Hver er skylda lögreglumannsins?

1. október 2011 var lögregluliði stillt upp sem skjaldborg yfir þingheim til að verjast mótmælendum sem hafa fengið sig fullsadda á skilningsleysi, hroka og áhugaleysi (eða lélegum framkvæmdum) stjórnvalda til leiðréttingar á skuldum heimila, sem rokið hafa upp úr öllu valdi vegna áhrifa verðtryggingar. Þau skilaboð hafa borist að lögreglan var ekki sátt við sitt hlutverk, en fulltrúar lögreglunnar fullyrða að þeir hafi þurft að sinna skyldum sínum.

Þá vaknar spurningin um  hver skylda lögreglumannsins er. Að verja þingheim gegn mótmælendum, verja mótmælendur gegn þingheimi, eða átta sig á hvort að myndin sé hugsanlega stærri?

Þegar þýskir hermenn og nasistar voru spurðir eftir síðari heimstyrjöld af hverju þeir unnu þau voðaverk sem þeir unnu, tóku þátt í tilraun til útrýmingar á fólki sem stjórnvöldum voru ekki þóknanleg, þá var svarið einatt að þeir þurftu að sinna skyldum sínum.

"Ég hef elskað mína þýsku þjóð og föðurland mitt með hlýju hjarta. Ég hef gert skyldu mína með því að framfylgja lögum þjóðar minnar og þykir leitt að þjóð mín var leidd á þessum tíma af mönnum sem voru ekki hermenn og að glæpir voru framdir sem ég hafði enga vitneskju um."

- Ernst Kaltenbrunner, nasisti, rétt fyrir eigin aftöku eftir Nuremberg réttarhöldin, 1. otkóber 1946 (fyrir nákvæmlega 65 árum)

Nasistarnir höfðu rangt fyrir sér, og voru margir dæmdir fyrir það, til dauða. Þeir skildu nefnilega skylduhugtakið ekki nógu vel. Skylduna sáu þeir sem skipun að ofan, frá yfirboðurum sínum og lögum, þrátt fyirr að bæði lögin og yfirboðararnir voru fjandsamleg mannlegu eðli og mannlegum fjölbreytileika. Þeir töldu skyldu sína vera gagnvart yfirboðurum sínum, en ekki gagnvart heildinni; gagnvart eigin þjóð; og sáu ekki mikilvægi þess að framfylgja skyldu til almannaheilla. Þess konar skylda fyrirfinnst ekki í lögum, boðum eða skipunum, heldur í huga og hjarta hvers og eins. Stundum köllum við þessa tilfinningu fyrir hinni raunverulegu skyldu samvisku eða réttlætiskennd. Hugsanlega hlustum við ekki nógu vel á þessa grundvallartilfinningu og skilning okkar á mannlegri tilveru.

Lögreglumenn á Íslandi virðast telja skyldu sína einungis vera að hlíða yfirboðurum og lögum, enda vita þeir að annars fengju þeir áminningu eða gætu jafnvel misst störf sín vegna óhlíðni. Það er miklu erfiðara að framkvæma í samræmi við raunverulega skyldu gagnvart manneskju og þjóð, heldur en að hætta eigin atvinnuöryggi og ógna þannig eigin framtíð.

Lögreglumenn sjá, eins og mótmælendur flestir, að stjórnmálamenn og fjármálakerfið hafa verið að vinna fólki mein, og þessir lögreglumenn ættu að hafa ríka réttlætiskennd, annars væru þeir varla í þessu starfi né starfi sínu vaxnir. Þeir ættu að hlusta á eigin samvisku og ræða við félaga sína um hver þeirra raunverulega skylda er, óháð því sem ráðningarsamningur þeirra segir. Það er þessi mannlega skylda sem þarf að hafa í huga, hún er yfir samninga og skipanir misviturra yfirboðara hafin.

Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglumönnum, og þeim vinum mínum sem hafa ákveðið að starfa fyrir lögregluembættið, og ég veit að þetta er besta fólk, og með djúpri áherslu á besta. Hins vegar þurfa þeir kannski að velta fyrir sér hvar hin raunverulega skylda þeirra liggur; hjá þeim sem skipa þeim fyrir og hafa völd yfir framtíð þeirra (stjórnmálamönnum og yfirmönnum), eða hjá þeim sem borga launin þeirra og þurfa á þeim að halda (þjóðinni)?

 

Hér á eftir fylgja nokkrar pælingar um skyldu sem ég mæli með að lesendur velti fyrir sér og ræði sín á milli:

"Margar skyldur þvingaðar fram með lögum eru óvinvættar náttúrunni."
- Antiphon

 

"... það gæti hugsanlega verið álitið betra, jafnvel skylda okkar, til að viðhalda sannleikanum að jafnvel eyðileggja það sem snertir okkur náið, sérstaklega þar sem við erum heimspekingar; því, á meðan hvort tveggja er okkur mikilvægt, hvetur dygðin okkur til að virða sannleika umfram vináttu."
- Aristóteles

 

"Tvennt fyllir hugann, með stöðugt nýrri og vaxandi aðdáun og undrun, því oftar og betur sem við hugsum um það: stjörnuhiminninn fyrir ofan og siðferðilögin að innan."
- Immanuel Kant

 

"Ef við beinum athyglinni að reynslu okkar af hegðun fólks, finnum við oft sanngjarnar ábendingar um að ekki sé hægt að finna eitt einasta áreiðanlegt dæmi um einhvern sem framkvæmir verk sín út frá hreinni skyldu. Þó að margt sé gert í samræmi við það sem skyldan boðar, má samt efast um hvort framkvæmdin sé beinlínis skylda, þannig að hún hafi siðferðilegt gildi.
- Immanuel Kant


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Snilld.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.10.2011 kl. 12:46

2 Smámynd: Skeggi Skaftason

Kannski íslenskir lögreglumenn ættu að hætta að hlýða ríkisstjórninni, og standa með fólkinu í landinu, koma frá þessari duglitlu ríkisstjórn sem er landinu til ógagns.

Eins og stór hluti hermanna Spánar gerðu 1936.

Skeggi Skaftason, 2.10.2011 kl. 14:55

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þarna hittirðu naglan á höfuðið Hrannar sem oftra !!!heyr fyrir því/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 2.10.2011 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband