Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota?
2.4.2008 | 08:48
VERULEIKINN
Skilaboðin til fólksins í landinu eru vægast sagt vafasöm. Seðlabankastjóri talar einn daginn um að innlendir aðilar hafa valdið gengisfellingu með spákaupmennsku sem þeir hafa hagnast gríðarlega á. Semsagt bankarán framkvæmt af Íslendingum. Næsta dag talar hann um að erlendir fjárglæframenn hafi verið að gera árás á krónuna. Semsagt bankarán framkvæmt af erlendum aðilum.
Gárungar segja að ástæðan fyrir þessari miklu gengisfellingu var einfaldlega sú að íslensku bankarnir tóku sér allir gífurlega mikinn gjaldeyri í Evrum á sama tíma og með því sviptu þeir teppinu undan íslensku krónunni.
Næstu helgi á eftir birtist fjármálaráðherra sjálfur í Silfri Egils. Hann er spurður um þessi mál, og hans svar er að ef bankarnir lenda í erfiðleikum, þá mun íslenska Ríkið taka lán til að bjarga þeim. Eins og allir vita er íslenska Ríkið ekkert annað en sameign íslensku þjóðarinnar. Meðal annars mín. Ég er mjög ósáttur við það ef bankarnir hafa sinnt ábyrgð sinni illa, að í stað þess að málin séu rannsökuð strax ofan í kjölinn, eru þau þöguð í hel og fullyrt að ef íslenskur banki að íslenska þjóðin komi þeim til bjargar. En athugið, íslenskir bankar eru ekki ríkisreknir!
En hvað ef íslenska þjóðin getur ekki meira?
Ég veit til þess að íslenskir námsmenn erlendis eru ekki að koma aftur heim vegna gífurlega mikils kostnaðar við íbúðarkaup og þar sem lánin á Íslandi eru óhagstæð í samanburði við það sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu. Ég veit líka af fólki sem er að flytja erlendis þessa dagana einfaldlega vegna þess að það einfaldlega getur ekki búið á Íslandi - leiga á íbúðum er of dýr miðað við laun, og of erfitt er að kaupa sér nýja fasteign, meðal annars vegna stimpilgjalda. Ég þekki engan gífurlegan fjölda af fólki, og velti fyrir mér hvort að þetta geti verið alvöru vandi.
Ef við missum fólk úr landi sem hefur lokið háskólanámi, erum við að missa mannauð sem skapað getur Íslendingum margfalt fleiri tækifæri en nokkur íslenskur banka- eða stjórnmálamaður getur ímyndað sér. Við megum ekki missa þetta fólk í burtu - en það eru sumir að fara og aðrir farnir. Að missa eina vel menntaða manneskju af slíkri ástæðu er einni manneskju of mikið.
Ég vil reyndar hrósa Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að leggja fram frumvarp í gær til niðurfellingar stimpilgjalda fyrir kaupum á fyrstu íbúð. Mér finnst þetta frumvarp samt ekki ganga nógu langt, finnst að fella ætti niður öll stimpilgjöld strax, og uppgreiðslukostnað lána að auki, en veit að ekki er hægt að gleypa heilan fíl í einum bita og er sáttur við að Björgvin er þó að reyna þetta. Hann er eina röddin í ráðherrahópnum sem ég heyri að vinnur með fólkinu í landinu. Kannski eru fleiri að gera það, ég heyri bara ekkert í þeim.
Íslenska þjóðin er skuldum vafin. Gjaldmiðill okkar hefur hrunið. Dýrmætur mannauður er að hverfa úr landi. Ríkið gerir ekki neitt af viti, eins og fram kemur í mjög góðri grein Vilhjálms Þorsteinssonar Geir gerir ekki neitt.
Þetta er staðan eins og ég sé hana í dag. Ég er tilbúinn að hlusta á þá sem sjá málið í öðru ljósi og geta útskýrt hvernig mynd mín er skökk. Hins vegar sætti ég mig ekki við að rökþrotum verði beitt.
Athugið að ég hef engra pólitískra hagsmuna að gæta. Ég er bara ósköp venjulegur Íslendingur sem þykir vænt um Ísland og framtíð hennar.
DYSTÓPÍAN
Nú ætla ég að draga upp svörtustu mynd sem ég sé fyrir mér, og trúi reyndar ekki að til hennar komi, því að við erum svo flott og skynsöm, en ef Ísland verður gjaldþrota, þá missum við sjálfstæði okkar. Við ráðum engu um inngöngu í Evrópusambandið. Barátta fyrir jafnrétti kvenna og karla mætir afgangi. Lúxusbílum fækkar. Ferðalög til erlendra landa: fjarlægur draumur. Við berjumst við að komast af, í stað þess að lifa lífinu vel. Skólakerfið rústir einar. Fáir hafa efni á lyfjum og læknisþjónustu. Berklar taka sig upp á nýjan leik.
Getum við ímyndað okkur íslenskt samfélag sem einkennist af eymd og aumingjaskap, fátækt og ofríki, heilsuleysi og valdníðslu? Þannig var Ísland fyrir rúmri hálfri öld. Viljum við snúa aftur til fortíðar? Hún er kannski ekki jafn fjarlæg og við höldum.
Erum við ofarlega í ísbrekku, reynum að klóra í bakkann en getum ekki stoppað okkur frá því að renna alla leið á botninn? Eða er til staðar eitthvað tæki, eitthvað eins og íshaki sem getur stoppað þetta fall og með átaki hjálpað okkur að stefna upp á við að nýju?
HVERT STEFNUM VIÐ?
Látum ekki koma til dystópíu, þar sem framtíðin er svört. Okkur sárvantar viðbrögð frá ríkisstjórninni, þó svo ekki væri nema táknræn. Í augnablikinu hef ég á tilfinningunni að ríkisstjórninni sé nokk sama um fólkið í landinu. Það er ekki góð tilfinning, en tilfinning sem auðvelt er að snúa upp í þakklæti og velvilja ef vel er haldið á spöðunum.
Íslenska Ríkið er nefnilega skuldlaust. Það hefur efni á því að lækka skatta á fólkið í landinu. Hins vegar tel ég beinlínis rangt af ríkinu og óréttlátt, og sýna mikið dómgreindarleysi, að lofa bönkum stuðningi og láta fólkið mæta afgangi, því að við fólkið, við erum undirstaða bæði bankanna og ríkisins. Ef við föllum, fellur ríkið og bankarnir líka, nema einhverjir fáir komast hugsanlega undan með auðævi og lifa hamingjusamir, eða réttara sagt farsælir, til æviloka í fjarlægum sólarlöndum.
STAÐAN 2. APRÍL 2008
Allar vörur að hækka um 10-30% á meðan laun standa í stað. Afborganir á bílalánum tekin í erlendri mynt að hækka um 30% á mánuði. Það þýðir að lán sem var kr. 15.000 um áramót er um kr. 20.000 í dag, og heildarlánið þá hugsanlega breyst úr 1.5 milljón í 2 milljónir. Húsnæðislánin hækka að sama skapi, erlend lán meira en þau verðtryggðu, en öll lán hækka, bæði fyrir eigendur þeirra og skuldendur.
Þannig að kannski er ástandið bara fínt fyrir þá sem eiga, en bara erfitt fyrir þá sem skulda? Er þá ekki bara allt í sómanum?
Allar myndir í þessari grein hafa tengil í upprunalega vefsíðu. Hægrismellið á myndina og veljið properties til að rekja slóðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hvernig getur aprílgabb verið sorglegt, djúpt eða fyndið?
1.4.2008 | 21:49
SORGLEGT GABB
Ég er hrifnari af góðlátlegu gríni heldur en gríni með grimmd. Til dæmis fór ég í hálfgerða fýlu út af aprílgabbi mbl.is um niðurhal á kvikmyndum, því að niðurhal á glænýjum kvikmyndum er mögulegt víðs vegar um heiminn, bara ekki á Íslandi.
Það er til dæmis hægt að kaupa kvikmyndir á iTunes.com hafirðu bandarískt kreditkort, og sömuleiðis er hægt að kaupa kvikmyndir frá amazon.com og hala þeim niður sértu staðsettur í Bandaríkjunum eða í þeim löndum sem hafa gert samning um að gera þetta mögulegt.
Mér fannst Google grín mbl.is hins vegar nokkuð gott. Ég held að það gæti nefnilega komið sér ansi vel að geta sent tölvupóst til fortíðarinnar. Þá hefði ég til dæmis getað sent mér tölvupóst og sagt mér að skipta peningum mínum í Evrur rétt fyrir gengisfellinguna um daginn, og þá væri ég bara í fínum málum í dag.
Svo hefur maður líka gert ýmis mistök um ævina, og þá væri gott að geta sent sjálfum sér verkefni til að koma í veg fyrir hin og þessi mistökin þar sem að maður var því miður ekki vitur fyrr en eftirá. Hugsið ykkur bara möguleikana.
FYNDIÐ GABB
En besta aprílgabb dagsins fannst mér þessi auglýsing frá ELKO. Útskýringar óþarfar.
Varstu gabbaður í dag? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hver er munurinn á vel heppnuðu og misheppnuðu aprílgabbi?
1.4.2008 | 08:17
Í gærkvöldi, rétt eftir miðnætti, fékk ég skilaboð frá fyrrum nemanda mínum um að annar fyrrum nemandi hafi orðið fyrir bíl og óvíst væri um líf hans. Ég spurði hvort hann væri að grínast, enda kannast ég við (mis)skilning hans á húmor. Hann svaraði játandi, að ég hefði hlaupið 1. apríl vegna þess að ég spurði.
Ég sagði honum að mér þætti þetta ekki fyndið. Hann sagði að víst væri þetta fyndið. Dýpra fórum við ekki.
Nú spyr ég þig, lesandi góður, var það sem ungi maðurinn gerði gott aprílgabb?
Dæmi um gott aprílgabb:
Árið 1957 var tilkynnt á hinum virðulega miðli BBC að vegna hagstæðs veðurfars liðinn vetur og útrýmingu á spaghettí-arfa, væri Spaghettí uppspretta í Sviss einstaklega góð. Sýnt var myndband þar sem svissneskir bændur týndu spaghettí af trjám. Margir áhorfendur hringdu til BBC og vildu fá að fræðast meira um hvernig þeir gætu ræktað eigin spaghettí tré. BBC svaraði þessum spurningum með þeim hætti að best væri að setja nokkur spaghettístrá í dollu með tómatsósu og vona það besta. Myndbandið fyrir neðan sýnir gabbið:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)