Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Undrabarnið og snillingurinn Patrekur Maron Magnússon Íslandsmeistari sigrar alla


Hann er nýfermdur og hefur sigrað á sterkum skákmótum víða um heim: orðið heimsmeistari í Tékklandi, Namibíumeistari 20 ára og yngri, Íslandsmeistari, Kópavogsmeistari, sigraði undir 1700 flokki Boðsmóts Taflfélags Reykjavíkur með fullu húsi og hefur oft verið Salaskólameistari. Í dag varð hann Íslandsmeistari í eldri flokki á landsmótinu í skólaskák og lagði alla sína andstæðinga, þrautþjálfaða skákmenn af öllum landshornum.


Patrekur Maron er frekar rólegur unglingur með óvenju lítinn áhuga á athygli fjölmiðla, góður drengur og óeigingjarn, ansi stríðinn - sérstaklega í návígi við banhungruð ljón og stygga fíla. Hann styður vel við bakið á félögum sínum og á það til að hugsa fyrst um hag annarra og síðan um sjálfan sig. Með virki sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun sýndi hann mikla leiðtogahæfileika fyrir hæfileika sína í Tékklandi þegar hann leiddi sveitina til sigurs og þjappaði hópnum saman þegar þjálfarinn reyndist hópnum heldur grimmur, þó að hann hafi teflt á öðru borði. 


Ég vil óska Patreki innilega til hamingju með verðskuldaðan Íslandsmeistaratitil og vona að íslenska skáksamfélagið verði virkt í að styrkja þennan stórefnilega ungling til frekari afreka á skáksviðinu.

Áfram Patti! 


Er hrollvekjumeistarinn Guillermo del Toro rétti leikstjórinn fyrir Hobbitann?

deltorohobbit

Hobbitinn er eitt af mínum eftirlætis ævintýrum, en J.R.R. Tolkien skrifaði hana til að skemmta þremur ungum sonum sínum. Hún gerist um 50 árum áður en The Lord of the Rings hefst, en Tolkien skrifaði þá bók fyrir syni sína á meðan þeir börðust í seinni heimstyrjöldinni gegn nasistum.

Morgun einn fær Bilbo Baggins óvænta heimsókn frá 12 ókunnugum dvergum og töframanninum Gandálfi. Þar sem að Bilbo er með kurteisari hobbitum og lifir eins rólegu og venjubundnu lífi og hugsast getur, býður hann þeim öllum inn á heimili sitt í te.

Í ljós kemur að hópurinn ætlar í fjársjóðsleit og þá vantar þann fjórtánda í hópinn, því að þrettán er óhappatala. Þeir vilja ráða Bilbo sem þjóf í langt ferðalag, þar sem þeir þurfa að fara í gegnum myrkan skóg með tröllum, risakóngulóm og yfir fjöll sem stjórnað er af orkum og vörgum. Bilbo ákveður að slá til, þrátt fyrir að heilbrigð skynsemi segi honum að halda sig heima. Hann átti nefnilega frænda sem hafði verið ævintýragjarn, og alltaf hafði blundað í honum þrá eftir ævintýrum svo að hann hefði sögur að segja frá í ellinni.

Bilbo og félagar lenda í hverri lífshættunni á eftir annarri, og Bilbo finnur meðal annars forláta hring í dimmum helli þar sem Gollum sjálfur ræður ríkjum. En ferðin heldur áfram að þorpi nokkru þar sem þorpsbúar lifa í stöðugum ótta við drekann Smaug, sem liggur á miklum fjársjóði inni í nærliggjandi fjalli. Smaug er hins vegar með ólíkindum lævís og klókur, sem kemur í ljós þegar Bilbo á við hann samtal upp á líf og dauða.

Fyrir nokkrum árum, þegar tilkynnt var að Peter Jackson kæmi til með að leikstýra The Lord of the Rings var ég sannfærður um að hann væri rétti maðurinn í starfið. Ég hafði haft áhuga á verkum hans í mörg ár, alveg frá því ég sá viðbjóðslegu splatter myndirnar Bad Taste (1987) og Braindead (1992) sem hann gerði við upphaf ferilsins. Það sérstaka við þær myndir var hversu vel honum tókst að blanda saman hryllingi og húmor, auk þess hvað tæknibrellurnar voru trúverðugar þrátt fyrir takmarkaða tækni.

Síðan sló Jackson í gegn með Heavenly Creatues (1994), mynd um vinkonur sem myrða móður annarar þeirra. Mér líkaði ekkert sérstaklega vel við þá mynd, en hún stendur samt eftir í minningunni. Næst gerði hann svo Forgotten Silver (1995), snilldar heimildarmynd í laufléttum dúr. Síðan kom hann með draugamyndina The Frighteners (1996) sem mér fannst hreint frábær, en hún blandaði saman hryllingi og spaugi, rétt eins og í Bad Taste, nema að tæknibrellurnar voru margfalt betri og myndin mun smekklegri en það sem hann geði í sínum fyrstu skrefum.

Ég hafði séð allar þessar myndir fyrir utan Forgotten Silver og hafði lesið The Lord of the Rings þrisvar sinnum og var sannfærður um að þetta myndi smella saman, og skrifaði um það grein á writtenbyme.com, þar sem sumir voru mér sammála en aðrir ekki. Við vitum núna hver hafði rétt fyrir sér þar. 

Þegar mér verður hugsað til þess að Guillermo del Toro ætli að leikstýra hobbitanum vakna svipaðar kenndir. Reyndar hef ég ekki séð allar hans myndir, en sú fyrsta sem ég sá var Mimic (1997), sem mér þótti frekar slök hrollvekja um kakkalakkafaraldur í stórborg. Hann fylgdi henni eftir með afbragðs myndinni El Espinazo del Diablo, draugasaga sem gerist á munaðarleysingjahæli undir lok síðari heimstyrjaldarinnar á Spáni. Tímabil og staðsetning sem hann átti eftir að nota aftur í El Laberinto del fauno (2006), jafn góðri mynd en miklu vinsælli.

Á milli þessara tveggja snilldarverka leikstýrði hann Blade II (2002), ágætri hasarkvikmynd um vampíru sem segir öðrum vampírum stríð á hendur og Hellboy (2004) um kaþólska ofurhetju sem kemur úr iðrum helvítis til að berjast gegn yfirnáttúrulegum og illum öflum til verndar mannkyninu. Sú mynd var ágæt, og tæknibrellurnar voru sérstaklega góðar. Það er stutt í að framhaldsmyndin Hellboy II: The Golden Army (2008) verði frumsýnd, en mér líst mjög vel á sýnishorn hennar.

Reyndar er del Toro með mörg járn í eldinum sem leikstjóri og nokkuð ljóst að hann verður að velja og hafna, því að hann hefur tilkynnt að hann sé með fimm kvikmyndir í bígerð: The Hobbit (2010) og The Hobbit 2 (2011), auk 3993 (2009) þar sem hann heimsækir aftur kunnuglegar slóðir, en um draugasögu í spænsku borgarastyrjöldinni árið 1939 er að ræða, sem endurspeglast í atburðum sem gerast árið 1993, sem útskýrir heiti myndarinnar. 

Hann er með fleiri spennandi verkefni í gangi, en hann ætlar að leikstýra At the Mountains of Madness (2010) sem gerð er upp úr sögu hryllingsmeistarans H.P. Lovecraft, og loks ætlar hann að leikstýra ofurhetjumyndinni Doctor Strange (2010) sem fjallar um sjálfselskan skurðlækni sem missir hendurnar í bílslysi, en uppgötvar að hann hefur tengingu við heim handan þessa heims sem gerir honum fært að galdra í baráttu sinni við ill öfl. Ljóst er að del Toro þarf að forgangsraða vel öllum þessum gífurlega spennandi verkefnum sem bíða hans. Ljóst er að maður kemst ekki hjá því að fylgjast náið með þessum manni næstu árin.

Svar mitt við spurningunni í titli greinarinnar er að mínu mati ótvírætt já, enda er The Hobbit afar myndræn saga með miklum hasar og skrímslum, launráðum og dáðum, og þar að auki magnaðan lokabardaga milli fimm ólíkra herja, þar sem sumar hetjur falla, en þær sem eftir lifa verða goðsögur í þeirra heimi.

Sýnishorn úr nokkrum myndum eftir Guillermo del Toro.  Athugið að megnið af hans myndum eru hrollvekjur og fantasíur, þannig að sumum gæti misboðið sýnishornin.

 

Cronos (1993)

 

Mimic (1997) (Fann þetta bara döbbað á spænsku)

 

El Espinazo del Diablo (2001)

 

Blade II (2002)

 

Hellboy (2004)

 

El Laberinto del Fauno (2006)

 

 

Hellboy 2: The Golden Army (2008)

 

Ég skrifaði aðra grein um sama mál 28.1.2008 undir heitinu:  Guillermo Del Toro leikstýrir The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien

 

Mynd af Smaug eftir Alberto Gordillo: GFX Artist


mbl.is Toro leikstýrir Hobbitanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur verið að vörubílstjórar noti trukka en ríkið löggur á meðan hinn sanni sökudólgur glottir í kampinn?

Undanfarið hafa atvinnubílstjórar verið sífellt háværari á götum borgarinnar. Þeir þeyta bílflautur, hægja á umferð og jafnvel loka fyrir henni. Lögreglunni er skylt að halda uppi lögum og reglu, og þar á meðal í umferðinni. Lögreglumenn hafa þurft að grípa til örþrifaráða gegn atvinnubílstjórunum, sem skiljanlega átta sig ekki fullkomlega á hvers vegna ríkið er svona vont við þá. Ríkið virðist ekki heldur skilja af hverju bílstjórarnir eru svona vondir.

Mig grunar að lausnin í þessu máli felist því miður ekki í hugrökkum mótmælum atvinnubílstjóra, þar sem að mig grunar að þeir séu að mótmæla einhverjum sem er ekki ríkið. Reynum að setja þetta í samhengi.

Fyrir páska áttu sér stað óeðlilegar hræringar á bankamarkaði sem virðast fara að mestu órannsakaðar, þrátt fyrir að Seðlabankastjóri hafi einn daginn fullyrt að innlendir aðilar væru sekir að þessu og síðan næsta dag að sökudólgarnir væru erlendir aðilar. Rannsóknir komast ekki á flug og þá helst vegna þess að hvítflibbadeild ríkissaksóknara hefur hvorki nógu mikil mannaforráð né fjárráð til að ráða við ofurglæpi á fjármálamarkaði.

Afleiðingin var hörð gengisfelling - sem urðu til þess að erlend lán hækkuðu mikið, hækkun stýrivaxta - sem orsakar hærri verðbólgu og þar með mikla hækkun á húsnæðislánum og síðan almennar verðhækkanir - meðal annars óvenju háar hækkanir á bensíni og díselolíu. Allt þetta lendir verst á þeim sem eiga minnst og skulda mest. Það er ekki ólíklegt að margir atvinnubílstjórar séu í þessum hópi.

 burning-man-trucks

Ég get ímyndað mér að þessar hækkanir hafa sérstaklega mikil áhrif á atvinnubílstjóra sem geta aðeins samið um sín laun á ákveðnum fresti, og ef það er rétt sem ég hef lesið, að aukinn rekstrarkostnaður þýðir lægri laun fyrir bílstjórana, þá skil ég heift þeirra vel.

Ríkisstjórnin hefur ekki beinlínis valdið þessu ástandi, en virðist hafa staðið óvirk hjá og komið þeim skilaboðum til fólksins í landinu að ekki verði komið til móts við fólkið í landinu, nema eftir vel úthugsaðar áætlanir og pælingar fræðimanna, sem skila nefndaráliti sem menn eins og fjármálaráðherra sem þekktur er fyrir að fara ekki eftir nefndarálitum (að minnsta kosti í starfsráðningum), - en á meðan þessi óvirkni stendur sem hæst, er fólk að missa trú á ríkisstjórninni og það sakað um að hlusta ekki á fólkið og einblína á hagsmuni fárra en valdamikilla hópa. Sem er, tel ég, réttmæt gagnrýni.

passive_smoke

En þannig starfa flestar ríkisstjórnir og stjórnmálamenn. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Sekt ríkisins felst í því að standa þögult og óvirkt hjá og horfa upp á óréttlæti gerast án þess að skipta sér af. Við ætlumst til þess að ríkið gera eitthvað í málunum, en það eina sem mér sýnist ríkið geta gert í þessum málum er að hugtreysta og styðja við fólkið, - en ekki einu sinni það er gert. Greyið bílstjórarnir eru barðir til hlýðni í stað þess að lofað sé í það minnsta að taka á málunum eftir bestu getu.

Nú sýnist mér bílstjórar og ríkið vera í þráskák, þar sem báðir aðilar pirra hinn stöðugt meira. Atvinnubílstjórar pirra ríkið með aðgerðum sínum, en ríkið pirrar bílstjóra með aðgerðarleysi sínu.

Solomon%20truck

En hugsum aðeins um þetta. Stjórnvöld eru aðeins við völd tímabundið. Atvinnubílstjórar eru að berjast fyrir lifibrauði sínu og vilja hugsanlega vera atvinnubílstjórar alla ævi og lifa við mannsæmandi kjör. En bílstjórarnir átta sig ekki alveg á hlutverki ríkisins, sem er ekkert annað en skuggi af raunverulegum valdhöfum landsins.

Af hverju bílstjórarnir reyna ekki að komast að því hverjir hinir raunverulegu valdhafar eru, er skiljanlegt. Flestir mótmælendur um heim allan gera sams konar mistök, þeir rífast og kvarta gegn valdi sem er færanlegt og verður ekki lengur til eftir nokkur ár, í stað þess að ráðast að rót vandans, valdhöfunum sem ríkja sama hver stjórnar ríkisstjórninni og setur landslög.

Það er ljóst að ríkið er ekki lengur við völd í landinu. Einhver annar stýrir þjóðarhraðbátnum. Þetta er nokkuð sem gerst hefur víða um heim í mannkynssögunni, að fyrirtæki, einstaklingar og fjármálastofnanir og jafnvel glæpagengi, hafa náð völdum í landinu og troðið einstaklinga í svaðið með skeytingarleysi og fjárkúgunum sem enginn skilur. Þetta veldur óróleika í þjóðfélaginu.

Byltingar áttu sér stað víða um heim á 18. og 19. öld, gegn einmitt því að einræði næði fótfestu og lýðræðið hefði meiri völd en þeir sem gæta fyrst og fremst eiginhagsmuna. Það er hægt að rökstyðja það að slík óánægja og óréttlæti sé rótin að baki kommúnisma - þegar efnis- og einstaklingshyggjan er orðin svo öfgakennd að hún verður ekki stöðvuð án hallarbyltingar og margra áratuga fórna á mannslífum og mannréttindum. Maður þarf ekki að ferðast mikið um heiminn til að kynnast þessum málum af eigin raun.

Ég sting ekki upp á neinum aðgerðum. Ég er einfaldlega að velta þessum hlutum fyrir mér. Þetta er einfaldlega það sem ég sé. Sé þetta einhver tálsýn verð ég þakklátur þeim sem leiðrétta mig og sýna mér hvernig málin eru í raun og veru. Ég er samt ansi hræddur um að ég sé nálægt sannri sýn á málinu.

 

Að stoppa trukk: 


Hvernig bragðast Mexíkó?

Í dag fór ég út að borða á veitingastaðinn Santa María á Laugarvegi 22a. Þar sem ég bjó í Mexíkó í sjö ár þekki ég nokkuð vel til mexíkóskrar matargerðar og finn þegar bragðið er ekta.

Þetta upplifði ég í dag.

Það var ekki aðeins maturinn sem unninn er úr góðu mexíkósku hráefni, heldur einnig vinaleg og hlý þjónusta frá starfsfólki staðarins. Ég var ánægður með hvernig maturinn lék við bragðlauka mína og hvernig chili var notað á áhrifaríkan hátt til að krydda matinn.

Ég fékk mér rétt með mole-sósu, en það er súkkulaðisósa blönduð í chili krydd - algjört gómsæti. Undir sósunni eru svo kjúklingaræmur vafnar inn í tortillur. Að fá þetta með einum Corona Extra var ljúft.

Mér leið satt best að segja eins og ég væri inni á veitingastað í Mexíkó, og gleymdi um stund að ég væri á Laugarveginum, enda ómaði um staðinn góð latnesk tónlist með söngvurum eins og Luis Miguel og Shakira. Allir í mínu föruneyti voru jafn ánægðir.

Ég mæli með þessum veitingastað.

Ég tengist rekstri þessa veitingastaðar á engan hátt, þekki hvorki eigendur né starfsfólk, en vona að hann slái í gegn, því mig langar til að heimsækja hann sem oftast. 

México En La Piel (Mexíkó í skinninu):


Hvernig notarðu Fantastico til að skapa vefsíður?

Í bloggi mínu Veistu hvernig þú kaupir eigið lén og vefsvæði fyrir kr. 370 á mánuði útskýrði ég hvernig maður fer að því að fá sér hræódýrt lén, og þar að auki mikið og traust vefsvæði hjá LunarPages.

Nú ætla ég að setja upp vefsíðu með CPanel og Fantastico, frábærum tólum sem fylgja með áskriftinni.

Ég byrja á að slá inn vefslóðina sem ég hef keypt, í mínu tilfelli er það "http://thinking4thinking.com" og við vefslóðina bæti ég einfaldlega "/cpanel". Þannig lítur vefslóðin út:

Skráðu þig inn með notandanafni og lykilorði sem þér hefur verið úthlutað af LunarPages.  

Fyrsti glugginn sem birtist er stjórnborðið, en á því er mikill fjöldi möguleika. Til að fara inn á svæði sem inniheldur kerfi sem þú getur sett upp, veldu Fantastico sem þú finnur neðst til hægri.

CPanelControlPanel

Á þessari síðu geturðu búið til ýmsar gerðir vefsíðna með ólíkum vefkerfum. Þú getur smíðað með engum erfiðleikum:

  • Bloggsíður (eins margar og þig langar í)
  • Vefumsjónarkerfi til að halda utan um vefsíður
  • Beiðnakerfi (til að svara þörfum viðskiptavina)
  • Spjallborð (til að ræða öll möguleg mál)
  • Rafræn viðskipti (til að opna netverslun)
  • Spurt og svarað (kerfi til að svara spurningum á skipulegan hátt)
  • Myndagallerí (kerfi til að geyma myndir á netinu)
  • Póstlistar (kerfi þar sem notendur vefseturs geta skráð sig á tölvupóstlista)
  • Skoðanakannanir (kerfi sem gera þér fært að átta þig á skoðunum þeirra sem nota síðuna)
  • Verkefnisstjórnunarkerfi (kerfi sem hjálpa þér að halda utan um verkefni á vefnum)
  • Sniðmátskerfi (kerfi sem hjálpar þér að setja persónulegar upplýsingar á allar vefsíður sem þú heldur utan um.
  • Wikikerfi (kerfi sem hjálpar þér að safna saman upplýsingum á einum stað um ákveðna hluti, hvaða notandi getur breytt skjölum og síðan geturðu læst þeim sem að þú vilt halda óbreyttum.)
  • Önnur kerfi (meðal annarra kerfi eru kennslukerfið Moodle og uppboðskerfi)

Ég ætla að setja upp vef á næstu dögum og leiðbeiningar samhliða um hvernig svona kerfi eru sett upp þegar notandi er kominn með LunarPages kerfið í gang. 

 

Upplýsingatækni á vefnum

Kafli 1: Veistu hvernig þú kaupir eigið lén og vefsvæði fyrir kr. 370 á mánuði

Kafli 2: Hvernig notarðu Fantastico til að skapa vefsíður?

 

Mundu að smella á LunarPages og kaupa kerfið gegnum þennan tengil, en þannig fæ ég greiðslu fyrir þessar rafrænu kennslustundir. Þetta eru svokallaðar sigur-sigur aðstæður þar sem að allir græða. Svo er líka hörkugaman að grúska og pæla í þessu.


Fer hátt húsnæðisverð á Íslandi og ofurháir vextir í að borga ofurlaun og tugmilljóna starfslokasamninga?

Ég hef oft spurt mig hvert allur þessi peningur fer sem fólk borgar mánaðarlega af húsnæðislánum sínum. En munum að húsnæði er ekki lúxusvara. Miðað við kr. 100.000,- mánaðarlega greiðslu af húsnæðislánum, fer ekki nema um kr. 20.000,- í að borga af höfuðstól láns miðað við 40 ára lán, og um kr. 80.000,- í vexti.

Þessir vextir skapa gríðarlegar tekjur fyrir bankana sem eru fyrst og fremst gróðastofnanir, sem ættu þó að hafa mannskap innanborðs með sæmilega siðferðisdómgreind til að reyna í það minnsta að koma móti viðskiptavinum sínum, í stað þess að stöðugt pumpa úr þeim meiri peningum - og til þess eins að borga ofurlaun!

450px-burjdubai_oct07

Þegar við höfum þetta í huga og þá fullyrðingu frá fjármálaráðherra að ríkið muni styðja bankana ef þeir lenda í vandræðum, en svarar ekki hvað hann vill gera fyrir fólkið í landinu þar sem að þau mál eru í nefnd og fræðilegri vinnslu, þá er ljóst að skilaboðin eru skýr: stóru kerfin skipta mun meira máli en fólkið í landinu.


mbl.is „Hluti af ruglinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru agaleysi og kjaramál að ganga frá kennarastéttinni dauðri?

 _744670_stress300

Ef skóli getur ekki komið í veg fyrir ókurteisi í garð starfsfólks, truflun á vinnufriði eða aðra slæma hegðun nemenda þá held ég að sé næsta óhjákvæmilegt að kennarar missi við og við stjórn á skapi sínu og hagi sér fyrir vikið á einhvern þann veg sem grefur undan virðingu fyrir skólanum. Jafnvel bestu menn hafa sín þolmörk. Þannig vindur agaleysið upp á sig og þegar verst lætur verða heilu bekkirnir að einhvers konar vígvelli fremur en vinnustað þótt vonandi heyri til undantekninga að ástandið gangi alveg svo langt. (Atli Harðarson heimspekingur, 13. apríl 2008)

Fjölmargir kennarar hafa snúið sér að öðrum störfum, undirritaður meðtalinn, þrátt fyrir margra ára og rándýra kennaramenntun. Atli Harðarson heimspekingur skrifaði greinar á bloggi sínu um brotthvarf kennara úr skólastarfi, og taldi að hluti af skýringunni væru launin (sem voru meginástæða þess að ég hætti) og einnig að mikill skortur væri á ráðstöfunum gegn agavandamálum.

Ég hef sjálfur upplifað kennslu þar sem nemendur sýndu engan aga, reyndar hef ég ekki upplifað það á Íslandi, en veit að slíkt starf er hreint helvíti á jörð. Ef staðan er orðin þannig að kennarar fá ekki lengur vinnufrið með nemendum sínum í skólastofum, þá er skiljanlegt að brottfallið verði mikið, og langtímaskaðinn því meiri fyrir samfélagið. Það verður ekki gott fyrir neinn.

 msn_messenger_logo

Spjallið sem fer hér á eftir er innblásið af þessari frétt, en hún birtist í fréttatíma Stöðvar 2, þriðjudaginn 15. apríl.Tveir góðir vinir, sama og Ekki sama - sem endurspeglar reyndar engan veginn þeirra viðhorf til lífsins, hittast á MSN og spjalla saman um daginn og veginn. Talið berst að agamálum:

 

Ekki sama segir:

Ég er fyrst að kíkja á fréttir dagsins núna... ekkert spennandi að gerast? Engin dulbúin bankarán?

sama segir:

Ég hef ekki haft tima að kíkja á þær. Búið að vera viðbjóðslega mikið að gera. Er með námskeið í gangi fyrir unglinga.

sama segir:

Úff það er erfitt.

Ekki sama segir:

Sömuleiðis hjá mér. Blogga bara til að hvíla hugann.

sama segir:

Ég hef ekki orku í það. Er bara algjörlega dauð.

Ekki sama segir:

Nú? Vantar innblástur?

sama segir:

Nei ég er bara svo þreytt... að ég nenni ekki að hugsa. Fæ fullt af hugmyndum. Eina t.d. um kennara.

Ekki sama segir:

Kennara almennt?

sama segir:

Sá frétt í kvöld um að kennarar væru að hrekjast á brott vegna agaleysis.

Ekki sama segir:

Ok, sem er örugglega satt.

sama segir:

Ég fór og skoðaði kennsluskrá KHI. Þar sá ég ekkert námskeið um agastjórnun né neinu því líkt. Ætlaði að blogga um það og spyrja spurninga.

Ekki sama segir:

Ég var einmitt með nemendur á námskeiði og gaf þeim einkunnir. Þeir fengu allir 10 fyrir hæfni, en aðeins einn fékk 10 fyrir hegðun, allir hinir féllu. Ég stúderaði sérstaklega agastjórnun þegar ég lærði til kennara erlendis. Það var hluti af kennaranáminu úti. Aginn snérist það um að stjórna með harðri hendi en blíðu viðmóti.

sama segir:

Ekki sama segir:

Veit ekki hvernig kennarar eru þjálfaðir í þetta á Íslandi. Virðist ekki vera neitt um það.

sama segir:

Ég er meira á hinni línunni - eins og þú lýsir þessu.

Ekki sama segir:

Ég held það fari eftir skólakerfi.

sama segir:

Skiptir engu hvað þú kannt í kennslufræði og allt það... ef krakkanir eru upp um alla veggi þá skiptir kennslufræði kannski litlu.

Ekki sama segir:

Í opnu valkerfi er samvinnuaðferðin betri samkvæmt minni reynslu en harða höndin betri í bekkjarkennslu, því þar myndast oft erfiðustu hóparnir.

sama segir:

Já ég er að hugsa um bekkjarkerfi.

Ekki sama segir:

Ég var að heyra frá nemendum að þeir bera litla virðingu fyrir kennurum í dag.

sama segir:

Held að KHI þurfi að taka sér taki þarna.

Ekki sama segir:

Ég spurði þá um ástæður.

sama segir:

Eða mér sýnist það eftir 5 mín rannsoknarvinnu og orðróm.

Ekki sama segir:

Krakkarnir sögðu að kennararnir höguðu sér ekkert betur en krakkarnir.

sama segir:

Já.

Ekki sama segir:

Mér fannst það svolítið merkilegt.

sama segir:

Það er bara þannig ef þú ferð ekki eftir þeim reglum sem þú setur undantekningalaust þá hætta krakkanir að bera virðingu fyrir þér.

sama segir:

Ekki sama segir:

Aginn kemur ekki bara frá kennurum. Hann er fyrst og fremst ræktaður heima fyrir.

sama segir:

Já já það er svo sem rétt. En þú getur haldið aga inn í bekk engu að síður. Man bara þegar ég var í skóla, þá voru allir út um allt hjá einum kennara

en allir sátu flottir hjá öðrum.

Ekki sama segir:

Já, en það er oft einfaldlega vegna þess að sumir kennarar eru "inn" á meðan aðrir eru "púkó".

sama segir:

já... ekki bara.

Ekki sama segir:

Það hafa ekkert allir kennarar persónuleika til að kenna. Og þeir sem hafa persónuleika til þess að kenna fara varla að kenna í skólum eins og staðan er í dag.

sama segir:

Ég man eftir tveimur sem voru með aga. Gamlir karlar... kunna að kenna en maður þorði ekki fyrir sitt litla líf að vera að gera annað en læra í tíma hjá þeim. Svo var einn sem varð einu sinni svo reiður út í stelpu sem sat fyrir aftan mig að hann dúndraði krítinni í hana en vildi ekki betur til en hún fór í hausinn á mér.

Ekki sama segir:

Úff

sama segir:

Mér fannst það reyndar ekkert mál. Bara skemmtileg saga til að segja í frímó.

 

 

 

Að lokum, ágætis kennslustund í hvernig gott er að taka á agamálum í skólastofu: 

 


Er hægt að hugsa með fingrunum?

Lesendur mínir á blogginu trúa mér kannski ekki, en ég er frekar fámáll einstaklingur sem geri meira af því að hlusta en að tala. Það geta allir sem mig þekkja staðfest. Hins vegar þegar ég sest niður við lyklaborð og skrifa greinar fljóta orðin út eins og opnað hafi verið fyrir flóðgáttir. Mér hefur alltaf liðið vel þegar ég skrifa, og sífellt betur eftir því sem ég læri að skrifa betri texta. Einnig geri ég mér skýra grein fyrir hvað ég á gríðarlega mikið ólært.

Frá unga aldri hef ég skrifað smásögur og ljóð, og hef ekki haft mikið fyrir því að reyna að fá skrifin birt, fyrir utan að þegar ég var um tvítugt sendi ég eina sögu í Tímarit Máls og Menningar, og fékk fyrst að heyra frá ritstjóra að hún yrði birt fljótlega, en fékk síðan símhringingu frá honum nokkrum dögum síðar þar sem hann tjáði mér að ritstjórnin hefði ekki verið sammála honum, að sagan væri eins og skrifuð eftir ungling.

96d68aabed05e8c

Eftir þessa höfnun hætti ég hins vegar ekki að skrifa. Ég sótti tíma í ritlist hjá Nirði P. Njarðvík samhliða öðru námi, lauk heilum 30 einingum í faginu og naut hverrar einustu stundar yfir eigin skrifum og annarra. Megnið af þessum skrifum er til einhvers staðar á diskum og í möppum, og fjöldinn allur sem fór beint ofan í skúffu og hefur ekki litið ljós í 15 ár. Spurning hvort að maður fari ekki að grafa þetta upp og birta eitthvað af skáldskapnum sem rennur fram af fingrunum öðru hverju?

Ég hef heyrt því fleygt að ef maður geti talað, þá geti maður skrifað. Það skrýtna er að ég sé ekki skýrt samband þarna á milli. Til að ég hugsi upphátt fyrir framan annað fólk þarf ég fyrst að hafa byggt upp traust, og reyndar hef ég upplifað sams konar hluti með skrif. Eftir flutninga á ég til dæmis erfitt með að skrifa. Það er ekki fyrr en ég er búinn að koma mér vel fyrir, og helst umkringdur bókum sem hægt er að grípa með að halla sér aðeins aftur og teygja sig upp í hillu, að mér finnst ég vera heima hjá mér og með góðum vinum.

Elements_Style

Ein bókanna sem ég gríp reglulega í er  "The Elements of Style" eftir Strunk og White. Mig langar til að birta örstutt heilræði úr þeirri bók fyrir unga rithöfunda. Ætli ég heyri ekki sjálfur til þeirra þar sem ég hef aldrei gefið neitt út nema fáeinar smásögur og ljóð, og aldrei skrifað greinar í blöð eða tímarit, þó að ég hafi tekið þátt í þremur smásögusamkeppnum um ævina og birt eitt ljóð í Lesbókinni.

Eitt heilræði úr þeirri bók hljómar svona: 

"Ungir rithöfundar gera oft ráð fyrir því að  stíll sé krydd á kjöt texta, sósa sem gerir bragðdaufan rétt að bragðgóðum. Stíll hefur ekki slíka aðskilda eiginleika; hann er óaftengjanlegur, óspilltur. Byrjandinn ætti að nálgast stíl með varúð og gera sér grein fyrir að það er hann sjálfur sem hann er að nálgast, enginn annar; og hann ætti að byrja með því að snúa sér staðfastur frá öllum brellum sem hlotið hafa vinsældir sem stílbrigði - skrítin hegðun, trikk, skreytingar. Þú nálgast stíl með hreinleika, einfaldleika, skipulagi, einlægni." (Strunk og White, "Einkenni góðra stílbragða")


Íslenskt réttlæti: Erum við að borga alltof mikið í skatta og af lánum vegna bankarána og skattsvika sem við botnum ekkert í?

 1101950313_400

Bankarán virðast vera orðin að leið til farsældar á Íslandi. Bankaræningjar og skattsvikarar í dag vopnast ekki bareflum eða skotvopnum, heldur hátæknimiðlum sem venjuleg manneskja botnar ekkert í. Fáir einstaklingar geta hrært í íslenska bankakerfinu til þess að hagnast á hræringunum,. Þeir eru hvítflibbamenn, en ekki hvítflibbaglæpamenn, því ekki hefur komist upp um þá, né þeir sakfelldir enn, og ólíklegt að slíkt muni nokkurn tíma gerast.

Fullyrt hefur verið af Seðlabankastjóra og fleirum að slíkt hafi verið gert. Samt er ekkert gert í málinu, annað en að hækka stýrivexti, lækka krónuna, hækka verð á nauðsynjavörum og lækka íbúðarverð. Þetta eru allt breytingar sem koma meirihluta Íslendinga afar illa. Af hverju er ekkert gert í málinu?

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknara efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra frá síðasta sumri réð efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra ekki við að rannsaka sakamál hvítflibba og eltast við hvítflibba vegna skorts á fjármagni. Síðan þá hefur deildin misst tvo starfsmenn og fjármagn til deildarinnar hefur ekki verið aukið eins og þörf var á.

white_collar_crime

Athyglisvert er að á sama tíma hefur verið bætt við fjármagni í baráttu gegn almennum glæpum, glæpum sem fjölgar í öllum þeim samfélögum þar sem fólk upplifir samfélagslegt óréttlæti og mismunun.  

Þetta gefur fólki með hugmyndir um að sækja sér pening á ólöglegan hátt úr kerfinu aukin skotfæri. Það veit að enginn mun rannsaka málið og að það mun komast upp með nánast hvað sem er, það þarf aðeins að hylja slóðina lítillega og þá er þetta komið.

Hver borgar á endanum fyrir þessi brot, sem geta snúist um að hræra í gjaldeyrismarkaðnum til að maka eigin krók eða svíkja undan skatti? Jú, það er hinn almenni borgari sem er sekur um það eitt að standa við skuldbindingar sínar og borga sína skatta og lán. Málið er að eftir því sem ránsféð er hærra, og eftir því sem þessi rán aukast, því meira þarf borgarinn að borga.

Svo ég leyfi mér að semja eina samsæriskenningu sem ég hef ekki hugmynd um hvort að nokkuð sé til í: Er mögulegt að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sé ekki að fá aukin fjárráð vegna spillinga og mútumála, sem eru mál sem viðkomandi deild heldur utan um?

 

Bankarán eins og þau gerast ekki í dag:


mbl.is Færri rannsaka hvítflibbana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hefur aldrei rangt fyrir sér?

Uppáhalds heimspekilegu augnablikin mín eru ekki leiftrin þegar manni finnst eitt augnablik að maður skilji allt í einu allan heiminn, reynir að skrá niður hvernig hann er og svo hverfur þessi sterka sýn eins og draumur, - heldur eru það augnablikin þegar ég er að skoða hugtök og uppgötva allt í einu að ég veit hvorki upp né niður, að viðfangsefnið er margbrotnara en ég hafði áður gert mér í hugarlund - að heimurinn er þannig stærri og meiri en ég hafði áður áttað mig á.

Oft hef ég á tilfinningunni að ég viti gífurlega mikið um heiminn sem við lifum í, og gerist jafnvel svo djarfur að telja mig vita svarið við tilgangi lífsins. En það eru bara stutt augnablik sem ég veit innst inni að eru tálsýnir, því ég skil það eitt að þegar maður telur sig vera búinn að festa hönd á hvernig hlutirnir eru, þá er sú festing manns eigið sköpunarverk, og þar af leiðandi ófullkomið eins og ég, eins og allar manneskjur. 

Sumir opna aldrei lófann til að sjá hvernig veruleikinn hefur bráðnað undan gripinu, og þrjóskast við til dauðadags, því að það að sjá mynd af veruleikanum einu sinni í föstu formi, það getur verið nóg fyrir suma. Það dugar hins vegar ekki lengi fyrir þetta fólk sem þarf alltaf að spyrja af hverju þetta og hvers vegna hitt. Það vill bara þannig til, og ég hef ekki hugmynd um hvorki af hverju né hvers vegna, að ég er síðarnefnda manngerðin.

Einn af mínum eftirlætis heimspekingum og sálufélögum er Charles Sanders Peirce. Undirstöðuhugtak heimspeki hans er sú trú að það eina sem er áreiðanlegt þegar um þekkingu er að ræða, sama af hvaða toga hún er, hvort sem hún er vísindaleg, guðfræðileg, byggð á reynslu eða hugsunum, þá er aðeins eitt sem tengir þær allar saman. Og það er að okkur getur skjátlast.  Eða til að vera nákvæmari: okkur hlýtur að skjátlast.

Reyndar hélt Peirce því fram að því öruggari sem við værum um að við vissum sannleikann um eitthvað ákveðið fyrirbæri, einmitt þá skjátlaðist okkur mest, og það er einmitt af þessum sökum sem mikilvægt er að halda leitinni áfram - öll stöðnum og föst trú bindur lífið við hugmyndir skapaðar af mönnum, en vitundin um óvissuna frelsar okkur undan fjötrum eigin trúar. Ég er ekki að tala gegn trúarbrögðum eða vísindum, því að trúað fólk getur vissulega verið leitandi rétt eins og vísindamenn. Það eru hins vegar þeir sem eru hættir að leita sem eru villtir.

Peirce gagnrýndi af mikilli hörku heimspekinga sem dældu heimspekilegum fróðleik í nemendur sína, þar sem að þeir væru búnir að finna réttu svörin, og létu eins og þeim gæti ekki skjátlast um nokkurn skapaðan hlut. Málið er að sama hversu flott kenningarkerfi heimspekingar skapa, það finnst alltaf einhver glufa í þeim, alltaf eitthvað sem passar ekki alveg saman við veruleikann, eða er í mótsögn við sjálft sig eða heilbrigða skynsemi.

Heimspekin, erum við Peirce sammála um, er einmitt eilíf leit að þekkingu og visku, ekki útdeiling. Heimspekingur sem segir öðrum hvernig heimurinn er með fullri vissu og endanleika, er sölumaður gallaðrar vöru.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband