Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Getur bloggið hjálpað þér að mynda góðar og fordómalausar skoðanir?
9.4.2008 | 23:20
Blogg er í eðli sínu samskiptaform þar sem fólk skiptist á hugmyndum. Blogg geta verið persónuleg, skáldleg, fyndin, fróðleg, heimskuleg, slúður, bölsýnisspár, og þannig fram eftir götunum. Ég lít hins vegar á bloggið sem fyrirtaks tækifæri fyrir gagnrýna hugsun þar sem tekið er á málum líðandi stundar.
Blogg getur með athugasemdarkerfinu náð meiri dýpt í samskiptum en flestir aðrir netmiðlar. Þetta finnst mér spennandi og mig langar til að prófa mig áfram á þessum vettvangi.
Við getum í raun skipt öllu bloggi í tvo flokka: afþreyingu og fróðleik. Þegar vel heppnast til eru greinar einhvers staðar þarna á milli. Afþreyingin krefst yfirleitt ekki krefjandi hugsunar. Maður les sumar bloggsíður sér til skemmtunar, og það er í góðu lagi, en maður lærir seint eitthvað af því. Oft spyr ég mig hvort að fréttir séu fróðleikur eða afþreying, og upp á síðkastið hef ég hallast að því síðarnefnda.
En svo eru blogg sem fá mann til að hugsa. Þau krefjast þess af manni að maður sjái hlutina í nýju ljósi, og benda hugsanlega á nýjar hliðar sem maður hafði aldrei gert sér í hugarlund áður. Ef maður tekur virkan þátt í slíku bloggi og skrifar athugasemdir við slíkt, eða skrifar slíkt blogg, þá er maður kominn í lærdómsferli sem getur skilað ríkulega af sér.
Mig langar í þessu samhengi að minnast á flokkun Blooms á því hvernig þekking verður til. Sumir halda hugsanlega að nóg sé að heyra eða lesa um staðreyndir og þá hafi maður öðlast þekkingu. Og það er satt. En þekking á staðreyndum er ekki nóg til þess að maður myndi sér skoðun.
1. ÞEKKING
Málið er að þekking er aðeins fyrsta skrefið í átt að myndun góðrar skoðunar. Til dæmis heyrirðu í fréttum að bandaríska flugvallareftirlitið hafi bannað notkun á fjölmörgum flugvélum vegna hönnunargalla. Ef þú dregur strax ályktun, án umhugsunar, þá ertu á rangri leið. Skoðunin sem þú hefur myndað er ekki nákvæm og mun fljótt hverfa sem gagnlaust fyrirbæri sem enginn græðir nokkuð á. Birtist skoðunin aftur, er ekkert ólíklegt að hún verði að einhverju leyti í formi fordóma.
2. SKILNINGUR
Annað skrefið í góðri skoðunarmyndun er skilningur. Ef þú skilur forsendur málsins og áttar þig á hvers vegna flugvélarnar voru settar í bann, þá ertu líklegri til að mynda þér góða skoðun. En það er samt ekki nóg.
3. NÝTING
Þriðja skrefið snýst um nýtingu þekkingarinnar. Hvernig geturðu nýtt þá þekkingu að ákveðin flugvélategund var sett í bann? Ein möguleg nýting er að setja sér þá reglu að vanda eigin störf, því að óvönduð vinna getur valdið miklum skaða. Eða maður gæti athugað hvort að flugvél sem að maður ætlar að ferðast með í náinni framtíð sé af sömu tegund, og athuga þá hvort að tekið hafi verið á gallanum í þeirri vel.
4. RANNSÓKN
Fjórða skrefið snýst um að rannsaka málið betur. Getur verið að flugvélarnar hafi verið settar í bann af öðrum ástæðum en framleiðslugalla? Getur verið að einhverjum hagsmunaaðila hafi einfaldlega ekki verið greiddar nógar upphæðir, og því hafi vélarnar ekki staðist skoðun? Hvernig stendur á svona framleiðslugalla, er fyrirtækið sem framleiðir flugvélarnar með vanhæft starfsfólk, gallaðar starfsreglur, eða kannski stefnulausa stjórnun?
5. SAMANTEKT
Fimmta skrefið snýst um að gera samantekt um það sem maður hefur lært af skrefum 1-4. Getur maður gert áætlun um hvernig hægt er að bæta ástandið? Getur maður eitthvað lært af þessu sjálfur? Um hvað snýst málið í raun og veru?
6. MAT
Eftir að hafa gengið í gegnum þetta ferli af heilindum og með smá rannsóknarvinnu getur maður loks myndað sér skoðun sem er líkleg til að vera rétt. Það gerir maður með því að meta málið, leggja dóm á það, orða það eða skrá.
Þetta geturðu gert með því að blogga um fréttir. Þú getur myndað þér skoðun byggða á þeirri þekkingu sem fréttin veitir þér. Fréttin er betri eftir því sem að hún gefur hugsunum þínum meiri næringu til að þekkja, skilja, nýta, rannsaka, taka saman og meta hvert mál.
Dilbert um gagnrýna hugsun:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hvort er mikilvægara: minnið eða skilningurinn?
8.4.2008 | 21:35
Fyrir nokkrum árum lenti nemandi minn í bílslysi sem varð því valdandi að skammtímaminnið varð fyrir skaða, þannig að hann átti afar erfitt með að læra hluti utanað. Þetta var mikið vandamál fyrir hann, enda var hann í háskólanámi að læra til sálfræðings. En tvö kvöld í viku sótti hann heimspekitíma í heimspekiskóla sem ég rak ásamt konu minni í Mexíkó.
Áður en hann byrjaði á námskeiðinu spurði hann mig hvort ég tryði því að hann gæti náð einhverjum árangri í námi, minnislaus eins og hann var. Ég sagðist ekki vita það, en spurði hvernig honum gengi að skilja samhengi ólíkra viðfangsefna.
Hann sagði að það gengi svo sem ágætlega, hann hafði bara ekkert pælt í því. Ég hélt því fram að ef hann lærði hlutina fyrst og fremst með skilning í huga, þá myndi hann ná árangri, og að heimspekinámskeiðið væri fín æfing til að auka skilning á ólíklegustu hlutum, enda er á slíkum námskeiðum rætt um allt milli himins og jarðar og leitað skilning á öllu því sem maður botnar ekkert í, með samræðu sem aðal vinnutækið.
Og vitið til. Hann setti sér að skilja hlutina í þaula og náði þessi áramótin hæstu einkunnum sem hann hafði nokkurn tíma náð í skóla, og næsta vor var hann hæstur í hópnum sínum, þrátt fyrir að minnið var enn skaddað. Hann starfar í dag sem sálfræðingur.
Menntun er það sem stendur eftir þegar maður hefur gleymt öllu því sem maður hefur lært. (Albert Einstein)
Hvaða strumpur ert þú?
7.4.2008 | 12:19
Ég tók hið alræmda strumpapróf áðan. Hvaða strumpur heldur þú að ég sé?
Þú getur líka tekið prófið með því að smella á myndina. Hvaða strumpur ert þú?
Ég verð að segja eins og er. Þetta passar svolítið við mig, þó að ég sé ekki tilbúinn til að láta mér vaxa hvítt skegg og nota rauða húfu það sem eftir er. Svo vona ég innilega að þetta sé satt: "The world is a better place with you in it!"
Sjá fleiri bloggara sem hafa strumpast:
Ég var að taka strumpapróf og hér er ég: (Anna Karen)
Núna er ég búinn að strumpa heilan helling... (Gunnar Svíafari)
Brainy SMURF !! (Rannveig Lena Gísladóttir)
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
In Memoriam
Charlton Heston (4. október 1924 - 5. apríl 2008)
Charlton Heston er þekktastur fyrir hlutverk sín í stórum kvikmyndum, sem hafði rándýrar tæknibrellur, góða listræna leikstjórn, flotta búninga og magnaða tónlist. Hann lék Móses, Michaelangelo og Ben-Hur, en Michael Moore gagnrýndi hann harkalega í kvikmynd sinni Bowling for Columbine, þegar Heston var reyndar byrjaður að fá einkenni Alzheimer sjúkdómsins.
Charlton Heston hafði á sínum yngri árum verið þekktur fyrir baráttu sinni gegn vanhugsuðum styrjöldum og var demókrati af Guðs náð. Síðan skipti hann um stefnu og varð harður repúblikani sem studdi Ronald Reagan til forsetakosninga.
Síðar varð hann formaður bandaríska byssusambandsins og hans frægustu orð í því starfi var þegar hann sló því fram að hann myndi aldrei gefa eftir í réttinum til að eiga og vera með byssu á sér:
Ég hef ekki séð allar kvikmyndir Charlton Heston, og nota því einkunnir frá IMDB til að raða þeim eftir einkunnum sem notendur Internet Movie Database hafa gefið þeim yfir árin.
22. Major Dundee (1965) 6.7
Leikstjóri: Sam Peckinpah
Þarna leikur Heston ásamt stórstjörnunum Richard Harris og James Coburn í mynd sem gerist á síðustu dögum bandarísku borgarastyrjaldarinnar.
21. The Greatest Show on Earth (1952) 6.7
Leikstjóri: Cecil B. DeMille
Vann óskarinn sem besta mynd ársins og fyrir besta handritið. Var tilnefnd fyrir bestu búninga, leikstjórn og klippingu.
Ótrúlegt að hún skuli hafa fengið öll þessi verðlaun, þar sem persónurnar eru ekkert sérstaklega spennandi og myndin er ofhlaðin tilgangslausum fjölleikahúsatriðum sem gera hana óendanlega langa og leiðinlega.
20. The Naked Jungle (1954) 6.8
Leikstjóri: Byron Haskin
Milljónir hermaura ráðast á plantekru í Suður Ameríku. Charlton Heston er bóndinn sem þarf að berjast við pláguna.
19. The Agony and the Ecstasy (1952) 6.8
Leikstjóri: Carol Reed
Charlton Heston leikur engan annan en listamanninn Michelangelo. Rex Harrison leikur páfann.
Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu listrænu leikstjórnina, bestu kvikmyndatöku, bestu búninga, bestu tónlist og besta hljóð.
18. A Man for All Seasons (1988) 6.8
Leikstjóri: Charlton Heston
Heston leikstýrir sjálfum sér í endurgerð óskarsverðlaunamyndar. Hann leikur Thomas More, mann sem þarf að standa uppi í hárinu á hinum gjörspillta Englandskonungi Henry VIII, sem tekur fólk af lífi fyrir litlar sakir hægri og vinstri.
17. The Omega Man (1971) 6.8
Leikstjóri: Boris Sagal
Heston leikur síðasta manninn í jörðinni eftir sýklastyrjöld. I Am Legend (2007) með Will Smith er gerð eftir sömu skáldsögu. Hann þarf að berjast við manneskjur sem hafa breyst í skrímsli.
16. In the Mouth of Madness (1995) 6.9
Leikstjóri: John Carpenter
Stórskemmtileg hrollvekju-fantasía um rithöfund (Sam Neil) sem uppgötvar að hann hefur með bókum sínum opnað aðgang fornra vera inn í heiminn. Charlton Heston leikur útgefandann.
15. The Four Musketeers (1974) 6.9
Leikstjóri: Richard Lester
Charlton Heston endurtekur hlutverk sitt sem hinn illi Richelieu kardináli. Úrvals leikaralið í þessari mynd, meðal annarra Oliver Reed, Raquel Welch, Richard Chamberlain, Christopher Lee, Faye Dunaway og Geraldine Chaplin.
Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu búninga.
14. Soylent Green (1973) 7.0
Leikstjóri: Richard Fleischer
Framtíðarmynd sem gerist árið 2022 þegar matarskortur er að ganga af mannkyninu dauðu. Vísindamenn hafa fundið upp fæðuefnið Soylent Green, en lögga, leikin af Charlton Heston kemst að óvæntum hlutum um fæðuefnið og miklu samsæri þegar hann vinnur að lausn á morðmáli í Soylent fyrirtækinu.
13. Will Penny (1968) 7.0
Leikstjóri: Tom Gries
Ástarsaga um kúrekann Will Penny (Charlton Heston) og konu í fjallakofa við erfiðar aðstæður.
12. Treasure Island (1990) 7.14
Leikstjóri: Fraser C. Heston (sonur Charlton Heston)
Charlton Heston leikur hér sjóræningjann lævísa Long John Silver. Enginn annar en Christian Bale leikur hinn unga Jim Hawkins. Oliver Reed og Christopher Lee leika einnig stór hlutverk.
11. El Cid (1961) 7.2
Leikstjóri: Anthony Mann
Charlton Heston leikur eina mestu hetju spænskra bókmennta, El Cid. Uppáhalds mynd pabba míns. Sophia Loren leikur eftirminnilegt aðalhlutverk á móti Heston. Ein af bestu epísku myndunum sem fjallar um hvað það þýðir að vera hetja.
Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir besta listræna leikstjórn, bestu tónlistina og besta lagið.
10. True Lies (1994) 7.2
Leikstjóri: James Cameron
Ég sé hlutverk Charlton Heston í True Lies sem táknrænt. Hann var mesta hasarhetja sinnar kynslóðar, en Arnold Schwarzenegger tók við þeim kyndli, enda er margt líkt með þessum stórvöxnu hetjutröllum. Heston leikur yfirmann Schwarzenegger í bandarísku leyniþjónustunni. Stórskemmtileg spennu/grín um ofurnjósnara sem hittir alltaf, enginn ætti að láta þessa framhjá sér fara.
Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu tæknibrellur.
9. The Three Musketeers (1973) 7.5
Leikstjór: Richard Lester
Heston leikur lítið hlutverk sem hann endurtók svo tveimur árum síðar. Reyndar er hasarinn mikilvægari í þessum myndum en leikurinn, sem er synd, því það var frábært leikaralið í þessum tveimur myndum.
8. Hamlet (1996) 7.6
Leikstjóri: Kenneth Branagh
Charlton Heston leikur hér lítið en mikilvægt hlutverk, sem leikari í uppsetningu Hamlets á morði föður síns.
Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir besta listrænu leikstjórn, bestu búninga, bestu tónlist og besta handrit byggt á áður útgefnu verki.
7. Tombstone (1993 7.6
Leikstjóri: George P. Cosmatos
Ein af bestu myndunum sem gerðar hafa verið um Wyatt Earp, og þær hafa verið nokkuð margar. Myndin er skreidd frábæru leikaraliði, en Charlton Heston leikur Henry Hooker, bónda sem veitir aðalhetjunum Wyatt Earp (Kurt Russell) og Doc Holiday (Val Kilmer) húsaskjól á flótta þeirra undan illmennum.
6. The Big Country (1958) 7.7
Leikstjóri: William Wyler
Charlton Heston í aukahlutverki sem harður bóndi í villta vestrinu, en Gregory Peck leikur hetju sem þorir að láta kalla sig heigul án þess að vera það.
Burl Ives vann óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki og tilnefnd fyrir bestu tónlistina.
5. The Ten Commandments (1956) 7.9
Lekstjóri: Cecil B. DeMille
Charlton Heston leikur sjálfan Móses. Það að hann skuli hafa verið trúverðugur í hlutverkinu er stórsigur út af fyrir sig.
Vann óskarsverðlaun fyrir bestu tæknibrellur. Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu listrænu leikstjórn, bestu kvikmyndatöku, bestu búningahönnun, bestu klippingu, bestu kvikmynd og bestu hljóðupptöku.
4. Chiefs (1983) 8.1
Leikstjóri: Jerry London
Ekki stórmynd, heldur sjónvarpsþættir. Ég man eftir að hafa séð þá og fannst þeir frábærir. Ég er ekki dómbær á þá í dag, alltof langt liðið. Charlton Heston leikur Hugh Holmes, fyrstan af þremur kynslóðum lögreglustjóra í smábæ sem þarf að takast á við erfið mál.
3. Planet of the Apes (1968) 8.0
Leikstjóri: Franklin J. Schaffner
Charlton Heston leikur geimfara og tímaflakkara sem lendir á Apaplánetunni, er handsamaður af öpunum og þarf að berjast fyrir frelsi sínu og annarra manneskja sem eru í svipaðri aðstöðu. Minnir mig töluvert á ferðasögur Gullivers þar sem hetjan lendir í Hestalandi.
Tilnefnd til óskarsverðlaun fyrir bestu búninga og bestu tónlist. Heiðursóskar fyrir bestu föðrun.
2. Ben-Hur (1959) 8.2
Leikstjóri: William Wyler
Ein af mínum uppáhalds myndum. Charlton Heston leikur Judah Ben-Hur, ríkan gyðing sem svikinn er af rómverskum vini sínum og gerður útlægur. Sagan fjallar ekki bara um hvernig Ben-Hur vinnur sig út úr þrælkun og verður meðal mestu hestvagnaknapa Rómar, sem verður einnig vitni að krossfestingu Krists.
Tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni, en vann óskarinn fyrir besta hljóð, bestu kvikmynd, bestu tónlist, bestu klippingu, bestu tæknibrellur, bestu leikstjórn, bestu búningahönnun, bestu kvikmyndatöku, bestu listrænu leikstjórn, og Hugh Griffith vann óskarinn sem besti leikarinn í aukahlutverki, og Charlton Heston tók óskarinn sem besti leikarinn í aðalhlutverki.
1. A Touch of Evil (1958) 8.4
Leikstjóri: Orson Welles
Charlton Heston leikur mexíkóskan lögreglustjóra sem er nýgiftur bandarískri konu. Hann blandast inn rannsókn á eiturlyfjamáli og morði, og kemst að því að hans mesti andstæðingur er bandarískur lögreglumaður sem hefur slíka ofsatrú á réttlætið að hann gerir allt til að framfylgja því, sama hvað það kostar. Mér finnst þessi mynd ekki jafn mögnuð og Ben-Hur, fyrir utan að hún er heilsteypt, vel leikin og nánast gallalaus mynd.
Myndin kom ekki út í endanlegri útgáfu fyrr en 1998, 40 árum eftir að hún var gerð, vegna valdafólks sem líkaði illa við Orson Welles.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ruglar umburðarlyndið dómgreind okkar?
5.4.2008 | 18:03
Það sem nefnt er og útfært sem umburðarlyndi í dag, þjónar í mörgum áhrifamestu myndum sínum málstað kúgunnar. (Herbert Marcuse)
Undanfarið hef ég verið að fá aukna gagnrýni á greinar mínar. Sumir eru mér sammála í ýmsum málum og aðrir ekki, eins og gengur og gerist. Þegar ég velti fyrir mér helstu gagnrýni síðustu daga virðist hún helst beinast að umburðarlyndi mínu, og þykir það sumum einum of mikið, sérstaklega þegar það er gagnvart öðrum trúarbrögðum, erlendum áhrifum og dómi á manni sem tapaði höfundarréttarmáli.
Reyndar þyki ég hafa sýnt lítið umburðarlyndi gagnvart myndbandinu Fitna sem ég tel vera áróðurstól til þess eins hannað til að æsa múslima til reiði gagnvart þeim sem gerðu myndbandið og til að æsa þá sem ekki reiðast myndbandinu heldur viðbrögðum múslima við því.
Þessi gagnrýni var skemmtilega orðuð í gær af Maríu Kristjánsdóttur þar sem hún gerði athugasemd við grein mína um Hannes Hólmstein og málaferli hans:
"Umburðarlyndi hefur lengi vel verið stærsti kostur íslensku þjóðarinn en ruglar æði oft dómgreind hennar." María Kristjánsdóttir
Þetta finnst mér stórmerkileg fullyrðing og er ekki frá því að það sé heilmikið til í henni og velti fyrir mér hvort að hún sé sönn. Til þess að komast eitthvað nær sannleikanum ætla ég að velta fyrir annars vegar hvað umburðarlyndi er, og hins vegar hvað dómgreind er.
Hvað er umburðarlyndi?
Umburðarlyndi er hugarfar sem maður þarf stundum að beita þegar önnur manneskja eða hópur manneskja hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur. Maður þarf að umbera ýmsar skoðanir sem maður er ekki sáttur við, frekar en að gera þær að eigin eða hafna þeim algjörlega.
Skortur á umburðarlyndi sést til dæmis þegar einn aðili er ekki tilbúinn að hlusta á skoðanir hins, þar sem sá fyrrnefndi er búinn að fullmóta eigin skoðanir og vill því ekki breyta henni sama hvað á gengur. Ef þessi skoðun stangast á við upplýsingar, þá eru það upplýsingarnar sem taldar eru vafasamar frekar en skoðunin sjálf.
Of mikið umburðarlyndi á sér stað þegar engin takmörk eru sett viðurkenndri hegðun eða mannasiðum. Þetta á við þegar einstaklingum eru engin takmörk sett, og þau fá að gera nákvæmlega það sem þau langar til án viðmiðana um almenna hegðun. Dæmi um of mikið umburðarlyndi er þegar fólki sem leggur aðra í einelti er veitt umburðarlyndi, þegar kynferðislegu áreiti er veitt umburðarlyndi eða þegar hvaða viðteknar reglur sem er, eru brotnar og fyrir vikið þarf fólk að þola ónæði eða óþægindi af. Maður ætti til dæmis ekki að sýna innbrotsþjófi heima hjá sér of mikið umburðarlyndi.
Umburðarlyndisfasismi er hins vegar þegar enginn má vera annað en sammála því sem er pólitískt rétt. Fólk sem hrópar á annað fólk fyrir að gagnrýna hjónabönd samkynhneigða, gagnrýna of hraðan innflutnings erlends vinnuafls, og taka afstöðu gegn einhverju sem er viðkvæmt en jafnframt pólitísk rétt að sýna umburðarlyndi gagnvart. Fólk sem vill umbera rétt til fóstureyðinga getur verið kallað umburðarlyndisfasistar af þeim sem eru á þeirri skoðun að fóstureyðingar skuli banna. Oft eru þó þessi uppnefni ónákvæm og háð skoðunum þeim sem notar heitið.
Einhvers staðar mitt á milli skorts á umburðarlyndi og of mikils umburðarlyndis er hægt að finna heilbrigt umburðarlyndi, sem tekur eða tekur ekki afstöðu eftir að hafa skoðað forsendur málanna.
Hvað er dómgreind?
Dómgreind er hæfni til að skera úr um hvað er rétt og hvað er rangt, og meta alvarleika hins ranga athæfis.
Hvaða gildi hefur umburðarlyndi?
Umburðarlynd manneskja gefur öðrum tækifæri til að á þá verði hlustað af dýpt. Til að góð samræða geti farið fram þarf hinn aðilinn einnig að sýna umburðarlyndi. Ef annar aðilinn gerir það ekki, þá stoppar samræðan. Ef annar aðilinn sýnir of mikið umburðarlyndi, þá er viðkomandi líklega ekki að hlusta í raun og veru.
Ég trúi því í minni einfeldni að allir hafi þörf fyrir að þá sé hlustað, að minnsta kosti að einhverju leyti, og meti mikils þegar hlustað er af umburðarlyndi á þeirra dýpstu hugmyndir um hver þau málefni sem geta verið til umfjöllunar hverju sinni.
Hvaða gildi hefur góð dómgreind?
Góð dómgreind gerir einstaklingum fært að velja rétt eða vel þegar þörf er á. Góð dómgreind er gagnleg alla daga, og því virkari sem manneskjan er í starfi eða samskiptum við aðra, því mikilvægara er að dómgreindin sé í góðu lagi.
Getur umburðarlyndur einstaklingur verið með góða dómgreind?
Ég efast ekki um það, því að sá sem dæmir þarf að geta hlustað á ólík viðhorf hvort sem honum líkar þau eða ekki, sett sig í ólík spor og skorið úr um hvað er rétt og rangt. Ég held einmitt að umburðarlyndi sé lykillinn að góðri dómgreind, og líklega er góð dómgreind mjög mikilvæg til að greina úr hvenær umburðarlyndi er við hæfi og hvenær ekki.
Hvort er betra að vera umburðarlyndur hugsunarlaust eða með gagnrýnni hugsun?
Umburðarlyndi er gott ef það er viðhaft við réttar aðstæður, og maður getur aðeins komist að því hvaða aðstæður eru réttar fyrir umburðarlyndi með því að pæla í rökum hvers máls fyrir sig, og velta málinu fyrir sér útfrá eigin gildum. Slíkt mat verður að koma frá hverjum og einum.
Umburðarlyndi og dómgreind eru lykilhugtök þegar um sjálfstæða hugsun er að ræða. Það að ég vilji sýna Hannesi Hólmsteini umburðarlyndi segir sjálfsagt töluvert um mitt eigið gildismat.
Þegar manneskja viðurkennir að hafa brotið af sér, segir að hún hafi ekki áttað sig á af hverju brotið var brot, afsakar það og býðst til að bæta fyrir það af auðmýkt; þá vil ég frekar sýna viðkomandi umburðarlyndi en að dæma hann af hörku. Það er búið að dæma manninn. Ég þarf ekki að gera það líka.
Stórmerkileg umræða um Sesame Street, sem er þáttur sem ætlað er að hafa góð áhrif á börn og kenna þeim umburðarlyndi, en DVD diskarnir með þáttunum eru bannaðir börnum:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Hannes Hólmsteinn: glæpamaður eða tæknileg mistök?
4.4.2008 | 20:38
Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lengi verið umdeildur maður, enda fremsti boðberi frjálshyggjunnar sem ruddi sér leið inn í íslenskt samfélag í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Þó að ég hafi ekki stúderað stjórnmálaspeki af mikilli dýpt, sé ég ekki betur en að þegar hann talar um ríkisfjármál notist hann óspart við þær grundvallarhugmyndir sem fyrst birtust í riti John Rawls: Um Réttlæti. Kannski hef ég rangt fyrir mér, en það litla sem ég hef lesið í því riti fjallar um hvernig skynsamlegra er að auka fjármálafrelsi í hverju ríki því að hinir ríku verða kannski ríkari, en meira fellur af borðum þeirra, þannig að hinir fátækari verða einnig ríkari. Jafn mikilvægt er að ríkið takmarki ekki þetta athafnafrelsi.
Ég er í meginatriðum sáttur við þessa kenningu og finnst hún mun betri en þær sem snúa að meiri stýringu og auðjöfnuði meðal fólks. Samt er spurning hvort að þeir sem notið hafa þessa frelsið hafi farið vel með það. Stóra spurningin er hvort að ríkið skuli skipta sér af þegar athafnafrelsið hefur verið misnotað, og hvernig þá. Ég held að ég skilji af hverju ríkisstjórnin er svona passív þessa dagana, ég held að hún sé að reyna að framfylgja stefnu frjálshyggjunnar og skipta sér sem minnst af athafnalífinu. Aftur á móti held ég að stundum þurfi að skipta sér af, stundum þarf að grípa inn í, það má bara ekki verða að vana.
Ég þekki Hannes ekki af eigin raun, hef aldrei rætt við hann, og hef reyndar aldrei haft sérstakan áhuga á því, fyrr en í gær þegar ég fylgdist með Kastljósþættinum. Þar kom hann mjög vel fyrir, sýndi auðmýkt, viðurkenndi sekt sína og lofaði að bæta fyrir hana. Hannes Hólmsteinn Gissurarson fær stóran plús í minn kladda eftir þessa frammistöðu. Ég hef heyrt fólk sem þekkir hann ekki af raun tala um að þar fari hrokafullur maður sem hlusti ekki á þá sem eru ósammála honum.
Hrokafulla yfirstéttarmanneskju sá ég ekki, og hef ekki séð þegar hann hefur borið á góma í fjölmiðlum eða í hans ritum. Hins vegar vottar fyrir töluverðu sjálfsöryggi - sem ég myndi frekar kalla dygð en löst. Ef hann hefur einhvern tíma verið hrokafullur, þá sýndi hann það ekki núna.
Hannes hefur sterkar skoðanir og fylgir þeim eftir. Hann hefur stundum rangt fyrir sér og fer stundum of geyst. Þannig er farið með alla einstaklinga í þessum heimi sem gera eitthvað af viti. Munurinn er kannski sá að Hannes Hólmsteinn þorir að segja það sem hann er að hugsa, og margt af því sem ég hef séð hann hugsa (lesið eftir hann) er bara nokkuð flott.
Þegar talað er um Hannes Hólmstein og dómsmálin, þá get ég ekki annað séð en að hann sé fórnarlambið í þessum málum báðum. Í ákærumálinu á Englandi er honum stillt upp við vegg og bundinn inn í gaddavírsgirðingu fyrir grein sem birtist eftir hann á netinu, reyndar á ensku. Þýðir það að greinar sem skrifaðar eru á ensku eru ákæranlegar frá Englandi, bara vegna tungumálsins?
Þýðir þetta að þegar komin eru á markað nógu þróuð forrit sem geta þýtt greinar beint af íslenskum vefsíðum yfir á ensku, að hægt verði að ákæra þá sem skrifuðu greinarnar hvaðan sem er í heiminum? Getur slíkt nokkurn tíma gengið upp?
Hann er ekki kærður eftir íslenskum lögum, heldur enskum, sem mér finnst svolítið merkileg firra. Mér er sama hversu slæma hluti Hannes hefur skrifað í þessari grein. Aðförin að honum er hinn sanni glæpur. Það er spurning hvort að rétt væri fyrir hann að leita álits mannréttindardómstóls Sameinuðu Þjóðanna.
Um það að nota frásagnir Halldórs Laxness um eigin æsku í bók um Halldór Laxness, að miklu leyti óbreyttar: Ég er ekkert viss um að ég hefði ekki fallið í sömu gryfju sjálfur, þar sem ég hefði varla talið að efni æskuminninga Halldórs væri höfundarréttarvarið. Ég veit reyndar ekki hversu mikið Hannes sjálfur kom að útgáfu bókarinnar, en kannast við að hann hafi verið með starfsmenn á launum hjá sér í heimildarleit og fræðilegum samantektum. Mér finnst merkilegt að Hannes skuli taka á sig alla sökina, og ekki kenna neinum af starfsmönnum um það sem illa fór. Minni sálir hefðu sjálfsagt stokkið á tækifæri til þess.
Sérstaklega fannst mér glæsilegt hjá Hannesi þegar hann tjáði að hann hefði engan raunverulegan skaða hlotið af þessu máli, enda hafi hann fylgt sinni sannfæringu og ekki brotið gegn henni, og þó að hann tapi peningum hafi hann ekki tapað sínum heilindum. Stórglæsilegt!
Sama hvaða mannkosti eða galla Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur að geyma, þá sé ég þessi brot sem ekki annað en tæknileg mistök, og mér finnst flott hjá honum að ætla að endurútgefa fyrsta bindið til að leiðrétta þau. Það er ljóst að Hannes braut höfundarréttarlög, það er einnig ljóst að hann taldi sig ekki vera að gera það, og að hann hefur af auðmýkt viðurkennt eigin sekt og lofað að bæta þann skaða sem hann hefur valdið. Frá mínu sjónarhorni séð er skaðinn sem hann hefur valdið nákvæmlega enginn. Réttlátur dómur að mínu mati hefði verið að krefja Hannes til að leiðrétta mistök sín og í mesta lagi borga eigin málskostnað. Ekki meira. Dómurinn yfir honum er of harður á meðan alvöru glæpamenn ganga lausir um landið og er sleppt úr haldi þrátt fyrir að þeir geti hugsanlega verið hættulegir öðru fólki.
Að mínu mati skaðar Hannes Hólmsteinn ekki orðspor Háskóla Íslands með þessu máli, heldur styrkir hann vegna framkomu sem sýnir að maðurinn er sannur fagmaður og heill í gegn. Allir gera einhvern tíma mistök. Allir. Ekki allir eru tilbúnir að horfast í augu við þau og gera sitt besta til að leiðrétta þau.Anna Karen skrifaði ágætan pistil í dag um og lét skemmtilegt myndband frá Pet Shop Boys fylgja með. Gullkornið í grein hennar var þetta:
"Vinkona mín sagði sko fyrir mörgum árum að hún gæti ekki annað en vorkennt Hannesi Hólmsteini þegar hún sæi hann uppí Háskóla. Hann virtist alltaf eitthvað svo leiður og niðurlútur, ég sá það líka, einsog hann væri með heiminn á herðum sér (þetta var þegar fyrsta dómsmálið var í algleymingi og hitt rétt að byrja). Þegar hún sagði þetta kom það mér samt á óvart því hún er svo mikil vinstrimanneskja, en gott og vel, ég þjáist af manngæsku líka og kinkaði bara kolli, hálf skoðanalaus þó." (Anna Karen)
Að lokum vil ég óska Hannesi og hans fjölskyldu alls hins besta og vona að eftir standi enn sterkari fræðimaður, rithöfundur og manneskja, því þeir erfiðleikar sem drepa ekki, þeir gera mann aðeins sterkari.
Hvaða rétt höfum við til að fordæma Hannes Hólmstein Gissurarson sem ótýndan glæpamann?
Stutt teiknimynd um réttlæti:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn?
4.4.2008 | 08:57
Þegar Davíð Oddsson var við völd virðist hann sífellt hafa verið með nýjar og skemmtilegar hugmyndir í gangi. Eins og gengur og gerist voru sumar þeirra slæmar, aðrar góðar og einstaka algjör snilld. Þegar leið á valdatíðina virðist hugmyndaflæðið hafa minnkað, og í stað þess að vera frumkvöðull, fór Davíð og hans flokkur að bregðast við áreiti með svolítið sérstakri taktík.
Fyrst var engu svarað. Beðið var rétta augnabliksins og þá komið með svar sem átti að falla vel í kramið. Þetta hefur gengið eftir og Sjálfstæðisflokkurinn sigrað í hverjum kosningunum á fætur öðrum.
Geir Haarde varð formaður sjálfstæðisflokksins og sjálfkrafa formaður. Hann virðist bara vera allt öðru vísi týpa en Davíð og hefur sjálfsagt lagt ákveðnar línur fyrir ráðherralið sitt. Ég efast um að þetta séu línur sem vinna flokknum atkvæði í næstu kosningum.
Atriði sem hafa hreinlega hneykslað mig, og það er ekki auðvelt að hneyksla mig:
1. Hinn ágæti þingmaður Árni Johnsen veitt uppreist æru eftir að hann þurfti að dúsa í fangelsi fyrir tæknileg mistök í starfi. En Árni fór á sakaskrá fyrir glæp í opinberu starfi, og var síðan hreinsaður af henni af félögum sínum. Hvað segir það um félaga hans?
2. Hinn ágæti ráðherra Árni M. Matthiesen gengur í starf dómsmálaráðherra til að veita hinum ágæta lögfræðingi og góðu manneskju Þorsteini Davíðssyni starf sem héraðsdómari, en Þorsteinn var valinn þó að nokkrir umsækjendur hafi verið metnir hæfari en hann til að gegna starfinu. Þetta þótti Árna eðlilegt og val hans var varið af ýmsum flokksbræðrum hans, sem segir ýmislegt um þá, miður gott því miður.
3. Fólkið í landinu hrópar á hjálp fyrir utan kastala ríkisstjórnarinnar. Atvinnubílstjórar gerast riddarar og ganga frammi skjöldu og eru orðnir að trúverðugri fulltrúum fyrir almenning heldur en ríkisstjórnin sjálf, þrátt fyrir að valda almenningi töluverðum óþægindum í umferðinni. Þeir eru reiðir því að þeim finnst ekki hlustað á fólkið í landinu. Reyndar hefur samgönguráðherra, sem er í samfylkingunni, samþykkt að ganga á fund með þeim og virðist opinn fyrir að hlusta á fólkið, en ráðherrar úr sjálfstæðisflokknum virðast hins vegar loka sig af og lítið þora að gera.
Ég hef ákveðna kenningu um hvað er í gangi. Ég held að óheilindin sem dæmi 1 og 2 eru dæmi um séu að brjótast út sem óvirkni í dæmi 3. Sjálfstraust ráðherra fer dvínandi, þeir eru hættir að trúa á sjálfa sig, því þeir hafa týnt þeim gildum sem halda þeim í jarðsambandi, tengdum fólkinu sem þeir eiga að starfa fyrir.
Þegar völdin koma ekki frá hjartanu, heldur reiða sífellt á nefndarálitum og fræðilegum athugunum, sem hvort eð er þarf ekki að taka mark á, eins og settur dómsmálaráðherra sýndi við ráðningu héraðsdómara, þá er það einfaldlega merki um að stórveldið sé að hruni komið.
Ég er sífellt sáttari við einstaka ráðherra samfylkingarinnar. Samgönguráðherra og viðskiptaráðherra virðast vera með hjartað á réttum stað, svo og iðnaðarráðherra, maður sem þorir að tala þegar aðrir segja honum að þegja - og ég vona svo sannarlega að hann láti ekki þagga niður í sér með hræðsluáróðri. Hins vegar heyri ég ekkert frá félagsmálaráðherra og sýnist því formaður flokksins því miður vera alveg úti á þekju, og bregðast við í anda sjálfstæðismanna.
Þetta eru bara málin eins og ég sé þau frá mínu takmarkaða sjónarhorni. Ég tel verkin segja miklu meira en nokkur orð, og að dæma skuli árangur eftir verkum, en ekki eftir umsögnum.
Það er söknuður að manni eins og Davíð Oddsson var á fyrri hluta stjórnmálaferils síns. Hann sýndi mikinn drifkraft og hafði oft frumkvæði. Hann starfaði af miklum heilindum fyrir þjóðina og á mikið hrós skilið. Einnig í lokin, þegar hann sá að þetta var ekki lengur að ganga upp, þá hætti hann störfum sem stjórnmálamaður og snéri sér að öðru, í stað þess að þrjóskast í starfinu, nokkuð sem hefði einfaldlega skaðað meira út frá sér.
En svona er staðan í dag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í mínum huga tapað trúverðugleika sínum, og þetta er flokkur sem ég hef kosið til valda. Samfylkinguna vantar leiðtoga sem þorir að sýna frumkvæði, því að einhver þarf að gera það. Það hrikalega er að fólkið í landinu fær ekki einu sinni viðbrögð.
Málið er að til að geta sýnt frumkvæði þarftu að búa yfir heilindum, þarft að bregðast við þegar vandi steðjar að, og hafa hugrekki til að sýna frumkvæði, en slíku hugrekki má samt ekki rugla við fífldirfsku.
Hinar fjóru víddir krefjandi hugsunar þurfa einnig að vera í lagi og vinna saman fyrir góðan og virkan stjórnmálamann: gagnrýnin hugsun (critical thinking), skapandi hugsun (creative thinking), umhyggja (caring thinking) og margbrotin hugsun (complex thinking).
Spurning um að taka landvættirnar sér til fyrirmyndar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði?
3.4.2008 | 22:48
Sá sem sýnir frumkvæði er ekki háður aðstæðum eða samstarfsfólki, heldur gerir hann aðstæður og samstarfsfólk smám saman háð hans góða frumkvæði, þar til að viðkomandi verður loks ómissandi.
Fyrsti ávaninn í bók Stephen R. Covey, The Seven Habits of Highly Effective People fjallar um mikilvægi þess að sýna frumkvæði. Ekki bara endrum og eins, heldur gera þetta að ávana.
Fyrst aðeins um ávana. Við höfum heyrt um ávanabindandi fíkniefni, að reykingar og drykkja sé slæmur ávani, að maður venjist á að bursta tennurnar kvölds og morgna og sleppi maður því líði manni illa.
Ávani er einmitt það að temja sér einhverja hegðun þar til að óþægilegt verður að framkvæma hana ekki. Þegar reynt er að hætta einhverjum ávana, reynist það flestum gífurlega erfitt nema þeir finni sér einhvern annan ávana í staðinn.
Til eru kenningar um að reykingar séu tengdar þörf okkar frá því við vorum nýfædd til að sjúga brjóstamjólk, að sumir þurfa einfaldlega alltaf eitthvað áreiti við varir sínar. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta.
Að temja sér nýjan ávana er þannig í raun og veru að skipta út einhverju sem maður gerir af eðlishvöt yfir í eitthvað sem er líklegra til að skila meiri árangri. Ávaninn sem frumkvæðið sprettur úr er sá ávani sem margir tileinka sér, að bregðast við. Þeir sem bregðast ekki við neinu eru einfaldlega óvirkir og þurfa að hugsa sinn gang.
Sá sem bregst vel við orðum, athöfnum og aðstæðum getur verið öflugur starfsmaður og viðbragðsfljótur. Hann hefur vanið sig á góð viðbrögð og hefur áunnið sér þjónustulund. Þjónustulundin snýst um að bregðast við áreiti, og leysa málin með jafnaðargeði.
En svo kemur að því að einstaklingurinn uppgötvar að til er ávani sem getur skilað meiri árangri en viðbragðsflýtirinn, og það er að venja sig á að sýna frumkvæði. Sá sem sýnir frumkvæði er uppspretta nýrra hugmynda sem getur skilað miklu til samstarfsfélaga og viðskiptavina þannig að stofnunin eða fyrirtækið sem viðkomandi starfar hjá mun njóta vaxtar í formi nýsköpunar.
Ef við köfum aðeins dýpra í hugmyndina um tengslin á milli viðbragða og frumkvæðis, þá getum við séð að viðbrögðin eru endurvarp hugmynda sem eru gripin og síðan unnið með, á meðan frumkvæðið er uppspretta áreitis sem síðan verður unnið með. Ekki allar nýjar hugmyndir eru góðar, en ef við fylgjum 80-20 reglunni, má reikna með að ef maður venur sig á frumkvæði og að búa til eitthvað nýtt, þá munu gullkorn birtast inn á milli sem hægt er að vinna meira með.
En til þess að alvöru gullstöng verði til, þarf viðkomandi einstaklingur að vera heiðarlegur og umhyggjusamur, og tilbúinn til að gefa af sér þrátt fyrir að það geti verið erfitt að horfa á eftir eigin hugmyndum hverfa í annarra hendur. En á endanum skilar þetta sér, því að sá sem sýnir frumkvæði er að framkvæma í samræmi við eigin vilja, og sé viðkomandi heilsteyptur einstaklingur getur ekki annað en gott komið frá þessum vilja, sem á endanum mun skila sér í einhverju nýju og einhverju sem hægt er að byggja á.
Þetta er leiðin í rétta átt, en rétt eins og golfsveifluna þarf að þjálfa þennan hæfileika til að sýna frumkvæði þar til hann verður að ávana.
Myndband um frjálsan vilja úr einni bestu heimspekilegu kvikmynd sem gerð hefur verið, Waking Life:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvernig kemstu ofarlega á vinsældarlista bloggsins?
3.4.2008 | 08:48
Fyrir rúmri viku síðan ákvað ég að reyna við vinsældarlistann á blog.is. Skrif mín myndu ekki endilega snúast um það sem mér sjálfum finnst skemmtilegast að skrifa um: kvikmyndir, heldur ætlaði ég að leita eftir áhugaverðum vinklum á ólíkum málefnum.
Ég ákvað að takmarka mig við að skrifa ekki fleiri en tvær greinar á dag, og skipti ekki máli hvort þær væru fréttatengdar eða ekki.
Hugmyndin var að veiða lesendur með góðri fyrirsögn og leiða síðan áfram með auðlesanlegum stíl þar sem hugmyndum mínum er komið skýrt fram, án þess að skreyta þær of mikið með orðskrúði.
Ég var í grundvallaratriðum að velta fyrir mér hvort að maður öðlaðist vinsældir ef maður hefði sig eftir þeim. Niðurstaða mín er að sú sé raunin.
Það getur verið erfitt að skrifa texta um málefni sem maður hefur ekki lesið um en eru áhugaverð, og það fer smá tími í rannsóknir og pælingar, og svo þarf maður alltaf að huga að heilbrigðri skynsemi við skriftirnar. Ég passa mig á að geta rökstutt mínar skoðanir, og þegar ég hef ekki gert það hefur það verið vegna fljótfærni, og þá eru meiri líkur á að ég hafi rangt fyrir mér í viðkomandi máli.
En viðhorf mitt til svona skoðanagreina eins og ég hef verið að skrifa er frekar einfaldur: annað hvort hef ég rétt fyrir mér eða þá að hið sanna kemur í ljós. Ég reyni ekki að vera hlutlaus í mínum skrifum, heldur reyni ég að átta mig á málunum frá eins mörgum sjónarhornum og ég get ímyndað mér. Ef ég skrifaði bara frá eigin sjónarhorni væri lítið varið í þessar greinar, þær væru bundnar mínum eigin vanhugsuðu fordómum og yfirsjónum. Síðan skrifa ég út frá því sjónarhorni sem mér finnst áhugaverðast og mest krefjandi í viðkomandi máli.
Til dæmis, þegar ég skrifa um áróður gegn múslimum, um efnahagsástandið á Íslandi, þá reyni ég fyrst að fókusera á þá aðila sem gætu orðið fyrir mestum áhrifum vegna málsins. Í greinunum um áróður gegn múslimum eru þeir sem verða fyrir mestu áhrifunum saklaust fólk sem tekið er fyrir öfgafólk og mögulegar sjálfsmorðssprengjur, í þjóðfélagsgreinunum verður mér oft hugsað til gleymdu Íslendinganna sem hafa fórnað mörgum árum í námi erlendis með þeirri ætlun að koma aftur heim, og gefa af sér til þjóðarinnar, en geta það ekki vegna rándýrs húsnæðis.
Ég reyni að finna vandamál sem mér sýnast raunveruleg, reyni að setja mig inn í málið, og skrifa svo. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvernig sumt fólk ver sýnar skoðanir með kjafti og klóm, og er sama hvort það noti rök eða rökþrot til þess. Af einhverjum undarlegum ástæðum er mikilvægara fyrir sumt fólk að kaffæra aðra með eigin skoðunum, heldur en að kryfja sannleika málsins.
Þessi tilraun hefur tekist ágætlega. Í gær komst ég í 11. sætið á blog.is. Ég læt mér það duga, og reikna með að skrifa hér eftir aðeins um það sem mér finnst skemmtilegt, en ef eitthvað mál kveikir virkilega í mér og mér finnst umfjöllun vanta um það, þá getur vel verið að ég dembi mér út í djúpu laugina aftur.
Reyndar hef ég alltaf haft gaman af því að skrifa, og hef skrifað nánast látlaust í 18 ár. Flest hefur samt farið ofan í skúffu, og svo glataðist megnið af því sem ég hef komið á blað gegnum árin í flutningum, fellibyl og flóði. Blog.is hefur gefið mér tækifæri til að skrifa eitthvað sem er lesið, frekar en að hverfa ofan í skúffu og sjást aldrei meir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hverjar eru hinar 7 venjur áhrifaríkra einstaklinga?
2.4.2008 | 23:33
Í dag lauk ég lestri hinnar hörkugóðu bókar: "The 7 Habits of Highly Effective People," eftir Stephen R. Covey. Ég fékk heilmikið út úr henni, en hún er stútfull af heilbrigðri skynsemi um hversdagsleg málefni, sem hægt er að yfirfæra á hvernig maður vinnur sín störf, hefur samskipti við annað fólk, og gefur vísbendingar um leiðir sem hægt er að fara til að láta gott af sér leiða.
Þetta er einstaklega skemmtilegur lestur. Dæmin eru skýr og lifandi, og vekja mann til umhugsunar. Textinn er fullur af leiftrandi húmor og aðstæðum sem maður kannast alltof vel við, og sér í nýju ljósi eftir pælingar Covey.
Áður en fjallað er um venjurnar sjö lýsir Covey undirstöðuatriðum sem þarf að framfylgja til að skapa sér slíkar venjur. En undirstaðan er sú að vera heilsteyptur og heiðarlegur einstaklingur, sem er einnig sveigjanlegur og tilbúinn til að læra nýja hluti.
Næsti hluti bókarinnar fjallar um persónulega sigra, sem tengjast því hvernig maður vinnur sig upp úr því ástandi að þurfa sífellt að treysta á aðra til að koma hlutunum í verk, og kemst síðan á stig þar sem þú getur treyst á sjálfan þig til þess, og leiða þig að mikilvægasta stiginu, sem fjallað er um í næsta hluta, en það er þegar þú getur treyst á aðra og aðrir geta treyst á þig. Venjurnar sem fjallað er um í þessum kafla eru:
Venja 1: Sýndu frumkvæði
Venja 2: Byrjaðu með markmið í huga
Venja 3: Forgangsraðaðu
Þriðji hluti bókarinnar fjallar um opinbera sigra sem leiða til gagnkvæms og trausts samstarfs:
Venja 4: Hugsaðu um sigur fyrir allra
Venja 5: Reyndu fyrst að skilja, reyndu síðan að gera þig skiljanlega(n)
Venja 6: Bættu samstarfið
Síðasti hlutinn fjallar svo um það hvernig maður bætir sjálfan sig með aukinni þjálfun og menntun:
Venja 7: Brýndu vopnin
Mig langar pæla í þessum sjö venjum næstu daga, og blogga um þær, eina í einu. Þannig get ég kannski deilt með lesendum mínum því sem mér fannst lærdómsríkt við þessa bók.
Bloggar | Breytt 3.4.2008 kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)