Leiða góðar fyrirætlanir okkur til helvítis?

Ég hef ferðast mikið um heiminn. Á þessu ári heimsótt 13 ólík lönd. Alls staðar hitti ég fjöldan allan af góðu fólki. Hef aldrei hitt manneskju sem ég get álitið illa. Kannski afvegaleidda, en ekki illa. Við vitum af miklum minnihluta sem stundar glæpi og eru einhvers konar hrottar. En að er ekki mikið af slíku fólki. Held ég.

Þegar við lítum hins vegar á stóru myndina, kerfin sem þetta góða fólk um allan heim hefur búið til, sjáum við kerfi sem er gríðarlega stórt, flókið og ranglátt fyrir suma, en réttlátt í augum annarra - virðist fara eftir aðstöðu. Það er eins og þetta kerfi sé orðið að ríkjandi heimsmynd, einhvers konar trúarbrögðum. Ef einhver verður útundan í þessu kerfi, lendir undir því og kemst ekki af vegna þess, er fólk sem hefur það gott líklegt til að yppta öxlum og kalla hina ólánsama.

Hagkerfið er kerfi sem á að veita öllum farboða. Stjórnkerfið á að tryggja sanngjarna skiptingu auðs. Þetta á að virka. En af einhverjum ástæðum virkar þetta ekki fullkomlega og það veldur reiði fólks. Þeir sem halda um stýrið virðast flestir halda að kafbáturinn sé á réttri siglingu, þrátt fyrir rauð ljós úti um allt. Það er eins og mælikvarðar á vandamál séu teknir úr sambandi og aðeins litið á þá mæla sem sýna að allt sé í lagi einhvers staðar. Það er ekki góð stjórnun. Slíkur kafbátur er ekki líklegur til að komast á leiðarenda. Svona stjórnun tíðkast hins vegar um allan heim, af góðu fólki, sem telur sig vita en veit ekki betur.

Eitt vandamálið er hvað við erum orðin mörg. Þegar elstu þingmenn Íslendinga hófu störf sín á þingi var mannkynið helmingi minna en það er í dag. Þá voru rándýr símtöl, telefax eða bréfasendingar helsti samskiptamiðillinn. Sjónvarp var tiltölulega nýlegt fyrirbæri og ekkert Internet sem gat fætt fólk á upplýsingum, þannig að það gat áttað sig á með sæmilega virkri gagnrýnni hugsun, að ekki er allt sem sýnist. Áður var fjallað um slík mál í blaðagreinum, tímaritum eða bókum, sem ekki hver sem var gat birt. Í dag breiðast mikilvægar upplýsingar út sem eldur í sinu gegnum samskiptasíður á Netinu. Þessar upplýsingar eru samt ekki alltaf réttar, og sífellt mikilvægara að vera gagnrýninn á hvaðan upplýsingarnar koma, hvernig þær eru settar fram og í hvaða tilgangi. Samt er haldið í gömlu kerfin sem hönnuð voru fyrir allt annan heim. Það er geggjun!

Vandamálið virðist ekki bara felast í kerfunum sem við sköpum, heldur hvernig þeim er beitt. Kerfin verða til af því að einhver vitringurinn eða sérfræðingur heldur að það sé góð hugmynd til að leysa ákveðin vandamál. Kerfin virka yfirleitt vel í fyrstu, og sérstaklega gagnvart viðkomandi vandamáli. En síðan líður tíminn og aðstæður breytast. Ný vandamál koma fram á sjónarsviðið. Og einhvern veginn heldur fólk að hægt sé að beita sama gamla kerfinu til að laga þessi nýju vandamál. Áttar sig ekki á að þegar forsendur breytast, breytist eðli vandans. Í stað þess að leysa vandamál, fer kerfið að skapa ný vandamál, sem loks verða óviðráðanleg og skrímsli hefur orðið til.

Verðtryggingin er eitt slíkt lítið skrímsli sem skapað var til að tryggja jafnvægi í lána- og launamálum. Síðan var lögum breytt þannig að hún passaði aðeins við lánamál, ekki lengur laun. Þannig verður verðtrygging að skrímsli fyrir þá sem afla sér tekna með launum, en hagkvæm fyrir þá sem þegar eiga fjármuni og lána þá. Þetta verðtryggingarskrímsli skapar gjá milli fólks. Það lendir í sitthvoru liðinu eftir því hvort það þjáist eða græðir. Sagan sýnir okkur að þeir ríku og voldugu sigra alltaf, nema í einstökum undantekningartilfellum, eins og þegar algjör bylting á sér stað og hinir þjáðu verða það margir og sameinast gegn hinum voldugu, að eitthvað verður að breytast.  

Það eru ekki venjulegar manneskjur sem búa til kreppur og styrjaldir, heldur eru það þessi gígantísku kerfi sem fólk býr til og taka yfir. Þessi kerfi geta verið í formi trúarbragða, stjórnmálahugmynda, hagfræðikrúsidúlla, eða annað. Við verðum að passa okkur á að heilbrigð skynsemi og gagnrýnin hugsun verði nægileg mótbára gegn þessum kerfum.

Skynsemi og gagnrýnin hugsun er aldrei nóg þegar þeir sem stjórna kerfunum telja allt vera í himnalagi og nenna ekki að hlusta á "svartsýnisraus", einelti eða andúð, sem einatt eru þau nöfn sem gagnrýnni hugsun er gefið sé hún ekki þóknanleg þeim sem kerfinu stjórna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Spurning um að fara að horfa á BLADE RUNNER aftur ?

Ómar Ingi, 28.10.2011 kl. 21:54

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góður punktur, Ómar. Fer hins vegar á Tinna í dag með fjölskyldunni.

Hrannar Baldursson, 29.10.2011 kl. 05:56

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Fólk elskar sýstem af öllum gerðum. Það býr til sýstem, hugsanasýstem, lagasýstem og skólasýstem. Allur geimurinn er einhverskonar sýstem og reiknisnillingarnir eru búnir að reikna út að Guð sé til, sem andlegt sýstem.

Og Hann er líka svona sýstem sem skapar önnur sýstem. Bara lifandi sýstem. Eiginlega eru öll sýstem lifandi, bara misjafnlega mikið lifandi. Svo þarf sýstem til að sanna að sýstemin séu í lagi og svo er fullt af hryllilegum sýstemum til. Trúsýstem eins og kristni, múslimar, íslenski skatturinn og vinstri grænir.

Auðvitað snýst allt um forsendurnar sem eru gefnar áður enn maður setur hugsanasýstemið í gang og býr til nýtt sýstem. Niðurstaðan er alltaf háð forsendunni eins og venjulega.

Verðtrygging er glæpasýstem búið til af óheiðarlegu fólki sem kann aðferðina að rugla fólk með því að láta óheiðarlegt sýmstem líta út eins og heiðarlegt. Allir vita í dag að þetta sýstem þeirra er bara bull, enn þeim er alveg sama. nýtt sýstem hefur verið fundið upp.

Kjafta & Blaðursýstem bankastjórnvalda hafa étuð upp pólitíska sýstemið upp til agna um allar jarðir, í USA og Íslandi og allstaðar. Menn setja í sýstem að labba um göturnar og mótmæla vondum sýstemum.

Fólk þarf að fara að velja hvaða sýstem þeir vilja láta stjórna sér. Mitt t.d. er ágætt, enn það er ekki víst að það passi neinum öðrum... ;)

Óskar Arnórsson, 31.10.2011 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband