Getur bloggið hjálpað þér að mynda góðar og fordómalausar skoðanir?

Blogg er í eðli sínu samskiptaform þar sem fólk skiptist á hugmyndum. Blogg geta verið persónuleg, skáldleg, fyndin, fróðleg, heimskuleg, slúður, bölsýnisspár, og þannig fram eftir götunum. Ég lít hins vegar á bloggið sem fyrirtaks tækifæri fyrir gagnrýna hugsun þar sem tekið er á málum líðandi stundar.

Blogg getur með athugasemdarkerfinu náð meiri dýpt í samskiptum en flestir aðrir netmiðlar. Þetta finnst mér spennandi og mig langar til að prófa mig áfram á þessum vettvangi.

newspapers

Við getum í raun skipt öllu bloggi í tvo flokka: afþreyingu og fróðleik. Þegar vel heppnast til eru greinar einhvers staðar þarna á milli. Afþreyingin krefst yfirleitt ekki krefjandi hugsunar. Maður les sumar bloggsíður sér til skemmtunar, og það er í góðu lagi, en maður lærir seint eitthvað af því. Oft spyr ég mig hvort að fréttir séu fróðleikur eða afþreying, og upp á síðkastið hef ég hallast að því síðarnefnda. 

En svo eru blogg sem fá mann til að hugsa. Þau krefjast þess af manni að maður sjái hlutina í nýju ljósi, og benda hugsanlega á nýjar hliðar sem maður hafði aldrei gert sér í hugarlund áður. Ef maður tekur virkan þátt í slíku bloggi og skrifar athugasemdir við slíkt, eða skrifar slíkt blogg, þá er maður kominn í lærdómsferli sem getur skilað ríkulega af sér.

Mig langar í þessu samhengi að minnast á flokkun Blooms á því hvernig þekking verður til. Sumir halda hugsanlega að nóg sé að heyra eða lesa um staðreyndir og þá hafi maður öðlast þekkingu. Og það er satt. En þekking á staðreyndum er ekki nóg til þess að maður myndi sér skoðun.

1. ÞEKKING

Málið er að þekking er aðeins fyrsta skrefið í átt að myndun góðrar skoðunar. Til dæmis heyrirðu í fréttum að bandaríska flugvallareftirlitið hafi bannað notkun á fjölmörgum flugvélum vegna hönnunargalla. Ef þú dregur strax ályktun, án umhugsunar, þá ertu á rangri leið. Skoðunin sem þú hefur myndað er ekki nákvæm og mun fljótt hverfa sem gagnlaust fyrirbæri sem enginn græðir nokkuð á. Birtist skoðunin aftur, er ekkert ólíklegt að hún verði að einhverju leyti í formi fordóma.

 

2. SKILNINGUR 

Annað skrefið í góðri skoðunarmyndun er skilningur. Ef þú skilur forsendur málsins og áttar þig á hvers vegna flugvélarnar voru settar í bann, þá ertu líklegri til að mynda þér góða skoðun. En það er samt ekki nóg. 

3. NÝTING

Þriðja skrefið snýst um nýtingu þekkingarinnar. Hvernig geturðu nýtt þá þekkingu að ákveðin flugvélategund var sett í bann? Ein möguleg nýting er að setja sér þá reglu að vanda eigin störf, því að óvönduð vinna getur valdið miklum skaða. Eða maður gæti athugað hvort að flugvél sem að maður ætlar að ferðast með í náinni framtíð sé af sömu tegund, og athuga þá hvort að tekið hafi verið á gallanum í þeirri vel.

 

4. RANNSÓKN 

Fjórða skrefið snýst um að rannsaka málið betur. Getur verið að flugvélarnar hafi verið settar í bann af öðrum ástæðum en framleiðslugalla? Getur verið að einhverjum hagsmunaaðila hafi einfaldlega ekki verið greiddar nógar upphæðir, og því hafi vélarnar ekki staðist skoðun? Hvernig stendur á svona framleiðslugalla, er fyrirtækið sem framleiðir flugvélarnar með vanhæft starfsfólk, gallaðar starfsreglur, eða kannski stefnulausa stjórnun? 

5. SAMANTEKT 

Fimmta skrefið snýst um að gera samantekt um það sem maður hefur lært af skrefum 1-4. Getur maður gert áætlun um hvernig hægt er að bæta ástandið? Getur maður eitthvað lært af þessu sjálfur? Um hvað snýst málið í raun og veru?

 

6. MAT

Eftir að hafa gengið í gegnum þetta ferli af heilindum og með smá rannsóknarvinnu getur maður loks myndað sér skoðun sem er líkleg til að vera rétt.  Það gerir maður með því að meta málið, leggja dóm á það, orða það eða skrá. 

Þetta geturðu gert með því að blogga um fréttir. Þú getur myndað þér skoðun byggða á þeirri þekkingu sem fréttin veitir þér. Fréttin er betri eftir því sem að hún gefur hugsunum þínum meiri næringu til að þekkja, skilja, nýta, rannsaka, taka saman og meta hvert mál.  

Dilbert um gagnrýna hugsun:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Skemmtileg færsla hjá þér og þakka þér fyrir hana.

Hélt að þetta væri bara bull allsaman sem væri á bloggi, og þegar ég lærði að blogga fyrir 2 mánuðum síðan, sá ég smátt og smátt að þú hefur svo sannarlega rétt fyrir þér í þessum pistli.

Að vísu hef ég talað ruddalegt "togaramál" allan tíman í bloggi um valdamenn, mæti góðu fólki með góðmennsku, því ég er það raunverulega. 

Lifði í þeirri trú að mótmæli bloggista væri eitthvað sem engin tæki mark á. Hef eignast góða vini á blogginu og lærði að treysta nokkrum. Ekki það einfaldasta fyrir mig.

Enn að lokum varð þetta eins og skóli fyrir mig, opnaði nýja heima og kom af stað betri hugsunum hjá mér en ég hef haft lengi.

þetta var eins og að fara í endurmenntun og mér veitti svo sannarlega ekki af. Fæ hól og krítik til skiptis, nákvæmlega eins og í skólanum í gamla daga.,,Trúi lýsingu þinni á sjálfum þér og trúi ekki öllum..   

Óskar Arnórsson, 9.4.2008 kl. 23:55

2 Smámynd: Ómar Ingi

Góður Don

Ómar Ingi, 9.4.2008 kl. 23:59

3 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Þessi færsla er snilld.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 10.4.2008 kl. 00:15

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Snilldarleg greining hjá þér og skemmtilega framsett

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.4.2008 kl. 00:46

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góð færsla.

Hólmdís Hjartardóttir, 10.4.2008 kl. 02:18

6 Smámynd: halkatla

með því að skrifa um fræðandi og skemmtileg blogg tókst þér að skrifa eitt slíkt  

halkatla, 10.4.2008 kl. 13:22

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar. Ég bara roðna næstum af monti.

Hrannar Baldursson, 10.4.2008 kl. 13:24

8 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Góðir púnktar.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.4.2008 kl. 13:54

9 Smámynd: Evil monkey

Já, flott grein hjá þér

Evil monkey, 10.4.2008 kl. 21:25

10 Smámynd: Anna

Góður pistill - þú klikkar ekkert frekar en vanalega  

Anna, 10.4.2008 kl. 22:50

11 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Snilldarfærsla að vanda Hrannar. Get fallist á strumpagreininguna þína

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 10.4.2008 kl. 23:02

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir pistilinn.

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.4.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband