Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Snilldar frammistaða Ólafs Ragnars á BBC! (Myndband af YouTube)

Ólafur Ragnar hefur gefið skýr svör, fyrstur Íslendinga, og reynist með þessu viðtali sína að hann er raunverulegur leiðtogi, þó að ekki sé hann pólitískur leiðtogi. Einfaldlega frábær frammistaða.

Í framhaldi af því:

Ég er fyllilega sáttur við að lýðræðið ráði á Íslandi og fari gegn mínum eigin skoðunum. Það sama ætti að gilda um alla lýðræðisþegna.

Ríkið hefði aldrei átt að tryggja innistæður í íslenskum bönkum, hvorki fyrir Íslendinga né erlenda aðila, þar sem það er í raun ólögleg aðgerð. Þessi aðgerð kom Íslendingum í hræðilegt klandur, sem meðal annars birtist í kröfu Hollendinga og Breta um að sama skuli gilda yfir þá og yfir Íslendinga, sem er afar eðlileg krafa miðað við þessar gefnu forsendur.

Mér finnst að Íslendingar hafi ekki átt að borga innistæðueigur upp í topp, því að gjaldtakan fyrir þær greiðslur hefur valdið því að Seðlabanki Íslands og þjóðin eru á barmi gjaldþrots, og mér finnst óafsakanlegt að greiðendur séu þessir venjulegu Íslendingar sem létu plata sig til að kaupa fasteign og bifreið á lánum, hvort sem þau eru verðtryggð eða myntkörfu, sem og allir þeir Íslendingar sem borga skatta og þurfa á löskuðu velferðarkerfinu að halda.

Það voru afsakanleg mistök af ríkisstjórninni að leggja fram samning til samþykktar sem gætu bjargað innistæðum hugsanlega næstu 7 árin, en kæmu til með að leggja framtíð barna okkar í fjárhagslega rúst. Það sem er óafsakanlegt er hvernig fulltrúar ríkisstjórnar hafa brugðist við því hugrekki sem forseti lýðveldisins hefur sýnt, og kröfunni um þjóðaratkvæði. Það er hreint bull að þjóðaratkvæði sé óviðeigandi í þessu máli, sem og það að hið lýðræðislega málskot forseta Íslands hafi verið málstað þjóðarinnar hættuleg. Fulltrúar ríkisstjórnar segjast gera sitt besta til að skaðinn af ákvörðun forsetans verði sem minnst, á meðan mín upplifun er sú að víða um heim lítur fólk á þessa aðgerð með aðdáun, og sér skýrt og greinilega að þetta er rétta leiðin.

Engin þjóð, hvorki Íslendingar né aðrir, eiga að borga skuldir bankanna sem svikið hafa innistæðueigendur um pening sinn. Það á að draga réttu einstaklingana til ábyrgðar, dæma í þeirra málum hverju fyrir sig, og fá þá til að greiða sínar skuldir. Geti þeir það ekki með peningum, eða greiði þeir ekki af fúsum og frjálsum vilja, verða þeir að sitja í fangelsi í samræmi við þá upphæð sem þeir skulda.

Þetta þurfa þeir að gera sem skulda smáar upphæðir. Af hverju ætti ekki það sama að gilda yfir þá sem skulda gríðarlega háar upphæðir?


Um 90% stuðningur við málstað Íslendinga erlendis frá?

Óskar Arnórsson setti tengla á afar áhugaverðar skoðanakannanir í The Guardian og The Wall Street Journal, með umræðu sem skiptir afar miklu máli fyrir málstað Íslendinga. 

Það virðist vera afar mikill samhljómur um að Íslendingum beri ekki skylda til að borga þennan pening sem Íslendingar eru rukkaðir um, og svolítið merkilegt að ég hef aðeins heyrt tvo hópa taka undir þá kröfu að Íslendingar borgi skuldir hinna hrundu einkafyrirtækja sem bankarnir voru:

Ríkisstjórn Íslands, bæði fyrrverandi og núverandi, og ríkisstjórnir Hollendinga og Breta.

Þetta fólk virðist ekki vera í neinum tengslum við veruleikann.

Smelltu á þessa tengla til að skoða skoðanakannarnir og til að taka þátt, en þegar þetta er skrifað eru um 90% þeirra sem tekið hafa þátt á þeirri skoðun að Íslendingar eigi ekki að borga neitt, sem mér finnst afar merkilegt, þó að málið snúist kannski ekki lengur fyrst og fremst um það óréttlæti í sjálfu sér.

Kosningin á Guardian

Kosning á The Wall Street Journal


Munu öfgafull viðbrögð stjórnarliða valda krísu númer tvö?

 


 

Hótanir, reiði og illska frá stuðningsmönnum stjórnarflokkanna hafa komið mér á óvart. 

Hótað var að afleiðingar þess að forseti Íslands leyfi þjóðinni að taka ákvörðun um framtíð sína, væru ólýsanlegar og ósegjanlegar og ó-hitt og ó-þetta. Fjölmargir hafa gagnrýnt Ólaf Ragnar harðlega fyrir sína ákvörðun, til dæmis á þeirri forsendu að skilaboð komu ekki til forsætisráðherra fyrr en 6 mínútum of seint, sem ætti engu máli að skipta fyrir valdhafa sem hafa fyrirfram undirbúið viðbrögð við bæði möguleika a og möguleika b. En síðan koma ýmis konar viðbrögð í ljós:

  1. Viðbrögð frá erlendum stjórnvöldum
  2. Viðbrögð frá erlendum fjölmiðlum
  3. Viðbrögð frá erlendum matsfyrirtækjum
  4. Viðbrögð frá ríkisstjórninni

Öll þessi viðbrögð hafa verið augljós og satt best að segja frekar grunnhyggin og í æsifréttastíl.

1.

Viðbrögð frá hollenskum og breskum stjórnvöldum er að sjálfsögðu vonbrigði, þar sem þau áttu von á ókeypis peningadælu frá Íslandi til ótímabundinnar framtíðar, og ef greiðslur klikkuðu væri hægt að hirða náttúruauðlyndir eða leika sér eitthvað með Íslendinga. Svona eins og ef búið er að lofa 10 ára strák Lego Rock Monsters pakka í jólagjöf og síðan fær hann bara ullarsokka.

 2.

Viðbrögð frá erlendum fjölmiðlum hafa verið misjöfn, og misjafnt hvað fréttamenn hafa sett sig vel inn í málið. Mikið er um copy/paste á fréttum, þar sem ruglað er um að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar, sem er náttúrulega ósatt, en okkur ber að leiðrétta. Fyrir utan það eru fréttir um okkur ekkert sérstaklega áberandi í erlendum fjölmiðlum. Það er meira fjallað um nýja Google símann, 800 metra turninn í Dubai, nýjustu sögufléttur Tiger Woods, ný gegnumlýsingartæki á flugvöllum sem minna á græjur úr "Total Recall" og hryðjuverkaógnina ásamt reiðilestri Obama yfir CIA fulltrúum sem honum þykir ekki vera að standa sig í stykkinu. Það er nefnilega margt að gerast í heiminum og athygli allra beinist ekki óskipt að 66° norður.

3.

Erlend matsfyrirtæki voru búin að fá þær upplýsingar frá ríkisstjórn Íslands að ef ICESAVE yrði sent í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá yrðu afleiðingarnar alvarlegar. Það kæmi mér ekki á óvart þó að þessar upplýsingar hafi verið notaðar til að koma Íslandi í ruslflokk. Svona búmerang áhrif.

4. 

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar og blindra fylgjenda hennar er ekkert annað en hneyksli. Ríkisstjórn sem hefur lofað beinu lýðræði í kjölfar undirskriftasafnana í kosningabaráttu sinni, og reiðist svona ofsalega þegar þeim verður að ósk sinni, er á villigötum. Það vantar algjörlega sveigjanleika og samstarfsvilja með öðru fólki til að leysa þann mikla vanda sem er fyrir höndum. Þess í stað gefur hópurinn frá sér yfirlýsingar sem geta ekki annað en skaðað málstað þjóðarinnar, bæði inn á við og út á við. Málstaður þjóðarinnar og málstaður ríkisstjórnar er nefnilega ekki endilega sá sami.

Í Aftenposten var talað um að íslenski harmleikurinn héldi áfram.

Ein fáránlegustu viðbrögðin sem ég hef orðið vitni að eru þau að splæsa saman þeirri hugmynd að kosningar um samþykkt eða höfnun á ICESAVE 2 verði um val milli ríkisstjórnar og forseta. Þeir sem láta slíkt út úr sér eru aðeins að leita eftir athygli og þyrla upp illindum. Ætli mætti ekki kalla slíkt fólk stjórnartröll? (svona eins og nettröll) - Eða kannski stjórnartroll?

Að auki hafa reyndar fræðimenn og djúpvitrir einstaklingar tekið til máls, eins og ráðgjafi sérstaks saksóknara Eva Joly og Sweder van Wijnbergen, hollenskur hagfræðiprófessor með afar mikla reynslu af alþjóðlegum krísum. Orð hans þykja mér áhugaverð og segja sig í raun sjálf:

„Fullyrðingar í fjölmiðlum um að Ísland verði útskúfað frá fjármálamörkuðum ef það tekur ekki á sig þessa skuldabyrði eru fjarstæða. Þvert á móti myndi skuldafjallið og skattahækkanirnar sem þær myndu kalla á fæla á brott erlenda fjárfesta.“ Sweder van Wijnbergen

Að kenna Ólafi Ragnari um að hafa virt leikreglur lýðræðisins og veitt þjóðinni tækifæri til að láta ljós sitt skína, segir ekkert annað en að þeir sem fara með slíkan málflutning eru algjörlega óhæfir til að koma Íslandi úr kreppunni með lýðræðislegum hætti. Þó að flokkur hefur verið kosinn til valda, á hann ekki að komast upp með einræðistilburði. Forseti Íslands er einmitt öryggisventill á slíka tilburði, sem hann nýtti vel árið 2004 og svo aftur í gær.

Áður en ég heyrði öll þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar í dag, hafði ég trú á því að hún gæti notað þessa ákvörðun sem tækifæri til að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri til heimsins, í þessu stuttu augnablik sem Íslendingar fá smá athygli. Sú er ekki raunin. Því miður.

Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru ónýtir. Þeir sem eru við stjórn núna virðast annað hvort spilltir eða óhæfir, og sama má segja um þá sem eru í stjórnarandstöðu. Þjóðinni vantar sárlega ópólitískt sameiningarafl sem berst fyrir réttlæti gagnvart þeim sem komið hafa Íslendingum í þessa hörmulegu aðstöðu, og hefur hæfni til að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri erlendis með sterkri og ákveðinni rödd, en ekki einhverju músartísti.

Þeir Englendingar og Hollendingar sem ég þekki eru fínt fólk sem er tilbúið að hlusta og leggja sig eftir því að skilja, en þegar ríkisstjórnin forðast það að koma málstaði Íslendinga á framfæri og þess í stað brýtur hann niður með rifrildi innanlands, þá gerum við þjóðinni ekkert annað en illt.

Ég mæli með að við hlustum á fólk sem sannarlega hefur þekkingu og áhuga á að hjálpa Íslendingum út úr þessari krísu. Í dag vil ég heyra meira frá Evu Joly, Páli Skúlasyni og Nirði P. Njarðvík, og heyra vangaveltur þeirra um það sem gerst hefur, og leita með ráðum þeirra og fleiri viturra einstaklinga að skynsamlegum næstu skrefum.

Til dæmis dettur mér í hug að halda alþjóðlega ráðstefnu til að skýra málstað Íslendinga út á við, eða fá ráðgjafa til að greina umfang vandans, bæði útfrá gildum og þeirri vinnu sem þarf að fara fram. Ég hef aðgang að slíkum ráðgjöfum hérna í Noregi, öflugum stjórnunarráðgjöfum sem hafa starfað víða um heim og geta greint flóknustu mál á myndrænan og gagnrýninn hátt, og hef lengi beðið eftir að einhver sýni þessu góða tækifæri áhuga að heiman. 

Ég gæti komið með slíkan öflugan ráðgjafa til Íslands og kynnt til dæmis greiningu á ICESAVE málinu frá grunni. Ég gæti hugsanlega sannfært þá um að mæta ókeypis. Sjálfur tel ég mig ekki vera í þeim heimsklassa sem þessir ráðgjafar sem ég vinn með eru í, en ég starfa við skjölun og ritstörf fyrir þá, en ekki ráðgjöf.

Nú hafa ýmsir þingmenn skrifað athugasemdir hérna á bloggið mitt, og ég veit að sumir lesa það reglulega. Ég hvet þá til að hafa samband við mig og fá ráðgjafa til landsins til að greina umfang ICESAVE málsins, og er viss um að afar gagnlegar upplýsingar munu þá koma upp á yfirborðið.

Eva Joly leggur til að íslensk stjórnvöld stofni alþjóðlega nefnd sáttasemjara sem hafi meðal annars það verkefni að biðja Evrópusambandið um hjálp enda sé þetta alþjóðlegt vandamáli sem sé afleiðing alþjóðavæðingarinnar. Ástæða sé til að beita nýjum lausnum enda sé þetta vandamál sem hafi aldrei gerst áður. Hún leggur til að fengnir verði sáttasemjarar frá Frakklandi, Þýskalandi eða Evrópusambandinu. Það hafi ekki verið gert áður, en staðan sé alveg ný og menn verði að viðurkenna það.  Gömul meðul dugi ekki. Ástandið  hér sé sögulegt. Ísland hafi verið fyrsta landið þar sem þetta gerist en þetta muni gerast í öðrum löndum enda hafi hugarfar manna ekki breyst í bankahruninu. (RÚV)

Mig langar til að hætta skrifum um þessi mál, en er knúinn áfram af einhvers konar þörf til að hafa góð áhrif á málin. Ég gæti snúið mér að mínu eigin lífi, hætt að hugsa um krísuna heima á Íslandi og einbeitt mér að því sem stendur mér nær fyrir eigin hag í veruleikanum, en til þess eru taugar mínar til Íslands of sterkar.

Þér er velkomið, eins og ævinlega að skrifa athugasemdir hér fyrir neðan. Ég les þær allar en svara ekki öllum, til þess hef ég einfaldlega ekki tíma. Einnig gæti ég stundum verið ósammála ákveðnum athugasemdum, og hef sérstakan áhuga á þegar einhver telur mig hafa rangt fyrir mér, bendir mér á það og rökstyður sitt mál. 

 

Mynd: Interstato


Hefur ríkisstjórnin lært sína lexíu?

Nú er að ljúka sögulegum degi sem hvetur ríkisstjórnina til betri vinnubragða, meiri auðmýktar og samstarfs með þjóðinni allri. Hroki og hleypidómar skapa bara hindranir á okkar eigin vegi, sem verða okkur síðan fjötur um fót.

Stjórnin getur vel haldið áfram sýni hún auðmýkt, tekur sig á við að sameina fólk um að taka saman höndum í stað myglaðrar flokkapólitíkur, og berst fyrir málstað Íslendinga á erlendri grundu. Ég er sannfærður um að Ólafur Ragnar tók rétta ákvörðun í dag, það var verið að mótmæla ólögum sem hefðu orðið þjóðinni til langvarandi vandræða og sjálfsagt endað afar illa fyrir flesta, þó að einhverjir hefðu fengið svigrúm til að græða á ástandinu.

Úr sögunni eru þekkt augnablik um óvinsæl mótmæli sem sagan hefur síðan réttlætt, eins og þegar Gandhi ákvað að berjast gegn enskum yfirráðum á Indlandi þegar hann sá samlanda sína og fólk í öðrum nýlendum kúgað af Bretum á meðan hann var sjálfur breskur hermaður, Martin Luther King skipulagði mótmæli vegna handtöku blökkukonu sem settist í hvítra manna sæti í strætó, Thoreou sat í fangelsi þar sem hann borgaði ekki skatt sem notaður var til málstaðar gegn sannfæringu hans um frelsi blökkumanna. Íslenskir sjómenn klipptu á veiðarfæri breskra togara í þorskastríðinu.

Ég tel daginn í dag jafnast á við slíka atburði, og að sagan ein muni geta skorið úr um hvort það hafi verið rétt að færa þjóðinni völdin í hendurnar um jafn afdrifaríkt mál. Við getum haft skoðanir um þetta til hægri og vinstri, en enginn veit með vissu hvernig þetta fer, og hvernig þetta hefði farið, en ég sé skýrt og greinilega að þetta var hið eina rétta í stöðunni. Og ég átta mig á að þó ég sjái þetta skýrt og greinilega, get ég haft rangt fyrir mér eins og hver annar, en hef ekki enn séð rök sem færa mig af þessari skoðun. Þessi ákvörðun mun koma ýmsum illa í dag, en hún getur komið í veg fyrir afhroð komandi kynslóða Íslendinga.

Viljum við ekki vinna okkur saman út úr þessari kreppu, þar sem stjórnin hlustar á þjóðina og þjóðin á stjórnina, þingið vinnur saman sem heild og leggi flokkapólitík á hilluna þar til sér fyrir endann á þessum erfiðu málum? Ég hef fulla trú á því að Íslendingar geti unnið sig út úr þessum vanda, og er sannfærður um að leiðin sem forsetinn hafnaði í morgun var röng leið. Ég held að þessi leið sé rétt skref í átt að sameiningu þjóðarinnar, en hin leiðin hefði örugglega sundrað okkur.

Ef ríkisstjórnin hefur ekki lært neitt af þessari lexíu um mikilvægi auðmýktar og samstarfs ætti hún að fara frá og leyfa þjóðstjórn að taka við, en alls ekki öðrum pólitíkusum, en ég vona að hún haldi áfram, með aðeins meira hugrekki, fagmennsku og samstarfsvilja en hún hefur sýnt til þessa.

Ekki má gleyma því að þó nýfrjálshyggjan hafi reynst afar vafasöm hyggja, þá megum við ekki rugla þeirri hyggju saman við mikilvægi einstaklingsfrelsis, en í mörg hundruð ár hefur vestræn menning þróast í þá átt að virða frelsi einstaklingsins, án þess þó nauðsynlega að auka það eða draga úr því. Ég held satt best að segja að hugsjónirnar sem voru varðar í dag, eru þær að sérhver manneskja í þessum heimi, hvort sem um er að ræða Íslending eða manneskju af öðru þjóðerni, þá skulum við bera skilyrðislausa virðingu fyrir sjálfsvirðingu viðkomandi, og nauðsynlegt skilyrði fyrir slíka sjálfsvirðingu er frelsið. 

Nú hef ég (vonandi) sagt mín síðustu orð um þetta mál.


mbl.is Sammála um að lágmarka ókyrrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi okkar að veði?

Frjáls manneskja ákveður sjálf eigin skuldbindingar. Ófrjáls manneskja ákveður ekki eigin skuldbindingar. Ófrjáls manneskja er þræll einhvers annars. Sé manneskja þvinguð til að taka á sig skuldbindingar er hún ófrjáls.

Af hverju krefst þjóðin þess ekki að þeir sem áttu að bera ábyrgð á sínum skuldbindingum standi við þær, í stað þess að taka við þeim eins og einhverju sem sjálfsagt er að þiggja án umhugsunar?

Nú verðum við að standa saman. Frelsi okkar sem einstaklingar og sem þjóð er að veði.


Forsetinn hefur gefið tóninn: íslensk þjóð er ekki huglaus aumingi

Forseti íslenska lýðveldisins, herra Ólafur Ragnar Grímsson sýndi hugrekki í dag þegar hann hafnaði að skrifa undir samning sem hefði samþykkt Íslendinga sem skríðandi aumingja. Þess í stað fáum við tækifæri til að standa í fæturna og snúast gegn því óréttlæti sem dunið hefur yfir fjölda Íslendinga frá fyrstu dögum Hrunsins.

Kjarni þessa óréttlætis er sáraeinfalt:

Miklum auðævum var rænt af Íslendingum, sem og fólki frá öðrum löndum. Í stað þess að leita sökudólganna, loka þá inni, frysta eigur þeirra og stöðva þau; var ákveðið að leita ekki sökudólga, heldur láta hina íslensku þjóð borga fyrir, og ekki nóg með það. Hinir grunuðu ganga enn lausir og eru byrjaðir upp á nýtt, en hinn almenni borgari sligast undir stöðugt aukinni þyngd.

Með samþykkt á þessum fræga samningi hefði þyngdin einfaldlega haldið áfram að aukast og sífellt fleiri fallið hljóðlaust í valinn, sífellt fleiri gamalmenni að hverfa frá þar sem ekkert pláss er lengur fyrir gamalmenni, sífellt fleiri sjúklingar að falla frá þar sem ekkert pláss er lengur fyrir sjúklinga, og sífellt fleiri blankir að hverfa úr landi þar sem ekkert pláss er lengur fyrir blanka.

Þetta skref forsetans getur verið mikið gæfuspor ef haldið er rétt á spilunum. Helstu verkefni sem liggja fyrir eru þessi, og alþjóðasamfélagið verður að skilja það:

1. Finna skal og dæma á réttlátan hátt alla þá réttnefndu glæpamenn sem misnotuðu aðstöðu sína til að öðlast auð með vafasömum aðferðum;
  • eins og kúlulánum, þar sem bæði sá sem lánaði og þáðu lánið bera ábyrgð;
  • arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem rekin voru með tapi;
  • kennitöluflakk fyrirtækja og sá peningaþvottur sem því fylgir;
  • stöðutökur gegn íslensku krónunni - sem virðast einkum hafa verið notaðar rétt fyrir Hrun til að sýna fram á hagnað þegar aðeins um tap var að ræða, en þær tölur hafa sjálfsagt verið notaðar í arðgreiðslur;

2. Nauðsyn er á virkri samvinnu með alþjóðasamfélaginu til að hafa upp á hinum réttu þrjótum; nauðsyn er á virkri upplýsingagjöf til

  • ríkisstjórna erlendis,
  • fjölmiðla erlendis og
  • vísinda- og fræðimanna erlendis (þar sem sannleikurinn virðist ekki flæða eðlilega frá fjölmiðlum til fólksins, hugsanlega vegna fjölmiðlakreppunnar, þar sem dagblöð virðast vera á hrakhólum um allan heim)
  • Íslendinga

Það er stórt og alvarlegt verkefni fyrir höndum, sem hægt er að eyðileggja með flokkapólitík, erjum og hugleysi, eða hægt að tækla með hugrekki, samstöðu og hyggjuviti, sem við Íslendingar höfum nóg af og ættum ekki að skammast okkur fyrir að hafa. Það var nefnilega ekki hyggjuvitið sem kom okkur í vandræði, heldur stjórnlaus og eftirlitslaus græðgi og traust sem ekki hafði innistæðu.

Ég vil þakka herra Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að sýna af hverju forsetaembættið er nauðsynlegt og af hverju okkur ber að virða þetta embætti, sem gaf þjóðinni tækifæri til að stoppa alvarleg mistök frá því að verða að veruleika. Íslendingar hafa góða ástæðu til að vera stoltir af sínum forseta í dag, þrátt fyrir að verkefnin framundan verði erfið, en þau eru þó byggð á samhug og vilja íslensku þjóðarinnar, nokkuð sem er margfalt gæfulegra en sundurlyndi og minnimáttarkennd.

Ég þarf þó að vera ósammála mínum gamla og góða félaga Eiríki Bergmann, sem túlkar þetta sem breytingu á embætti forseta Íslands og gera það pólitískara en það var. Svo er ekki, því að ákvörðun forsetans var alls ekki pólitísk, heldur þverpólitísk og vann meira að segja gegn hans eigin pólitísku skoðunum. Hann hafði greinilega heill þjóðarinnar í huga og það ber að virða. Því miður hefur fólk komist upp með að bera nánast enga virðingu fyrir forsetaembættinu í orði, en nú hefur forsetinn sýnt að það er virðingarvert á borði. Því vona ég að fólki fari að snúast hugur um mikilvægi þessa embættis, þrátt fyrir að einhverjum pólitíkusum hafi tekist að gera það umdeilt og óvinsælt, með smærri hagsmuni í huga en þjóðarinnar allrar.

Forsetinn hefur gefið tóninn. Nú er það hlutverk þjóðarinnar að spila undir svo eftir verður tekið, um alla heimsbyggð.

 

Eins og ævinlega býð ég þér að skrifa athugasemd hérna fyrir neðan, með eða án nafns, með eða án skráningar. Óska ég þó eftir kurteisi. Einnig mega lesendur afrita úr þessari sem og öðrum greinum mínum, en verða þó að geta höfundar.


Hvað er Hr. Ólafur Ragnar eiginlega að hugsa?

Það er hárrétt hjá Ólafi Ragnari að taka sér umhugsunartíma, en það er ómögulegt að segja til um hver ákvörðun hans verður, hann veit það sjálfsagt ekki sjálfur; til þess er umhugsunartíminn. Eftir mín afar stuttu kynni við hann trúi ég að hann vilji þjóðinni það besta, sé heiðursmaður, og sé ekki í vinsældaleit. Ég vona að hann sé af heilindum að leita farsælla leiða um málalyktir eftir höfnun þessa máls, því að stjórnarslit með öðru stjórnarmynstri mun ekki skila neinu öðru en þrátefli.

Hann virðist í það minnsta vera að gera nákvæmlega það sem ég hefði gert í hans sporum, og ég er tilbúinn að gefa honum tækifæri til að rannsaka málið, þó að slík völd séu reyndar ekki á mínu færi, og taka afstöðu með almannaheill að viðmiði. Það er vandasamt að leysa þetta mál svo að vel verði, og ef tekst að koma á tímabundinni þjóðstjórn virtra einstaklinga, er slagurinn engan veginn unninn, og það engin silfurkúla sem leysir allan vanda, en það hlýtur að vera skref í rétta átt að gefa stjórnmálahreyfingunum tímabundið frí frá störfum, því að í augnablikinu eru þær vita gagnslausar, eins og reyndar alltaf, þó að að þær séu sjálfsagt nauðsynlegar fyrir tilfinningu fólks um stöðugleika. Stjórnmálahreyfingar eru hins vegar vita gagnslausar þegar kemur að því að leysa vandamál á neyðartímum. Það er bara í eðli þeirra. Ekkert við frambjóðendur eða fulltrúa að sakast. Þeir ráða ekkert við þetta kerfisbákn frekar en aðrir, og verða að leika sín hlutverk.

Það er bara á jafnvægistímum sem stjórnmál eiga að komast upp með eigið gagnsleysi, og þá mættu vera skýr skil á milli Ríkisstjórnar sem fer með framkvæmdavald, og Alþingis sem fer með löggjafavald, en ekki hafa þetta allt í einum hrærigraut þar sem ein höndin er upp á móti annarri.

Stjórnarliðar virðast trúa því staðfast að ICESAVE lögin eins og þau eru séu ekki bara ásættanleg, heldur góð, einfaldlega vegna þess að þau gætu verið miklu verri. Stjórnarandstæðingar sjá að þessir samningar gætu verið miklu betri. Svona eru stjórnmál. Hrærigrautur.

Það sem helst er hægt að gagnrýna eru vinnubrögð ríkisstjórnar, að senda mann til samninga sem virðist ekki verkinu hæfur, og reyna síðan af sannfæringarkrafti að festa þennan samning sem lög, og auk þess standa ekki við eigin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna mikilvægra mála, og reyna síðan að þvinga samningum í gegn þrátt fyrir skýran vilja gegn því, eins og ofvirkur sölumaður sem þú hefur boðið inn á heimili þitt.

Himnarnir hrynja ekki, hvort sem málinu verður hafnað eða það samþykkt, svo framarlega sem að fólk lagfæri eigin vinnubrögð, sýni viðsemjendum að vilji er til að ná fram réttlæti og að réttlæti snúist ekki bara um peningagreiðslur sem rangt fólk á að greiða, og hætti svo að snúa öllu upp í pólitískar deilur.

Öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir, en það er eins og harðsvíraður flokkur veiðiþjófa hafi flogið yfir í þyrlu og dritað á dýrin með vélbyssukjöftum og eldsprengjum. Síðan fljúga veiðiþjófarnir burt og ætlast er til að dýrin verði sátt með því að laga umhverfið og hjúkra hinum sáru, í stað þess að koma í veg fyrir að sömu hlutir gerist aftur.

Það eru ýmis merki á lofti um að ekkert hafi breyst í viðskiptaumhverfinu, og ef það er satt, af hverju ætti þjóðin þá að borga, þegar sams konar vitleysa gæti endurtekið sig aftur, og aftur? Það verður að stoppa þá einstaklinga sem réðust gegn þjóðinni, og sýna fólki sem er í sams konar þankagangi að það komist ekki upp með að gera þjóð sína gjaldþrota að kostnaðarlausu, þó að þeir hafi gert það af gáleysi eða til skemmtunar, en það er einfaldlega svo gaman að telja sig eiga billjón trilljónir.

 

Mér þætti vænt um að fá athugasemdir við þessum pælingum, en ekki búast við að ég snúist á þína skoðun án þess að hugsa mig um og velta rökum þínum fyrir mér.


Hver er kjarninn í þessu óskemmtilega ICESAVE máli?

Í samantekt:

  • Neyðarlög voru sett sem tryggðu allar íslenskar innistæður í bönkum. Ranglát aðgerð, en annars hefði allt orðið vitlaust.
  • Erlendir aðilar kröfðust sömu tryggingar - sem þýddi meðal annars að endurgreiða þyrftir innistæður í ICESAVE útibúi Landsbankans, sem hafði verið skilið eftir í algjörri óreiðu.
  • Gengið var til samninga með óhæfu samningafólki.
  • Þingið samþykkti ekki þessa samninga án fyrirvera.
  • Samningnum er verið að þvinga í gegn.
  • InDefense og rúmlega 60.000 skrifa undir undirskriftarsöfnun sem afhent er forseta.
  • Hann gefur sér góðan tíma til að hugsa sig um.

Af meiri nákvæmni:

1. Vafasamir viðskiptahættir urðu íslensku bönkunum að falli.

2. Þegar bankarnir féllu óttuðust innistæðueigendur um peninginn sinn.

3. Ríkisstjórn Íslands lofaði íslenskum innistæðieigendum að þeir myndu ekki tapa innistæðum sínum.

4. Ein af hliðarverkunum þessarar ákvörðunar var að gengið féll og verðbólgan jókst, þannig að skuldir einstaklinga, heimila og fyrirtækja uxu hratt. 

5. Þegar erlendir innistæðueigendur sáu fram á að íslenska ríkisstjórnin hafði eytt öllum sínum peningi í að borga íslenskum innistæðueigendum peninginn sinn til baka, og fengu ekki einu sinni lágmarkstryggingu á eignum sínum endurgreidda, reiddust þeir ógurlega, höfðu áhrif á eigin ríki - sem ákváðu að styðja við bakið á sínu fólki, og krafðist þess að íslenska Ríkið borgaði hluta, enda virðist enginn hafa áttað sig á því að þessi íslensku einkabankar voru ekki reknir af þjóðinni, né með starfsháttum sem réttlætanlegir væru fyrir ríkisbanka. Flestum virðist sama um þetta smáatriði.

6. Íslenska ríkið ákvað að taka á sig eitthvað af þessum skuldum einkafyrirtækjanna og sendu því sendiherra einn og gamlan vin forsætisráðherra til að semja við útlendingana.

7. Kom sendiherrann með hræðilegan samning til baka, sem af fjármálaráðherra var dásamaður. 

8. Samningurinn var samþykktur af Alþingi, en með fyrirvörum, og "fyrirvarar" þýðir að samningurinn sé einungis samþykktur ef gengið er að ákveðnum skilmálum. 

9. Fyrirvörunum var hafnað af Bretum og Hollendingum.

10. Þá var ákveðið að þvinga samningnum til samþykktar í þinginu. Stjórnarandstæðan hélt málþóf þar sem hún var ósátt við að þvinga átti málið í gegn með aflsmunum. Stjórnin var ekki tilbúin að rökstyðja sitt mál frekar og ætlaði einfaldlega að þvinga málinu í gegn. Blöskrar almenningi slík vinnubrögð. Þess má geta að í kosningaloforðum bæði VG og Samfylkingar er kveðið á um að stefna á beinna lýðræði, þar sem þjóðin gæti tekið ákvarðanir í málum sem varða þjóðarhag, en af einhverjum annarlegum ástæðum á það ekki að eiga við í þessu máli.

11. Málinu var þvingað í gegn með minnsta mun. 

12. Á meðan allt þetta hafði gerjast og þegnum blöskrað, ákvað InDefense hópurinn að safna saman undirskriftum ætluðum að hafna því algjörlega að íslenskir þegnar þyrftu að borga fyrir glæpi fámenns hóps, sem stendur enn í dag með pálmann í höndunum, á sama tíma og fjölskyldur eru að leysast upp, flytja af landi, og sumir tekið eigin líf vegna þeirra vandamála sem sprottið hafa upp vegna svindls og svínarís. Þessi fámenni hópur heldur uppteknum hætti á meðan réttlætiskennd fólks segir að þeir ættu að sitja bakvið lás og slá.

13. Forseti Íslands, hefur á elleftu stund reynst síðasta vonarglæta Íslendinga um réttlæti, að almenningur Íslands verði ekki þvingaður til að taka á sig að borga til baka ránsfé sem hann stal aldrei upphaflega.

14. Nú eru spunameistarar að telja fólki trú um að þetta mál sé eitthvað flókið, eða að þegar sé búið að samþykkja að borga; en það er bara ekki rétt. Málið er að fyrirvararnir með fyrsta samningnum þýða einfaldlega að ef fyrirvararnir verða ekki samþykktir, verður samningurinn heldur ekki samþykktur. Fyrirvararnir voru ekki samþykktir, en samt var reynt að troða samningnum í gegn, gegn vilja þeirra sem kröfðust fyrirvaranna.

15. Hræðslurök eru notuð til að knýja samningnum í gegn, og mikið talað um að himnarnir hrynji eða eitthvað sem maður getur ekki ímyndað sér eða sé tilbúinn að færa í orð muni gerast ef samningnum verði hafnað. Sannleikurinn er líklega mun einfaldari. Ef samningnum er hafnað, hefur trúverðugleika fjármálaráðherra og sendimanns hans í samninganefnd einfaldlega verið hafnað, og semja verður upp á nýtt. Það er örugglega pirrandi fyrir stjórn sem vill halda völdum og halda stjórnarandstöðu frá völdum, og gerir þeim örugglega erfitt fyrir. En að allt muni fara til fjandans bara vegna þess að við viljum ekki samþykkja ómögulegan samning er hrein fjarstæða.

Það er enn tími til að breyta rétt, og óskað er eftir því að forseti lýðveldisins nýti neitunarvald sitt og geri þjóðinni fært að taka ákvörðun um þetta afar mikilvæga málefni. 

 

Vonandi er þessi samantekt einföld, sönn og nákvæm.

Ef ekki er þér velkomið að leiðrétta mig í athugasemdakerfinu. Þú þarf ekki að skrá þig eða nota eigið nafn frekar en þér sýnist, en mér þykir afar áhugavert að sjá skoðanir á þeim málum sem eru mér hugleikin, og sérstaklega skoðanir sem eru andstæðar mínum og vel rökstuddar, því þá fæ ég ástæðu til að rannsaka málið af meiri dýpt, rannsaka eigin hug og velta fyrir mér hvort ég hafi hugsanlega haft rétt eða rangt fyrir mér, og að lokum fágað mínar skoðanir enn betur en fyrr. 

Ég hef engin pólitísk markmið, vil einfaldlega þjóð minni vel og hef áhyggjur af þeim sem minnst mega sín.


Spilla völd, og spilla algjör völd algjörlega?

Hugsanir um hræsni, svik og spillingu blossa upp þegar maður ber saman loforð VG og Samfylkingar við veruleikann; ICESAVE málið. Blossar þetta upp við lestur á frétt Eyjunnar VG fyrir kosningar: 15-20% gætu knúið fram þjóðaratkvæði. Nú flestir andvígir eigin stefnu

Af hverju þjóðinni er ekki treyst fyrir jafn erfiðu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu er mér hulin ráðgáta, enda innbyggt í grundvallarloforð VG og Samfylkingar að fara með mikilvæg mál fyrir þjóðaratkvæði.

Þú getur smellt á fyrirsagnirnar til að lesa stefnuskrá flokkanna af þeirra eigin vefsíðum:

LOFORÐIN:

Kosningaáherslur VG, Vegur til framtíðar

"Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál eða krafist þingrofs og nýrra kosninga." 

 Kosningaáherslur Samfylkingar, Umbætur á stjórnkerfi og ný stjórnarskrá:

Milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins.

  • Tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Minnihluti þingmanna, t.d. 30 % þingmanna, getur kallað eftir þjóðaratkvæði um samþykkt lög áður en forseti hefur staðfest þau.
  • Reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur.

VERULEIKINN

Stjórnarflokkarnir hafna að setja ICESAVE málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan sú að þetta þyki of flókið og erfitt mál til þess. Einnig harma forystumenn að þannig sé veruleikinn.

Ekki hefur þó verið útskýrt af hverju þetta er svona flókið og erfitt mál.

Voru kannski Landsbankinn, Glitnir og/eða Kaupþing í eigu hryðjuverkamanna eða alþjóðlegra glæpasamtaka, og með neyðarlögunum þjóðin öll gerð samsek að slíkri glæpastarfsemi?

 

Mér þætti vænt um ef þú tækir þér nokkrar sekúndur til að skrifa athugasemd við þessa grein. Þú þarft ekki að skrifa undir með eigin nafni né skrá þig sérstaklega til að láta heyra hvað þér finnst. 


Er óheiðarlegt að vilja ekki borga skuldir einkabankans Landsbanka Íslands?

Ég hef heyrt þá skoðun að við eigum að borga vegna þess að það sé hið eina rétta í stöðunni, þannig sýnum við umheiminum að við berum ábyrgð, að okkur sé treystandi, að mannorð okkar sé að veði. Ég hef mikinn áhuga á að vera heiðvirð manneskja og ber mikla virðingu fyrir slíkum skoðunum, en er ekki sammála því að höfnun á að borga óútfyllta ávísun til óljósrar framtíðar sé óheiðarleg hegðun.

Landsbanki Íslands var einkabanki. Hann var seldur af ríkinu árið 2002 til einkaaðila, sem fjármögnuðu kaupin með að taka lán í ríkisbanka!

Síðan tóku þeir við viðbjóðslega miklu af peningum til að varðveita og ávaxta á trjánum, því eins og flestir trúa, þá vaxa peningar á trjánum. Í stað þess að loka þennan pening inni í peningaskáp voru þeir gróðursettir sem hlutabréf, arðgreiðslur, dóp og bónusar.

Peningarnir sukku í jörðina og verða ekki sleiktir upp af Auðhumlu í þetta skiptið. Hverju svo sem þú trúir.

Mér finnst að þú ættir að ekki borga þessar skuldir nema þú hafir tekið þátt í veislunni, ekkert frekar en að mér finnst að ég og mín börn eigi að gera það, enda hafna ég algjörlega okkar þátttöku í vitleysunni. Sko, ef þú borgar, ertu þá ekki bara að stimpla þig sem samseka eða meðvirka manneskju og viðurkennir þar af leiðandi að þú sért ekkert skárri en glæpamennirnir sem glæpina frömdu? Ef þú tekur þátt eru þeir stikkrí og hafa loks eitthvað skjalfest fyrir sér þegar þeir fullyrða að allir Íslendingar tóku þátt í partýinu sem haldið var undir nafninu "Góðærið".  Annars kæmi okkur aldrei í hug að borga.

Mér þætti vænt um ef þú tækir þér nokkrar sekúndur til að skrifa athugasemd við þessa grein. Þú þarft ekki að skrifa undir með eigin nafni né skrá þig sérstaklega til að láta heyra hvað þér finnst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband