Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Mætti gjöreyða öllum íslenskum fóstrum í móðurkviði ef vilji mæðra væri fyrir hendi?

 


 

Segjum að allar íslenskar og tilvonandi mæður með fóstur yngri en 12 vikna vildu fara í fóstureyðingu á þeirri forsendu að þær vildu ekki gera börn sín að þrælum sem borga þyrftu skuldir óreiðumanna meiri part ævi sinnar?

Væri hægt að mæla gegn slíkri kröfu?

Nú eru fóstureyðingar löglegar á Íslandi, og fóstur ekki talið til manneskju fyrr en eftir 12 vikna aldur - nokkuð sem vissulega má deila um, en ég mun ekki fást við hér - en hvað ef allar íslenskar tilvonandi mæður gerðu þetta?

Væri það siðferðilega rangt af einhverjum ástæðum?

Er fjöldafóstureyðing verri en ein?

 

2001_a_space_odyssey_baby

 

Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna orða sem Steingrímur J. Sigfússon lét falla fyrir nokkrum vikum, um að Íslendingar ættu ekki að bölmóðast yfir þeim hræðum sem flytja úr landi, heldur gleðjast yfir væntanlegri fjölgun Íslendinga, en sjaldan hafa fleiri konur verið óléttar á Íslandi. En hvað ef allar þessar konur ákveddu að fara í fóstureyðingu?

Það þykir nefnilega ekkert tiltökumál á Íslandi, skilst mér, að fara í fóstureyðingu vilji þungaða konan það af hvaða ástæðu sem er, og í umræðunni gegn fóstureyðingum eru mest áberandi háværar öfgaraddir sem enginn tekur mark á hvort eð er, einfaldlega vegna þess að viðkomandi raddir hafa verið kenndar við öfga.

Getur verið að sú skoðun Íslendinga að fóstureyðingar séu sjálfsagðar, séu af sama meiði og nýfrjálshyggjan sem keyrði allt í kaldakol? Við séum bara ekki búin að fatta samhengið? Og að menntun, heilbrigðiskerfið, fjölmiðlar og allar íslenskar stofnanir séu sýktar af þessari sömu hugmyndafræði sem gengur einfaldlega ekki upp, en enginn kann að hætta við af því að sambandið þarna á milli er óskýrt og erfitt að sanna tilvist þess?

Ég hef heyrt af því, en ekki skoðað það sérstaklega, að sums staðar í heiminum þyki réttlætanlegt að þvinga konu í fóstureyðingu þyki sannað að barnið muni fæðast með Down-heilkenni eða einhverfu. Hvað ef samfélagslegar aðstæður eins og fátækt þættu næg ástæða til að þvinga konu í fóstureyðingu?

 


 

Ef fóstur er ekki manneskja og megi af þeim sökum taka af lífi með því að aftengja frá móður þess auk þess að byrla því eitthvað eitur, þá hlýtur það sama að eiga við um mikinn fjölda fóstra.

Aftaka fósturs þykir réttlætanleg á Íslandi. Ég vil ekki ganga svo langt að kalla slíkt morð, en gæti fallist á að slíkt væri vel ígrundað manndráp, enda botna ég engan veginn í því hvernig hægt er að segja 12 vikna fóstur vera ekki manneskju en 12 vikna og eins dags fóstur vera manneskju. Hvað ef sum fóstur eru bráðþroskaðri en önnur?

Ef allar mæður myndu ákveða á einu bretti að fara í fæðingarverkfall vegna Hrunsins og storma í fóstureyðingu, væri eitthvað siðferðilega athugavert við það?

Væri ákvörðun eins og að þvinga allar mæður í fóstureyðingu sambærileg við að hneppa komandi kynslóðir Íslendinga í skuldafangelsi? Hvort væri mannúðlegra?

 


 


Þú verður að sjá hana í bíó, vísindatrylli ársins: District 9

District9_Poster-450x667

Kíktu á gagnrýni mína um Svæði 9 (2009) **** á bio.blog.is

 


Landráð af gáleysi framið í nafni persónuverndar?

Það er afar skýrt í lögum um persónuvernd að yfirleitt sé bannað að safna upplýsingum um nafngreinda einstaklega á skipulegan hátt með tölvukerfum eða á annan hátt, án samþykkis þeirra. Eina undantekningin er ef upplýsingum sé verið að safna fyrir almannaheill. 

Það er engin spurning fyrir einstaklinga með vott af heilbrigðri skynsemi að Jón Jósep Bjarnason er að safna þessum upplýsingum vegna kúlulána og fjársvika fyrir almannaheill, þar sem að þessir flóknu fjármálaflutningar munu lenda í höfðinu á íslenskum skattborgurum þar sem að Ríkið á fjármálastofnanirnar sem veittu nefnd lán og skuldir þessara fyrirtækja til erlendra kröfuhafa muni því lenda beint á íslenskum skattborgurum í áratugi.

Það virðist í raun vera landráð af gáleysi að loka á aðgang Jóns Jóseps að þessum gagnagrunni miðað við notkun hans, þar sem hann hefur verið að safna saman opinberum upplýsingum sem bæði íslenskir og erlendir rannsóknaraðilar hafa getað notfært sér til að öðlast meira gagnsæi og skilning á hugsanlegu fjármálamisferli, enda varðar þessi söfnun upplýsinga fyrst og fremst almannaheill, og afar óeðlilegt að lokað sé á aðgang Jóns Jóseps án viðvörunar. 

Hins vegar getur falist ákveðinn vandi í því að sanna hvernig gagnagrunnurinn varðar almannaheill, enda oft langt bil á milli heilbrigðrar skynsemi og lagatæknilegs skilnings.

Hér má finna lög um persónuvernd.

 

 

Frétt Vísis:

Kanna persónuverndamál vegna viðskiptatengslaforrits

Jón Hákon Halldórsson skrifar:

„Ríkisskattstjóri er að kanna persónuverndaþátt málsins," segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Vísi.

Eins og greint var frá í fréttum RÚV í gær hefur Ríkisskattstjóri lokað á aðgang Jóns Jóseps Bjarnasonar að upplýsingagrunni úr fyrirtækjaskrá. Jón hefur á undanförnum dögum kynnt gagnaforrit sem sýnir með myndrænum hætti tengsl manna í atvinnulífinu. Gögnin voru unnin úr fyrirtækjaskrá hjá Ríkisskattstjóra.

Þannig sagðist Jón Jósep í samtali við DV um daginn geta sýnt fram á að Finnur Ingólfsson, fjárfestir og fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóra, og Kristins Hallgrímsson, lögmaður S-hópsins sem keypti Búnaðarbankann árið 2003, væru tengdir á 850 vegu í gegnum eignarhaldsfélög og fyrirtæki sem þeir hafa verið prófkúruhafar fyrir og gegnt stjórnarsetu hjá.

 


Gegnsæi eða gagnsæi?

 


Mér finnst svolítið skondið að sjá bloggara og blaðamenn skrifa ýmist um mikilvægi 'gegnsæis' eða 'gagnsæis' eins og um sama hlutinn sé að ræða. Ég vil taka það fram að ég kippi mér engan veginn upp við orðanotkunina, en held að hvort tveggja geti auðveldlega þýtt sama hlutinn, en hins vegar er óneitanlega ákveðinn blæbrigðamunur á þessum tveimur hugtökum.

Gegnsæi er frekar augljóst hugtak, en á ensku væri hægt að þýða það sem "transparency", án þess að frekari vangaveltna sé þörf.

Gagnsæi getur hins vegar haft ólíka merkingu, umfram 'gegnsæi', sem þýddi þá ekki aðeins að hægt sé að sjá í gegnum eitthvað, heldur einnig að hægt sé að sjá í gegnum eitthvað sem er mikilvægt og gagnlegt. Gagnsæi hefur huglæga tengingu við gagnrýna hugsun, á meðan gegnrýnin hugsun væri sjálfsagt svolítið annað mál. Ætli enska hugtakið yrði ekki eitthvað eins og "analyzable"?

 

fraud-scam

 

Ég hef þá tilfinningu að gegnsæi sé einhvers konar mótstöðuleysi í sjálfu sér, en gagnsæi krefjist meiri vinnu.

Þetta er að sjálfsögðu bara hugdetta og tilfinning sem ég hef, og ég er langt frá því að vera rétttrúnaðarmaður þegar kemur að merkingu hugtaka og orða sem ég tel samofin í hug og samfélag á afar flókinn máta, en mér finnst einfaldlega merkilegt að fólk sé að nota tvö ólík orð um sama hlutinn, og velti fyrir mér hvort að ólíkt fólk leggi hugsanlega ólíka merkingu í hugtakið, einmitt vegna þess að ólík orð eru notuð.

Hvað finnst þér?


Spillir vald eða leitar spilling í völd?

Öruggasta leiðin til að spilla ungdómnum er að kenna honum að meta meira þá sem hugsa eins heldur en þá sem hugsa ólíkt. (Friedrich Nietzsche)

Borgarahreyfingin virðist komin í ákveðna klemmu. Ósætti í þinghóp og landsfundur virðist snúast um að koma taumum yfir þingmenn og málefni hreyfingarinnar. Þar sem að flokkurinn náði ákveðnum völdum í síðustu kosningum með því að fá fjóra einstaklinga kosna á þing, sem áttu fyrst og fremst að svara til eigin samvisku og örfárra stefnueininga flokksins, þá gerist það að fólk sem hefur meiri áhuga á völdum og áhrifum en hugsjónum og breytingum, ryðst til valda og vill koma sjálfu sér og sínu á framfæri.

Til samanburðar eru hinir stjórnmálaflokkarnir í svipaðri klemmu. Vörn stjórnmálamanna felst í að hefja blekkingarleiki til að friða eigin fylgi. Heiðarleiki virðist ekki eiga heima í stjórnmálum, sama hvert formið er. Alltaf virðist spillingu takast að skjóta rótum eins og illgresi, sem kæfir allar aðrar plöntur, sem við viljum frekar rækta. Takist ekki að uppræta spillinguna strax, nær hún traustum tökum á einstaklingum innan flokka, og fljótar en þig grunar er spillingin orðin að viðmiði frekar en andstæðingi, því að spilling getur hentað í leik þar sem markmiðið er að ná eigin málefnum í gegn, og halda vinsældum og völdum.

Sagt er að vald spilli, en sannleikurinn er sá að vald laðar að sér hina spilltu. Heilbrigðir einstaklingar laðast yfirleitt að öðrum hlutum en valdi. (David Brin)

Þessi spilling virðist stundum læðast aftan að fólki sé það ekki meðvitað um möguleikann um að það sjálft geti orðið spillingu að bráð, og henni getur tekist að snúa göfugustu málefnum í andstæðu sína og skapað þannig ósætti sem erfitt verður að komast í gegnum, ef ekki allir leika með. Á hinn bóginn getur vel verið að heilbrigt fólk forði sér einfaldlega úr hreyfingum þegar vald er orðið það eftirsóknarverða við hreyfinguna, en þetta vald aftur á móti getur þótt afar spennandi fyrir þá sem hafa að markmiði að fara með völd, og það eru þeir sem vilja völd umfram önnur gæði, og kappkosta miklu til að öðlast þau, sem hafa litlar áhyggjur af smámunum eins og spillingu. Sumir einstaklingar verða ekki spillingunni að bráð, en hrekjast hins vegar frá, enda vilja þeir ekki sverta samvisku sína. Aðrir meta samviskuna hins vegar ekki sem verðmætt og raunverulegt gildi sem skiptir máli í lífinu. Slíku fólki vorkenni ég.

Spilling er ekki fyrirbæri sem manneskjur gera viljandi. Spilling er ekki einu sinni glæpur. Hún þarf ekki að vera lögbrot. Megin einkenni spillingar er að hún leiðir að ákveðnum markmiðum, en með aðferðum sem almennt eru ekki álitnar ásættanlegar, til dæmis með lygum, blekkingum og rökvillum sem margt fólk virðist einfaldlega ekki kunna að greina frá sannleikanum. Slíkt fólk álítur þá sem leita sannleikans og góðra leiða vera einfaldan og barnalegan mann sem ekkert erindi eiga í pólitík. Hugsanlega er það rétt mat, í það minnsta miðað við öll þekkt stjórnmálakerfi í veröldinni.

Spilling og hræsni ættu ekki að vera óhjákvæmalegar afleiður lýðræðis, eins og staðreyndin er í dag, án nokkurs vafa. (Mahatma Gandhi)

Ég hef stundum orðið var við það að fólk úti í hinum stóra heimi lítur á mig sem einfaldan og barnalegan einstakling, einfaldlega vegna þess að ég vil vera heiðarlegur, segja satt og forðast það að framkvæma hluti sem ég myndi skammast mín fyrir. Sannleikurinn er sá að ég viðurkenni fyrir sjálfum mér að þessi heimur er margbrotinn og flókinn, að manneskjan er breysk vera sem gerir mistök, og að ég vil einfaldlega gera mitt besta til að vera góð manneskja. Það er ekki auðvelt.

Ég sé fram á að ef ég sjálfur næði völdum og vildi halda þeim, yrði ég sjálfsagt að breyta mínum eigin leikreglum og byrja að taka þátt í leik sem að spillir mér. Þess vegna hef ég ekki viljað taka þátt í stjórnmálum. Ég treysti minni eigin mannlegu náttúru ekkert frekar en hinum sem eru þegar við völd.

Kommúnismi hefur aldrei náð til valda í landi sem var ekki rofið vegna stríðs eða spillingar, eða beggja. (John F. Kennedy)

Fyrir fjölmörgum árum, þegar Davíð Oddsson var ennþá vinsæll og við völd, hitti ég Þorstein son hans á kjúklingastað þar sem við snæddum saman og ræddum um spillingu. Hann var í MR á þeim tíma. Þá ræddum við um þá spurningu hvort að spilling spillti, og hvort að algjör spilling spillti algjörlega. Ég spurði hvort að faðir hans myndi á endanum verða spillingu að bráð, þar sem að hann var án efa valdamesti maður landsins á þeim tíma. Hann gat ekki svarað þessari spurningu, og þessari spurningu verður sjálfsagt aldrei endanlega svarað.

Fjöldi fólks mun halda því fram að Davíð hafi verið gjörspilltur stjórnmálamaður, en aðrir að fall hans hafi falist í heiðarleika hans. Ég ætla ekki að fella slíkan dóm, né einu sinni leyfa mér að mynda skoðun um það, því aðeins einn einstaklingur getur fellt slíkan dóm, og það er manneskjan sjálf, sem annað hvort hefur fórnað grundvallargildum eða ekki. 

Viðskipti okrarans eru hötuð með góðum rökum: þeir græða á peningunum sjálfum, í stað þess að framleiða gróðann út frá ferlinu sem peningum var ætlað að þjóna. Sameiginleg einkenni þeirra er skítleg græðgi. (Aristóteles)

Það sem gerir spillingu sérstaklega erfiða viðfangs er að þó að hún sannist, þá er ekkert endilega hægt að uppræta hana, því að hinir spilltu geta einfaldlega yppt öxlum og haldið áfram á sinn eigin spillta hátt, en samfélagið hefur engin úrræði til að koma þeim frá, nema þeim verði á að brjóta lög, og þó þeir kunni að brjóta lög og verði dæmdir fyrir, þá geta spilltir félagar þeirra ávallt veitt þeim uppreist æru til að þeir haldi starfi sínu áfram, eins og einhvers konar krabbamein sem dreifist hægt um blóðrásina þar til það fer að snæða bein og mikilvæg líffæri.

 

Ágæt teiknimynd um valdagræðgi og hvernig hún getur gert fólk að skrímslum:


Salaskóli að brillera á Norðurlandamóti í skólaskák!

 


 

Eftir þrjár umferðir er sveit Salaskóla komin með 10.5 vinninga af 12 mögulegum, en Svíar I og II, auk Dana eru í 2.-4. sæti með 6 vinninga. Ég man ekki eftir jafn glæsilegri byrjun á Norðurlandamóti.

Tómas Rasmus fer með liðinu sem liðstjóri og heldur vel utan um heilbrigt líferni og góðan húmor í hópnum. Mér er þetta sérstök ánægja því að ég þjálfaði börnin í liðinu frá 2004 til 2007 ásamt Tómasi, en þegar ég hætti nokkrum mánuðum eftir að skólinn vann heimsmeistaratitil, tóku við þjálfuninni stórmeistararnir Henrik Danielsen og Þröstur Þórhallsson, en þeir hafa greinilega styrkt liðið enn frekar.

Ég vil óska mínum gömlu, en jafnframt ungu félögum innilega til hamingju með frábæra byrjun. Nú er bara að klára þetta á morgun!

Liðið skipa:

  • Patrekur Maron Magnússon
  • Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  • Páll Snædal Andrason
  • Eiríkur Örn Brynjarsson
  • Guðmundur Kristinn Lee
  • Tómas Rasmus, liðsstjóri

Hrós!

Það er auðvelt að vera neikvæður á tímum Hruns og Kreppu, en sumir einstaklingar og stofnanir eru samt að standa sig afar vel, og þeim ber að hrósa. Það vil ég gera í þessari færslu.

Vil ég hrósa Birni L. Bergssyni, settum ríkissaksóknara fyrir að gera lítið úr ákæru Fjármálaeftirlitsins á hendur rannsóknarblaðamönnum sem hafa verið að upplýsa þjóðina um svik og pretti innan fjármálakerfisins. Fjármálaeftirlitið má hins vegar hugsa sinn gang, þar sem að menn virðast hafa meiri áhuga á lagabókstöfum en framgangi réttlætis.

Vil ég einnig hrósa Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að veita ekki of mörg fjölmiðlaviðtöl, en einbeita sér þess í stað að því sem skiptir mestu máli til að ná árangri í vinnunni. Hún virðist næm fyrir ástandinu og er að leita leiða til að bæta stöðuna, en hefur því miður ekki beint sjónum sínum að hinum grafalvarlega vanda heimila sem eru að sligast undan auknu álagi, og þeim sem þegar eru hrunin. Jóhanna bauð sig fram í starf á augnabliki þegar hún var álitinn nánast dýrlingur af fjölmörgu fólki, en hún mátti vita að hún væri að leggja í leiðangur sem yrði erfiður og að á leiðinni myndu vinsældirnar hrynja af henni. Ég dáist að henni fyrir að halda sínu striki, þó að ekki geti ég sagt að ég dýrki hana. 

Reyndar kom mér svolítið á óvart afsökunarbeiðni Jóhönnu í tengslum við heimili sem börn voru send á, og áttaði mig ekki alveg á af hverju þetta skaut upp kollinum eins og álfur út úr hól, en svo sá ég spurningalista Evrópusambandsins og las um mikilvægi mannréttinda, sem er nokkuð sem Íslendingar hafa ekki verið duglegastir allra þjóða að verja, en ég get ímyndað mér að þetta mál verði hægt að nota til að sýna áhuga ríkisstjórnarinnar á mannréttindum.

Einnig vil ég hrósa mínum kæra vini Sæbergi Sigurðssyni sem sigraði á atskákmóti Hellis síðastliðinn mánudag. Þar fer toppmaður, snillingur á mörgum sviðum.

Það er hægt að hrósa fullt af fólki. Egill Helgason og Lára Hanna eru líka mjög ofarlega á listanum.

Verkefni: veltu fyrir þér hverjir hafa verið að gera góða hluti að þínu mati að undanförnu, og hafðu sérstaklega fyrir þeim að hrósa þeim á einhvern hátt. Hrósaðu þeim almennilega. Fólki veitir ekki af svona rétt fyrir veturinn.


Eru stjórnvöld á villigötum þegar þau gleyma raunverulegri undirstöðu samfélagsins?

 


 

Fjölskyldan er undirstöðueining allra samfélaga. Getur verið að hin íslenska þjóð hafi einfaldlega tapað skilningi á hugtökum eins og heimili og fjölskylda, og sjái fólk ekki lengur sem kjarna samfélagsins, heldur eitthvað sem mætir afgangs? Miðað við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar held ég að það sé málið.

Veltum þessu fyrir okkur og hvernig skuli forgangsraða í kjölfar Hrunsins og Kreppunnar.

 

noticia_9356_normal

 

Einstaklingar fá störf hjá fyrirtækjum til að halda fjölskyldunni gangandi, þannig að fyrirtækin þjóna fyrst og fremst hagsmunum einstaklinga, og þar með heimila, sama hvort að þú sért eigandi fyrirtækis eða starfsmaður. Hins vegar getur svo farið að starfsmaður eða eigandi sé orðinn það vellauðugur að hann áttar sig ekki lengur á því að starfið er í þjónustu við heimilið. Hugsanlega hefur átt sér stað einhvers konar firring þar sem þessi tengsl hafa horfið úr huga fólks. Vissulega eru störf nauðsynleg fyrir einstaklinga og velgengni fyrirtækja samofin lífi okkar allra, en þegar kemur að neyðarástandi þarf að forgangsraða rétt. Þegar skip farast er fyrst hugað að mannslífum, það sama á að gera þegar þjóðfélag fer undir. Heimilin eru í forgangi hjá lýðveldisríkjum. Ísland virðist ekki vera slíkt ríki.

 


 

Þar sem að íslenska krónan hefur fallið, hefur það að sjálfu sér gert þeim fyrirtækjum sem selja þjónustu úr landi mikið gagn, þó að gjaldeyristakmarkanir trufli sjálfsagt þau viðskipti. En fyrirtækin eiga ekki að vera í forgangi, einfaldlega vegna þess að þau þjóna fólkinu, en ekki fólkið fyrirtækjunum.

 


 

Sama gildir um ríkisstofnanir, eins og til dæmis grunnstofnunina, Alþingi. Þeim er ætlað að þjóna þegnum landsins, en ekki öfugt. Þar af leiðandi koma þær aftar í forgangsröðina. Í kapítalísku þjóðfélagi eru fyrirtæki sett í forgang á undan ríkisstofnunum, en öfugt í kommúnistaríki. Þar sem hvorugt virðist vera í gangi á Íslandi akkúrat núna, má sjálfsagt ímynda sér að við séum einhvers staðar á milli þessara tveggja afla. En svo er þó ekki.

 


 

Ísland er auðveldisríki, sem sannast á því að Ríkið forgangsraðar algjörlega með því að byrja á stærsta og erfiðasta verkefninu, að bjarga bönkunum, sem er þó einungis ætlað að vera þjónn fólks og fyrirtækja, en er varla grunnstoð samfélagsins, þó að bankarnir eigi að gagnast samfélaginu. Ekki má gleyma því að bankarnir virkuðu ekki fyrir Hrun. Þó að peningum verði dælt inn í þá þegar lán koma erlendis frá, þá er engin trygging fyrir að þeir muni virka eftir hrun.

Vissulega er fjármálakerfið gífurlega stórt og mikilvægt verkefni og ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera í forgangi. Málið er að þetta eru ekki eðlilegar kringumstæður. Það bendir allt til þess að fjármálakerfið bíði eftir að það geti aftur sett í gang árangurstengd laun og kúlulán, og endurtekið vitleysuna á nýjan leik. 

 


 

Samkvæmt aðferðum verkefnastjórnunar er forgangsröðun Ríkisins rétt, þar sem hafist er handa við að lagfæra stærsta vandamálið í kerfinu, og þegar það er komið í lag er vonast til að allt annað smelli í lag, reddist. Hins vegar er fólk ekki forrit í kerfinu. Fólk er ekki hlutir. Fólk er ekki verkfæri.

Fólk kemur fyrst. 

Á meðan það skilst ekki, erum við á rangri leið.

Bankar, stofnanir og fyrirtæki eru öll í þjónustu fólksins. Fólkið starfar fyrir bank, stofnanir og fyrirtæki, en er ekki verkfæri þeirra eða forrit sem mega mæta afgangi. Þegar kerfi eru annars vegar skal byrja að lagfæra stærsta vandann. Þjóðfélag er ekki sams konar kerfi.

 


 

Það er siðferðileg krafa að hafist verði strax handa við að hjálpa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eru í neyð, og eru við það að tapa heimilum sínum, eiga erfitt með að útvega sér fæði og klæði. Það er eina forgangsröðunin sem manneskja getur gert. Það er hins vegar forgangsröðun sem tölvukerfi myndi aldrei velja, því að í kerfum er í lagi að fórna pörtum.

Við megum ekki við því að fórna einum einasta parti. Við erum að tala um mannslíf og sálarheill. Ef við forgangsröðum eftir notagildi, höfum við tapað mennskunni. Ef við forgangsröðum eftir mannvirðingu, sálarheill og óendanlegu verðmæti mannslífsins, þá erum við á réttri leið.

Við virðumst því miður vera á villigötum.

Hugsanlega er neyðin ekki ljós.

 

 Um neyðaráætlanir:

 


 


Hver er munurinn á rannsóknarblaðamanni og bloggara?

Ég heiti Hrannar og er bloggari. Bloggarar eru ekki allir eins. Sumir eru nafnlausir. Aðrir hafa nafn. Ég hef nafn. Sumir skrifa upphrópanir og gera mikið grín, og sumir taka bloggið alvarlega, eins og það skipti máli. Ég tek bloggið alvarlega. Skrifa greinar um mál sem ég tel skipta máli. Reyni að átta mig á hvernig staðreyndir mála tengjast saman, og reyni að beita bæði innsæi og rökum til að skilja hvað er í gangi. 

En ég er ekki rannsóknarblaðamaður. Rannsóknarblaðamenn eru skörinni hærri en bloggarar í mínum virðingarstiga. Ástæðan er einföld. Þeir leggja sig í ákveðna hættu við leit að upplýsingum. Þeir uppljóstra um hluti. Bloggara grunar kannski að maðkur sé í mysunni, en rannsóknarblaðamaðurinn finnur maðkinn, tekur mynd af honum og skrifar lýsingu um hvernig hann hagaði sér.

 


 

Nú hefur hafist skothríð að bloggurum og rannsóknarblaðamönnum úr háloftum stjórnmála, hagsmunaaðila og ríkis. Að bloggurum fyrir að skrifa margir hverjir nafnlausir um opinberar persónur, útbreiða slúðri og níð. Fyrir vikið vill Björgvin G. Sigurðsson herða viðurlög við slíkum skrifum á Netinu. Þetta er hættuleg hugmynd. Þýðir þetta að sönnunarbyrgði þurfi að fylgja öllum pælingum og grunsemdum sem skrifuð eru á netsíður? Reyndar finnst mér undarleg dæmin sem Björgvin tekur um níð gegn sér, að talað hafi verið einhvers staðar um að hann hafi verið drukkinn og við konu kenndur, og það af einhverjum nafnlausum aðila. Enginn tekur mark á slíku, fyrr en slíkt rugl er tekið alvarlega. Þá fyrst fer fólk að velta fyrir sér hvort eitthvað sé til í þessu. 

Árásin á rannsóknarblaðamenn eru enn alvarlegri, en þar ræðst sjálft Fjármálaeftirlitið gegn þeim fyrir að hafa komist að upplýsingum og lekið til þjóðfélagsins um bankamál. Þessar upplýsingar hafa haft þau áhrif að fólk er hneykslað á þeirri spillingu sem virðist hafa ríkt innan bankakerfisins, og ímynd bankanna er langt frá því að vera traustvekjandi. En hvernig getur nokkrum dottið í hug að ráðast á sendiboðann? Þeir sem stjórna eiga að leita uppi vandamálin sem á þá herja innanhúss, og vera ekki hræddir við að upplýsa um þau, enda eru einu hættulegu vandamálin, vandamálin sem eru falin, koma ekki fram. Það er nefnilega ekki hægt að taka á slíkum vandamálum.

 

iq-car-1

 

Fráfarandi forstjóri Toyota, Katsuaki  Watanabe, er þekktur fyrir að viðurkenna það þegar fyrirtækið hans átti við vandamál að stríða í stað þess að fela vandamálin, og rekstur þess fyrirtækis gengur reyndar að miklu leyti út á að finna vandamál og uppljóstra þau, en alls ekki hylma yfir þeim, því þá verður ekki hægt að leysa þau.

Það ætti að heiðra rannsóknarblaðamenn fyrir að leggja á sig þá sannleiksleit sem þeir lifa fyrir, og ég fyrir mitt leyti vil þakka þeim fyrir að vinna þessi óeigingjörnu störf sem uppskera oft ekkert annað en vanþakklæti vegna skorts á þroska og visku þeirra sem hugsa aðeins um eigin hag, en hafa ekki vit til að hugsa um vit hópsins síns, bankans, samfélagsins eða alþjóðasamfélagsins, sem vissulega er stór hluti af viðskiptavinum bankanna.

 


 

Rannsóknarblaðamenn og bloggarar verða að standa saman og styðja hvert annað. Rannsóknarblaðamenn með því að grafa upp staðreyndir. Bloggarar með því að velta fyrir sér hvað þessar staðreyndir þýða. Það er sjálfsögð krafa að þessir hópar verði verndaðir gagnvart þeim sem vilja þeim mein, þeim sem standa gegn útbreiðslu þekkingar og skoðanaskipta.

 

Skilaboð frá Reuters um siðferði rannsóknarblaðamanna og bloggara.


VAKNIÐ! Þaggað niður í rannsóknarblaðamönnum bankaráns aldarinnar til að hemja réttláta reiði Íslendinga?

censorship_press_obey2

Það lítur út fyrir að EINHVERJIR séu að misnota Fjármálaeftirlitið til þess að misnota skrifstofu sérstaks saksóknara, en FME hefur verið virkt í að þagga niður í rannsóknarblaðamönnum. Af hverju? Meðal ásakaðra: Rannsóknarblaðamennirnir: Egill Helgason, Agnes Bragadóttir, Kristinn Hrafnsson. 

Það að fyrsta sakamál sérstaks saksóknara vegna Hrunsins skuli vera uppljóstrunarmál Kristins Hrafnssonar blaðamanns, hlýtur að kveikja ljós eða hringja bjöllum í hugum saklausra Íslendinga sem sigla annars sofandi að feigðarósi. Þeir sem enn hafa ekki séð, skilið og kvartað yfir að eitthvað mjög alvarlegt hljóti að vera að, verða að átta sig á því bráðlega. Það að hundelta saklaust fólk í þjónustu við þá sem framkvæmdu glæpina sem þetta fólk vill uppljóstra, er slík endaleysa að ég hefði ekki getað látið mig dreyma um þetta útspil.

Dæmisaga: Merkilegur, frægur og vinsæll stjórnmálamaður stelur sér peysu í Hagkaup. Þar sem allur þjófnaður er tilkynntur lögreglu er lögreglan kölluð til. Þetta vekur athygli. Blaðamaður heyrir af þessu og nær sambandi við vitni sem sá þjófnaðinn. Nú hafa vinir þjófsins hins vegar ákveðið að þagga málið niður, því það væri hið vandræðalegasta fyrir flokkinn. Þjófurinn er látinn skila peysunni, en vitnið hefur hins vegar talað við blaðamanninn og daginn eftir birtist forsíðufrétt um þjófnað stjórnmálamannsins. Að sjálfsögðu neitar blaðamaðurinn sök, allir aðrir þegja, og blaðamaðurinn situr eftir í súpunni, ásakaður um að fara með lygar og ósannindi, og ekki nóg með það, mál hans er sent til saksóknara þar sem tryggja skal að hann muni ekki halda áfram að leita vitna í viðkvæmum sakamálum.

Lára Hanna skrifar bréf sem allir Íslendingar eiga að lesa. Það ætti að vera heilög skylda fólks að sjá hvernig spilling er í gangi á Íslandi og að fólk með réttlætiskennd verður að koma til hjálpar og vernda þá einstaklinga sem hafa barist fyrir því að sannleikurinn komi í ljós, að orsakir Kreppunnar og Hrunsins verði ekki falin. Nú er tækifæri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon að vinna sér inn atkvæði og vernda Kristinn Hrafnsson með því að skamma FME og sérstakan saksóknara rækilega fyrir að vinna gegn eigin markmiðum, sem er að rannsaka og sækja til sektar þá sem raunverulega stóðu að baki Hruninu. Það lítur út fyrir að sérstakur saksóknari hafi ekki hugmynd um hvað hann sé að gera, og hugsanlega þess vegna sé hann álitinn svolítið sérstakur.

Fimm af bestu rannsóknarblaðamönnum landsins hafa verið ákærðir til sérstaks saksóknara, ekki fyrir að svíkja og stela, heldur fyrir að uppljóstra um stöðu mála innan bankakerfisins, stöðu sem að áhorfendur að málum utanfrá gat aðeins grunað að væri í gangi. Þessir einstaklingar hafa grafið upp sannanir og vitnamál sem styðja grun þeirra sem töldu eitthvað grunsamlegt hafa verið í gangi í íslensku fjármálalífi fyrir Hrun. Þau hafa sýnt á ótvíráðan hátt hvernig staða krónunnar hefur verið misnotuð til að fáir græði en þjóðin blæði, hvernig stjórnendur hafa tekið sér kúlulán sem þeir þurftu aldrei að borga af en fengu síðan niðurfelld þrátt fyrir að hafa notað peninginn í annað, hvernig milljarðalán hafa verið afgreidd án lágmarksveða, og fleira.

Nú á að eyða tíma þessara sannleiksleitandi einstaklinga í að verja sig gegn saksókn, í stað þess að vernda þá með öllum mætta og gefa þeim tækifæri á að finna fleiri glufur og sannleikskorn sem gætu gagnast almenningi til að komast að sannleikanum.

Þetta er næstversta gerð ritskoðunar. Sú versta er þegar fréttamaðurinn er pyntaður og drepinn.

 

Daniel%20Pearl

 

Myndin er af Daniel Pearl, rannsóknarblaðamanni sem tekinn var af lífi í Pakistan árið 2002.

Hér fyrir neðan vil ég birta grein Kristins Hrafnssonar sem hann birti á Facebook síðu sinni í gær, en þar sem ég er ekki Facebookvinur Kristins, tók ég færsluna af Silfri Egils

Kristinn Hrafnsson fréttamaður setti þessa færslu inn á Facebook síðu sína í kvöld. Ég hef verið í hópi blaðamanna sem Fjármálaeftirlitið telur sig eiga sökótt við, svo mér þykir þetta allt mjög athyglisvert. Ég vona að Kristinn fyrirgefi mér að hafa sett þetta hérna inn, en þetta á erindi við almenning.

Kristinn skrifar:

--- --- ---

Nú hef ég fengið staðfest að fyrsta sakamálið sem kom til lögreglurannsóknar hjá Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, var meint brot mitt á lögum um bankaleynd. Einnig hef ég fengið staðfest að sama mál er það fyrsta sem kemur til afgreiðslu hjá Birni L. Bergssyni, settum sérstökum ríkissaksóknara. Ég vona að það gefi ekki tóninn um starf þessara embætta sem stofnuð voru til þess að rannsaka og ákæra í málum sem tengjast bankahruninu. Ekki held ég að þeim hinum ,,sérstöku”, Ólafi og Birni, hafi þótt neitt sérstaklega skemmtilegt að byrja hreinsunarstarfið á því að eltast við mig auman.

Til upprifjunar skal þess getið að meint brot fólst í því að upplýsa í viðtali í Kastljósi undir lok janúar um stórfelldar lánveitingar Kaupþings til Róberts Tchenguiz sem var hluthafi og stjórnarmaður í Existu - sem aftur var stærsti einstaki eigandi Kaupþings. Til skemmtunar skal þess getið að Róbert þessi er sonur Íraka sem tók sér nafnið Tchenguiz en það ku vera persneska útgáfan af fornafni Gengis Kan. Upplýsingarnar um Róbert Tchenguiz áttu að birtast í Kompásþætti í lok janúar en ég og félagar mínir vorum reknir og þátturinn sleginn af fjórum dögum fyrir sýningardag.

Í vor nánar tiltekið 2. apríl fæ ég boðsent bréf frá FME þar sem því er lýst yfir að ég hafi brotið bankaleyndarákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Ég fékk svigrúm til andmæla og lögmaður minn sendi svarbréf þar sem m.a. var bent á þá augljósu staðreynd að ég ynni ekki fyrir fjármálafyrirtæki. Mér kæmi bankaleynd því ekki við.

Í gær fékk ég svo staðfest að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari var þá, löngu áður, búinn að afgreiða mitt mál. Hann tilkynnti FME þá ákvörðun sína að aðhafast ekkert frekar í mínu máli með bréfi sem sent var stofnuninni 18. febrúar. Jafnframt benti Ólafur FME á að stofnunin gæti kært þessa ákvörðun hans til ríkissaksóknara innan mánaðar ef hún vildi ekki una henni. FME lét þann frest líða án þess að kæra.

Þrátt fyrir þetta heldur FME áfram að narta í hælana á mér og fjórum öðrum blaðamönnum sem fjallað hafa um upplýsingar úr bankakerfinu. Samkvæmt lögum á FME að ljúka málum annað hvort með stjórnvaldssekt eða með því að vísa alvarlegum brotum til lögreglu. Í mínu tilfelli var FME búin að velja seinni kostinn og lögreglan neitaði að aðhafast í málinu. Ef til vill þótti lögregluvaldinu, Ólafi sérstaka - eins og mér - að brýnni verkefni biðu.

FME vildi ekki gefast upp í þessari baráttu við blaðamennina. Í júní fékk stofnunin Eirík Tómasson, lögmann til þess að semja álitsgerð um það hvað ætti að gera við þessa ,,brotamenn” - blaðamennina fimm. Á grundvelli þessarar álitsgerðar (sem ekki fæst opinberuð) tók FME það til bragðs, í byrjun ágústs, að senda mál okkar til Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara.

Valtýr var ekki lengi að henda þessari heitu kartöflu frá sér og skilaði því snemmendis til Björns L. Bergssonar, sérstaks setts ríkissaksóknara. Þetta er sum sé fyrsta úrlausnarmál Björns. Hann hefur annars það hlutverk að ákæra í málum sem eru rannsökuð hjá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara.

Hvað á Björn svo að gera við málið mitt? Ólafur Þór, lögregluarmur Björns, ákvað fyrir sex mánuðum að aðhafast ekkert frekar í mínu máli. Fresturinn til að kæra þá ákvörðun rann út fyrir fimm mánuðum. En FME gefst ekki upp.

Maður ætti auðvitað ekki að gera annað en hlægja að þessum skrípaleik. Ég hef ekki í annan tíma séð jafn einbeittan brotavilja hjá stjórnvaldi gagnvart málsmeðferðarreglum og heilbrigðri skynsemi. Það sem vekur reiði hjá mér er að þessi mál eru sett í forgang þegar samfélagið allt er enn lamað eftir verstu hörmungar sem hafa dunið yfir í hagsögu lýðveldisins. Maður hallast að því að þessum mönnum sé ekki viðbjargandi.

Ég hef þurft að eyða tíma í þessa helvítis vitleysu á meðan ég ætti að vera að sinna öðrum og brýnni verkefnum. Hver ætlar að borga mér fyrir þá vinnu? Hver ætlar að axla ábyrgð á þeim lögmannskostnaði sem fylgt hefur þessu stússi? Þess utan: Hver ber ábygð á því að þessi skrípaleikur hefur skaðað tiltrú á Fjármálaeftirlitinu og mögulega einnig embættum sérstaks saksóknara og sérstaks ríkissaksóknara?

Ég set þessa nótu hérna inn til að halda þessu til haga en þessi brandari er fyrir löngu hættur að vera fyndinn.

 

Ágætt dæmi um fáránleika ritskoðunar í öðru samhengi, þar sem YouTube og bönnun blóts og nektar er umfjöllunarefnið:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband