Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Viltu lögleiða fjölkvæni á Íslandi?

 


 

Í gærkvöldi átti ég ansi líflegar samræður við vini mína um félagslega frjálshyggju og afleiðingar hennar. Ein kenningin sem kom upp var að frjálshyggjan muni leiða til fjölkvæni eða fjölkörlun, en þar sem að fjölskylduímyndin: karl, kona og börn, væri grunvöllur vestrænna þjóðfélaga, þá væru vestræn þjóðfélög í mikilli hættu. Athugið að þarna er verið að tala um orsakatengingu, eitthvað sem hlýtur að gerast, en ekki eitthvað sem gæti gerst.

Ein manneskja í samræðunni hélt því fram að ákveðin og vel skipulögð alþjóðleg hreyfing væri í gangi sem ynni látlaust að því að grafa undan traustum grunni vestrænna samfélaga, eins og heimspekilegur hryðjuverkahópur, og hélt því fram að fyrsta skrefið væri að gefa samkynhneigðum rétt til að ættleiða börn, þá fyrst færi skriðan í gang og engin leið væri til að koma í veg fyrir að ein stúlka giftist hópi stúlkna, eða að vinahópur myndi giftast þar sem allir svæfu saman og gætu eignast börn, eða að hið klassíska fjölkvæni þar sem einn maður tekur sér margar konur, fær sér bara nýja þegar honum finnst sú síðasta vera orðin of gömul eða þrasgjörn.

 

FamilyGuyParty

 

Gengi þetta eftir, væri vegið að vestræna fjölskylduhugtakinu, en vestræn samfélög hafa verið byggð á samstöðu fjölskyldunnar fyrst og fremst. Ef við hefðum ekki slíka samstöðu lengur, hvað yrði þá um börnin? Hvað yrði þá um einstaklinginn sem finnur yfirleitt merkingu með lífinu þegar hann eignast maka og með honum börn?

Mér fannst þetta áhugaverð pæling, en hef ekki mótað mér skoðun enn, og leyfi mér að fresta því að mynda mér skoðun þar til ég veit meira, þar sem mér hafði ekki einu sinni dottið það í hug fyrr. Getur verið að umburðarlyndisfasismi sé eitt af hættulegri fyrirbærum sem skotist hefur upp í vestrænum heimi, að umburðarlyndi sé gott og gilt, en ætti að hafa sín takmörk?

Þegar frjálshyggjan fer út í öfgar og ofbýður siðferði fólks, þá rís ávallt upp bylting gegn slíku. Það má rökstyðja ris nasismans, fasismans og jafnvel kommúnismans sem baráttu gegn vafasömu siðferði, en þar hefur þá ein illska skapað enn verri illsku. 

 

mother_teresa2

 

Nú fór Ísland algjörlega úr böndunum í fjárhagslegri frjálshyggju. Hefur Ísland líka farið úr böndunum í félagslegri frjálshyggju? Höfum við gleymt að setja okkur sjálfum takmarkanir þar sem að ofurtrúin á sjálf okkur hefur vaxið okkur yfir höfuð? Mun kreppan hjálpa okkur að ná áttum, eða munum við sitja áfram í fyrri hugmyndafræði og hjakka í sama farinu bara vegna þess að okkur líkaði einhvern tíma þetta far sem við komumst hvort eð er ekki upp úr?

Hugmyndin er svona:

  • Fyrsta skref: lögleiða sambúð samkynhneigðra
  • Annað skref: lögleiða rétt samkynhneigðra til ættleiðingar barna
  • Þriðja skref: þegar skref eitt og tvö eru komin, þá verður vegna jafnréttishugsjóna ekki hægt að koma í veg fyrir fleiri afbrigði af hjónaböndum, enda verður ekki lengur hægt að halda í þá skilgreiningu að hjónaband sé blessun á sambúð og barneignum karls og konu.

Ég vildi endilega deila þessu með bloggheimum, og sjá hvort að lesendur geti stutt mig til myndunar á traustum skoðunum þegar kemur að þessu málefni.

Ætli stóra spurningin sé ekki hvort rétt sé að orsakasamband sé á milli hjónabands samkynhneigða annars vegar og fjölkvænis hins vegar, og ef hvort tveggja væri leyft, hefði það alvarleg áhrif á uppbyggingu samfélagsins?

 


Trunt trunt og tröllin í bloggheimum

 

troll2

Á netmáli eru tröll þeir einstaklingar sem blanda sér inn í athugasemdakerfi og ræna umræðunni, ráðast á ákveðna einstaklinga eða reyna að kveikja elda. Þeim finnst nefnilega gaman að sjá logana eftir sig. Einnig finnst sumum einfaldlega spennandi að sjá dramað sem verður til þegar fólk með gjörólíkar skoðanir, og fólk sem þolir greinilega ekki hvort annað, og væri hollast að hittast aldrei eða ræða saman, eiga samskipti sem skilja eftir sig sviðna jörð.

Ég þekki þrjár leiðir til að taka á tröllum:

  • Láta þau eiga sig. Virkar best.
  • Rökræða við þau. Má alltaf reyna.
  • Banna þau til dæmis með því að blokkera IP tölu þeirra. Virkar oft en getur gert þau brjáluð og þú getur fengið langvarandi ofsóknir kláru tröllanna sem kunna að smeygja sér í gegnum IP tölu bann og nenna því.
blog_troll

Hægt er að ofsækja bloggara á margan annan hátt en með því að tröllast í athugasemdakerfi þeirra, til dæmis með því að reka þá úr vinnu, ráðast á þá með hnúum og hnefum, eyðileggja eignir þeirra, þá minnist ég helst Nornabúðarinnar, og gera ýmsan miska sem fólk þarf að upplifa fyrir skoðanir sínar. Bloggarar eru í dag eins og minnihlutahópur í samfélaginu sem á mikla hættu á að verða fordæmdur fyrir það eitt að blogga, og flokkast þar af leiðandi sem bloggari.

Ég hef heyrt samræðu sem hófst einhvern veginn svona: "Ég skil ekki hvað það er sem fær fólk til að blogga, það fær ekkert fyrir þetta annað en ónæði og streitu. Samt bloggar það áfram eins og fátt annað skipti máli."

 

 

Um daginn skrifaði ég greinina Af hverju eru þeir ofsóttir sem hafa skoðanir og vilja ræða málin? sem skilað hefur 76 athugasemdum, sumum afar áhugaverðum og nokkrum sem virðast vera sönnun á máli mínu í þeirri grein, að sú tilhneiging sé vissulega til staðar að sumir bloggarar séu ofsóttir, en einnig varð trölla vart sem kveiktu í mér til að skrifa þessa grein.

Niðurstaðan af þessu bloggi virðist vera eftirfarandi, þegar á við skrif um viðkvæm þjóðfélagsmál og persónur:

Í fyrsta lagi, þegar manneskja sem skrifar undir nafni og vandar sín skrif - þá gæti viðkomandi orðið fyrir einhvers konar ofsóknum, einfaldlega vegna þess að sumir einstaklingar skilja ekki mikilvægi þess að skoðanir þeirra sem eru ósammála.

Í öðru lagi, þegar manneskja skrifar undir nafni og vandar ekki sín skrif - notar kannski upphrópanir og uppnefnir einstaklinga, þá er hún afar líkleg til að skapa sér óvini - hvort sem að einstaklingar séu sammála eða ekki.

 


Í þriðja lagi, þegar nafnlaus bloggari vandar sín skrif, þá fær viðkomandi að halda sínu einkalífi í friði og eitthvað mark er tekið á skrifum viðkomandi, en sá hinn sami verður fyrir því að aðgengi að skrifum hans eru takmörkuð - til dæmis geta nafnlausir ekki skrifað á blog.is eða eyjan.is, annað en athugasemdir, og er ekki tekið mark á athugasemdum nema þær séu afar vel skrifaðar. Þar að auki er engin trygging til staðar fyrir því að einhver annar fari að skrifa undir sama nafni og eyðileggi þannig orðstýr hins nafnlausa.

Í fjórða lagi, þegar bloggari er nafnlaus og vandar ekki sitt blogg er einfaldlega ekki tekið mark á viðkomandi.

Nokkuð skemmtilegt myndband um hvernig taka má á veftröllum:


Jarðarbúar að tapa gegn geimveru í skák?

 


 

NASA dettur ýmislegt sniðugt í hug. Nú hefur stofnunin stillt jarðarbúum upp gegn geimveru einni þar sem þyngdarlaus kappi virðist vera að snúa á jarðlinga. Þeir hafa leikið 31 leik og geimveran, eða réttara sagt, geimfarinn Greg Chamitoff er kominn með kolunna stöðu. 

Reyndar er þetta svolítil platfrétt þó að skemmtileg sé, því að Jörðin samanstendur af börnum í 3. bekk grunnskóla nokkurs í Washington, en þau velja úr fjóra mögulega leiki sem meðlimir í bandaríska skáksambandinu geta svo valið úr, þannig að í raun er þetta keppni milli geimfarans Greg og bandaríska skáksambandsins.

Hérna er staðan í skákinni eftir 31 leik, og nokkuð ljóst að svartur er að rúlla yfir hvítan, en svartur á leik:

 

nasa_chess.jpg

 

Þú getur skoðað skákina gegnum Javaforrit með því að smella hérna. Heimasíða keppninnar er svo hérna.

Af hverju gera Íslendingar ekki eitthvað svona sniðugt, svona aðeins til að lífga upp á andrúmsloftið heima? Þyngdarleysi gæti komið sér ágætlega til að koma Íslendingum upp úr djúpum hjólförum Kreppunnar.

 


 

Ég ræddi við nokkra Norðmenn um kreppuna, og þeir fræddu mig um hvernig nákvæmlega sömu hlutirnir höfðu gerst í Noregi árið 1990, bankafólk klúðraði fjármunum þjóðarinnar. Það sem hann taldi hafa þjappað þjóðinni saman var að ákveðið var að halda Vetrarólympíuleikana í Lillehamer, Noregi 1994, sem varð til þess að þjóðin þjappaði sér saman, þurfti að byggja undir keppnina. Eftirvæntingin varð mikil. Allir tóku þátt. Keppnin tókst vel og fjármunir streymdu inn frá ferðamönnum. Síðan þá hefur Noregur ekki upplifað kreppu.

Geta Íslendingar ekki gert eitthvað svona sniðugt. Með fullri virðingu fyrir tónlist, eitthvað annað og meira spennandi en byggingu óperubyggingar? 

 


Er bloggið bylting?

 


 

Ég hef margoft heyrt talað um 'bloggara' með vandlætingartón, eins og þar fari stétt stórfurðulegs fólks sem skrifar hvern einasta dag tómt kjaftæði, og að maður eigi ekki að taka mark á slíku fólki, því þeir sem fá ekki borgað fyrir að skrifa geti ekki verið að skrifa eitthvað merkilegt.

Þetta er tónninn. Hann er rangur. Jafn rangur og þegar ríkjandi stéttir hafa reynt að kæfa vísindalegar uppfinningar og uppgötvanir í fæðingu, vegna þess að þær passa ekki inn í ríkjandi heimsmynd, og skilja ekki að ríkjandi heimsmynd er aðeins frosin mynd í huga fólks, en að veruleikinn rúllar áfram sama þó að breyskir menn reyni að stoppa hann. Veruleikinn er nefnilega aldrei það sem við höldum að hann sé, því þegar við höfum gert okkur skýra mynd af honum, er hann þegar orðinn allt annar einmitt vegna þess að mynd okkar er loks skýr, en þessi skýrleiki verður einfaldlega til þess að forsendur hafa breyst. Við getum kannski líkt skýrri heimsmynd við að vera með ís í brauðformi í 20 stiga hita við Reykjavíkurborg, og reyna með hugarorkunni einni að koma í veg fyrir að ísinn bráðni og leki niður fingurnar. Maður verður að borða ísinn áður en hann bráðnar.

 

 

Málið er að blogg er frekar nýtt fyrirbæri. Rétt eins og Wikipedia. Enn heyrast raddir fræðimanna og kennara um hversu óáreiðanleg Wikipedia er fyrir upplýsingaöflun. Sem er satt. Wikipedia er ekki 100% áreiðanleg. Hún er samt að minnsta kosti 99% áreiðanleg, og hugsanlega 99.9% áreiðanleg, sem er mun hærri tala en nokkur önnur alfræðibók getur státað af. 

Málið er að Wikipedia uppfærist á hverri mínútu. Þegar nýjar upplýsingar koma fram er þeim dælt inn á vefinn. Þetta virkar best þegar margir hafa áhuga á sama málefni, en þá eru greinar leiðréttar þar til þær nálgast fullkomnun. Þannig er hægt að nálgast gífurlegar nákvæmar upplýsingar um nánast alla sjónvarpsþætti sem hafa verið framleiddir fyrir bandarískt sjónvarp - upplýsingar um kvikmyndir sem þú finnur hvergi annars staðar en með alvarlegu grúski, finnur þú á Wikipedia. Útskýringar á heimspekilegum hugtökum, upplýsingar um strauma og stefnur í bókmennum og vísindum, upplýsingar um þekktar persónur. Þú finnur þetta allt á Wikipedia. 

Stundum er reynt að falsa upplýsingar, en það tekst ekki nema viðkomandi gefi upp rangar heimildir eða þá að málið skiptir nánast engu máli fyrir þekkingaröflun yfir höfuð.

 

 

Fyrir fimm árum hefðu fáir trúað því að Wikipedia, vefur þar sem allir geta deilt upplýsingum, yrði að áreiðanlegri alfræðiorðabók en sjálf Britannica, sem skrifuð er af sérfræðingum. Fyrir fimm árum hefði enginn trúað því heldur að bloggarar gætu hugsanlega rétt rannsóknarblaðamönnum úr vegi, og gert það vel, en það hefur reynst mögulegt því að bloggarar eru óháður miðill, á meðan rannsóknarblaðamenn þurfa að óttast um störf sín og framtíð. Maður getur aldrei treyst upplýsingum 100%, hvorki frá Britannica né Wikipedia, einfaldlega vegna þess að mannshugurinn er brigðull, og bestu sérfræðingar geta haft rangt fyrir sér í þeim málum sem þeir hafa rannsakað alla sína ævi. Það merkilega er að óþjálfaður lýðurinn skilar inn jafn trúverðugum upplýsingum, en er margfalt fljótari að koma þeim á framfæri. Það sem tekur sérfræðing vikur, mánuði eða ár að koma á framfæri, tekur Wikipediunotanda sekúndur, mínútur eða klukkustundir.

Fyrir fimmtíu árum hefði engan grunað að hver sem er gæti miðlað fjölmiðlunarefni á virkan hátt, að allir sem ættu tæki eins og tölvu gætu orðið að eigin sjónvarpsstöð eða dagblaði, en sú er raunin. Við erum á tímamótum þar sem gagnrýnisraddir eru farnar að efast um að blogg geti verið gott. Írönsk stjórnvöld hafa lokað á bloggið þar sem lýðræðisleg umræða er ekki gagnleg. Ritskoðun verður stunduð með einum eða öðrum hætti svo framarlega sem bloggið er óþægilegt. En bloggið er hins vegar komið til að vera, rétt eins og Wikipedia, rétt eins og MSN spjall, rétt eins og IP símar sem þú getur notað til að hringja ókeypis út um alla veröld, og það verður barist gegn þessum tækninýjungum, þar til þær teljast sjálfsagður hlutur, þjóðfélög hafa sætt sig við þau sem eðlilega hluti og aðrar nýjungar koma fram til að ógna ríkjandi stöðu.

 

 

Fyrir mig hefur Internetið sem slíkt verið mikil gjöf. Ég hef óbrennandi áhuga á að læra, afla mér þekkingar, bæta mig sem manneskju - og hef uppgötvað að einföld Google-leit getur gefið mér meira en klukkustundir á bókasafni - þó að ekki megi vanmeta skemmtanagildi þess að grúska í bókum, en maður fær upplýsingar á silfurfati með því að smella á einn músarhnapp og aðgang að þúsundum klassískra bókmenntaverka sem maður getur prentað út heima hjá sér og lesið í ró og næði. Meðal slíkra bókmennta eru frægustu verk bókmenntasögunnar á fjölmörgum tungumálum, sem og klassískar íslenskar bókmenntir eins og Íslendingasögurnar, þjóðsögur Jóns Árnasonar og Biblían.

Sú tíð er liðin þegar maður fór í bókabúð að leita sér bókar um ákveðið málefni. Nú skellur maður sér bara á netið og finnur annað hvort bókina í heild sinni þar eða getur pantað hana af netbókaverslun. Maður fær meiri tíma til að læra.

 

 

Blogg hefur bylt íslenskri þjóðfélagsumræðu, breytt ríkjandi gildum, tekið stjórn á umræðunni sem áður voru á fárra manna höndum (og er það enn að vissu marki) og fært í hendur allra þeirra sem vilja taka þátt. Hinir sem ekki vilja taka þátt eru skildir eftir í ryki þess óvirka sem skilur ekki að þekking verður ekki til án þess að maður geri eitthvað til að afla sér hennar. Það felst meira í þekkingaröflun heldur en að kveikja á sjónvarpstæki og fletta með fjarstýringu. Það þarf að taka virkan þátt. Við þurfum að átta okkur á að við höfum áhrif, en verðum ekki bara fyrir áhrifum, og að þegar við vöndum okkur getum við bætt ekki aðeins þjóðfélagið, heldur einnig umheim okkar.

 


Af hverju eru þeir ofsóttir sem hafa skoðanir og vilja ræða málin?

 

hush-300

 

Ég hef fengið þó nokkur viðbrögð við skrifum mínum um nafnleysi og nornaveiðar á auðmönnum, sem benda til að í gangi séu á Íslandi raunverulegar nornaveiðar, en ekki á fyrrgreindum hópi, heldur venjulegu fólki sem vill tjá skoðanir sínar og ræða málin: bloggurum!

Einstaklingar sem hafa bloggað um þjóðfélagsmál af gagnrýni undir nafni og einstaklingar sem mótmæltu á Austurvelli hafa margir hverjir þurft að þola ofsóknir af ýmsu tagi, sumir misst vinnuna vegna skrifa sinna, og sumir orðið fyrir beinu ofbeldi og barsmíðum vegna þátttöku sinnar.

 


 

Þetta er þekkt fyrirbæri úr mannkynssögunni, en hefur ætíð fylgt tímabilum sem þjóðir skammast sín fyrir. Rannsóknarrétturinn stundaði raunverulegar nornaveiðar - kaþólska kirkjan og þær þjóðir sem tóku virkan þátt í þessum veiðum skammast sín fyrir það í dag. Nasistar ofsóttu gyðinga, fatlaða og þá sem þeir töldu af óæðri kynstofnum eða þjóðerni, Þjóðverjar skammast sín gífurlega fyrir það enn í dag. Spænskir fasistar unnu með nasistum í seinni heimstyrjöldinni þannig að fjöldi fólks varð landflótta frá Spáni - Spánverjar eru að bæta fyrir það í dag með sérstökum lögum sem heimila afkomendum þeim sem fluttu í burtu að flytja aftur heim og fá spænskan ríkisborgararétt. Fólk sem hafði gagnrýndar skoðanir var ofsótt í Bandaríkjunum á McCarthy tímabilinu, og erlendir ríkisborgarar með óvinsælar skoðanir reknir úr landi. Upp kom hreyfing sem ætlaði að ofsækja allar skoðanir sem þóttu ó-amerískar, en kjósendum tókst að stöðva það ofsóknaræði með því að velja Barack Obama í forsetastólinn. Kristnir hafa verið ofsóttir síðan Jesús gagnrýndi ofríki, spillingu og ofbeldi samtíma síns og var krossfestur að launum.

 

 

Á Íslandi er verið að ofsækja fólk fyrir að hafa skoðanir og ræða þær. Það er ljóst. Og það er ótækt með öllu. Skilaboð hafa komið frá Ríkinu um að bloggarar séu óþægilegir, á meðan Ríkið ætti að þakka fyrir gagnrýna umræðu og styðja við hana. Þegar Eva Joly skrifar á gagnrýninn hátt um stöðu mála fær hún íhnýtingu frá aðstoðarmanni forsætisráðherra. Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, gagnrýndi bloggara af mikilli heift í Kastljósviðtali um daginn, og er ekki frá því að falskir söguskýrendur með gífurlegt fjármagn að baki sér ætli að endurskrifa söguna þannig að gagnrýnin umræða, bloggarar og mótmælendur verði gerðir að blórabögglum Hrunsins.

Ég hef skrifað af gagnrýni um málefni líðandi stundar og undir nafni. Hef neyðst til að flytja úr landi. Ekki veit ég hvort að skrif mín hafi haft einhver áhrif á stöðu mína í dag, en kæmi ekki á óvart þó að svo sé.

Ég er því böli háður að þola engan veginn að horfa upp á þá sem aflið hafa níðast á þeim sem hafa það ekki. Þegar ég sé eitthvað gagnrýnisvert, þá gagnrýni ég það, telji ég slíka gagnrýni mikilvæga og finnist skorta á umræðu.

 


 

Ég er viss um að ríkisstjórnin vill vel, en held að hún sé að kaffærast í verkefnum og sé hætt að sjá fólkið - sjái í dag bara verkefni og tölur sem erfitt er að eiga við. Hins vegar þarf ríkisstjórnin að sýna í verki að hún standi með fólkinu, hún verður að sýna í verki að það er ekki bara í lagi fyrir fólk að hafa skoðanir og vilja ræða málin, heldur að það sé skylda sérhvers einstaklings í lýðræðissamfélagi að einmitt hafa skoðanir og ræða málin, auka á þekkingu og skilning innan samfélagsins, og jafnvel út í heim þegar það á við.

Sú staða að fólk þarf að skrifa undir nafnleysi af ótta við ofsóknir, og sú staðreynd að fólk sem hefur skrifað gagnrýnið undir nafni hafi orðið fyrir ofsóknum, er algjörlega ótækt.

Gagnrýnin hugsun er nefnilega ekki réttur í lýðræðisþjóðfélagi, hún er skylda sérhvers einstaklings sem vill samfélaginu vel.

 

Góð lýsing á gagnrýnni hugsun, þó að mynd- og hljóðgæði séu ekki upp á marga fiska:
 
 

Skilaboð til þeirra sem vilja ekki hlusta og dettur ekki í hug að lesa langan texta eða skoða svona myndbönd:

 
 

Hver tekur mark á nafnlausum bloggurum?

bloggers

Getur verið að bloggið sé orðið að ógn í huga spillingarafla og þeim sem vilja tjóðra málefnin niður þannig að skoðanir sem fólk myndar sér verði á þeirra nótum? Getur verið að sá hluti þjóðarinnar, eða jafnvel heimsins, sem er ekki farinn að lesa og skrifa blogg, sé njörvaður niður í skoðanir sem mataðar eru ofan í þau af skipulögðum fréttamiðlum?

Reiði þeirra sem hafa greitt himinháar fjárhæðir til að stjórna umræðunni í fjölmiðlum er skiljanleg, en ekki réttlát. Bloggið er orðið að byltingarkenndu fyrirbæri, frjáls skoðanaskipti, útgangspunktur lýðræðisins. Með slíkum skoðanaskiptum og umræðu verður lýðræði fyrst mögulegt.

Einræði þolir ekki frjálsa þjóðfélagslega umræðu. Verði takmarkanir settar á bloggið er það einungis vísbending um einræðistilburði. Aftur á móti geta frjáls skoðanaskipti og umræða, og þá jafnvel nafnlaus, leitt til virkari þátttöku lýðsins í lýðræðinu, því að án þátttöku lýðsins er ekkert lýðræði. Það þurfti mann að nafni Lýður til að kveikja þessar pælingar hjá mér.

Þar til í gær, hafði ég þá vanhugsuðu skoðun að ekkert mark væri takandi á nafnlausum bloggurum og að þeir hefðu samansem engin áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Ég hafði ekki hugsað þetta dýpra, og þar af leiðandi má kalla þetta fordóma um nafnlausa bloggara. Til að koma í veg fyrir að ég verði hins vegar fordómafullur til framtíðar um nafnlausa bloggara er ég tilbúinn að endurskoða hug minn, viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér, og skoða málið betur áður en ég felli nýjan vanhugsaðan dóm.

Þess vegna stuðaði það mig þegar Lýður Guðmundsson fjallaði um það í Kastljósviðtali að nafnlausir bloggarar væru farnir að stjórna þjóðfélagsumræðunni. Mér fannst þetta kjánaleg skoðun, og skrifaði grein um hana: Stunda bloggarar nornaveiðar?

Hins vegar vöktu pælingar mínar nokkuð hörð viðbrögð og mér var bent á að ég hefði einfaldlega rangt fyrir mér, þar sem að tekið væri mark á gagnrýni og vangaveltum nafnlausra bloggara, sem byggðu á áreiðanlegum upplýsingum. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að skoðun mín um þetta mál hafi ekki verið byggð á nógu góðri umhugsun, og játa því að ég hafði sjálfsagt rangt fyrir mér í þessu máli, og að ég hef þar af leiðandi tilefni til að læra eitthvað nýtt, ekki bara um hugmyndina, heldur um sjálfan mig - því að ef eitthvað hefur klikkað í ferlinu við að móta eigin þekkingu, þá er það eitthvað sem er vert að skoða nánar.

Reiði þeirra sem hafa greitt himinháar fjárhæðir til að stjórna umræðunni í fjölmiðlum er skiljanleg, en ekki réttlát. Bloggið er orðið að byltingarkenndu fyrirbæri, frjáls skoðanaskipti, útgangspunktur lýðræðisins. Með slíkum skoðanaskiptum og umræðu verður lýðræði fyrst mögulegt.

Hver veit hvernig óþokkum þeim sem hafa komið þjóðinni á hné dettur í hug að hefna sín á bloggurum. Það er sjálfsagt auðvelt þegar menn blogga undir nafni, eins og ég, en skiljanlega getur það pirrað óstöðugan þegar ekki er hægt að ná tökum á hinum nafnlausa bloggara.

Ég vil lifa í samfélagi þar sem skoðanir eru virtar, séu þær vel ígrundaðar og rökstuddar, en ekki hafnað vegna hentisemi. Ég vil geta lifað í samfélagi þar sem maður getur skrifað sínar skoðanir undir nafni, og hafi maður rangt fyrir sér, geti fólk sent inn athugasemdir og aðstoðað viðkomandi við að leiðrétta slíkar skoðanir. Ég stóð í þeirri trú að Ísland væri þannig samfélag.

Kannski hafði ég rangt fyrir mér þar líka?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband