Blórabögglar Hrunsins eða góðar fyrirmyndir?

Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa verið ranglega uppnefndir, úthúðaðir og gerðir að blórabögglum Hrunsins, þar sem auðveldara virðist oft að dæma fyrirfram, heldur en gefa viðkomandi tækifæri á að útskýra sitt mál, og hlusta á þá af athygli.

Ég lít svo á að þessir tveir fyrrverandi höfuðfjendur ættu í dag að sýna hvor öðrum samstöðu, enda báðir dæmdir af dómstóli götunnar fyrir rangar sakir, og sífellt uppnefndir þar sem erfitt er að hreinsa mannorð, þó að það sé hreint.

Báðir hafa verið ásakaðir fyrir að hafa stutt við bakið á útrásarvíkingum. Það gerðu reyndar flestir Íslendingar og var rétt, því fáa grunaði um glæpsamlegar athafnir væri að ræða, eins og hátt fer í umræðunni í dag. Báðir voru þeir sviknir af fólki sem þeir treystu: Ólafur Ragnar af fjölda fólks sem misnotaði stuðning hans til að auka verðmæti eigin fyrirtækja útfrá "good will" sem enn í dag er verðlagt fyrirbæri.

Davíð Oddsson hefur hins vegar legið undir enn alvarlegri ásökunum um spillingu, að hafa tekið þátt í að afhenda vinum sínum bankastofnanir þjóðarinnar á vildarkjörum, hafa áhrif á að hans eigin sonur hafi fengið dómarastarf þegar hann þótti ekki hæfastur, hafa samþykkt lán í svarthol bankanna sem síðan var fyrst og fremst notað í arðgreiðslur og bónusa. Þessi mál þarf að rannsaka.

Það hefur skaðað málstað Davíðs enn frekar að sækja um og fá starf sem ritstjóri hjá Morgunblaðinu. Aftur á móti hlýtur maður að spyrja, fyrst Davíð var fjarlægður úr embætti hjá Seðlabanka Íslands, hvað átti hann að gera? Hann sat ennþá undir upphrópunum og sjálfur fjármálaráðherra eggjaði hann til framkvæmda með því að tala um hann sem fyrrverandi stjórnmálamann á eftirlaunum. Einelti og biturð virðast einkenna samskipti þeirra sem hafa ólíkar skoðanir í stjórnmálum, og afar ljótt er að sparka í liggjandi mann, og vegna þessa skil ég hvers vegna Davíð samþykkti að gerast ritstjóri, hann vildi ekki vera aðgerðarlaus og varnarlaus undir stöðugu hnýtingum fyrrum andstæðinga sinna. Þeim var nær.

Reyndar held ég að svona hnýtingar hafi lengi verið háðar af þingmönnum. Ég man eftir slíku uppnefni og orðahraki á Alþingi árið 1992, úr munni þeirra Davíðs og Ólafs Ragnars, sem varð til þess að mér varð umhugað um uppeldisáhrif stjórnmálamanna sem fyrirmynda fyrir börn sem væru að vaxa úr grasi. Ég taldi þá og ég tel það enn að ef stjórnmálamenn komast upp með spillingu og einelti, þá verður slíkt endurspeglað af æskunni. 

Nú er sú æska sem alin var upp orðin að útrásarvíkingum og stuttbuxna-, bæði drengjum og stúlkum, sem tekið hafa fyrirmyndir sínar nærri sér og hermt eftir þeim, enda lærir fólk mest af fyrirmyndum sínum.

Ég held að æðsta ábyrgð þingmanns sé að haga sér heiðarlega, hnýta ekki í andstæðinga sína, koma vel fram við fólk, vera hreinskilinn, vera góð fyrirmynd. Það er vegna þess að hvort sem viðkomandi líkar betur eða verr, þá er viðkomandi fyrirmynd sem æskan mun fylgja þegar hún vex úr grasi. Þetta er örugglega til of mikils ætlast, og þess vegna er Kirkjan notuð til að skaffa fyrirmyndir, fyrst nútímafólki virðist vera það verkefni ómögulegt.

Hér eru eftirminnileg brot úr ræðum þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, en báðir eru þeir meðal mikilvægra fyrirmynda þeirra kynslóða sem taka munu við Íslandi, og ég tel eitt þeirra helsta verkefni í dag vera að sýna heilsteyptan karakter, sýna í verki, og sanna fyrir þjóðinni, að þeir séu báðir góðir Íslendingar.

Þetta er úr frægu orðaskaki þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, þar sem þeir voru að ræða um auglýsingastofuna Hvíta Húsið, sem hafði fengið gífurlegar tekjur fyrir að vera í viðskiptum við Alþýðubandalagið, en Ólafur Ragnar var þá formaður Alþýðubandalagsins. Þannig að ásakanir um spillingu af hendi Davíðs Oddssonar er ekkert sem nýtt er af nálinni, og því svolítið merkilegt að í dag skuli hann vera ásakaður um nákvæmlega það sem hann er að gagnrýna í þessu fræga orðaskaki, sem tók náttúrulega ekki nema korter, en verður lengi í minnum haft:

"Upp úr þessum upplýsingum stendur og er meginmál að mínu viti hversu ógætilegt það var af formanni Alþb. að láta sömu auglýsingaskrifstofu vera í stórkostlegum viðskiptum við fjmrn. og sjá um kosningabaráttu Alþb." Davíð Oddsson, á Alþingi, 13. febrúar 1992, kl. 11:33.

„Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstv. forsrh. en það kom greinilega hér fram. (Gripið fram í: Hvað sagði ræðumaður?) Ég sagði: svona skítlegt eðli." Ólafur Ragnar Grímsson um Davíð Oddsson, á Alþingi 13. febrúar 1992, kl. 11:39.

"Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við munnsöfnuð þess þingmanns sem áðan talaði. Það er uppeldislegt vandamál hans." Svar Davíðs Oddssonar til Ólafs Ragnars Grímssonar, á Alþingi 13. febrúar 1992, kl. 11:44.

Ljóst er að Ólafur Ragnar hefur valið hvers konar fyrirmynd hann verður. Ég spái því að hans verði minnst fyrir hetjulega baráttu fyrir lýðræði þjóðarinnar, og að sú söguskýring muni lifa af eftir okkar daga. Það er enn afar erfitt að spá fyrir um hvernig Davíðs verður minnst, en eins og staðan er í dag lítur málið ekki vel út fyrir hann, hún er erfið og verður hann að vinna þrekvirki á réttu augnabliki, rétt eins og Ólafur Ragnar, til að endurheimta orðstýr sinn. Reyndar hefur hann gert það í mínum augum, með því að neita að greiða skuldir óreiðumanna, og Ólafur Ragnar hefur veitt honum óvænt liðsinni með ákvörðun sinni 5. janúar og síðan viðtölum við erlenda fjölmiðla.

Innan skamms verður Davíð að sýna þjóðinni og komandi kynslóðum hvar hann keypti ölið. Spái ég að hans tími muni koma eftir birtingu á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis.

 

  1. Deyr fé,
    deyja frændur,
    deyr sjálfur ið sama.
    En orðstír
    deyr aldregi
    hveim er sér góðan getur.

    -Hávamál

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu alveg að tapa þér þarna í Noregi drengur ? ! :) Gleymir ansi miklu með Davíð, hann gerði Seðlabankann gjaldþrota og er að kosta þjóðina mun meirra en Icesave reikningarnir.

Bjarki M (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 15:36

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Bjarki: Það var ekki Davíð sem gerði Seðlabankann gjaldþrota, heldur sú tilraun stjórnvalda ásamt stjórnendum Seðlabankans að bjarga bankakerfi sem var ekki viðbjargandi. Þar var Davíð ekki einn að verki. Seðlabankar víða um heim gripu til sams konar ráðstafana, og er jafnvel talið að það hafi bjargað alheimsbankakerfinu frá algjöru hruni.

Ég var ósáttur við þá aðgerð að láta þjóðina borga innistæðu allra bankareikninga, og er það enn, en mér dettur ekki í hug að kenna einum einstaklingi um slíka ákvörðun, sem ég reyndar tel að hafa verið ólögleg, þar sem hún mismunar fólki gífurlega eftir eignastöðu.

Hrannar Baldursson, 10.1.2010 kl. 16:00

3 Smámynd: Offari

Mig grunar að saklausir verði dæmdir meðan þeir seku hlæja.

Offari, 10.1.2010 kl. 16:35

4 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Þegar ég minnist á þá skoðun mína í heitu pottunum í sundlaugunum að Davíð Oddsson eigi að taka við stjórninni aftur og koma okkur út úr þessum hremmingum, því að hann kann, veit og getur, hvað sem dómstóll götunnar hrópar hátt og að hann hafi þau orð að leiðarljósi sem hann sjálfur sagði: "Við borgum ekki skuldir óreiðumanna"....... þá er alveg ótrúlegt hvað margir eru sammála, en vilja hafa ekki hátt um þá skoðun sína, hreinlega af ótta að verða fyrir ofsóknum fyrir þá skoðun. 

Einnig tek ég undir þá ábendingu þína um að stjórnmálamenn á Alþingi (og í fjölmiðlum) þurfi að gæta að sér, því þeir eru fyrirmynd ungs fólks í uppvextinum, hvort sem er til góðs eða ills.  Í beinu framhaldi af því, þá mætti skipta um þáttarstjórnendur, bæði í Kastljósinu og Silfri Egils og fá einhverja sem geta hlustað aðeins betur án dónalegra og ósvífinna frammígrípinga.  Það þarf fleiri eins og hann Sölva sem fór á Skjá 1.  Sölvi er alveg til fyrirmyndar, prúður, kurteis og ákveðinn.

Kær kveðja, Björn bóndi  

Sigurbjörn Friðriksson, 10.1.2010 kl. 17:33

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Offari: Ég rétt vona að réttlætið og sannleikurinn finni leið.

Björn bóndi: Reyndar finnst mér Egill standa sig afar vel, og Kastljósmenn líka. Það mætti hins vegar bæta við slíkum þáttum.

Hrannar Baldursson, 10.1.2010 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband