Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Er ICESAVE málið að tapast vegna þreytu?

Faðir minn gaf mér það ágæta ráð að mikilvægt sé að bera hæfilega virðingu fyrir andstæðingnum, hvorki of mikla sé hann sterkur, né of litla sé hann veikur. Maður eigi ekki að hreykja sér yfir eigin sigrum, né kenna öðrum um eigin ósigra og læra af þeim. Þetta ráð hefur lengi verið kjarninn í minni tilraun til visku um heiminn.

Ég hef lent á móti andstæðingi í hraðskák sem hefur ekki trúað að hann gæti unnið mig. Hann orðaði oft þessa skoðun bæði fyrir og eftir skákir. Hann sagðist ekki eiga séns gegn svona "hákörlum". Ég held að honum hafi þó loks tekist að vinna eina af um 100 skákum sem við tefldum. Þrátt fyrir að fá upp ágætar stöður, hristi hann hausinn mæðulega, lék með uppgjafarsvip leikjum sem áttu alls ekki við í viðkomandi stöðu, tókst að auka eigin vanda og tapa upp á eigið sjálfdæmi.

Hvað eftir annað leikur hún alvarlega af sér, eins og hún telji mótið fyrirfram tapað, þar sem að eftir byrjunina var staðan næstum töpuð, en hún sér ekki möguleikana í miðtaflinu og virðist ætla að fella eigin kóng áður en að endataflinu kemur.

Ríkisstjórn Íslands í dag minnir mig á slíka taflmennsku. Mig grunar að þessi ríkisstjórn sé ekkert endilega huglaus, mig grunar að hún sé einfaldlega dauðþreytt, en þingmann hafa vart unnt sér hvíldar í heilt ár. Stjórnin vill bara klára málið sama hvað það kostar, eins og unglingur sem vill ekki vakna á köldum morgni og fara í skólann vegna þess að svefninn er svo miklu þægilegri.

Einnig kannast ég við úr skákinni hversu erfitt getur verið að snúa eigin trú um að maður sé einfaldlega ekki jafn sterkur og einhver annar, upp í þá trú að maður geti unnið hvern sem er, og farið eftir þeirri trú. Án slíkrar trúar er tilgangslaust að tefla. Slík trú gefur manni nógu mikla sjálfsvirðingu til að treysta á sjálfan sig til að vinna hvern sem er. Ég hef slíka trú. Hún hefur skilað mér árangri í stöðum sem sumir gefa, og reyndar er ég svolítið þekktur í hinum íslenska skákheimi fyrir þá þrjósku að vilja aldrei gefast upp eða semja um jafntefli, án þess að hafa fundið til öll tiltekin ráð til að klára viðkomandi stöðu. Reyndar samdi ég einu sinni stutt jafntefli við Sævar Bjarnason í lok erfiðs móts, bæði af því að staðan var jafnteflisleg, en aðallega vegna þess að ég var dauðþreyttur.

Það eru ófrávíkjanleg sannindi að sama hvað bloggarar skrifa, sama hversu hátt er slegið í potta og pönnur, sama hvað er satt og rétt, þá er það ríkisstjórn Íslands sem er að tefla skákina - bloggarar eru aðeins hugsanir sem hlustað er á og hampað þóknist þær ríkisstjórninni. Allt annað virðist látið sem vind um eyru þjóta, treyst á blinda trú um að staðan hafi verið rétt metin og ekkert gefið eftir til að víkja frá þeirri trú.

Þannig er þessi ríkisstjórn bæði eins og skákmaður sem getur ekki trúað öðru en því sem hann hefur upplifað áður, að sama sagan muni ávallt endurtaka sig og skákmaður sem er dauðþreyttur eftir erfitt mót, vill bara klára síðustu skákina, fá smá hvíld til undirbúnings fyrir næsta mót. 

Þó að kunnátta, þekking og völd komi úr fortíðinni, þá kemur viska úr umhyggju fyir framtíðinni. Það væri óskandi að fólk opnaði augun og vaknaði, og hætti að leika afleikjum sem gera stöðugt stöðu þjóðarinnar verri gagnvart umheiminum, sem og stöðu þeirra sem eru í svipuðum málum og munu þurfa á góðu fordæmi að halda frá okkur. Maður þarf alltaf að hafa í huga að sigur er mögulegur, að það séu til leiðir sem maður hefur ekki sjálfur áttað sig á, og að stefnt sé að sigri; en ekki að tapi eins og ríkisstjórnin virðist gera, og telja sig vera að samþykkja jafntefli, þegar ekkert annað en sigur ætti að koma til greina.


mbl.is Torsótt sátt um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju slær íslenska ríkið vopnin úr eigin höndum?

Við verðum ekki vitur af því að minnast fortíðar okkar, heldur með ábyrgð gagnvart framtíð okkar.
- George Bernard Shaw:

Ólína Þorvarðardóttir og Björn Valur Gíslason sökuðu Evrópuþingmanninn Alain Lipietz um að misskilja lög Evrópusambandsins um ábyrgð um skyldur til endurgreiðsla úr tryggingarsjóði innlána. Lesið sjálf greinar þeirra með því að smella á nöfn þeirra og gerið upp hug ykkar sjálf. Væri ekki gáfulegra að leita fleiri ráða virtra ráðgjafa og Evrópuþingmanna áður en að gefa slíkar yfirlýsingar með hraði? Getur verið að ríkisstjórnin sé ekki að átta sig á umfangi málsins?

Hvor hefur rétt fyrir sér, sá sem tekur málstað Íslendinga, Alain Lipietz eða ríkisstjórnin, sem er afar fljót að gefa út yfirlýsingu gegn málstaði Íslendinga?

Ætlar þessi ríkisstjórn að endurtaka öll sömu mistökin og forverar þeirra? Eru þau föst í sömu hjólförum og vilja þau kannski bara sitja föst og láta skola sér í burtu með tíð og tíma? Málið er miklu stærra en íslensk lög segja til um, Hrun fjármálakerfis er afar sérstakt fyrirbæri og staðan í dag er afar viðkvæm.Yfirlýsingagleði gegn málstaði íslensku þjóðarinnar er ekki til bóta.

"Trúðu þeim sem leita sannleikans; efastu um þá sem þegar hafa fundið hann."
- Andre Gide 

Það koma fram afar misvísandi upplýsingar um hvort að Íslendingar geti borgað þá skuld sem samþykkt á ICESAVE kallar yfir þjóðina, sem ég tel reyndar vera aukaatriði, því að geta og skal eru tvö afar aðskilin hugtök, og talað er um að endurgreiðslur muni taka frá 14 til 30 ár, við verstu hugsanlegu aðstæður. Þá er ljóst að verstu hugsanlegu aðstæður í huga þeirra sem meta þetta taka ekki með í reikninginn að fyrir 15 mánuðum síðan hrundi íslenskt fjármálakerfi, og slíkt getur auðveldlega gerst aftur á næstu 15 mánuðum, enda eru sífellt fleiri að flytja úr landi, sífellt fleiri að missa vinnuna, sífellt fleiri að missa heimili sín, enda standa spjót út úr skjaldborg heimilanna sem reka þennan venjulega Íslending beint í gegnum hjartað, á meðan snjóboltinn stækkar í brekkunni. 

Þar að auki virka sjálfsagt fæst nákvæm hagfræðileg mælitæki á dag þar sem skortir á stöðugleika til að meta stöðuna vel, að hluta til vegna ráðstafana sem hafa verið gerðar til að ýta vandanum á undan sér, í stað þess að taka á honum strax.

Leitt að allt fólkið sem virkilega veit hvernig stjórna á þjóð er upptekið við að keyra leigubíla og klippa hár.
- George Burns

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég hef endurskrifað þessa grein, og orðalagið í fyrsta uppkasti var uppfullt af einhvers konar heift sem réttlætiskennd mín kom í gang, en ég tamdi reiðina, hugsaði betur um það sem ég skrifaði, las aftur rök þeirra sem að málinu koma, og reyndi að temja þetta mál í hógvært málfar; en þess má geta að myndmálið í fyrsta uppkasti var afar ríkt, þar sem uppúr stóð skjaldborg með spjótum sem beint er að hjörtum íslenskra heimila. En reiðin hefur verið tamin, þannig að engar slíkar myndhverfingar birtast á þessari síðu í dag. 

Hér er viðtalið við Alain Lipietz í Silfri Egils.

Hér hafnar Alain Lipietz ásökunum um misskilning.

 

Hér er fréttin af Eyjunni (smelltu á tengilinn til að sjá viðbrögð fólks) og fyrir neðan yfirlýsing forsætisráðuneytis:

Með aðild sinni að EES-samningnum gerðist Ísland hluti af innri markaði Evrópu. Samkvæmt tilskipunum ESB sem Ísland hefur tekið upp með lögum frá Alþingi gildir eftirfarandi:

·        Banki sem er með höfuðstöðvar í EES ríki stofnar útibú í öðru EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkisins, þar sem höfðustöðvar (sic) bankans eru.
·        Banki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EES stofnar útibú í EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs gistiríkisins, þar sem útibúið starfar.

Ljóst er af þessu að þar sem Ísland er EES ríki féllu skyldur vegna trygginga á innlánum í útibúum íslenskra banka í öðrum EES ríkjum á íslenska tryggingasjóðinn.  Þótt meginreglan sé einnig sú að eftirlit með því að fjármálastofnun geti greitt út innlán hvíli á heimaríki hefur af hálfu Íslands samt sem áður verið bent á að eftirlitsstofnanir gistiríkis séu ekki undanþegnar eftirlitsskyldum.

Samkvæmt tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem Ísland hefur tekið upp er það skylda sérhvers aðildarríkis EES að tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á fót innlánatryggingakerfi, sem nái til fjármálastofnana með höfuðstöðvar í því ríki sem og útibúa þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin kveður skýrt á um að útibú í öðrum aðildarríkjum EES falli undir innlánatryggingakerfi heimaríkisins.

Íslensk stjórnvöld hafa á öllum stigum Icesave-málsins haldið því fram gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu að um lagalega óvissu væri að ræða varðandi ábyrgð ríkissjóða við kerfishrun á lágmarkstryggingum innstæðueigenda. Jafnframt var strax í upphafi lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól, en öllum tilraunum til þessa hefur verið hafnað af öðrum samningsaðilum en það er meginregla í þjóðarétti að ríki geta ekki leyst úr ágreiningi sín á milli fyrir dómstólum nema allir aðilar samþykki. Þessi fyrirvari sem áréttaður er í 2. gr. l. nr. 1/2010 breytir þó engu um þá niðurstöðu að ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkis gildir um útibú banka innan EES þótt annað hafi verið fullyrt undanfarna daga. 

 


mbl.is Lipietz vísar gagnrýni á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Hangover (2009) ***1/2

 

Hangoverposter09

 

"The Hangover" virkar á mig sem frekar lúmsk snilld. Hún er oft fyndin og þá sérstaklega í meðförum senuþjófsins Zach Galifianakis sem frekar klikkaður en velviljaður vandræðagemlingur. Að sjálfsögðu er myndin skylduáhorf fyrir þá sem höfðu gaman af Skaupinu 2009, sem notaði nokkrar senur úr þessari mynd á vel heppnaðan hátt.

Sagan er einföld. Fjórir vinir fara til Las Vegas í steggjapartý, en þeir detta svo hrikalega í það að þeir vakna minnislausir og með hausverk daginn eftir. Aðal skipuleggjandi ferðarinnar, Phil Wenneck (Bradley Cooper) er kennari í barnaskóla sem ætlar svo sannarlega að sjá til þess að vinur hans fái eftirminnilega skemmtun, og leigir flottasta og dýrasta herbergið sem hægt er að fá í borginni, að sjálfsögðu með kreditkorti vinar síns, tannlæknisins Stu Price (Ed Helms) sem vaknar með horfna tönn og gjörbreyttar framtíðarhorfur. Alan Garner (Zach Galifianakis) er svo hinn léttgeggjaði svili, sem olli minnisleysi allra félaganna, að sjálfsögðu óvart. 

Félagarnir vakna í hótelherbergi sem hefur verið lagt í rúst. Það er tígrisdýr inni á baði og svo virðist sem að rúmi hafi verið kastað út af svölum, að ógleymdu barni inni í fataskáp. Og vinur þeirra Doug (Justin Bartha) hefur horfið og þeir hafa ekki nema um sólarhring til að koma honum í brúðkaupsveisluna hans. Í leitinni að vini sínum komast þremenningarnir smám saman að því hvað gerðist þessa örlagaríku nótt, og hvernig þeim tókst að koma við á spítala, stela lögreglubíl, lenda í návígi við snarklikkaðan mafíósa og Mike Tyson og súludanskonu leikna af Heather Graham.

Prýðileg skemmtun.

 

Mynd: Wikipedia


Vissirðu að ef þú samþykkir ICESAVE ertu að fremja landráð?

Ég var að horfa á viðtal Egils Helgasonar við Eva Joly og Alain Lipietz í Silfri Egils, þar sem fram koma nákvæmlega þær skoðanir sem ég hef sjálfur komist að með mínum persónulegu rannsóknum og pælingum: að samþykkt ICESAVE samningsins er það sama og að samþykkja ólög sem munu hlekkja framtíðarkynslóðir Íslendinga í þrældóm fyrir Breta og Hollendinga. En rökstuðningurinn kemur nú frá fyrstu hendi af afar áreiðanlegum einstaklingi. 

Það leikur enginn vafi lengur í huga mínum, eftir að hafa hlustað á frásögn Alain Lipietz, sem tók þátt í að semja lög um rekstur einkabanka í Evrópu, og hver beri ábyrgð hrynji bankinn. Ljóst er að einkabankar þurfa að búa til einkavarasjóð, en að alls ekki sé réttlætanlegt að ganga í sjóði heillar þjóðar, nema þjóðarsamþykki liggi fyrir. Hvorki Alþingi né einstakir ráðherrar geta tekið slíka ákvörðun.

Ástæðan fyrir því að reynt var að þrýsta ICESAVE lögunum í gegn án þess skilmála að hægt væri að fara með málið fyrir dómstóla er orðin skýr: þessi samningur var ekki byggður á lagalegum grundvelli, heldur frekju og yfirgangi fyrrum nýlenduherra sem virðist dreyma um fórna frægð, leggja Ísland í rúst og gera Ísland að breskri nýlendu, bundna af samningi sem engin þjóð ætti nokkurn tíma að sætta sig við.

Það hefur tekið mig afar langan tíma að festa skoðun mína við það sem ég trúi að sé satt. Það hefur alltaf verið eitthvað pláss fyrir efasemdir. Það er ennþá pláss, því ég hafna því algjörlega sem fræðimaður að útiloka að ég geti haft rangt fyrir mér, en ég hef gert upp hug minn, og ljóst að það þarf gífurlega sterk rök til að snúa þessari skoðun minni.

Hér eftir mun ég líta á þá íslensku manneskju sem vogar sér að réttlæta ICESAVE samninginn sem landráðamann, þar sem þessi samningur mun ekkert gera en að hefti frelsi allra Íslendinga í margar kynslóðir, og skapa fordæmi sem gefur erlendum öflum tækifæri til að vaða yfir okkur á skítugum skónum. Ég er tilbúinn að gefa þeim tækifæri sem studdu ICESAVE samninginn á þeirri forsendu að þeir vissu ekki betur, en frá deginum í dag, er ekkert sem réttlætir slíkan stuðning, og nokkuð ljóst að ég mun rannsaka rök þeirra sem reyna að halda því fram að eitthvað í veröldinni réttlæti að gera Ísland að þrælanýlendu.

Með því að vísa málinu í þjóðaratkvæði gaf Ólafur Ragnar þjóðinni von um að lenda ekki í þessari prísund. Mér finnst frekar grunnhyggið að fara ekki strax að samningaborðinu og ræða við Breta og Hollendinga áður en þjóðaratkvæðagreiðslan á sér stað, þar sem að nauðsynlegt er að ljúka þessu máli sem fyrst og snúa athyglinni að öðrum málum, og algjör skylda hugsandi Íslendinga að berjast gegn því að Íslendingar verði kúgaðir af stórveldum. 

Davíð Oddsson sagði frá fyrsta degi að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna. Það var hárrétt hjá honum þá og er það ennþá í dag. 

Ég vil taka það fram fyrir þá sem hafa þörf til að flokka einstaklinga eftir stjórnmálaskoðunum, að ég er ekki flokksbundinn neinum flokki og kaus í síðustu kosningum flokk sem er ekki lengur til, þó að þingmenn hans séu enn á þingi, og sumir þeirra að standa sig afar vel, en aðrir ekki.

Agli Helgasyni vil ég hrósa sérstaklega fyrir hans framlag til íslensku þjóðarinnar. Hann hafði þá skoðun fyrir ákvörðun Ólafs Ragnars að það hefði átt að samþykkja ICESAVE samninginn til að ljúka málinu strax, en ég sé ekki betur en að í dag hafi runnið á hann tvær grímur við að hlusta á Alain Lipietz. Egill hafði rangt fyrir sér, en hann er áreiðanlega nógu mikill maður til að viðurkenna slík mistök og vera þannig öðrum sem voru á sömu skoðun gott fordæmi.

 

Smelltu hér fyrir neðan til að skoða viðtalið, þetta er algjört skylduáhorf:

Eva Joly og Alain Lipietz á gervihnetti frá París


Blórabögglar Hrunsins eða góðar fyrirmyndir?

Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa verið ranglega uppnefndir, úthúðaðir og gerðir að blórabögglum Hrunsins, þar sem auðveldara virðist oft að dæma fyrirfram, heldur en gefa viðkomandi tækifæri á að útskýra sitt mál, og hlusta á þá af athygli.

Ég lít svo á að þessir tveir fyrrverandi höfuðfjendur ættu í dag að sýna hvor öðrum samstöðu, enda báðir dæmdir af dómstóli götunnar fyrir rangar sakir, og sífellt uppnefndir þar sem erfitt er að hreinsa mannorð, þó að það sé hreint.

Báðir hafa verið ásakaðir fyrir að hafa stutt við bakið á útrásarvíkingum. Það gerðu reyndar flestir Íslendingar og var rétt, því fáa grunaði um glæpsamlegar athafnir væri að ræða, eins og hátt fer í umræðunni í dag. Báðir voru þeir sviknir af fólki sem þeir treystu: Ólafur Ragnar af fjölda fólks sem misnotaði stuðning hans til að auka verðmæti eigin fyrirtækja útfrá "good will" sem enn í dag er verðlagt fyrirbæri.

Davíð Oddsson hefur hins vegar legið undir enn alvarlegri ásökunum um spillingu, að hafa tekið þátt í að afhenda vinum sínum bankastofnanir þjóðarinnar á vildarkjörum, hafa áhrif á að hans eigin sonur hafi fengið dómarastarf þegar hann þótti ekki hæfastur, hafa samþykkt lán í svarthol bankanna sem síðan var fyrst og fremst notað í arðgreiðslur og bónusa. Þessi mál þarf að rannsaka.

Það hefur skaðað málstað Davíðs enn frekar að sækja um og fá starf sem ritstjóri hjá Morgunblaðinu. Aftur á móti hlýtur maður að spyrja, fyrst Davíð var fjarlægður úr embætti hjá Seðlabanka Íslands, hvað átti hann að gera? Hann sat ennþá undir upphrópunum og sjálfur fjármálaráðherra eggjaði hann til framkvæmda með því að tala um hann sem fyrrverandi stjórnmálamann á eftirlaunum. Einelti og biturð virðast einkenna samskipti þeirra sem hafa ólíkar skoðanir í stjórnmálum, og afar ljótt er að sparka í liggjandi mann, og vegna þessa skil ég hvers vegna Davíð samþykkti að gerast ritstjóri, hann vildi ekki vera aðgerðarlaus og varnarlaus undir stöðugu hnýtingum fyrrum andstæðinga sinna. Þeim var nær.

Reyndar held ég að svona hnýtingar hafi lengi verið háðar af þingmönnum. Ég man eftir slíku uppnefni og orðahraki á Alþingi árið 1992, úr munni þeirra Davíðs og Ólafs Ragnars, sem varð til þess að mér varð umhugað um uppeldisáhrif stjórnmálamanna sem fyrirmynda fyrir börn sem væru að vaxa úr grasi. Ég taldi þá og ég tel það enn að ef stjórnmálamenn komast upp með spillingu og einelti, þá verður slíkt endurspeglað af æskunni. 

Nú er sú æska sem alin var upp orðin að útrásarvíkingum og stuttbuxna-, bæði drengjum og stúlkum, sem tekið hafa fyrirmyndir sínar nærri sér og hermt eftir þeim, enda lærir fólk mest af fyrirmyndum sínum.

Ég held að æðsta ábyrgð þingmanns sé að haga sér heiðarlega, hnýta ekki í andstæðinga sína, koma vel fram við fólk, vera hreinskilinn, vera góð fyrirmynd. Það er vegna þess að hvort sem viðkomandi líkar betur eða verr, þá er viðkomandi fyrirmynd sem æskan mun fylgja þegar hún vex úr grasi. Þetta er örugglega til of mikils ætlast, og þess vegna er Kirkjan notuð til að skaffa fyrirmyndir, fyrst nútímafólki virðist vera það verkefni ómögulegt.

Hér eru eftirminnileg brot úr ræðum þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, en báðir eru þeir meðal mikilvægra fyrirmynda þeirra kynslóða sem taka munu við Íslandi, og ég tel eitt þeirra helsta verkefni í dag vera að sýna heilsteyptan karakter, sýna í verki, og sanna fyrir þjóðinni, að þeir séu báðir góðir Íslendingar.

Þetta er úr frægu orðaskaki þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, þar sem þeir voru að ræða um auglýsingastofuna Hvíta Húsið, sem hafði fengið gífurlegar tekjur fyrir að vera í viðskiptum við Alþýðubandalagið, en Ólafur Ragnar var þá formaður Alþýðubandalagsins. Þannig að ásakanir um spillingu af hendi Davíðs Oddssonar er ekkert sem nýtt er af nálinni, og því svolítið merkilegt að í dag skuli hann vera ásakaður um nákvæmlega það sem hann er að gagnrýna í þessu fræga orðaskaki, sem tók náttúrulega ekki nema korter, en verður lengi í minnum haft:

"Upp úr þessum upplýsingum stendur og er meginmál að mínu viti hversu ógætilegt það var af formanni Alþb. að láta sömu auglýsingaskrifstofu vera í stórkostlegum viðskiptum við fjmrn. og sjá um kosningabaráttu Alþb." Davíð Oddsson, á Alþingi, 13. febrúar 1992, kl. 11:33.

„Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstv. forsrh. en það kom greinilega hér fram. (Gripið fram í: Hvað sagði ræðumaður?) Ég sagði: svona skítlegt eðli." Ólafur Ragnar Grímsson um Davíð Oddsson, á Alþingi 13. febrúar 1992, kl. 11:39.

"Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við munnsöfnuð þess þingmanns sem áðan talaði. Það er uppeldislegt vandamál hans." Svar Davíðs Oddssonar til Ólafs Ragnars Grímssonar, á Alþingi 13. febrúar 1992, kl. 11:44.

Ljóst er að Ólafur Ragnar hefur valið hvers konar fyrirmynd hann verður. Ég spái því að hans verði minnst fyrir hetjulega baráttu fyrir lýðræði þjóðarinnar, og að sú söguskýring muni lifa af eftir okkar daga. Það er enn afar erfitt að spá fyrir um hvernig Davíðs verður minnst, en eins og staðan er í dag lítur málið ekki vel út fyrir hann, hún er erfið og verður hann að vinna þrekvirki á réttu augnabliki, rétt eins og Ólafur Ragnar, til að endurheimta orðstýr sinn. Reyndar hefur hann gert það í mínum augum, með því að neita að greiða skuldir óreiðumanna, og Ólafur Ragnar hefur veitt honum óvænt liðsinni með ákvörðun sinni 5. janúar og síðan viðtölum við erlenda fjölmiðla.

Innan skamms verður Davíð að sýna þjóðinni og komandi kynslóðum hvar hann keypti ölið. Spái ég að hans tími muni koma eftir birtingu á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis.

 

  1. Deyr fé,
    deyja frændur,
    deyr sjálfur ið sama.
    En orðstír
    deyr aldregi
    hveim er sér góðan getur.

    -Hávamál

 


Hvernig væri að tryggja málefnalega umræðu frekar en áróður?

Það væri tóm della að dæla peningum í innihaldslaust áróðursstríð um höfnun eða samþykki ICESAVE samningsins. Betra væri að fá opna umræðu um málið um gildi, rök og framtíðarsýn.

Mér þætti ráð að nota til dæmis RÚV í þetta mál og gefa ólíkum aðilum tækifæri til að tjá sig um málið í sjónvarpi, og þá ekki bara að fá stjórnmálamenn í umræðuna, heldur draga á tilviljunarkenndan hátt úr öllum samfélagshópum. Ég vil fá að heyra hvað allar þjóðfélagsstéttir eru að hugsa: bakarar, smiðir, atvinnulausir, námsmenn, fræðimenn, bréfberar, læknar, og fleiri. Ekki bara stjórnmálamenn, hagfræðingar og lögfræðingar, þó að þeir hópar mættu vissulega vera með. 

Hægt væri að bjóða fólki að skrá sig á lista hafi það áhuga á þátttöku í umræðunum, og síðan draga til dæmis þrjá einstaklinga á dag sem gætu rætt sínar skoðanir í beinni útsendingu. 

Ég sting upp á að fá fræðimenn sem gæta pólitísks hlutleysis til að liðka slíkar umræður, en ekki stjórna þeim eins og þáttastjórnendur í sjónvarpi, þar sem skoðanir fólks eru viðraðar og rök þeirra greind á vitrænan hátt.

Þessi hugmynd er kannski ekki fullkomin, en ég sting einfaldlega upp á henni því ég lærði í áföngum hjá Dr. Nirði P. Njarðvík að þegar maður gagnrýnir eitthvað, þá er skynsamlegt að koma með hugmyndir um hvað getur komið í staðinn, annars verður gagnrýnin frekar marklaust. Og vissulega getur fullt af einstaklingum í þjóðfélaginu bætt þessa hugmynd eða komið með nýjar og ferskar sem væru ekkert síðri.

Er ég nokkuð að biðja um of mikið?


mbl.is Hætt við að umræðan skekkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært myndband: Gordon Brown ætti að biðja Íslendinga afsökunar og gleyma skuldinni

"Gordon Brown, apologize to Iceland and forget about the debt." -Max Keiser

Dæmi um hvernig hjólin eru farin að snúast með málstaði Íslendinga, sterkustu rökin eru sá skaði sem Bretar ollu Íslendingum með hryðjuverkalögum, og Bretar þætttu í raun heppnir að sleppa á sléttu:


Hvað finnst þér um orðalag spurningar til þjóðaratkvæðagreiðslu?

Fyrir mér er orðalagið skýrt. Það eina sem gæti ruglað kjósendur í rýminu er formlegt númer laganna, en sífellt hefur verið talað um ICESAVE 1 á móti ICESAVE 2. Formlega heita ICESAVCE 2 lögin "Lög nr. 1/2010" og verður fólk að gera sér skýra grein fyrir því. Til að koma í veg fyrir rugling er því nauðsynlegt að hætta að tala um ICESAVE 1 og ICESAVE 2.

Fyrir utan þetta smáatriði finnst mér þetta afar skýrt. Málið er að smáatriði eins og þetta geta orðið stór á ögurstundu, sérstaklega fyrir þá sem eru rétt að byrja á því að kynna sér málið.

“Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?”

Svar mitt við þessari spurningu er ljóst. Það verður "nei", enda trúi ég að lög nr. 1/2010 séu ólög sem kæmu til með að binda þjóðina í skuldahlekki til marga áratuga og gætu kostað okkur auðlindir okkar í hendur Breta og Hollendinga, á meðan það er ekkert sem réttlætir siðferðilega eða stjórnskipulega að Íslendingar taki á sig þessar skuldbindingar, sem virðast nema um 8 milljónum króna á hvert mannsbarn.

Annað sem mér finnst mikilvægt er að þessum lögum var þvingað í gegn af ríkisstjórninni, undir pressu frá Hollendingum og Bretum, og svo virðist sem að ekki hafi verið hlustað á neinn til að koma þessu í gegn. Stundum dettur mér í hug að þetta hafi verið spunahlutverk, gert vísvitandi af Samfylkingu og VG til þess að reita þjóðina til reiði og á klókan hátt fá okkur öll til að fallast á þjóðaratkvæðagreiðslur eins og báðir flokkarnir lofuðu að berjast fyrir í kosningabaráttunni; en tel þó svo ekki vera, því slíkt hlyti að teljast vítavert gáleysi - nema ef þetta hefði verið löngu ákveðið í samráði við forseta Íslands, að ýfa upp reiði fólks og knýja þannig fram þjóðaratkvæði. 

Getur verið að ríkisstjórnin sé svona klók?

Ég efast um það og á auðveldara með að trúa því að um fúskara sé að ræða.

En hvað veit ég?


Sherlock Holmes (2009) **

photo_16_hires

Robert Downey Jr. er frábær "Sherlock Holmes", Jude Law frekar dapur Dr. Watson í frekar slakri leikstjórn Guy Ritchie, í handriti sem virðist hafa verið illilega misþyrmt eftir að hafa verið samþykkt til að létta tóninn í mynd sem hefði mátt vera myrk og svöl.

Hugsaðu þér:

Sherlock Holmes er vel túlkaður sem dópisti, ömurlegur fiðluleikari og kung-fu meistari, þar sem snilligáfa hans og ofvirk athyglisgáfa hans fær að njóta sín umfram mannleg samskipti.

Í nokkrum slagsmálaatriðum í upphafi kvikmyndar er skyggnst inn í huga Holmes, þar sem sýnt er hvernig hann reiknar út af nákvæmni hverja einustu hreyfingu sína og andstæðingsins, með eðlisfræði og sálfræði algjörlega á hreinu, áður en hann rotar andstæðinginn. Það hefði getað verið sniðugt að nota þetta í fleiri atriðum og láta hann hafa misreikna sig svolítið líka.

photo_07_hires

Því miður er handritið frekar klisjukennt, og minnir satt best að segja meira á Scooby Doo teiknimynd en Sherlock Holmes sögu, þar sem dularfullt illmenni að nafni Lord Blackwood (Mark Strong) ætlar að nota sér frímúrarareglu í Englandi til að ná auknum völdum. Hann þarf að komast í gegnum ýmsar þjáningar á leið sinni til valda: dúsa í fangelsi, láta hengja sig, deyja, rísa upp frá dauðum, allt þetta gamla góða.

Dularfullur og vel klæddur en enginn sérstakur herramaður ræður konuna sem Holmes elskar, Irene Adler (Rachel McAdams) til að fá honum verkefni. Þessu sambandi er ætlað að bæta smá kómedíu í myndina, og þar að auki er troðið í söguna að Dr. Watson (Jude Law) hefur trúlofast og hefur því engan sérstakan áhuga á að lenda í frekari ævintýrum með Holmes.

Það er hrein synd hvað Robert Downey Jr. er framúrskarandi góður í þessari mynd. Allt annað fölnar í samanburði. Stóru mistökin er að bæta léttleika í myndina sem passar einfaldlega alls ekki inn í sögu handritsins og skemmir frekar fyrir mynd sem hefði getað orðið góð, því Holmes er einfaldlega ódrepanlegasti karakter í heimi bókmenntanna, sem sannast á því að höfundur hans drap hann, en neyddist til að lífga hann við nokkrum árum síðar vegna áreitis aðdáenda.

Sjáðu þessa í sjónvarpi eða DVD. Langi þig í bíó, farðu frekar aftur á "Avatar".


Hvaða stjórnmálamaður í hinum vestræna heimi getur talað gegn frelsinu og haldið völdum?

Ólafur Ragnar Grímsson hefur á snilldarlegan hátt vakið gífurlega athygli á alþjóðavettvangi með því að leggja lykiláherslu á lýðræðisleg gildi umfram efnahagslega velferð. Honum hefur tekist að færa umræðuna yfir á hærra plan sem allir ættu að skilja.

Með þessari vendingu snúast málin ekki lengur um hagfræðileg hugtök eins og prósentur, krónuna, dollarann, pundið, tölfræði, vergt þetta og vergt hitt, heldur um siðferðileg gildi sem skipta okkur raunverulega máli í daglegu lífi, eins og frelsi, kosningarétt, virðingu og samstöðu.

Snilldarleikur Ólafs Ragnars felst meðal annars í þessari spurningu sem höfðar til allra hugsandi manneskja, hvar sem er í hinum vestræna heimi, og er ein af grunnforsendum stjórnmálaheimspeki hins vestræna samfélags:

Hvaða stjórnmálamaður í hinum vestræna heimi getur talað gegn frelsinu og haldið völdum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband