegar umhverfið og forsendurnar gera það að verkum. Ástæðan sýnist mér afar einföld. En einfalda hluti er oft erfitt að sjá.

Djúpi vandinn sýnist mér vera að ríkisstjórn, stjórnmálaflokkar og þingmenn eru sífellt í leit að lausnum, á meðan þau ættu frekar að leita markmiða. Þau kafa ekki nógu djúpt. Reyna frekar að banna afleiðingar vandans heldur en að finna hinar raunverulegu forsendur og koma í veg fyrir þær.

Hagsmunasamtök heimilanna og forseti Íslands hafa verið dugleg að benda á forsendubresti. Valdhafar skilja hins vegar ekki skilaboðin sem annað en árás og heimtufrekju. Svona eins og þegar kirkjunnar menn ofsóttu vísindamenn sem töluðu fyrir nýrri og nákvæmari heimsmynd á miðöldum. Þegar skilningur er ekki til staðar, fer hinn skilningslausi bara í fílu og heldur að sá sem betur veit, eða betur þykist vita, sé bara fífl.

Mikið vildi ég óska að dýpkaði aðeins á skilningi ráðamanna, þeir hættu að leika sér í gæluverkefnum, byrjuðu á að skera niður eigin hroka, bættu við smá auðmýkt og forgangsröðuðu á skipulegan og skynsamlegan hátt.

Slíkt hef ég því miður ekki séð gerast hjá íslenskum stjórnvöldum, og væri slík beiting skynseminnar sú bylting sem þjóðin þarf á að halda í dag.


mbl.is Vísa frá fjölskyldum vegna fjárskorts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórnviska: skattar, bönn og höft?

lenin_na_tribune1

Daginn sem Jóhanna kvað að hennar dagur hafi loksins runnið upp, varð mér ljóst að nú myndi hefjast tímabil skattlagningar og hafta, því það væri það eina sem vinstri stjórnir væru færar um. Af málflutningi vinstri manna síðustu ár var ljóst að forræðishyggjan hjá þeim væri rík, jafnvel hættuleg þar sem hún byggir meira á tilfinningum en rökum. Ég vil taka fram að ég álít sjálfan mig hvorki vinstri né hægri mann, þó að ég telji mikilvægt að mannfólk lifi sínu lífi frjálst og án of mikilla afskipta stjórnvalda. Stjórnmálastefnur pirra mig, þar sem þær eru á endanum ekkert endilega skynsamlegar eða hentugar mannlegu samfélagi.

Stjórnspeki virðist því miður snúa að því að finna leiðir til að halda völdum, hafa áhrif á fjöldan, sannfæra fólk um að eigin hugmyndir séu réttar frekar en að leita sannleikans; í stað þess að huga vandlega að almannaheill, finna leiðir til að gera forsendur fyrir lífi allra þegna ásættanlegar, gera öllum fært að vaxa og vera frjálsir, en jafnframt ábyrgir fyrir frelsi sínu.

Til er kínverskt orðtæki sem mér hefur lengi líkað:

"Gefðu manni fisk og hann hefur nóg að borða  í einn dag. Kenndu manni að fiska og hann hefur nóg að borða alla ævi."

Bara að farið væri eftir þessu. Þegar mér verður hugsað til skattpyndingar og fjárkúgunar þeirrar sem á sér stað, sérstaklega á Íslandi í dag, finnst mér spekin orðin frekar öfugsnúin og grunn:

"Tökum mestallan fiskinn af manninum sem þegar kann að fiska og þannig verður ríkishallinn minni. Kenndu honum síðan að rangt sé að fiska og að þannig verndum við náttúruna. Flytji hann úr landi fæðast hvort eð er bara ný börn sem kunna ekki að fiska og ef við kennum þeim það ekki þarf ekki að banna þeim það."

Íslensk stjórnvöld pirra mig og hafa gert frá því ég var barn. Það er eitthvað djúpt að í íslenskum stjórnmálum, því að valdaklíkur virðast alltaf ná völdum, og félagslegur þroski þeirra einstaklinga sem með völdin fara virðist því miður takmarkast við fyrst og fremst eigin hagsmuni og síðan hugsanlega einhverjar línur úr hugmyndafræði eigin flokks.

Hér fyrir neðan má lesa smá öfugsnúna stjórnspeki frá einum helsta höfundi þeirrar vinstristefnu sem íslensk stjórnvöld virðast stefna að í dag, Vladimir Lenin, en sérstaklega Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Jón Bjarnason minna mig töluvert á þennan mann, svo mikið að ég velti stundum fyrir mér hvort hann sé fyrirmynd þeirra í stjórnmálum:

 

"Lygi endurtekin nógu oft verður að sannleikanum." (Skjaldborgin?)

 

"Bylting er ómöguleg án byltingarlegra aðstæðna; og nánar, ekki allar byltingarlegar aðstæður leiða til byltingar." (Búsáhaldabyltingin?)

 

"Hvaða kokkur sem er ætti að geta stjórnað landinu." (Flugfreyja?)

 

"Gefðu mér fjögur ár til að kenna börnunum og sæðin sem ég hef sáð verða aldrei upprætt." (Innræting?)

 

"Ef félagshyggja gæti aðeins orðið að veruleika þegar gáfnafar allra leyfir það, þá myndum við ekki sjá félagshyggju í að minnsta kosti fimm hundrað ár." (Forræðishyggja?)

 

"Það er satt að frelsi er verðmætt; svo verðmætt að því verður að skammta vandlega."(Öfugsnúið?)

 

"Einn maður með byssu getur stjórnað 100 sem eru óvopnaðir." (Löggan?)

 

"Stefna okkar þarf á áróðri trúleysis að halda." (Vantrú?)

 

"Besta leiðin til að eyðileggja kapítalískt kerfi er að spilla gjaldmiðlinum." (Krónan?)

 

"Markmið félagshyggju er kommúnismi." (Óvart?)

 

"Fjölmiðlar ættu ekki aðeins að vera samantekinn áróður og samantekin mælskulist, heldur einnig samantekinn skipuleggjandi fjöldans." (RÚV?)

 

"Það er ekkert siðferði í stjórnmálum; heldur er þar hver fyrir sjálfan sig. Skúrkur getur verið gagnlegur einfaldlega vegna þess að hann er skúrkur." (Satt?)

 

"Að reiða sig á sannfæringu, heilindi og aðra ágæta andlega eiginlega; það er að láta ekki taka sig alvarlega í stjórnmálum." (Spilling?)

 


Af hverju efumst við ekki um ágæti þeirra sem gera okkur illt?

Í gær sagði góður vinur minn mér að hann sé byrjaður að átta sig á hvað bankafurstarnir og stjórnmálaflokkarnir hafi gert íslensku þjóðinni. Hann hafi einfaldlega ekki viljað trúa því. Það tók hann fjögur ár að átta sig. Hann er afburðargreindur, stálheiðarlegur og traustur.

Ég er farinn að skilja af hverju réttlætið er svona seint í gang á Íslandi.

Við viljum ekki trúa illu upp á neinn, hvað þá upp á menn sem við höfum treyst ævisparnaði okkar fyrir. Við þurfum að geta treyst þessu fólki. Annars myndi sjálf tilvera okkar í samfélaginu riða til falls.

Sannleikur málsins og sjálft réttlætið verður að lifa af þá blekkingaleiki sem eru í gangi. Það er því mikið miklu meira um blekkingar en sannsögli í gangi, og blekkingarnar eru ansi sannfærandi. Sagan segir okkur að málsvarar sannleikans eru þeir sem verða yfirleitt undir, þar til mörgum áratugum síðar að sannleikurinn kemur í ljós, í sögulegu samhengi.

Vonum að hin íslenska þjóð nenni að rannsaka málið og greina hysmið frá kjarnanum, beiti gagnrýnni hugsun á upplýsingar sem hægt er að meta sem áreiðanlegar eða óáreiðanlegar, og átti sig á hvað græðgin hefur gert þessari þjóð, og hvernig hinum ranglátu tekst að réttlæta hið ranga með vísan í götótt lög.


Mikill missir: Steve Jobs 1955-2011

main_image_1000x621

"Heaven got a major upgrade today."
- Chris Calloway

Magnaður uppfinningamaður lést í gær, maður sem hefur haft djúp áhrif á hvernig Jarðarbúar starfa og hafa samskipti sín á milli. Við minnumst hans fyrir Apple, Mac, iMac, iPod, iPhone, iPad og hvernig hann kynnti vörurnar með miklum sannfæringarkrafti og tign: Steve Jobs 1955-2011

 

Mynd: wired.com


Ætlar þessi ríkisstjórn aldrei að hlusta?

listen_storytelling_image

 

"Að ríkisstjórnin hlusti."

 

Það er ljóst að stjórnvöld eru ekki að hlusta á fólkið, né þingmenn á hver annan, heldur þylja þau stanslaust sömu gömlu tuggurnar. Jóhanna neyddist til að taka við undirskriftum um 34.000 Íslendinga sem eggjuðu ríkisstjórn til að fella niður verðtryggingu og leiðrétta lán heimila sem hafa stökkbreyst eftir hrun, enda eggjuð til þess í beinni útsendingu í Kastljósi og samþykkti það þar. Hunsun hennar á skilaboðum þeim sem fylgdu undirskriftunum er hrópandi. Hún sagðist ætla að taka mið af þeim í setningarræðu sinni, en gerði það ekki.

 

"Fellið niður verðtrygginguna og lagfærið lán heimila."

Jafnvel forsætisráðherra sjálf skyldi mikilvægi þessa áður en hún komst til valda. Nú virðist hún vilja nota spennuna sem óréttlætið myndar til að þvinga þjóðina inn í ESB, sem er hin eina og sanna töfralausn Samfylkingarinnar. Steingrímur er ekkert skárri. Hann virðist trúa því að allt sé í allrabesta lagi. Hugsanlega fyrir hann sjálfan. Hann er í valdastól. Á sitt eigið heimili. Á hlut í fjármálafyrirtækjum. Það er augljóst hvoru megin línunnar hann stendur. Jóhanna er Samfylkingin. Steingrímur er Vinstri grænir. Aðrir þingmenn verða að hlíða stefnu þeirra og skipunum, annars verða viðkomandi hundeltir með skömmum. 

Sumir þingmenn eru góðir, virðast hlusta á fólkið og eigin samvisku, en því miður er það svolítið einangraður hópur sem er hunsaður algjörlega af meirihlutanum. En það er nákvæmlega þetta fólk sem þjóðin vill að tekið verði meira mark á, skynsamt fólk sem hlustar á þjóðina, og á móti hlustar þjóðin á þetta fólk. Þessir hugrökku einstaklingar eru útundan á þingi og verða fyrir stöðugu einelti. Ég vildi að ég gæti hjálpað þeim einhvern veginn, en kann enga aðra leið en að skrifa þeim til stuðnings.

Lánin þarf að lagfæra. Slík lagfæring er ekki ölmusa. Fólk er ekki að betla. Fólk er að krefjast réttlætis. Lán heimila hafa hækkað gríðarlega. Hjá fólki þar sem endar ná ekki saman lengur, og upplifir sig á heljarþröm. Sífellt borgar fólkið meira og meira. Þessi peningur fer beint í feitar pyngjur. Það hefur jafnvel heyrst úr búðum stjórnarinnar að þeim þyki ekki eðlilegt að allir eignist eigið heimili. Aðrir kostir eru: að leigja og lifa við óöryggi vegna uppsagnatíma og vita það að tekjunum er fleygt út um gluggann í vasa þess sem á húsnæðið. Hinn kosturinn er að taka lán til að eignast húsnæði og þar með borga pening sem ætti að vera fjárfesting, en þess í stað reynist lánið vera rán á hábjörtum degi, fara beint í vasa einhvers gæja úti í heimi sem er nákvæmlega sama um íslenskt samfélag. 

 

"Við krefjumst réttlætis!"

Hin afar vandaða Rannsóknarskýrsla Alþingis sannaði að lánin stökkbreyttust vegna þess að bankarnir voru rændir innanfrá. Fólk krefst réttlætis. Það er tvenns konar þetta réttlæti sem fólk krefst:

  1. Að glæpamönnum sé refsað
  2. Að skaðinn verði bættur 

Hvort tveggja er mikilvægt, en mikilvægast er að skaðinn verði fólki bættur þannig að það geti farið að lifa eðlilegu lífi. Einnig er mikilvægt að sanna glæpina á glæpamennina og refsa þeim af hörku, bæði til að stoppa þá og vera öðrum víti til varnaðar. Hryllingurinn er sá að þetta fólk leikur enn lausum hala og heldur áfram uppteknum hætti.

 

 

"Ríkisstjórnina burt, eða að hún hysji upp um sig buxurnar, en ekki endilega nýjar kosningar!"

 Þetta hefur verið margendurtekið. Hvorki Ríkisstjórn né Alþingi er treyst, hvorki stjórn né stjórnarandstöðu. Utanþingstjórn eða jafnvel þjóðstjórn virðast einu leiðirnar til að glitti í einhverja von.


Morfískeppni inni á þingi meðan trommað er á tunnur fyrir utan

Hvernig getur nokkur heilbrigð manneskja talað um eigin hugmyndir og flokkshagsmuni á meðan fólk trommar fyrir utan þinghúsið? Flestir þingmenn láta eins og enginn sé þarna fyrir utan að óska eftir áheyrn.

Af hverju staldra þingmenn ekki aðeins við og bjóða fólkinu af torginu inn á þing, og leyfa þeim að taka þátt, hlusta á fólkið í stað þess að túlka sjálft sig þvers og kruss eins og þeirra eigin hugmyndir séu það eina marktæka í þessari veröld?


Hver er skylda lögreglumannsins?

1. október 2011 var lögregluliði stillt upp sem skjaldborg yfir þingheim til að verjast mótmælendum sem hafa fengið sig fullsadda á skilningsleysi, hroka og áhugaleysi (eða lélegum framkvæmdum) stjórnvalda til leiðréttingar á skuldum heimila, sem rokið hafa upp úr öllu valdi vegna áhrifa verðtryggingar. Þau skilaboð hafa borist að lögreglan var ekki sátt við sitt hlutverk, en fulltrúar lögreglunnar fullyrða að þeir hafi þurft að sinna skyldum sínum.

Þá vaknar spurningin um  hver skylda lögreglumannsins er. Að verja þingheim gegn mótmælendum, verja mótmælendur gegn þingheimi, eða átta sig á hvort að myndin sé hugsanlega stærri?

Þegar þýskir hermenn og nasistar voru spurðir eftir síðari heimstyrjöld af hverju þeir unnu þau voðaverk sem þeir unnu, tóku þátt í tilraun til útrýmingar á fólki sem stjórnvöldum voru ekki þóknanleg, þá var svarið einatt að þeir þurftu að sinna skyldum sínum.

"Ég hef elskað mína þýsku þjóð og föðurland mitt með hlýju hjarta. Ég hef gert skyldu mína með því að framfylgja lögum þjóðar minnar og þykir leitt að þjóð mín var leidd á þessum tíma af mönnum sem voru ekki hermenn og að glæpir voru framdir sem ég hafði enga vitneskju um."

- Ernst Kaltenbrunner, nasisti, rétt fyrir eigin aftöku eftir Nuremberg réttarhöldin, 1. otkóber 1946 (fyrir nákvæmlega 65 árum)

Nasistarnir höfðu rangt fyrir sér, og voru margir dæmdir fyrir það, til dauða. Þeir skildu nefnilega skylduhugtakið ekki nógu vel. Skylduna sáu þeir sem skipun að ofan, frá yfirboðurum sínum og lögum, þrátt fyirr að bæði lögin og yfirboðararnir voru fjandsamleg mannlegu eðli og mannlegum fjölbreytileika. Þeir töldu skyldu sína vera gagnvart yfirboðurum sínum, en ekki gagnvart heildinni; gagnvart eigin þjóð; og sáu ekki mikilvægi þess að framfylgja skyldu til almannaheilla. Þess konar skylda fyrirfinnst ekki í lögum, boðum eða skipunum, heldur í huga og hjarta hvers og eins. Stundum köllum við þessa tilfinningu fyrir hinni raunverulegu skyldu samvisku eða réttlætiskennd. Hugsanlega hlustum við ekki nógu vel á þessa grundvallartilfinningu og skilning okkar á mannlegri tilveru.

Lögreglumenn á Íslandi virðast telja skyldu sína einungis vera að hlíða yfirboðurum og lögum, enda vita þeir að annars fengju þeir áminningu eða gætu jafnvel misst störf sín vegna óhlíðni. Það er miklu erfiðara að framkvæma í samræmi við raunverulega skyldu gagnvart manneskju og þjóð, heldur en að hætta eigin atvinnuöryggi og ógna þannig eigin framtíð.

Lögreglumenn sjá, eins og mótmælendur flestir, að stjórnmálamenn og fjármálakerfið hafa verið að vinna fólki mein, og þessir lögreglumenn ættu að hafa ríka réttlætiskennd, annars væru þeir varla í þessu starfi né starfi sínu vaxnir. Þeir ættu að hlusta á eigin samvisku og ræða við félaga sína um hver þeirra raunverulega skylda er, óháð því sem ráðningarsamningur þeirra segir. Það er þessi mannlega skylda sem þarf að hafa í huga, hún er yfir samninga og skipanir misviturra yfirboðara hafin.

Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglumönnum, og þeim vinum mínum sem hafa ákveðið að starfa fyrir lögregluembættið, og ég veit að þetta er besta fólk, og með djúpri áherslu á besta. Hins vegar þurfa þeir kannski að velta fyrir sér hvar hin raunverulega skylda þeirra liggur; hjá þeim sem skipa þeim fyrir og hafa völd yfir framtíð þeirra (stjórnmálamönnum og yfirmönnum), eða hjá þeim sem borga launin þeirra og þurfa á þeim að halda (þjóðinni)?

 

Hér á eftir fylgja nokkrar pælingar um skyldu sem ég mæli með að lesendur velti fyrir sér og ræði sín á milli:

"Margar skyldur þvingaðar fram með lögum eru óvinvættar náttúrunni."
- Antiphon

 

"... það gæti hugsanlega verið álitið betra, jafnvel skylda okkar, til að viðhalda sannleikanum að jafnvel eyðileggja það sem snertir okkur náið, sérstaklega þar sem við erum heimspekingar; því, á meðan hvort tveggja er okkur mikilvægt, hvetur dygðin okkur til að virða sannleika umfram vináttu."
- Aristóteles

 

"Tvennt fyllir hugann, með stöðugt nýrri og vaxandi aðdáun og undrun, því oftar og betur sem við hugsum um það: stjörnuhiminninn fyrir ofan og siðferðilögin að innan."
- Immanuel Kant

 

"Ef við beinum athyglinni að reynslu okkar af hegðun fólks, finnum við oft sanngjarnar ábendingar um að ekki sé hægt að finna eitt einasta áreiðanlegt dæmi um einhvern sem framkvæmir verk sín út frá hreinni skyldu. Þó að margt sé gert í samræmi við það sem skyldan boðar, má samt efast um hvort framkvæmdin sé beinlínis skylda, þannig að hún hafi siðferðilegt gildi.
- Immanuel Kant


Eggið sem varð að hænu og mótmælin

Þingmaður fékk egg í höfuðið. Hann datt. Vankaðist eitthvað. Allt í lagi. Ég vorkenni manninum. En þeta var bara eitt augnablik. Má þar af leiðandi túlka mótmælendur sem ómarktækan og ofbeldisfullan skríl? Varla.

Nú virðist fjallað meira um þetta eina stórhættulega egg í fjölmiðlum heldur en vanda heimila vegna forsendubrests og verðtryggingar. Eggið er orðið að hænu. Hænan verður fljótt að úlfi með þessu áframhaldandi.

Hvað er eiginlega að þeim sem setja fréttirnar saman? Eru þeir ekki alveg að átta sig á samhenginu? Á bara að horfa á dramatíska augnablikið, þetta sem vakti mesta athygli um stund, og gleyma ástæðunni sem knýr mótmælin áfram?

Hvar er rökhugsunin? Hvar er skynsemin? Hvar er tilfinningin fyrir því sem skiptir máli?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband