Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
Íslandsmót skákfélaga frá sjónarhorni liðsmanns í KR
29.9.2009 | 18:40
Félagar mínir hjá KR fengu mig til Íslands að keppa með þeim á Íslandsmóti skákfélaga 2009-2010. KR sendir 5 sveitir í keppnina, en ég tefldi á 3. borði í a-sveit félagsins. Liðstjóri sveitarinnar er Einar S. Einarsson. Þessi grein verður svolítið sjálfhverf, enda hverf ég algjörlega inn í heim skákanna sem ég tefli, og utanaðkomandi umhverfi og öfl gleymast nánast algjörlega á meðan klukkan tifar.
Ég var ekki eini liðsmaðurinn sem fenginn var erlendis frá, en Nikolai og Sören Bech sem tefldu á 1. og 2. borði eru báðir danskir skákmenn. Ég tefldi á 3. borði. Aðrir liðsmenn sveitarinnar eru þekkt nöfn úr íslenskri skáksögu og hafa gert skákgarðinn frægan bæði og Íslandi og víða um heim í marga áratugi. Þeir sem þekkja íslenska skáksögu sæmilega ættu að skilja af hverju ég er stoltur af því að keppa með slíkum köppum. Þeir sem tefldu með a-sveit KR eru:
- Nikolai Skousen
- Sören Bech Hansen
- Hrannar Baldursson
- Jón Torfason
- Jóhann Örn Sigurjónsson
- Jón G. Briem
- Gunnar Gunnarsson
- Jón G. Friðjónsson
- Ingimar Jónsson
- Harvey Georgsson
Árangur okkar var ágætur. Við töpuðum engri viðureign þrátt fyrir að hafa keppt við afar sterkar sveitir. Okkur tókst meðal annars að sigra a-sveit Akureyringa, sem höfðu unnið stórsigra í 1. og 2. umferð, sveit sem hefur alla tíð verið í 1. deild. Gylfi Þórhallsson bjargaði Akureyringum frá stórtapi í klassískri skák með því að reynast ótrúlega úrræðagóður í erfiðri stöðu gegn Jóhanni Erni Sigurjónssyni. Akureyringar ættu að reisa Gylfa styttu fyrir þessa skák.
Við gerðum jafntefli við b-sveit Taflfélags Reykjavíkur í fyrstu umferð, en þá tapaði undirritaður fyrir Daða Ómarssyni í baráttuskák þar sem ég slysaðist inn á slóðir sem voru Daða mun kunnugri en mér, fór hundsvekktur heim það kvöldið, kom hungraður til baka næsta dag og vann rest, þá Helga Jónatansson úr a-sveit Reykjanesbæjar með fallegri fórn, Halldór B. Halldórsson eftir langa baráttu þar sem biskup hans var veikari en riddari minn, og Magnús Gíslason frá Skákfélagi Akranes, þar sem hann byggði upp ágæta stöðu en féll á tíma rétt þegar slagurinn var að hefjast. Við töluðum einmitt um það fyrir umferð að keppni á milli ÍA og KR hefðu ávallt verið klassískar og vonuðumst við eftir skemmtilegum skákum. Sú skemmtilegasta var á milli Gunnars Gunnarssonar og Árna Böðvarssonar á 6. borði, en sú skák endaði með jafntefli eftir sviptingar sem jafnast á við Gamlárskvöld 2006.
Að loknum fyrstu 4 umferðunum stöndum við ágætlega, erum í 3. sæti og búnir að fá afar sterka andstæðinga. Mig hlakkar til að koma aftur til Íslands í vor og tefla þær umferðir sem eftir eru.
Á Íslandsmóti skákfélaga er margt um manninn. Fullt af gömlum félögum og vinum, sem og skákmönnum sem maður hefur oft mætt yfir borðinu en ekki tengst neinum vinarböndum, enda skák í sjálfu sér íþrótt þar mestu skiptir baráttuþrek, áhugi, þrautseigja, einbeiting, sköpunargleði, útsjónarsemi, góð undirstöðuþekking á fræðunum og djúp þekking á nýjustu kenningum um byrjanir, og stundum finnst mér eins og ég sé að mæta fornum fjanda sem vill komast inn í sál mína og rústa öllum stöðugleika hennar og trú, að minnsta kosti þar til tekist er í hendur að skák lokinni.
Einar S. Einarsson, liðsstjóri KR sveitanna, tók myndirnar, en fleiri myndir má finna hér.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands og Don Hellismafíunnar gerði upp keppnina hér á afar skýran og góðan hátt, eins og við má búast af Gunnari, en Magnús Pálmi Örnólfsson skrifar einnig pistil og hér má lesa hans hlið málsins.
Sama hvað hver segir um skák á Íslandi og íslenska skákmenn, þá er Íslandsmót skákfélaga jól okkar skákmanna sem finnst gaman að hittast og taka nokkrar bröndóttar í góðum félagsskap.
Íþróttir | Breytt 30.9.2009 kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Pólitískt röng Biblíusaga: Davíð og Golíat
27.9.2009 | 08:15
Baugsmenn drógu nú saman hersveitir lögmanna sinna til bardaga, og söfnuðust þeir saman í Bónus, sem heyrir undir Haga, og settu þeir herbúðir sínar upp í verslunum hjá Hagkaup í Skeifunni. En Sjálfstæðisflokkurinn og mótmælendur söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Laugardalnum og bjuggust til bardaga í móti Baugsmönnum. Og Baugsmenn stóðu á bensíngjöfinni öðrumegin og Sjálfstæðismenn stóðu á bremsunni hinumegin, svo að bandaríski dalurinn var á milli þeirra.
Þá gekk hólmgöngumaður fram úr fylkingum Baugsmanna. Hét hann Golíat, og var frá Fjárlaga-Gati. Hann var á hæð sex álnir og spönn betur, enda með hatt ógurlegan á höfði, ofan á hjálminum. Þótti hann einnig stórtækur viðskiptamaður og sem slíkur ávallt settur skör hærra en meðalmenn. Hann hafði leirhjálm á hattinum og var í spangabrynju, og hafði brynjan kostað fimm þúsund milljónir dala í New York. Hann hafði legghlífar af leir á fótum sér og skotspjót af leir á herðum sér. En spjótskaft hans var sem vefjarrifur, og þegar hann hristi spjótið til varð það nánast hringlaga og fjöðrin á afturenda spjótsins hafði kostað sex hundruð milljónir dala. Lögfræðingur hans gekk á undan honum.
Golíat gekk fram og kallaði til fylkinga Sjálfstæðismanna og mælti til þeirra: "Hví farið þér í leiðangur og búist til bardaga? Er ég ekki Baugsmaður og þér þjónar Sjálfstæðisflokksins? Veljið yður mann, sem komi hingað ofan til mín. Sé hann fær um að berjast við mig og felli mig, þá skulum vér vera yðar þrælar, en beri ég hærra hlut og felli hann, þá skuluð þér vera vorir þrælar og þjóna oss." Og Baugsmaðurinn mælti: "Ég hefi smánað fylkingar ykkar allra í dag. Fáið til mann, að við megum berjast." Og þegar Sjálfstæðisflokkurinn og mótmælendur heyrðu þessi ummæli Baugsmanns, þá skelfdust þeir og urðu mjög hræddir. Þeir vissu að enginn gæti sigrað Baug í bardaga, enda hafði hann lagt mörg lönd í eyði, með hinn ógurlega Golíat í broddi fylkingar.
Davíð sendur í herbúðirnar
Davíð var sonur Odds. Á gullöld Sjálfstæðisflokksins var maðurinn orðinn gamall og hniginn að aldri. Og við og við fór Davíð frá Sjálfstæðisflokknum til þess að gæta sauða föður síns í Reykjavík.
En Baugsmaðurinn gekk fram morgna og kveld og bauð sig fram fjörutíu daga.
Dag nokkurn sagði Oddur við Davíð son sinn: "Tak þú smérið af þessu bakaða brauði handa vinum þínum og þessi tíu brauð og flýt þér og færðu vinum þínum þetta í herbúðirnar. Og þessa tíu mjólkurosta skalt þú færa sérstökum saksóknara, og fáðu að vita, hvernig vinum þínum líður, og komdu með áætlun um fleytingu Krónunnar frá þeim. En Sjálfstæðisflokkurinn og þeir og allir mótmælendur eru í Laugardalnum og ætla að berjast við Baugsmenn."
Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina Sverri nokkrum Stormsker til geymslu og lyfti á sig kápu, enda gekk á með skúrum, og hélt af stað, eins og Oddur hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, sungu þeir reifir enda á fimmta bjór og æptu þeir heróp. Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Sjálfstæðismenn og Baugsmenn, hvor fylkingin gegnt annarri. Báðar fullar. Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði vini sína, hvernig þeim liði. Þeir voru allir haugfullir, en hann var sjálfur edrú. En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn - hann hét Golíat, Baugsmaður frá Fjárlaga-Gati - úr fylkingum Baugsmanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á. En er Sjálfstæðismenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir. Og einn Sjálfstæðismanna sagði: "Hafið þér séð manninn, sem kemur þarna? Hann kemur til þess að smána Sjálfstæðismenn. Hverjum þeim, sem fellir hann, vilja Íslendingar veita mikil auðæfi og gefa honum lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og gjöra ætt hans skattfrjálsa í Evrópu."
Þá sagði Davíð við þá, sem næstir honum stóðu: "Hverju verður þeim manni umbunað, sem fellir Baugsmann þennan og rekur svívirðing af Sjálfstæðismönnum? Því að hver er þessi óreiðumaður, er dirfist að smána herfylkingar lifanda gjaldeyris?" Og fólkið talaði til hans þessum sömu orðum: "Þessu verður þeim umbunað, sem fellir hann."
En er Hannes, besti vinur Davíðs heyrði af þessu frá hólmsteininum, hvað hann talaði við mennina, þá reiddist hann Davíð og mælti: "Til hvers ert þú hingað kominn, og hjá hverjum skildir þú eftir þessa fáu sauði í eyðimörkinni? Ég þekki ofdirfsku þína og vonsku hjarta þíns: Þú ert hingað kominn til þess að horfa á bardagann."
Davíð svaraði: "Nú, hvað hefi ég þá gjört? Hví víxlar þú gagnrýni og vonsku? Var mér ekki frjálst að spyrja?" Og hann sneri sér frá honum og til annars og mælti á sömu leið, og fólkið svaraði honum hinu sama sem hið fyrra skiptið.
En er það spurðist, sem Davíð hafði sagt, þá blogguðu menn um það, og þótti Davíð heldur skrítinn.
Davíð og Golíat
Davíð sagði við spyril á RÚV: "Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Baugsmann þennan."
Spyrillinn sagði við Davíð: "Þú ert ekki fær um að fara móti Baugsmanni þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, þó að sextíu og tveggja sért, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni."
Davíð sagði glottandi: "Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom Jón eða Björn og tók kind úr hjörðinni, þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana. Bæði Jón og Björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óreiðumikla Baugsmanni skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað skattborgara Íslands." Og Davíð mælti: "Heilbrigð skynsemi og hugrekki, sem frelsaði mig úr klóm Jóns og úr klóm Björns, það mun frelsa mig af hendi þessa Baugsmanns."
Þá mælti spyrillinn við Davíð: "Far þú þá." Og Sjálfstæðisflokkurinn færði Davíð í brynjukufl sem hafði kostað sama sem ekkert og setti leirhjálm á höfuð honum, enda auðvelt að vinna leir úr mold, og færði hann í brynju. Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð í Kastljósviðtali: "Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður." Og þeir færðu Davíð úr þessu, en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm gamla krónupeninga úr Seðlabankanum og lét þá í skjóðuna, sem hann hafði með sér, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Baugsmanninum.
Baugsmaðurinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum. En er Baugsmaðurinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var rauðleitur í framan og með krullað hár. Og Baugsmaðurinn sagði við Davíð: "Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?" Og Baugsmaðurinn formælti Davíð við lánadrottna sína. Og Baugsmaðurinn mælti við Davíð: "Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt, megi fuglar setjast á höfuð þitt og gera sér hreiður."
Davíð sagði við Baugsmanninn: "Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Íslendinga, réttlætis og sjálfstæðis, sem þú hefir smánað. Í dag mun FME gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Baugsmanna mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Davíð er á Íslandi ritstjóri Moggans, og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Ísland veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Íslands, og hann mun gefa yður í vorar hendur."
Og er Baugsmaðurinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Baugsmanninum. Og Davíð stakk hendi sinni ofan í skjóðuna og tók úr henni krónu og slöngvaði og hæfði Baugsmanninn í ennið, og krónan festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar. Þannig sigraði Davíð Baugsmanninn með slöngvu og krónu og felldi hann og drap hann, og þó hafði Davíð ekkert sverð í hendi. Þá hljóp Davíð að og gekk til Baugsmannsins, tók sverð hans og dró það úr slíðrum og drap hann og hjó af honum höfuðið með því.
En er Baugsmenn sáu, að kappi þeirra var dauður, lögðu þeir á flótta. En Sjálfstæðismenn og aðrir mótmælendur lögðu af stað og æptu heróp og eltu Baugsmenn allt til Fjárlaga-Gats og að turni Smáralindar, svo að Baugsmenn lágu vegnir jafnvel á veginum, sem lá undir turninum í Kópavogi. Og Íslendingar tóku upp gleði sína á nýjan leik, sneru aftur og hættu að elta Baugsmenn og rændu verslanir þeirra. En Davíð tók höfuð Baugsmannsins og hafði með sér til Reykjavíkur, en vopn hans lagði hann í tjald sitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Davíð Wonka og sælgætisverksmiðjan
26.9.2009 | 09:46
Segjum að Davíð Wonka framleiði sælgæti í verksmiðju. Ekki bara eitthvað sælgæti. Heldur besta sælgæti í heimi. Hann verður skelfilega ríkur og fólk kaupir sælgætið og étur af mikilli græðgi. Fyrr en varir verður fólkið sem elskar nammið feitt og slappt, en getur samt ekki stoppað að fá sér eitt súkkulaðistykki, brjóstsykurpoka eða íspinna.
Þá tekur sá allra feitasti, Jón Átgeir, sem vegur nú 305 kíló eftir því að Davíð er ekki feitur. Hann spriklar um heilbrigður og nýtur þess að framleiða nammið, enda trúir hann eins og flestir, að góður árangur sé í sjálfu sér af hinu góða. Jón Átgeir þessi sér að nammið hefur hvorki gert honum né þjóðinni gott, en hann getur ekki hætt að borða nammi, þannig að hann ákveður að sjá til þess að Davíð fái ekki að njóta afrakstur árangurs síns. Hann skal verða ósæll og helst hataður af þjóð og umheimi.
Því kaupir Jón Átgeir sér fjölmiðlafyrirtæki sem rekur dagblað, sjónvarp og útvarp. Hann gefur þá fyrirskipun til starfsmanna að þeir skuli vanda vinnu sína og engum hlífa í gagnrýni sinni, ekki einu sinni sjálfum sér. En þegar ummæli birtast um Jón Átgeir á eigin fjölmiðlum missir viðkomandi starf sitt, því að á Átlandi gilda þau lög að ef yfirmanni líkar ekki af einhverri ástæðu við starfsmann sinn, sama hver sú ástæða er, þá má hann segja viðkomandi upp. Þannig að eftir standa þeir sem aldrei hafa fjallað um Jón Átgeir á gagnrýninn hátt. Fullkomið kerfi!
Hins vegar hefur Davíð tekið eftir Jóni Átgeiri og finnst ómaklega að honum vegið þegar fréttir fara að birtast um að sykurinn í sælgæti Davíðs sé óhollari en annar sykur, að brjóstsykurinn sé harðari og festist ævilangt í líkamanum, og að ísinn hans bráðni hraðar en eðlilegur ís. Davíð að óvörum hlusta aðrir nammineytendur á Jón Átgeir, og þeir sjá að þeir eru sjálfir orðnir feitir og frekar ógeðslegir eftir allt nammiátið, og sjá þá í þykkum lófum sínum að Davíð er vondur maður, og að það þurfi að skilja hann frá verksmiðju sinni.
Smám saman verður Davíð að óvinsælli manni, vegna stanslausra sögusagna fjölmiðla um hvernig hann virðist vera að vissa vitið, eigi við geðlæg vandamál að stríða, að hann komi betur fram við vini sína en óvini, og að hann borðar ekki eigið nammi.
Kemur nú að því að Davíð er heimsóttur á skrifstofu sína einn daginn af mönnum í hvítum sloppum, og hann lokaður inni í Geðlabankanum þar sem að hann á að hafa hægt um sig, og engin áhrif út í hinn stóra heim.
Taka nú aðrir við sælgætisverksmiðjunni, og í stað þess að hugsa um bragðgæði sælgætisins, er ákveðið að auka við magn til þess að auka sölu og markaðshlutdeild. Það gengur eftir, og fólk er farið að éta miklu meira af sælgæti en nokkurn tíma áður. Nú eru fjölmargir orðnir 305 kíló að þyngd, en Jón Átgeir er farinn að nálgast tonnið.
Þá gerist það að heimsmarkaðsverðið á sykri rýkur upp úr öllu valdi. Til að stytta sér leið ákveða nýir stjórnendur verksmiðjunnar að spara, og í stað sykurs kaupa þeir salt, sem er mun ódýrara og lítur hvort eð er alveg eins út. Eftir fyrstu sendinguna með breyttri uppskrift áttar fólk sig fyrst á því hverslags ógeð það var að éta, borðar nammið samt en arkar með kröfuspjöld niður að Geðlabankanum og mótmælir Davíð fyrir að hafa vanið sig á þetta ógeð.
Davíð er sparkað út úr Geðlabankanum og fær ekki að nálgast sælgætisverksmiðjuna. Hann grunar hvað hefur gerst og segir frá því, en orðum hans er lipurlega snúið gegn honum af fjölmiðlum Átgeirs, sem allir landsmenn fylgjast dolfallnir með eins og hraðlygnum manni sem segir flottar sögur, svolítið litaðar af sannleikanum, en helst til þess fallnar að hafa áhrif.
Davíð situr nú heima hjá sér, dapur og vinalaus. Hann veltir fyrir sér hvernig heimurinn hefur snúist gegn honum, og hvort hann hafi virkilega gert eitthvað rangt. Það vita allir að sælgæti skal borða í hófi. Hvernig er hægt að kenna honum um græðgi þeirra sem keyptu nammið og gátu ekki hætt að éta?
Nú hlakkar í Jóni Átgeiri. Hann hefur ekki bara hrakið Davíð frá fyrirtæki sínu, heldur hefur hann líka eignast sælgætisverksmiðjuna og alla stjórnarmenn þess. Þar að auki situr hann uppi með allar birgðar verksmiðjunnar sem enn hafa sykur og bragðast vel, og hann nýtur þess að narta í nammið daginn út og daginn inn, á meðan fólk heldur enn áfram að kaupa saltaða nammið, sem það er farið að venjast.
Davíð er ekki viss, en hann grunar að Jón Átgeir hafi staðið að baki aðförin gegn honum, og veltir fyrir sér hvernig hann geti svarað fyrir sig, óvinsælasti maður Átlands. Hann átti ennþá hluta af dagblaðinu Morgundeginum, og ef hann gæti fundið sér pláss til að segja sína hlið málsins, þá gæti Átland enn átt sér von um að fræðast um hvað gerðist í raun og veru.
Hefði fólkið, velti Davíð fyrir sér, sem er nú búið að fá ógeð á namminu áhuga á að hlusta á aðrar hliðar málsins, eða voru þau einfaldlega búin að fá nóg af honum, þar sem sjónvarp, útvarp og dagblöð voru löngu búin að sannfæra þau um að hann væri upphafsmaður ástandsins, hann stofnaði sælgætisverksmiðjuna og hann stjórnaði henni í 18 ár, og svo þykist hann enga ábyrgð bera á að stjórna því hversu gráðugt fólk var í nammið hans?
Eitthvað alvarlegt hafði gerst. Breytingar framundan. Óróleg framtíð að hefjast. Davíð Wonka gæti sagt sína hlið málsins og sú frásögn gæti breytt trú fólks á veruleikann, og gæti sýnt að hann var saklaus af ásökunum fjölmiðla Jóns Átgeirs.
"Slíkt má aldrei gerast!" öskraði Jón Átgeir yfir fjölmiðlamönnum sínum. "Finnið eitthvað um hann! Hvað sem er! Það þarf að hafa sannleikskorn, því að hliðrun á sannleikanum er miklu öflugri en helber lygi. Við verðum að sannfæra fólk um að það var hann sem stofnaði sælgætisverksmiðjuna, það var hann sem innleiddi græðgina. Þetta var allt honum að kenna!"
Blaðamaður að nafni Sókrateles rétti þá upp hönd og bað um orðið. Hann fékk það.
"Getur verið", spurði blaðamaðurinn, "að Davíð beri ekki ábyrgð á allri græðgi Átlendinga?"
Næsta dag var Sókratelesi vikið úr starfi og hann leiddur til dyra af yfirmanni sínum, sem skrifaði grein þar sem fram kom að Sókrateles hefði ákveðið að hætta störfum og leita sér nýrra tækifæra annars staðar.
Davíð er kominn aftur.
Daginn sem tilkynnt var að Davíð yrði ritstjóri Morgundagsins ætlaði allt um koll að keyra. Algjör upplausn. Bílar keyrðu á ljósastaura. Fólk festist í dyragættum. Lyftur stoppuð á milli hæða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvað eiga Davíð Oddsson og Guð sameiginlegt?
25.9.2009 | 09:55
Ég skil að fólk sé pirrað út í Davíð og Guð. Þeir eru hins vegar ekki sökudólgarnir. Það er verið að kenna þeim um það sem arftakar þeirra gerðu. Og það er einfaldlega ekki sami hluturinn.
Síðustu daga hef ég verið að skrifa greinar um sameiningarafl og stakk upp á að trúarbrögð væru slíkt afl, sem er ekki bara innbyggt í samfélög manna og þeim eðlilegt, heldur til góðs fyrir þjóðir á meðan valdið sem trúarbrögðunum sem fylgir, er ekki misnotað. Sem reyndar gerist ansi oft.
Nokkrir trúlausir bloggarar, sumir nafnlausir og aðrir með nafni, mótmæltu hástöfum og voru margir hverjir duglegir við að kalla skrif mín bull og vitleysu, einfaldlega vegna þess hugsanlega að ég hafði ekki lesið sömu kreddur og þeir, var að velta hlutunum fyrir mér á skapandi hátt, og gaf trúarbrögðum séns, eða með öðrum orðum: var á ólíkri skoðun.
Nú hefur verið tilkynnt að Davíð Oddsson verði ritstjóri Moggans, málgagni sjálfstæðismanna, og fjöldi bloggvina minna hefur í kjölfarið sent inn skilaboð um að þeir séu nú hættir á Moggablogginu og fluttir eitthvað annað. Einnig hafa margar færslur einmitt fjallað um það að viðkomandi sé að skrifa sína síðustu færslu.
Hvað er málið?
Mogginn hefur alla tíð verið málgagn sjálfstæðismanna. Rétt eins og kristni hafa verið viðfang íslensku þjóðkirkjunnar. Ég hef verið meðvitaður um þetta, og samt skrifað á Moggabloggið, þó að ég sé ekki sjálfstæðismaður. Ég samþykki samt tilvist þeirra og hef ekkert á móti því að fólk hafi ólíkar pólitískar skoðanir. Nú kemur inn maður sem allir vita hver er, og óttast að hann muni nú gera málgagnið að pólitískum pésa sem muni glata trúverðugleika sínum.
Með fullri virðingu fyrir Mogganum, þá hefur hann ekki verið trúverðugur um langa tíð, á meðan hann þykist vera pólitískt hlutlaus, starfar þannig en er það ekki.
Davíð Oddsson hefur verið gagnrýndur gífurlega fyrir að hafa verið Seðlabankastjóri og upphafsmaður nýfrjálshyggju á Íslandi, sem leiddi allt í kaldakol haustið 2008, og þjóðin er farin að finna verulega fyrir. Fólk keppist um að segja hann sekan um eitthvað misjafnt, hefur jafnvel skrifað nafn hans á kröfuspjöld og mótmælt opinberlega fyrir framan Seðlabankann. Ég mótmælti þessum mótmælum á sínum tíma í greininni Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?, og geri það enn.
Ég hef nefnilega ekki séð neina vísbendingu um að Davíð Oddsson sé sekur um eitt eða neitt. Hann hefur verið umdeildur, en deilurnar að miklu sprottnar upp vegna harðrar gagnrýni hans á starfsemi Baugs, og uppfrá því hafa Baugsmiðlar gert sitt besta til að ófrægja manninn, og tekist það ansi vel. Ég er eiginlega hissa á jafnaðargeði Davíðs, að hann skuli einfaldlega ekki brjálast, en þess í stað standa styrkur í báða fætur og í dag vonandi byrja að svara fyrir sig. Mogginn er kannski steinvarpan sem Davíð vantar til að sigrast á Golíati Baugs?
Davíð hefur gert margt gott, meðal þess er þessi umdeilda nýfrjálshyggja, en hún var einfaldlega skref í rétta átt á þeim tíma sem hún kom inn. Ég efast hins vegar um gildi einkavæðingar ýmissa stofnana og fyrirtækja í hendur misgáfaðra einstaklinga sem hugsuðu fyrst og fremst um eigin hag, frekar en þjóðarhag, en mig grunar að Davíð hafi gert þau mistök að trúa um of á hið góða í þessu fólki - að það myndi aldrei svíkja þjóð sína fyrir pening. Við vitum hvernig fór.
Um þessar mundir er afar vinsælt á Íslandi að vera á móti Davíð Oddssyni, og einnig á móti Guði. Þetta eiga þeir Davíð og Guð sameiginlegt. Þeir eiga líka það sameiginlegt að ímyndin sem fólk hefur almennt um Davíð og Guð er hugsanlega röng. Margir hverjir telja Davíð vera gjörspilltan, og aðrir að Guð sé einfaldlega ekki til. Hvort tveggja getur auðveldlega verið rangt, þar sem að ósköp auðvelt er að trúa á hvort tveggja, það er að segja að vald spillir fólki og að Davíð hafi haft mikil völd og þar af leiðandi spillst, og hins vegar að Guð sé ekki til.
Hins vegar getur vel verið að sannleikurinn sé annar, að Davíð sé einmitt undantekningin frá reglunni um að vald spilli, og að Guð sé í raun og veru til. Kannski ekki á nákvæmlega sama hátt og við höldum, en séu samt sjálfstæður veruleiki óháðir þekkingu okkar um viðkomandi, þar sem að við getum í raun hvorki dæmt innri mann einhvers frekar en við getum dæmt Guð, þar sem hvort tveggja eru óþekktar víddir.
Ég er þakklátur Davíð fyrir að hafa vakið athygli á að hlutirnir voru langt frá því að vera í lagi, í mars árið 2008. Þar sagði hann farir sínar ekki sléttar. Fólkið sem var við völd hlustaði ekki á hann, og því reyndi hann að koma skilaboðum til þjóðarinnar. Hann hafði einfaldlega ekki nógu mikil völd sem Seðlabankastjóri til að gera eitthvað í málunum. Réttu valdhafarnir voru viðskipta-, fjármála- og forsætisráðherra, sem einfaldlega hlustuðu ekki á það sem Davíð hafði að segja. Davíð talaði til almennings, og í það minnsta ég hlustaði, og skrifaði út frá því greinina Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?
Davíð og Guð eiga það sameiginlegt að vera ekki vinsælir á Íslandi í dag, og að þeim hefur verið gert upp sakir sem eru ekki þeirra, heldur arftaka þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Hvaða máli skipta staðreyndir fyrir heildarmyndina?
24.9.2009 | 07:34
Staðreynd er sannanlegur sannleikur, fullyrðing sem hægt er að endurskoða og staðfesta. Skoðanir og trú byggja stundum á staðreyndum, stundum ekki, en þykja af hörðum staðreyndarsinnum tilgangslausar hneigðir sem koma hinum sannanlega sannleika ekkert við.
Það er hins vegar gríðarlegur munur á hinum sannarlega sannleika og sannleikanum sjálfum, en þeir fræði- og vísindamenn sem starfa við rannsóknir á hinum sannarlega sannleika þekkja margir hverjir af eigin raun hversu lítilvægur sannanlegur sannleikur er þegar kemur að lífsviðhorfi fólks og trú. Hins vegar eru sannanlegur sannleikur afar mikilvægur til að þoka vísindalegri þekkingu fram á við.
Hversu mikið af þekkingu okkar ætli sé byggð á sannanlegum sannleika annars vegar og skoðunum eða trú hins vegar, og hvort hefur meira vægi í leit okkar að lífshamingju? Sannarlegur sannleiki er oft þrúgandi og erfiður, hann sífellt breytir heimssýn okkar og skoðunum, en er hugsanlegt að í trúarbrögðum felist þekking sem við gætum aldrei nálgast út frá sannanlegum sannleika? Segjum að einhver viti það að Jesús var sonur Guðs, eða að Múhameð var hinn sanni spámaður eða að Búdda hafi öðlast alsælu. Við köllum þetta ekki þekkingu, heldur trú. Þessi trú hefur djúp áhrif á sálarlíf viðkomandi einstaklings og hvernig hann kemur fram við annað fólk.
Þessi áhrif eru sannanlegur sannleikur. Þekking á þessum staðreyndum getur verið túlkuð á ýmsan hátt, sjálfsagt út frá okkar eigin skilningi og mati á heiminum. Okkur gæti þótt trú fólks vera rugl, en getum ekki neitað því að þessi trú hefur áhrif. Hvort að þessi trú eða hvers konar trú hefur góð eða slæm áhrif er svo verkefni í aðra rannsókn.
Þeir sem hafa öfgatrú á staðreyndum munu sjálfsagt dissa þessar pælingar sem innihaldslausar og samhengislausar skoðanir, sem þær eru reyndar ekki, því að þessar skoðanir hafa innihald og samhengi sem eru í það minnsta mér sjálfum skiljanlegar, sem ég reyni svo að deila með öðrum. Hvort að rétti vettvangurinn til þess sé bloggið, og hvort að mér takist að gera mig skiljanlegan, er reyndar önnur spurning.
Hvernig við skynjum leiðarljós þeirra Gandhi og Martin Luther King yngri í baráttu þeirra fyrir frelsi gegn kúgun utanaðkomandi afla, sem drifin af trúarbrögðum þeirra eða ekki, hlýtur að vera umdeilanlegt. Ég get ekki séð hvernig hægt er að útiloka kröfu þeirra tveggja um skilyrðislausa mannúð, frelsi og virðingu sem annað en siðferðilega kröfu - en þessar siðferðilegar kröfur eiga sér hljómgrunn í flestum trúarbrögðum, sem og siðfræði, en þær koma staðreyndum ósköp lítið við, öðrum en þeirri staðreynd að við búum til staðreyndir og að staðreyndir eru til staðar, en að við getum breytt heiminum til betri vegar.
Sá sem hangir í staðreyndum trúir því sjálfsagt að við búum í besta mögulega heimi, fyrir utan þá sem trúa ekki á staðreyndir, og að það þurfi að sannfæra þetta fólk um heimsku þeirra. Sá hinn sami hefur hugsanlega ekki mikinn áhuga á hvernig gríðarlega stórir hópar geta unnið saman góð verk þegar þeir gera það í sameiningu. Fyrir slík verk þarf samnefnara, og ég held að trúarbrögðin séu slíkur samnefnari, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Trúarbrögð sameina fólk um gildi, sem hægt er að nýta til uppbyggingar og samstöðu í samfélaginu, en þegar þau eru misnotuð sundra þau.
Trúleysi er ágætt út af fyrir sig. Einstaklingar hafa fullan rétt á að vera trúlausir. Hins vegar hafa trúlausir afar lítil áhrif út á samfélagið, ekki vegna þess að þeir eru fáir, heldur vegna þess að eini samnefnarinn þeirra er ákveðin neikvæðni sem getur ekki gagnast til að fá fólk til samvinnu.
Trúlausir eru ekki hópur, heldur fjöldi einstaklinga sem stendur ekki saman um nein raunveruleg gildi. Hvort að staðreyndir hafi gildi er áhugaverð spurning, og þá hljótum við að spyrja hvað staðreyndir séu og hvernig við komumst að því hvað er staðreynd og hvað er ekki staðreynd, og hvort að allt það sem eru ekki staðreyndir hafi þar af leiðandi ekkert gildi, vegna þess eins að slík gildi eru ekki staðreyndir í sjálfu sér.
Það er einnig áhugavert að velta fyrir sér hvort að tilvist Guðs sé sannanlegur sannleikur eða einfaldlega sannleikur sem manneskjan hefur ekki mátt til að öðlast, eða bara blekking. Sá sem tekur afstöðu hefur skipað sér í ákveðinn flokk, sama hvort viðkomandi hafi rétt fyrir sér eða ekki. Þeir munu grafa sig í skotgrafir og skjóta á hinn aðilann fyrir að hafa rangt fyrir sér, hugsanlega vegna gífurlegs óöryggis um sannleika málsins. Viðkomandi mun þræta fyrir að eigin skoðanir séu réttar, og gera allt sem í eigin valdi stendur til að sýna fram á að skoðanir hins séu rangar; en þá gleymist að skoðanir eru ekki sannanlegur sannleikur, nokkuð sem í raun er ekki hægt að sannreyna, þannig að grafist er fyrir um rökin á bakvið skoðanirnar.
Hvernig gagnrýna skal rök sem standa að bakvið skoðunum eru ákveðin fræði, sem ég mun fara nánar út í síðar, en eitt af því sem ber að forðast er einmitt að koma sér fyrir í skotgröf og skjóta linnulaust á þá sem hafa ólíkar skoðanir í þeirri von að kannski í það minnsta ein kúla úr hríðskotakjaftinum hitti í mark.
Greinilegt að umfjöllun um trúarbrögð er sívinsæl og þær æsa fólk til að segja furðulegustu hluti, og þá oft í skjóli nafnleysis. Nafnleysingjarnir eru bálkur út af fyrir sig, en ég hef tilhneigingu til að taka þá ekki alvarlega, sérstaklega þegar viðkomandi sýnir dónaskap og hroka. Reyndar á það sama við um bloggara sem skrifa undir nafni, um leið og viðkomandi sýnir lítilsvirðingu hef ég tilhneigingu til að hætta að lesa athugasemdir viðkomandi. Samt vil ég ekki endilega loka viðkomandi út úr umræðunni þar sem hugsanlega dæmi ég viðkomandi rangt, sem ég get svo endurskoðað síðar.
Mér finnst sú staðreynd að umræða um trúarbrögð vekur heiftarleg viðbrögð afar áhugaverð, og óháð skoðunum sem fram koma í þessum athugasemdum, sannfærir mig um að ég sé á réttri leið þegar mig grunar að í trúarbrögðum felist gífurlegt samfélagslegt vald sem hægt er að nýta til góðs eða ills. Yfirleitt byrja trúarbrögð í góðri meiningu en eiga það til að snúast upp í andstöðu sína? Hvers vegna ætli það sé? Getur verið að vald spillir? Þýðir það að við ættum að hunsa slíkt vald?
Ég vil að gefnu tilefni vísa í lista yfir rökvillur sem koma yfirleitt óvart upp í samræðum, en eru margoft misnotaðar í kappræðum, enda duga þær oft til að rugla fólk í rýminu eða sannfæra um ágæti eigin málstaðar á kostnað hins, algjörlega óháð heiðarlegri sannleiksleit.
Þessar vangaveltur byggja á athugasemdum og pælingum sem birtast í færslunum:
- Felst vanþekking okkar í oftrú á eigin þekkingu?
- Eru trúarbrögð nauðsynleg?
- Hvað getur sameinað okkur?
- "Nei!" ???
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Felst vanþekking okkar í oftrú á eigin þekkingu?
23.9.2009 | 08:19
Óli Jón sendi inn afar áhugaverða pælingu við grein sem ég skrifaði í gær, Eru trúarbrögð nauðsynleg? Ég vil ekki gera lítið úr öðrum athugasemdum með því að birta einungis þessa, en þær eru margar hverjar magnaðar og skemmtilegar aflestrar, bæði þar sem höfundar eru mér sammála eða ósammála, og hvort sem þeir eru allir sanngjarnir eða ekki í sínu máli. Reyndar finnst mér áhugavert hvernig sum svör beinast beint að persónu þess sem skrifar, frekar en að ræða málin af skynsemi, þar sem að helstu rök gegn trúarbrögðum er kannski sú að þau virðast ekki skynsamleg eða byggð á vanþekkingu. Því ætti að vera höfuðmál að skrifa skynsamlega og af þekkingu um þessi mál.
Hér er athugasemd Óla Jóns:
Í mínum huga er gamla lumman varðandi trú sú að maðurinn hafi eðlislæga og meðfædda þörf fyrir hana. Mín skýring er mun einfaldari því ég tel hana í upphafi sprottna upp úr fákunnáttu þar sem forverar okkar töldu sig þurfa að skýra út þá framandi veröld sem þeir bjuggu í. Hver bjó allt til, af hverju komu eldingar, hvernig varð maðurinn til, af hverju deyr fólk o.s.frv. Heimurinn hlýtur að hafa verið ógnvænlegur og því nauðsyn að skýra út hvernig hann virkaði.
Ég tel að ef einhver hefði sest niður með frummanninum þegar hann var að spá í þetta allt saman og útskýrt öll þessi atriði sem og þau lögmál sem heimurinn stjórnast að þá hefði hann horft á heiminn með allt öðrum augum og haft litla þörf fyrir trú. Það gerðist hins vegar augsýnilega ekki og því fór sem fór.
Síðan gerast ákveðnir einstaklingar umboðsmenn trúarinnar hér denn og öðlast þannig óskoruð völd. Gegn þeim er ekki hægt að keppa og þessum umboðsmönnum reynist auðvelt að kveða niður raddir skynseminnar enda geta þeir alltaf hótað því að umbjóðandi þeirra komi, að þeirra beiðni, og afgreiði þá sem múðra. Eftir þetta tekur það ekki langan tíma fyrir trúna að hefðast inn sökum þess að ætíð hefur verið lögð áhersla á að innræta smábörnum hana við fyrsta mögulega tækifæri. Trúin styrkist hressilega í sessi enda læra börnin það sem fyrir þeim er haft.
Ég skora á trúaða, hvort sem þeir eru kristnir eða hafa annan átrúnað, að íhuga af hverju þeir trúa. Ég þori að veðja að mikill meirihluti þeirra tilgreinir hina sk. 'barnatrú' sem ástæðuna. Barnatrúin er, í mínum huga, aumasta form trúarinnar því sá sem á sína barnatrú er í raun bara að sækja í það sem honum var innrætt á of ungum aldri. Það er þó ákveðið virði í því að hafa tekið hlutlæga afstöðu til trúarinnar eftir að fullum vitsmunum er náð og ákveða þannig að slást í hópinn. Barnatrúin er, í mínum huga, bara merki þess að viðkomandi hafi aldrei spáð mikið í sinni trú, heldur bara tekið því sem að honum var rétt í ungri æsku.
Þá er trúin ekki valfrjálsari en svo að hún virðist mest stýrast af landræðilegri staðsetningu þess trúaða. Er það tilviljun ein að kristin trú virðist vera ráðandi trúarform á vesturlöndum meðan hún á erfiðara uppdráttar annars staðar? Ef kristin trú er besta trúin, af hverju telja þá ekki allir hana besta? Af hverju eru t.d. ekki allir Íranar kristnir? Af hverju eru þeir allir múslimar? Það er merkileg tilviljun hvernig trúin virðist veljast eftir landfræðilegri legu.
Að lokum er skrýtið hvernig trúin virðist iðulega þurfa vernd og forsjá yfirvalda. Hér heima er t.d. Ríkiskirkja sem er á framfæri ríkisins, það eru til lög sem banna guðlast og bingó á föstudaginn langa. Börn eru sjanghæjuð í trúfélag móður alveg sjálfvirkt og er það því einu að þakka að skv. Þjóðskrá játar 80% þjóðarinnar kristna trú. Upplýst fólk veit auðvitað að svo er ekki, en opinberar staðtölur eru ótrúlega sterkar og skoðana myndandi. Trúnni er þannig ekki treyst til þess að komast af sjálf; hinir trúuðu hafa bara ekki meiri trú á henni en raun ber vitni.
Þetta er trúin í niðursoðnu formi í mínum huga.
Svar mitt, sem átti að vera svar í athugasemd en reyndist efni í nýja grein:
Trúin hefur í aldanna rás verið notuð af valdhöfum til að stjórna þegnum sínum. Þeir sem láta ekki að viðkomandi trúarbrögðum eru því oft álitnir óvinir ríkisins, samanber vísindamenn sem uppgötva að veruleikinn stangist á við trú yfirvalda.
Hins vegar gerist það með nýrri þekkingu að trúarbrögðin eru sífellt mótuð að nýjum aðstæðum, þrátt fyrir að einstaklingum sem fara með völd innan trúarbragða og stjórnmála geti þótt sér ógnað þegar ný þekking ryður sér leið inn í heimsmynd þeirra.
Vissulega hefur verið reynt að sameina þjóðir undir hugmyndafræði þar sem hugmyndin hefur verið að gefa trúarbrögð upp á bátinn, og láta stofnanir koma í staðinn. Það gerði kommúnisminn í Sovétríkjunum skipulega, svo að dæmi sé nefnt, en fólkið hélt samt áfram að iðka sína trú, bara í leyni. Það var síðan þegar Stalín opnaði kirkjurnar aftur til að berjast gegn nasismanum að honum tókst að leiða það vald í ákveðinn farveg, en nasistar gerðu þau afdrifaríku mistök að ógna Sovétrisanum.
Íslendingar hafa gengið í gegnum ýmislegt í sinni trúarbragðasögu. Þjóðin hefur trúað á Óðinn, síðan neydd til kaþólsku og síðar tekið upp lúterska trú. Nú virðist hún að mestu vera trúlaus, enda einstaklingshyggjan og efnishyggjan afar sterk á Íslandi, og þar af leiðandi finnst Íslendingum þeir ekki hafa neitt sérstaka þörf fyrir trúarbrögðum. Ég er engin undantekning frá því.
Hins vegar hef ég orðið var við og hef áhyggjur af því að Íslendingar eru sundruð þjóð og að í stað samstöðu erum við að berjast innbyrðis og eyðileggja hvert fyrir öðru. Það eina sem getur breytt þessu er hugarfarsbreyting, og það eina sem hefur nógu mikið vald til að valda slíkri hugarfarsbreytingu eru trúarbrögð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Þannig að ég tel skýringu Óla Jóns góða, en þó ekki hitta beint í mark, þar sem að kjarni trúarbragða byggir ekki á þekkingu eða þekkingarleysi, þó að vissulega móti slíkt hvernig trúarbrögð þróast innan ólíkra samfélaga, heldur tel ég trúarbrögð vera leið fyrir hópa til að finna samleið, og þá sérstaklega fyrir stjórnvöld til að fá markmiðum sínum framfylgt.
Það fer einfaldlega eftir því hvaða þekkingu viðkomandi hópur hefur þegar til trúarbragðanna er stofnað, hver útkoman verður, og vissulega hefur sú þekking áhrif á alla meðlimi viðkomandi trúarbragða. En það eru bara vissir hlutir sem við höfum ekki öðlast þekkingu á og munum hugsanlega aldrei ráða við, enda er mannlegri þekkingu takmörk sett.
Spurningar sem erfitt getur reynst að svara nema í nafni trúarbragða eru til dæmis:
- Af hverju er eitthvað til frekar en ekkert?
- Hver er merkingin eða tilgangurinn með lífinu? (Heimspekileg spurning sem hver og einn finnur eigið svar við, sem getur verið byggt á rökhugsun eða trú).
- Erum við að stefna eitthvert? Ef já, hvert? Ef nei, erum við þar sem við viljum vera?
- Hver erum við?
- Hver eru gildi okkar?
- Er heimurinn eins og hann ætti að vera?
- Er eitthvað sem sameinar mannkynið?
- Hvaðan kemur heimurinn og hvert fer hann?
- Hefur heimurinn alltaf verið til, og ef svo er, hefur hann þróast, og ef hann hefur þróast, af hverju?
Það er hægt að spyrja miklu fleiri spurninga þar sem þekking okkar nær ekki jafn langt og við gætum talið hana gera í fyrstu.
Niðurstaða þessara vangaveltna, í það minnsta fyrir mig, er að vanþekking okkar felist í oftrú á eigin þekkingu og að þessi oftrú á eigin þekkingu gangi frá trúarbrögðum, um sinn. Þau rísa alltaf aftur, bara í ólíkri mynd, enda nauðsynlegur hluti af samfélagi manna, sem í raun getur haft úrskurðarvald um hvort að hópurinn komist af eða ekki.
Að lokum:
Dædalus hannaði vængjapar úr vaxi og festi á fjaðrir handa sér og syni sínum, Íkarusi. Áður en þeir flugu frá eyjunni, varaði Dædalus son sinn við því að fljúga hvorki of nálægt sólinni, né of nálægt hafinu. Yfir sig hrifinn og kátur yfir því að geta flogið, flaug Íkarus um himinninn fullur forvitni, en gætti ekki að sér og flaug of nálægt sólinni sem bræddi vaxið. Íkarus hélt áfram að berja vængjunum saman en svo gerði hann sér grein fyrir að fjaðrirnar voru farnar og að hann var einfaldlega að slá saman berum handleggjum. Þannig hrapaði Íkarus í hafið. (Grísk þjóðsaga)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
Eru trúarbrögð nauðsynleg?
22.9.2009 | 15:11
Trúarbrögðin virðast vera það fyrirbæri í heiminum sem hefur mestan sameiningarkraft. Engin trúarbrögð, eða trúleysi, held ég að gangi ekki upp fyrir samfélagsheildina, því miður - til þess þarf vel menntað, gagnrýnið fólk sem hefur óeigingjarnan áhuga á almannaheill. Ég hef ekki orðið var við að svoleiðis fólk komist nokkurs staðar í meirihluta, og sýnist alltof langt í að slíkt samfélag verði að veruleika, sem væri reyndar sönn útópía. Trúarbrögð eru líklegri til árangurs, einfaldlega vegna þess að þau eru miklu auðveldari í framkvæmd. Einnig er fólk trúgjarnara þegar kemur að dæmisögum en vísindalegum kenningum sem krefjast jákveðins viðmóts til þekkingarleitar, ófullkomleika og óvissu.
Hefur fólk snúist gegn trúarbrögðum vegna þess að þau eru ekki sönn eða vegna þess að fólk telur of mikla illsku hafa sprottið úr misnotkun á trúarbrögðum? Ég tel hið síðarnefnda vera satt, og viðurkenni fúslega að ég get ekkert vitað með vissu um hvort að trúarbrögð séu sönn eða ekki. Það þarf töluverðan hroka um eigin óskeikulleika til að fullyrða að þau séu ósönn. Reyndar er það jafn dularfullt og óskiljanlegt að trúarbrögð geti verið ósönn og að Guð geti eða geti ekki verið til.
Hver er munurinn á 'ósannur' og 'ótrúlegur'? Hið ósanna er eitthvað sem ekki er satt óháð þekkingu okkar eða vitneskju um það. Hið 'ótrúlega' er hins vegar mat okkar á sannleikanum.
Ef lútersk trú hefur ekki verið í baráttu gegn nýfrjálshyggjunni, þá hefur hún kannski bara tapað stríðinu án þess að gera sér grein fyrir að það hafi verið háð?
Trú tel ég ekki vera andstæðan pól við almenna skynsemi og þekkingu. Hins vegar er henni oft stillt upp sem slíkri, og það finnst mér nokkuð ósanngjarnt. Trú er persónulegt val. Trúarbrögð eru val hóps sem er við völd. Lýðurinn fylgirforingjanum. Sé foringinn kristinn verður lýðurinn kristinn. Sé foringinn fylgjandi íslam, verður lýðurinn að vera það líka, og þar fram eftir götunum. Sé foringinn trúlaus og lýðurinn líka, þá detta stefnur og straumar einfaldlega í daunilla lognmollu, allir hafa skoðun á hvað er upp og hvað niður, en enginn veit það lengur.
Við erum siðferðilega slipp og snauð, ekki vegna þess að nýfrjálshyggjan sigraði trúarbrögðin, heldur vegna þess að nýfrjálshyggjan sigraði gegn sjálfsvirðingu mannsins. Peningar urðu mikilvægari en sjálfsvirðing, fyrir fjöldann - peningar urðu að mikilvægara viðmiði en manneskjan sem slík. Það felst ákveðið gjaldþrot í því.
Trúarbrögð þurfa ekki að gefa okkur falska von. Þau geta vissulega gefið okkur von, til dæmis þá von að ólíkir einstaklingar eigi sitthvað sameiginlegt og beri virðingu hver fyrir öðrum og vilji í samvinnu byggja betra ból. Hvað slík von er kölluð eða hvaðan hún kemur skiptir ekki öllu máli, og algjörlega skaðlaust að skálda upp sögur um hana. Nema þessum skáldverkum sé trúað bókstaflega? Það þarf ákveðnar öfgar til slíks.
Það er ekki trúin sem leysir vandann, það ert þú sem getur gert það, með því að vera ekki bitur vegna þess að ekki allar sögur um Guð séu sannanlegar.
Þegar þú segist trúa á hið góða í manninum, geturðu útskýrt hvaðan þetta góða kemur, og af hverju þú trúir frekar á hið góða en hið illa? Ég held að kristin trúarbrögð séu í raun ekkert annað en trú á hið góða í manninum, en svo hefur hópur fólks spunnið sögur í kringum þetta sem síðan hafa verið teknar alvarlegri en þessi trú á hið góða í manninum. Reyndar trúa sumir kristnir hópar að maðurinn sé illur í eðli sínu og þurfi að frelsa hann undan hinu illa. Þarna er fólk strax farið að flækja ósköp einföldum hlutum saman og fljótt fer allt í hnút.
Ég held satt best að segja að kærleikur sé eitthvað sem hvert og eitt okkar hefur, en til að kærleikur verði hluti af samfélaginu er þörf á trúarbrögðum. Trúarbrögðin eru vettvangur fyrir skoðanaskipti sem bera virðingu fyrir hversdagslegum fyrirbærum eins og kærleika, og fyrirfram dæma slík hugtök ekki sem væmni eða dellu.
Ég er ekki að halda því fram að einhver ein trúarbrögð séu betri en önnur, og að trúleysingjar eða þeir sem hafa enga skoðun á þessu eigi að vera skyldir útundan einhvers staðar í kuldahríð. Hins vegar held ég að trúarbrögð séu nauðsynleg fyrir samfélög sem vilja byggja á einhverju sameiginlegu. Trúarbrögð eru í raun nauðsynleg til að hjálpa okkur að ná sameiginlegum tökum á tilverunni, skilning á henni, merkingu, óháð því hvað einstaklingur getur gert. Einstaklingar þurfa nefnilega ekkert endilega á trúarbrögðum að halda. Samfélög gera það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (137)
Hvað getur sameinað okkur?
22.9.2009 | 05:51
- Fólk sem á gífurlega mikið.
- Fólk sem á eitthvað.
- Fólk sem á ekki neitt en skuldar ekki neitt.
- Fólk sem skuldar vegna húsnæðisláns, bílaláns og námsláns.
- Fólk sem skuldar vegna kúlulána, lánum fyrir lánum, lánum fyrir hlutabréfakaupum.
Búið er að fella niður skuldir fjölmargra í hóp 5. Hópur 3 hefur ekki þurft að hafa miklar áhyggjur, en skattar og vöruverð fara hækkandi, þjónusta ríkisstofnana lækkandi. Hópar 2 og 1 voru tryggðir í bak og fyrir af Ríkinu við Hrunið.
Hópur 4 hefur verið skilinn algjörlega eftir í kuldanum, og oft flokkaður eins og viðkomandi væri í hópi 5, af þeim sem eru í hópum 1-3 og eru ekki tilbúnir að tapa einhverju af því sem þeir hafa, og hafna algjörlega að bera einhvern kostnað af þeirri leiðréttingu lána sem hópur 4 krefst, með þeirri hótun 'að allt verði vitlaust' ef farið verði að hafa fé af þeim sem það eiga til að bjarga þeim sem fóru illa að ráði sínu.
Hvernig er hægt að finna sanngjarna og réttláta leið í þessari pattstöðu?
Ef allar stéttir verða sameinaðar að nýju í einu mun fólk sem hefur eignir og völd rísa upp og öskra 'ranglæti', 'vanhæf ríkisstjórn' og 'kommúnismi', og þar að auki gæti orðið annað Hrun vegna slíks ósættis. Ef ástandið verður látið ríkja áfram mun í það minnsta þriðjungur þjóðarinnar tapa öllu sínu. Það tap verður á kostnað allra hinna og gæti líka þýtt annað Hrun.
Ríkisstjórnin í dag er í vandræðalegri stöðu, með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak og hefur ákveðið að yfirgefa eigin stefnu þar sem hún skilur að stefna VG og Samfylkingar virka ekki við þessar aðstæður. Stjórnmálaleg hugmyndafræði hefur hlotið gjaldþrot, sama hvert þú lítur.
Eina hreyfingin sem ætlaði sér að brjóta upp hugmyndafræðileysið, Borgarahreyfingin, ákvað síðan á aðalfundi að taka upp hugmyndafræði eins og allir hinir flokkarnir og sigla sjálfa sig í strand. Reyndar standa þingmenn hreyfingarinnar eftir, en hreyfingarlausir og án baklands eru þeir einfaldlega á reki á reginsjó.
Staðan er erfið. Þjóðin á ekki aðeins í efnahagskreppu. Þjóðin á einnig við mannúðarkreppu að stríða.
Eina lausnin er ef fólk stendur og þraukar saman, og í stað þess að leyfa fjölskyldum að gjöreyðast vegna fátæktar og skuldar að hjálpa þeim að rísa upp, en til þess þarf vilja og mannúð. Það þarf sameiningarkraft til sem hægt er að finna í trúarbrögðum.
En þjóðin virðist orðin trúlaus, lúterska kirkjan þykir ekki lengur svöl, og þjóðin hætt að hugsa sem 'við' og er þess í stað orðin að mörg þúsund sundruðum 'ég'. Satt best að segja held ég að eina lausnin fyrir okkur eins og staðan sé í dag er að vekja kristin trúarbrögð aftur til lífsins, hvort sem að fólk sé trúað eða ekki. Við þurfum eitthvað sem sameinar okkur á þessum erfiðu tímum. Því miður hafa fjölmargir Íslendingar snúist gegn trúarbrögðum eins og þau séu upphaf alls ills í heiminum, aðallega vegna þess að sumir forsprakkar þeirra hafa reynst eiginhagsmunaseggir, stífir pólitíkusar, kynferðisbrotamenn og tækifærissinnar, sem og vegna þess að gömlum kreddum virðist fylgt í blindi sem ekkert erindi virðist eiga í samtímanum. Veruleikinn getur hins vegar verið sá að samtíminn á ekki heima í gömlu kreddunum og að þær séu í raun margar hverjar góðar og gildar.
Okkur vantar sameiningarafl og sama hversu auðvelt og réttlætanlegt er að gagnrýna trúarbrögð, þá er sameining það raunverulega gildi sem trúarbrögð geta gefið, þó að þau séu ótrúleg.
Veit einhver hvað orðið hefur af okkar frægð?
Lútersk trú hefur tapað trúverðugleika sínum á Íslandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju, og nýfrjálshyggja hefur tapað öllu sínu gildi. Eftir stöndum við slipp og snauð, í fjárhagslegri, mannúðarlegri og siðferðilegri kreppu sem hótar að leggja landið í eyði.
Hvað getur sameinað okkur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
"Nei!" ???
19.9.2009 | 08:13
Nafni minn, Hrannar B. Arnarson, ágætur maður og fyrrum minn í skákhreyfingunni, bloggvinur minn og Facebook vinur, sendi Agli Helgasyni furðulegt svarbréf þegar Egill óskaði eftir að fá Jóhönnu Sigurðardóttur í viðtalsþáttinn Silfur Egils, í raun eina þáttinn sem horfandi hefur verið á í sjónvarpi síðustu árin, fyrir utan Spaugstofuna.
Svarið hans við fyrirspurninni var:
"Nei!"
Engin rök. Engin ástæða.
Bara "Nei!"
Þetta þýðir bara eitt, og þetta hefur grafalvarlega þýðingu. Þetta þýðir að forsætisráðuneytið hefur tekið upp andstöðu gegn frjálsri umræðu, rökum og rökstuðningi. Öðruvísi get ég ekki skilið þetta.
Ef enginn rökstuðningur fylgir slíku svari, hvað þá um mikilvægari málefni innan stjórnsýslunnar, á nú einfaldlega bara að ákveða hlutina og segja:
"Af því bara. Ég ræð."
Stjórnkænska sem þessi er ekkert annað en leifturmynd af þeirri valdníðslu sem getur verið í uppsiglingu á næstunni, þar sem ekki verður hlustað á rök - málefnin skipta ekki máli - það verði einungis þeir sem fara með völdin sem hafa völdin og geta notað þau.
Er stríðsástand á Íslandi?
Hvað er eiginlega í gangi?
Ég virti Jóhönnu fyrir það að gefa sér ekki tíma til að vera stanslaust í fjölmiðlum, en að koma þannig fram við fjölmiðla í nafni aðstoðarmanns síns er ekki bara dónaskapur, heldur læðist að manni sá grunur að um alvarlegan valdahroka sé að ræða, og að stefnt sé á einræði í okkar fátæka ríki.
Betur mætti velja úr einn og einn þátt, eins og Silfur Egils, heldur en að vera stanslaust fyrir framan myndavélarnar.
Ég er kannski að gera úlfalda úr mýflugu, en verð að viðurkenna að ég hef svolitlar áhyggjur af þessu.
Nei er ekki svar, heldur skipun til hlýðni.
Getum við sett samasemmerki á milli hegðunar Hrannars B. Arnarsonar og Jóhönnu Sigurðardóttur?
Myndbandið hér að neðan sýnir af hverju snubbótt "nei" er ekki gagnlegt, og hvernig hægt er að segja "nei" án þess að tapa öllum sínum vinum.
How to say no
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Af hverju styð ég greiðsluverkfall?
18.9.2009 | 06:45
Frelsisskerðing sú sem heimilin hafa orðið fyrir í mynd ofbeldiskenndrar gróðafíknar sumra auðmanna, gáleysi og ráðleysi stjórnvalda sem og skortur á trausti gagnvart þeim stjórnvöldum sem nú halda völdum er megin ástæða þess að þörf er á friðsamlegum aðgerðum. Greiðsluverkfall heimila sendir skýr skilaboð. Við erum ekki sátt. Það er eitthvað að. Við viljum lifa lífinu sem frjálsir einstaklingar með mannvirðingu.
Einnig spilar inn í dæmið miskunnarleysi bankastofnana, en þær þurfti að stöðva frá því að henda fólki út á götuna þegar það gat ekki borgað. Í dag hefur fólk úrræði, ekkert ólíkt alkahólisma í sjálfu sér, það getur fryst lán sín (deift huga sinn) með þeirri afleiðingu að höfuðstóll þeirra hækkar enn ógurlega og verður enn óviðráðanlegri en áður þegar frystingu lýkur. Ríkinu sem ætlað er að vernda þegna þjóðarinnar virðast stefna sofandi að feigðarósi, með að selja smám saman auðlindir þjóðarinnar út í heim, og gera ekkert fyrir heimilin annað en að fresta aftökunni.
Stjórnvöld hafa fengið góðan tíma til aðgerða. Fyrst var talað um mögulegt greiðsluverkfall fyrir tæpu ári síðan, en þá þótti rétt að gefa ríkisvaldinu tækifæri til að reisa þá skjaldborg sem lofað var fyrir heimilin í landinu. Hlustað var á hugmyndir ríkisvaldsins til að mæta fólki, en eftir stutta skoðun kom í ljós að aðgerðirnar voru fyrst og fremst þykjusturáðstafanir til að svæfa múginn. Og sífellt kveður við sama svar þegar spurt er um raunverulegar aðgerðir fyrir heimilin: "Á næsta leiti,um næstu mánaðarmót, en við getum ekki lofað miklu." Það er komið nóg!
Ég mæli með því að allir þeir sem vita að á þeim var brotið taki þátt í greiðsluverkfallinu. Ég veit að á mér var brotið, og er hikandi vegna starfsfólksins góða sem sinnir mér í mínum banka. Þetta er gott fólk og ég vil ekki að þau haldi að ég hafi eitthvað á móti þeim. Gjaldkerar og ráðgjafar í bönkum eru þú og ég. Þessu er ekki beint gegn þeim eða okkur sjálfum, heldur þeim sem eru að láta þetta yfir okkur ganga. Staðreyndin er sú að á okkur var brotið. Það verður að leiðrétta. Eina færa leiðin er réttlæti, og réttlætið sefur á meðan börn þess þegja.
Tekin var staða gegn íslensku krónunni. Virðist ástæðan hafa verið sú að láta ársfjórðungsreikninga stórra fyrirtækja og fjármálastofnana líta betur út en staðan var í raun og veru, sem var í kaldakoli, og til að fjármagna greiðslur erlendra lána sem voru komnar á eindaga. Við vitum nefnilega hvað gerist ef við borgum ekki lán okkar. Þessi lán hafa verið greidd, en ekki af þeim sem báru ábyrgð á þeim. Þeim tókst að skuldfæra skuldirnar yfir á heila íslenska þjóð og þessi þjóð hefur þegar byrjað að borga. Verðbólgan, verðtryggingin, gengisfellingin, skattahækkanir, niðurskurðir: þetta eru allt birtingarform á hvernig íslensk þjóð er að greiða skuldir óreiðumanna.
Þessi staða sem tekin var gegn krónunni varð til þess að hún féll reglulega, eða á þriggja mánaða fresti, þegar kom að afborgunum og ársfjórðungsuppgjöri, en að því kom í október 2008 að það dugði ekki lengur til að greiða lánin. Reynt var að fá lán frá Ríkinu og Seðlabankanum, sem höfðu í maí fengið leyfi frá Alþingi til að taka 500 milljarða erlent lán og dæla í hagkerfið. Eftir að þessir peningar gufuðu upp, ákvað Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri ásamt Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra að segja "hingað og ekki lengra" og ákváðu að ríkisstjórnin tæki yfir hina illa reknu banka. Það má gagnrýna þessa menn fyrir ýmislegt, en þarna tóku þeir rétta ákvörðun. Verst að Geir vildi ekki viðurkenna stöðuna áður en hún varð vonlaus, og verst að enginn hlustaði á viðvaranir Davíðs Oddssonar sem ná að minnsta kosti aftur til apríl 2008, en vitneskjan um í hvað stefndi hefur þó örugglega náð í það minnsta aftur til 2006.
Í kjölfarið áttar fólk sig smám saman á því að eigendur og stjórnendur bankanna léku þann leik að lána eigin fyrirtækjum (yfirleitt ekki sjálfum sér - eins og einhver raunverulegur munur sé þar á) gífurlegar fjárhæðir til að fjármagna kaup á öðrum fyrirtækjum, flytja síðan allar eignir í nýju fyrirtækin og keyra það skulduga í þrot eins og ekkert væri sjálfsagðara. Að sjálfsögðu voru lánaskuldir sumra einstaklinga með góð sambönd, sem höfðu verið svo vitlausir að fá lán á eigin persónulegu kennitölu felldar niður.
Á meðan eru heimilin að krefjast þess fyrst og fremst að grunnþörfunum þremur verði fullnægt: að fólk hafi þak yfir höfuð, klæði og fæði. Einnig má ekki gleyma að þarfirnar í nútímasamfélagi eru fleiri og að erfitt er fyrir fólk að temja sér margfalt minna en það hefur vanist, en þegar í ljós kemur að margar fjölskyldur eiga ekki fyrir þessum grunnþörfum án þess að taka lán sem þau hafa fullan vilja til að greiða til baka, en munu sjálfsagt aldrei geta það, þá er ljóst að eitthvað róttækt þarf að gera.
Greiðsluverkfallið eins og það er boðað, er ekki sett til höfuðs fjármálakerfinu eða óbreyttum bankastarfsmönnum, eða starfsmönnum þeirra fyrirtækja sem eru í eigu auðkýfinga sem rústað hafa hagkerfinu. Það er fyrst og fremst tæki sem nota skal til að sýna fram á vilja fólks til að gera eitthvað strax og raunverulega í vanda heimilanna. Ef greiðsluverkfall hefði verið sett á til frambúðar, yrði afleiðingin annað Hrun. Það er engin spurning. Við erum ekki að tala um það.
Við erum að tala um það að heimilin í landinu hafa verið beitt hörðu óréttlæti og að skálkarnir bíða enn færis að ráðast á þennan varnarlausa hóp sem hefur til þessa stillt sér upp við vegg með bundið fyrir augu, og beðið eftir að skothríðin hefjist, með þeirri von að í aftökusveitinni miði skytturnar jafn illa þar og í viðskiptum.
Þetta snýst um óréttlæti og frelsissviptingu. Þegar þú verður fyrir óréttlæti eru tveir kostir í stöðinni. Gera ekkert og láta níðast á þér frekar, eða stöðva ofbeldissegginn með einhverjum hætti. Gandhi og Martin Luther King yngri kenndu heiminum aðferðir til að stöðva slíkt ofbeldi á friðsamlegan hátt, og það er markmið Hagsmunasamtaka heimilanna, en eftir því sem ég best veit er upphafsmaður hugmyndarinnar um greiðsluverkfall heimilanna stjórnarmaður í HH, Ólafur Garðarsson, sem hefur reynt að vinna þessari hugmynd brautargengi mánuðum saman. Hagsmunasamtökin hafa leitað allra annarra úrræða fyrst, en nú er svo komið að ekki er lengur hægt að sitja aðgerðarlaus.
Gandhi, sem hafði þjónað breska heimsveldinu í áratugi sem tryggur þegn, maður sem elskaði breska ríkið af einlægni, tók þátt í stríði gegn Zulu þjóðinni í Suður Afríku, þar sem hann sá Breta framkvæma fjöldamorð, og ekki nóg með það, hann sá hann einstaklinga sem nutu þess til hins ýtrasta með ánægjugrettum að pynta og limlesta Zulumenn, og þeim var ekki refsað, heldur varð það viðtekin hegðun. Af einhverjum ástæðum spretta andlit útrásarvíkinga nú fram í huga minn sem segja: "Ég skulda trilljón milljarða, þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af mér, ég á fyrir kóki, nafnlausir bloggarar eru sökudólgurinn, og það eru allir vondir við mig." Gandhi fylltist viðbjóði og gaf sig frá þeirri stundu allan í það að hjálpa saklausum einstaklingum, þá aðallega Indverjum, að losna undan ánauð breska heimsveldisins. Við þurfum að hjálpa íslenskum heimilum undan oki auðmanna.
Martin Luther King yngri varð fyrst áberandi þegar kona nokkur í borginni Montgomery í Alabama var þreytt í fótunum og settist í strætisvagnasæti sem ætlað var hvítum. Hún var svört á hörund. Þegar henni var skipað af hvítum farþega að færa sig, sagði hún "Nei, mér er illt í fótunum," og hún neitaði algjörlega að færa sig. Hún var fangelsuð. Athygli Martin Luther King yngri var vakin á þessu máli, og hann stakk upp á því að svertingjar sniðgengju strætisvagna Montgomery þar til reglum yrði breitt og konan beðin afsökunar. Honum til furðu tóku allir þátt í mótmælunum. Helstu farþegar strætisvagnanna voru dökkir á hörund. Daginn sem strætóverkfallið hófst, voru vagnarnir tómir. Galtómir. Fólk gekk frekar til vinnu. Sniðgangan tók ár. Þá var farið að hlusta. Ári síðar var lögum breytt, þar sem svartir máttu sitja þar sem þeim sýndist í strætó. Rosa Parks, konan sem hafði neitað að færa sig, fékk afsökunarbeiðnina árið 2006, 51 ári eftir atburðinn.
Viljum við bíða í 51 ár þar til ríkisstjórnin áttar sig á að óréttlæti hefur verið framið og að heimilunum er að blæða út? Vilja þau virkilega að fólkið sem áttar sig á stöðunni flytji úr landi? Er eitthvað sem getur réttlætt það í huga nokkurs ráðamanns, nokkurrar viti bornar veru, að einn einasti Íslendingur flytji úr landi á flótta undan óréttlæti og frelsissviptingu?
Greiðsluverkfall eru friðsamleg mótmæli gegn hörðu óréttlæti. Verði það til að vekja ekki aðeins ríkisstjórnina og auðmenn heldur einnig stóran hluta þjóðarinnar sem virðist ekki skynja að eitthvað alvarlegt sé að, af mannavöldum, þá er mikið til unnið.
Skili þetta greiðsluverkfall nákvæmlega engu fyrir heimilin verður staðan einfaldlega þannig að ótímabundið greiðsluverkfall mun sjálfkrafa eiga sér stað, ekki vegna þess að heimilin eru að mótmæla, heldur einfaldlega vegna þess að þau geta ekki lengur, og þá mun ástandið fyrst fara úr böndunum.
Það er að mínu mati vítavert kæruleysi af stjórnvöldum að hafa leyft ástandinu að þróast í þá stöðu sem komin er upp í dag, þó svo að Hrunið sé þeim ekki að kenna: að fólk eigi ekki fyrir helstu nauðsynjum og að í stað þess að minnka álögur séu þær auknar og fólk hundelt fyrir að skulda ríkisstofnunum þúsundkall.
Það er óréttlæti, og allt óréttlæti er frelsisheftandi. Sérstaklega ef það er kerfisbundið.
- Viljum við ekki vera frjáls þjóð?
- Viljum við ekki að þeir sem komu heimilunum í þessa stöðu skammist sín?
- Viljum við ekki sjá þá sem komu heimilunum í þessa aðstöðu biðjast afsökunar og gefa þeim tækifæri til að bæta fyrir misgjörðir sínar?
Það vil ég og eftir að hafa heyrt í helstu forsprökkum útrásarvíkinga og í stjórnmálaþeytuvindum sem leiðist aldrei að hlusta á sjálfa sig er ég sannfærður um að þau heyri ekkert annað en það sem blæs úr þeirri vindátt sem þeim hentar. Því er um að gera að koma á logni. Hætta að mása og blása.
Það er nefnilega tvennt ólíkt, annars vegar að vera friðsamur og hins vegar að mótmæla á friðsamlegan máta. Hið fyrrnefnda gerir þig að þræli. Hið síðarnefndi gerir þér fært að halda mannvirðingunni og óska þannig eftir að fólkið sem hefur völdin og auðinn sjái að sér, skammist sín, öðlist grundvallarskilning á að það hefur brotið af sér. Og fari að rækta garðinn sinn.
Ef við gerum ekkert, mun ástandið einfaldlega versna og sagan endurtaka sig. Ef við mótmælum friðsamlega er þó von um að það verði hlustað.
Stærsta og sterkasta vopn okkar er umhyggja fyrir þjóðfélaginu öllu, hverjum einasta þegn. Hver einasti þegn er ómetanlegur. Sá sem segir annað ætti að skammast sín. Að bera fólksflóttann í dag miðað við fólksflótta annarra tíma á Íslandi er skammarlegt. Hvort tveggja er afar illt, og annað engan veginn betra en hitt.
Að grípa til friðsamlegra aðgerða er ekki aðeins réttlætanlegt, það er óréttlætanlegt að gera það ekki.
Um friðsamleg mótmæli, frá Martin Luther King, yngri.
Óraunsæi að hundsa verkfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)