Af hverju slær íslenska ríkið vopnin úr eigin höndum?

Við verðum ekki vitur af því að minnast fortíðar okkar, heldur með ábyrgð gagnvart framtíð okkar.
- George Bernard Shaw:

Ólína Þorvarðardóttir og Björn Valur Gíslason sökuðu Evrópuþingmanninn Alain Lipietz um að misskilja lög Evrópusambandsins um ábyrgð um skyldur til endurgreiðsla úr tryggingarsjóði innlána. Lesið sjálf greinar þeirra með því að smella á nöfn þeirra og gerið upp hug ykkar sjálf. Væri ekki gáfulegra að leita fleiri ráða virtra ráðgjafa og Evrópuþingmanna áður en að gefa slíkar yfirlýsingar með hraði? Getur verið að ríkisstjórnin sé ekki að átta sig á umfangi málsins?

Hvor hefur rétt fyrir sér, sá sem tekur málstað Íslendinga, Alain Lipietz eða ríkisstjórnin, sem er afar fljót að gefa út yfirlýsingu gegn málstaði Íslendinga?

Ætlar þessi ríkisstjórn að endurtaka öll sömu mistökin og forverar þeirra? Eru þau föst í sömu hjólförum og vilja þau kannski bara sitja föst og láta skola sér í burtu með tíð og tíma? Málið er miklu stærra en íslensk lög segja til um, Hrun fjármálakerfis er afar sérstakt fyrirbæri og staðan í dag er afar viðkvæm.Yfirlýsingagleði gegn málstaði íslensku þjóðarinnar er ekki til bóta.

"Trúðu þeim sem leita sannleikans; efastu um þá sem þegar hafa fundið hann."
- Andre Gide 

Það koma fram afar misvísandi upplýsingar um hvort að Íslendingar geti borgað þá skuld sem samþykkt á ICESAVE kallar yfir þjóðina, sem ég tel reyndar vera aukaatriði, því að geta og skal eru tvö afar aðskilin hugtök, og talað er um að endurgreiðslur muni taka frá 14 til 30 ár, við verstu hugsanlegu aðstæður. Þá er ljóst að verstu hugsanlegu aðstæður í huga þeirra sem meta þetta taka ekki með í reikninginn að fyrir 15 mánuðum síðan hrundi íslenskt fjármálakerfi, og slíkt getur auðveldlega gerst aftur á næstu 15 mánuðum, enda eru sífellt fleiri að flytja úr landi, sífellt fleiri að missa vinnuna, sífellt fleiri að missa heimili sín, enda standa spjót út úr skjaldborg heimilanna sem reka þennan venjulega Íslending beint í gegnum hjartað, á meðan snjóboltinn stækkar í brekkunni. 

Þar að auki virka sjálfsagt fæst nákvæm hagfræðileg mælitæki á dag þar sem skortir á stöðugleika til að meta stöðuna vel, að hluta til vegna ráðstafana sem hafa verið gerðar til að ýta vandanum á undan sér, í stað þess að taka á honum strax.

Leitt að allt fólkið sem virkilega veit hvernig stjórna á þjóð er upptekið við að keyra leigubíla og klippa hár.
- George Burns

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég hef endurskrifað þessa grein, og orðalagið í fyrsta uppkasti var uppfullt af einhvers konar heift sem réttlætiskennd mín kom í gang, en ég tamdi reiðina, hugsaði betur um það sem ég skrifaði, las aftur rök þeirra sem að málinu koma, og reyndi að temja þetta mál í hógvært málfar; en þess má geta að myndmálið í fyrsta uppkasti var afar ríkt, þar sem uppúr stóð skjaldborg með spjótum sem beint er að hjörtum íslenskra heimila. En reiðin hefur verið tamin, þannig að engar slíkar myndhverfingar birtast á þessari síðu í dag. 

Hér er viðtalið við Alain Lipietz í Silfri Egils.

Hér hafnar Alain Lipietz ásökunum um misskilning.

 

Hér er fréttin af Eyjunni (smelltu á tengilinn til að sjá viðbrögð fólks) og fyrir neðan yfirlýsing forsætisráðuneytis:

Með aðild sinni að EES-samningnum gerðist Ísland hluti af innri markaði Evrópu. Samkvæmt tilskipunum ESB sem Ísland hefur tekið upp með lögum frá Alþingi gildir eftirfarandi:

·        Banki sem er með höfuðstöðvar í EES ríki stofnar útibú í öðru EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkisins, þar sem höfðustöðvar (sic) bankans eru.
·        Banki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EES stofnar útibú í EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs gistiríkisins, þar sem útibúið starfar.

Ljóst er af þessu að þar sem Ísland er EES ríki féllu skyldur vegna trygginga á innlánum í útibúum íslenskra banka í öðrum EES ríkjum á íslenska tryggingasjóðinn.  Þótt meginreglan sé einnig sú að eftirlit með því að fjármálastofnun geti greitt út innlán hvíli á heimaríki hefur af hálfu Íslands samt sem áður verið bent á að eftirlitsstofnanir gistiríkis séu ekki undanþegnar eftirlitsskyldum.

Samkvæmt tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem Ísland hefur tekið upp er það skylda sérhvers aðildarríkis EES að tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á fót innlánatryggingakerfi, sem nái til fjármálastofnana með höfuðstöðvar í því ríki sem og útibúa þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin kveður skýrt á um að útibú í öðrum aðildarríkjum EES falli undir innlánatryggingakerfi heimaríkisins.

Íslensk stjórnvöld hafa á öllum stigum Icesave-málsins haldið því fram gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu að um lagalega óvissu væri að ræða varðandi ábyrgð ríkissjóða við kerfishrun á lágmarkstryggingum innstæðueigenda. Jafnframt var strax í upphafi lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól, en öllum tilraunum til þessa hefur verið hafnað af öðrum samningsaðilum en það er meginregla í þjóðarétti að ríki geta ekki leyst úr ágreiningi sín á milli fyrir dómstólum nema allir aðilar samþykki. Þessi fyrirvari sem áréttaður er í 2. gr. l. nr. 1/2010 breytir þó engu um þá niðurstöðu að ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkis gildir um útibú banka innan EES þótt annað hafi verið fullyrt undanfarna daga. 

 


mbl.is Lipietz vísar gagnrýni á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Ég var að hlusta á viðtalið við Lipietz. Mér fannst það ekki marka nein vatnaskil í umræðunni. Ég hygg að meginástæða fyrir yfirlýsingunni sem þú birtir hér að ofan hafi verið sú að Lipietz nefnir í tvígang að þegar banki sé með höfuðstöðvar utan ESB, þá eigi ESB-gistiríki útibús (það ríki þar sem útibúið er) að bera ábyrgð á innistæðum. Hann talar eins og það sé skýrt og klárt að þetta eigi við Landsbankann.

Egill Helga spyr hann ekki lykilspurningar, hvort hann ekki verði að líta á Landsbankann sem innan ESB, þar sem við erum í EES. (Höfum í huga að EES er náttúrulega algjör dvergsamningur í dag og ekki ofarlega í huga Evrópuþingmanna).

Mér sýnist að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sé fyrst og fremst svar við þessari spurningu: sem aðildarríki EES höfum við innleitt 94-tilskipunina og því sé rangt að halda því fram að ákvæði sem gilda um banka utan ESB hafi gilt um Landsbankann.

Ég á eftir að hugsa betur um þessi mál og e.t.v. skrifa um þau og tek það fram að ég er ekki lögfræðingur. En það er Lipietz ekki heldur.

Einar Karl, 11.1.2010 kl. 22:04

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir góða grein Hrannar.  Ég legg til að þeir sem skrifa og andmæla öllum sem reyna að koma okkur til bjargar verði settir í pant til Bretlands og Hollands og látnir þræla þar fyrir skuldunum sem þeir vilja endilega láta okkur greiða.  Þeim ætti ekki að verða skotaskuld úr því ef þeir tækju fjölskylduna ALLA með í uppvaskið og skúringarnar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2010 kl. 22:16

3 identicon

Einar: Segjum að þetta sé rétt hjá þér(sem allavega skv. Alain er ekki, sbr. því sem skrifað er í þessu bloggi), afhverju ert þú að rembast við að halda þeim punkti á lofti? Finnst þér ekki að það væri kannski frekar Breta og Hollendinga að leiðrétta þetta, ef þetta væri actually rangt?

En það er svosem gott að þú viðurkennir að Ísland tók upp 94/19/EB, því þú hlýtur þá að vera sammála mér í því að íslenska ríkið beri enga ábyrgð gagnvart innistæðunum skv. :

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld
þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa
séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum
af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar
sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu
í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Gunnar (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 22:34

4 identicon

"Af hverju slær íslenska ríkið vopnin úr eigin höndum?" 

Ábyggilega vegna vantrúar á að þau reynist haldgóð þegar á reynir.

Það er nú heldur betur búið að ræða þetta mál og kalla til sérfræðinga frá mörgum þjóðum. Er óvarlegt að gera ráð fyrir að Ólína og Björn Valur muni eitthvað af því sem um var talað?

Grímur (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 22:48

5 Smámynd: Einar Karl

Gunnar, ég er ekkert að rembast, ég vil einfaldlega reyna að skilja þetta mál til hlítar og vega og meta öll góð og gild sjónarmið. Allra síst hoppa ég hæð mína þó einhver útlendingur birtist á skjánum og er vinveittur okkur og heldur fra msjónarmiðum sem gagnas okkur, ef þau eru að einhverju leyti efnislega röng.

Ef málið væri svona kristaltært og einfalt, hefðu þá ekki dýru fínu bresku lögmannsstofurnar sem íslenska ríkið greiddu fúlgur fyrir ráðgjöf bent á okkur á það?

Hvað varðar þessa blessuðu tilvitnun úr tilskipuninni er hún nú ekki skýrari en svo að hana má einmitt nota til að rökstyðja einmitt hið gagnstæða, að ríki skuli einfaldlega sjá til að innstæðueigandi fái tryggðar lágmarksbætur:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld
þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa
séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum
af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar
sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu
í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun
.

Einar Karl, 11.1.2010 kl. 22:50

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst ekki skipta máli þetta með höfuðstöðvarnar og útibú og allt það.  Með neyðarlögunum voru innstæður gerðar að forgangskröfum.  Líka Icesave innstæðurnar.  Þær greiðast því af eignum Landsbankans eins og þær innheimtast eða seljast.  Deilan við Breta og Hollendinga snýst um það hvort kröfurnar séu tvær eða fjórar, þ.e.  ein frá hvoru landi eða tvær.  Við viljum að það sé bara ein frá hvoru landi, en Bretar og Hollendingar vilja að þær séu tvær og allar séu jafn réttháar.  Bretar og Hollendingar vilja að það sem löndin ábyrgðust umfram lágmarkstrygginguna komi til endurgreiðslu samhliða endurgreiðslunni á lágmarkstryggingunni.  Þessi krafa Breta og Hollendinga á ekki við nein lög að styðjast og er andstætt öllum kröfurétti.  Um það snýst ágreiningurinn og þann ágreining þurfum við að leysa.  Svo er þetta mál með vextina, en ef fyrra atriðið leysist okkur í hag lækkar vaxtabyrðin úr 250 - 300 milljörðum í um 100 milljarða miðað við 5,55% vexti.

Marinó G. Njálsson, 12.1.2010 kl. 00:09

7 Smámynd: Ignito

Þegar fram koma menn í útlöndum, hvort sem er í viðtölum eða pistlum, sem styðja málstað okkar þá verð ég ávallt jafn forviða yfir því að hörðustu gagnrýnendur þeirra séu íslendingar.

Heyrði á Bylgjunni í morgun ágætis skýringu á hegðun Björns Vals og Ólínu en það er svokallað Stokkhólmseinkenni þar sem þau ganga til liðs við gísltakann og verja hans aðgerðir því hann hefði getað farið verr með okkur en gerði það ekki (að þeirra áliti).

Mér finnst t.d. Ólína ekki gera vel með því að hlaupa frá gagnrýninni á Lipietz eftir hans útskýringar, hvorki með því að viðurkenna misskilning sinn eða koma með mótrök, heldur snúið umræðunni í allt aðra átt.  Umræðu sem þegar fer fram hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni og ætti að vera nægilega góður vettvangur fyrir hana.

En sumir virðast það fastir í pólitísku skotgröfum sínum að hagsmunir fjöldans hverfa fyrir hagsmuni flokksins.

Ignito, 12.1.2010 kl. 09:26

8 identicon

Ég skal koma með eina góða og gilda ástæðu fyrir því að leiðrétta verður misskilning á borð við þann sem Alain Lipietz breiddi út með viðtalinu í Silfri Egils. Hún er sú að til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir í þessu erfiða máli er lágmarksskilyrði að umræðan grundvallist á staðreyndum. Sú hugmynd að ekki megi útrýma rangfærslum af því gætum kannski látið á þær reyna gagnvart Bretum og Hollendum og eftirlátið þeim að reka þær ofan í okkur er að mínu mati ótæk og gerði stöðu okkur enn verri.

Ég ítreka hér efnislega þá athugasemd mína að það sé alltaf góð regla að fara í frumheimildirnar enda dugir það svar Hrannars við henni að við séum ekki í ESB alls ekki af því með aðild að EES og innleiðingu regluverks innri markaðarins (þar með taldar tilskipanirnar sem Alain Lipietz var að tala um) þá höfum við í öllu og einu stöðu aðildarríkis í þessari umræðu. Það hefði Alain Lipietz betur kannað áður en hann talaði eins og hann gerði á sunnudaginn.

Alain Lipietz tiltók tvisvar að hann væri að tala um banka með höfuðstöðvar utan ESB/EES og ef þú skoðar það sem hann segir um ábyrgð gistiríkis í báðum tilskipununum (1994 og svo 2002) þá passar það og báðar tilskipanir eru afar skýrar um þetta.

En þær eru því miður báðar jafn skýrar um það að ábyrgðin er akkúrat á hinn veginn þegar höfuðstöðvarnar eru í ríki sem er aðili að ESB/EES. Þá er bæði eftirlitsskyldan og ábyrgðin á innstæðutryggingakerfinu hjá heimaríkinu, ekki gistiríkinu.

Alain Lipietz sneri því dæminu akkúrat við út frá þeirri forsendu sinni að Ísland væri ekki “aðildarríki” eða “Bandalagsríki” í skilningi þessara tveggja tilskipana.

Þessu hefur hann ekki svarað enda yrði hann að útskýra hvernig hann gæti dregið þær ályktanir sem hann gerði svo greinilega út frá þeirri forsendu að Ísland er aðildarríki í þessum skilningi.

Það er því miður einnig rangt hjá Alain Lipietz að það komi nokkurs staðar skýrt fram í tilskipuninni frá 94 að innstæðutryggingakerfi skuli vera einkavarasjóður. Slíkt er hans ályktun. Ef sú væri raunin má líka spyrja sig hvernig á því stendur að stjórnvöld bæði hér á landi og víða í Evrópu tilkynntu einhliða og fyrirvaralaust um stórhækkun á tryggingarupphæðum án þess að nokkur spyrði um eignir í þessum "einkavarasjóðum"?

Arnar (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 00:30

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Arnar: Það er hárrétt hjá þér að fara verður eftir staðreyndum í þessu máli, það verður að skoða þær vel, og það verður að staðfesta þær, en engu mikilvægara er að fara eftir öðrum gildum og umfangi málsins þar sem þetta mál er einstakt, og einfaldlega það að efasemdir óma um allan heim að þetta geti engan vegið verið réttlát niðurstaða, hljótum við að kanna betur hvort að eitthvað sé til í þessu máli, nokkuð sem mér sýnist algjörlega hunsað í málinu.

Ef málið snýst bara um að fara eftir lögum, þá hefði aldrei átt að beita neyðarlögunum 6. október 2008. Af hverju er hægt að beita neyðarlögum og víkja þannig frá almennum lögum þegar takmarkaðir hagsmunir eru að veði, en öll hugsanleg úrræði hunsuð þegar almennir hagsmunir eru að veði?

Íslendingar eiga alls ekki að gefa eftir eins og verið er að gera, og vera opnir fyrir þeim möguleika að þeir hafi rangt fyrir sér í sinni lagatúlkun.

Ignito: Sammála

Marinó: Takk fyrir afar gott innlegg.

Einar Karl: "Ef málið væri svona kristaltært og einfalt, hefðu þá ekki dýru fínu bresku lögmannsstofurnar sem íslenska ríkið greiddu fúlgur fyrir ráðgjöf bent á okkur á það?" Geta breskar lögmannsstofur með lögmenn sem mögulega áttu eignir á þessum reikningum verið hlutlausar? Þarna er of mikil hætta á hagsmunaárekstrum. Betra væri að fara með málið fyrir algjörlega óháðri lögmannsstofu, og sem ekki hefur starfsemi í Bretlandi eða Hollandi, sem sérfræðir sig bæði í Evrópurétti sem og Alþjóðarétti.

Grímur: Gagnrýni þeirra Ólínu og Björns Vals virðist hafa verið stjórnað af sannfæringu þeirra frekar en rökum. Því miður.

Gunnar: Þetta er einmitt það undarlega. Af hverju er verið að skjóta niður allar þær hugsanlegu varnir sem við gætum haft á jafn fljótfæran hátt og gert er hér, og svo hylmt yfir með því að rústa algjörlega málstað okkar?

Ásthildur: Ef þetta væri bara svo einfalt. Ísland virðist vera orðið ríki þar sem trú á eigin sannfæringu skiptir meira máli en efnisleg rök. Ég er einfaldlega afar feginn að vera fluttur með konu og börn úr landi, og ætti sjálfsagt að gera meira í því að fjarlægja sjálfan mig frá þessari umræðu, en mér blöskrar einfaldlega sífellt ólíkindin sem eiga sér stað.

Einar Karl: Meginástæðan fyrir því að þetta vakti athygli mína er fyrst og fremst réttlætiskennd, sem er algjörlega óháð lagabókstöfum, sem ég læt sérfræðinga um lög sjá um, en þegar skýr lagaleg rök koma fram um umfang málsins, að Ísland sé utan ESB og þar af leiðandi gilda önnur lagaleg rök um Ísland en ef það væri innan þess, þá er sannarlega góð ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvort þetta geti verið rétt. Ég get ekki séð hvernig skoðun eins lögmanns, eða einstaklings eins og mín, eða þingmanns, eða pólitísks flokks, getur skorið úr um það sem er lagalega rétt í þessu efni, og tel að þetta sé það mikið mál að úr því verði að skera af alþjóðlegum dómstólum.

Það sem mér blöskrar mest er hvernig ríkisstjórnin rökstyður ICESAVE samþykkt á svipaðan hátt og ofsatrúarmenn að ef þú fylgir þeim ekki lendirðu í helvíti, og fylgirðu þeim áttu séns á að komast í himnaríki. Þetta hefur virkað í mörg þúsund ár. Og engin ástæða til að ætlast annars en að þetta muni virka í dag. 

Að hafa fyrir sér gervisannleik er ekki beinlínis rétta leiðin til endurreisnar. Hvað veit ég svosem, ekki kaus ég þessa flokka til stjórnar, og vel getur verið að þetta sé það sem meirihluta kjósenda vill.

Hrannar Baldursson, 13.1.2010 kl. 06:50

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að rökræða staðreyndir eins og einmitt eins og þú segir, ofsatrúarmenn.

Þér dettur í hug Flat Earth Socety :

  • Why we don't believe the world is round
  • Scientific data and measurements backing up our claims

það er nóg af rökum þarna og glerhörðum vísindakenningum um að þeir hafa til að sanna að jörðin sé flöt.

Lögfræðingurinn sem stofnaði samtökinn lifir fínu lífi á meðlimagjöldunnum...

Óskar Arnórsson, 13.1.2010 kl. 08:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband